25.7.2012 | 20:48
Framar björtustu vonum?
Öðru útboði Orkustofnunar um sérleyfi til rannsókna og olíuvinnslu á Drekasvæðinu á íslenska landgrunninu lauk nú í vor. Það skýrist svo væntanlega fljótlega hvort einhver eða einhverjir af umsækjendunum fái slíkt sérleyfi.
Fyrsta sérleyfisútboðið á Drekasvæðinu skilaði ekki árangri. Það fór fram vorið 2009, en þá bárust einungis umsóknir frá tveimur fremur litlum norskum fyrirtækjum. Bæði drógu þau umsóknir sínar um sérleyfi til baka og því þurfti Orkustofnun aldrei að taka afstöðu til umsóknanna. Núna 2012 var áhuginn aðeins meiri. Þrjár umsóknir bárust eftir annað útboðið. Þar að baki standa tvö erlend félög og þrjú íslenskt félög.
Orkustofnun virðist mjög sátt við umsóknirnar. Í fjölmiðlum var haft eftir Guðna Jóhannessyni, forstjóra Orkustofnunar, að útkoman hefði verið mjög góð og framar björtustu vonum. Þarna vísar Guðni til eftirfarandi umsókna:
1) Eykon Energy.
Fyrstur umsækjandanna (í stafrófsröð) er óskráð félag, sem skv. fréttatilkynningu Orkustofnunar nefnist Eykon. Í fréttum hefur félagið verið kallað Eykon Energy, en það virðist reyndar enn ekki hafa verið skráð hjá fyrirtækjaskrá.
Eykon Energy mun vera nefnt í höfuðið á þingmanninum Eyjólfi heitnum Konráð Jónssyni, sem var áhugasamur um að tryggja landgrunnsréttindi Íslands. Samkvæmt fréttum er Heiðar Már Guðjónsson í forsvari fyrir félagið, en auk hans munu eigendur Eykon Energy vera þeir Gunnlaugur Jónsson (frkv.stjóri hjá Lindum Resources), Jón Einar Eyjólfsson (sonur Eyjólfs Konráðs), Ragnar Þórisson (einn stofnenda Boreas Capital) og Norðmaðurinn Terje Hagevang.
Umræddur Terje Hagevang var einmitt framkvæmdastjóri Sagex, sem sótti um rannsókna- og vinnsluleyfi í fyrsta útboði vegna Drekasvæðisins árið 2009. Sú umsókn var, eins og áður sagði, dregin til baka áður en til þess kæmi að Orkustofnun tæki formlega afstöðu til umsóknarinnar. Síðar var Sagex keypt af breska félaginu Valiant Petroleum og Terje Hagevang varð starfsmaður Valiant.
Í fréttum íslenskra fjölmiðla af útboðinu hefur ítrekað verið sagt að Hagevang sé nú forstjóri Valiant, en svo er alls ekki. Hið rétta mun vera að Hagevang sé yfirmaður Noregsskrifstofu Valiant. En Hagevang er sem sagt í samstarfi með nokkrum Íslendingum, sem kenna sig við Eykon og óska eftir sérleyfi til rannsókna- og vinnslu á Drekasvæðinu.
2) Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum.
Terje Hagevang gerir það ekki endasleppt. Auk þess að vera með í áðurnefndri umsókn Eykon Energy mun hann einnig vera aðili að annarri umsókn um rannsókna- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu. Því Hagevang er sagður vera hluthafi í íslensku félagi sem nefnist Kolvetni ehf. Það félag er umsækjandi um sérleyfi í samfloti við breska félagið Valiant Petroleum. Þarna er Hagevang því hluthafi í íslensku félagi sem sækir um sérleyfi og vinnuveitandi hans er meðumsækjandi.
Samkvæmt fréttum fjölmiðla eru hluthafar í Kolvetni ehf., auk Hagevang, þeir Jón Helgi Guðmundsson (oftast kenndur við BYKO) og áðurnefndur Gunnlaugur Jónsson, sem einnig er sagður vera hluthafi í Eykon Energy. Fjórði hluthafinn í Kolvetni ehf. er svo verkfræðifyrirtækið Mannvit.
Þeir Jón Helgi og Gunnlaugur hafa unnið saman í íslenska fjárfestingafélaginu Lindir Resources, sem var á tímabili stærsti hluthafinn í norska Sagex, hvar Hagevang var einmitt framkvæmdastjóri. Þegar svo Sagex rann inn í Valiant Petroleum hafa Lindir væntanlega orðið hluthafi þar. Þessi umsóknarhópur er því tengdur innbyrðis með ýmsum hætti, ef svo má að orði komast. Valiant Petroleum er skráð á hlutabréfamarkaðnum í London (AIM Index).
3) Íslenskt kolvetni ehf. og Faroe Petroleum.
Þá er það þriðja umsóknin. Að henni standa breska félagið Faroe Petroleum og íslenska félagið Íslenskt kolvetni ehf. Faroe Petroleum var upphaflega stofnað vegna olíuleitar á færeyska landgrunninu, en hefur upp á síðkastið meira einbeitt sér að landgrunni Bretlands. Enda hefur færeyska olíævintýrið látið á sér standa.
Rétt eins og Valiant þá er Faroe Petroleum skráð á hlutabréfamarkaði í London (AIM). Stærsti hluthafinn í Faroe Petroleum er breska Dana Petroleum, sem er í eigu suður-kóreaska olíufélagsins Korea National Oil Corporation. Kóreumenn eru sem sagt með talsverð olíumsvif í Norðursjó og víðar. Kóreska félagið er þó ekki beinn aðili að umræddri umsókn Faroe Petroleum og Íslensks kolvetnis ehf. um sérleyfi á Drekasvæðinu.
Að Íslensku kolvetni ehf. standa þrjú íslensk fyrirtæki. Þau eru verkfræðistofan Verkís, Olís (Olíuverslun Íslands) og fjárfestingafélag sem nefnist Dreki Holding. Fyrirtækin Verkís og Olís eru auðvitað vel kunn öllum lesendum Orkubloggsins. En bloggarinn hefur því miður ekki upplýsingar um hverjir standa að Dreki Holding; skv. fréttum eru það einhverjir Íslendingar en t.d. ekki nein félög úr olíubransanum.
Ekkert af stóru félögunum sótti um Drekann
Velta má fyrir sér hvort þetta séu sterkir umsækjendur. Kannski jafnvel svo sterkir að þeir séu framar björtustu vonum eins og forstjóri Orkustofnunar orðaði það? Um það eru sjálfsagt deildar meiningar.
Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða hvaða félög hafa fyrst og fremst verið að fá leyfi í útboðum á færeyska og grænlenska landgrunninu og á öðrum nýjum olíuleitarsvæðum í nágrenni Íslands. Þarna eru risafélögin áberandi; olíufélög eins og bandarísku Chevron, ConocoPhillips, og ExxonMobil, frönsku GDF Suez og Total, ítalska Eni, bresk-hollenska Shell og síðast en ekki síst norska Statoil. En ekkert þessara félaga sótti um Drekasvæðið.
Ekki sóttust heldur dönsku nágrannar okkur hjá Mærsk Oil eða Dong Energi eftir að komast á Drekann. Og heldur ekki ýmis þaulreynd félög sem kalla má áhættusækin, eins og t.d. Cairn Energy, Lundin Petroleum, Noble Energy eða Talisman.
Flest ofangreind félög eru með umtalsverða reynslu frá olíusvæðum í nágrenni Íslands. Af einhverjum ástæðum hefur fimm ára undirbúningur olíuteymis Orkustofnunar ekki ennþá náð að vekja áhuga eins einasta af þessum félögum á Drekasvæðinu. Reyndar bjuggust einhverjir við umsókn frá Statoil nú í öðru útboðinu. En þegar til kom skilaði hún sér því miður ekki.
Hversu áhættusamt er Drekasvæðið?
Athyglisvert er að minnast þess að ítrekað hefur verið haft eftir áðurnefndum Terje Hagevang að íslenska Drekasvæðið kunni að hafa að geyma heila 10 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Það er því kannski ekki skrýtið að Hagevang sé hluthafi í tveimur félögum sem eru meðal umsækjenda um þessi þrjú sérleyfi sem nú er sótt um á Drekasvæðinu.
En þó svo Drekinn kunni að hafa olíu og gas í iðrum sínum og það jafnvel í miklu magni, þá gæti allt eins verið að ekki sé þarna deigan dropa að finna. Vert er að hafa í huga að Drekasvæðið er fremur lítið þekkt svæði og nokkuð fjarri öllum innviðum olíuleitar. Þarna er nákvæmlega engin reynsla af olíuborunum eða -vinnslu. Og basaltið á svæðinu mun sennilega gera leitina þar mun erfiðari og dýrari en t.d. gerist í lögsögu Noregs og Grænlands.
Þarna er hafdýpið líka ansið mikið, t.d. miklu meira en í Norðursjó. Og þó svo aldur jarðlaganna gefi möguleika á olíu er í reynd alger óvissa um hvort þarna sé eitthvað að hafa. Hver sá sem hyggst leggja fjármuni í olíuleit á Drekasvæðinu getur leyft sér að vonast eftir verulegum ávinningi, en verður líka að gera ráð fyrir að allt féð sem fer í olíuleitina tapist.
Fjárfesting í alvöru olíuleit á Drekasvæðinu er sem sagt afar áhættusöm. Þess vegna er líklegt að fjármögnun fyrirtækja vegna olíuleitar og tilraunaborana á Drekasvæðinu þurfi nær alfarið að koma sem eigið fé. M.ö.o. þurfa sérleyfishafarnir væntanlega ekki aðeins að ráða við verkefnið tæknilega séð heldur líka vera afar fjársterkir.
Er líklegt að ofangreindir umsækjendur fái sérleyfi?
Eftir á að koma í ljós hvort einhver eða einhverjir umsækjandanna þriggja fái sérleyfi hjá Orkustofnun til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Það ræðst af því hvort stofnunin telji umsækjendurna uppfylla þau lagaskilyrði sem gilda um slík sérleyfi.
Miðað við þau ummæli forstjóra Orkustofnunar að umsóknirnar núna séu framar björtustu vonum, virðist reyndar nánast öruggt að a.m.k. ein eða jafnvel fleiri af þessum umsóknum hljóti að leiða til sérleyfis. Slík yfirlýsing stjórnsýsluhafa á þessum tímapunkti, þ.e. áður en stofnunin var búin að yfirfara umsóknirnar af kostgæfni, er svolítið óvænt og kannski á mörkum þess að vera viðeigandi. En það er önnur saga.
Rannsókna- og vinnsluleyfi felur það vel að merkja í sér að leyfishafi hefur einkarétt til rannsókna og vinnslu kolvetna á viðkomandi svæði. Slíkum leyfum fylgja sem sagt umtalsverð réttindi. Að fá sérleyfi til rannsókna og vinnslu getur því augljóslega verið afar eftirsóknarvert og í því geta falist umtalsverð verðmæti.
Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar spáð í það hvort líklegt sé að Orkustofnun muni veita umsækjendunum sérleyfi. Verður þá athyglinni m.a. beint að því hversu tæknilega og fjárhagslega sterkir umsækjendurnir eru og hvaða skilyrði megi búast við að Orkustofnun setji þeim leyfishöfum sem hljóta sérleyfi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Afar fróðlegar pælingar og trúverðugar hjá þér, Ketlill. Ekki virðist blaðasnápum Íslands detta í hug að kafa í málið, heldur éta upp gagnrýnislaust sem að þeim er rétt.
"Framar björtustu vonum" er nóg fyrir þá. Fyrirsögnin selur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 01:21
Einhversstaðar sá ég skrif um að ekki þyrfti að fara útá ballarhaf eftir þessari olíu, hana væri etv að finna á Langanesi!!
Björn Emilsson, 26.7.2012 kl. 04:13
Ætli rannsóknir og huganlegar tilraunavinslur kosti ekki eitthvað geipilegt? Hver fjármagnar svona? Þá fer að styttast í að einhver nefni Kína, að eg tel.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.7.2012 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.