Statoil losar sig við borpalla í stríðum straumi

Enginn atvinnugrein er dramatískari en olíuiðnaðurinn. Basta!

Oil-Discoveries_2010-2013-StatoilStatoil átti frábært ár 2013 og ekkert olíufélag var jafn duglegt að finna nýjar olíulindir það ár eins og Statoil. Sama var uppi á teningnum árin 2011 og 2012; einnig þá var Statoil í fararbroddi að finna meiri olíu. 

Þetta var hreint magnaður árangur. Fyrir risaolíufélögin á hlutabréfamörkuðum heimsins, eins og BP, Exxon Mobil, Shell og Statoil, skiptir tvennt meginmáli. Annars vegar er auðvitað olíuverð. Hins vegar er að ná að finna mikla olíu; helst meiri olíu en viðkomandi félag hefur dælt upp á árinu. Gangi það ekki eftir minnka s.k. olíubirgðir viðkomandi félags og hætt við að hlutabréfaverðið taki að síga. Þess vegna berjast stóru olíufélögin um að komast inn á svæði þar sem góðir möguleikar eru á að finna risalindir. Dæmi um slík svæði undanfarin ár eru t.d. í Kazakhstan og á landgrunni Brasilíu og Angóla - og nú síðast auðvitað í Írak.

Eins og áður sagði hefur Statoil náð geysigóðum árangri í olíuleit síðustu árin, a.m.k. í samanburði við aðra olíurisa. Þar var stærsti vinningurinn auðvitað nýja risalindin Johan Sverdrup í Norðursjó. Þar er um að ræða milljarða tunna af vinnanlegri olíu, en í dag þykir reyndar mjög gott í bransanum að finna nokkur hundruð milljón tunnur.

Angola-Oil-concessions-mapAð frátalinni norsku lögsögunni gekk Statoil einnig vel á landgrunni Angóla. En nú eru skyndilega breyttir tímar. Olíuverð hefur sigið hratt vegna dauflegs efnahagslífs víða um heim og litlar horfur á að þar úr rætist í bráð. Vinnsla á nýjum djúphafssvæðum er víða hætt að borga sig og olíufélögin því farin að setja svoleiðis verkefni í salt. En það getur reyndar verið nokkuð snúið - og ekki bara eins og að stinga skýrslu niður í skúffu.

Að hverfa frá svona olíuleit getur kostað svakalegar fjárhæðir. Borpallarnir og borskipin sem notuð eru til leitarinnar kosta mörg hundruð þúsund dollara á dag. Þessi ofurtæki eru gjarnan leigð í marga mánuði í senn og jafnvel nokkur ár. Eftirspurnin eftir svona borpöllum og -skipum var geysimikil fyrir fáeinum árum þegar menn treystu því að olíuverð héldist hátt. Afleiðingin varð bæði hækkandi leiga (vegna umframeftirspurnar eftir pöllunum) og að olíufélög urðu gjarnari á að stökkva á lengri leigusamninga.

Þetta birtist vel í stöðu Statoil þessa dagana. Undanfarna mánuði hefur hver fréttin af annarri borist um að Statoil hafi hætt við eða seinkað verkefnum á norska landgrunninu - og losað sig við olíuborpalla sem þar skyldi nota. Og nú fyrr í dag kom sú frétt að þetta norska risafyrirtæki hafi verið að losa sig undan samningi um olíuborskipið Stena Carron. Sem Statoil hefur haft á samningi vegna olíuleitar langt í suðri á landgrunni Angóla. 

Stena-Carron-Oil-Drill-Ship-largeStatoil tók Stena Carron á leigu vorið 2013 og var leigusamningurinn til 3ja ára. Dagsleigan var um 650 þúsund USD og skyldi borskipið bora eftir olíu á reitum 38 og 39 á hinu æsispennandi Kwanza-svæði djúpt úti af strönd Angóla. Þær gríðarlegu lífrænu leifar sem þarna hafa ummyndast í olíu og jarðgas undan Angóla og vesturströnd Afríku, eru í raun úr sömu lífrænu „hrúgunni“ og myndað hefur olíuna hinu megin Atlantshafsins, þ.e. undir landgrunni Brasilíu. En þessi tvö svæði voru jú eitt og hið sama allt þar til Afríka og Suður-Ameríka klofnuðu og rak í sundur á Krítartímabilinu fyrir meira en nettum 65 milljónum ára.

Þarna í nágrenni reita 38 og 39 hafa sum olíufélög verið að gera góða hluti (enda talið að tugi milljarða tunna af vinnanlegri olíu sé að finna þarna djúpt undir hafsbotninum). Í maí s.l. (2014) tilkynnti t.d. bandaríska olíufélagið Cobalt um fund sinn á olíulind á reit 20, sem hefði að geyma á bilinu 440-700 milljónir tunna af olíu.

Stena-Drilling-CoverEn Staoil varð ekki svo gæfusamt að hitta þarna í mark. Nú rúmu ári eftir að byrjað var að pota í hafsbotninn með Stena Carron hefur allt reynst þurrt. Eftir árangurslausa borun á reit 39 var tilkynnt í byrjun september s.l. að borskipið færi nú á reit 38. En nú, þegar olíuverð er líkt og riðandi boxari eftir þungt kjaftshögg, er Statoil nóg boðið. Samkvæmt fréttum sem birtust í morgun hefur félagið losað sig undan leigusamningnum vegna Stena Carron. Og varð að reiða út litlar 350 milljónir USD fyrir vikið til eiganda skipsins; sem er sænska stórfyrirtækið Stena (Stena er í einkaeigu einnar ríkustu fjölskyldunnar í Svíþjóð - eitt fyrirtækjanna í samsteypunni er Stena Drilling). Þarna fjúka því sem jafngildir 42 milljörðum ISK út í loftið frá norska Statoil! Til allrar hamingju þó ekki lengra en yfir landamærin til Svíþjóðar og suður til höfuðstöðva Stena í Gautaborg.

Já - það gengur svona í olíubransanum. Menn geta svo ímyndað sér hvort olíufélög hafa mikinn áhuga þessa dagana á að leggja pening í olíuleit á Drekasvæðinu. Það ævintýri verður líklega í biðstöðu næstu árin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband