Gas!

Í dag segir Mogginn okkur þau tíðindi að Shell hafi keypt "kanadíska olíufélagið Duvernay Oil". Sem er auðvitað hárrétt. Nema hvað Duvernay telst varla olíufélag. Þó svo það hafi upphaflega verið stofnað sem slíkt. Í dag er Duvernay fyrst og fremst í gasvinnslu og strategía Shell með kaupunum er einmitt að styrkja gasvinnslu sína. Hækkandi olíuverð er nefnilega talið munu auka stórlega eftirspurn eftir gasi. Þess vegna er skynsamlegt að kaupa núna gasfyrirtæki.

shell_jeroven

Gaslindirnar sem Duvernay ræður yfir hefðu líklega ekki þótt spennandi fyrir fáeinum árum. Þær eru nefnilega miklu erfiðari í vinnslu heldur en hefðbundnar gaslindir. Kaupin á Duvernay eru því í raun lýsandi um þá staðreynd að Shell telji hátt olíuverð komið til að vera. Það eitt og sér er athyglisvert. Hingað til hefur hinn einstaklega óviðkunnanlegi forstjóri Shell, Jeroven van der Veer, almennt lýst þeirri skoðun sinni að það sé nóg til af olíu. Eitthvað er hann farinn að bakka með þá skoðun, með þessum kaupum.

Starfsemi Duvernay er mjög staðbundin; á svæðum í NV-Alberta og norðaustanverðri Bresku Kolúmbiu í Kanada. Sú tegund af gasi sem finnst á vinnslusvæðum Duvernay kallast á ensku "tight gas". Heitið vísar til þess að þetta er gas sem finnst í mjög hörðum eða þéttum setlögum og erfitt er að nálgast. Þar af leiðandi er þetta mun dýrari vinnsla, en sú gasvinnsla sem algengust er. Þessi tegund af gasi er talsvert mikill hluti af öllu því gasi sem talið er geta fundist í heiminum T.d. álítur bandaríska orkumálaráðuneytið að um 20% af gaslindum í Bandaríkjunum séu af þessu tagi.

Gas_tight_Canada

Þegar rætt er um gasframleiðslu er magnið venjulega sett í samhengi við olíuframleiðslu. Þá er einingin "boepd" notuð. Sem merkir einfaldlega "barrels of oil equivalent per day". Á íslensku mætti hér etv. tala um "jafngildi tunna af olíu pr. dag" - sem væri að sjálfsögðu skammstafað JOD! Nú þegar olíuvinnsla hefst kannski senn á íslenska landgrunninu er auðvitað mikilvægt að íslenskuvæða hugtök sem þessi. En gasframleiðsla Duvernay er sem sagt 25.000 boepd í dag og áætlað að hún nái 70.000 boepd árið 2012. Sem skýrir verðið sem Shell mátti punga út fyrir hlutabréfin.

Gas_prices_2007-08

Þó svo gasvinnsla sé oft gefin upp í boepd, er verð á gasi reyndar ekki mælt í krónum pr. boepd. Heldur krónum pr. milljón BTU. Eða öllu heldur í dollurum pr. milljón BTU. Milljón BTU er reyndar skammstafað MMBTU. Og BTU stendur fyrir "British Thermal Unit" eða "bresk hitaeining". Sáraeinfalt - ekki satt?

Þegar maður kaupir gas-futures á NYMEX er maður reyndar ekkert voða mikið að pæla í þessum mælieiningum. En kannksi er ekki verra að muna, að eitt BTU er sú orka sem þarf til að hita eitt pund af fljótandi vatni um eina gráðu á farenheit. Guð má vita hvað mörg BTU þarf til að hita eitt kíló af vatni um eina gráðu celsius. Ef einhver talnaspekingur sér þetta pár, má hann gjarnan senda inn þá tölu.

Reyndar skammast Orkubloggið sín fyrir litla umfjöllun um gas - einhvern mikilvægasta orkugjafa veraldar. Vonandi er þetta einungis fyrsta skref bloggsins að bæta úr því.


mbl.is Shell kaupir Duvernay Oil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Ketill

Mig langar svo að sýna vinnufélögunum grínmyndbandið þitt, þar sem ástandið á mörkuðum skýrt á mjög skemmtilegan hátt. Síðast var það í tengslum við lífeyrissjóðina.

Hvar get ég nálgast þetta myndband, en ég fann þetta ekki pistilinn hjá þér þar sem það var.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.7.2008 kl. 21:04

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sæll Guðbjörn.

Þú átt væntanlega við færsluna "Sá hlær best...":

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/584348/

Kveðja,

Ketill.

Ketill Sigurjónsson, 14.7.2008 kl. 21:23

3 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Sæll Ketill

1 btu/sec = 1055.441 joules/sec

samkvæmt http://www.numberfactory.com/

Júlíus Sigurþórsson, 14.7.2008 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband