Evrópa versus Gazprom

Evrópusambandið hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á græna orkustefnu. Í grófum dráttum felst stefnan í því að draga beri úr notkun á kolvetniseldsneyti (olíu, gasi og kolum), auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, spara orku og minnka kolefnislosun.

eu-green-energy-flag

ESB hefur náð talsverðum árangri að koma þessari stefnu í framkvæmd. Hlutfall grænnar orku hefur farið vaxandi og ESB- ríkin eru í fararbroddi við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í reynd snýst þó meginatriðið í orkustefnu ESB um allt annað en græna orku. Því langmikilvægasta hagsmunamál ESB-ríkjanna felst í því að tryggja sér betri, fjölbreyttari og öruggari aðgang að orkulindum utan sambandsins.

Evrópusamabandið er gríðarlega háð innfluttri orku. Eða öllu heldur flest aðildarríki þess. Af öllum aðildarríkjunum 27 er einungis eitt ríki innan ESB sem framleiðir meiri orku en það notar (sem er Danmörk, en það geta Danir þakkað olíuvinnslu sinni í Norðursjó). Þar að auki fer olíu- og gasframleiðsla innan ESB hratt hnignandi. Þess vegna stendur ESB mun verr að vigi í orkumálum en t.a.m Bandaríkin. Þar vestra hefur gasframleiðsla aukist mikið á undanförnum árum og í Bandaríkjunum eru jafnvel líka góðar líkur á að unnt verði að auka olíuframleiðsluna.

nord-stream-underwater-tie-ins_2965_20110421

Það er sem sagt svo að með hverjum degi sem líður verður ESB sífellt háðara innfluttum orkugjöfum (þó svo efnahagssamdráttur geti snúið þessu við tímabundið). Þetta er sennilega mesti veikleiki ESB. Enda fagna evrópskir stjórnmálamenn og leiðtogar sambandsins mjög, þegar áfangi næst í því að efla orkuöryggi ESB.

Slík fagnaðarlæti hafa reyndar orðið í tvígang núna í haust (2011). Þar var annars vegar um að ræða þau tímamót þegar fyrsti áfangi Nord Stream gasleiðslunnar var tekinn í notkun. Þar með byrjaði gas að streyma frá Rússlandi til Þýskalands, eftir 1.200 km langri gasleiðslunni sem nú liggur eftir endilöngum botni Eystrasaltsins. Gasið sem núna streymir um verkfræðiundrið Nord Steam er fyrsta gasið sem berst Þjóðverjum frá Rússum, án þess að þurfa að fara eftir gasleiðslum um lönd eins og Úkraínu eða Hvíta-Rússland. Þetta bætir afhendingaröryggi til muna, sem er fagnaðarefni fyrir bæði seljandann (Gazprom) og neytandann (í Þýskalandi og fleiri ESB-ríkjum).

Europe-Russia-Gas-Pipes-2011-1

Hitt tilefnið til að skála nú í haust af hálfu ESB var þegar aðildarríki sambandsins (utanríkisráðherraráðið) veittu framkvæmastjórn ESB umboð til að semja við stjórnvöld í Azerbaijan og Túrkmenistan um lagningu mikillar gasleiðslu eftir botni Kaspíahafsins. Leiðslan sú er oftast er kölluð Trans-Caspian Gas Pipeline, en um hana á að flytja gas þvert vestur yfir Kaspíahafið. Frá Túrkmenistan til Bakú í Azerbaijan og þaðan áfram eftir gasleiðslum gegnum orkubrúna Tyrkland og alla leið til Evrópusambandsins.

Náist samningar um þessa rosalegu Kaspíahafs-gasleiðslu aukast líkur á að ráðist verði í lagningu á hinni mikilvægu Nabucco-gasleiðslu (sem áður hefur verið fjallað um hér á Orkublogginu). Enda má segja að þessar tvær gasleiðslur séu svo nátengdar að annað hvort hljóti þær báðar að verða lagðar eða þá hvorug. Svo eru menn líka farnir að tala um að Kaspíahafsleiðslan muni ekki aðeins opna ESB aðgang að hinum gríðarlegu gaslindum í Túrkemistan, heldur einnig að miklu gasi norður í Kazakhstan.

EU-Barroso_Azerbaijan-President-Ilham- Aliyev

Það eru þessir hagsmunir um framtíðaraðgang að orkulindum Mið-Asíuríkjanna sem valda því að þeir José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Günther Oettinger, framkvæmdastjóri orkumála, hafa undanfarið verið á ferðinni bæði í Bakú í Azerbaijan og handan Kaspíhafsins í Ashgabat, höfuðborg Túrkmenistans. Þar hafa þeir félagarnir f.h. ESB faðmað forsetana báða; þá Ilham Aliyev í Azerbaijan og Gurbanguly Berdimuhamedow í Túrkmenistan. Og komið heim til Brussel með glansandi viljayfirlýsingar um að þessi Mið-Asíuríki bæði séu æst í að selja gas til Evrópu.

GAS-Central-Asia-Pipe-2

Vandamálið er bara að bæði Kínverjar og rússneska Gazprom sækja líka mjög í risavaxnar gaslindirnar í Mið-Asíu. Stóra spurningin er hver verður á undan að byggja gasleiðslur til þessara landa?

Það eru risavaxnir hagsmunir af þessu tagi sem nú hafa orðið til þess að innan ESB eru menn byrjaðir að tala um það að framkvæmdastjórnin þurfi að fá allsherjarumboð til að semja um og höndla með öll orkumál sem snerta aðildarríkin. Þar með yrði til ein sameiginleg orkustefna ESB þar sem framkvæmdastjórnin fengi mikil völd í sínar hendur. Þetta yrði meiriháttar stefnubreyting af hálfu aðildarríkja ESB, en kann að vera nauðsynlegt til að tryggja aðgang þeirra að öruggri orku til framtíðar. Við eigum eflaust eftir að heyra meira af þessum tillögum síðar hér á Orkublogginu - þetta snertir jú beinlínis hagsmuni Íslands sökum þess að við erum umsóknarríki um aðild að ESB.

GAS-Central-Asia-Pipelines-MAP

Það er sem sagt svo að það eru tvær neðansjávar-gasleiðslur sem eru mál málanna í orkustefnu ESB-ríkjanna þessa dagana. Leiðslur sem flytja munu gas til ESB frá löndum í austri; ríkjum sem búa yfir miklum gasauðlindum.

Önnur af þessum gasleiðslum er nú orðin að raunveruleika.  Það er engu að síður augljóst að gasið frá Nord Sream mun ekki losa Þýskaland eða önnur Evrópuríki undan gashrammi Rússlands. Reyndar virðist Gerhard Schröder nokk sama um það. Þegar Schröder lét af embætti kanslara Þýskalands tók hann fagnandi boði Rússa um að setjast í stól stjórnarformanns Nord Stream. Þar er rússneski gasrisinn Gazprom vel að merkja langstærsti hluthafinn með 51% hlut (afgangurinn skiptist á milla nokkurra þýskra og fleiri evrópskra fyrirtækja). Hlutverk þessa fyrrum kanslara Þýskalands og formanns þýskra jafnaðarmanna sem stjórnarformanns Gazprom, er væntanlega fyrst og fremst að gæta hagsmuna hluthafa Gazprom. Sem að stærstu leyti er rússneska ríkið! Skemmtilegt evrópskt bræðraþel þarna á ferð.

Putin-Schroeder-1

Það var gaman að sjá hversu vel fór á með þeim ljúflingunum Schröder og Pútín þar sem þeir voru staddir austur í Skt. Pétursborg núna í september sem leið (2011). Tilefnið var að þá var byrjað að prófa hvernig gengi að láta gasið streyma eftir glænýrri Nord Stream leiðslunni. Frá rússnesku borginni með sænska nafnið (Vyborg, sem er skammt frá Pétursborg) og til þýska þorpsins Lubmin, sem er skammt vestan pólsku landamæranna.

Það var svo núna í vikunni sem leið (s.l. þriðjudag) að hin formlega opnunarathöfn Nord Stream fór fram - í þýska þorpinu Lubmin. Þar voru saman komnar margar helstu silkihúfur evrópskra stjórnmálamanna. Sem í sameiningu skrúfuða frá gríðarstórum krana til marks um vígslu á þessari tíu milljarða dollara gasleiðslu (sbr. myndin hér að neðan). Í fremstu röð voru þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, en meðal gestanna mátti einnig sjá forsætisráðherra Frakklands, Hollands og fleira mektarfólk. Þarna fengu stjórnmálamennirnir að njóta sín, en rússneski gasrisinn Gazprom hélt sig til hlés.

Nord-Stream_official-opening-2011

Þvi miður var lítill púki sem truflaði gleðina. Nefnilega sjálfur efinn. Það er því miður allt eins líklegt að vígsla Nord Stream sé fyrst og fremst skýr táknmynd um að ESB muni í framtíðinni þurfa sífellt meira gas frá Rússum og Gazprom. Jafnvel að Evrópa þurfi að kaupa gas frá Mið-Asíuríkjunum í gegnum Gazprom!

Það er nefnilega svo að hljóðleg en gríðarlega hörð barátta stendur nú yfir um aðgang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna. Kína er á góðri leið með að tryggja sér þarna væna sneið af kökunni. Og Rússar ætla sér svo sannarlega að koma í veg fyrir að þessi fyrrum Sovétlýðveldi selji gasið beint vestur til Evrópu. Þess í stað vilja þeir að gasið fari fyrst til Rússlands og þaðan til Evrópu - um lagnir Gazprom! Þar með fengju Rússar ekki aðeins væn flutningsgjöld, heldur líka sterkan pólítískan ávinning með því að geta hvenær sem er lokað á gasstreymið til Evrópu.

GAS_Central-Asia-pipeline_China-2

Kapphlaupið um beinan aðang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna er eitthvert hljóðlátasta en um leið mikilvægasta hagsmunamálið í gjörvöllum orkugeiranum um þessar mundir. EF Evrópusambandsríkin tapa þessu kapphlaupi mun það gera ESB svakalega háð gasflutningum um Rússland. Vegna bæði landfræðilegra, sögulegra og pólítískra aðstæðna er óneitanlega líklegt að þarna muni Gazprom hafa betur en ESB. Og þess vegna lítur út fyrir að þrátt fyrir að North Stream sé komin í gagnið, þá kunni Evrópusambandið að vera í arfaslæmum málum.

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Á síðustu misserum hafa nefnilega orðið merkilegir atburðir í evrópska orkugeiranum, sem gætu hreinlega gjörbreytt aðgangi ESB að orku til langrar framtíðar - til hagbóta fyrir sambandið og á kostnað Gazprom! Það magnaða ævintýri snýst um hreint ótrúlegar gaslindir sem kann að vera að finna í austur í Póllandi, Búlgaríu og Úkraínu. Meira um þá dramatík síðar hér á Orkublogginu.


Tímamót í íslenskum orkumálum?

Stýrihópur um orkustefnu (Orkustefnunefnd) hefur lokið starfi sínu. Og birt skýrslu sem nú fer fyrir ríkisstjórn og verður svo væntanlega lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi

Orkustefnunefndin

Iðnaðarráðherra segir stefnuna marka tímamót. Það er nú kannski ofmælt - þó vissulega sé gott að íslensk stjórnvöld marki sér skýra stefnu í orkumálum. Í reynd er umrædd stefna yfirleitt mjög almennt orðuð. Og þar að auki látið vera að taka á sumum mikilvægum álitamálum. 

Þarna er t.d. nær ekkert fjallað um eignarhald á virkjunum eða orkufyrirtækjum. Samt var nefndinni beinlínis falið að taka eignarhald á orkufyrirtækjum til umfjöllunar og fara yfir helstu "leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu". Í þessu sambandi skyldi nefndin meta kosti og galla mismunandi eignarhalds og lýsa því hvaða leiðir séu þar vænlegastar. 

Þess vegna bjóst Orkubloggarinn jafnvel við því að skýrslan myndi innihalda skýra stefnumörkun um eignarhald að orkufyrirtækjum og/eða stærri virkjunum. En svo er ekki. Þarna er því t.d. ekkert minnst á hugmyndir sem hafa komið fram um að allar stærri virkjanir á Íslandi skuli að meirihluta vera í opinberri eigu, en að einkaaðilar geti eignast í þeim allt að þriðjung.

Kleifarvatn-vetur

Því má kannski segja að með orkustefnunni séu einfaldlega engar breytingar lagðar til á því fyrirkomulagi sem er í gildi um fjárfestingar í virkjunum á Íslandi. Þ.e. að slíkar fjárfestingar skuli heimilar öllum lögaðilum, hvort sem þeir séu opinberir eða einkaaðilar, og það eigi við um öll fyrirtæki innan EES-svæðisins. Og þar með leggi stýrihópurinn t.d. blessun sína yfir fjárfestingar eins og þegar Magma Energy Sweden keypti stóran hlut í HS Orku. Þetta eitt og sér er athyglisvert, þegar haft er í huga að VG átti væntanlega fulltrúa í stýrihópnum.

Eitt af þeim mikilvægu atriðum sem stýrihópurinn fjallaði um er hvort stytta eigi þann hámarksafnotatíma sem fyrirtæki geta skv. gildandi lögum haft að orkulindum í eigu hins opinbera. Í dag er hámarkstíminn þarna 65 ár í senn og framlengjanlegur. Meirihluti stýrihópsins álítur að stytta beri þennan hámarkstíma umtalsvert. Í skýrslunni er talað um "hóflegan tíma" og 25-30 ár nefnd í því sambandi.

Skafta-upptok-2

Stýrihópurinn var þó ekki einhuga um þetta mikilvæga atriði. Einn nefndarmanna skilaði séráliti þess efnis að þetta þurfi að skoða mun betur áður en lögð verði fram tillaga um svo mikla styttingu á nýtingartímanum. Þetta er sennilega skynsamlegt sjónarmið.

Þó svo Orkubloggarinn álíti að eðlilegt geti verið að hafa afnotatímann almennt mun styttri en 65 ár, þá er svolítið hæpið af stýrihópnum að leggja til svona mikla styttingu - án þess að leggja fram ítarlegan rökstuðning fyrir slíkum styttri afnotatíma. Þarna hefði líka gjarnan mátt setja fram samanburð við önnur ríki. Vatnsaflsvirkjanir eru einmitt víða um heim byggðar á sjónarmiðinu um BOT (build - operate - transfer) og þar eru því mýmörg dæmi um hver afnotatíminn er. Í skýrslunni er því miður engan slíkan samanburð að finna. Og ennþá síður fjallað um hugsanlegt transfer eða leiðir í anda norsku hjemfall-reglunnar (þ.e. að virkjun skuli í lok afnotatímabils afhent ríkinu endurgjaldslaust).

Nefndin leggur ríka áherslu á að orkunýting skuli stuðla að hámarksarðsemi opinberu orkufyrirtækjanna og að raforkuverð hér eigi að færast nær því sem gerist á "meginlandsmörkuðum Evrópu". Í þessu sambandi veltir stýrihópurinn fyrir sér hversu mikið orkuverð hér geti mögulega hækkað og þar með arður opinberu orkufyrirtækjanna aukist (og þá auðvitað líka arður orkufyrirtækja í einkaeigu). Um þetta lætur nefndin nægja að vísa til kynninga Landsvirkjunar um þessi efni. Og bætir þar litlu sem engu við.

Raforka-mostru-gufa

Þarna hefði nefndin hugsanlega átt að sýna örlítið meira sjálfstæði - og leita eftir fleiri sjónarmiðum um framtíðarþróun raforkuverðs í Evrópu. Það er nefnilega svo að talsvert mismunandi álit er uppi um það hvernig raforkuverð í Evrópu muni þróast á næstu árum.

Stýrihópurinn fjallaði einnig um það hvernig skuli standa að töku endurgjalds vegna nýtingu orkulinda í eigu hins opinbera. Bæði um leigu vegna auðlindanýtingar og um skattlagningu arðs af nýtingunni. Leggur nefndin til að stofnaður verði sérstakur Auðlindasjóður sem sjái um útleigu orkuauðlindanna og fái til sín endurgjald vegna nýtingarinnar.

Þó svo raforkuverðið hér hafi fram til þessa verið lágt og arður orkufyrirtækjanna því sáralítill er bæði forvitnilegt og nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig skynsamlegast sé að arðinum verði ráðstafað - þegar/ef hann myndast (þ.e. auðlindarentan). Í skýrslunni er lögð almenn áherslu á að í tilvikum sem hið opinbera er eigandi auðlindanna, skuli eigandinn njóta sem mest af auðlindarentunni þegar hún myndast. Í þessu sambandi eru nefnd nokkur dæmi um hvernig þetta megi gera, án þess að það sé nákvæmlega útfært. Að mati Orkubloggarans væri kannski nærtækt að fara þarna svipaða leiðir eins og gert er í Noregi. Vandinn er bara sá að arðsemin í orkuvinnslunni hér er sáralítil - og þar á verður vart mikil breyting í bráð vegna langtímasamninganna við stóriðjuna.

Thjorsa_fossar

Það er vel að stjórnvöld hugi að þessum málum. Þær breytingar sem eru raunhæfastar og nærtækastar á íslenskum orkumarkaði í nánustu framtíð, eru þó sennilega af öðrum toga. Þar mætti nefna álitaefnið hvort hér skuli tekinn upp spot-markaður með raforku. Í huga Orkubloggarans er nánast borðleggjandi að taka upp slík markaðsviðskipti hér á landi, en um þetta er lítt fjallað í umræddri skýrslu stýrihópsins. Vonandi er þó Landsnet á fullu að huga að slíkum málum.

Eflaust má segja að þessi skýrsla sé prýðilegt innlegg í umræðu um íslensk orkumál. Og skýrslan gæti reyndar markað tímamót - ef henni verður fylgt eftir af krafti. Það sem Orkubloggaranum þótti athyglisverðast við skýrsluna eru þær áherslur skýrsluhöfunda að afnema skuli ríkisábyrgð af virkjanaframkvæmdum ríkisfyrirtækja fyrir stóriðju, að auka skuli fjölbreytni í orkunýtingu (bæði í hópi viðskiptavina og með því að kanna með nýtingu fleiri orkugjafa) og að skoða skuli ítarlega þann möguleika að tengja Ísland evrópskum orkumarkaði með sæstreng. Áherslur af þessu tagi gætu breytt miklu í íslenska orkugeiranum. Að því gefnu að hugmyndir af þessu tagi séu raunhæfar.


Keisarasprengjan

Nýlega rakst Orkubloggarinn á athyglisvert myndband, sem sýnir allar kjarnorkusprengingar sem hafa átt sér stað á jörðu hér. Þarna er um að ræða allar þær kjarnorkusprengjur sem sprengdar hafa verið í tilraunaskyni og auðvitað líka sprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945.

Tsar_Bomb-1

Umrætt myndband er ansið áhrifaríkt. Og maður veltir fyrir sér hvort mannkynið hafi algerlega gengið af göflunum í kjarnorkukapphlaupinu. 

Til "gamans" má geta þess að stærsta kjarnorkusprengjan sem nokkru sinni hefur verið sprengd, var rússneska Keisarasprengjan (Tsar Bomba). Sprengjan sú var reyndar einungis helmingurinn af því sem til stóð. Þessi svakalega vetnissprengja átti upphaflega að vera 100 megatonn, en var á endanum höfð 50 megatonn til að forðast of mikla geislavirkni. Til samanburðar má nefna að sameiginlega voru sprengjurnar sem sprungu yfir Hiroshima og Nagasaki innan við 40 kílótonn.

Keisarasprengjan var sprengd fyrir nánast nákvæmlega hálfri öld. Það var þann 30. október 1961 að ofboðsleg eldkúlan og kjarnorkusveppurinn breiddi úr sér yfir rússnesku eyjunni Novaya Zemlaya. Það er einmitt ekki síður óhugnarlegt hversu mikið af kjarnorkutilraununum áttu sér stað hér á Norðurslóðum.

Í tilefni af stórafmæli Keisarasprengjunnar er viðeigandi að birta hér á Orkublogginu umrætt myndband af kjarnorkusprengingum hins viti borna manns. Fyrir óþolinmóða skal þess getið að myndbandið fer rólega af stað. En svo færist fjör í leikinn og allt verður hreinlega snarvitlaust. Uns þetta furðutímabil kjarnorkualdarinnar fjarar út, enda eru nú flest kjarnorkuríkin hætt að gera slíkar tilraunir:

 

 


Olían við Grænland

Nú er nánast slétt ár liðið frá því skoska Cairn Energy tilkynnti um að hafa fundið vísbendingar um olíu á landgrunni Grænalands. Nánar tiltekið um 4 km undir botni Baffinsflóa milli Grænlands og Kanada, um 400 km norðan við heimskautsbaug.

Cairn-Energy-webÞetta vakti vonir um að grænlenska olíævintýrið væri að hefjast fyrir alvöru. Í reynd skilaði þó umrædd borhola Cairn, frá sumrinu 2010, einungis óljósum vísbendingum um mögulega olíu. Og þær holur sem Cairn boraði í sumar sem leið (2011) reyndust allar vera skraufþurrar. Staðreyndin er því sú að enn hefur engin vinnanleg olía fundist við Grænland.

Upphaf olíuleitar við Grænland má rekja til þess þegar nokkrar rannsóknaholur voru boraðar á grænlenska landgrunninu fyrir meira en þremur áratugum, á vegum danskra rannsóknastofnana. Svo boraði norska Statoil eina lauflétta tilraunaholu árið 2001. Þetta átti sér allt stað á hafsbotninum vestan Grænlands.

USGS_Arctic-oil-gas-1

Þó svo engin olía fyndist í þessum rannsóknum var útkoman sú að þarna gæti mögulega verið talsvert af kolvetni (olíu og/eða gas) að finna. Væntingar manna þar um jukust svo enn frekar þegar bandaríska landfræðistofnunin (US Geological Survey eða USGS) tilkynnti árið 2001, að landgrunnið milli Grænlands og Kanada hefði mögulega að geyma allt að 17 milljarða tunna af olíu. Sem er geysimikið.

Til samanburðar þá er í dag álitið að landgrunn Noregs hafi að geyma um 7 milljarða tunna af vinnanlegri oliu (hafa ber í huga að miklu meiri líkur eru á að sú olía sé fyrir hendi, heldur en gildir um grænlensku olíuna - enn sem komið er). Niðurstöður USGS gáfu sem sagt vonir um að mjög mikla olíu sé að finna í lögsögu Grænlands, en engu að síður er mikil óvissa fyrir hendi um það hversu mikil olía þarna reynist vera. 

Það vor svo árið 2007 að ráðist var í fyrsta formlega olíuleitarútboðið á grænlenska landgrunninu. Áhuginn var talsverður. Og ekki var amalegt þegar USGS birti endurskoðaða spá sína um olíu á Norðurskautssvæðunum öllum árið eftir (2008). Enn og aftur voru tölurnar nánast svimandi háar. Landgrunnið út af V-Grænlandi fékk þarna að halda sínum 17 milljörðum tunna. Og að auki sagði USGS að landgrunnið við NA-Grænland væri eitthvert áhugaverðasta olíusvæði framtíðarinnar - jafnvel með um 34 milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Samtals hefði lögsaga Grænlands því mögulega að geyma rúmlega 50 milljarða tunna af vinnanlegri olíu!

Greenland-Iceland-Satellite-1Reynist þetta rétt gæti Grænland orðið eitt af stærstu olíuríkjum veraldar. Eða með svipað magn af olíu í jörðu eins og í dag er talið að sé að finna í Rússlandi - eða Lýbíu (þau ríki bæði eru meðal mestu olíuframleiðenda heimsins). Munurinn er bara sá, að til að það borgi sig að bora eftir olíu í lögsögu Grænlands þarf olíuverð að vera a.m.k. á bilinu 50-70 USD tunnan. Meðan gumsið spýtist upp t.d. í Líbýu fyrir minna en 5 dollara á tunnuna. Þar að auki er olían við Grænland enn ekki sannreynd.

En hvað sem því líður þá er lögsaga Grænlands hugsanlega eitt af mikilvægari olíuvinnslusvæðum framtíðarinnar. Mat USGS er að um 13% af allri vinnanlegri olíu á heimskautasvæðunum (þ.e. norðan heimskautsbaugs) sé að finna í grænlenskri lögsögu. Og þá ekki síst á svæðum við NA-Grænland. Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur Íslendinga. Vinnsla við NA-Grænland myndi augljóslega skapa Íslandi ýmsa möguleika; við erum jú næsta raunhæfa þjónustusvæðið við olíuiðnað á þessum norðlægu slóðum.

Greenland-Cairn-map-1Enn sem komið er er þó engin olíuleit hafin við NA-Grænland. Athygli olíufyrirtækja hefur fram til þessa beinst að vesturhlutanum, enda er hann mun aðgengilegri. Þar hefur áðurnefnt Cairn Energy verið í fararbroddi, en fyrirtækið fékk úthlutað um 50 þúsund ferkm leitarsvæði vestur af Grænlandi í fyrsta formlega olíuleitarútboði Grænlands . Árið 2009 bætti Cairn svo við sig leitaheimild á 20 þúsund ferkm til viðbótar. Stærstu svæðin þeirra eru vestur af Diskóeyju í Baffinsflóa, en sjávardýpið þarna er víðast á bilinu 400-1500 m (sem sagt víða miklu minna dýpi en á Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen).

Cairns-Greenland-Corcovado_offshore_Greenland_3_webCairn hefur nú verið að stússa á grænlenska landgrunninu í þrjú ár og borað einhverjar 6-7 holur. Fram til þessa hefur fyrirtækið líklega eytt sem nemur um 75 milljörðum ISK í boranirnar þar. Hver einasta hola kostar jú um 100 milljónir USD, sem jafngildir 11-12 milljörðum ISK. Hjá Cairn voru menn ansið brattir og sögðu að svæðin þeirra hefðu mögulega að geyma 4 milljarða tunna af olíu! Svo var bara að byrja að spreða. Holan sem var sögð bera merki um kolvetni var hola nefnd Alpha-1S1 og er á s.k. Sigguk-svæði (sjá kortið hér að ofan). Hún var þá rúmlega 4 km djúp. Nánari athuganir nú í sumar sem leið (2011) skiluðu engum viðbótarárangri og þegar allt kemur til alls virðist holan vera þurr. 

Áður en boranirnar hófust gaf Cairn Energy það upp að fyrirtækið teldi 10-20% líkur á að hitta í mark. Því miður hefur árangur Cairn við Grænland enn sem komið er verið lítill sem enginn. Og því eins gott að fyrirtækið skuli hafa af nógu taka eftir gríðarlega vel heppnað olíuævintýri sitt í Rajasthan á Indlandi undanfarin ár. Þar gekk Cairn á brott með hátt í tug milljarð dollara!

greenpeace-boarding-cairns-rig-2.jpgÞað er ábyrgðarhluti að bora eftir olíu - ekki síst á heimskautasvæðunum unaðslegu. Greenpeace hefur verið að gera Cairn lífið leitt með mótmælum á svæðinu og hafa truflað boranirnar. Hjá Greenpeace kalla menn olíuboranir við Grænland cowboy-drilling og segja áhættuna af olíumengun þarna skelfilegar. En áfram var borað og svo verður einnig næsta sumar (2012).

Alls segjast þau hjá Cairn ætla að setja um einn milljarð dollara í grænlenska verkefnið og hyggjast bora einhverjar holur í viðbót næsta sumar (2012). Kannski hitta þeir þá í mark - kannski ekki. Þarna þarf mikla þolinmæði og langtímasýn. Og ef ekkert gengur hjá Cairn, er vert að hafa í huga að brátt munu ExxonMobil, Chevron og Shell líka byrja olíuleit á svæðinu. Öll hafa þessi félög tryggt sér leitarsvæði vestur af Grænlandi (BP ætlaði líka að vera með í grænlenska ævintýrinu, en bökkuðu út eftir slysið á Mexíkóflóa). Olíuleitin við Grænland er rétt að byrja og ekki ólíklegt að a.m.k. 5-10 ár líði í viðbót uns menn verða almennilega varir þarna í þokunni á Baffinsflóa.

Baffin-Bay_FogÞað skemmtilegasta við þetta allt er kannski sú tilhugsun, að varla þarf nema einn eða í mesta lagi tvo vel heppnaða olíubrunna til að efnahagur Grænlands umsnúist á svipstundu. Í dag fá Grænlendingar u.þ.b. helminginn af öllum tekjum heimastjórnarinnar sem styrk frá Dönum. Eru m.ö.o. algerlega háðir dönskum peningum. En þetta eru ekki mjög háar fjárhæðir og ekki þarf að finnast mikil olía til að umsnúa efnahag Grænlendinga

Árlegi styrkurinn frá Danmörku er um 3,5 milljarðar DKK, en grænlensku fjárlögin eru alls u.þ.b. 7 milljarðar DKK eða rúmlega það. Samningar við olíufyrirtækin eru sagðir miðast við að um 60% af öllum olíuhagnaðinum renni til Grænlendinga. Grænlensk stjórnvöld hafa reiknað út að ein góð hola geti skilað Grænlendingum ca. 10 milljörðum DKK í hreinar tekjur - á hverju ári í fjöldamörg ár! Ein hola myndi skv. þessu samstundis veita Grænlendingum fjárhagslegt sjálfstæði og gott betur.

nuuk-kids-1_1116384.jpgÞessi tala um áætlaðar olíutekjur er ansið há - en kannski ekki fráleit ef olíuverð verður hátt og framleiðslukostnaður í hófi. Og hvað ef þarna verða brátt komnir svona eins og 2-3 brunnar í fulla vinnslu?! Það er kannski ekki furða að Grænlendingar séu sumir svolítið spenntir þessa dagana.

Olíuleit tekur oft fjöldamörg ár uns hún skilar árangri. Og skynsamlegast að stilla væntingum í hóf - hvað svo sem verður. En vonandi kemur að því að við Mörlandar getum samglaðst þessum góðu grönnum okkar í vestri vegna efnahagslegrar velgengni þeirra.


Таван толгой

Ef einhver hefur áhuga á risatækifæri í orkuiðnaðinum getur Orkubloggarinn hvíslað eins og einni ábendingu að viðkomandi: Sem er sú kolsvarta tillaga að taka næstu flugvél til Ulan Bator, höfuðborgar Mongólíu. Og halda þaðan á traustum jeppa beint suður í Góbí-eyðimörkina - í átt að einhverju svakalegasta kolaævintýri veraldarinnar nú um stundir.

mongol-warriors

Já, í dag heldur Orkubloggið með lesendur sína á fjarlægar slóðir. Við förum alla leið austur til kolasvæðanna geggjuðu í Mongólíu, sem kennd eru við Tavan Tolgoi (sem á frummálinu er ritað Таван толгой). Fyrst skulum við þó líta aðeins um öxl.

Það var í upphafi 13. aldar að mongólski stríðsherrann  Genghis Khan lagði grunninn að stærsta heimsveldi allra tíma. Útþensla þessa mikla ríkis Mongóla náði hámarki um og upp úr miðri 13. öld, en þá voru Mongólar komnir djúpt inní Evrópu. Þar sigruðu mongólsku hersveitirnar m.a. bæði Pólverja og Ungverja og mongólska keisaradæmið þá orðið mesta stórveldi heims. Og jafnvel það víðfeðmasta í mannkynssögunni allri - allt til þessa dags.

Mongol-Empire-map-2

Hersveitir Gengis Khan ollu mikilli skelfingu, enda höfðu sögurnar af skefjalausri grimmd þeirra borist hratt vestur á bóginn. En þegar kom fram á 14. öld tók stórveldi Mongóla að hnigna - undir dökku skýi Svartadauða sem þá herjaði á fólk bæði í Asíu og Evrópu. Her Mongóla var smám saman hrakinn til baka og loks alla leið inn á grasslétturnar heima í Mongólíu.

Næstu sex aldirnar þótti Mongólía heldur ómerkur afkimi þessa heims - að margra mati utan Mongólíu. En nú hafa augu heimsins á ný beinst að Mongólum og Mongólíu. Eða öllu heldur að ofboðslegum málma- og náttúrauðlindum sem þar er að finna og liggja ennþá að mestu óhreyfðar. Í Mongólíu eru t.a.m. einhver allra stærstu kolasvæði heimsins. Og þó svo okkur hér í vestrinu þyki kol ekki beint "fínn pappír", þá er staðreyndin sú að kolaiðnaður heimsins er sá hluti orkugeirans sem vaxið hefur hvað hraðast undanfarin ár. Ástæða þess er fyrst og fremst efnahagsuppgangurinn í Kína og víðar í Asíu; eftirspurn frá Kína og mörgum fleiri ríkjum eftir kolum hefur stóraukist (sbr. grafið hér að neðan).

Coal-history-2

Kolanotkun Asíuþjóðanna hvorki meira né minna en tvöfaldast á einungis einum áratug! Það er sem sagt kolsvört staðreynd að kolaiðnaður er ekki bara áhugaverð sagnfræði, heldur eru kol ennþá bæði mikilvægasta stoð orkugeirans og helsti orkugjafinn i efnahagsuppgangi Kína og margra annarra ríkja. Þess vegna er kolavinnsla og -bruni nú um stundir meiri en nokkru sinni hefur verið í veröldarsögunni. Og það eru horfur á að eftirspurn eftir kolum eigi enn eftir að aukast mikið. Enda horfa nú helstu iðnríki heimsins, ásamt orku- og hrávörufyrirtækjunum, hungruðum augum til kolaauðlinda Mongólíu. Nánar tiltekið til kolasvæðanna í Tavan Tolgoi.

Og nú vex spennan vegna kolaauðlinda Mongólíu með degi hverjum. Því nýlega ákvað ríkisstjórn Mongólíu að bjóða út vinnsluréttinn að stórum hluta svæðisins kennt við Tavan Tolgoi. Þegar fréttist af þessum áformum Mongólanna, ætlaði hreinlega allt að verða vitlaust í alþjóðlega orku- og hrávöruiðnaðinum. Enda ekki á hverjum degi sem þvílíkt risatækifæri býðst í þessum orkuþyrsta heimi.

Peabody-Energy-logo

Meðal fyrirtækja sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar og fengu kolsvartan glampa í augun, þegar fréttirnar bárust af áformum Mongólíustjórnar, má t.d. nefna hrávörufyrirtækið og fóstbróður Glencore International, þ.e. svissneska Xstrata. Og líka brasílíska orku- og námurisann Vale, stál- og hrávörursamsteypuna hans Lakshmi Mittal, þ.e. ArcelorMittal, og síðast en ekki síst hið fornfræga bandaríska kolafyrirtæki Peabody Energy (sem er þekkt fyrir að hafa umstaflað heilu fjallgörðunum í Appalachia-fjöllum og víðar um Bandaríkin). Að auki hafa stórfyrirtæki frá Rússlandi, Kína, Suður-Kóreu og Japan sýnt mikinn áhuga á að komast í kolafjöllin í Tavan Tolgoi. Þar á meðal eru hrávörusnillingar eins og sjálfur Rusal-konungurinn Oleg Deripaska.

Tavan-Tolgoi_Mongolia_MAP

Síðustu mánuðina hafa stjórnvöld í Mongólíu rætt við alla þessa áhugasömu aðila og leitast við að þrengja hópinn. Og nú í júlí sem leið (2011) tilkynntu þau að einungis þrír aðilar myndu koma til greina sem tilboðsgjafar i Tavan Tolgoi. Þar er um að ræða bandaríska Peabody og að auki tvær fyrirtækjasamsteypur; annars vegar rússneska og hins vegar kínverska.

Stjórnvöld í bæði Japan og Suður-Kóreu gengu hreinlega af göflunum við þessar fréttir. Enda töldu þau augljóst að þarna væru Mongólarnir að hygla rússnesku og kínversku fyrirtækjunum. Rússland og Kína eru jú næstu nágrannar Mongóla. Þarna eru geggjaðir hagsmunir á ferðinni; aðgangur að meira en milljarði tonna af kolum. Og það er kunn staðreynd að stjórnvöldum i Mongólíu er mjög í mun að halda góðu sambandi við báða þessa nágranna sína; Rússa og Kínverja. Þess vegna ætti engum að koma á óvart að rússnesk og kínversk fyrirtæki hafi fremur hlotið náð fyrir augum mongólskra stjórnvalda, fremur en fyrirtæki frá Japan eða Suður-Kóreu.

Mongolia-coal-mine-1

Það fór reyndar svo að Rússarnir sem þarna komust að, eru í samkrulli við bæði japönsk og kóreönsk fyrirtæki. Og Kínverjarnir eru í samstarfi við japanska fjármála- og hrávörurisann Mitsui & Co. Þannig að kannski má segja að það hafi allar nágrannaþjóðir Mongóla, ásamt vinum þeirra í Bandaríkjunum, fengið smá sneið af kökunni.

Stóru sigurvegararnir í kapphlaupinu um mongólsku kolaauðlindina eru engu að síður bandarísk, rússnesk og kínversk fyrirtæki. Það bendir sem sagt allt til þess að það verði tvær fyrirtækjasamsteypur auk Peabody Energy sem munu taka lokaslaginn um mongólsku kolanámurnar á austursvæði Tavan Tolgoi. Og þó svo Japan og S-Kórea hefðu viljað stærri skerf, þá eru það einkum fyrirtækin Vale, Xstrata og ArcelorMittal sem sitja með sárt ennið.

Mongolia_Tsakhia Elbegdorj-1

Rússnesku olígarkarnir Oleg Deripaska og Victor Vekselberg eru líka sársvekktir. Mongólskum stjórnvöldum þótti þeir félagarnir vera full vafasamir pappírar til að fá að vera með í lokaslagnum um þessar miklu náttúruauðlindir. Eða að mongólska forsetanum, honum Tsakhiagiin Elbegdorj, hafi bara ekki þótt þeir Deripaska og Vekselberg vera nógu stórir kallar til að taka þátt í svona risaævintýri.

Þetta sýnir okkur að jafnvel stærstu fyrirtæki heimsins og mestu auðmenn samtímans vinna ekki alltaf. En þeir vesalingar sem urðu útundan í þetta sinn, mega samt ekki missa móðinn. Því þó svo umrædd risafyrirtæki og ólígarkar hafi þarna misst af einhverjum allra stærstu kolasvæðum veraldarinnar, er ennþá af nógu að taka í Mongólíu. Landið hefur nefnilega líka að geyma mestu ónýttu gullsvæði heimsins og sömuleiðis er þar að finna nokkrar stærstu úrannámur veraldarinnar - sem flestar eru ennþá nær ósnertar.

Mongolia-coal-mine-6

Peabody og félagar sigruðu þessa mikilvægu lotu. Það merkir þó ekki að endanlegir samningar séu í höfn. Þar að auki munu þessir risar, þó stórir séu, ekki stille og roligt geta tiplað inní Mongólíu og drifið sig í að skafa gróðann burt. Því þótt vitað sé að umræddur hluti Tavan Tolgoi hafi að geyma meira en milljarð tonna af kolum, sem munu standa undir margra áratuga vinnslu, er langt í land með að þessi ofurvinnsla fari af stað.

Svæðið liggur djúpt inni í suðurhluta Góbí-eyðimerkurinnar og svo til engir innviðir eru fyrir hendi. Þarna vantar bæði vegi, járnbrautir, rafmagn, vatnsveitur og annað sem nauðsynlegt er til að hlutirnir komist í gang. Og frá vinnslusvæðunum eru meira en 1.500 km í næstu höfn (sem er í Kína, en frá Tavan Tolgoi eru 4.500 km í rússneska höfn). Þarna verður því þörf á sannkölluðum risafjárfestingum áður en kolamolarnir fara að hreyfast.

Mongolia-coal-mine-2

Samningarnir um þetta eina svæði innan Tavan Tolgoi munu þýða gríðarlega fjárfestingu í Mongólíu. Álitið er að allt að 7 milljarða USD þurfi bara í vegi, járnbrautir, háspennulínur o.þ.h. til að sjálf kolavinnslan geti hafist. Fyrirtækin eru sem sagt að taka þátt í risaveðmáli um þróun kolaverðs í framtíðinni. Áhættan er veruleg - en sömuleiðis er ávinningsvonin mikil.

Nefna mætti fyrirtækið Ivanhoe Mines sem dæmi um hvað getur gerst þegar fyrirtæki fær vinnsluleyfi í Mongólíu. Fyrir örfáum árum fékk Ivanhoe leyfi til að vinna gull og kopar í landinu - og á tveimur árum rúmlega fimmfaldaðist hlutabréfaverð fyrirtækisins. Aðgangur að náttúruauðlindum Mongólíu getur sem sagt jafngilt einhverjum stærsta lottóvinningi sem hægt er að hugsa sér.

Mongolia-roads

Kolasvæðin sem nú er verið að úthluta eru einungis lítill hluta af öllum kolaauðlindunum í Tavan Tolgoi. Samtals er þetta rosalega kolasvæði allt talið hafa að geyma á bilinu 6-7,5 milljarða tonna af kolum. Sem geti skilað árlegri framleiðslu upp á tugi milljóna tonna í meira en 150 ár. Samhliða samningunum við stóru erlendu orku- og hrávörufyrirtækin, eru mongólsk stjörnvöld að undirbúa kolavinnslu á öðru svæði þarna í grenndinni, sem verður í höndum ríkisfyrirtækisins Erdenes Tavan Tolgoi. Þar er nú stefnt að hlutafjárútboði sem áætlað er að skili allt að 10 milljörðum USD! 

Mongolia-US_Sukhbaatar-Batbold_Joe-Biden

Það er sem sagt allt að gerast þarna í mongólsku eyðimörkunum þessa dagana. Og það er gaman að sjá að bandaríska Peabody ætlar sér aldeilis ekki að láta sér þetta tækifæri sér úr greipum renna. Og vegna bandaríska Peabody skal tekið fram, að síðan kommúnistastjórnin i Mongólíu missti völdin i kjölfar falls Sovétríkjanna, hefur Bandarikjastjórn verið í afar nánu sambandi við mongólsk stjórnvöld. Það er því kannski ekkert skrítið að Peabody Energy hafi hlotið náð fyrir augum Mongólanna.     

Það er líka greinilegt að Peabody nýtur góðs stuðnings frá bandarískum stjórnvöldum, enda fá fyrirtæki jafn öflug í lobbýismanum í Washington DC. Til marks um þetta má nefna að sjálfur varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, var nýverið mættur til Mongólíu að hrista spaðann á ráðamönnum þar. Og fékk í staðinn fallegan mongólskan hest að gjöf.

Mongolian_Horse_Rider

Þar með er loks komin íslensk tenging við Tavan Tolgoi. Því mongólski hesturinn er ekki svo ósvipaður þeim íslenska. Enda munu vera uppi kenningar um að hann sé einmitt forfaðir íslenska hestsins og hafi á sínum tíma borist frá Mongólíu til Noregs í gegnum Rússland. Skemmtilegt.

En nú verða lesendur Orkubloggsins bara að bíða spenntir og sjá hvort og hvenær mongólska þingið samþykki samningana við Peabody og félaga. Upplýsingar þar um hljóta að birtast jafnskjótt á hinum leiftrandi skemmtilega vef Tavan Tolgoi. Alveg þess virði að kíkja þar inn á hverjum einasta morgni.


Kolaiðnaður í Paradís

Peabody Energy logo-3

Manni nánast vöknar um augu. Þegar gamli sveitasöngvarann John Prine minnist óspjallaðrar sveitasælunnar við Grænuá í Kentucky. Gömlu paradísarinnar sem bandaríski kolaiðnaðurinn og kolanámur Peabody Energy eru fyrir löngu búin að eyðileggja:

And daddy won't you take me back to Muhlenberg County,
down by the Green River where Paradise lay?
Well, I'm sorry my son, but you're too late in asking,
Mister Peabody's coal train has hauled it away.

green-river-kentucky-1

Já; Orkubloggarinn verður ansið meyr þegar kántrý-smellurinn Paradise hljómar úr spilaranum. Smábærinn Paradise við Green River í Muhlenberg-sýslu í Kentucky er löngu horfinn af yfirborði jarðar. Þar er ekkert eftir. Nema fáeinir gamlir legsteinar, þar sem kirkjugarður bæjarins var.

Síðustu íbúar Paradísar hurfu á braut þegar bandarísk yfirvöld létu jafna bæinn við jörðu árið 1967. Það var gert vegna hrikalegrar mengunar frá kolaorkuveri þar í nágrenninu; Paradise Fossil Plant. Dag og nótt jós orkuverið, sem kennt var við sjálfa Paradís, brennisteinsmenguðum útblæstri sínum yfir bæinn. Þarna brunnu endalausir kolahaugarnir, sem lestirnar báru frá námum kolavinnslufyrirtækisins Peabody í Appalachiafjöllum og nágrenni.

Coal-Paradise-1

Og kolunum er ennþá brennt á fullu í Paradise Fossil Plant. Þvi þó svo bærinn Paradise sé nú löngu horfinn, þá lifir orkuverið góðu lífi. Þetta risastóra kolaorkuver er í dag um 2.300 MW og framleiðir litlar 14 TWst af rafmagni árlega. Sem er nokkru meira en öll raforkuver Landsvirkjunar til samans. Eða álíka mikið eins og þrjár Kárahnjúkavirkjanir. Nema hvað Kárahnjúkavirkjun og önnur íslensk raforkuver brenna jú ekki kolum. Og eru því óneitanlega talsvert betri kostur en bandarísku kolaorkuverin!

Paradise Fossil Plant er stærsta orkuverið í Kentucky-fylki. Kentucky er vel að merkja víðfrægt kolavinnslusvæði. Um 95% af öllu rafmagni fylkisins kemur frá kolabruna. Samtals framleiða kolaorkuverin bara í Kentucky einu um 90 TWst á ári. Sem er vel rúmlega fimmfalt meiri raforkuframleiðsla en öll orkuverin á Íslandi skila af sér.

John-Denver-Singing-3

Í gegnum tíðina hafa gamalgróin kolavinnslufyrirtæki eins og Peabody Energy jafnt og þétt skóflað upp kolunum og um leið slátrað friðsælum skógivöxnum hæðunum og fjalllendinu eftir endilöngum eystri hluta Bandaríkjanna. Þar má nefna svæði í fylkjum eins og Kentucky, Pennsylvaníu og síðast en ekki síst í Vestur-Virginíu.

"Almost heaven, West Virginia... mountain mama, take me home, country roads". Það verður ekki mikið fallegra en þetta dásamlega gæsahúðarlag ljúflingsins og náttúru-unnandans John's Denver. En þessi óður Denver's heitins til náttúrunnar í Vestur-Virginíu er sjálfsagt Peabody lítt að skapi. Því einhver mestu kolasvæði Bandaríkjanna er jú að finna innan Vestur-Virginíu, rétt eins og í Kentucky. Og kolaiðnaður og náttúruvernd eiga litla samleið.

coal_train-1

Samtals standa kol nú undir hvorki meira né minna en u.þ.b. 48% af allri raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Og áfram halda ofvaxnar risaskurðgröfur kolafyrirtækjanna að skafa burtu skóginn og fjöllin. Og moka upp kolahaugunum, sem knýja stóran hluta af efnahagskerfinu þar vestra. Frá kolasvæðunum liggur stanslaus straumur járnbrautalesta, hver með tugi vagna smekkfulla af kolum. Jafnvel á okkar grænu tímum er kolaiðnaðurinn áfram á fullri ferð, rétt eins og ekkert hafi í skorist. Þrátt fyrir að kol séu langversti orkugjafinn út frá bæði umhverfis- og heilsusjónarmiðum, bendir flest til þess að kol verði áfram helsti orkugjafi mannkyns. Ekki aðeins alla þessa öld heldur jafnvel einnig þá næstu!

EIA_Electricity2011_2008-2035

Það vill jú svo til að kol eru ódýrasti raforkugjafinn í veröld okkar. A.m.k. ef umhverfis- og heilsutjón sem fylgir kolagreftri, -vinnslu og kolabruna er ekki tekið með í reikninginn. Og það er ennþá til ofboðslega mikið af kolum út um veröld víða. Þess vegna gerir t.a.m. upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) ráð fyrir því að kol verði enn um langa framtíð mikilvægasti orkugjafi mannkyns. Meira að segja stóraukin gasvinnsla, sem hefur skilað sér í verulegum verðlækkunum á gasi, er ekki talin ógna yfirburðastöðu kolaiðnaðarins.

Í dag er hlutdeild kolanna í raforkuframleiðslu heimsins um  40%. Og í nýjustu orkuspá EIA er gert ráð fyrir að árið 2035 verði hlutfallið nánast óbreytt; hafi einungis lækkað um örfá prósent og nemi þá 37% allrar raforkuframleiðslu heimsins. Og að kol verði áfram þýðingarmesti raforkugjafinn, jafnvel þó svo bæði gas og endurnýjanleg orka klípi aðeins af kolunum. 

EIA_Electricity_2011_Non-OECD_1990-2035

Raforkunotkunin í heiminum öllum er nú samtals um 19.100 TWst á ári, en því er spáð að árið 2035 verði hún 35.200 TWst. Þetta er 84% aukning. Mestöll sú aukning verður, skv. spá EIA, utan Vesturlanda og þá sérstaklega í Kína. En þó svo Kínverjar leggi mikla áherslu á t.a.m. bæði vindorku og sólarorku, þá eru það blessuð kolin sem munu standa undir stærstum hluta aukinnar raforkuframleiðslu í Kína.

Í sjálfum Bandaríkjunum mun notkun á kolum aftur á móti fara heldur minnkandi hlutfallslega séð. Skv. spám EIA munu kolin í raforkumengi USA minnka úr núverandi 48% og niður í 43% sem hlutfall af raforkuframleiðslu viðmiðunarárin 2008 og 2035. Í spánni er gert ráð fyrir að sá orkugjafi sem fylli þetta skarð verði aðallega gas, en einnig vindorka. Kol verða þó enn sem fyrr mikilvægasti raforkugjafinn i Bandaríkjunum.

Coal_open-pit-mine

Svona spár eru auðvitað mjög óvissar. En vert er að hafa  huga að bandaríski kolaiðnaðurinn er með eitthvert öflugasta lobbýistagengið í Washington DC. Fyrir vikið tala pólítíkusarnir þar vestra lítt um neikvæð umhverfisáhrif kolaiðnaðarins. En þeim mun meira um tækifærin i clean coal og að brátt verði kolaorkan nánast orðin skærgræn!

Þetta er sérstaklega skemmtilegt þegar haft er í huga að í gegnum tíðina hefur Peabody jafnan barist með kjafti og klóm gegn sérhverri nýrri umhverfislögjöf sem komið hefur til tals westur í Washington DC. Tímamótalöggjöf um að draga úr brennisteinsmengun frá kolaorkuverum (Clean Air Act) náði nú reyndar samt í gegn. Þrátt fyrir all svakalega andstöðu Peabody. Þeir vinna ekki alltaf, blessaðir.

Peabody_Coal-mine_ Queensland- Australia_Millennium-mine

Það er annars af Peabody Energy að frétta, að í dag er fyrirtækið stærsta einkarekna kolavinnslufyrirtæki veraldar.  Kolin frá Peabody knýja nú u.þ.b. 10% af allri raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Og þegar litið er til heimsins alls nemur raforkan frá kolum Peabody um 2% af allri raforku sem framleidd er á jörðu hér.

Í fyrra voru tekjur Peabody rétt um 7 milljarðar USD og hagnaðurinn hvorki meira né minna en rúmlega 1,8 milljarðar dollara. Fyrirtækið beitir nú öllum sínum áhrifum til að sannfæra bandaríska þingmenn og stjórnvöld um að samþykkja nýja orkustefnu, sem leggi megináherslu á að nýta bandarísk kol í enn meira mæli en hingað til hefur verið gert. Og að stefnt skuli að því að kolanotkun í Bandaríkjunum tvöfaldist fyrir árið 2025.

Coal-Peabody-1-b

Í reynd verður þó vöxtur Peabody næstu árin sennilega mestur lengst austur í Asíu. Auk Bandaríkjanna er Peabody löngu orðið umsvifamikið í Ástralíu og fer hratt vaxandi í Kína. Að auki stendur nú til að fyrirtækið opni brátt einhverja allra stærstu kolanámu heims austur í Mongólíu. Þar er nefnilega að fara í gang ofsalegasta kolaævintýra allra tíma! Þar munu Peabody og félagar brátt geta sönglað "Almost heaven, South Mongolia!".  Kannski meira um það magnaða Mongólíu-verkefni síðar hér á Orkublogginu.

Höfum hugfast að kol eru langmikilvægasti raforkugjafinn. Og að svo verður að öllum líkindum um langa framtíð. Það má því segja, að það sé svo sannarlega langt í frá að kolaiðnaðurinn sé á leið úr Paradís. Og varla ástæða til annars en að kolavinnslurisinn Peabody eigi bjarta framtíð fyrir höndum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr.


Gullæði í Yukon

Hver man ekki eftir þeirri frábæru Chaplin-mynd Gullæðinu! Þegar Big Jim, hinn frjálslega vaxni vinur litla flakkarans, sturlaðist af hungri. Og ætlaði að slátra Chaplin og éta hann í hrörlegum kofanum úti í óbyggðum Klondike.

chaplin-_big-jim.jpg

Til allrar hamingju náði litli flakkarinn að koma vitinu fyrir langhungraðan félaga sinn. Og svo loksins bar gullleitin árangur. Þeir félagarnir fundu heilt gullfjall; "GOLD, GOLD, a mountain of gold!"

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að i þessu geggjaða gullæði lengst norður í Klondike í Kanada í lok 19. aldar, mun aldrei hafa fundist nein almennileg gullæð. Og auðvitað ennþá síður heilt gullfjall. Heldur bara smámolar og agnir á víð og dreif. Þetta er engu að síður eitthvert frægasta gullæðið sem um getur. Og  Klondike löngu orðið samnefnari yfir það þegar æðisgengin ágóðavon myndast hjá hópi fólks. 

Gullæðið í Klondike fyrir rúmum hundrað árum, í nágrenni við bæinn Dawson í Yukon á mörkum Alaska og Kanada, var svo sannarlega æðisgengið. Jafnskjótt og fréttist af gullmolunum sem fundist höfðu í s.k. Kanínulæk (Rabbit Creek) í Yukon síðsumars árið 1896, tóku vongóðir gullgrafarar að streyma á svæðið. Rabbit Creek var í snarhasti umskírður Bonanza Creek. Og á örskömmum tíma óx íbúafjöldi Dawson úr nokkrum vesælum drottinssauðum í um 40 þúsund manna gullgrafaraborg!

klondike-dawson-historical-2.jpg

Þar með varð Dawson nánast á svipstundu stærsta borgin í vesturhluta Kanada. Og t.a.m. fjölmennari en sjálf Vancouver. Það furðulegasta er að Dawson og Klondike urðu þó alls ekki villta norðrið. Kanadísku riddaralögreglunni tókst nefnilega á einhvern ótrúlega farsælan hátt að halda uppi lögum og reglu í þessu nýja og gríðarlega fjölmenna samfélagi gullgrafaranna.

Gullæðið þarna í Klondike fyrir meira en öld síðan varð á tímum mikils atvinnuleysis í Bandaríkjunum. Árið 1893 hafði hlutabréfabóla í járnbrautarfyrirtækjum sprungið með tilheyrandi risaafskriftum og bankagjaldþrotum (svoleiðis áföll af völdum gáleysilegra lána banka til braskara eru nefnilega engin nýlunda í blessuðum kapítalismanum!). Þessari bankakreppu fylgdi verðfall á hrávörum eins og hveiti og baðmull, en verðfallið hafði þá keðjuverkun að fjöldagjaldþrot urðu meðal bandarískra bænda. Loks varð stórfelld en misheppnuð spákaupmennska með silfur á þessum sama tíma, til að auka enn á kreppuna. Sjaldan er ein báran stök.

Álitið er að þessi djúpa efnahagslægð í Bandaríkjunum í lok 19. aldar hafi valdið hátt í 20% atvinnuleysi þegar mest varð! Enda fór svo að um leið og fréttist af gullfundinum í Klondike árið 1896 streymdu þúsundir og aftur þúsundir Bandaríkjamanna af stað þarna óralangt í norður. Í von um að bjarga bágum fjárhagnum.

kondike-chaplin-chilkoot-trail-2.jpg

Einnig komu hópar ævintýramanna frá Evrópu og bættust þeir í fjöldann á leið sinni til Yukon. Sumir gullgrafararnir fóru sjóleiðina til Alaska og svo upp með Yukon-ánni. Aðrir fóru landleiðina og um hið fræga Chilkoot-skarð. Skarðið sem Chaplin gerði ódauðlegt í áðurnefndri kvikmynd sinni; The Gold Rush frá 1925.

Og svo sannarlega var gull í Klondike. Og uppsveiflan sem það olli í Bandaríkjunum nægði til að fleyta landinu áfram - um skeið. Eða fram að næstu efnahagsdýfu, sem varð árið 1907. En þá sprakk koparbóla í andlitið á fjölmörgum bandarískum bönkum, sem lánað höfðu gáleysislega í spákaupmennsku með hlutabréf í koparfyrirtækinu United Copper. Jamm; svona gengur blessaður kapítalisminn í hringi og virðist aldrei geta haldið sig lengi innan skynsamlegra marka. Og ennþá síður lært af reynslunni. En það er allt önnur saga. Í dag horfum við til gullsins í Klondike.

yukon-gold-map.jpg

Gullæðinu í Klondike var að mestu lokið árið 1899; einungis þremur árum eftir að það hófst. Aldamótaárið 1900 var íbúafjöldinn í Dawson kominn niður í um 5 þúsund manns og þar fækkaði áfram jafnt og þétt. Svæðið var að vísu áfram að einhverju leyti vettvangur gullleitar og -vinnslu. En í nútímanum er Dawson einungis um 1.200 manna bær. Sem síðustu árin og áratugina hefur fyrst og fremst verið þekktur sem ferðamannabær fólks í sumrafríi. Og einskonar safn um þennan furðulega tíma gullæðisins í Klondike fyrir meira en hundrað árum.

Gullæðið í Klondike er sem sagt löngu liðið. Eða hvað? Nú meira en öld eftir að gullgrafararnir héldu svo tugþúsundum skipti aftur heim frá Klondike, eru undarlegir atburðir að gerast þarna lengst norður í rassgati. Á allra síðustu árum hafa augu gullnámuiðnaðarins skyndilega á ný beinst að svæðunum í nágrenni Yukon-árinnar. Það virðist hreinlega sem nýtt gullæði sé byrjað í Klondike!

Til marks um hvað þetta svæði er afskekkt, þá er það t.d. óralangt norðan við barrskógana sem nú er verið að ryðja í Kanada til að skófla upp olíusandinum sem þar er að finna. En það magnaðasta í þessari enduruppgötvun á gullinu í Yukon er að hana virðist nær alfarið mega rekja til tveggja sveppatínslumanna. Sem eru kanadísk hjón á fimmtugsaldri; þau Shawn Ryan og Cathy Wood.

yukon-gold-shawn-ryan-2_1100192.jpg

Til skamms tíma bjuggu þau hjónakornin Shawn og Cathy ásamt ungum börnum sínum í hálfgerðum skógarkofa í fjalllendinu á mörkum Alaska og Kanada. Þar framfleyttu þau sér með því að tína eftirsótta matarsveppi, sem þau gátu selt til fínustu veitingahúsa suður í "menningunni". Shawn Ryan er sonur námuverkamanns frá Ontario-fylki í Kanada. Strákurinn tók snemma stefnuna á afskekkta staði þar sem grípa má í námavinnu eða önnur tilfallandi störf. Ævintýraleit Ryan's bar hann loks til Dawson í Yukon á tíunda áratugnum. Þar kynntist hann Kötu sinni og saman lifðu þau hálfgerðu villimannalífi þarna norður í auðninni og framfleyttu sér m.a. á sveppatínslunni.

En jafnvel sveppir eru háðir markaðslögmálunum. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í New York og Washington DC í september 2001 snarféll eftirspurnin eftir þessum stórfínu matarsveppum. Fyrir vikið steyptust nú blankheitin yfir fjölskylduna. Sem var ekki beinlínis það besta sem skeður, þegar vetur var að ganga í garð á slóðum þar sem frostið fer niður í allt að -50 gráður á celsius.

yukon-gold-shawn-ryan-3.jpg

Ryan hafði þá um skeið velt fyrir sér þeim möguleika hvort finna mætti einhverjar leifar af gulli á svæðinu. Þrátt fyrir lágmarksmenntun virðist sem hann hafi haft góðan sans fyrir jarðfræði og sé glöggur á að átta sig á því hvar gull sé helst að finna. Ryan var hugsi yfir því að gullæðið í Klondike hafði aðallega falist í gamaldags gulleit, þar sem menn sigta gullagnir og -mola úr árfarvegum. Þangað hefur gullið dreifst frá sjálfum gullæðunum í berginu, en í Klondike höfðu sjaldnast fundist neinar slíkar æðar. Ryan taldi að þarna hlyti ennþá að vera unnt að finna leifar af gulli og jafnvel einhverjar óraskaðar gullæðar - ef maður bara leitaði á réttum stöðum.

yukon-gold-5.jpg

Shawn Ryan lagðist nú yfir bunka af gömlum skýrslum um gullleitina fyrir meira en öld síðan. Og jafnskjótt og frost fór úr jörðu byrjaði hann, með þrjósku og útsjónarsemi að vopni, markvisst að leita að gulli á svæðinu. Þetta var sem fyrr segir uppúr aldamótunum síðustu - fyrir um áratug síðan. Ryan gerði uppdrátt af svæðinu og byrjaða að safna grjóti og jarðvegssýnum með afar skipulögðum hætti. Þessu öllu hlóð hann svo á pallbílinn í vandlega merktum pokum. Og skrölti svo með sýnishornin í rannsókn til bæjarins Whitehorse, sem er höfuðstaður Yukon og liggur langt suður af Dawson.

Og þá gerðist hið óvænta. Sum sýnishornanna höfðu að geyma svo mikið af gulli að grundvöllur gæti verið fyrir námavinnslu! Shawn Ryan hafði kortlagt sýnatökuna af nákvæmni og eyddi nú síðustu dollurunum sem til voru á heimilinu til að kaupa námuréttindi á nokkrum reitum. Þessi réttindi selja kanadísk stjórnvöld gegn vægu gjaldi. Það fyrirkomulag er í reynd hluti af byggðastefnu gagnvart þessum fámennu og hnignandi svæðum í norðanverðu Kanada. Hver reitur er venjulega 25 hektarar (500 metrar á kant). Menn hafa svo ákveðinn tíma til að nýta svæðið, en verða ella að skila leyfinu til baka.

yukon-gold-shawn-ryan-whitehorse.jpg

Nú er það vissulega svo að risafyrirtæki eins og Barrick Gold eða BHP Billiton eru auðvitað þau sem stjórna gullnámuiðnaðinum. Engu að síður er ennþá til það sem kannski mætti kalla venjulega old fashioned gullleitarmenn. Beri leit slíkra gullgrafara árangur er algengt að gullvinnslufyrirtækin eða spákaupmenn kaupi af þeim viðkomandi námuréttindi (þ.e. vinnsluréttindin á viðkomandi reit). Gegn mishárri greiðslu.

Slíkir samningar hljóða gjarnan þannig, að viðkomandi gullgrafari fái tilteknar prósentur af framtíðartekjum svæðisins. Reynist um góða gullnámu að ræða getur seljandinn (upphaflegi rétthafinn) orðið vellauðugur í fyllingu tímans. Oftast er árangur námuvinnslunnar og hagnaðurinn þó auðvitað ekkert óskaplegur og oft jafnvel enginn.

klondike_gold-nuggets_1100185.jpg

Námufyrirtækin kaupa auðvitað ekki hvað sem er. Og það er löng leið frá því að einmana sérvitringur finni merki um gull, þar til vinnsla fari í gang. Þarna í millitíðinni koma oft ýmis fyrirtæki og fjárfestar að verkefnunum í því skyni að sannreyna hverju svæðið kann að geta skilað. Og Shawn Ryan tókst einmitt að vekja athygli slíks fyrirtækis á einum reitnum og selja hlutdeild i honum fyrir dágóða upphæð. Þá peninga nýtti hann til að festa sér ennþá fleiri reiti. Að auki keypti hann hugbúnað til að geta kortlagt svæðið í tölvunni hjá sér, sem hjálpaði honum að átta sig betur á því hvaða svæði væru þau álitlegustu.

Fljótlega tókst Ryan að finna fleiri áhugaverð svæði. Og það eru jafnvel vísbendingar um að hann hafi fundið stóra gullæð í nágrenni við Yukon-fljótið. Samhliða þessum góða árangri fór gullverð jafnt og þétt upp á við, þ.a. að áhugi námufyrirtækja og fjárfesta á vænlegum gullvinnslusvæðum óx hratt. Með sölu á hlutdeild í fleiri reitum til námufyrirtækja eru þau hjónakornin nú skyndilega orðin milljónamæringar í dollurum talið. Og reynist einhver náman almennilega ábatasöm, munu samningar um hagnaðarhlutdeild hugsanlega gera þau að milljarðamæringum!

Ryan-Gold-Corp-2

Nýlega fluttu þau Shawn Ryan og spúsa hans með krakkana suður til Whitehorse. Þar hafa þau nú stofnað fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf við gullleit, með þátttöku nokkurra fjárfesta. Ekki virðist ofmælt að Shawn Ryan sé nánast orðin lifandi goðsögn í Yukon-fylki. Og hann getur leift sér að brosa í kampinn þegar hann er minntur á að samanlagðir reitirnir sem þau hjónin hafa tryggt sér, eru nú orðnir stærri að flatarmáli en Luxembourg. Mörg af þeim svæðum eru talin hafa að geyma talsvert af vinnanlegu gulli. Enda streymir nú fjöldi fyrirtækja inn á svæðin í nágrenni Yukon-árinnar. Og mörg þeirra fyrirtækja hafa sóst eftir samstarfi við Ryan og þau hjón.

Já - það lítur hreinlega út fyrir að nýtt gullæði sé skollið á í Klondike. Fjölmörg námufyrirtæku eru komin á svæðið og stjórnvöld hafa vart undan við að stimpla leyfi um námuréttindi. Shawn Ryan er í dag forstjóri og stór hluthafi í Ryan Gold, sem skráð er í TSXV  kauphöllinni í Calgary. Að auki eiga þau hjónin hlut í fjölmörgum gullleitar- og vinnsluleyfum, sem ýmis námufyrirtæki og/eða spekúlantar hafa keypt hlutdeild í.

yukon-gold-4.jpg

Ennþá er þó ekki útséð um hvort þetta ævintýri norður í Yukon verði bara nýtt 3ja ára Klondike eða varanleg alvöru námuvinnsla. Hækkandi gullverð síðustu árin hefur eðlilega ýtt undir áhuga gullnámuiðnaðarins. Ómögulegt er að segja hvað gerist ef/þegar gullverð fellur verulega á ný. Kannski á nýja gullæðið í nágrenni Klondike eftir að skila Kanada fjölmörgum nýjum milljarðamæringum - en kannski fjarar það bara hægt og rólega út. Enn sem komið er byggir ævintýrið þarna í auðnum Kanada fyrst og fremst á væntingum og engan veginn víst hvað verður.

Til eru þeir sem eru tortryggnir á þetta nýja gullæði og segja það einkennast af alltof mikilli bjartsýni. En Shawn Ryan þykir engu að síður vera afbragðsgott dæmi um hvernig gamla góða Vestrið (eða Norðrið!) býður enn þann dag í dag upp á tækifæri fyrir harðduglegt fólk. Fólk sem með þolinmæði, þekkingu og þrautsegju sína að vopni getur náð hreint mögnuðum árangri.

klondike_gold-rush-old.gif

Íbúar Dawson og fleiri bæja í Yukon upplifa nú óvænta veltuaukningu og eftirspurn eftir bæði húsnæði og vinnuafli. Það eru sem sagt lítil merki um kreppu þarna norður í strjálbýlustu en einhverjum sumarfegurstu héruðum Kanada. Hafi lesendur Orkubloggsins hug á því að freista gæfunnar sem gullgrafarar í Yukon, er þó vert að hafa í huga að þarna er skelfilega mikill kuldaboli á veturna. Og því eins gott að taka með sér bæði almennilega þykka íslenska dúnsæng og lopapeysu! Eða einfaldlega bíða næsta vors.

 


Sólsetur á Vesturlöndum enn á ný?

Orkubloggið hóf göngu sína snemma árs 2008.

Þá voru miklir uppgangstímar í endurnýjanlegri orku. Svo um haustið kom efnahagsskellurinn í Bandaríkjunum; olíuverð snarféll og dró allan græna orkugeirann með sér í svaðið. Svo varð Obama forseti í Bandaríkjunum, bandarísk stjórnvöld hófu að dæla peningum í endurnýjanlega orku og á sama tíma byrjuðu hlutabréfamarkaðir að rétta úr sér.

Solar-stocks-Sept-30-2011

Nú virðist aftur á móti sem allt sé aftur að fara niður á við. Spár um double-dip kreppu gætu gengið eftir. Vantrú á efnahagslífinu er byrjuð að valda verðfalli á olíu og um leið fær endurnýjanlegi orkugeirinn högg. Við þetta bætast svo raðgjaldþrot í bandaríska sólarorkuiðnaðinum - og sólarorkufyrirtæki í Evrópu eiga líka sum í verulegum vandræðum. Kínversk sólarsellufyrirtæki hafa síðustu misserin og árin undirboðið vestrænu fyrirtækin all svakalega og svo virðist sem kínverski sólarselluiðnaðurinn sé hreinlega að gleypa heimsmarkaðinn.

Sem dæmi um nýleg gjaldþrot má nefna hrun Solyndra og Sterling Energy Systems vestra. Meira að segja norska spútnikfyrirtækið REC virðist í vandræðum. Og það er ekki nóg með að þetta þýði skell á verðbréfamörkuðum. Sjálft Hvíta húsið nötrar nú vegna gagnrýni á framkvæmd orkustefnu Obama-stjórnarinnar. Mörg sólarorkufyrirtæki og önnur fyrirtæki í endurnýjanlega orkugeiranum nýttu sér ríflegar skuldatryggingar í boði stjórnvalda. Og náðu þannig að fjármagna verkefni sem annars hefðu orðið ansið þung. Gjaldþorot Solyndra gæti þýtt að um 530 milljóna USD ábyrgð falli á bandaríska ríkið. Ef þetta er bara toppurinn á ísjakanum - eða upphafið að dómínófalli í græna orkugeiranum - er mikil dramatík framundan.

Stirling-Energy-Suncatcher

Það er svolítið sérstakt að ríkisafskipti af orkugeiranum eru óvíða meiri en í vöggu einkaframtaksins; Bandaríkjunum. Og þarna kunna menn að hafa farið full geyst. Sjálfur hefur Orkubloggarinn hér á blogginu ítrekað minnst á þann möguleika að hrunið sem varð í bandarískra orkugeiranum upp úr 1980 geti endurtekið sig. Þá var opinberu fé einmitt líka dælt í sólarorkutækni og margs konar önnur frumkvöðlaverkefni í orkumálum. Sólarsellur voru settar á Hvíta húsið, risastór speglasólarorkuver voru reist með aðstoð hins opinbera útí Mojave-eyðimörkinni og nú skyldu Bandaríkin hrista af sér fíkn sína í innflutta olíu. Þetta fór allt um koll um leið og þrengdi að í efnahagslífinu og olíuverð lækkaði.

SOLAR-1-articleLarge

Það er þetta stef sem virðist vera að endurtaka sig nú þremur áratugum síðar. Enda virðast menn aldrei geta lært af fyrri mistökum. Spurningin er bara hversu fallið verður mikið í þetta sinn? Eitt er þó nokkuð víst. Græni orkugeirinn mun rísa upp á ný - og verða blómlegri sem aldrei fyrr. Þar til bólan springur aftur. Það eru einmitt þessar miklu sveiflur í endurnýjanlega orkugeiranum sem gera hann alveg sérstaklega spennandi og skemmtilegan viðfangs.


ExxonMobil í gersku ævintýri?

Rosneft-growth-1993-2010

Rússneska ríkisolíufélagið Rosneft hefur vaxið með ævintýralegum hraða síðustu árin.

Rosneft er í dag langstærsta olíufélagið í Rússlandi. En fyrir einungis örfáum árum var Rosneft nánast bara eins og hvert annað smápeð innan um einkareknu hákarlana; orkufyrirtæki rússnesku olígarkanna.

Á tímum Sovétríkjanna og fyrstu árin eftir hrun þeirra var olíuiðnaðurinn þar eystra allur á hendi ríkisins. Þetta gjörbreyttist á tímum ofurhraðrar einkavæðingarinnar í Rússlandi á 10. áratugnum. Fljótlega eftir að Boris Jeltsín varð forseti hins nýja rússneska ríkis um mitt ár 1991, réðust Jeltsín og menn hans í víðtæka endurskipulagning á efnahagslífinu. Þar hafði ríkið verið allt i öllu, en nú hófst hröð einkavæðing og þ.m.t. voru nær öll helstu orkufyrirtæki landsins. Brátt var svo komið að hin einkareknu Yukos, SibneftLukoil og TNK réðu mestu í rússneska oliuiðnaðinum.

Yeltsin-Chernomyrdin

Eflaust var það þungavigtarmaðurinn Viktor Chernomyrdin sem var helsti arkitektinn að einkavæðingu rússneska orkugeirans. Chernomyrdin hafði verið ráðherra gasmála í sovéska stjórnarráðinui frá 1985. Og hann varð stjórnarformaður gasfyrirtækisins Gazprom þegar það var tekið út úr orkumálaráðuneytinu árið 1989 og gert að hlutafélagi í eigu ríkisins. Við fall Sovétríkjanna var Chernomyrdin því einhver valdamesti maðurinn í sovéska orkuiðnaðinum.

Fljótlega eftir valdatöku Jeltsin's var Chernomyrdin gerður að aðstoðarforsætisráðherra, með ábyrgð á orkumálum. Hann gjörþekkti rússneska orkugeirann og svo fór að það voru einmitt nokkrir samstarfsmenn Chernomyrdin's sem urðu hvað mest áberandi í einkavæðingu orkufyrirtækjanna. 

medvedev-chernomyrdin-award

Ferli Chernomyrdin's lauk aftur á móti snarlega við valdatöku Vladimir Pútín's um aldamótin 1999/2000. Pútín setti þá Chernomyrdin af sem stjórnarformann Gazprom og skipaði í hans stað lítt þekktan mann; Dmitry nokkurn Medvedev. Medvedev átti fljótlega eftir að verða lykilmaður í rússneskum stjórnmálum; varð forsætisráðherra Rússlands og er nú forseti landsins. Skemmtilegt. Nokkrum árum síðar átti hann svo eftir að hengja heiðursmerki á Chernomyrdin fyrir vel unnin störf fyrir Rússland. Engu að síður var frávikningin úr stóli stjórnarformanns Gazprom niðurlægjandi fyrir Chernomyrdin, sem lauk ferli sínum sem sendiherra Rússlands í Úkraínu. Kannski var það huggun harmi gegn að hann hafði þá önglað saman yfir einum milljarði dollara í sinn eigin vasa - í gegnum hlutabréf í Gazprom.

Time-cover-Yeltsin-1991

En höldum okkur við einkavæðinguna á rússnesku orkufyrirtækjunum. Sem fór fram í stjórnartíð Jeltsín's - og Chernomyrdin's. Í fyrstu var einkavæðingin framkvæmd með því móti, að hver ríkisborgari fékk hlut eða kauprétt í viðkomandi fyrirtækjum. Í framhaldinu gerðist það, að menn með góðan aðgang að fjármagni keyptu þessa litlu hluti í stórum stíl. Og eignuðust þannig brátt ráðandi hlut í mörgum fyrirtækjanna.

Þegar leið fram á miðjan 10. áratuginn var tekin upp ný aðferð við einkavæðinguna. Forsetakosningar nálguðust (2006), en rússneska ríkið var illilega fjárvana og rekið með miklum halla. Þá var gripið til þess ráðs að ríkið óskaði eftir lánum gegn veðum í hlutabréfum í útvöldum ríkisfyrirtækjum (á ensku var þetta nefnt loans for shares program). Á þessum tímapunkti hafði tiltölulega lítill hópur manna náð sterkum tökum á rússnesku efnahagslífi og ekki síst fjármálalífinu. Flestir voru þeir fyrrum embættismenn í lykilstöðum og/eða í innsta hring samstarfsmanna Jeltsin's. Þeir sáu sér nú leik á borði að nýta sér ráðandi stöðu sína innan hins einkavædda bankakerfis og tengsl sín við erlenda banka, til að fjármagna lánveitingar sínar til rússneska ríkisins gegn veðum í nokkrum mikilvægustu ríkisfyrirtækjum landsins. Þ.á m. voru flest stærstu orkufyrirtækin.

Að vísu höfðu stjórnvöld sett reglur í tengslum við lánaútboðið, sem áttu að tryggja að þessi fjármögnunarleið myndi ekki leiða til of mikillar samþjöppunar valds í efnahagslífinu. Reglurnar voru tvenns konar. Annars vegar skyldi tilboðsferlið vera opið og gagnsætt, þ.a. að allir áhugasamir kæmust þar að. Hins vegar var sett hámark á hversu stóran hlut í ríkisfyrirtækjunum hver lánveitandi gæti fengið veð í. Þetta síðastnefnda átti að koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds, ef lánin gjaldféllu og gengið yrði að veðunum.

Boris-Yeltsin-bw

Þegar á reyndi héldu þessi skilyrði auðvitað ekki vatni. Því í fyrsta lagi gátu menn stofnað mörg félög og látið hvert og eitt þeirra bjóða lánsfé gegn hámarksveði - og þannig safnað fjölda veða í sama ríkisfyrirtækinu á eina og sömu hendi. Í öðru lagi reyndist nánast engin samkeppni vera um að bjóða ríkinu lánsfé! Það var líklega þarna sem spillingin varð hvað mest áberandi. Einstakir menn eða hópar samstarfsmanna einbeittu sér að mismunandi fyrirtækjum og virtist jafnvel sem sú klíkustarfsemi ætti sér stað með þegjandi samþykki ríkisins.

Niðurstaðan varð sú að mörg helstu fyrirtæki Rússlands, þ.á m. flest stærstu og mikilvægustu orkufyrirtækin, urðu brátt alfarið á valdi örfárra manna. Þeir hinir sömu urðu svo fljótlega hinir formlegu eigendur orkufyrirtækjanna, því í flestum tilvikum gjaldféllu lánin og þá runnu fyrirtækin til lánveitandanna. Sem sjálfir höfðu útvegað lánsféð með aðgangi sínum að rússneskum einkabönkum og erlendum bönkum.

Boris-Berzovsky_Roman-Abramovich

Eitthvert besta dæmið um þetta er hvernig tveir menn eignuðust þáverandi annað stærsta olíufélag Rússlands;  Sibneft. Þrátt fyrir reglur um gagnsætt útboðsferli og markmið um dreifða veðhafa, náðu þeir tilvonandi  Íslandsvinurinn Roman Abramovich og viðskiptafélagi hans Boris Berezovsky að eignast meirihluta í Sibneft. Bæði Abramovich og Berezovsky voru vel að merkja nánir samstarfsmenn Jeltsin's. Og verðið fyrir þennan rúmlega helmingshlut í Sibneft var einungis um 100 milljónir USD, þó svo fyrirtækið væri þá af flestum álitið nokkurra milljarða dollara virði. Þeir félagarnir þáverandi voru sem sagt með besta boðið um lán til ríkisins gegn veði í hlutabréfum í Sibnef; lán upp á einungis um 100 milljónir USD gegn veði í um helmingshlut í þessu risafyrirtæki. Af einhverjum dularfullum ástæðum bauð þar enginn betur.

Svipað gerðist með annað ennþá frægara rússneskt olíufélag, Yukos. Einnig komst Lukoil í einkaeigu. Það var hinn bráðungi Mikhail Khodorkovsky sem eignaðist Yukos og Vagit Alekperov varð stærsti eigandi Lukoil. Þeir voru báðir fyrrum aðstoðar-orkumálaráðherrar í ríkisstjórnum Rússlands og því nánir samstarfsmenn áðurnefnds Viktors Chernomyrdin. Loks náðu Mikhail Fridman og viðskiptafélagar hans í Alfa Group olíufélaginu TNK í sínar hendur. Fridman hafði þá um skeið verið í ýmsu samkrulli með nokkrum ráðherrum í ríkisstjórn Jeltsin's.

Roman-Abramovich-3

Þar með var rússneska ríkið búið að láta af hendi stærstan hluti rússneska olíuiðnaðarins til örfárra manna. Þeir áttu það flestir ef ekki allir sammerkt að hafa annað hvort verið hátt settir stjórnendur hjá sovéska framkvæmdavaldinu eða í innsta hring samstarfsmanna Borisar Jeltsín. Segja má að eina krúnudjásn orkugeirans sem var enn í höndum rússneska ríkisins hafi verið gasfyrirtækið Gazprom. Þar var rússneska ríkið ennþá stærsti hluthafinn, en var þó reyndar líka búið að selja meirihluta hlutabréfanna í Gazprom (hlutur ríkisins þar var á þessum tíma kominn undir 40%).

Sitt sýnist hverjum um það hversu mikil spillingin hafi verið í rússneska útboðsferlinu. Til eru þeir sem segja að þetta hafi reynst farsæl leið til að koma illa reknum félögum í lag. Það er vissulega staðreynd að einkavæðingin varð til þess að mörg rússnesku ríkisfyrirtækjanna sem höfðu verið að þroti komin, náðu nú að blómstra. Það er til marks um velgengnina að einungis örfáum árum síðar (2001) keypti Abramovich Berezovsky út úr Sibneft fyrir um 1,3 milljarða USD. Á þeim tíma var Berezovsky lentur illilega upp á kant við Pútín og var kominn í sjálfskipaða útlegð í London. Þar með varð lýðnum ljóst að Roman Abramovich var á örfáum árum orðinn einhver ríkasti maður veraldar. Rétt eins og Mikhail Khodorkovsky, aðaleigandi Yukos.

Russia-oil_Vagit-Alekperov-Lukoil_German-Khan-TNK _Mikhail-Khodorkovsky-Yukos _Eugene-Shvidler-Sibneft_2002

Það er kannski ekki hlaupið að því að einkavæða helstu ríkisfyrirtæki lands án þess að upp komi gagnrýni. Þetta gildir sjálfsagt bæði um Rússland og Ísland og eflaust fleiri lönd. En hvort sem rúsneska einkavæðingin var góð eða slæm, þá varð afleiðingin sú að á örskömmum tíma urðu örfáir menn handhafar að stórum hluta allra olíu- og gaslinda í Rússlandi. Nánast á augabragði varð til hin nýja stétt ofurauðugra manna í Rússlandi; s.k. ólígarkar.

Eftir stóð rússneska ríkið allsbert með sitt litla Rosneft. Meira að segja meirihlutinn í gasrisanum  Gazprom hafði verið einkavæddur og þar var rússneska ríkið orðið minnihlutaeigandi. Og það var eiginlega bara tilviljun að Rosneft hafði ekki lika verið selt. Á tímabili virtist vera ríkur vilji til að koma Rosneft úr höndum ríkisins, en einnig voru uppi áætlanir um að sameina fyrirtækið Gazprom. Á endanum varð ekkert úr þessu og rússneska rikið var því áfram eigandi að Rosneft. Félagið skipti hvort sem er litlu; það samanstóð af nokkrum lélegustu eignunum sem verið höfðu innan sovéska orkumálaraðuneytisins. Þarna var einungis um að ræða tvær úr sér gengnar olíuhreinsistöðvar og fáeinar hnignandi olíulindir.

yeltsin-putin-1

Skömmu fyrir aldamótin var sem sagt svo komið að örfáir menn höfðu stærstan hluta rússneska orkugeirans í sínum vösum. Árið 1998 fóru þar að auki að heyrast sögur um að þeir Abramovich og Khodorkovsky væru spenntir fyrir að sameina Sobneft og Yukos og búa þannig til langstærsta olíufélag Rússlands. Af þessu varð þó ekki, en þessar fyrirætlanir voru áfram í umræðunni. En þá gerðist það um áramótin 1999/2000 að ólíkindatólið Boris Jeltsín sagði skyndilega af sér sem forseti Rússlands. Og inn á sviðið steig fyrrum KGB-foringinn Vladimir Putin.  

Pútín tók strax að vinna að því markmiði að Kreml yrði á ný ráðandi í olíuiðnaði landsins. Fyrstu árin gekk þetta hægt. Khodorkovski, aðaleigandi og forstjóri Yukos, þráaðist við og fór meira að segja að skipta sér af stjórnmálum og gagnrýndi Pútín af talsverðri hörku. Þegar svo hreyfing komst á ný á sameiningu Yukos og Sibneft var Kremlverjunum orðið nóg boðið. Þarna hefði orðið til rosalegur olíurisi, sem hefði haft tögl og haldir í rússneska olíuiðnaðinum - og alfarið verið  í höndum einkaaðila. En þessar fyrirætlanir þeirra Khodorkovsky og Abramovich, sem þá voru tveir auðugustu menn Rússlands og þó víða væri leitað, gengu aldrei eftir.

mikhail-khodorkovsky-jailed

Nú fór í gang hröð atburðarás, sem líktist um margt mera skáldsögu en raunveruleikanum. Khodorkovski var handtekinn með dramatískum hætti síðla árs 2003, dæmdur í langa fangelsisvist og Yukos fór í gjaldþrot í kjölfar meintra stórfelldra skattsvika. Um sama leyti féllust nokkrir aðrir ólígarkar snarlega á að selja 12% hlut sinn í Gazprom til rússneska ríkisfyrirtækisins Rosneftgaz. Þar með var rússneska ríkið komið með yfirráð yfir meira en helmingshlut í Gazprom (fyrir þessa sölu hafði ríkið verið minnihlutaeigandi í Gazprom með rétt tæp 39%). Þarna urðu Gazprom og rússneska ríkið nánast eitt - og síðan þá hefur fyrirtækið verið eitthvert mesta valdatækið í öllum evrópska orkugeiranum.

Um sama leyti féllst Abramovich á að selja Sibneft til ríkisins. Hann fór vellauðugur frá þeim viðskiptum; fékk rúmlega 13 milljarða USD fyrir liðlegheitin. Sibneft var látið renna inní Gazprom og varð olíuarmur þessa mikilvægasta orkufyrirækis Rússlands (nafni Sibneft var breytt í Gazprom Neft).

Rosneft-moscow-red-square

Eftir gjaldþrot Yukos voru risaeignir þrotabúsins seldar og flestar fóru þær til Rosneft. Skyndilega var þetta netta rússneska ríkisolíufélag orðið stærsta olíufyrirtækið í Rússlandi! Þar með voru bæði Yukos og Sibneft komin í umráð Kremlar og að auki hafði rússneska ríkið tryggt sér meirihluta í Gazprom. Eignarhaldið á rússneska orkugeiranum hafði nánast umturnast í einni svipan og Pútin komin með öll orkuspilin á hendi.

Þetta er líklega einhver dramatískasta ríkisvæðing í orkugeiranum sem um getur í veraldarsögunni. Sumir hafa reyndar kallað yfirtöku Rosneft á eignum Yukos mesta rán sögunnar. Því verðlagningin á eignum þrotabús Yukos þótti meira en lítið vafasöm. Þessir gjörningar voru hart gagnrýndir - ekki bara af andstæðingum Pútín's heldur af fjölmörgum þekktum erlendum orkusérfæðingum. En hvað svo sem til kann að vera í þeim ásökunum, þá er rússneska ríkið nú aftur orðið höfuðpaurinn í olíuiðnaði Rússlands.

Rosneft-headquarters-moscow-1

Auk þess að ráða nú bæði Gazprom, gamla Sibneft og Rosneft, þá á rússneska ríkið einnig Transneft, en það fyrirtæki er eigandi að svo til öllum olíuleiðslum innan Rússlands. Og þó svo Lukoil og TNK (sem nú heitir TNK-BP) hafi fengið að vera í friði, er ljóst að Kremlverjar hafa náð yfirburðarstöðu í rússneska olíuiðnaðinum.

En jafnvel þó svo Rosneft sé orðið stærsta rússneska olíufélagið stendur það talsvert langt að baki alþjóðlegu risunum í orkuiðnaðinum; félögum eins og BP, ExxonMobil, Chevron eða Shell. Um skeið hefur ýmislegt bent til þess að í Kreml stefni menn að því að Rosneft vaxi áfram hratt, þ.a. félagið komist í hóp stærstu olíu- og orkufyrirtækja heimsins. Á tímabili var áætlunin bersýnlega að byggja upp náin tengsl við BP og jafnvel sameina Rosneft breska olíurisanum. En samstarfið við BP reyndist brösótt og að auki komu lagaflækjur í veg fyrir að BP gæti fjárfest í olíuvinnslu í Rússlandi í samstarfi við Rosneft.

Sechin_1Í vor varð svo endanlega ljóst að áætlanir um samstarf Rosneft og BP væru úr sögunni. Sumir töldu að þetta væri meiriháttar klúður af hálfu Rosneft, sem myndi kalla á hörð viðbrögð Kremlar. Á Vesturlöndum bjuggust menn jafnvel við því að nú myndu rússnesk stjórnvöld stokka upp spilin hjá Rosneft. Það var jafnvel farið að tala um að nýi orkukeisarinn Igor Sechin yrði settur af sem stjórnarformaður þessa rússneska olíurisa.

Þetta var orðið æsispennandi. Igor Sechin er vel að merkja ekki hver sem er. Líklega eru fáir ef þá nokkur í rússneska stjórnkerfinu sem hefur verið nánari Pútín. Sechin varð stjórnarformaður Rosneft árið 2004, nokkrum mánuðum eftir handtökuna á Khodorkovsky og skömmu áður en Rosneft keypti eignir Yukos. Hann hafði þá verið æðsti skrifstustjóri rússneska stjórnarráðsins allt frá þeim degi sem Pútin varð forseti (á gamlársdag 1999). Auk þess að vera stjórnarformaður Rosneft hefur Sechin líka verið aðstoðarforsætisráðherra í rússnesku ríkisstjórninni frá árinu 2008.

Samstarf Igor's Sechin við Pútín á sér reyndar ennþá lengri sögu. Sechin var háttsettur í St. Pétursborg á tíunda áratugnum þegar Pútín kleif þar upp metorðastigann, en þar varð Pútín meira að segja borgarstjóri um skeið. Þetta var einmitt á þeim tíma sem Björgólfur Thor og félagar hans voru að byggja upp bjórveldi í sömu borg. Þ.a. eflaust hefur Björgólfur Thor orðið var við þetta tvíeyki; tilvonandi forseta Rússlands annars vegar og tilvonandi stjórnarformann stærsta olíufélags landsins hins vegar.

Sechin_Putin-1

Segja má að alla tíð síðan hafi þeir félagarnir Pútín og Sechin gengið í takt og hönd í hönd upp allt rússneska stjórnkerfið. Síðustu árin hefur Sechin oft verið kallaður þriðji maðurinn í rússneskum stjórnmálum, en líka nefndur  Svarthöfði  eða Orkukeisarinn. Hann er sagður hafa gríðarleg völd og áhrif. Sechin er af mörgum talinn vera helsti arkitektinn að baki því hvernig Kreml náði undir sig eignum bæði Yukos og Sibneft. Það má svo sem vel vera að Igor Sechin muni senn víkja úr stjórnarformannssæti Rosneft. En enginn skal halda að það þýði að hann sé að missa raunveruleg völd. Þeir Pútin munu vafalítið áfram ráða öllu því sem gerist í rússsneska orkugeiranum. Ekki síst þegar hafðar eru í huga síðustu fréttir um að Pútín stefni nú aftur á forsetaembættið í Rússlandi.

Það er til marks um styrk þeirra félaganna að varla hafði BP dottið úr skaftinu sem tilvonandi samstarfsaðili Rosneft, að Rosneft var komið á fullt í viðræður við ennþá stærri olíufyrirtæki. Eftir leynilegar viðræður nú sumar gerðist það nefnilega á síðustu dögum ágústmánaðar (2011), að þeir félagarnir lönduðu einhverjum mest spennandi díl sem hægt var að hugsa sér fyrir Rosneft. Því hinn nýi vinur og félagi rússneska ríkisolíufélagsins er enginn annar en mikilvægasta afkvæmi  Standard Oil hans John's D: Rockefeller; sjálfur höfuðpaur kapítalismans: ExxonMobil.

Sechin_Rex-TillersonÞað að ExxonMobil með Texas-manninn Rex Tillerson í fararbroddi yrði helsti samstarfsaðili Rosneft kom mörgum mjög á óvart. Félögin hafa áður unnið saman, en langt í frá að það hafi verið í bróðerni. ExxonMobil og Rosneft hafa nefnilega síðustu 15 árin unnið að einhverju metnaðarfyllsta olíu- og gasverkefni veraldar við Sakhalin-eyju, austast í Rússlandi. Þar hafa fyrirtækin borað dýpstu brunna sem sögur fara af; allt að 12 km undir hafsbotninn. En þegar hlutirnir voru loks komnir á góðan skrið lentu þessi risafélög í miklum átökum um hvert selja eigi gasið og yrir vikið hefur logað í illdeilum milli Rosneft og ExxonMobil. Því þótti ýmsum það með miklum ólíkindum að félögin skyldu nú með svo skömmum fyrirvara gera nýjan risasamning um víðtækt samstarf á sviði orkumála.

Það er ekki nóg með að ExxonMobil hafi þarna samið við Rosneft um rúmlega 3 milljarða USD fjárfestingu í olíuleit og -vinnslu bæði suður í Svartahafi og norður í Karahafi. Heldur gengur samkomulagið líka út á að Rosneft fái hlutdeild í olíuvinnslu ExxonMobil innan Bandaríkjanna! Bandarískur almenningur hefur  sem sagt loksins fullt tilefni til að skrækja: "The Russians are coming!". Þó svo það sé ekki alveg að gerast með þeim hætti sem fólkið óttaðist mest hér í Den, þegar sovéski kjarnorkusveppurinn vofði yfir.

Arctic-oil-platformÞað eru svo auðvitað líka mikil tíðindi að menn ætli að fara af stað norður í kuldabola Karahafsins. Segja má að þetta sé táknmynd um það, að leiðin að heimsskautaolíunni utan Alaska sé loks að opnast. En þó svo Karahafið þyki eitthvert mest spennandi olíusvæði Norðurskautsins, verður vinnsla á þessum slóðum enginn barnaleikur.

Hvað um það; í framtíðinni munum við hér á landinu bláa hugsanlega sjá risaolíuskip í fjarska koma siglandi á leið sinni með svarta gullið frá Karahafi til Bandaríkjanna. Það hlýtur reyndar að vera sérkennilegt fyrir evrópsku olíufélögin og evrópska stjórnmálmenn að horfa upp á hinn ríkisvædda rússneska olíuiðnað og stærsta olíurisa Bandaríkjanna tengjast svona nánum böndum. Sumir eru verulega áhyggjufullir yfir þessari þróun mála og taka svo djúpt í árinni að segja að þarna sé Roxxon Energy  raunveruleikans að fæðast. En kannski er þetta þvert á móti bara eðlilegt skref í framþróun orkugeirans. Eitt er víst; það er svo sannarlega aldrei nein lognmolla í olíuiðnaði veraldarinnar.

 


Gullregn

gullregn1.jpg

Blessuð rigningin. Henni er misskipt. Í sumar gerðist það, að þurrkar og kjarreldar hrjáðu Texasbúa óvenju mikið og lengi. Á sama tíma rigndi oft svakalega í Noregi.

Úrkoma og þurrkar hafa mikil áhrif á raforkubúskapinn í báðum þessum tveimur fjarlægu löndum; Noregi og Bandaríkjunum. Og það jafnvel þó svo einungis annað landið (Noregur) byggi nær alfarið á vatnsafli, en hitt (Bandaríkin) byggi raforkuframleiðslu sína að mestu á kola- og gasbruna.

Svo til 100% af raforkuframleiðslunni í Noregi kemur frá vatnsaflsvirkjunum. Þegar mikið rignir á hálendi Noregs segja fjölmiðlar þar í landi ekki endilega frá því hversu mikil úrkoman var í millimetrum. Heldur er þess í stað stundum notuð mælieiningin gígawattstundir - eða jafnvel terawattstundir!

norway_oddatjonn-dam_rogaland-2.jpg

Rigningin er þá sem sagt mæld sem tilvonandi raforkuframleiðsla og framtíðarverðmæti. Enda er rigningin gulls ígíldi - sannkallað gullregn.

Fyrir viðskiptavini raforkufyrirtækjanna felst ábatinn í því að mikil úrkoma veldur yfirleitt einhverri skammtímalækkun á raforkuverði á norræna raforkumarkaðnum Nordpool Spot. Fyrir norsku raforkufyrirtækin er rigningin góð viðbót í miðlunarlónin á hálendi Noregs. Þýðir að þar verður af meiru að taka þegar mikil eftirspurn er eftir raforku og verðið hátt. Sökum þess að norska raforkukerfið er tengt nágrannalöndunum merkir rigning í Noregi oft meiri útflutning á raforku - inn á markað þar sem raforkuverð er gjarnan mjög hátt. 

Rétt eins og í Noregi, þykir það fréttnæmt hér á Íslandi ef mikil úrkoma eða jökulbráðnum vegna hlýinda fyllir miðlunarlón óvenju hratt. Hér á landi getur þetta líka gerst vegna aukinnar jarðhitavirkni. Snemma í sumar sem leið, varð einmitt sá atburður að óvænt jökulhlaup kom úr vestanverðum Vatnajökli og niður ána Sveðju og þaðan í Hágöngulón. Þar með mun lónið nánast hafa fyllst á svipstundu, en Hágöngulón er efsta lónið í miðlunar- og veitukerfi virkjana Landsvirkjunar í Þjórsá og Tungnaá.

svedja-ketill-3

Það er líklega vissara að muna eftir því að kíkja upp eftir Sveðju áður en haldið er útí ána (á myndinni hér til hliðar er Orkubloggarinn einmitt við stýrið útí Sveðju - reyndar ekki nú í sumar heldur í nóvemberkrapa og skammdegi). Vert er einnig að muna að ef Ísland væri tengt Evrópu með rafkapli gæti svona flóð mögulega þýtt óvæntan og myndarlegan glaðning fyrir Landsvirkjun - og þar með fyrir ríkissjóð og þjóðina alla. Einfaldlega vegna þess að á meginlandinu er raforkuverðið margfalt hærra en hér á landi og unnt yrði að selja alla umframframleiðslu á háu verði inn á evrópska spot-markaðinn. Þess í stað takmarkast gleðin af svona óvæntu rennsli í Hágöngulón, við meiri líkur á góðri stöðu miðlunarlóna á Þjórsársvæðinu fyrir veturinn.

EIA-Texas-electricity-price-2011-3-b

Hér í upphafi færslunnar var minnst á Bandaríkin. Og Texas -þar sem hvert hitametið á fætur öðru var slegið nú í sumar. Hitinn og þurrkurinn var sérstaklega mikill í ágúst. Texasbúar voru hreinlega að bráðna í kæfandi hitanum.

Þetta veðurfar varð til þess að geggjað rafmagnsverð skall á neytendum bæði í Texas og fleiri fykjum Bandaríkjanna. Kannski þykir Íslendingum skrítið að sumarhitar valdi hækkunum á raforkuverði. Enda erum við vanari því að nota lítið rafmagn á sumrin en þurfa mikið rafmagn þegar vetrarstormar geysa og skammdegismyrkrið hellist yfir. En þarna vestra eru hitabylgjur og miklir þurrkar uppskrift að miklu álagi á raforkukerfið - bæði vegna mikillar notkunar á loftkælingu og vegna þess að langvarandi þurrkar valda því að ryk sest á raflínur. Og það var einmitt raunin í sumar - bæði í Texas og víðar um landið.  

US-drought-Time-july-2011-4

Hitabylgjan var afar þaulsetin og leiddi til þess að sumstaðar var hitastigið þarna westra um eða yfir 40 gráður á celsius í margar vikur samfleytt. Og ekki kom deigur dropi úr lofti svo mánuðum skipti.

Þetta óvenju heita og þurra veður olli því að mikið ryk og sandur settist á raflínur, með þeim afleiðingum að rafmagnið sló víða út. Við þessu var lítið hægt að gera, en menn leituðu auðvitað úrræða. Reyndu jafnvel að nota þyrlur til að þrífa háspennulínurnar, en með litlum árangri (myndin hér að ofan sýnir einmitt þyrlu við þetta verk í Texas nú í ágúst sem leið).

ERCOT_hourly_day-ahead

Þetta ástand leiddi til víðtækra bilana og truflana í raforkukerfinu. Og þá rauk verðið upp. Það voru sérstaklega raforkunotendur í risafylkinu Texas sem fengu að kenna á þessu ástandi, sem ítrekað kom upp þar og víðar í Bandaríkjunum í sumar.

Á þessum slóðum er algengt heildsöluverð á rafmagni í kringum 40 USD pr. MWst (til samanburðar má nefna að hér á Íslandi er mestur hluti raforkunnar líklega seldur á u.þ.b. 25 USD pr. MWst nú um stundir, þ.e. til stóriðjunnar). Við sérstakar aðstæður getur raforkuverðið í Texas hækkað verulega og þá jafnvel farið í 80-90 USD eða jafnvel eitthvað hærra tímabundið. En snemma ágúst fór raforkuverðið i Texas út yfir allan þjófabálk. Meðalverðið fór yfir 2.500 USD pr. MWst og náði meira að segja að skríða yfir 3.000 USD - og var þá orðið meira en sextíu sinnum hærra en venjulegt er!

Nord-Pool-Elspot-high

Raforkuverðið hélst hátt í margar vikur, en reyndar ekki svona brjálæðislega hátt nema í fáeina stundarfjórðunga. En þetta ætti að minna okkur á hvílík ofsaleg verðmæti felast í orkulindum Íslands. Ekki síst ef unnt verður að tengjast orkumarkaði þar sem raforkuverðið er oft margfalt á við það sem gerist hér á landi. Þá gæti íslenska úrkoman loks orðið sannkallað gullregn.

 


Vatnsaflið í Síberíu

irkutsk-dam-lagoon.png

Á 6. áratug liðinnar aldar reis mikil vatnsaflsvirkjun austur í Síberíu - skammt frá landamærum Sovétríkjanna að Mongólíu. Þegar virkjunin tók til starfa 1956 þótti hún eitthvert mesta verfræðiundur í Sovétríkjunum. Enda fengu flestir þeirra sem komu að hönnun og byggingu virkjunarinnar þessar líka fínu orður, sem hetjur alþýðunnar.

Þessi umrædda virkjun frá 6. áratugnum þarna austur í Síberíu er í fljótinu Angara, en Angara er stærsta útfallið úr hinu fræga Baikal-vatni. Frá vatninu rennur Angara-fljótið um 1.800 km leið, uns það sameinast Jenu (Yenisei). Jena er eitt af hinum víðfrægu stórfljótum Síberíu, en hin tvö eru Ob og Lena, eins og við ættum öll að muna úr gömlu barnaskóla-landafræðinni. Það eru sem sagt margar aðrar stórár austur Í Síberíu, en bara þríeykið Jena, Ob og Lena. Og Angara er ein þeirra.

angara-river-storms-2.jpg

Þessi sögufræga virkjun í Angara-fljóti er kennd er við borgina Irkutsk. Og svo skemmtilega vill til að Irkutsk-virkjunin er nánast nákvæmlega jafnstór eins og önnur vatnsaflsvirkjun, sem reist var á Íslandi hálfri öld síðar. Þeirri sem kennd er við Kárahnjúka. Hvort verkfræðingarnir og verkamennirnir við Kárahnjúkvirkjun fengu Riddarakross er allt önnur saga.

Það var nú reyndar ekki þannig að með Kárahnjúkavirkjun værum við Íslendingar nálægt því að eiga jafnstóra virkjun eins og Rússarnir. Irkutsk-virkjunin hafði ekki starfað lengi þegar ennþá stærri virkjanir risu þarna austur í Síberíu. Enda voru Rússarnir á mikilli siglingu í þá daga; skutu Sputnik upp í geiminn og virtust nær óstöðvandi.

Angara-Yenisei-map

Senn voru nýjar virkjanir í Síberíu ekki mældar í einhverjum hundruðum MW heldur þúsundum. Árið 1967 var lokið við nýja 4.500 MW virkjun í Angara-fljóti og enn var af nægju vatnsafli að taka í Angara og öðrum stórfljótum Síberíu. Á áttunda áratugnum voru svo lögð drög að enn einni risavirkjuninni í Angara-fljótinu. Hún átti að rísa við bæinn Tayozhny í héraðinu Boguchany

Sovétmenn höfðu þá lengi keppst við að reisa jafnöflugar vatnsaflsvirkjanir austur í Síberíu eins og Bandaríkjamenn gerðu t.d. í Columbia-fljótinu. En nú kom að vendipunkti; efnahagsmaskína kommúnismans fór að hiksta. Og þegar kom fram undir 1980 virtist tekið að halla verulega undan fæti. Ekkert varð af virkjuninni og Kremlverjar máttu játa að þeir yrðu ekki konungar vatnsaflsins.

boguchany-power-dam-built_1096202.jpg

En maður skyldi aldrei segja aldrei. Nú þremur áratugum síðar er skyndilega komið nýtt iðnveldi í næsta nágrenni Angara-fljótsins. Kínverski drekinn öskrar á meiri orku og allt í einu var á ný kominn grundvöllur til að reisa risavirkjunina í Angara. Já - draumurinn er loks að verða að veruleika þarna óralangt í austri. Og það er til marks um stærðina að þessi nýja virkjun - Boguchany-virkjunin - mun fullbyggð framleiða nánast nákvæmlega jafn mikið rafmagn eins og öll raforkuverin á Íslandi framleiða til samans! Eða um 17,5 TWst á ári. Að afli jafngildir Boguchany-virkjunin u.þ.b. fjórum Kárahnjúkavirkjunum; verður 3.000 MW (Fljótsdalsstöð er 690 MW). Virkjunin er langt kominn í byggingu og verður tilbúin á næsta ári (2012).

rusal-web-05_1096376.png

Efnahagsuppgangurinn í Kína veldur því að Síberíu upplifir nú gríðarlegar fjárfestingar og mikinn efnahagsuppgang. Það eru ekki eru nema um 500 km frá Boguchany-virkjuninni til kínversku landamæranna. Raforkan frá virkjuninni verður einmitt annars vegar seld beint til Kína og hins vegar notuð til að knýja stóriðjuver í grennd við virkjunina, sem munu fyrst og fremst framleiða fyrir Kínamarkaðinn. Eitt af þessum iðjuverum er nýtt risaáver sem nú er að rísa við Boguchany.  Boguchany-álbræðslan verður fullbúin árið 2013 og mun þá framleiða 600 þúsund tonn árlega. Verður sem sagt næstum því tvöfalt stærri bræðsla heldur en álver Alcoa á Reyðarfirði, sem er vel að merkja stærsta álverið á Íslandi.

deripaska-putin-3_1096383.jpg

Það er ekki bara ofsaleg stærð álbræðslunnar sem vekur athygli - heldur líka eignarhaldið að henni. Sem er kannski skýr táknmynd um farsælt samstarf ljúflinganna glaðlegu; þeirra Pútín's fyrrum forseta og núverandi forsætisráðherra Rússlands og iðnjöfursins Oleg Deripaska. Það er nefnilega svo að 50% hlutabréfanna í nýju álverksmiðjunni við Boguchany eru í eigu rússneska ríkisorkurisans RusHydro og hinn helmingurinn er í eigu Rusal. Þarna fallast því rússneska ríkið og Rusal í faðma.  Rusal er vel að merkja langstærsti álframleiðandi heimsins og sem kunnugt er þá lýtur fyrirtækið stjórn og meirihlutaeigu Deripaska. Og rússneska ríkisfyrirtækið RusHydro er eitt stærsta vatnsaflsfyrirtæki veraldarinnar. 

Þetta netta álver við Boguchany er bara byrjunin. Deripaska og Rusal eru hreinlega á æpandi fullri ferð þarna austur í Síberíu. Enda er Deripaska með mikla reynslu af viðskiptum og stóriðju þar í austrinu (það var á þeim slóðum sem hann lagði grunninn að því að eignast stærstan hluta rússneska áliðnaðarins). Ekki fjarri Boguchany er Rusal að reisa annað ennþá stærra álver! Þar er um að ræða Taishet-álbræðsluna, sem verður með um 700 þúsund tonna árlega framleiðslugetu. Ráðgert er að bæði þessi álver verði komin í gagnið innan örfárra ára og verður Rusal þá á stuttum tíma búið að auka árlega álframleiðslu sína í Síberíu um lauflétt 1,2-1,3 milljón tonn! Bara þessi aukning ein og sér er langtum meira en öll álverin þrjú á Íslandi geta framleitt.

rusal-web-10.png

Þetta er veruleikinn sem íslenski orkugeirinn stendur frammi fyrir. Eins og staðan er í dag eru um 75-80% af allri raforku sem framleidd er á Íslandi seld til álvera. Íslensku orkufyrirtækin eru því í reynd miklu fremur í samkeppni við rússneska ríkisorkufyrirtækið RusHydro, fremur en að þau starfi á hefðbundnum evrópskum orkumarkaði með fjölbreyttan kaupendahóp. Komi til þess að nýtt álver rísi á Íslandi þýðir það væntanlega að nýja álverið fái raforkuna á verði sem er svipað eða lítið hærra en gerist hjá nýjum risavirkjunum austur í Síberíu. Stóra spurningin er bara: Vilja Íslendingar keppa við RusHydro í verðum?

boguchany-power-turbine_1096382.jpg

Þarna austur í Súberíu er vel að merkja  gnægð er af ónýttu vatnsafli. Það er líka vert að hafa í huga að gert er ráð fyrir að langmesta aukningin í eftirspurn eftir áli á næstu árum og áratugum muni koma frá Asíu. Síbería með sín miklu fljót og nálægð við Kína hentar því  fullkomlega fyrir nýja stóriðju af þessu tagi. Það ætti því öllum að vera augljóst að hugmyndir um að byggja nýjar álbræðslur á Íslandi munu ekki ganga eftir - nema þá að viðkomandi álfyrirtæki fái raforkuna á mjög lágu verði. Ef auka á arðsemi í raforkuframleiðslu á Íslandi eru fleiri álver því varla í spilunum. 

Sjálfur segir Deripaska að hann stefni að því að gera Síberíu að nýju Kanada. Þetta risastóra landsvæði er afar auðugt af náttúruauðlindum, en hefur engu að síður lengst af verið þjakað af fátækt. Deripaska segir íbúa Síberíu nú hafa tækifæri til að byggja upp öflugt efnahagslíf - rétt eins og gerðist í Kanada snemma á 20. öld þegar vatnsaflið í Kanada varð grundvöllur fyrirtækja eins og Alcan og Alcoa.

deripaska-thinking_1096385.jpg

Nú er bara að bíða og sjá. Kannski er þetta enginn fagurgali hjá Deripaska. Sumum kann að vísu þykja það hálf dapurleg framtíðarsýn fyrir Síberíu, ef hún nú snemma á 21. öldinni á sér þann draum æðstan að líkjast iðnvæddum svæðum N-Ameríku eins og þau voru í upphafi 20. aldar. En Deripaska lætur sér líklega fátt finnast um slíkt raus.

 


Forleikur að framtíðinni

Gasfélagið Shell? Já - það er freistandi að hætta alveg að kalla risaorkufyrirtækið Shell olíufélag. Það er nefnilega að verða miklu meira viðeigandi að nefna það gasfélag.

peter-voser-shell-3.jpg

Fjárfestingar Shell í gasiðnaðinum síðustu árin hafa verið rosalegar. Stjórnendur Shell virðast fullvissir um að núna á 21. öldinni muni jarðgas verða bæði eftirsóttasti og hagkvæmasti orkugjafi heimsins. Þróun Shell ber þessari skoðun glöggt vitni. Árið 2003 nam gasið um 35% af kolvetnisframleiðslu fyrirtækisins, en nú er þetta hlutfall orðið 50% og stefnir hraðbyri í 55%-60%. Enda er það svo að hvenær sem maður heyrir í Peter Voser, hinum nýja forstjóra Shell, er hann a boða fagnaðarerindið: Að framtíð orkugeirans liggi í gasi.

Orkubloggið hefur áður sagt frá risaframkvæmdum Shell við Perluverksmiðjuna í Katar. Þar sem fyrirtækið er að ljúka við að reisa stærstu vinnslustöð heims á flótandi gasi (Liqufied Natural Gas Plant eða LNG). Stór tankskip sigla svo langar leiðir með gasið til kaupendanna, en mikið af gasinu frá Perluverksmiðjunni hefur verið selt til hins orkuþyrsta Japan.

shell-floating-lng-plant-size.jpg

Og það er skammt stórra högga á milli í gasveðmálinu magnaða hjá Shell. Þar á bæ hafa menn um nokkurt skeið unnið að fullum krafti að enn einu gasverkefninu; verkefni sem gæti markað ekkert minna en tímamót í orkugeiranum. Það risaverkefni snýst einnig um LNG og felst í að byggja fyrstu fljótandi LNG-vinnslustöð heims. Sem yrði hvorki meira né minna en stærsta fljótandi mannvirki veraldar! 

Vandamálið við gas er flutningurinn. Fram til þessa hefur gasinu að stærstu leyti verið komið af vinnslusvæðum og til notenda, með því að dæla því eftir gasleiðslum. Þess vegna liggja t.d. gaslagnir þvers og kruss eftir botni Norðursjávar, eins og sagt var frá í síðustu færslu Orkubloggsins. Og að sjálsögðu eru slíkar leiðslur út um allt á ýmsum þéttbýlissvæðum sem liggja í nágrenni við gaslindir. Nærtæk dæmi eru bæði stórir hlutar Evrópu og Bandaríkjanna.

Gasvinnsla á mjög afskekktum svæðum þótti aftur á móti lengi lítt eftirsóknarverð. M.ö.o. þá hafa gaslindir sem finna má á á útkjálkum, fjarri mörkuðum, þótt óhagkvæmar til vinnslu vegna mikillar fjarlægðar frá notendunum. En svo gerðist það með hækkandi orkuverði að hagkvæmt varð að byggja sérstakar vinnslustöðvar þar sem gasinu er umbreytt í fljótandi form. Fljótandi gasið (LNG) er svo sett á sérstök tankskip og siglt með það langar leiðir til kaupendanna (myndin af skipinu hér að neðan er einmitt af svona LNG-flutningaskipi með sérhannaða kælitanka fyrir fljótandi gasið).

LNG-ship-black-2

Til að breyta gasi úr loftkenndu í fljótandi form þarf að kæla það mikið eða niður í um -162°C. Að rúmmáli er fljótandi gas einungis um 1/600 þess sem það er í loftkenndu formi. Þegar sérhönnuð tankskip hafa flutt fljótandi gasið á áfangastað er því svo aftur breytt í lofttegund og komið í lagnir dreifikerfisins á viðkomandi stað, sem bera gasið áfram síðasta spottann til notendanna.

Í orkuþyrstum heimi hefur eftirspurn eftir þessu fljótandi gasi verið að aukast hratt. Stærstu kaupendurnir að LNG eru fjölmenn en orkuauðlindasnauð lönd í Asíu - eins og Japan, S-Kórea og Taívan. Á síðustu árum hafa mörg fleiri lönd bæst í þennan hóp og t.a.m. eru Spánn, Frakkland, Ítalía og fleiri Evrópulönd orðnir stórir kaupendur að LNG.

Til framtíðar munu öll þessi lönd og fjöldi annarra þurfa sífellt meiri innflutta orku - og þá mun valið hjá mörgum fyrst og fremst standa á milli kola eða LNG. Hér skiptir miklu að árið 2007 varð gasnotkun Kínverja í fyrsta sinn meiri en sem nam framleiðslu þeirra. Kínverjar sjá fram á að verða risainnflytjendur að gasi. Þess vegna hafa þeir síðustu árin verið að reisa gríðarlega mikla og langa gaslögn, sem tengir Kína við gaslindir í ríkjum Mið-Asíu (löndin sem liggja milli Kína og Kaspíahafsins; Kazakhstan, Uzbekistan og Turkmenistan). En Kína horfir einnig til þess að flytja inn mikið af LNG. Og það er ekki síst þess vegna sem LNG-iðnaðurinn mun nær örugglega vaxa með æpandi hraða á næstu árum og áratugum.

lng-qatargas.jpg

Það er ekki hlaupið að því að skaffa meira LNG. Til þess þarf mikinn undirbúning og þetta eru einhverjar dýrustu framkvæmdir í gjörvöllum orkugeiranum. En aukin eftirspurn hefur leitt til þess að æ fleiri LNG-vinnslustöðvar hafa verið reistar - og það á sífellt afskekktari slóðum. Eitt dæmi um slíka fjarlæga LNG-vinnslustöð í nágrenni við okkur hér á Klakanum góða má nú sjá á eyjunni Melköja skammt utan við Hammerfest, norðarlega í Noregi (sbr. myndin hér að neðan). Þar er gasi frá Mjallhvítarlindunum norður í Barentshafi umbreytt í fljótandi gas. Sem svo er siglt með í sérhönnuðum LNG-tankskipum til landa eins og Spánar og Bandaríkjanna.

norway-lng-plant-3.jpg

Sem fyrr segir, þá kallar þessi LNG-iðnaður á mjög miklar fjárfestingar. Ekki aðeins í sjálfri gasvinnslunni heldur einnig í LNG-vinnslustöðinni þar sem gasið er kælt og geymt, ásamt tilheyrandi hafnaraðstöðu og sérhönnuðum flutningaskipum. Á mjög fjarlægum slóðum þar sem náttúrulegar eða pólítískar aðstæður þykja óheppilegar eða nauðsynlegir lágmarksinnviðir eru einfaldlega ekki til staðar, hefur gasvinnsla af þessu tagi þótt vera ómögulegur kostur. Fyrir vikið hafa ýmis álitleg gasvinnslusvæði, t.d. undir landgrunninu út af Ástralíu, Afríku, norður af Rússlandi og víðar ekki komið til álita sem orkuvinnslusvæði.

Nýlega gerðist það svo -  eftir fimmtán ára þrotlausar rannsóknir - að þau hjá Shell sannfærðust um að þau væru komin niður á réttu lausnina. Lausn sem opna muni aðgang að nýjum gasvinnslusvæðum langt úti á landgrunninu, jafnvel á nokkrum afskekktustu stöðum jarðar. Lausnin felst í því að vera "einfaldlega" með risavaxna hátæknikæliskápa LNG-tækninnar á staðnum - úti á sjó! Þ.e. vera með fljótandi LNG-vinnslustöð á staðnum og breyta þar gasinu í fljótandi form jafnóðum og það kemur upp úr djúpinu. Þaðan yrði svo fljótandi gasinu dælt um borð í LNG-tankskip og siglt með herlegheitin til kaupendanna, oft í fjarlægum löndum. Þá þarf ekki lengur að pæla í vinnslustöð í landi. Þess í stað fer gasið beint í fljótandi LNG-vinnslustöð þegar það kemur upp úr djúpi landgrunnsins.  

shell-prelude-flng-project-a.jpg

Það sem Shell ætlar að gera er að byggja slíka fljótandi LNG-stöð. Þ.e. reisa heilt iðjuver um borð í sérhönnuðu hátækniskipi sem verður við akkeri í nágrenni gaslindarinnar. Þetta verður stærsta fljótandi skip eða mannvirki sem nokkru sinni hefur verið byggt. Það verður nærri 500 m langt. Væri það reist upp á rönd yrði það á stærð við suma af hæstu turnum heimsins. T.a.m. næstum 50% lengra en sem nemur hæð Empire State í New York, sem er viðmiðun sem margir Íslendingar þekkja.

Heitið sem þessi nýja tækni eða útfærsla á LNG-vinnslustöð hefur fengið er Floating Liqufied Natural Gas Facility og er jafnan skammstafað FLNG. Þetta ofurskip - fljótandi LNG-vinnslustöð - mun liggja bundið við fjölmörg risaakkeri í næsta nágrenni við gaslindirnar. Skipið þarf að geta þolað ægilegustu hitabeltisstorma og mestu fárviðri sem þekkjast - og það ekki bara í örfá ár því líftíminn er áætlaður aldarfjórðungur.

shell-prelude-flng-map-2.png

Fyrsti staðurinn sem þau hjá Shell horfa til fyrir FLNG eru gaslindir í landgrunninu út af strjálbýlu og steikjandi heitu NV-horni Ástralíu. Þarna hafa fundist gríðarmikið gas djúpt undir hafsbotninum um 110 sjómílur utan við ströndina. Næsta byggða ból er strandbærinn Broome, sem er afskekktur en vinsæll ferðamannastaður á einhverjum eyðilegustu ströndum Ástralíu.

Þessi sérkennilega rauðgula auðn geymir frásagnir af skipssköðum og hroðalegum atburðum eins og morðunum í kjölfar strands Batavia á jómfrúarferð sinni til Austur-Indía hér um árið. Í nútímanum hafa skurðgröfur og ofurtrukkar námufyrirtækjanna haldið innreið sína í auðnina til að nýta miklar kola- og málmaauðlindir - og nú eru það orkuauðlindir langrunnsins sem þykja ekki síður spennandi.

Rio-Tinto-truck-Pilbara

Ástralía hefur lengi verið langstærsti útflytjandi heims á kolum - og nú eru horfur á að útflutningur þeirra á gasi fari hratt vaxandi. Áströlsku kolaskipin sigla flest til Japan, en ekki er ólíklegt að það verði Kína sem vilji fá mikið af ástralska gasinu. Ástralía er sem sagt ekki bara að breytast í stærstu námu veraldar, heldur gæti landgrunn áströlsku ljúflinganna líka orðið ein helsta orkuuppspretta Asíuríkjanna. Já - það virðist sem ástralska orku- og hrávöruævinýrið sé bara rétt að byrja.

Það var í maí s.l. (2011) að yfirstjórn Shell tók formlega ákvörðun um að ráðast í þetta lauflétta 12 milljarða dollara verkefni á landgrunninu utan við sólbakaðar strendur NV-Ástralíu. Þar af mun sjálft FLNG-skipið kosta um 5 milljarða USD - sem er t.a.m. talsvert meira en stærstu, tæknivæddustu og dýrustu flugmóðurskipin í bandaríska flotanum. Verkefnið hefur hlotið heitið  Prelude eða Forleikur.  Allt snýst þetta um trú Shell á að eftirspurn eftir LNG muni vaxa mikið og hratt. Samkvæmt áætlunum Shell á þessi fjárfestingin að skila fyrirtækinu dúndrandi arði og vonin er að þetta útspil geri Shell meira spennandi en flest ef ekki öll önnur risafélögin í orkubransanum. 

shell-flng-diagram-1.jpg

Þessi fyrsta FLNG-vinnslustöð heims verður byggð í skipasmíðastöðvum Samsung í Kóreu (Samsung er vel að merkja næststærsta skipasmíðafyrirtæki veraldarinnar og hlýtur að vera gaman fyrir þá að fá að smíða þetta risaskip). Apparatið á að vera tilbúið 2016 og komið á vinnslusvæðið út af Ástralíu ári síðar.

Nýja FLNG-tæknin gæti haft mikil áhrif í orkugeiranum. Í því sambandi er athyglisvert að árið 2008 voru birtar niðurstöður áströlsku rannsókna- og vísindastofnunarinnar CSIRO um gas í landgrunni Ástraliu (CSRIO er skammstöfun á Commonwealth Scientific and Industrial Research Organisation). Í stuttu máli þá var niðurstaða CSIRO sú, að gríðarlegt magn af gasi væri að finna undir ástralska hafsbotninum. En því miður væri stærstur hluti þess svo utarlega og fjarri öllum innviðum landsins að m.v. núverandi tækni yrði það aldrei unnið. Nú einungis þremur árum síðar er þessi sviðsmynd mögulega gjörbreytt - vegna Prelude þeirra hjá Shell. Skemmtilegt.

shell-prelude-flng-map-1.jpg

Margir eru spenntir fyrir þessum makalausu áætlunum Shell. Sérstaklega virðast ríkin í SA-Asíu áhugasöm, enda eru þau stærstu orkumarkaðirnir í nágrenni Prelude. Nú hafa t.a.m. bæði Singapore og Thaíland byrjað að reisa sínar fyrstu viðtökustöðvar fyrir LNG. Og fleiri ríki í Asíu hafa líka uppi slíkar áætlanir. Enda sjá þessi lönd fram á vaxandi þörf á betri og meiri aðgangi að orku - og þar er LNG að verða einhver áhugaverðasti kosturinn.

Ýmis önnur af helstu orkufyrirtækjum heimsins eru farin að trúa því að Shell hafi þarna veðjað á réttan hest - og eru einnig farin að spá í að eignast svona glæsilegar FLNG-vinnslustöðvar. Af stóru bandarísku olíufélögunum virðist sem Chevron sé þar fremst í flokki, en ExxonMobil er skammt undan. Það lítur reyndar orðið út fyrir að flest stærstu alþjóðlegu olíufélögin ætli að feta í fótspor Shell og veðja í auknum mæli á gasið sem orkugjafa framtíðarinnar.

australia-broome-coast-2.jpg

Shell gælir við að svæðin út af NV- og N-Ástraliu geti staðið undir allt að tíu svona risastórum fljótandi gasvinnslustöðvum! Og haldi menn að þetta sé bara eitthvert bjartýnisbull hjá Skeljungunum, er t.d. vert að hafa í huga að Norsararnir glöggu hjá norska orkuráðgjafafyrirtækinu Rystad Energi segja að líklega séu um 160 þekkt gasvinnslusvæði í heiminum sem henti prýðilega fyrir FLNG. Og ef framkvæmdir verði í samræmi við áhugann sé líklegt að bullandi FLNG-vinnsla verði byrjuð á öllum þessum svæðum innan einungis eins áratugar!

Þetta þykir Orkubloggaranum reyndar nokkuð brött spá. Engu að síður stefnir nú í einhverja mestu og hröðustu orkufjárfestingu sögunnar þarna úti af eyðilegum ströndum Ástralíu. Það er til marks um gríðarlegt umfangið, að bara á ástralska landgrunninu einu er núna verið að undirbúa ný gasvinnsluverkefni sem alls munu kosta um 200 milljarða USD (þar af er gert ráð fyri að Shell verði með um fjórðung fjárfestingarinnar). Það eru því varla horfur á að hinn ofursterki AUD veikist mikið í bráð (hér má nefna að Orkubloggarinn var nokkra mánuði í Ástralíu þegar Asíukreppan stóð yfir í lok 20. aldar og þá var blessaður Ástralíudollarinn í yndislegum botni, þ.a. Mörlanda leið eins og auðkýfingi þarna Down Under).

shell-logo-2

Þessi forleikur Shell á landgrunni Ástralíu kann að vera upphafið að einhverju mesta orkuævintýri 21. aldarinnar og þar með heimssögunnar. Nýjustu fréttir af Shell eru reyndar þær að fyrirtækið sé að landa 16 milljarða dollara gasvinnslusamningi í Írak. Shell er sem sagt "paa fuld gas" út um allan heim. Það er líka athyglisvert að ef orkuiðnaðurinn þróast í þess átt (þ.e. að LNG verði sífellt stærri hluti hans) mun það sennilega gera stærstu orkufyrirtækin ennþá umsvifameiri í alþjóðlega orkugeiranum en þau eru í dag. Minni orkufyrirtæki munu einfaldlega ekki geta fjármagnað svona risaverkefni og hafa ekki burði til að taka þátt í þessari mögnuðu þróun orkugeirans.

Höfum líka í huga að ef kolvetnisauðlindir finnast á Drekasvæðinu djúpt norðaustur af Íslandi telja margir að þar yrði fyrst og fremst um að ræða gas fremur en olíu. Nýja FLNG-tæknin gæti gert það að verkum að gasinu yrði þá umbreytt í LNG um borð í svona fljótandi vinnslustöð - í stað þess að LNG-verksmiðja yrði reist t.d. við Vopnafjörð eða annars staðar á NA-landi. Þessi tækniþróun á vegum Shell hinumegin á hnettinum kann þannig að snerta okkur Íslendinga með beinum hætti.

DrekiArea

Það er svolítið sérkennilegt að í ítarlegum gögnum Orkustofnunar um Drekasvæðið er möguleikanum á FLNG nánast hafnað; þ.á m. í skýrslu norska ráðgjafafyrirtækisins Sagex sem unnin var fyrir Orkustofnun og er birt á vef stofnunarinnar. Kannski er Norsurunum hjá Sagex vorkunn að hafa ekki haft neina trú á áætlunum um smíði fljótandi LNG-vinnslustöðva. Staðreyndin er engu að síður sú að þessi tækni verður senn að veruleika. Ef dæla á gasi af Drekanum í LNG-vinnslustöð í landi, þyrftu gasleiðslurnar á hafsbotninum ekki aðeins að vera mjög langar heldur myndu þær þurfa að fara eftir gríðarlegu dýpi (hátt í 2 þúsund metrar). FLNG kynni að henta orkufyrirtækjunum miklu betur fyrir gasvinnslu á Drekasvæðinu, sem mun vera þekkt fyrir þokkalegasta veður og litla ölduhæð.

Þess vegna er óvíst og jafnvel ólíklegt að gaslindir á Drekanum myndu leiða til þess að LNG-vinnslustöð risi á NA-landi. Þetta mun þó væntanlega skýrast betur eftir því sem reynsla kemst á notkun Prelude og annarra FLNG-vinnslustöðva sem nú eru í undirbúningi. Orkubloggið mun að sjálfsögðu fylgjast vel með þróuninni - og þá ekki síst þvi hvað Forleikurinn hjá Shell leiðir af sér. Að lokum er hér stutt en furðu hógvært myndband frá Shell um þetta magnaða verkefni:

 

 


Sólveig & Gassled

Í færslu Orkubloggsins fyrr í sumar um norsku gullgerðarvélina var fjallað um æpandi hagnað Norðmanna af gassölu sinni - og um kvartanir franskra og þýskra orkufyrirtækja vegna verðsins sem þau þurfa að punga út fyrir norska gasið. 

abu-dhabi-investment-authority-logo

Í umræddri færslu um norska gasið, var einnig minnst á það hvernig olíusjóður arabanna í Abu Dhabi (Abu Dhabi Investment Authority) mátti gefa eftir efsta sætið á listanum yfir stærstu fjárfestingasjóði veraldar. Þegar norski Olíusjóðurinn, Statens Pensjonsfond Utland (SPU) komst í efsta sætið með verðmæti upp á 3.100 milljarða norskra króna. 

Í þessu sambandi er skemmtilegt að umræddur fjárfestingasjóður olíuljúflinganna í Abu Dhabi átti nýlega stórviðskipti við Norðmenn. Þ.e. við norska olíufyrirtækið Statoil. Þau viðskipti fólust í því að Abu Dhabi Investment Authority keypti stóran hlut í norsku gasleiðslunum í Norðursjó. Og það eru einmitt þessar gríðarlegu gaslagnir sem eru umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag:

 

I.  Gasleiðslurnar í Norðursjó. 

Sala Norðmanna á gasi hefur aukist mjög í síðustu árum. Alls kemur nú um 15% af öllu því gasi sem notað er í Evrópu frá Noregi. Í sumum löndum í V-Evrópu er hlutfall norska gassins allt að 35%!

norway-gassco-pipes.png

Næstum allt þetta óhemjumikla gas frá vinnslusvæðunum á norska landgrunninu er flutt til meginlands Evrópu um neðansjávarlagnir sem liggja eftir botni Norðursjávar. Og norskar gasleiðslur ná ekki aðeins til meginlandsins, heldur teygja þær sig líka til Bretlandseyja (sbr. kortið hér til hliðar).

Norska olíufélagið Statoil var nýverið að skrifa undir enn einn gassölusamninginn og í þetta sinn við eitt helsta orkufyrirtækið í Skotlandi. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að öll helstu kolvetnissvæði Breta eru í Norðursjó skammt utan strönd Skotlands. Þetta er til marks um hversu gasvinnslu Breta fer nú hratt hnignandi og þeir, rétt eins og flest ríkin á meginlandi Evrópu, eru að verða sífellt háðari innfluttu gasi. Norsku, rússnesku og alsírsku gasi.

 

II.  Gassled & Gassco. 

Lengi vel var þetta æðakerfi gasframleiðslu Noregs rekið af vinnslufyrirtækjunum sjálfum. En árið 2001 voru allar gaslagnirnar á norska landgrunninu settar inn í nýtt fyrirtæki, sem kallað var Gassled. 

langeled-2.jpg

Þetta var gert að kröfu (eða skv. "tilmælum") norska ríkisins. Í dag er Gassled eigandi að öllum gaslögnum sem liggja frá norska landgrunninu og flytja gas til viðskiptavina gasvinnslufyrirtækjanna í Evrópu. Gassled er vel að merkja eingöngu eignarhaldsfélag - og eignirnar eru viðkomandi gasleiðslur. Til þess að sjá um reksturinn á gasleiðslukerfi Gassled var svo stofnað annað fyrirtæki. Það fyrirtæki er alfarið í eigu norska ríkisins og heitir Gassco.

Þegar Gassled var stofnað fyrir sléttum áratug síðan urðu öll þau fyrirtæki sem stunduðu gasvinnslu á norska landgrunninu einfaldlega hluthafar í hinu nýja fyrirtæki (í samræmi við það sem viðkomandi fyrirtæki höfðu lagt til uppbyggingar á eigin gasleiðslum). Þar var norska ríkið langstærst með samtals u.þ.b. 75% hlut; annars vegar í gegnum Statoil (tæplega 30% hluti) og hins vegar í gegnum Petoro (með um 45% hlut - en um Petoro var einmitt fjallað í einni færslu Orkubloggsins fyrr í sumar).

 

III.  Arabarnir kaupa í Gassled - Sólveig verður til. 

Lengst af hefur Gassled sem sagt verið í um 75% eigu Statoil og Petoro samanlagt. Afgangur hlutabréfanna hefur svo verið í eigu ýmissa annarra fyrirtækja sem koma að gasvinnslu í lögsögu Norðmanna. Þar má nefn franska Total, sem á um 6% í gaslagnakerfinu, bresk-hollenska Shell á um 5% og ítalska Eni á um 1,5% - auk nokkurra annarra norskra og útlendra fyrirtækja sem eru með minni hlut.

gassco-emden-terminal.jpg

Gasflutningakerfi Norðmanna hefur því að stærstu leyti verið í eigu þeirra sjálfra (um 75%). En fyrir um tveimur mánuðum - einmitt þegar Orkubloggarinn var að spóka sig í Noregi - urðu þau tíðindi að Statoil seldi mestallan hlut sinn í Gassled! Og kaupandinn var enginn annar en áðurnefndur olíusjóður arabanna í furstadæminu Abu DhabiAbu Dhabi Investment Authority.

Þarna er eftir talsverðu að slægjast. Um leiðslur þessa tíu ára gamla gaslagnafyrirtækis fer nú, sem fyrr segir, u.þ.b. 15% af öllu því gasi sem notað er í Evrópu. Á síðasta ári (2010) var velta Gassled rúmir 27 milljarðar NOK (um 570 milljarðar ISK). Sem er vel að merkja einungis flutningskostnaður vegna gassins sem streymir frá Noregi. Sjálfir álíta Norðmenn að flutningar á vegum Gassled muni aukast um allt að 25-30% ánæstu tíu árum og verði þá um 130 milljarðar rúmmetra af gasi á ári.

abu_dhabi-investment-authority-secrecy.jpg

Nú kunna einhverjir að spyrja sig hvort Norðmenn séu orðnir alveg spinnegal að selja einhverjum dularfullum aröbum svo stóran hluta í þessu æðakerfi norska efnahagslífsins? Minnumst þess þegar aðrir arabískir aurar, nefnilega fjárfestingasjóður frá öðru furstadæmi í UAE (Dubai) ætlaði að kaupa nokkrar hafnir í Bandaríkjunum fyrir fáeinum árum. Þá varð hreinlega allt vitlaust þar vestra og það endaði með því að Dúbæjarnir hröktust burt. Það var svo bandaríski trygginga- og fjármálarisinn AIG sem hirti hafnargóssið - áður en hann sjálfur reyndar féll með braki og brestum eins og alræmt er.

Norðmenn virðast ekki vera alveg eins viðkvæmir fyrir arabískri fjárfestingu eins og Bandaríkjamenn og sjá barrrasta sölu Statoil á hlut sínum í Gassled sem nokkuð góðan díl. Það er líka vel að merkja svo að meirihluti Gassled verður áfram í norskum höndum. Af því Statoil heldur eftir um 5% hlut (selur sem sagt um 25% en átti um 30%). Með þessum eignarhlut Statoil ásamt hlut Petoro ráða Norðmenn því áfram rétt rúmlega 50% í Gassled. Og sökum þess að Petoro er alfarið í eigu norska ríkisins og norska ríkið á um 70% i Statoil, er augljóst að Norðmenn munu áfram ráða því sem þeir vilja í sambandi við Gassled. 

norsk-prins-prinsesse-2

Kaupandinn að þessum 25% eignarhluti í gaslögnum Gassled í Norðursjó er sérstakt nýstofnað fyrirtæki, sem nefnist hinu notalega norræna nafni Sólveig. Eða réttara sagt Solveig Gas Norway. Þó svo Arabarnir frá Abu Dhabi séu stór eignaraðili í Sólveigu er hún samt alls ekki hreinræktuð Arabastúlka. Fjárfestingasjóðurinn frá Abu Dhabi er nefnilega einungis fjórðungseigandi í Solveig Gas Norway.

Meðeigendur Arabanna að fyrirtækinu eru tveir aðrir "útlendingar"; annars vegar risastór kanadískur eftirlaunasjóður sem kallast Canada Pension Plan Investment Board (30%) og hins vegar þýski tryggingarisinn Allianz (30%). Abu Dhabi Investment Authority eða olísjóður arabanna í Abu Dhabi er því í reynd bara fylgisveinn vestrænna lífeyris- og tryggingapeninga í þessum kaupum Sólveigar á 25% hlut í Gassled.

abu-dhabi_sheikh-ahmed-bin-zayed-al-nahyan-2.jpg

Það er sjeikinn geðþekki Ahmed bin Zayed Al Nahyan sem er í forsvari fyrir fjárfestingu Arabanna frá Abu Dhabi í Gassled. Margir búast reyndar við því að arabarnir horfi til þess að kaupa brátt meira í þessu mikilvæga gasflutningafyrirtæki - hvort svo sem það yrði þá af Total eða öðrum minni hluthöfum. Slík kaup gætu líka orðið með aðkomu Sólveigar. 

Það virðist a.m.k. vera mikill áhugi meðal fjárfestingasjóða víða um heim á gasæðakerfinu sem Gassled rekur í Norðursjó. Abu Dhabi & félagar eru nefnilega ekki fyrstu fjárfestingasjóðirinir sem kaupa í Gassled. Í fyrra (2010) seldi ExxonMobil sinn hluta í fyrirtækinu (um 8%) til tveggja stórra fjárfestingasjóða; annars vegar sjóðs í eigu svissneska UBS og hins vegar til franska CDC Infrastructure. Þetta er væntanlega vísbending um að menn sjái gasleiðslur sem flytja norskt gas til Evrópu sem eitthvert hundtryggasta og öruggasta brownfield sem fyrirfinnst í heimi hér. En um leið að þetta sé fjárfesting sem kannski síður henti orkufyrirtækjum sem eru skráð á markaði - fyrirtækja sem eru væntanlega mun áhættusæknari heldur en stórir fjárfestingasjóðir í eigu ríkja, lífeyrissjóða eða tryggingafélaga.

gassco_logo

Með kaupum Solveig Gas Norway á 25% hlut í Gassled verður hátt í þriðjungur af hlutabréfunum í fyrirtækinu komin í hendur erlendra fjárfestingasjóða. Öll viðskipti með eignarhluti í Gassled eru vel að merkja háð blessun norskra stjórnvalda. Auk þess er öll umsýslan með eignir Gassled, sem fyrr segir, í höndum norska ríkisfyrirtækisins Gassco. Og öll verð á gasflutningunum um leiðslur Gassled eru háð samþykki norskra stjórnvalda. Norðmenn eru því langt í frá búnir afsala sér yfirráðum yfir gaslagnakerfinu, þó svo þeir leyfi útlendingum að ávaxta þar sitt pund. Skemmtilegt viðskiptamódel sem Norsararnir hafa þarna komið á fót.

norway_troll-platform-01.png

Og hvað sem líður eignarhaldi á Gassled, þá mun norskt gas áfram streyma hindrunarlaust um neðansjávarlagnirnar í Norðursjó um langa framtíð. Nú er reyndar svo komið að æ fleiri spá því að 21. öldin verði ekki öld endurnýjanlegrar orku, heldur öldin sem gas verði helsti orkugjafi mannkyns. Nú er bara að krossa fingur og vona að með í þeim ljúfa leik verði líka alveg glás af gasi frá íslenska Drekasvæðinu. Vonandi tekst loks að ná þokkalegum árangri af útboði leitarleyfa þar á bæ.

 


Rammaáætlunin

Rammaaaetlun-kort-2Rammaáætlun um vernd og nýtungu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði mjakast vel áfram þessa dagana. Nú eru komin fram drög að þingsályktun þar sem samtals 69 virkjunarkostir eru flokkaðir í þrjá mismunandi flokka; nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Að auki eru þar nefndir nokkrir virkjunarkostir innan svæða sem þegar eru friðlýst og má segja að þeir kostir séu nú þegar komnir í verndunarflokk.

Í þessari færslu Orkubloggsins er þessari flokkun Rammaáætlunarinnar lýst í grófum dráttum. Athugið að númerin framan við hvern virkjunarkost hér í upptalningunni er einkennistala sem notuð er í Rammaáætluninni. Þessi númer eru t.a.m. þægileg til að átta sig á hvar viðkomandi virkjunarkostur er á landakorti (sbr. kortið hér að ofan sem birt var í Fréttablaðinu s.l. föstudag).

1. NÝTINGARFLOKKUR.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni koma 22 virkjunarkostir í nýtingarflokk. Sú flokkun merkir að álitið er að ráðast megi í umræddar virkjanir - að uppfylltum ýmsum skilyrðum (sem t.d. koma til vegna laga um mat á umhverfisáhrifum). Gera má ráð fyrir að virkjunarkostirnir sem settir eru í þennan flokk verði þær virkjanir sem við sjáum rísa hér á landi á næstu árum. Þetta eru 6 vatnsaflsvirkjanir (þar af þrjár í Þjórsá) og 14 jarðhitavirkjanir:

- Vatnsafl:

4     Hvalárvirkjun (Hvalá, Ófeigsfirði á Vestfjörðum).

5     Blönduveita (Blanda).

26   Skrokkölduvirkjun (Kaldakvísl - þ.e. útfallið úr Hágöngulóni).

29   Hvammsvirkjun (Þjórsá).

30   Holtavirkjun (Þjórsá).

31   Urriðafossvirkjun (Þjórsá).

- Jarðhiti:

61    Reykjanes (stækkun Reykjanesvirkjunar).

62    Stóra-Sandvík (Reykjanesi).

63    Eldvörp (Svartsengi).

64    Sandfell (Krýsuvík).

66    Sveifluháls (Krýsuvík).

69    Meitillinn (Hengill).

70    Gráuhnúkar (Hengill).

71    Hverahlíð (Hengill).

91    Hágönguvirkjun, 1. áfangi (við Hágöngulón).

104  Hágönguvirkjun, 2. áfangi (við Hágöngulón).

97    Bjarnarflag.

98    Krafla I (stækkun Kröfluvirkjunar).

99    Krafla II, 1. áfangi.

103  Krafla II, 2. áfangi.

102  Þeistareykir.

101  Þeistareykir, vestursvæði.

Thjorsa-Ketill-2

Samkvæmt þessu eru allir þeir kostir sem Landsvirkjun hefur litið til í sinni stefnumótun afar raunhæfir - að undanskildri virkjun í Hólmsá sem sett er í biðflokk (sjá um biðflokkinn hér neðar í færslunni). Þarna í nýtingarflokknum er einnig að finna marga virkjunarkosti á Reykjanesi og í Henglinum, sem eru hin hefðbundnu virkjunarsvæði HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Það er því líklegt að niðurstaðan sé viðunandi fyrir öll þrjú stóru orkufyrirtækin.

Að vísu fer Bitruvirkjun í verndarflokk, en þar hefur OR horft til byggingar á jarðvarmavirkjun og lagt verulega fjármuni í rannsóknir. Og Búlandsvirkjun í Skaftá er sett í biðflokk, en þar á HS Orka hagsmuna að gæta (fyrirtækið er stór hluthafi í Suðurorku sem hefur samið við flesta vatnsréttarhafa á svæðinu). Engu að síður hljóta öll stóru orkufyrirtækin þrjú að vera þokkalega sátt við þennan nýtingarflokk - þó eflaust hefðu þau strax viljað fá enn fleiri kosti í þennan flokk.

Að mati Orkubloggarans hefði aftur á móti mátt fara þarna aðeins varlegar í sakirnar. Og t.d. íhuga að friða þann hluta Þjórsár þar sem áin og umhverfi hennar er hvað fegurst - og setja Hvammsvirkjun í verndarflokk eða a.m.k. í biðflokk. En það er einmitt biðflokkurinn sem er stóra spurningin. Þangað eru flestir virkjunarkostirnir settir - og þar með er í reynd ekki tekin afstaða til þess hvort viðkomandi svæði eigi að fara í nýtingarflokk eða verndarflokk. Biðflokkurinn er svohljóðandi:

2. BIÐFLOKKUR.

- Vatnsafl:

1    Kljáfossvirkjun (Hvítá, Borgarfirði).

2    Glámuvirkjun (Vestfjarðarhálendi).

3    Skúfnavatnavirkjun (Þverá, Langadalsströnd, Vestfjörðum).

6    Skatastaðavirkjun B (Jökulárnar í Skagafirði).

7    Skatastaðavirkjun C (Jökulárnar í Skagafirði).

8    Villinganesvirkjun (Jökulárnar í Skagafirði).

9    Fljótshnúksvirkjun (Skjálfandafljót).

10  Hrafnabjargavirkjun A (Skjálfandafljót).

11  Eyjadalsárvirkjun (Skjálfandafljót).

15  Hverfisfljótsvirkjun (Hverfisfljót).

40  Búlandsvirkjun (Skaftá).

19  Hólmsárvirkjun við Einhyrning, án miðlunar (Hólmsá).

21  Hólmsárvirkjun neðri við Atley (Hólmsá).

39  Hagavatnsvirkjun (Farið við Hagavatn).

34  Búðartunguvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

35  Haukholtsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

36  Vörðufellsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

37  Hestvatnsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

38  Selfossvirkjun (Ölfusá).

- Jarðhiti:

65  Trölladyngja (Krýsuvík).

67  Austurengjar (Krýsuvík).

73  Innstidalur (Hengill).

75  Þverárdalur (Hengill).

76  Ölfusdalur (Hengill).

83  Hveravellir.

95  Hrúthálsar (NA-landi; í nágrenni Herðubreiðar).

96  Fremrinámar (NA-landi; suðaustur af Mývatni).

Í biðflokknum er að finna marga umdeilda virkjunarkosti. Þarna eru  t.d. bæði Skjálfandafljót og Austari- og Vestari-Jökulsá í Skagafirði. Þarna eru líka margir virkjunarkostir í jarðhita á SV-horni landsins. Og hver vill sjá háspennulínur í nágrenni Herðubreiðar? Í þessum biðflokki er augljóslega að finna mörg átakamál framtíðarinnar. Þetta minnir okkur á að Rammáætlunin er í reynd einungis eitt hógvært skref - og langt í frá að hún skapi einhverja allsherjar sátt um virkjunarstefnu framtíðarinnar.

-------------------------------------------

dettifoss-girl

Þá er komið að verndarflokknum. Þar hefur náttúruverndarfólk einkum fagnað því að fallið er frá Norðlingaölduveitu og þar með eru Þjórsárver vernduð í núverandi mynd. Að mati Orkubloggarans er líka vel að Kerlingarfjöll og Jökulkvísl suður af Hofsjökli fái að vera í friði. Og ekki er síður ánægjulegt að sjá Hómsá við Einhyrning í þessum flokki. Þar er um að ræða svæði sem ekki ætti að hvarfla að nokkrum manni að hrófla við. Og það yrði ennfremur góð niðurstaða ef við geymum Jökulsá á Fjöllum óspjallaða fyrir kynslóðir framtíðarinnar.

Fyrir orkufyrirtækin er kannski svolítið súrt að sjá fáeina virkjunarkosti á Reykjanesi og í Henglinum lenda í þessum flokki. Og mögulega líka eilítið óvænt að Gjástykki skuli skipað í þennan flokk - í stað þess að fara í biðflokk. En verndarflokkurinn hljóðar þannig:

3. VERNDARFLOKKUR.

- Vatnsafl:

12  Arnardalsvirkjun (Jökulsá á Fjöllum).

13  Helmingsvirkjun (Jökulsá á Fjöllum).

14  Djúpárvirkjun (Djúpá í Fljótshverfi).

20  Hólmsárvirkjun við Einhyrning, með miðlun.

22  Markarfljótsvirkjun A.

23  Markarfljótsvirkjun B.

24  Tungnaárlón (Tungnaá).

25  Bjallavirkjun (Tungnaá).

27  Norðlingaölduveita, 566-567,5 m.y.s. (Þjórsá).

32  Gýgjarfossvirkjun (Jökulfall/Jökulkvísl í nágrenni Kerlingarfjalla; fellur í Hvítá í Árnessýslu).

 33  Bláfellsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

- Jarðhiti:

68   Brennisteinsfjöll (Reykjanesi).

74   Bitra (Hengill).

77   Grændalur (Hengill).

78   Geysir.

79   Hverabotn (Kerlingarfjöll)

80   Neðri-Hveradalir (Kerlingarfjöll).

81   Kisubotnar (Kerlingarfjöll).

82   Þverfell (Kerlingarfjöll).

100 Gjástykki.

-----------------------------------

Í Rammáætluninni eru ekki flokkaðar þeir virkjunarkostir (né veitur) sem yrðu innan svæða sem nú þegar eru friðlýst. Eins og t.d. Vonarskarð og Askja innan Vatnajökulsþjóðgarðs og virkjunarkostir innan Friðlandsins að Fjallabaki (þ.á m. er Torfajökulssvæðið og Landmannalaugar). Þessi svæði eru jú þegar friðlýst.

Orkubloggarinn er reyndar ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt að horfið verði frá þeirri hugmynd að veita Skaftá inn á vatnasvið Tungnaár. Ef unnt er að taka Skaftá þarna vestur eftir - án þess að hrófla við Langasjó - gæti það verið mjög góður kostur. Og er varla til þess fallið að skerða gildi Vatnajökulsþjóðgarðs.

UTAN FLOKKA (SVÆÐI SEM ÞEGAR NJÓTA FRIÐLÝSINGAR):

- Vatnsafl innan Vatnajökulsþjóðgarðs:

16  Skaftárveita með miðlun í Langasjó

17  Skaftárveitu án miðlunar í Langasjó

18  Skaftárvirkjun (ofarlega í Skaftá; ekki Búlandsvirkjun).

- Jarðhiti innan Vatnajökulsþjóðgarðs:

92  Vonarskarð.

93  Kverkfjöll.

94  Askja.

- Svæði innan Friðlands að Fjallabaki (jarðhiti):

84  Blautakvísl.

85  Vestur-Reykjadalir.

86  Austur-Reykjadalir.

87  Ljósártungur.

88  Jökultungur.

89  Kaldaklof.

90  Landmannalaugar. 

---------------------------------

Þegar litið er til Rammaáætlunarinnar eins og hún er sett fram í drögum til þingsályktunar, skiptir mestu hvaða svæði lenda annars vegar í nýtingarflokknum og hins vegar í verndarflokknum. Ef sæmileg pólítísk sátt næst um þingsályktunina er ólíklegt að hróflað verði að marki við þeirri flokkun í framtíðinni. Líklegt er að á næstu árum verði ráðist í að virkja marga ef ekki flesta virkjunarkostina sem lenda í nýtingarflokknum. Og þau svæði sem fara í verndarflokkinn verða sjálfsagt öll friðlýst. Þó svo vel sé unnt að aflétta friðlýsingu er samt líklegast að hún komi til með að standa. Þess vegna skiptir miklu hvaða virkjunarkostir fara í þessa tvo flokka. En í reynd eru allir virkjunarkostirnir sem fara í biðflokk ennþá galopnir.

Holmsa-Ketill-2

Í umræðunni um virkjunarmál er algengt að tala um virkjunarsinna og náttúruverndarsinna - eins og að þjóðin skiptist í þessar tvær andstæðu fylkingar. En Orkubloggarinn sér sjálfan sig alls ekki í öðrum þessara hópa - heldur báðum. Og grunar reyndar að sama eigi við um flesta Íslendinga; að við viljum flest nýta orkulindirnar af skynsemi en jafnframt vernda náttúruperlur og ekki ganga of gróflega að hinni einstæðu náttúru Íslands. Þetta er kannski líka sá stóri hópur sem oft horfir bara þögull á harða virkjunarsinna og forsvarsmenn náttúrverndarsamtaka takast á. Það er algerlega óviðunandi að standa þannig til hliðar. Hér er um að ræða stórmál. Og vonandi að sem flestir gefi sér tíma til að kynna sér þessi drög að þingsályktunartillögu vel og vandlega - og komi sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri - núna meðan drögin eru til umsagnar.

 


Orkufyrirtækið Google og Atlantic Wind

Fjárfestingafyrirtækið Google Energy, sem er í eigu hins heimsþekkta Google, virðist hafa mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku. Og verkefnin þar verða sífellt stærri.

Google-energy-report-2011-2

Ekki veitir af, því Google hefur sett sér afar metnaðarfullt markmið í orkumálum: RE<C. Með fjárfestingum sínum í vel völdum orkuverkefnum hyggst Google sem sagt ná því framódýrara verði að framleiða endurnýjanlega orku (Renewable Energy) heldur en með kolum (Coal).

Þessu markmiði segist Google Energy ætla að ná innan einungis nokkurra ára! Þetta markmið fyrirtækisins miðast við brátt verði unnt að ná kostnaði við að beisla vindorku mjög mikið niður. En þarna er mikið bil að brúa. Víðast hvar í heiminum er kolaorkan miklu ódýrari kostur til að knýja orkuver - og vindorkuverin eru einnig talsvert mikið dýrari en gasorkuver.

Offshore-Wind-pic-15-sun

Þar að auki er verð á raforku í Bandaríkjunum almennt mikið lægra en það sem vindorkuverin þurfa að fá fyrir raforkuna til að rekstur þeirra geti borið sig. Algengt raforkuverð þar vestra er um 40-55 USD pr. MWst í heildsölu, en skv. Google þurfa ný vindorkuver a.m.k. 73 USD pr. MWst og þau sem eru á hafi úti þurfa miklu meira eða 196 USD. 

Þess vegna eiga vindorkuverin enn sem komið er ekki raunhæfan rekstrargrundvöll nema þau njóti fjárhagslegrar aðstoðar í einhverju formi. Þar er ýmist um að ræða beina styrki af ýmsu tagi, skattaafslætti og/eða að aukagjöld séu lögð á kolvetnisorkuna (kolefnisskattur á útblásturinn eða skylda til að kaupa losunarkvóta).

En hjá Google Energy eru menn handvissir um að innan einungis eins áratugar verði hagkvæmni vindorkuvera orðin miklu meiri en er í dag. Og þá muni vindorkuverunum nægja raforkuverð sem nemur 47-60 USD pr. MWst (að núvirði) til að geta staðið á eigin fótum - og þá verða samkeppnishæf við kolaorkuverin. Í samræmi við þetta álítur Google Energy að markmiðið RE<C sé ekkert grín heldur þvert á móti fyllilega raunhæft og það jafnvel fyrir árið 2020.

Það eru reyndar nokkur ár síðan Google hóf að sýna endurnýjanlegri orku áhuga. Fyrirtækið hefur t.a.m. sett talsvert fé í jarðvarmaverkefni vestur í Kaliforníu. Fram til þessa hafa verkefni Google Energy á sviði orku þó verið fremur smá í sniðum. En núna álítur Google orðið tímabært að hugsa stórt. Og að þar sé vindorkan heppilegust. Í þessu skyni hefur fyrirtækið ákveðið að taka þátt í gríðarstóru vindorkuverkefni, sem áformað utan við austurströnd Bandaríkjanna. 

Atlantic_Wind_Google_AWC

Þetta risastóra vindorkuverkefni nefnist Atlantic Wind. Gert er ráð fyrir að fullbyggt verði Atlantic Wind með uppsett afl upp á 6.000 MW. Þarna er vel að merkja verið að tala um vinorkuver sem á að vera úti í sjó - langt utan við ströndina og jafnvel tugi km úti á landgrunninu. Tilgangurinn með því að reisa turnana fjarri landi er bæði að fá stöðugri vind og að forðast neikvæð sjónræn áhrif frá landi. Svona vindorkuver við strendur hafa einmitt mætt mikilli andstöðu vegna meintrar sjónmengunar og mikilvægt að forðast slíka árekstra.

Samtals eiga turnarnir sem bera þessa samtals 6.000 MW hverfla að verða á bilinu 1.200-2.000 talsins. Endanlegur fjöldi mun auðvitað ráðast af afli hverflanna. Í dag er sjaldgæft að vindhverflar séu stærri en 3 MW, en horfur eru á að senn verði nokkrir framleiðendur komnir með 5 MW túrbínur í fjöldaframleiðslu - og brátt jafnvel ennþá stærri. Þ.a. talan 1.200 turnar gæti  senn orðið raunhæf.

cape-wind-concept-illustration

Það er til marks um hversu stórhuga þessar áætlanir eru, að enn hefur ekki eitt einasta vindorkuver risið í sjó innan bandarískrar lögsögu. Nokkur vindorkuver eru í sjó við strendur N-Evrópu, en í Bandaríkjunum eru þau öll á landi enn sem komið er. Stutt er síðan leyfi fékkst til að reisa fyrsta bandaríska vindorkuverið í sjó, sem er u.þ.b. 450 MW Cape Wind utan við Þorskhöfða (Cape Cod) milli Boston og New York. Ennþá berjast þó eigendur margra glæsihýsa á strönd Þorskhöfða og aðrir andstæðingar Cape Wind gegn verkefninu fyrir dómstólum. Það er því ekki endanlega útséð um hvort Cape Wind verði að veruleika.

Bæði Cape Wind og ýmis önnur áformuð vindorkuverkefni við strendur Bandaríkjanna eru algerir smámunir þegar þau eru borin saman við Atlantic Wind. Enn er á huldu hvað þessi herlegheit - samtals 6.000 MW vindrafstöðvar langt útí sjó - munu koma til með að kosta. Til samanburðar má nefna að stærsta vindorkuver Dana á hafi úti, sem er fyrirhugað 400 MW vindorkuver Dong Energi við eyjuna Anholt langt úti í Kattegat, á að kosta um 10 milljarða DKK. Það jafngildir rétt tæpum 2 milljörðum USD eða um 5 milljónum USD pr. MW. Og kostnaðaráætlunin vegna Cape Wind við Þorskhöfða virðist vera á svipuðum nótum. 

Offshore-Wind-pic-01-2

Eflaust þykir sumum sem þekkja til kostnaðar við byggingu og rekstur raforkuvera, að þessi kostnaður nálgist brjálæði. T.d. þegar haft er í huga að vindorkuver af þessu tagi munu vart skila meiri nýtingu en max. 35-40%. Hér má líka minnast þess að kostnaður við nýtt kjarnorkuver í Bandaríkjunum er talinn myndi verða um eða jafnvel innan við 4,5 milljónir USD. pr. MW. Er þó nýtingin þar miklu hærri en í vindorkunni. 

Sé miðað við umrædda tölu danska vindorkuversins við Anholt, myndi Atlantic Wind (6 þúsund MW sinnum 5 milljónir USD pr. MW) kosta samtals um 30 milljarða USD! Þetta er rosaleg fjárfesting. En mikill kostnaður er einfaldlega sá raunveruleiki sem blasir við þegar menn fara í óhefðbundinn orkuiðnað, eins og vindorku á hafi úti.

Það skemmtilega er að Google Energy er ekki einu sinni farið að spekúlera í þessum kostnaði. Áður en að því kemur að byrja að reisa turna þarna langt úti í sjó, hyggst Google Energy nefnilega einbeita sér að því að byggja upp öflugt orkuflutningskerfi utan við austurströnd Bandaríkjanna.

Hugsunin er sú að slík háspennutenging sé alger forsenda þess að nokkru sinni verði hagvæmt að byggja vindorkuver utan við strönd Bandaríkjanna. Þessi hluti verkefnisins sem felst í háspennulínum meðfram ströndinni kallast Atlantic Wind Conncetion. Þetta á að verða um 400 km löng, tvöföld háspennulína, sem á að liggja eftir hafsbotninum ca. 15-30 km út af ströndinni, allt frá Norfolk í suðurhluta Virginíu og norður til New Jersey. Tengivirki í land verður svo reist á svona 4-5 stöðum og þaðan dreifist raforkan hefðbundnar leiðir til þéttbýlissvæðanna á austurströndinni.

US-Atlantic-Wind-Google

Þetta nýja háspennukerfi á sem sagt að geta tekið við raforkunni frá gríðarlegum fjölda vindturbína og flutt hana langar leiðir til einhverra mestu þéttbýlissvæða Bandaríkjanna. Hjá Google Energy segja menn að þessi útfærsla muni gera orkuflutninga miklu hagkvæmari heldur en þegar byggðar eru tengingar í land fyrir hvert einasta vindorkuver af hefðbundinni stærð (líkt og gert hefur verið við Danmörku og annars staðar þar sem vindorkuver hafa verið byggð við strendur Evrópu). Fullyrt er þetta fyrirkomulag lækki kostnað við vindorkuver á hafi úti um u.þ.b. 20% og þar með muni vindorkan fyrr geta veitt kolaorkunni raunverulega samkeppni.

Þetta er eiginlega nýtt bisnessmódel í vindorkunni. Enda er Google þekkt fyrir að hugsa öðruvísi en flestir aðrir. Kostnaðaráætlunin vegna þessara rafmagnskapla hljóðar upp á litla 5-6 milljarða USD. Bara háspennulínurnar einar og sér (ásamt tengivirkjum og spennistöðvum) kosta sem sagt meira en eitt stykki kjarnorkuver upp á 1.000 MW. Og kostnaðurinn við þetta flutningskerfi er rúmlega 150% meiri en að reisa danska vindorkuverið við Anholt - sem þó þykir með metnaðarfyllri vindorkuverkefnum dagsins í dag. Þá er eftir allur kostnaður vegna sjálfra vindrafstöðvanna; 1.200-2.000 turnar með spöðum og hverflum; samtals 6.000 MW. Allur sá risapakki er eftir - og hann mun væntanlega kosta tugi milljarða dollara, eins og nefnt var hér að ofan.

Google-Atlantic-Wind-1st-stage-map

Áætlað er að Atlantic Wind Connection verði reist í fimm skrefum. Fyrsti áfanginn á að vera nettur 200 km spotti milli New Jersey og Rehboth í Delaware. Kostnaðaráætlunin þar hljóðar upp á 1,8 milljarð USD og aðstandendur verkefnisins segja að þessum áfanga eigi að geta verið lokið snemma árs 2016. Allar háspennulínurnar í þessu risaverkefni yrðu aftur á móti í fyrsta lagi tilbúnar 2021.

Þessir háspennukaplar eiga að liggja í sjónum nokkuð langt útaf strönd fjögurra fylkja; New Jersey, Delaware, Maryland og Virginíu (og þar með í lögsögu alríkisins en ekki fylkjanna). Sjálfar vindrafstöðvarnar eiga að verða í álíka fjarlægð frá landi. Þarna út af austurströnd Bandaríkjanna er vel að merkja fremur hógvært dýpi.

Ríkisstjórar viðkomandi fylkja hafa keppst við að dásama verkefnið, enda er það til þess fallið að hjálpa þeim við að ná markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Ríkisstjórarnir hafa sömuleiðis sumir lýst sig andvíga áætlunuum þess efnis, að lagðar verði háspennulínur vestur á bóginn til að tengjast vindorkuverum þar á sléttunum miklu. Engu að síður er það staðreynd að þar langt í vestri eru náttúrulegar aðstæður hvað bestar og ódýrastar til nýtingar á vindorku í Bandaríkjunum. Vindorkuverin á sléttunum eru sennilega vel innan við helmingi ódýrari en að fara svona útí sjó. En svona er nú innanlandspólítíkin í Bandaríkjunum svolítið skrítin - rétt eins og kjördæmapotið á Íslandi.

Vail-Ski-Lift-1

Google er 37,5% hluthafi í Atlantic Wind Connection. Aðrir hluthafar eru svissneskt fjárfestingafyrirtæki sem nefnist Good Energies, stórt japanskt fjármálafyrirtæki sem kallast Marubeni og raforkuflutningsfyrirtækin Trans-Elect Development og Elia.

Hugmyndin að Atlantic Wind á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda. Þessi humynd mun nefnilega hafa fæðst í skíðalyftu í Vail í Colorado, þar sem forstjóri Trans-Elect lenti við hliðina á forstjóra Good Energies. Í kjölfarið á laufléttu lyftuspjalli þeirra upp fjallið var svo hóað í Google. Enda hafa menn þar á bæ bæði talað fjálglega um RE<C og líka um að Google stefni að því að verða kolefnishlutlaust. Google var því líklega ekki stætt á öðru en að segjast vilja vera með og fljótlega var Atlantic Wind komið á koppinn

Offshore-Wind-pic-04

Verkefni Google á sviði orkumála hafa fengið gríðarlega fjölmiðlaathygli, enda líklega fá fyrirtæki sem eiga jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum heimsins. Staðreyndin er nú samt sú, að enn sem komið er hefur Google sett sáralítinn pening í þessi orkuverkefni. Ef Google Energy ætlar sér í alvöru að verða brautryðjandi í endurnýjanlegri orku þarf fyrirtækið að verða miklu stórtækara á orkusviðinu en verið hefur. Kannski er Atlantic Wind Connection eitt skref í þá átt.

 


Nýtt landnám á Nýfundnalandi

Í ímyndaðri Íslandssögu mætti leika sér með þá hugmynd að íslenska landnámið á Vínlandi hinu góða hafi tekist vel. Og að þetta gjöfula landsvæði væri hluti af íslenska ríkinu. En sem kunnugt er voru Íslendingar því miður fljótir að týna bæði Vínlandi og MarklandiNýfundnalandi og Labrador. Löngu seinna urðu þessi landsvæði svo hluti af sambandsríkinu Kanada. Í dag ætlar Orkubloggið að líta til þessara merku svæða austast í Kanada:

I.  Fiskveiðisamfélag lendir í hremmingum. 

Framan af 20. öldinni upplifðu íbúar Nýfundnalands erfiða tíma. Þetta landsvæði var þá eins konar sjálfstjórnarsvæði undir bresku krúnunni og átti m.a. í landamæradeilum við Kanada um hvar landamærin í Labrador skyldu liggja. Í fyrri heimsstyrjöldinni börðust ungir menn frá Nýfundnalandi fyrir breska heimsveldið á blóðvöllum Evrópu og þar var hersveit þeirra þurrkuð út í slátruninni skelfilegu á fyrsta degi orrustunnar við Somme. Svo þegar Kreppan mikla skall á fór hún afar illa með efnahaginn á Nýfundnalandi. Og það bætti ekki ur skák að stjórnmálamennirnir og yfirvöldin í þessu hart leikna sjálfstjórnarsvæði, hugsuðu margir um það eitt að skara eld að eigin köku.

goose_bay_aerial

Þegar kom fram undir 1940 hafði sem sagt lengi árað heldur illa fyrir óbreyttan almúgann þarna austast í því landi, sem við í dag þekkjum sem Kanada. En þá kom blessaður Kaninn með tyggjóið sitt og herflugvélar. Herinn kom sér fyrir við flugvöllinn í Gander á Nýfundnalandi og tók til við að byggja annan stóran herflugvöll við Gæsaflóa; Goose Bay. Það er einmitt við Gæsaflóa sem hið gríðarlanga Churchill-fljót endar ferð sina ofan af hálendi og hásléttum Labrador, en Churchill-fljótið er eiginlega kjarninn í þessari færslu Orkubloggsins.

Rétt eins og koma hersins til Íslands og framkvæmdir á hans vegum á Miðnesheiði og víðar um land höfðu mikil áhrif á efnahag Íslendinga, olli stríðið straumhvörfum í efnahagslífi Nýfundnalands. Um þetta leyti voru Nýfundnalendingar álíka margir eins og Íslendingar eru í dag (rúmlega 300 þúsund sálir). Samskipti þeirra við Bandaríkin á þessum tíma urðu mikil og margir íbúar Nýfundnalands tóku að aðhyllast náið samband við Washington DC.

Þegar stríðinu lauk kom að því að Nýfundnalendingar skyldu ákveða stjórnskipulega framtíð sína. Stofnun lýðveldis eða algerlega sjálfstæðs ríkis virðist samt ekki hafa komið til álita. Ýmsir stjórnmála- og athafnamenn á eyjunni sáu sér gott til glóðarinnar vegna samstarfsins við bandaríska herinn og töluðu fyrir ennþá nánari tengslum við Bandaríkin. Svo fór þó að naumur meirihluti samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1948 að Nýfundnaland skyldi verða hluti af Kanada.

Newfoundland_St-Johns_Dark

Næstu áratugina fjölgaði íbúum hins kanadíska Nýfundnalands verulega. Fiskveiðar urðu afar mikilvægar fyrir efnahagslífið og lengi vel voru fiskimiðin út af Nýfundnalandi einhver þau gjöfulustu í heimi. En svo stækkuðu togararnir, verksmiðjuskip komu til sögunnar og ásókn útlendinga á fiskimiðin góðu á Miklabanka óx hratt. Afleiðingin varð langvarandi ofveiði sem leiddi til algers hruns hjá þorskinum við Nýfundnaland og fleiri fiskistofnum. Hvarf þorsksins þarna í lok 20. aldar mun vera eitt versta dæmi heims um hrun í sjávarútvegi. Afleiðingin var djúp kreppa í fylkinu með tilheyrandi bölmóði og brottflutningi.

Þegar líða tók á tíunda áratuginn var brottflutningurinn orðinn það mikill að fólki á Nýfundnalandi og Labrador (eins og fylkið nefnist fullu nafni) tók að fækka. Íbúafjöldinn hafði hæst náð um 580 þúsundum árið 1992, en aldamótaárið 2000 var fjöldinn kominn undir 530 þúsund. Og árið 2008 voru íbúar Nýfundnlands einungis um 506 þúsund. Hafði þeim þá sem sagt fækkað um næstum því 15% á 15 árum.

II.  Jákvæður viðsnúningur þrátt fyrir heimskreppu.

Newfoundland-Oil-Hibernia-flaring

Það blés sem sagt ekki byrlega í efnahagslífi Nýfundnalands í upphafi 21. aldarinnar. En núna á þessum undarlegu alheimskrepputímum hefur efnahagslífið á Nýfundnalandi þvert á móti verið í blóma. Og það þrátt fyrir að þorskurinn sé ennþá fjarri góðu gamni. Síðustu tvö árin hefur íbúum Nýfundnalands sem sagt fjölgað á ný og eru nú orðnir um 510 þúsund. Þar af búa um 100 þúsund í stærstu borginni, sem heitir St. Johns. Þessar tölur minna óneitanlega svolítið á íbúafjölda Íslands og Reykjavíkur. En munurinn er sá að hér ríkir kreppa en á Nýfundnalandi er í gangi mikil uppsveifla.

Efnahagsbatinn á Nýfundnalandi er meira að segja svo mikill og hraður nú um stundir, að þar er farið að tala um ofhitnun. Húsnæðisverð æðir upp og verktakarnir ráðast í sífellt stærri byggngaframkvæmdir í höfuðborginni St. Johns og víðar um fylkið.

Canada_NFL_Minerals-1998-2011

Helsta skýringin á jakvæðum viðsnúningnum á efnahag Nýfundnalands er hreint æpandi fjárfesting, sem þar hefur átt sér stað í hrávöruiðnaði síðustu 2-3 árin. Í fyrra námu nýjar fjárfestingar í fylkinu rúmum 3 milljörðum USD og höfðu þá aukist um næstum helming frá árinu áður. Og í ár (2011) er gert ráð fyrir að nýfjárfestingar á Nýfundnalandi verði rúmir 6 milljarðar USD! Íbúar fylkisins eru vel að merkja einungis um hálf milljón, þ.a. þetta hefur skapað mikinn hagvöxt og gríðarlega eftirspurn eftir vinnuafli. 

Skýringin að baki þessum fjárfestingum á Nýfundnalandi liggur einkum í hækkandi hrávöruverði í heiminum. Fylkið er stór framleiðandi á járni og nikkel og útflutningur á málmum stendur í blóma. Að auki er landgrunn Nýfundnalands nú vettvangur mikilla framkvæmda og fjárfestinga í olíuvinnslu.

husky-energy-logo

Það er ekki langt síðan olívinnsla hófst á landgrunni Nýfundnalands - eftir nokkuð langt tímabil olíuleitar. Og nú er svo komið að í höfuðborginni St. John&#39;s er fjöldi olíufyrirtækja með starfstöðvar. Sem dæmi má nefna kanadísku olíufyrirtækin Husky Energy og Suncor. Og líka þekktari félög eins og Statoil og Chevron - og ExxonMobil hefur meira að segja staðsett aðalstöðvar sínar í Kanada þarna í borginni.

Eimskip-Amerikuleid

Þetta er gott dæmi um hvað líklegt er að gerist hér á Klakanum góða, ef menn verða varir á Drekasvæðinu. Það virðist reyndar sem glöggir Íslendingar í stjórnendateymi Eimskips hafi ekki látið uppsveifluna á Nýfundnalandi framhjá sér fara. Ef litið er yfir upplýsingar á heimasíðu þessa fyrrum óskabarns þjóðarinnar, verður ekki betur séð en að Eimskip hafi upp á síðkastið snarfjölgað ferðum um hafnir á Nýfundnalandi. Enda er væntanlega hressilega mikil eftirspurn eftir skipaflutningum bæði frá og til Nýfundnalands þessa dagana.

III.  Risaframkvæmdir í vatnsafli framundan. 

Það sem Orkublogginu þykir ekki síður athyglisvert er að á Nýfundnalandi eru nú í farvatninu nýjar stórframkvæmdir í virkjun vatnsafls. Á sínum tíma var vatnsaflið í Kanada grundvöllur þess að áliðnaður þróaðist einna fyrst og hraðast þar í landi. Það mætti því ætla að það væri löngu búið að virkja alla helstu vatnsaflskostina á þessu svæði. En þrátt fyrir langa sögu orkufreks iðnaðar í suðausturhluta Kanada er þar ennþá að finna stóra og hagkvæma virkjunarkosti.

Fyrirhugaðar stórvirkjanir á Nýfundnalandi gera jafnvel Kárahnjúkavirkjun dvergvaxna. Því afl umræddrar virkjunar, sem brátt mun rísa langt útí óbyggðum Labrador, verður samtals næstum 3.100 MW og mun virkjunin framleiða um 17 TWst á ári. Raforkuframleiðsla þessarar einu virkjunar jafngildir því vel rúmlega þrisvar sinnum meiru en Kárahnjúkavirkjun skilar (4,6 TWst). Og er nánast jafn mikil eins og öll samanlögð raforkuframleiðsla á Íslandi (sem er u.þ.b. 17-17,5 TWst árlega). Þarna er sem sagt um að ræða miklar framkvæmdir.

Muskrat_Falls-1

Fólk getur ímyndað sér hvernig efnahagslífið á Nýfundnalandi mun hreinlega ganga af göflunum þegar þessar miklu virkjanaframkvæmdir bætast við uppganginn í málma- og olíuiðnaðinum. Og með CAD&#39;inn sinn, þurfa Nýfundnalendingar litlar áhyggjur að hafa af snöggum gjaldmiðilssveiflum af völdum þenslunnar. Og enn síður að vextir eða verðtrygging æði upp. Enda brosa menn út að eyrum þessa dagana í St. Johns og annars staðar á Nýfundalandi - þó vissulega sé líklegt að eitthvað hægi þarna á ef enn frekari efnahagssamdráttur verður t.a.m. í Bandaríkjunum.

Umrædd virkjun er kennd við Muskrat-fossa í Labrador (Muskrat Falls), sbr. myndin hér að ofan. Virkjunin verður einmitt í áðurnefndu í Churchill-fljóti, sem er ein af lengstu ám í Kanada og rennur þvert gegnum Labrador.

churchill_falls-old

Þetta virkjunarverkefni er líka stundum kallað The Lower Churchill Project, sem kemur til af því að þarna ofar í ánni (Upper Churchill) er nú þegar önnur mjög stór virkjun. Hún er hvorki meira né minna en 5.400 MW og er næststræsta vatnsaflsvirkjun í Kanada og sú þriðja stærsta í N-Ameríku allri. 

Churchill-fljótið er gríðarlega langt eða um 850 km og vatnasvæði þess um 80 þúsund ferkm! Virkjunin sem var reist þarna á árunum í kringum 1970 (Upper Churchill) nýtir fallhæðina við s.k. Churchill-fossa. Fyrir tíma virkjunarinnar voru þessir fossar afar tilkomumikil sjón, en þarna steyptist fljótið eftir þröngum flúðum og fossum. Vegna virkjunarinnar þornuðu fossarnir nánast alveg upp. Ljósmyndin hér til hliðar sýnir einmitt aðalfossinn fyrir daga virkjunarinnar. Aftur á móti sýnir myndin hér fyrir neðan nánast uppþornaða Churchill-fossana eins og þeir eru í dag.

Gamla virkjunin í Upper-Churchill fær vatn frá gríðarstóru uppistöðulóni, sem var myndað á endalausu blautlendinu á hálendi Labrador. Lónið kallast Smallwood Reservoir og liggur u.þ.b. miðja vegu milli Hudsonflóa og gömlu víkingabyggðarinnar við L&#39;Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Það er hvorki meira né minna en rúmir 6.500 ferkílómetrar - sem er t.a.m. eins og rúmlega 80% af flatarmáli Vatnajökuls. Vegna þess hversu lónið er stórt sést það vel á gervihnattamyndum, en sjá má ljósmynd frá risavöxnu lóninu hér neðarlega í færslunni.

Churchill-Falls-gone-3

Hér til vinstri eru nánast uppþornaðir Churchill-fossarnir. Og nú stendur sem sagt til að bæta 3.100 MW við þær 5.400 MW túrbínur sem Churchill-fljótið hefur knúið síðustu fjóra aratugina. Gaman er að minnast þess, að bæði Smallwood-lónið, gamla virkjunin í Churchill-fljóti og fyrirhugað framkvæmdasvæði vegna neðri virkjunarinnar, eru á hálendi hins forna Marklands. Já - Marklands þeirra Bjarna Herjólfssonar, Leifs heppna og Þorfinns karlsefnis. Þarna er sem sagt smávegis íslensk tenging!

Muskrat-fossarnir þar sem neðri virkjunin í fljótinu er nú áformuð, eru ekkert í líkingu við það sem Churchill-fossar voru. En þetta er vissulega engu að síður umdeild framkvæmd, sem hafa mun veruleg umhverfisáhrif.

NFL-Labrador-Canada-map

Framkvæmdir við nýju virkjunina við Muskrat-fossa hafa lengi verið í undirbúningi. Eftir áratugapælingar komst verkefnið loks á bullandi skrið upp úr aldamótunum síðustu, þegar orku- og olíuverð tók að hækka hratt. Þar að auki nýtur þessi nýja virkjun mikils pólitísks stuðnings bæði á Nýfundnalandi og í Nova Scotia.

Í nóvember á liðnu ári (2010) var gengið frá formlegu samkomulagi um verkefnið við tvö öflug orkufyrirtæki. Þau eru annars vegar Nalcor Energy og hins vegar Emera. Nalcor er fylkis-orkufyrirtækið á Nýfundnalandi og er bæði í vatnsafli og olíuvinnslu (í Kanada eru flest stóru orkufyrirtækin í eigu fylkjanna). Nalcor er einmitt meirihlutaeigandi að stóru "gömlu" virkjuninni við Churchill-fossa. Til samanburðar má nefna, að Nalcor er u.þ.b. helmingi stærra fyrirtæki en Landsvirkjun þegar miðað er við veltu. Í dag eru vatnsaflsvirkjanir Nalcor samtals um 1.600 MW, sem er örlítið minna en allar vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar. Nalcor er einnig nokkuð umsvifamikið í olíuiðnaðinum á landgrunni Nýfundnalands. Hitt fyrirtækið sem kemur að virkjuninni við Muskrat-fossa, Emera, er stærsta orkufyrirtækið í Nova Scotia. Velta Emera er um helmingi meiri en hjá Nalcor, en fyrirtækið er bæði raforkuframleiðandi og rekur raforkudreifikerfi. Það er skráð í kauphöllinni í Toronto.

vinland_map-1

Samkomulag stjórnvalda á Nýfundnalandi við þessi tvö orkufyrirtæki miðast við að nýja virkjunin kennd við Muskrat-fossa verði reist í tveimur áföngum. Byrjað verður á rúmlega 800 MW virkjun og framkvæmdum henni tengdri, en sú virkjun á að framleiða um 5 TWst árlega (sem er um 10% meira en Kárahnjúkavirkjun). Hún verður alfarið í eigu Nalcor. Uppistöðulónið sem myndað verður vegna þessa fyrri áfanga, verður nokkuð stórt en þó eilítið minna en Hálslón. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við síðari áfanga virkjunarinnar hefjist svo þegar þessum fyrri áfanga verður lokið, sem vænst er að verði árið 2016 eða 2017.

Þarna er um að ræða framkvæmdir lengst útí óbyggðum, þar sem óravegur er frá virkjun til notenda. Til að flytja rafmagnið til byggða verður reist 1.100 km ofurháspennulínu frá virkjuninni og að austurströndinni. Þar verður um að ræða jafnstraums-háspennulínu (HVDC) í anda þeirra kapla sem lagðir hafa verið þvers og kruss um Kína síðustu árin. Þegar komið er að ströndinni mun rafmagnið fara um neðansjávarkapal yfir til sjálfrar Nýfundnalandseyjarinnar, þar sem flestir íbúar fylkisins eru búsettir. Frá þeirri stóru eyju við austurströnd Kanada verður svo lagður annar neðansjávarkapall yfir til Nova Scotia, sem einnig mun njóta góðs af þessari miklu endurnýjanlegu raforku.

Canada-Churchill-Falls-1

Háspennulínurnar frá virkjuninni og neðansjávarkapallinn yfir til Nýfundnalands verða í eigu bæði Nalcor (71%) og Emera  (29%). Emera mun aftur á móti alfarið eiga neðansjávarkapalinn frá Nýfundnalandi yfir til Nova Scotia. Með sama hætti má hugsa sér að Landsvirkjun yrði mögulega hluthafi í neðansjávarkapli milli Íslands og Evrópu, en að stærsti hluthafinn yrði t.d. þýskt raforkudreifingarfyrirtæki.

Ein mikilvægasta ástæðan fyrir þessum framkvæmdum er ósk stjórnvalda á Nýfundnalandi um að þróast í átt til orkusjálfstæðis. Til þessa hefur fylkið verið háð nágrannanum í vestri um raforku; þ.e. Québec - vegna þess að orkan frá "gömlu" virkjuninni í Churchill-fljóti fer ekki til íbúa Nýfundnalands, heldur til Québec! Sá orkusölusamningur gildir til 2041, þ.a. það er ennþá langt þangað til Nýfundnalendingar geta sjálfir notað þá raforku (um svipað leyti rennur einmitt út samningur Alcoa við Landsvirkjun). 

Þar að auki mun virkjunin við Muskrat-fossa leiða til þess að unnt verður að loka 500 MW olíuvirkjun í smábænum Holyrood austast á Nýfundnalandi - og þar með draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framkvæmdin byggir því bæði á atvinnusjónarmiðum, "þjóðernislegum" sjónarmiðum, arðsemissjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum. Á móti kemur auðvitað að framkvæmdirnar munu hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif, en líklega þykir það dropi í hafið í óravíðáttum Labrador.

Churchill_Smallwood-Resevoir-3

Þegar framkvæmdum við þennan fyrri áfanga lýkur er þess vænst, sem fyrr segir, að ráðist verði í aðra ennþá stærri virkjun (rúmlega 2.200 MW) í nágrenni Muskrat-fossa. Ráðgert er að verulegur eða jafnvel mestur hluti raforkunnar frá síðari áfanganum verði fluttur áfram suður a bóginn. Þannig að hún fari áfram frá Nova Scotia og þaðan til fylkisins New Brunswick og loks jafnvel yfir til Nýja Englands í Bandaríkjunum. Þetta er þó ekki endanlega ákveðið, enda er líka verulegur áhugi fyrir því hjá orkufyrirtækjunum að selja raforkuna vestur á bóginn (jafnvel alla leið til Ontario) .

Þarna er sem sagt verið að tala um raforkuflutninga eftir leið sem yrði jafnvel mörg þúsund km. Á leiðinni verða a.m.k. tveir neðansjávarkaplar og ljóst að þetta veður talsvert dýr framkvæmd. Þessi þróun í orkuiðnaðinum er í reynd prýðileg vísbending um að senn hljóta menn af mikilli alvöru fara að skoða möguleika á raforkukapli milli Íslands og Evrópu.

Kostnaðaráætlunin vegna fyrri áfangans við virkjunina við Muskrat-fossa hljóðar uppá rúma 6 milljarða CAD. Þar af er helmingurinn (3 milljarðar CAD) vegna 824 MW virkjunar og HVDC-háspennulínu yfir Labrador og að ströndinni. Það kostar svo aðra 3 milljarða CAD að tengja þetta við sjálfa Nýfundnalandseyjuna, byggja þar nýjar háspennulínur til að dreifa raforkunni og loks leggja neðansjávakapal yfir til Nova Scotia.

muskrat-1

Til gamans má nefna að Muskrat, sem áðurnefndir fossar eru kenndir við, er kafloðið spendýr með afar þykkan og fínan feld. Þetta ljúfa dýr á einmitt heimaslóðir sínar í Kanada og víðar í N-Ameríku, á svæðum þar sem mikið er um votlendi. Núorðið má reyndar finna kvikyndið víða annars staðar í veröldinni. Og gott ef hin heimspekilega þenkjandi finnska Bísamrotta í Múmínálfunum, var ekki einmitt af þessari ágætu tegund spendýra! Skemmtilegt.

Áður fyrr var þessi merka rotta (sem er alls engin rotta heldur skyldari t.d. bjórum eða minkum) ein helsta ástæða þess að ævintýramenn settu stefnu á Labrador. Þetta afskekkta landsvæði var nefnilega lengi vel fyrst og fremst vettvangur einmana skinnaveiðimanna. Og feldurinn af Muskrottunum lék þar stórt hlutverk. En í dag er það vatnsaflið sem menn veiða í Labrador.

Það er kannski orðið tímabært að við Íslendingar fórum að huga betur að góðum og meiri tengslum við hinar kanadísku bísamrottur og vini þeirra. Þó svo að Nýfundaland kunni að þykja útnári í augum margra, þá er þetta svo sannarlega land tækifæranna nú um stundir. Og það á ekki bara við um Nýfundnaland, heldur ekki síður um æðisgengin uppgangssvæðin vestur í Alberta og víðar í Kanada.

Karlsefni-2

Kanada er yndislegt land og Kanadamenn miklir ljúflingar heim að sækja. Svo eru þessi landsvæði á Nýfundnalandi að auki hálfgerðar heimaslóðir okkar Íslendinga - sem erum jú flest afkomendur Vínlandsfaranna og heiðurshjónanna Guðríðar Þorbjarnardóttur og Þorfinns Karlsefnis. Ekki lýgur Íslendingabók! Og vert að minnast þess líka, að nú munu afkomendur íslensku Vesturfaranna í Manitoba og annars staðar i Kanada vera orðnir rúmlega 200 þúsund. 

Kannski er það ekki algalin hugmynd að Ísland leiti eftir nánara viðskiptasambandi við Kanada. Þó svo Orkubloggarinn sé eindreginn stuðningsmaður þess að ljúka aðildarviðræðum við ESB og sjá hverskonar samningur kemur út úr því ferli, væri afar vanhugsað að kasta öðrum möguleikum frá okkur. Vegna óhemju náttúruauðlinda og tiltölulega öflugs velferðarþjóðfélags, er Kanada sennilega einhver besti kostur sem hægt er að hugsa sér sem náinn samstarfsaðila. Er ekki ráð að spá aðeins betur í þennan möguleika - og jafnvel stefna að upptöku Kanadadollars?

 


"...Pamela í Dallas"

"Son, this is personal." Nú þegar Landinn hefur baðað sig almennilega í sumarregninu er tímabært að Orkubloggið snúi á ný á stafrænar síður veraldarvefsins. Og bloggarinn ætlar að leyfa sér að byrja þennan síðsumar-season á léttum nótum. Enda er ennþá Verslunarmannahelgi!

dallas_jr.png

"Ég vildi ég væri Pamela í Dallas!", sungu Dúkkulísurnar hér í Den. Einhverjar ánægjulegustu fréttir sumarsins til þessa eru auðvitað þær að senn fáum við aftur Dallas á skjáinn. Þ.e.a.s. ljúflingana í Ewing-olíufjölskyldunni westur í Texas. Þetta er alveg sérstaklega skemmtilegt þegar haft er í huga hvað stóð í færslu Orkubloggsins þann 13. september 2009, undir fyrirsögninni Þyrnirós vakin upp í Texas

"Það er sem sagt kominn tími á Dallas Revisited, þar sem hinn ungi, útsmogni og harðsvíraði John Ross Ewing II hefur byggt upp nýtt veldi; Ewing Gas! Og keppir þar auðvitað hvað harðast við hina gullfallegu frænku sína Pamelu Cliffie Barnes."

dallas-2012-2.jpgJá - þau hjá sjónvarpsstöðinni TNT tóku Orkubloggarann á orðinu. Reyndar hefur bloggarinn ekki hugmynd um hvernig plottið er í þessari nýju Dallasþáttaröð, sem kemur á skjáinn á næsta ári (2012). En af fréttum og trailernum sem TNT hefur birt má ráða að innan Ewing Oil standi stríðið nú á milli sonar JR og fóstursonar Bobby&#39;s; þeirra  John Ross og Christopher.

Kemur kannski ekki á óvart. Sumir sem spáð hafa í þættina virðast reyndar álíta að Ewing Oil hljóti nú að hafa skipt um heiti og kallist í dag Ewing Solar eða Ewing Wind. Orkubloggarinn er samt fullviss um að olían streymi enn um æðar Ewing&#39;anna. Mögulega er fjölskyldan komin út á meira dýpi á Mexíkóflóanum; jafnvel með fljótandi tækniundur úti á endimörkum landgrunnsins. Þó er ennþá líklegra að Ewing&#39;arnir séu orðnir brautryðjendur í shale-gasvinnslu. Og stundi slíka vinnslu jafnvel beint undir hraðbrautaslaufunum kringum Dallas.

Eins og lesendur Orkubloggsins vita, ríkir nú í raunveruleikanum mikið gasæði þarna suður í Texas og víðar um Bandaríkin. Ný vinnslutækni hefur opnað leið að óhemju miklu af gasi, sem áður var talið ómögulegt að nálgast og vinna á hagkvæman hátt. Fyrir vikið lítur út fyrir að Bandaríkin eigi nægar gasbirgðir út alla þessa öld. Og verði jafnvel brátt útflytjendur á gasi.

shale-gas-drilling-fracking.jpgNýja vinnslutæknin er oftast þökkuð manni sem á gamals aldri tókst það sem öllum stóru olíufélögunum hafði mistekist. Manni sem er kannski síðasta táknmyndin um það hvernig olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum varð til og byggðist upp. 

Sá heitir Gerorge P. Mitchell og fæddist í Galveston í Texas á því herrans ári 1919. Mitchell var kominn á níræðisaldur þegar honum í lok 20. aldar tókst það ætlunarverk sitt að ná upp miklu af gasi úr þunnum gaslögum, sem finna má innilokuð djúpt í grjóthörðum sandsteininum undir Texas. Lykillinn að lausninni var að beita láréttri bortækni og svo sprengja upp bergið með efnablönduðu háþrýstivatni og losa þannig um innikróað gasið. Og um leið og gasið byrjað að streyma upp á yfirborðið runnu stóru olíufélögin á peningalyktina. Árið 2001 var Mitchell Energy keypt á 3,5 milljarða USD, sem sannaði að ævintýrin gerast enn vestur í Texas.

Þó svo Mitchell, sem nú er kominn á tíræðisaldur, sé ekki meðal allra þekktustu manna úr bandaríska olíu- eða orkuiðnaðinum, er hann prýðilegt dæmi um þá kynslóð sem af eigin rammleik byggði upp sjálfstætt og öflugt bandarískt orkufyrirtæki. Að því leyti gæti hann allt eins verið gamli Jock Ewing - eða litli bróðir hans (Jock á að vera fæddur 1909 - Mitchell fæddist 1919) .

dallas-cast-photograph-c10102183_1099466.jpgM.ö.o. þá er Jock Ewing í reynd bara lauflétt spegilmynd af ýmsum mönnum sem gerðu það gott í olíuleitinni þarna vestra snemma á olíuöldinni. Harðjöxlum sem byggðu upp sitt eigið olíuvinnslufyrirtæki  í fylkjum eins og Oklahóma og Texas. Sumir þessara manna hittu beint í mark og urðu meðal ríkustu auðkýfinga heimsins, eins og t.d. þeir J. Paul Getty og HL Hunt. Margir aðrir gerðu það einnig nokkuð gott - og gamli Jock Ewing er ein slík sögupersóna.

Stóru olíufélögin hafa i gegnum tíðina stundað það að stækka og efla markaðshlutdeild sína með því að kaupa upp þessi litlu en öflugu fyrirtæki. Á síðustu árum hefur einnig borið nokkuð á því að orkurisarnir hafa haslað sér völl í endurnýjanlegri orku, með kaupum á fyrirtækjum sem sérhæfa sig í sólarorku, vindorka eða jarðvarma. Við getum ímyndað okkur að ágreiningurinn milli ungu frændanna innan Ewing Oil snúist núna einmitt um það hvort fyrirtækið eigi að einbeita sér áfram að olíuleit og -vinnslu eða fara í grænni áttir. Texas hefur jú verið vettvangur stórhuga áætlana um uppbyggingu nýrra vindorkuvera og vel má vera að Christopher Bobbyson dreymi í þá átt. Kynningarstiklan sem TNT hefur sett á netið bendir einmitt til þess að ágreiningur sé milli þeirra John&#39;s Ross og Christopher&#39;s um hvort framtíðin liggi í olíu eða öðrum orkugjöfum.

dallas-ii-young-2.jpgOrkubloggaranum þætti samt ennþá meira spennandi og viðeigandi að Ewing Oil sé komið í gasið. Annar strákanna gæti hafa verið framsýnn í anda George Mitchell og Ewing Oil orðið stór player í shale-gasvinnslu. Þá væri fyrirtækið núna eflaust vaðandi í tilboðum frá stóru orkufyrirtækjunum - rétt eins og gerðist hjá Mitchell Energy. Sama var uppi á teningnum nú nýlega þegar bæði Chesapeake Energy og Petrohawk Energy voru keypt háu verði af ástralska orku- og námurisanum BHP Billiton. Salan á XTO Energy til ExxonMobil seint á árinu 2009 er þó líklega þekktasta dæmið um þorsta stóru orkurisanna í þunnildisgasið.

Samkvæmt fréttum af nýju Dallasþáttunum, þá verða bæði JR og Bobby á svæðinu. Þarna mun grásprengdur og glæsilegur Bobby Ewing sjást hvæsa milli tannanna eins og honum er einum lagið: "No drilling on my  ranch!". Þetta gæti einmitt bent til þess að a.m.k. annar stráklinganna vilji ólmur sækja shale-gas í sandsteinslögin djúpt undir Southfork.

dallas_pam.png

Skemmtilegt! Þeir John Ross og Christopher virðast reyndar vera óttaleg ungbörn. Og dömurnar þeirra hálfgerðar smástelpur. En það er líklega bara tíðarandinn; alvöru skutlur eins og Pam eru kannski ekki "in" þessa dagana?  

Af gömlu persónunum verða þarna einnig ljóskan Lucy, tyggjó-töffarinn Ray Krebbs og sjálf on-the-rocks-drottningin Sue Ellen. Hvort sjóðandi heit Victoria Principal í hlutverki Pam verður líka mætt til leiks, er Orkubloggaranum ókunnugt um. En það er hæpið (eins og sannir Dallas aðdáendur hljóta að muna). Sennilega verður sveitaskutlan Donna Krebbs líka fjarri góðu gamni, þ.a. nostalgían mun ekki fá allar sínar villtustu væntingar uppfylltar. Eftir stendur svo risastóra spurningin: Á hvers konar pallbíl verður Ray Krebbs? Freistandi að veðja á nýjustu útgáfuna af Jeep Gladiator!

oil-donkey-texas-sunset.jpg

Það var reyndar svo að í Dallasþáttunum sást jafnan lítið til hinnar eiginlegu olíustarfsemi Ewing Oil. Helst að menn í kúrekaklæðum væru einstöku sinnum eitthvað að brölta úti á túni með verkfæratösku, að skipta um legu í einmana olíuasna (oil donkey). En til að þessi fyrsta færsla Orkubloggsins eftir sumarleyfi sé ekki bara tóm froða, er einmitt vert að minna á að þessi gamla tegund af olíuvinnslu í Texas og annars staðar í Bandaríkjunum er ennþá afar mikilvæg, þó hnignandi sé. Það eru hundruðir þúsunda af svona gömlum olíubrunnum þar vestra og samtals skila þeir meira en 15% af allri olíuframleiðslu í Bandaríkjunum!

dallas-ii-jr-2.jpg

Og í þeim tilvikum sem ekki er lengur hægt að kreista olíudropa upp úr sléttunni, er hægt að snúa sér að nýja gasævintýrinu. Kolvetnisauðlindirnar djúpt undir Texas duga mögulega í margar Dallas-seríur í viðbót. Lýkur þar með þessu sjónvarps-sápu-þvaðri Orkubloggsins. Með loforði um að strax í næstu færslu snúum við okkur að alvarlegri málum.

 


Olían í Suður-Súdan

Þegar litið er til viðmiðana eins og barnadauða, menntunar eða samgangna þá er Suður-Súdan eitthvert vanþróaðasta samfélag heimsins. Engu að síður fagnaði fólkið þar af einlægni nýfengnu sjálfstæði sínu um nú fyrr í mánuðinum.

sudan-south_4.gif

Súdan er um margt ævintýralegt land. Norðurhlutinn er hluti af hinni fornu Núbíu og höfuðborgin Khartoum liggur þar sem mætast stórfljótin Bláa-Níl og Hvíta-Níl. Þetta er gríðarlega stórt land; alls er flatarmálið um 2,5 milljón ferkílómetrar og íbúarnir eru um 45 milljónir. Um 10 milljónir af þessum 45 búa í suðurhlutanum, sem svo lengi hefur barist fyrir sjálfstæði frá norðurhlutanum. Og nú hefur það magnaða gerst. Frá og með laugardeginum fyrir viku síðan, er Suður-Súdan orðið sjálfstætt ríki.

Framan af 20. öldinni var þetta landsvæði hluti af nýlendum Breta í Afríku. Loks árið 1956 varð Súdan sjálfstætt ríki. En vandamálið var bara, eins og svo víða í Afríku, að það bjó ekki ein sameinuð þjóð innan landamæra hins nýja ríkis. Í norðurhluta Súdans ríkja múslímar með sterk arabísk tengsl. Í suðri búa aftur á móti aðallega blökkumenn, sem flestir eru kristnir og vilja ekkert af Múhameð spámanni vita.

Fyrir vikið var aldrei nein almennileg sátt eða þjóðarsamstaða fyrir hendi. Enda fór svo að um leið og Súdan varð sjálfstætt hóftst blóðug borgarastyrjöld milli norðurs og suðurs. Hún stóð nær sleitulaust hálfa öld, með vopnahléum af og til. Það var svo árið 2002 að samkomulag tókst um að suðurhlutinn fengi að kjósa um sjálfstæði frá norðurhlutanum.

sudan-north_bashir.jpg

Allt frá árinu 1989 hefur maður að nafni Omar Hassan Ahmad Al-Bashir ráðið ríkjum í Súdan í skjóli hervalds. Síðan hann rændi völdum er talið að um tvær milljónir manna hafi látið lífið í borgarastríðinu milli norðurs og suðurs. Stjórn Bashir&#39;s hefur líka orðið alræmd á Vesturlöndum fyrir stuðning við hryðjuverkamenn af ýmsu tagi. Og ekki síður vegna harðstjórnar og manndrápa í héraðinu Darfur í V-Súdan, en talið er að þar hafi 200-400 þúsund manns verðið drepin á nokkrum árum.

Súdan er olíuríki; nær allar útflutningstekjur Súdana koma frá olíu. Um 85% vinnslunnar kemur frá svæðum í Suður-Súdan, en allur olíuutflutningurinn fer engu að síður um Norður-Súdan. Súdan er nefnilega að miklu leyti landlukt og eini aðgangurinn að sjó er að Rauðahafi í norð-austur-horni landsins (þ.e. í Norður-Súdan). Þangað streymir olían frá vinnslusvæðunum í Suður-Súdan; fyrst til olíuhreinsunarstöðva í Norður-Súdan og þaðan um borð í olíuskip í hafnarborginni Port Sudan við Rauðahaf (sbr. kortið hér efst).

sudan-china_hu_bashir_in_beijing.jpg

Svo til öll olíuskipin sem leggja úr höfn frá Port Súdan sigla til Asíu - flest þeirra til Kína. Kínverjar hafa verið stórtækir í að fjárfesta í olíuvinnslu í Súdan, en þar fer kínverska ríkisolíufyrirtækið China National Petroleum Corporation (CNPC) fremst í flokki. Mestöll olíuvinnsla í landinu er í höndum félags sem kallast Greater Nile Petroleum Operating Company (GNPOC), en þar er einmitt kínveska CNPC langstærsti hluthafinn (með 40% hlut - enda er skammstöfun þessara tveggja félaga skemmtilega lík). Afgangur hlutabréfanna í GNPOC er svo nær allur í höndum tveggja annarra olíufélaga; annað þeirra er indverska olíufélagið ONGC (sem indverska ríkið á að 3/4 hlutum) og hitt er ríksiolíufélagið Petronas í Malasíu.

cnpc-china-sudan-doctor.jpg

Það eru sem sagt ríkisolíufélög frá Asíu sem hafa með höndum mestalla olíuvinnslu í Súdan. Örfá vestræn olíufélög eru í landinu, en það eru allt minni spámenn. Það er ekki bara áhugi asísku olíufélaganna sem er lykillinn að yfirburðum þeirra í olíuvinnslunni í Súdan. Það er nefnilega svo að bandarísk fyrirtæki hafa um árabil ekki mátt stunda olíuviðskipti í Súdan.  Það kemur til vegna viðskiptaþvingana sem Bandaríkjastjórn setti á landið vegna stuðnings súdanskra stjórnvalda við hryðjuverkasamtök.

Þetta nýttu Kínverjarnir sér til að styrkja enn frekar stöðu sína í olíuvinnslunni í Súdan. Svo er það reyndar staðreynd að oft koma viðskiptaþvinganir gegn ríkjum verst niður á þeim sem síst skyldi, þ.e. fátækum almenningi. Kínverjarnir hjá CNPC er meðvitaðir um samfélagsáhrif sín og veita heilbrigðisþjónustu og margt fleira samhliða því að dæla upp olíu úr súdanskri jörðu og um borð í kínversk olíuskip.

Vegna atburðanna í Darfúr er Bashir, forseti Súdans, vel að merkja opinberlega eftirlýstur af Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum. En kínversk stjórnvöld hafa mótmælt handtökuskipun dómstólsins á hendur Bashir! Það gengur svona - þegar olían er annars vegar.

sudan-south_pipeline.jpg

Hin nýju stjórnvöld í Suður-Súdan segjast fljótlega ætla að byggja fyrstu olíuhreinsunarstöðina þar í landi og svo leggja olíuleiðslu til Indlandshafs, í gegnum Kenýa. Það myndi gjörbreyta strategískri stöðu þessa nýsjálfstæða lands, sem nú framleiðir um 85% allrar olíu í Súdan og þarf að flytja hana alla til hreinsunarstöðva í N-Súdan. 

En hvort af þessu verður gæti í reynd verið í höndum Kínverjanna, fremur en Suður-Súdana, sem hafa líklega hvorki fjárhagslega getu né tæknilega þekkingu til að ráðast í svona risaverkefni. Svo er reyndar líklegt að Bashir og félagar hans í norðri muni alls ekki kyngja slíkum áformum þegjandi og hljóðalaust.

sudan-oil-production_eia_1998-2010.gif

Þegar eru uppi harðar deilur milli súdönsku ríkjanna um skiptingu olíteknanna. Í dag er olíuframleiðslan í Suður-Súdan um 350 þúsund tunnur á dag. Að auki eru framleiddar um 150 þúsund tunnur daglega á svæðunum sem tilheyra Norður-Súdan. Olíutekjurnar undanfarin ár hafa numið hátt í 95% af öllum útflutningstekjum Súdans, en fyrir Suður-Súdan er hlutfallið ennþá hærra eða um 98%! Í samningaviðræðum hefur verið litið til þess að meðan Suður-Súdan noti útflutningsleiðina um Norður-Súdan, fái hinir síðarnefndu líka hluta af tekjunum sem olían sunnanfrá skapar. Bashir segir að N-Súdan verði að fá a.m.k. helming teknanna, en eðlilega þykir Suður-Súdönum það nokkuð hátt gjald.

sudan-south_6.jpg

Hernaðarlega á Suður-Súdan við ofurefli að etja. En úrslitin í þessum deilum gætu ráðist af dómarkasti - þar sem Kínverjar einfaldlega segja mönnum að slaka á og að þeir muni sjá til þess að allir græði. Vísbendingar eru strax konar fram um að Kínverjar séu byrjaðir að koma sér vel fyrir gagnvart stjórnvöldum í Suður-Súdan.

Hvernig svo sem deilum milli norðurs og suðurs í Súdan lyktar, er hætt við að tugmilljónir Súdana muni aldrei sjá neitt af þeim ávinningi sem olían skapar. Reynslan frá öðrum olíuríkjum í Afríku sýnir hvernig iðnaðinum er yfirleitt stjórnað af gjörspilltum klíkum og stór hluti alls hagnaðar af nýtingu náttúruauðlinda rennur jafnan allt annað en til uppbyggingar í viðkomandi löndum. Gögn frá Wikileaks benda einmitt til þess að Bashir og hans lið hafi síðasta áratuginn stolið sem nemur um 10 milljörðum USD úr ríkissjóði. Leiðir hugann að því að á tímabili var Kaupþing komið í slagtog við olíusjóði í eigu Líbýustjórnar. Eru engir súdanskir olíupeningar í þrotabúi þess mikla spútnikbanka?

Héðan í frá munu hin nýju stjórnvöld í Suður-Súdan líklega fá í hendur um 2 milljarða USD árlega vegna olíutekna. Hversu mkið af þeim peningum fara í uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu, skólum, bættar samgöngur o.s.frv. verður að koma í ljós. Það er a.m.k. augljóst að hið nýfrjálsa ríki Suður-Súdana á langa og holótta leið fyrir höndum. Einungis 15% fullorðinna í landinu eru læs. Helmingur þjóðarinnar lifir af minna en sem nemur einum USD á dag - og flestir hinna hafa lítið meira milli handanna. Landið er á stærð við Texas, en malbikaðir vegir munu samtals vera innan við 200 km og lestarteinar um 250 km.

sudan-south_2.jpg

Innviðir þessa nýjasta ríkis í veröldinni eru sem sagt vægast sagt í molum. Engu að síður ríkti mikil gleði í hinni nýju höfuðborg Juba og víðar í Suður-Súdan, þegar sjálfstæðinu var fagnað um síðustu helgi.

Þarna eru tvímælalaust spennandi tækifæri fyrir þá sem eru til í eitthvað allt öðruvísi. Sænska Lundin Petroleum hrökklaðist reyndar frá sunnanverðu Súdan fyrir nokkrum árum. En nú er kannski tímabært fyrir Norðurlandabúa að snúa aftur á þessar kolsvörtu slóðir. Ætli Ísland sé búið að viðurkenna sjálfstæði Suður-Súdans? Án þess fá Mörlandar varla vegabréfsáritun þangað á vit ævintýranna.

------------------------------------------------------------

Orkubloggið verður líklega með rólegra móti næstu vikurnar, meðan landsmenn njóta sumarsins hér á Klakanum góða. 


Virkjað í Eldsveitum

skafta-fogrufjoll-1.jpg

Í vikunni sem leið fjölluðu fjölmiðlar talsvert um drög að Rammaáætlun, sem nú virðist komin á langþráðan lokasprett.

Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði felst í mati á helstu virkjunarkostum hér á landi og þar er fjallað um áhrif þeirra á náttúru og minjar, umhverfi, hlunnindi og þróun byggðar. Hugsunin er að þetta mat verði haft að leiðarljósi við ákvörðun Alþingis og stjórnvalda um hvar skuli virkja og hvar ekki.

Alþingi á þó eftir að fjalla um áætlunina og ekki gott að segja hver niðurstaðan verður þar á bæ. En sé litið til skýrslunnar sem verkefnastjórn Rammaáætlunar skilaði af sér í liðinni viku má kannski leyfa sér að draga þá ályktun, að vilji verði hjá stjórnvöldum til að nýta t.d. flesta þá virkjanakosti sem Landsvirkjun horfir nú til. Og að sömuleiðis verði talsvert meiri jarðvarmi virkjaður á næstu árum bæði á Reykjanesi og á Hellisheiði. Að því gefnu auðvitað að kaupendur séu að raforkunni og það þá vonandi á verði sem skili orkuvinnslunni viðeigandi arðsemi.

vonarskard-skrauti.jpg

Niðurstöður verkefnastjórnar um Rammaáætlun gefa líka vísbendingar um hvaða svæði verði friðuð, þ.e. ekki virkjuð. Þar er sumt sem kalla mætti sjálfsagða hluti. Að mati Orkubloggarans ætti t.d. öllum að vera augljóst að það væri galið að ætla að virkja í náttúrparadís eins og Vonarskarði. Sömuleiðis væri vart fyrirgefanlegt að fórna Dettifossi og þess vegna er einn allrastærsti virkjunarkosturinn á Íslandi líklega úr sögunni, sem er Arnardalsvirkjun.

Sökum þess hversu náttúröflin skekja Vestur-Skafafellssýslu hressilega þessi misserin, er vert að staldra við þá virkjunarkosti sem Rammaáætlunin fjallar um á þeim slóðum. Um sýsluna renna margar jökulár, sem ýmist koma úr Vatnajökli, Mýrdalsjökli eða Torfajökli. Þar mætti t.d. nefna Djúpá, Hverfsifljót, Skaftá, og Hólmsá.

sjobirtingur-geirlandsa.jpg

Svæðið er einnig þekkt fyrir bergvatnsár af öllum gerðum, með tilheyrandi bleikju- og silungsveiði. Mörgum þykir skaftfellski sjóbirtingurinn einhver besti matfiskur sem hugsast getur. Orkubloggarinn mun seint gleyma glænýjum sjóbirtingnum, sem var stundum á borðum á æskuheimilinu á Krikjubæjarklaustri þegar öðlingurinn hann Valdi í Ásgarði hafði átt leið um hlaðið með þennan gljáandi fallega fisk. Ennþá hefur bloggarinn ekki bragðað ljúfengara hnossgæti og hefur þó víða um heiminn farið og margt gott fengið.

Ekkert af jökulvötnunum austur í Skaftafellssýslum hefur verið virkjað enn sem komið er - að frátalinni Smyrlabjargavirkjun austur í Suðursveit í A-Skaftafellssýslu (sú virkjun fær reyndar meira af afli sínu frá dragám en jökulvatni). Í Vestursýslunni er líklega Skaftá það fljót sem flestir kannast við og að henni verur athyglinni beint í þessari færslu Orkubloggsins.

skafta-hlaup-straumur.jpg

Þess má geta að þó svo Vestur-Skaftfellingar hafi ekki ennþá virkjað jökulfljótin, er það engu að síður staðreynd að þar í Eldsveitunum var unnið gríðarlega merkilegt frumkvöðlastarf í upphafi vatnsaflsnýtingar á Íslandi. Þar var um að ræða bæði smíði á túrbínum og byggingu ótalmargra heimarafstöðva, sem margar hverjar hafa verið nýttar í hálfa öld eða meira. Á þessa merku sögu var einmitt minnst á hér á Orkublogginu í færslu haustið 2009.

Skaftá er áin sem sveitarfélagið Skaftárhreppur er kennt við. Áin setur mikinn svip á þessar slóðir, þar sem hún rennur úr Skaftárjökli og niður í sveitirnar. Leið Skaftár liggur vestan við Lakagíga og sker sig þar meðfram Fögrufjöllum, en hinumegin við þau liggur Langisjór. Áfram heldur Skaftá austan við Hólaskjól í nágrenni Eldgjár, en að byggð kemur áin fyrst við sveitabæina Skaftárdal (þar er reyndar ekki lengur heilsárbúseta) og Búland. Við Skaftárdal lækkar landið hratt og þar fellur áin í talsverðum flúðum og er hún þar stórfengleg á að líta í vatnavöxtum og hlaupum. Það er á þessum slóðum sem Skaftá mun áður fyrr hafa runnið í djúpu gljúfri, sem fylltist af hrauni í Skaftáreldum fyrir rétt rúmum tveimur öldum. 

kirkjubaejarklaustur-3.jpg

Þegar niður á undirlendið kemur klofnar áin í tvennt. Eystri kvíslin heldur heitinu Skaftá og rennur austur eftir Síðu, í farvegi á milli Eldhraunsins og móbergsfjallsins. Þegar áin kemur úr hrauninu við Eldmessutanga rennur hún áfram austur að Kirkjubæjarklaustri, en þar sveigir hún niður á flatlendið austan Landbrots og rennur loks til hafs niður á söndunum, þar sem heitir Skaftárós.

Vestari kvísl Skaftár nefnist Eldvatn. Sem eftir stutta ferð myndar upphaf Kúðafljóts (ásamt vatni úr Tungufljóti og Hólmsá). Að auki renna lænur úr Skaftá inní hraunið sem síar jökulleirinn burt og er það vatn væntanlega helsta undirstaðan að kristaltærum uppsprettunum sem koma undan hrauninu bæði í Landbroti og Meðallandi. Það er þetta vatn sem myndar þekktar veiðiár eins og t.d. Tungulæk og Grenlæk í Landbroti (sbr. myndin hér að neðan) og Eldvatn í Meðallandi. Síðastnefnda áin er vel að merkja allt annað Eldvatn heldur en það sem tengir Skaftá og Kúðafljót - og örnefnið Eldvatn á líka við um bergvatnsá sem rennur um eystri hluta Eldhrauns, austan við Orrustuhól. Leiða má líkum að því að eftir Skaftárelda hafi fólk freistast til að nefna ár Eldvatn sem leituðu í nýja farvegi eða spruttu undan hrauninu.

grenlaekur-1.jpg

Sem fyrr segir þá er Skaftá ennþá óvirkjuð. Vatn úr ánni hefur þó verið nýtt fyrir heimarafstöðvar eins og þá sem t.d. var lengi við bæinn Hólm í Landbroti. Uppi hefur verið sú hugmynd að byggja netta rennslisvirkjun í ánni við bæinn Skál, sem er eyðibýli í hlíðunum ofan við Eldhraunið vestur af Kirkjubæjarklaustri, en Orkubloggarinn veit ekki hvort sú hugmynd er enn á sveimi.

Undanfarið hefur aftur á móti verið mikill gangur í að vinna rannsóknir til undirbúnings á byggingu stórrar virkjunar, sem nýti afl Skaftár þar sem fall hennar er mest, ofan við Skaftárdal. Er þá ýmist talað um Skaftárvirkjun eða Búlandsvirkjun, en útfallið myndi verða í nágrenni við bæinn Búland í Skaftártungu. Margir sem farið hafa um Fjallabaksleið nyrðri kannast við það býli, því helsta leiðin upp á Fjallabak liggur rétt hjá Búlandi.

Í Rammaáætluninni er fjallað er um þrjá virkjanakosti í Skaftá. Þar af eru tveir möguleikanna miðlanir eingöngu (þar sem vatni úr Skaftá yrði miðlað yfir á vatnasvæði Tungnaár og nýtt í virkjanirnar í Tungnaá og Þjórsá). Þessir þrír kostir til að virkja eða miðla Skaftá eru eftirfarandi:

A.   Skaftárvirkjun / Búlandsvirkjun (virkjun auðkennd sem nr. 18 í Rammaáætlun).

Reist yrði stífla neðan Hólaskjóls, sem myndi veita Skaftá (ásamt Syðri-Ófæru) um jarðgöng í miðlunarlón á s.k. Þorvaldsaurum. Þorvaldsaurar liggja rétt vestan við vegaslóðann sem fólk ekur milli Hólaskjóls og Skaftártungu á Fjallabaksleið nyrðri. Lónið yrði myndað með byggingu annarrar stíflu, á þeim slóðum þar sem Tungufljót rennur nú (vatnsmagn Tungufljóts þar sem það fellur niður Skaftártungu, myndi því væntanlega minnka mikið ef af þessum virkjunarframkvæmdum yrði). Frá miðlunarlóninu yrði vatnið svo leitt inn í fallgöng að stöðvarhúsi neðanjarðar og svo áfram eftir göngum að útfalli skammt neðan við Búland.

skafta-fossar.jpg

Þarna næðist veruleg fallhæð eða alls um 180-190 m og afl virkjunarinnar yrði allt að 150 MW. Þetta yrði því myndarleg virkjun; myndi t.a.m. framleiða sem samsvarar hátt í fjórðungi af því rafmagni sem Kárahnjúkvirkjun nær að skila frá sér.

Þó svo Orkubloggaranum þyki eftirsjá af hvítfryssandi afli Skaftár þar sem hún steypist niður í þrengslum við Skaftárdal, er þetta sennilega skynsamlegur virkjunarkostur. Að því gefnu að menn hafi góða lausn á að takast á við svakaleg Skaftárhlaupin. Og að stíflurnar og fjúkandi jökulleir úr lónsstæðinu hafi ekki umtalsverð áhrif á ægifagurt svæðið í nágrenni Eldgjár.

Þessari virkjun myndi að sjálfsögðu fylgja einhverjar vegaframkvæmdir og lagning nýrrar háspennulínu, sem kann að vera óprýði af eins og oft er með slík mannvirki. Loks má nefna að það hlýtur að vera afar áríðandi fyrir heimafólk í Skaftárhreppi að sem mest af raforkunni yrði nýtt heima í héraði. Vegna hafnleysis kann að vísu að verða þungt að laða iðnað að svæðinu. En ef á annað borð verður ráðist í stærsta virkjunarkostinn á svæðinu, væri svolítið dapurlegt ef það væri til þess eins að selja orkuna burt.

skafta-nordursjor-yfirlitsmynd-2.jpg

B.    Skaftárveita - án miðlunar í Langasjó (nr. 17). Sumir hafa nokkuð lengi gælt við þá hugmynd að veita Skaftá til vesturs, í tilbúið lón norður af Langasjó sem kallað hefur verið Norðursjór. Þaðan yrði vatnið leitt um jarðgöng til vesturs inn á vatnasvið Tungnaár.

Þessi miðlun myndi kippa fótunum undan áðurnefndri Skaftárvirkjun (Búlandsvirkjun). Því þykir Orkubloggaranum ólíklegt að slík miðlun myndi fást samþykkt af sveitarstjórn Skaftárhrepps, ef hún á annað borð kæmist af hugmyndastiginu. En þetta er sem sagt einn af þeim þremur möguleikum til að nýta Skaftá til raforkuframleiðslu, sem fjallað er um í Rammaáætluninni.

skafta-upptok-yfirlitsmynd-2.jpg

C.    Skaftárveita með miðlun í Langasjó (nr. 16). Önnur hugmynd um að nýta Skaftá í virkjanir á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu er að veita ánni í Langasjó. Og nota þannig þetta sérstæða og fallega stöðuvatn á hálendinu sem miðlunarlón, sem síðan yrði tengt Tungnaá með göngum og skurðum. Skv. samkomulagi umhverfisráðuneytis og sveitarstjórnar Skaftárhrepps fyrr á þessu ári (2011), er nú unnið að friðlýsingu Langasjávar (og Eldgjár). Það er því orðið ólíklegt að Langisjór verði nýttur sem miðlun fyrir Skaftá.

---------------

Talað er um að Rammaáætlun muni skapa sátt um orkunýtingu á Íslandi. Það er reyndar alls ekki víst að sú von gangi eftir. Hvað Skaftá snertir, þá mun talsverður stuðningur vera meðal heimafólks í Skaftárhreppi við byggingu Búlandsvirkjunar. En það er líka fyrir hendi andstaða við virkjunaráformin. Þar til marks má nefna nýstofnuð náttúruverndarsamtök, sem heita því hljómfagra og viðeigandi nafni Eldvötn.

skafta-4.jpg

Það er fyrirtækið Suðurorka sem hefur þennan virkjunarkost til athugunar, en þar er HS Orka stór hluthafi. Það hvort virkjunin verður að veruleika mun væntanlega ráðast af endanlegu útliti Rammaáætunarinnar, eftir meðferð Alþingis, auk þess sem afstaða sveitarstjórnar Skaftárhrepps hlýtur að skipta miklu. Ennþá eru líklega nokkur ár í það að niðurstaða liggi fyrir um hvort Búlandsvirkjun verði byggð eða ekki.

 


Umræða um orkumál

michael-porter-iceland-geothermal.jpg

Á þriðjudaginn sem leið var haldinn opinn fundur hjá Arion banka, þar sem formlega var ýtt úr vör samstarfi allmargra íslenskra fyrirtækja um íslenska jarðvarmaklasann. Þarna var fullt hús, í nokkuð stórum sal í aðalstöðvum bankans við Borgartún.

Sennilega voru margir gestanna fyrst og fremst mættir til að sjá og heyra erindi próf. Michael&#39;s Porter, sem enn og aftur var kominn til Íslands. Porter lék þarna við hvurn sinn fingur og virðist sem hann hafi tekið miklu ástfóstri við Ísland. Gaman að því. Um kvöldið var svo viðtal við karlinn í Kastljósinu.

landsvirkjun_logo_1095508.jpg

Samt má segja að það hafi verið  Landsvirkjun sem stal senunni þennan þriðjudag. Því þá var birt athyglisverð skýrsla sem unnin var af GAM Management (GAMMA) fyrir Landsvirkjun og ber titilinn Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

"Svimandi framtíðarsýn" - titill ritstjórnargreinar Fréttatímans nú um helgina - er kannski til marks um fyrstu viðbrögð margra sem skýrsluna lesa. Enda lýsir skýrslan hreint mögnuðum tækifærum Landsvirkjunar og Íslands. Þ.e. að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar kunni allt að tvöfaldast á næstu 15 árum og á sama tíma gætu tekjurnar þrefaldist. Miðað við spár um þróun raforkuverðs myndi þetta geta leitt til stórkostlegrar arðsemi hjá Landsvirkjun og í íslenska orkugeiranum. 

gamma-logo_1095330.png

Þessi sviðsmynd GAMMA gerir ráð fyrir því að meðalverðið sem Landsvirkjun fái fyrir framleiðslu sína, hækki úr núverandi 25 USD pr. MWst í 40 USD árið 2020 og verði komið í 60 USD árið 2030 (m.v. núverandi verðlag). Þessi framtíðarsýn byggir m.a. á erlendum spám um þróun raforkuverðs í Evrópu og að Ísland komi til með að tengjast Evrópu með sæstreng.

lv-gamma-tekjur-ardgreidslur.png

Gangi þetta eftir myndi Landsvirkjun skila miklum hagnaði. Og þá myndi arðgreiðslugeta fyrirtækisins, skv. forsendum GAMMA, fara úr því að vera nánast engin í dag (til þessa hefur raforkan verið seld stóriðjunni á sem næst kostnaðarverði) í að verða hátt í 600 milljón USD árið 2020 og rúmlega 1 milljarður USD árið 2030! Og skv. GAMMA næmu þá arð- og skattgreiðslur Landsvirkjunar ásamt afleiddum skattaáhrifum samtals hvorki meira né minna en 3-6% af landsframleiðslu og yrðu á bilinu 9-14% af tekjum ríkissjóðs Íslands.

Í skýrslu GAMMA eru settar fram ýmsar skemmtilegar viðmiðanir til að skýra betur þessar stærðir. Þar segir t.d. að arðgreiðslan frá Landsvirkjun til ríkissjóðs árið 2030 myndi jafngilda vel rúmlega helmingi af öllum kostnaði við íslenska heilbrigðiskerfið. Og yrði u.þ.b. tvöfalt meiri en allur kostnaðurinn við íslenska háskóla- og framhalsskólakerfið.

lv-gamma-tekjur-rikisins.png

Önnur viðmiðun sem GAMMA nefnir er sú að ríkið gæti nýtt arðinn til að lækka tekjuskatt einstaklinga um helming. Einnig mætti nýta arðinn til að að greiða niður allar erlendar skuldir íslenska ríkisins á stuttum tíma. Í framhaldinu mætti svo láta arðgreiðslurnar renna í sérstakan sjóð - sem við getum nefnt Orkusjóð Íslands

Slíkur Orkusjóður gæti orðið einskonar risa-sparibaukur Íslendinga, ekki ósvipaður norska Olíusjóðnum. Til sjóðsins mætti grípa til að halda fjárlögum hallalausum - og hann yrði e.k. trygging að grípa til þegar miður áraði í íslensku efnahagslífi. Orkusjóðurinn hefði það reyndar umfram Olíusjóð Norðmanna að orkuauðlindir Íslands eru endurnýjanlegar og því myndu væntanlega bætast háar arðgreiðslur í sjóðinn á ári hverju - um alla framtíð!

lv-gamma-vlf.png

Vissulega kann sumum að svima við að heyra þessa framtíðarsýn um stórfelldar fjárfestingar í nýjum virkjunum sem muni skila æpandi arðsemi. En allt miðast þetta vel að merkja við bestu eða bjartsýnustu sviðsmyndina. Gangi hún ekki eftir gerir GAMMA ráð fyrir nokkrum öðrum möguleikum. Allt niður í það að engar breytingar verði á raforkuverði Landsvirkjunar og jafnvel að engar nýjar virkjanir verði reistar.

Flestir fjölmiðlar virðast hafa litið framhjá því að skýrslan boðar ekki endilega bjarta tíma hjá Landsvirkjun. Einn möguleikinn sem lýst er í skýrslunni, er sá að við munum áfram sitja uppi með hið ferlega lága raforkuverð til stóriðjunnar sem verið hefur. Og arðurinn af orkuauðlindum Íslands renni þar með áfram fyrst og fremst til hinna útlendu stóriðjufyrirtækja.  Lesendur skýrslunnar ættu að gæta sín á að líta ekki fram hjá þessum möguleika og huga að öllum þeim mismunandi sviðsmyndum sem fjallað er um í skýrslunni (sbr. taflan hér að neðan, sem eins og gröfin í þessari færslu eru úr skýrslu og kynningu GAMMA, sem nálgast má á heimasíðu fyrirtækisins).

lv-gamma-tafla-7.png

Sumir hafa brugðist afar illa við þessari skýrslu; líkt henni við stríðshanska og segja hana vera sprengju inní umræðuna um hina margumtöluðu Rammaáætlun. Þetta eru sérkennileg viðbrögð. Í reynd ætti það að vera jákvætt fyrir alla að fyrir liggi sem mestar upplýsingar um hvaða efnahagslegu áhrif orkuauðlindir Íslands geti mögulega haft í framtíðinni. 

Skýrsla GAMMA gerir vissulega ráð fyrir því að einn kosturinn sé að hér verði mikið virkjað í framtíðinni. Þess vegna er kannski eðlilegt að þeir sem eru mjög andsnúnir virkjunum hrökkvi við. En þetta eru fyrst og fremst upplýsingar. Í skýrslunni er einfaldlega útskýrt hvað mismunandi kostir gætu þýtt fyrir rekstur og arðsemi Landsvirkjunar, að tilteknum forsendum gefnum. Eðlilega gefur hæsta orkuverðið og mikil framleiðsla þar mestu arðsemina. 

lv-gamma-tekjur-framleidsla.png

Þetta eru upplýsingar sem varpa athyglisverðu ljósi á mikilvægi íslensku orkuauðlindanna. Fólk getur að vild sett fram ábendingar um þau atriði sem það telur rangt með farið í skýrslunni, gagnrýnt forsendur hennar o.s.frv. Slíkar umræður eru hið besta mál. En það er að mati Orkubloggarans afar ómálefnalegt að lýsa skýrslunni sem e.h.k. stríðsyfirlýsingu  eða sprengju.

Það er reyndar svo að með þessari skýrslu er Landsvirkjun bersýnlega að kalla eftir meiri umræðu í þjóðfélaginu um hinar ýmsu leiðir sem hægt er að fara m.t.t. nýtingar á orkuauðlindum Íslands. Um þetta má vísa til greinar eftir forstjóra Landsvirkjunar, sem birtist í Fréttablaðinu núna um helgina, þar sem hann einmitt kallar eftir slíkri umræðu.

Svo er eitt atriði sem vert er fyrir alla Íslendinga að hafa í huga. Í skýrslunni kemur fram sú skoðun GAMMA, að raforkuverðið eitt og sér er það sem öllu skiptir fyrir afkomu Landsvirkjunar og arðsemi ríkisins af orkuauðlindunum. Þ.e. að öll önnur efnahagsleg áhrif af virkjanaframkvæmdum skipti í reynd litlu máli fyrir þjóðina. Orðrétt segir í skýrslunni: "Kjarni málsins er sá að þegar söluaðili raforkunnar er opinber aðili sem greiðir arð til ríkisins en kaupandi er erlent stórfyrirtæki sem flytur allan hagnað úr landi ræðst þjóðhagslegur ábati vegna raforkuframleiðslu fyrst og fremst af því raforkuverði sem þessir aðilar semja um á milli sín."

glencore-rusal-1.jpgÞarna er bent á staðreynd, sem hefur því miður alltof lítið verið rædd hér á landi: Að í reynd hefur nær allur arðurinn af orkulindum Íslands runnið til erlendu stóriðjufyrirtækjanna. Og verði ekki tekið tillit til stefnumótunar núverandi stjórnenda Landsvirkjunar, er hætt við að svo verði áfram; að það verði Glencore, Rio Tinto Alcan, Alcoa og félagar sem áfram hirða einir svo til allan arðinn af raforkuframleiðslu á Íslandi. Varla er það sem við helst viljum? Í staðinn getum við haft að leiðarljósi, að bæta arðsemi Landsvirkjunar og þannig aukið efnahagslega velferð Íslendinga - eins og GAMMA einmitt bendir á.

lv-gamma-mynd-10.png

Þessi skýrsla GAMMA er allrar athygli verð. Samt verður ekki komist hjá því að nefna að skýrslan hefði mátt lesast a.m.k. einu sinni enn fyrir birtingu. Því þarna eru nokkrar óþarfa villur sem geta virkað svolítið óþægilega á lesendur. Orkubloggaranum þótti t.d. skrýtið að lesa þarna að einn elsti sæstrengur í Evrópu sé frá 1986 og að danska orkufyrirtækið Dong Energi sé skráð á hlutabréfamarkað. Hið rétta er jú að áætlanir danskra stjórnvalda um hlutabréfaskráningu Dong hafa legið í dvala síðan 2008 - og rafstrengur milli Bretlands og Frakklands var upphaflega lagður upp úr 1960.

En þetta eru aukatriði; aðalatriðið er að íslenskur raforkumarkaður kann nú að standa á tímamótum og þar með lífskjör okkar Íslendingra allra. Vonandi skilja stjórnmálamennirnir hversu miklir hagsmunir þarna eru í húfi. Og átta sig á því að raforkuverðið skiptir algeru höfuðmáli.

Landsvirkjun er tvímælalaust á réttri leið og mikilvægt að stjórn fyrirtækisins og fulltrúi eigenda (fjármálaráðherra) styðji viðleitni stjórnenda Landsvirkjunar til að auka arðsemi þessa langstærsta orkufyrirtækis á Íslandi. Gleymum því ekki að hagsmunir Landsvirkjunar og þjóðarinnar eru samtvinnaðir og að þarna er um að ræða einhvern allra mikilvægasta hlekkinn í hagsæld Íslendinga.  

europe-lights.jpg

Þar með er Orkubloggarinn ekki endilega að tala fyrir því að tvöfalda eigi raforkuframleiðslu Landsvirkjunar á einungis 15 árum eða svo. Umhverfissjónarmið og ýmis önnur sjónarmið kunna að valda því að æskilegra sé að fara hægar í sakirnar. Grundvallaratriðið er að Íslendingar séu meðvitaðir um möguleikana sem raforkuframleiðsla og raforkusala skapa okkur. Stjórnmálamennirnir og þjóðin eiga að ræða þessa möguleika vandlega og meta og ákveða hvaða leið sé farsælust. Umrædd skýrsla GAMMA fyrir Landsvirkjun er þarft innlegg í þá mikilvægu umræðu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband