Petoro

drekasvaedi_4_1093497.jpg

Í lögum nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er að finna lauflétta lagagrein, sem heimilar iðnaðarráðherra að stofna félag sem komi að kolvetnisvinnslu á íslenska landgrunninu. Tekið er fram í viðkomandi lagagrein að ef slíkt félag verði sett á fót, skuli það alfarið vera eign ríkissjóðs og að það skuli ekki i starfa sem vinnslufyrirtæki. Það myndi sem sagt einungis vera hluthafi í vinnsluleyfum.

Þessi heimild til að stofna svona félag var reyndar ekki í umræddum lögum þegar þau voru upphaflega samþykkt snemma árs 2001. Ákvæðinu var ekki bætt inní lögin fyrr árið 2008. Því þá, sjö árum eftir setningu laganna, höfðu Alþingismenn og starfsfólk innan íslensku stjórnsýslunnar áttað sig á gífurlegri þýðingu norska ríkisfyrirtækisins Petoro. Fyrirtækisins sem er umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag.

petoro-logo.png

Þegar rætt er um ávinning Norðmanna af olíu- og gasvinnslunni á norska landgrunninu er jafnan mest talað um norska olíufélagið Statoil. Og norska Olíusjóðinn, sem í renna leyfisgjöld og skattgreiðslur frá kolvetnisvinnslufyrirtækjunum og arður vegna eignar norska ríkisins í Statoil. Vissulega er Statoil mikilvæg tekjulind fyrir norska ríkið - og sömuleiðir er Olíusjóðurinn risadæmi. En í reynd skiptir Petoro jafnvel ennþá meira máli, sökum þess að þetta feimnislega félag er stærsta tekjulind norska Olíusjóðsins.

norway_troll-platform-02-2.jpg

Petoro er sem sagt ein mikilvægasta stoðin í norsku gullgerðarvélinni; vélinni sem 24 tíma á hverjum einasta sólarhring mokar til sín ómældum auðæfum af norska landgrunninu. Petoro er hvorki meira né minna en stærsti handhafinn að olíu- og gasvinnsluleyfum á landgrunni Noregs. Í gegnum þau leyfi ræður Petoro alls yfir um þriðjungi af öllum þekktum kolvetnisbirgðum í norsku lögsögunni. Og hlutfall þessa afslappaða ríkisfyrirtækis í olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu er um fjórðungur.

Það er að vísu ekki Petoro sjálft sem á vinnsluleyfin, heldur er Petoro bara umsýsluaðili. Vinnsluleyfin sem Petoro sér um, tilheyra sérstökum sjóði sem kallast Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) - eða State's Direct Financial Interest á ensku (þá skammstafað SDFI). Þessu mætti lýsa þannig að Petoro sé verktaki sem höndlar með eignir eignarhaldsfélagsins SDØE. Þó svo Orkubloggarinn þjáist af nákvæmnisáráttu, ætlar bloggarinn að gera líf lesenda sinna einfaldara með því að gera ekki of mikið úr skilunum milli Petoro og SDØE.  Til einföldunar má segja að SDØE og Petoro sé eitt og hið sama, enda er norska ríkið eigandi að hvoru tveggja.

statoil-snorre-b-platform-1.jpg

Það er sem sagt svo að Petoro sér um reksturinn á eignum SDØE, sem er stór hluthafi í miklum fjölda vinnsluleyfa á norska landgrunninu. Það þýðir þó ekki að Petoro sé sjálft að stússa í olíu- eða gasvinnslu (þ.e. ekki s.k. operator). Heldur er fyrirtækið einfaldlega rekstraraðili fyrir hönd SDØE, sem er bara hluthafi í viðkomandi vinnsluleyfum. Með SDØE er norska ríkið sem sagt beinn hluthafi í mörgum vinnsluleyfum. Og nýtur þá ágóðans í samræmi við eignarhald sitt og tekur sömuleiðis fjárhagslega áhættu í samræmi við eignarhald SDØE/Petoro í viðkomandi leyfum. Þeir sem svo vinna olíuna (og/eða gasið) skv. viðkomandi leyfum eru ýmis önnur fyrirtæki, sem eru einnig hluthafar í viðkomandi  vinnsluleyfum (Petoro er aldrei 100% handhafi vinnsluleyfis). Þar má nefna fyrirtæki eins og Statoil, franska Total, bandaríska ExxonMobil o.s.frv.

statoil-old-logo_1093528.jpg

Tilurð SDØE og Petoro má rekja til velgengni Statoil. Framan af norska olíuævintýrinu var olíuleit og -vinnsla á vegum norska ríkisins alfarið í höndum fyrirtækjanna Statoil og Norsk Hydro. Statoil var þá alfarið í eigu norska ríkisins og ríkið var að auki langstærsti hluthafinn í Norsk Hydro. Ýmis önnur útlend og einnig norsk olíufélög komu svo auðvitað líka að olíuvinnslu á norska landgrunninu. En Statoil var þar lang umsvifamest.

Á 9. áratugnum var hagnaður Norsk Hydro og þó enn frekar hagnaður Statoil af kolvetnisvinnslunni orðinn svo æpandi mikill, að menn sáu fram á að brátt yrði norska ríkið bara dvergur við hlið ofurfyrirtækisins Statoil. Margir norskir stjórnmálamenn töldu að yrði ekkert gert í málum myndi fyrirtækið nánast gleypa norska ríkið. Stærðarhlutföllin þarna á milli þóttu sem sagt orðin óheppileg. Þess vegna var nú ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og skipta vinnsluleyfum Statoil milli félagsins annars vegar og sérstaks sjóðs í eigu norska ríkisins hins vegar. Sjóðurinn var nefndur Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) og skyldi hann verða hluthafi í kolvetnisvinnslu á norska landgrunninu til hliðar við Statoil. 

oil-platform-norway-gas-burning.jpg

SDØE-sjóðurinn var settur á stofn 1985 og við skiptingu á vinnsluleyfum Statoil milli fyrirtækisins og sjóðsins var almennt miðað við að 80% eignarhlutur féll í hlut SDØE og 20% til Statoil. Þrátt fyrir þessa aðgerð var Statoil falið að sjá um umsýslu eigna SDØE, þ.a. þetta breytti litlu fyrir daglega starfsemi Statoil.

En fljótlega eftir stofnun sjóðsins urðu þær raddir æ háværari í Noregi að skrá bæri Statoil á hlutabréfamarkað og gera það að alvöru einkareknu olíufélagi - félagi sem myndi keppa við önnur helstu olíufélög heimsins um víða veröld. Þetta gekk eftir um aldamótin - og árið 2001 var Statoil skráð á markað í Osló og New York. Norska ríkið er þó áfram langstærsti eigandinn að Statoil og einungis tæplega 30% hlutabréfa í fyrirtækinu eru á markaðnum.

norway-oil-cash-flow-2010-2-2.jpg

Við þessa breytingu á Statoil þótti ekki lengur viðeigandi að fyrirtækið höndlaði með eignir SDØE. Þess vegna var Petoro sett á á fót samhliða einkavæðungunni á Statoil og skyldi þetta nýja fyrirtæki sjá um eignir SDØE. Og þangað rennur nú stille og roligt óhemju hagnaður á degi hverjum vegna eignarhaldsins í fjölmörgum vinnsluleyfum á norska landgrunninu.

Hagnaður SDØE er gríðarlegur og þar af leiðandi hefur  sjóðurinn oft verið stærsti greiðandinn í norska Olíusjóðinn. Þetta sést einmitt vel á stöplaritinu hér að ofan (SDFI er skammstöfun á ensku heiti sjóðsins). Eins og sjá má er bláa súlan miklu stærri heldur en arður norska ríkisins af eign þess í Statoil. Og sum árin er blái arðurinn af SDØE meira að segja ennþá hærri tala heldur en allar skattgreiðslur af kolvetnisvinnslu á norska landgrunninu! Þetta griðarlega framlag frá SDØE/Petoro til norska Olíusjóðsins er athyglisvert í því ljósi að hluti af eignum SDØE í vinnsluleyfum á norska landgrunninu var lagður aftur til Statoil skömmu fyrir einkavæðinguna 2001. Engu að síður er Petoro bersýnlega með óhemjumikil verðmæti í höndunum og varla hægt að ímynda sér meira spennandi starfsvettvang fyrir fólk sem á annað borð hefur áhuga á að vera ríkisstarfsmenn.

norway-norne-illustration.jpg

Hér í upphafi þessarar færslu voru nefnd íslensku lögin um fyrirkomulag kolvetnisvinnslu á landgrunni Íslands. Sem voru upphaflega sett árið 2001 (lög nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis). Í þeim lögum var ekki að finna neitt ákvæði um svona beina aðkomu íslenska ríkisins að vinnsluleyfum. En árið 2008 var, sem fyrr segir, samþykkt ný lagagrein sem kveður á um heimild til handa iðnaðarráðherra að stofna hlutafélag í eigu ríkisjóðs um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisvinnslu á íslenska landgrunninu (og á öðrum stöðum þar sem Ísland á hlutdeild; eina dæmið þar um er líklega norski hluti Drekasvæðisins, þ.e. ákveðinn hluti norsku lögsögunnar sunnan við Jan Mayen). 

dreki-area-cartoon.jpg

Í umræddri lagagrein er sérstaklega tekið fram að félagið skuli ekki starfa sem vinnslufyrirtæki. Þarna er hugsunin bersýnilega mjög svipuð og gildir um SDØE/Petoro og augljóst að Alþingi gerir nú ráð fyrir því að mögulega gæti íslenskt Petoro orðið til. Þó svo það ætli að ganga heldur treglega að koma olíuleitinni þarna af stað, sbr. síðustu fréttir um að fresta þurfi öðru olíuleitarútboðinu. Vonandi sjáum við samt bráðum alvöru olíufyrirtæki sýna Drekasvæðinu áhuga.

 


Mun íslenska rokið loksins gera gagn?

lv-vindorka-auglysing-visir-juni-2011-4.pngUndanfarnar vikur hefur mátt sjá auglýsingar frá  Landsvirkjun á nokkrum netmiðlum. Auglýsingarnar vísa til möguleika Íslands í vindorku og eru með hlekk á upplýsingasíðu um orkusýningu sem Landsvirkjun hefur sett upp í Búrfellsstöð.

Það er ekki langt síðan Landsvirkjun hóf athugun á þeim möguleika að nýta vindorkuna á Íslandi. Opinberlega komu þessar áætlanir fyrirtækisins líklega fyrst fram í vetrarbyrjun 2010. Þá flutti Úlfar Linnet, starfsmaður Landsvirkjunar, erindi í Háskólanum í Reykjavík með yfirskriftinni Vindorka: Möguleikar á Íslandi (tengillinn er á pdf-kynninguna sem flutt var við þetta tækifæri).

Þar kynnti Úlfar samnorrænt  fjögurra ára verkefni, sem hófst árið 2010 og kallast IceWind. Síðar hefur Úlfar flutt fleiri kynningar um þetta verkefni og smám saman hafa fjölmiðlar tekið að sýna þessu áhuga. Um leið vakna einnig umræður og áhyggjur um hvernig vindrafstöðvarnar kunni að skemma útsýni eða verða sem óheppilegir aðskotahlutir í náttúrulegu landslagi. Þetta eru mikil mannvirki og því eðlilegt að slík umræða eigi sér stað.

lv-vindur_nov-2010.png

IceWind-verkefnið beinist að þremur megin þáttum; í fyrsta lagi áhrifum ísingar á spaðana og annan tæknibúnað vindrafstöðvanna, í öðru lagi athugun á nýtingu vindorku á hafi úti (offshore wind) og loks í þriðja lagi fer hluti af peningunum í að rannsaka möguleika á að nýta vindorku á Íslandi og ljúka við íslenska vindatlasinn.

Hér á landi eru það Háskóli Íslands, Landsvirkjun og Veðurstofan sem eiga aðild að IceWind-verkefninu. Aðrir þáttakendur eru danski tækniháskólinn (DTU), danska vindtæknifyrirtækið Vestas, norska Statoil, norska veðurstofan, fáein norsk tæknifyrirtæki, háskólinn á Gotlandi í Svíþjóð og finnska tæknirannsóknastofnunin VTT.

Gert er áð fyrir að á vegum IceWind verði unnin fjögur doktorsverkefni og þar af tvö hér á Íslandi. IceWind gæti því orðið þýðingarmikið skref í að átta sig á því hvort og með hvaða hætti vindorka geti nýst okkur Íslendingum. Og þ.á m. hvar aðstæður eru bestar fyrir vindrafstöðvar á Íslandi.

wind-construct.jpg

Eflaust kannast sumir lesendur Orkubloggsins við sjónarmið þess efnis, að hér á Íslandi sé vindurinn alltof óstöðugur og óútreiknanlegar til að hann geti nýst stórum vindrafstöðvum. Slíkt tal stenst sennilega ekki skoðun; þvert á móti er líklegt að vindurinn hér bjóði upp á mun betri nýtingu vindrafstöðva en víðast hvar annars staðar í heiminum. Vonandi skýrist þetta betur með rannsóknunum í tengslum við IceWind.

Eðlilega fagnar Orkubloggarinn því að Landsvirkjun sé að skoða vindinn sem orkugjafa. Enda samrýmast þessar athuganir fyrirtækisins vel þeim niðurstöðum og tillögum sem bloggarinn setti fram í skýrslu sem hann vann var fyrir iðnaðarráðherra snemma árs 2009.

vindorka-island-lv.pngVindrafstöðvar á Íslandi gætu að sjálfsögðu nýst til að framleiða rafmagn inn á Landsnetið. En þó ekki síður til að dæla vatni neðan vatnsaflsvirkjunar aftur upp í miðlunarlón. Síkt samspil vatnsorkuvera og vindorkuvera þekkist vel erlendis og hefur t.d. tíðkast í Sviss og talsvert verið til skoðunar í Noregi, Bretlandi og víðar.

Athygli vatnsaflsfyrirtækja hefur nú í auknum mæli beinst að því að vindorkuver geti verið hagkvæm viðbót - bjóði upp á samspil sem veiti tækifæri til að stýra raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjananna betur og auki arðsemi þeirra umtalsvert.  Með blöndu af vatnsafli og vindorku opnast sem sagt möguleikar fyrir orkufyrirtækin til að ná ennþá betri nýtingu á vatnsaflsvirkjununum. Einnig getur þetta orðið til þess að gera slíkum fyrirtækjum auðveldara að uppfylla ýmsar reglur sem snúa að virkjununum, svo sem um gegnumrennsli, yfirfallsmagn, vatnshæð í uppistöðulónum o.fl.

bonneville-dam.jpg

Það er því kannski ekki skrýtið að sum helstu vatnsaflsfyrirtæki heimsins séu alvarlega að íhuga uppbyggingu vindorkuvera. Eitt af þeim orkufyrirtækjum sem er á fullu að vinna í slíkum verkefnum er bandaríska Bonneville Power Administration (BPA).

BPA er bandarískt ríkisorkufyrirtæki sem selur raforku frá um þrjátíu vatnsaflsvirkjunum á vatnasvæði Columbia-fljótsins í NV-hluta Bandaríkjanna. BPA kaupir sem sagt raforkuna frá þessum virkjunum og flytur hana eftir dreifikerfi sínu og selur áfram. 

roosevelt-at-bonneville-dam.jpg

Nafn BPA er auðvitað dregið af hinni sögulegu Bonneville-virkjun sem liggur neðarlega í Columbia; virkjuninni sem Orkubloggið sótti einmitt heim fyrir um hálfu öðru ári síðan (myndirnar tvær hér að ofan / til hliðar eru einmitt af Bonneville-virkjuninni). Nær allar umræddar þrjátíu virkjanir á vatnasvæði Columbia eru reknar af bandarískum ríkisfyrirtækjum og -stofnunum. Margar þessara virkjana eru frá tímum New Deal, þegar Roosevelt forseti stóð fyrir miklum virkjunarframkvæmdum í NV-hluta Bandaríkjanna og víðar um landið. Meðal virkjananna á vatnasvæði Columbia er t.d. risavirkjunin Grand Coulee (tæp 6.800 MW) og nokkrar mjög stórar virkjanir í Snákafljótinu (Snake River).

Í dag er BPA sannkallað risafyrirtæki. Vatnsaflsvirkjanirnar sem útvega fyrirtækinu raforku eru samtals um 20 þúsund MW eða rúmlega tíu sinnum meira uppsett afl en Landsvirkjun er með. Vegna aukinnar áherslu á sólar- og vindorku í Bandaríkjunum hafa fjölmörk vindorkuver verið byggð á starfsvæði BPA á NV-horni Bandaríkjanna. Nú er svo komið að yfir 3.500 MW af vindafli eru tengd raforkudreifikerfi BPA og horfur á að hátt i 500 MW til viðbótar bætist þarna fljótlega við.

bpa_wind_curtailments.png

Til að ná sem mestri hagkvæmni út úr kerfinu öllu hefur BPA verið í nánu samstarfi við nokkur helstu vindorkufyrirtækin. Þar ber líklega hæst samstarf þeirra við spænska orkurisann Iberdrola og hefur BPA nú þróað sérstakt vindspálíkan, sem Iberdrola og önnur vindorkufyrirtæki nýta til að meta hversu mikið rafmagn vindorkuverin munu framleiða á næstu sólarhringum. Þessi spálíkön nýtast einnig vatnsaflsfyrirtækjum, sem nota þau til að meta hvernig best verði að standa að raforkuframleiðslu - t.d. í tengslum við útreikning  á æskilegustu miðlunarhæð og því hversu miklu vatni eigi að sleppa í yfirföllin á næstu dögum.

Það virðist nokkuð ljóst að vatn og vindur geta spilað vel saman. Hér á landi háttar reyndar svo til, að afar hátt hlutfall af raforkunni fer til stóriðju (um 80%). Þess vegna þarf raforkukerfið hér á Íslandi að skila óvenju stöðugri framleiðslu allan sólarhringinn og má alls ekki við mikilli óvissu. 

wind-green-1.jpg

Þessi sérstaða kann að valda því að vindorka þyki lítt heppileg í íslenska dreifikerfinu. Aftur á móti gæti íslensk vindorka nýst til að dæla vatni aftur upp í miðlunarlón. Þannig mætti t.d. nýta sömu vatnsdropana í Þjórsá aftur og aftur.

Á móti kemur að enn er mikið vatnsafl (og jarðvarmi) á Íslandi óvirkjað og þeir kostir eru sennilega margir hverjir nokkuð ódýrir. Þ.e. svo ódýrir að vindorkan geti ekki keppt við þá, því vindrafstöðvar eru ennþá talsvert dýrar. Þess vegna er óvíst og kannski jafnvel ólíklegt að það borgi sig að virkja rokið á Íslandi - í bili. Engu að síður er auðvitað fyllsta ástæða fyrir Landsvirkjun að skoða slíka möguleika vandlega og komast að niðurstöðu um hagkvæmni íslenkrar vindorku. Það væri gaman ef rokið okkar gerði loksins gagn.

 


Norska gullgerðarvélin

Efnahagsleg velgengni Norðmanna þessa dagana er með ólíkindum. Þar ber hæst þá staðreynd að norski Olíusjóðurinn (Statens Pensjonsfond Utland eða SPU) er um þessar mundir verðmætasti fjárfestingasjóður heims í opinberri eigu.

spf-utland_market-value_q1-2011.jpg

Í norska Olíusjóðinn rennur arður af olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu. Þar er um að ræða leyfisgjöld vegna kolvetnisvinnslunnar, skatta á hagnað vinnslufyrirtækjanna og arð sem norska ríkið fær vegna eignar sinnar í Statoil (hlutur norska ríkisins í þessu risastóra olíufélagi er 67%).

Þann 19. nóvember 2010 skreið Olíusjóðurinn ífyrsta sinn yfir 3.000 milljarða NOK að verðmæti og um síðustu áramót var verðmæti sjóðsins nánast sléttir 3.100 milljarðar norskra króna. Nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að sjóðurinn var ekki stofnaður fyrr en árið 1990 og fyrsta greiðslan í sjóðinn kom ekki fyrr en 1996.

Sökum þess að mjög hátt hlutfall af eignum sjóðsins eru hlutabréf, sveiflast hann mikið. Ávöxtunin árið 2008 var t.d. döpur. En síðan þá hefur Norðmönnum tekist afar vel að ávaxta sitt pund og nú er sjóðurinn orðinn langverðmætasti opinberi fjárfestingasjóður veraldar (sovereign wealth fund). Næstir á eftir honum koma nokkrir sjóðir á vegum olíuríkjanna við Persaflóann.

yngve_slyngstad_1.jpg

Lengi vel var norski Olíusjóðurinn einungis í öðru sæti, talsvert langt á eftir fjárfetsingasjóði ljúflinganna í furstadæminu Abu Dhabi. En vegna afar vel heppnaðra hlutabréfakaupa Norsaranna undanfarin 2-3 ár, á sama tíma og fjárfestingar Arabanna í Abu Dhabi hafa skilað herfilegum árangri, er norski sjóðurinn nú orðinn sá verðmætasti. Og stendur nú, sem fyrr segir, í u.þ.b. 3.100 milljörðum norskra króna. Það er því ekki skrítið að hann Yngve Slyngstad, yfirmaður sjóðsins, sé kampakátur þessa dagana.

Hér er þó rétt að geta þess, að Abu Dhabi Investment Authority, sem lengst af hefur verið í efsta sætinu, er einhver leyndardómsfyllsti ríkisfjárfestingasjóður heims. Í reynd er enginn utan Abu Dhabi sem veit raunverulegt verðmæti hans. Sumir telja því að þrátt fyrir mikið skrið norska Olíusjóðsins undanfarið, sé Abu Dhabi þarna ennþá í efsta sætinu. 

statfjord_plattform_xl.jpg

Það breytir því samt ekki að norski Olíusjóðurinn stendur nú í um 3.100 milljörðum norskra króna. Til að setja þetta í samhengi má nefna að 3.100 milljarðar NOK jafngilda um 570 milljörðum USD eða tæpum 66.000 milljörðum ISK. Og þessir aurar hafa safnast saman á einungis 15 árum.

Önnur ennþá skemmtilegri viðmiðun er að þetta verðmæti norska Olíusjóðsins samsvarar rúmlega 600 þúsund NOK á hvert mannsbarn í Noregi. Sem jafngildir um 13 milljónum ISK - á hvern einasta einstakling í Noregi. Eflaust myndi venjuleg íslensk 4ra manna kjarnafjölskylda þiggja það með þökkum að "eiga" nú sem nemur 52 milljónum íslenskra króna í auðlindasjóði Íslands.

norway-vislund-gas-field.jpg

En það er ekki nóg með að Norðmenn séu orðnir einhver ríkasta þjóð heims. Þar er efnahagslífið allt í miklum blóma þessa dagana (nema ef vera skyldi skipaútgerðin). Afkoma norskra fyrirtækja árið 2010 var einhver sú allra besta þegar litið er til tímabilsins 1995-2010. Einungis ofurárin 2006 og 2007 voru betri.

Meðan flest ríki heimsins prísuðu sig sæl ef þeim tókst að nýta árið 2010 til að krafla sig eilítið upp úr forarpyttinum sem þau lentu í vegna lánsfjárkreppunnar 2008, eru Norðmenn löngu komnir upp úr öldudalnum. Og eru einfaldlega á blússandi siglingu, langt á undan öllum öðrum. Þar í landi tala nú sumir um að framundan sé hinn gullni áratugur Noregs. Áratugurinn sem muni gera þá að langríkustu þjóð veraldar.

Systurnar velgengni og öfund er jafnan saman á ferð. Nú er svo komið að útlendingum er farið að ofbjóða peningastraumurinn til Noregs. Nýlegar deilur Þjóðverja og Frakka við Norðmenn um verð á gasi, eru kannski til marks um slíka óánægju.

statoil-gas-advertisement-2011.jpg

Þannig er að Noregur er einn stærsti gasbirgir Evrópu. Evrópsk orkufyrirtæki eins og þýska E-On og franska GDF Suez eru risakaupendur að norsku gasi ogþar er norska Statoil helsti seljandinn. Sölusamningarnir eru nær allir til mjög langs tíma og gasverðið svo til alltaf bundið olíuverði.

Slíkir langtímasamningar hafa lengi verið forsenda þess að farið sé í uppbyggingu á gasvinnslu og lagningu langra gasleiðslna. Þ.á m. eru gaslagnirnar sem liggja þvers og kruss eftir botni Norðursjávar og flytja norskt gas til nágrannalandanna hinumegin við Norðursjó.

norway-gas-pipes-1.gif

En gasmarkaðir hafa verið að breytast talsvert mikið allra síðustu árin. Stóraukin gasvinnsla í Bandaríkjunum hefur valdið mikilli lækkun á gasverði þar í landi og þessi þróun hefur nú borist til Evrópu.

Fyrir vikið hefur spot-verð á gasi engan veginn náð að halda í hátt olíuverð og gaskaupendur forðast nýja langtímasamninga. En vegna langtímasamninga evrópsku orkufyrirtækjanna við Statoil, hefur evrópskur almenningur og fyrirtæki áfram þurft að greiða mjög hátt verð fyrir norska gasið - í gegnum viðskipti sín við orkufyrirtækin heima fyrir sem kaupa gasið beint frá gasvinnslusvæðunum á norska landgrunninu. Verðið á gasinu í langtímasamningum Statoil við t.d. GDF Suez er t.a.m. meira en helmingi hærra en spot-verðið hefur verið undanfarið.

Stóru frönsku orkufyrirtækin hafa í meira en ár verið í viðræðum við Statoil um að lækka verð á gasinu - í átt að því verði sem spot-markaðurinn gefur færi á. Statoil hefur brugðist við þessum umleitunum af mikilli ljúfmennsku. Samt liggur enn ekkert samkomulag fyrir og áfram streymir rándýrt gasið eftir pípulögnum frá gasvinnslusvæðunum á norska landgrunninu og þaðan til orkufyrirtækjanna í Evrópu.

Þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Sem fyrr segir eru evrópsku orkufyrirtækin að borga um helmingi hærra verð fyrir norska gasið en gengur og gerist á spot-markaði með gas. Og þessi innflutningur á norsku gasi til meginlands Evrópu er ekki bara sem nemur fáeinum gaskútum. GDF Suez, sem er eitt stærsta orkufyrirtæki Evrópu, fær næstum fjórðunginn af öllu sínu gasi frá Statoil. Á síðasta ári (2010) borgaði þetta franska risafyrirtæki um 17 milljarða NOK fyrir gasið frá Noregi (upphæðin jafngildir um 360 milljörðum ISK). Sama ár nam öll gassala Statoil til Evrópu u.þ.b. 162 milljörðum NOK (meira en 3.400 milljarðar ISK). Og 90% af öllu því gasi er selt skv. langtímasamningum

norway-gas-pipes-ormen-lange.jpg

Ef við gefum okkur að "sanngjarnt" verð fyrir þetta gas sé helmingi lægra en verið hefur, sést að það eru engir smáaurar í húfi. Nú er svo komið, að evrópsku orkufyrirtækjunum er nóg boðið og eru þau farin að hóta Norsurunum málaferlum til að ná fram verðlækkun. Hvort sú krafa er á grundvelli meintra brostinna forsenda langtímasamninganna eða byggð á öðrum lagarökum, hefur Orkubloggarinn ekki upplýsingar um. En þegar maður les norsku blöðin virðist ljóst að Statoil sé nánast farið að blygðast sín fyrir geggjaðan gróðann af gassölunni til Evrópu.

Það er til marks um mikinn hagnað Norðmanna af gassölunni, að á síðustu tíu árum hefur sala þeirra á gasi tvöfaldast en tekjurnar þrefaldast. Gasið hefur sem sagt, rétt eins og olían, verið þeim sem gullgerðarvél.

Hagnaðurinn af gassölu Norðmanna er það mikill að Statoil gæti vel kyngt einhverri lækkun - jafnvel umtalsverðri. Og þrátt fyrir slíka lækkun er augljóst að Noregur er áfram í góðum málum efnahagslega. Enda æðir nú fasteignaverðið þar í landi upp - og vegna þenslunnar bráðvantar vinnuafl af ýmsu tagi.

aker-brygge-bryggegata-16.jpg

Það er til marks um uppganginn í Noregi að sæmileg blokkaríbúð í Osló kostar nú sem nemur um 80 milljónum ISK. Og þokkalegt einbýlishús þar í borg er á u.þ.b. 200 milljónir ISK. Fyrir Íslendinga sem sækja þessa notalegu borg heim, er alltaf freistandi að rölta niður á Aker Brygge, velja sér gott sæti við sjóinn og horfa á sólina speglast í fögrum Oslófirðinum. Og þá kannski ósjálfrátt velta fyrir sér hvort ekki væri upplagt að fá sér íbúð þarna við bryggjuna. T.d. þessa hér við Bryggegata 16. Verðið er ekki nema 830 milljónir íslenskra króna. Greinilega skemmtilegur fasteignamarkaðurinn í Noregi; landinu sem er og verður heimili ríkustu þjóðar veraldarinnar. Ætli einhver norsk vegabréf séu á lausu fyrir afkomendur Snorra Sturlusonar?

 


Beutel kurteis við Pickens

Ótrúlegt en satt. Sádunum mistókst að fá OPEC til að samþykkja að auka olíuframleiðsluna.

Á fundi fyrr í vikunni höfnuðu alls 7 af aðildarríkjum OPEC tillögu Sádanna um framleiðsluaukningu. Auðvitað er gott fyrir olíuútflutningsríkin að fá sem allra mest fyrir olíudropana sína - og þess vegna skiljanlegt að a.m.k. sum þeirra kæri sig ekkert um að auka olíuframboð með tilheyrandi lækkun olíuverðs.

ali-al-naimi-not-happy-2011.jpg

En Sádarnir hafa áhyggjur af því að olíuverð sé orðið svo hátt, að það muni hægja mjög á efnahagsvexti í heiminum og það valdi óheppilegri óvissu. Betra sé að stuðla að jafnvægi með því að olíuverð lækki. Þess vegna vilja Sádarnir að OPEC auki framleiðsluna núna um 1,5 milljón tunnur á dag og vilja ná olíuverðinu niður í ca. 75-80 USD (er nú um 100 dollarar á Nymex og tæpir 120 dollarar í London!).

Þeir eru reyndar margir sem segja að með þessari stefnu séu Sádarnir bara að hlýða fyrirskipunum frá Washington DC. Stjórnvöldum í Riyjadh sé umhugað að halda góðu sambandi við Bandaríkjastjórn. Ekki síst ef "arabíska vorið" breiðist út til Saudi Arabíu. Sádarnir vilji því verða við óskum bandarískra stjórnvalda um að auka olíuframboð.

En hver svo sem ástæðan er, þá lagði ljúflingurinn Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna, hart að félögum sínum í OPEC á fundi fyrr í vikunni að auka framleiðslukvótana. Þannig að dagleg olíuframleiðsla OPEC fari úr tæplega 29 milljónum tunna í 30,3 milljón tunnur á dag.

ahmadinejad_chavez_iran-venezuela.jpg

Aldrei þessu vant þurfti ljúflingurinn Ali al-Naimi að láta í minni pokann að þessu sinni. Hann fékk stuðning nágranna sinna við Persaflóann, en Venesúela og Íran vildu ekki heyra minnst á framleiðsluaukningu. Segja slíkt undirlægjuhátt við sjálfan djöfulinn í DC. En það hrikalegasta fyrir Al-Naimi var að Alsír, Angóla, Ekvador, Líbýa og Írak studdu öll sjónarmið Írans og Venesúela.

Það voru sem sagt 7 af 12 aðildarríkjum OPEC á móti tillögu Al-Naimi's! Og Nígería sat hjá. Einungis nágrannarnir við Persaflóann greiddu atkvæði með tillögu Sádanna. Al-Naimi var ekki skemmt og sagði þetta einhvern allra versta fund OPEC nokkru sinni!

Það er samt engan bilbug á kallinum að finna. Sádarnir segjast einfaldlega munu auka framleiðsluna einhliða og fullyrða að þeir muni koma henni í um 10 milljón tunnur síðar í sumar (framleiðsla Sádanna undanfarið hefur verið um 8,8 milljón tunnur á dag). Það skondna er að samþykkt á tillögu Sádanna hefði gefið svo til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Sádarnir eru nefnilega eina þjóðin sem getur aukið olíuframleiðsluna umtalsvert með stuttum fyrirvara. Það að ekki náðist samstaða á þessum fundi OPEC er þess vegna fyrst og fremst til marks um nokkuð óvænta pólítíska sundrungu innan samtakanna.

gaddafi-economist-feb-2010.jpg

Þar er ekki aðeins um að ræða mismunandi viðhorf gagnvart Bandaríkjunum. Heldur er þessi ágreiningur jafnvel enn frekar til marks um óvissuna sem uppreisnirnar í N-Afríku og Mið-Austurlöndum hafa valdið. Þessi opinbera sundrung, sem hugsanlega hefði mátt komast hjá með hljóðlegum viðræðum aðildarríkja OPEC utan kastljóssins í stað þess að kalla saman formlegan fund, gæti jafnvel verið fyrsta skrefið að falli OPEC. A.m.k. í þeirri mynd sem samtökin hafa verið undanfarin áratug.

Sundrung innan OPEC gæti orðið góð sprauta fyrir efnahagslíf þeirra ríkja sem þurfa að flytja inn mikið af olíu. Síðast þegar samstaðan innan OPEC rofnaði alvarlega varð afleiðingin sú að olía varð næstum ókeypis. Tunnan fór niður í um 10 dollara, sem á verðlagi dagsins í dag jafngildir u.þ.b. 15 dollurum. Það yrði aldeilis gaman að fylla jeppatankinn ef þetta endurtæki sig. Þvílíkt hrun á olíuverði yrði aftur á móti hvorki skemmtilegt fyrir Sádana né önnur aðildarríki OPEC, sem flest byggja nær allar útflutningstekjur sínar á olíu (og/eða gasi). Þess vegna eru lönd eins og Venesúela, Angóla og Alsír að taka verulega áhættu með því að standa uppi í hárinu á Sádunum og þar með eyðileggja samstöðuna innan OPEC. Það er eiginlega með öllu óskiljanlegt að peðin innan OPEC séu með þessa stæla. Þau ættu að vita betur.

Kannski eru stjórnvöld þessara landa barrasta farin að trúa spádómum Bölmóðanna. Sem segja að í reynd geti Sádarnir ekki aukið framleiðsluna eins mikið og þeir segjast. Að yfirlýsingar Sádanna um að keyra í 10 milljón tunnur daglega strax í sumar séu draumórar. Framleiðslan í Saudi Arabíu sé í reynd nálægt hámarki og einungis sáralítill böffer fyrir hendi.

ali-al-naimi-microphone.jpg

Já - nú spretta Peak-Oil-Bölmóðar fram úr öllum skúmaskotum. Og eins gott að Ali al-Naimi og félagar hans í eyðimörkinni sanni það í einum grænum að blessaðir Sádarnir klikka aldrei. Því ef þeir bregðast núna og ná ekki að framleiða í þennan nýja einhliða kvóta sinn, er hætt við að skelfing grípi um sig á olíumörkuðunum. Að sú furðulega staða komi upp að olíuverð æði upp, þrátt fyrir frekar slappt efnahagsástand í Bandaríkjunum. Slíkt yrði einsdæmi og er sviðsmynd sem Vesturlönd kæri sig alls ekki um.

Það eru vel að merkja um tíu ár liðin síðan Sádarnir síðast náðu tíu milljón tunnum af olíu úr jörðu á einum degi. Meira að segja vorið geggjaða árið 2008, þegar olíueftirspurn virtist takmarkalaus og allir sem vettlingi gáti valdið dældu eins miklu olíugumsi útá markaðinn eins og mögulegt var, náði framleiðsla Sádanna ekki nema u.þ.b. 9,7 milljón tunnum. Það er því kannski engin furða að efasemdir séu nú um að Sádarnir geti sisvona aukið framleiðsluna í 10 milljón tunnur. Og takist þeim ekki að standa við stóru orðin... úff.

peter-beutel_kudlow-report-may-2011.png

Engu að síður; í guðanna bænum ekki hlusta á bullið í Bölmóðunum. Sádarnir segjast léttlega geta farið alla leið í 13 milljón tunnur og 10 milljón tunnur verði því leikur einn. Minnumst þess líka að bandaríski olíuspekingurinn Peter Beutel, sagði nýlega að í reynd ætti olíuverð ekki að vera nema ca. 10 dollarar tunnan nú um stundir.

Þó svo sú fullyrðing hafi kannski bara verið lauflétt grín hjá Beutel, er Orkubloggarinn sannfærður um að hátt olíuverð nú um stundir hefur ekkert með lítið olíuframboð eða mikinn olíubruna að gera. Þarna er þvert á móti um að kenna óvissu efnahagsástandi, sem hefur skapað óvenjuega mikla spákaupmennsku með olíu. Sádarnir hafa til þessa verið traustir trúarleiðtogar okkar olíufíklanna og engin ástæða til að missa trúna á þá. 

boone-pickens-kudlow-report-may-2011.png

Beutel var aftur mættur á CNBC nú í vikunni. Ásamt besta vini Orkubloggsins, T Boone Pickens. Pickens er samur við sig og segir olíuverð í lok ársins verða í kringum 120-125 USD tunnan. Segir ekki séns að Sádarnir nái 10 milljón tunnum. Sic.

Beutel var kurteis gagnvart Pickens; nefndi enga 10 dollara í þetta sinn, sagði Pickens vera "great American" og að líklega fari olíverð ekki neðar en ca. 75-80 USD. Sem er ekkert annað en verðið sem Sádarnir álíta sanngjarnt. Rökrétt spá sem er líkleg til að ganga eftir.

ali-al-naimi-opec-sign.jpg

En það er óneitanlega æsispennandi sumar framundan á olíumörkuðunum. Sumarið 2011 þegar loksins reynir af alvöru á framleiðslugetu Sádanna! Orkubloggarinn ætlar að njóta hinna björtu nátta norðursins. Og þá er ekkert vit í að eyðileggja stemninguna, með því að hafa veðjað gegn Ali al-Naimi. Sádarnir hafa ekki brugðist Orkubloggaranum síðan hann byrjaði að spá í svarta gullið. Varla fara þeir að taka upp á því núna - er það nokkuð?

 


Olía í norðri

Nú í morgun var að hefjast kynning á vegum Orkustofnunar í olíubænum Stavanger á vesturströnd Noregs. Þar sem reyna á að vekja áhuga manna á því að leita að olíu og gasi á Drekasvæðinu.

Í Stafangri eru Íslendingarnir komnir í einhvern mesta þekkingarbrunn olíuleitar og -vinnslu í Norðurhöfum. Landgrunnsolía Norðursjávar er löngu þekkt og sömuleiðis mikil olía út af vesturströnd Noregs. Heimskautasvæðin evrópsku hafa aftur á móti verið treg til að skila mönnum olíu. Til að mynda leituðu bæði Rússar og Norðmenn árangurslaust eftir olíu í Barentshafi í heilan aldarfjórðung. En fundu ekki deigan dropa.

goliat_article_1089115.gif

Sú leit var samt alls ekki árangurslaus. Því þarna í Barentshafi fundust fyrir fáeinum árum æpandi miklar gaslindir. Fyrir vikið stunda Norðmenn nú umfangsmikla gasvinnslu á Mjallhvítar-svæðinu og einnig er verið að byggja upp gasvinnslu á Golíat-svæðinu skammt frá. Það fundust einnig stórar gaslindir Rússlandsmegin lögsögunnar í Barentshafi, sem kallast Shtokman. Og EF kolvetnisauðlindir finnast á Drekasvæðinu norðvestur af Íslandi gæti einmitt verið að þær yrðu aðallega í formi jarðgass fremur en olíu.

Þetta merkir þó alls ekki að olía sé útilokuð á landgrunnssvæðunum langt í norðri. Það gerðist nefnilega á sjálfan allt-í-plati-daginn 1. apríl s.l. (2011) að norska olíu-undrið Statoil gat sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að loksins, eftir aldarfjórðungsleit og samtals um 80 þurra brunna, hefði borinn í Barentshafi hitt í mark!

statoil_ceo_helge_lund.jpg

Það er svo sannarlega gleðilegt að rétt í þann mund sem Norðmenn voru farnir að hafa verulegar áhyggjur vegna þverrandi olíulinda í norsku lögsögunni, eru nú að opnast þar ný vinnslusvæði. Það er því engin furða að undrabarnið hann Helgi Lund, forstjóri Statoil, brosi út að eyrum.

Þetta nýjasta svæði ljúflinganna hjá Statoil er kallað Skrugard. Þarna telja menn sig vera búna að finna um 250 milljón tunnur af vinnanlegri olíu. Og að þetta sé bara smjörþefurinn af því sem norsku heimskautasvæðin eigi eftir að gefa af sér. Loksins geta menn í alvöru leyft sér að trúa því, að þarna sé vinnanlega olíu að hafa. Og það að öllum líkindum talsvert mikla olíu.

skrugard_map.jpg

Sjálfir segja Norðmenn þetta merkasta viðburðinn í norskri olíusögu síðustu 10-20 árin. Þess vegna er svolítið broslegt að hjá Statoil fögnuðu menn þessum miklu tímamótum í olíuleit í Barentshafi með því að skála í áfengislausu kampavíni. Norska naumhyggjan greinilega allsráðandi. Og íslenskur apaútrásarhugsunarháttur víðs fjarri. Jamm - Norsararnir vinna alltaf.

Orkustofnunin íslenska verður líklega bara að vona að þessi nýjasta olíulind á norska landgrunninu verði ekki til þess að Barentshafið hirði alla athygli þeirra sem áhuga hafa á olíuleit í norðrinu. Vandamálið við Drekasvæðið er að það er algert virgin territory. Núna þegar menn fá hungraðan Barents-glampa í augun, er hætt við að óþekktur Drekinn þyki svolítið ægilegur og áhættusamur.

Á móti kemur að EF Drekasvæðið hefur mikið að geyma, er svolítið glatað ef enginn alvöru player er tilbúinn í áhættuna. Að verða brautryðjandi á svæðinu gæti skilað geggjuðum ávinningi. Kannski væri ráð að Orkustofnun og íslensk stjórnvöld viðurkenni að þau eru byrjendur í faginu. Og leiti einfaldlega eftir beinum samningum við Statoil og kannski líka ítalska ENI um olíuleit á Drekasvæðinu (ENI er nefnilega líka með  mikla reynslu af Norðrinu) .

transocean-riggen_polar_pioneer-skrugard.jpg

Kannski gætu þeir hjá Statoil meira að segja sent sama flotpall á svæðið; sjálft tækniundrið Polar Pioneer frá Transocean, sem er sérhannaður til olíuleitar á heimskautasvæðunum unaðslegu.

Úr því sem komið er verður þó líklega að ljúka við þetta annað útboð á olíuleitarleyfum á Drekanum. Og vonast eftir því að eftirspurnin verði allt önnur og betri núna en var þegar fyrsta útboðið floppaði gjörsamlega á fyrri hluta árs 2009. Vonandi var það fall barrrasta fararheill.

 


"Vinderne har en plan. Taberne har en forklaring"

vestas_turbines-on-ground.jpg

Undanfarin misseri hafa verið svolítið undarleg hjá fyrirtækjum í endurnýjanlega orkugeiranum. Þrátt fyrir miklar hækkanir á olíuverði hefur hlutabréfaverð í fyrirtækjum sem starfa í græna orkugeiranum nefnilega lítið braggast.

Þessi fyrirtæki upplifðu flest gríðarlegan uppgang á árunum 2006-2008, þegar olíuverð æddi upp og endurnýjanleg orka varð sífellt samkeppnishæfari gagnvart kolvetnisorkunni. Þegar svo olíuverð tók að snarlækka upp úr miðju ári 2008, gerðist það sama með hlutabréfaverð í grænu orkunni. Verð á hlutabréfum í flestum orkufyrirtækjunum og tæknifyrirtækjum sem sinna endurnýjanlega orkugeiranum féll eins og steinn.

coal-oil-price_2002-2011.pngNú hefur olíuverð hækkað gríðarlega mikið á ný. En þessar hækkanir eru ekki að skila sér eins vel í endurnýjanlega orkugeirann, eins og gerðist í góðærinu fyrir lánsfjárkreppuna ógurlegu.

Hvað veldur því að sagan frá 2006-08 endurtekur sig ekki núna? Af hverju blæs hátt olíuverð nú um stundir ekki upp gengi fyrirtækja í græna orkugeiranum? Eflaust er mörg og mismunandi svör við því. Í reynd eru vind- og sólarorkuver t.a.m. ekki í beinni samkeppni við olíu og njóta því ekki sjálfkrafa hækkandi olíuverðs.

dong-vind-kul.png

Endurnýjanlega raforkan keppir miklu frekar við gas og kol. Verð á gasi hefur verið fremur lágt t.d. í Bandaríkjunum, vegna aukinnar gasvinnslu þar í landi. Það gæti verið ein skýring á því að gengi vind- og sólarorkufyrirtækja er hálf slappt þessa dagana, þrátt fyrir hátt olíuverð.

En öfugt við gas, þá hefur kolaverð að mestu haldist í hendur við þróun olíuverðs undanfarið (eins og t.d. sést á grafinu hér ofar í færslunni). Þess vegna er verð á kolum til kolaorkuvera barrrasta ansið hátt í dollurum talið nú um stundir - og kolin meira að segja líka talsvert dýr í öðrum gjaldmiðlum. Og flestir virðast gera ráð fyrir því að kolaverð eigi eftir að hækka ennþá meira á næstunni. M.a. vegna minnkandi áhuga á kjarnorku vegna kjarnorkuslyssins í Japan.

world-energy-and-electricity-mix-2010.gif

Kol eru vel að merkja mikilvægasti raforkugjafi heimsins (hlutfall kolanna í raforkukökunni er næstum 40%). Þess vegna væri eðlilegt að hækkandi kolaverð undanfarin misseri hefði haft jákvæð áhrif á t.d. fyrirtæki í sólar- og vindorku. En þessi tengsl sjást ekki á mörkuðunum í dag. Þvert á móti hafa flest þessara skærgrænu fyrirtækja í besta falli staðið í stað - og sum lækkað eða jafnvel hrunið í verði!

Hátt verð á bæði olíu og kolum er sem sagt ekki að virka sem "bensín" á hlutabréfaverð fyrirtækja sem starfa í endurnýjanlega raforkugeiranum. Tökum danska Vestas sem dæmi. Vestas er stærsti framleiðandi heims á vindtúrbínum og vindrafstöðvum. Þegar Orkubloggarinn starfaði í Köben og var síðar í MBA-námi við CBS á árunum 2006-2008, brostu hlutabréfaeigendur í Vestas út að eyrum. Hlutabréfin í Vestas hreinlega æddu upp samhliða hækkandi olíuverði (og hækkandi verði á kolum).

ditlev-engel-vestas-1.jpg

Forstjóri Vestas, Ditlev Engel, kom í skólann í Dalgas Have á Friðriksberginu góða og flutti erindi fyrir troðfullum sal um það hversu mikil snilld Vestas væri. Og ef satt skal segja, þá sprengdi Engel þar alla mælikvarða um bæði sjálfsöryggi og sjálfsálit.

Meira að segja Kaupþingsforstjórinn Hreiðar Már Sigurðsson bliknaði í samanburði. En hann hafði skömmu áður líka komið í CBS. Og messaði þar yfir MBA-nemendum um það hversu Kaupþing væri miklu betur rekin banki en allir aðrir bankar heimsins. Obbosí.

vestas-stock_2006-2011.pngÞegar þarna var komið við sögu og nemendur og kennarar í CBS meðtóku speki Engel's, var hlutabréfaverð Vestas komið vel yfir 650 DKK. Góður kunningi Orkubloggarans sem lengi hafði starfað hjá Enron, grét á öxl bloggarans vegna þess að hann hafði selt Vestas-bréfin sín þegar þau fóru yfir 500 DKK einungis nokkrum vikum áður. Nú stefndu þau beint í 700 DKK.

Já - þarna um vorið 2008 var sem hlutabréfin í Vestas væru einfaldlega óstöðvandi. Og sumir ofursvekktir að hafa ekki gerst loooong. "I cry if I want to...". Þessi þaulreyndi verðbréfabraskari virtist sem sagt alveg hafa gleymt því að ekki þýðir að súta það að hafa ekki náð að selja í toppi - né að hafa ekki keypt í botni! Þar að auki hafði hann í reynd stórgrætt á Vestas-bréfunum. En mikið vill meira!

vestas-engel-selvsikker.jpg

Það magnaða er, að nú um stundir er bæði olíu- og kolaverð einmitt svipað eins og var þarna um vorið 2008. En hlutabréfin í Vestas eru samt langt í frá að vera í 500 eða 650 eða 700 DKK. Þau eru þvert á móti djúpt ofaní ræsinu. Ná vart að slefa yfir 150 DKK!

Þetta er eiginlega barrrasta alveg ótrúlegt. Bæði kol og olía mæla  með því að hlutabréfaverð Vestas núna ætti að vera svipað eins og var umrætt vor. Að vísu hefur Vestas átt í erfiðleikum með að halda markaðsprósentu sinni í vindorkuiðnaðinum. Það er auðvitað mínus. Engu að síður hefur verið nokkuð góður gangur hjá þeim Ditlev Engel og félögum og fyrirtækið verið að raða inn stórum pöntunum. Samt hafa hlutabréfin í Vestas farið stöðugt lækkandi.

alternatve_energy_etf_gex_2007-2011.pngÞað virðist einfaldlega sem að bólan í endurnýjanlegu orkunni hafi sprungið með meiri hvelli og skilið eftir sig stærra gat á grænu blöðrunni heldur en gerðist hjá svörtu olíu- og kolaverðbólunum þegar þær fretauðu árið 2008. Sumir vilja reyndar halda því fram að olía hafi hækkað svo mikið á ný, af því við séum að lenda í peak-oil ástandi. Framboðið nái ekki lengur að standa undir eftirspurninni. Þess vegna sé olíumarkaðurinn dúndrandi seljendamarkaður nú um stundir - enda sé olían svo gott sem að verða búin! Eftirspurn eftir kolum sé líka óvenju mikil nú um stundir vegna efnahagsuppgangsins í Asíu. Aftur á móti sé nóg af sól og vindi og jafnvel orðið alltof mikið af fyrirtækjum í framleiðslu á sólarsellum og vindtúrbínum.

cartoon-bail-out-next-bubble.jpg

Þessa skýringu kaupir Orkubloggarinn ekki. Hluti af ástæðunni fyrir því að bæði olíu- og kolaverð hefur náð sér hraðar á strik heldur en endurnýjanlegi orkugeirinn, er miklu frekar lækkandi gengi dollars og hreint geggjuð spákaupmennska í hrávörubransanum.

Önnur veigamikil skýring á erfiðleikum Vestas er vafalítið sú, að græni orkugeirinn er engan veginn í jafn miklum pólítískum meðbyr núna, eins og var t.d. tímabilið 2006-2008. Í stað þess að lofa sífellt meiri styrkjum til grænnar orkuframleiðslu, standa stjórnmálamennirnir núna sveittir við að bjarga gjörspilltu bankakerfi Evrópu og víðar. Í því umhverfi er endurnýjanleg orka eðlilega í öldudal.

Glötuð staða Vestas nú um stundir er bein afleiðing af öllu þessu. Fjárfestar álíta mikla óvissu uppi um þróun græna orkugeirans og setja hlutabréfapeningana sína frekar í öruggara skjól. Eins og t.d. í lyfjafyrirtæki - eða bara í öryggi ruslfæðisins hjá McDonalds eða Coca Cola.

vestas-vinderen.jpg

Fyrir vikið þurfa Vestas og mörg önnur sambærileg fyrirtæki að horfast í augu við skelfilegan raunveruleikann. Sem er jú sá að bæði vind- og sólarorka er einfaldlega miklu dýrari heldur en t.d. gas- eða kolaorka. Þegar fjárfestar treysta sér ekki (a.m.k. í bili) að veðja í stórum stíl á bjarta framtíð vindorkunnar og stjórnmálamennirnir hafa um annað að hugsa en að tala upp græna orku, er voðinn vís fyrir Vestas og vini þeirra.

Kannski er þetta samt ekkert áhyggjuefni. Því Ditlev Engel hefur lengi þótt einhver allra færasti stjórnandinn í Danmörku. Og ekki síður kokhraustur. Eða eins og hann segir sjálfur: "Vinderne har en plan. Taberne har en forklaring." Það var og. Orkubloggarinn ætti líklega að hætta að leita eftir forklaringer á slöku gengi Vestas. Og frekar hugsa um planið framundan! Því öll viljum við jú vera vindere men ikke tabere - ikke sandt

En jafnvel mikil eftirspurn frá Kína eftir nýjum vindtúrbínum hefur ekki náð að gera líf Vestas bærilegt undanfarið. Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu er meira að segja orðið svo lágt, að í loftinu er sívaxandi lykt af tækifæri til yfirtöku á Vestas. Sumir segja það bara vera tímaspursmál hvenær þetta græna orkustolt Dana verður komið í eigu útlendinga.

goldwind-china-website-2.jpg

Kannski yrði það þýska Siemens Wind eða bandaríska GE Wind (dótturfélag hins fornfræga General Electric)? Eða kannski bara kínverska Goldwind; vindorkufyrirtækið magnaða, sem hefur vaxið með nánast ævintýralega miklum hraða undanfarin ár og ætlar sér ennþá stærri hluti. Það sem er stórt á kínverskan mælikvarða, hlýtur að vera mjög stórt í lille Danmark. Kínverjar keyptu einmitt nýverið norska Elkem. Verður kannski danska Vestas næsti biti Kínverjanna á Norðurlöndunum?

 


Heimskautadraumur BP í uppnámi

Mörgum finnst notalegt að grípa með sér lauflétta glæpareifara í bólið á kvöldin. Öðrum þykir miklu skemmtilegra og ennþá meira spennandi að lesa um raunveruleikann. T.d. átökin sem nú standa yfir í rússneska olíubransanum.

bp-rosneft-aliance-3.png

Spennulesning dagsins snýst um heimskautasvæðin unaðslegu norður af Rússlandi. Nánar tiltekið Karahafið í nágrenni eyjunnar Novaya Zemlya. Eyjan sú var sem kunnugt er einn af helstu tilraunastöðunum fyrir kjarnorkusprengingar Sovétmanna. Og í nærri aldarfjórðung var Karahafðið ruslakista fyrir gamla kjarnaofna og úrelta kjarnorkukafbáta Rússanna. Líklega hefur einhver gamall þulur sannfært meistara Sovétsins í Kreml um að lengi taki hafið við. Sem er kannski rétt - ef maður sleppir því að hugsa um ófyrirsjáanlegar afleiðingarnar sem allur þessi kjarnorkuúrgangur í Karahafi kann að hafa fyrir kynslóðir framtíðarinnar.

En verum ekkert að svekkja okkur á því geislavirka sulli. Því núna hefur Karahaf fengið allt aðra og meira spennandi ásýnd en að vera barrrasta einhver kjarnorku-rustakista. Þar undir hafsbotninum og öllu draslinu sem á honum liggur, er nefnilega talið að gríðarlegar olíulindir sé að finna. Áætlað er að þarna sé að finna allt að 50-60 milljarða tunna af olíu og að þar af séu a.m.k. 10-15 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu og jafnvel miklu meira. Reynist þetta rétt er Karahafið einfaldlega eitt mest spennandi olíusvæði framtíðarinnar.

rosneft_sign.jpg

Þess vegna er ekki að undra að mörg helstu olíufyrirtæki veraldarinnar litu öfundaraugum til rússneska olíurisans Rosneft, sem seint á liðnu ári fékk leyfi rússneskra stjórnvalda til að hefja olíuleit á stórum svæðum á Karahafi. Rosneft er vel að merkja stærsta olíufyrirtæki Rússlands. Og Rússland hefur undanfarin misseri verið mesti olíuframleiðandi heims. Ergo; Rosneft er stórt - mjög stórt.

Rússneska ríkið á um 75% af þessari risasamsteypu. Frá 2006 hefur Rosneft verið skráð í kauphöllinni London (og auðvitað líka í Moskvu) þar sem fjórðungur hlutabréfanna í fyrirtækinu gengur kaupum og sölum. Svo skemmtilega vill til að meðal helstu hluthafa Rosneft, fyrir utan rússneska ríkið, eru ljúflingar eins og Íslandsvinurinn Roman Abramovich og álbræðslumeistarann Oleg Deripaska.

mikhail_khodorkovsky-bars.jpg

Verulegur hluti af eignum Rosneft varð vel að merkja til þegar rússnesk stjórnvöld stungu milljarðamæringnum Mikhail Khodorkovsky í fangelsi, gerðu olíufélagið hans (Yukos) upptækt og "seldu" eigurnar til Rosneft. Sumir eru svo ruddalegir að segja að hlutabréfakaupendur að Rosneft séu í reynd að kaupa þýfi. Og visa þar til þess að málatilbúnaðurinn gegn Khodorkovsky og Yukos hafi verið meira en lítið vafasamur.

En auðvitað ætlar Orkubloggarinn ekki að fara að efast um réttlætið í Rússlandi - minnugur þess þegar bloggarinn var sjálfur á Moskvuflugvelli og var hótað handtöku ef hann greiddi ekki fyrir ímyndaða yfirvigt. Tveimur dögum áður höfðu alvopnaðir rússneskir lögregluþjónar stöðvað Orkubloggarann um kvöld á gangstétt í Moskvu og hótuðu dýflissu ef bloggarinn reiddi ekki af hendi "sekt" vegna "ólöglegs" vegabréfs! Í báðum tilvikum sigraði íslenska þrjóskan kerfislæga spillinguna - en samt var bloggarinn þó eiginlega hálf feginn þegar SAS-þotan lyftist frá flugbrautinni áleiðis til Köben. Engu að síður langar bloggarann mikið aftur til hinnar stórkostlegu Moskvu.

bp-rosneft-aliance-1.png

Já - það er stuð í Rússlandi. En dveljum ekki lengur við hlutabréfalista Rosneft. Nú skal kynntur til sögunnar nýlegur risasamningur Rosneft og breska BP um að standa saman að olíuleit- og vinnslu í Karahafi. Það var nefnilega svo, að varla var blekið þornað á samningi rússneskra stjórnvalda um aðgang Rosneft að Karahafi, að sá óvænti atburður gerðist seint á árinu 2010, að Rosneft og BP undirrituðu samning um aðkomu BP að þessu ævintýraverkefni. Sem átti að marka endurreisn BP eftir skelfilegt klúðrið í Mexíkóflóanum, þegar olíuborpallurinn Deepwater Horizon sprakk þar og sökk í apríl 2010.

Á olíumörkuðunum var talað um að BP hefi þarna fundið gylltan björgunarhring. Eftir slysið á Mexíkóflóa hefði fyrirtækið nú tryggt sér aðgang að einu mesta olíuvinnslusvæði framtíðarinnar. BP væri nú aftir komið á beinu brautina eftir stutt niðurlægingartímabil.

tnk-rosneft-deal.jpg

Þessi ljúfi díll Rosneft og BP var reyndar svolítið óvæntur í ljósi þess að að honum stendur hinn nýi forstjóri BP; Bob Dudley. Já - sá hinn sami sem fram á mitt ár 2008 var forstjóri olíuverkefnis BP í Rússlandi, TNK-BP, en þurfti þá að flýja landið í snarhasti vegna meiriháttar ágreinings við rússneska samstarfsmenn sína og fékk þar litla samúð rússneskra stjórnvalda. Eins og Orkubloggið sagði einmitt frá á sínum tíma.

En jafnskjótt og Dudley var orðinn forstjóri BP síðla árs 2010, eftir að Tony Hayward var látinn taka pokann sinn vegna stórskaðaðrar ímyndar BP í kjölfar slyssins á Mexíkóflóa, vaknaði áhugi hjá rússneska ríkisolíufélaginu Rosneft að eiga samstarf við BP. Og um sama leyti náðust að því er virtist sæmilegar sættir milli BP og rússneska armisins í TNK-BP. BP virtist aftur komið á beinu brautina austur í Rússlandi.

tnk-rosneft-ft-energy-blog-may-19-2011.png

Helsta ástæða þess að Rosneft vildi BP sem samstarfsaðila í Karahafi er mikil reynsla BP af olíuvinnslu á heimskautasvæðum, þ.e. í Alaska. Og það er til marks um gríðarlegt mikilvægi umrædds samnings BP við Rosneft, að t.d. voru allar sex efstu fréttirnar á orkubloggsíðu Financial Times s.l. fimmtudag um þennan samning - og óvissuna sem nú ríkir um hann.

Það fór nefnilega svo að jafnskjótt og BP og Rosneft höfðu fallist í faðma, brjáluðust ólígarkarnir í TNK-BP aftur. Það fór sem sagt svo að gömlu "vinirnir" og samstarsfélagar Dudley's í TNK-BP, sem er þriðja stærsta olíufélag þessa rosalega olíulands, hreinlega ærðust þegar fréttir bárust af samningnum milli Rosneft og BP.

Umræddir sameigendur BP að TNK-BP eru engir venjulegir kaupsýslumenn, heldur nokkrir auðugustu menn Rússlands. Fjárfesting BP í TNK-BP var á sínum tíma stærsta erlenda fjárfestingin sem leyfð hafði verið í Rússlandi. En nú ætlaði BP sér sem sagt að vaxa ennþá hraðar í Rússlandi, í samkrulli við Rosneft. Það leist olígörkunum sem eiga TNK-BP að jöfnu við BP (50/50), afleitlega á.

tnk-bp-players.jpg

Þessir "samherjar" BP í TNK-BP eru kannski engir fóstbræður, en þeir standa a.m.k. saman að félagi sem kallast Alfa-Access-Renova Group. AAR er sem sagt fjárfestingafyrirtæki sem á 50% hlut í TNK-BP. Þetta ofuröfluga fjarfestingafélag er þríhöfða þurs nokkurra af ríkustu ólígörkunum í Rússlandi. Þar fer fremstur í flokki rússneski auðjöfurinn Mikhail Fridman með fyrirtækið Alfa Group.Hinir stærstu ljúflingarnir í AAR eru Úkraínumaðurinn Viktor Vekselberg og rússnesk-bandaríski kaupsýslumaðurinn Leonard Blavatnik (sem nú er búsettur í London og talinn einn ríkasti maður Bretlandseyja). Fleiri milljarðamæringar tengjast AAR og má þar t.d. nefna Rússana German Khan og Alexei Kuzmichev. En stærsti laxinn í þessum grugguga hyl er tvímælalaust fyrstnefndur Fridman.

mikhail-fridman_1084941.jpg

Til marks um hagsmunina og leikarana sem þarna eru á sviðinu, þá eru auðæfi hins sviphreina og greindarlega Mikhail's Fridman metin á um 15 milljarða USD. Og hann þar með einn af ríkustu mönnum veraldarinnar. Þegar Fridman seldi BP hlut í TNK fékk hann litla 6 milljarða dollara fyrir. Áður hafði Fridman auðgaðst í einkavæðingunni á tímum Borisar Jeltsin og í dag er hann eigandi að einu mesta viðskiptaveldi í Rússlandi (Alfa Group). Sem samanstendur ekki aðeins af olíu og gasi heldur einnig bönkum, námafyrirtækjum, símafyrirtækjum, raforkufyrirtækjum, þungaiðnaði o.s.frv.

Orkubloggið ætlar að sleppa því hér að gera nánari skil á Fridman og vinum hans í AAR. En þó skemmtilegt að nefna að áðurnefndur Vekselberg státar m.a. af því vera sá af okkur dauðlegum mönnum sem á flest Fabergé-egg veraldarinnar. Vekselberg er nefnilega sagður eiga alls 13 af þessum makalausu eggjalaga skrautmunum, af þeim 57 sem vitað er að til séu.

rosebud_faberge_egg.jpg

En þessi eggjatínsla er ekki aðalmálið hér. Í hnotskurn snúast deilurnar vegna samnings BP við Rosneft um það að rússneski armur TNK-BP, þ.e. ólígarkarnir, segja að BP hafi verið óheimilt að semja um fjárfestingar í rússneska olíuiðnaðinum nema í gegnum TNK-BP. Með málaferlum og lögbannskröfum hefur AAR-hópurinn barist með kjafti og klóm gegn því að vinum þeirra hjá BP tækist að fá samning við Rosneft. Enn er ekki útséð hvernig fer í þeim raðmálaferlum, en síðustu mánuði og vikur hefur þar mjög hallað á BP.

Gangi samningur BP við Rosneft ekki eftir yrði það að mikið áfall fyrir BP; áfall sem fyrirtækið má illa við eftir allt það sem á undan er gengið. BP hefur þess vegna gert allt í sínu valdi til að fá æðstu stjornvöld í Rússlandi til að beita sér í málinu og lægja öldurnar gagnvart AAR. Einnig hefur BP boðið umræddum sameigendum sínum að TNK-BP að kaupa þeirra hlut - að því tilskildu að rússnesk stjórnvöld heimili það, því erlend fjárfesting í rússneskum olíufélögum má ekki fara yfir 50%. Tilboð BP til AAR vegna helmingshlutar í TNK-BP hækkaði smám saman úr 27 í 30 milljarða USD, en félagarnir ljúfu að baki AAR hafa verið lítt hrifnir og segja 35 milljarða USD vera lágmark.

arctic-bear.jpg

Vafasamt er að BP geti réttlætt svo hátt verð fyrir það eitt að geta átt viðskipti beint við Rosneft og fengið þannig að hnusa af rússnesku heimskautaolíunni. BP er í klemmu. Eins og staðan er núna virðist þeim óheimilt að semja við Rosneft nema í gegnum TNK-BP (sbr. nýfallinn dómur gerðardóms í málinu). Ólígarkarnir hóta öllu illu, m.a. bótakröfum uppá milljarða dollara, ef BP brjóti gegn réttindum TNK-BP. BP kann að geta leyst málið með því að kaupa þá út, en sem fyrr segir ber ennþá talsvert á milli um hver verðmiðinn þar ætti að vera.

Á meðan bíða fyrirtæki eins og Shell, Chevron og ExxonMobil slefandi átekta og vona að BP komist ekkert áleiðis. Eins og fyrr segir hefur landgrunn Karahafsins mögulega að geyma allt að 60 milljarða tunna af olía og þar af tugi milljarða af vinnanlegri olíu. Því er skiljanlegt að nettur græðgisglampi komi í augu gömlu vestrænu olíufélaganna, sem þyrstir í að komast í nýar risastórar olíulindir.

dudley-_putin.jpg

Dudley hefur mikið reynt að fá þá Pútín og Medvedev til að grípa í taumana. Að þeir beiti völdum sínum til að leysa úr flækjunni og tryggja að díllinn milli BP og Rosneft verði að veruleika. En þeir félagarnir, forsætisráðherrann og forsetinn, þykjast lítið geta gert. Því þeir séu bara stjórnmálamenn og hafi ekki bein afskipti af atvinnulífinu (sic).

Það flækir svo málið enn frekar, að það styttist mjög í næstu forsetakosningar í Rússlandi og virðist sem bæði Medvedev og Pútín séu spenntir fyrir framboði. Jafnvel þó svo BP kunni að vera afar mikilvægur strategískur partner fyrir ríkisolíufélagið Rosneft í Karahafi, bendir flest til þess að þeir sem öllu ráða þarna í Rússkí vilji barrarsta salta málið fram yfir kosningarnar (sem verða á næsta ári; 2012). Á meðan magnast óvissan í kringum BP og hætt við að svefnvandamálin hjá Bob Dudley aukist með hverjum sólarhring. Þetta er vel að merkja allt raunveruleiki - en ekki reifari eftir Arnald Indriðason eða Stig Larsson.

 


Áætlanir Alterra Power á Reykjanesi

alterra-presentation-cover-march-2011.png

Það er kominn nýr eigandi að HS Orku.

Magma Energy á ekki lengur HS Orku. Heldur kanadískt fyrirtæki sem kallast Alterra Power. Það varð til við sameiningu Magma Energy við annað kanadískt fyrirtæki sem heitir Plutonic Power. Ef einhver lesenda Orkubloggsins kannast ekki við Plutonic, þá skal tekið fram að þarna er á ferðinni fyrirtæki sem hefur verið að reisa vindorkuver og rennslisvirkjun vestur í Bresku Kólumbíu í Kanada. Og er skráð í kauphöllinni í Toronto, rétt eins og Magma.

Þessi sameining Magma og Plutonic fór þannig fram, að Magma eignast Putonic og skiptir um nafn í Alterra Power, en hluthafar Plutonic fá hlutabréf í hinu sameinaða fyrirtæki. Eigendur Magma eignast 66% í Alterra Power og hluthafar Plutonic eignast 34%.

plutonic-power_stock-price_2009-2011.png

Sem fyrr segir, hafa bæði Magma og Plutonic verið skráð í kauphöllinni í Toronto. Hlutabréfaverðið í þeim báðum hefur verið á hraðri niðurleið. Með því að renna saman í stærra og fjölbreyttara orkufyrirtæki vonast eigendurnir til þess að eiga kost á ódýrari fjármögnun til virkjanaframkvæmda - aðallega af því hið sameinaða fyrirtæki búi við minni áhættu en fyrirtækin gerðu sitt í hvoru lagi.

magma-energy_stock-price_2009-2011.png

Það að vera í fjölbreyttari starfsemi í endurnýjanlega orkugeiranum virðist m.ö.o. vera álitið áhættuminna, heldur en að fókusera bara á jarðvarma annars vegar (sbr. Magma) og vind og rennslisvirkjanir hins vegar (sbr. Plutonic). Að auki stendur væntanlega til að sameiningin spari eitthvað í skrifstofu- og starfsmannahaldi. En staða fyrirtækjanna í kauphöllinni í Toronto hefur verið frekar glötuð undanfarið. Magma er meira að segja orðið penny-stocks fyrirbæri. Sad but true.

reykjanesvirkjun-03.png

Í Alterra Power eru, sem fyrr segir, saman komin fjölbreytt orkuverkefni. Þarna eru fullbúnar jarðvarmavirkjanir og öll önnur starfsemi HS Orku, önnur jarðvarmaverkefni í eigu Magma (sem eru staðsett í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku) og vindorkuver og vatnsaflsvirkjun (rennslisvirkjun) i eigu Plutonic. Og loks önnur þau verkefni sem Plutonic hefur verið með í bígerð, en þ.á m. er eitt sólarorkuverkefni.

Samtals er Alterra Power nú með uppsett afl í virkjunum sínum sem nemur 366 MW. Þar af eru 175 MW hjá HS Orku (Svartsengi og Reykjanesvirkjun), 23 MW í einni bandarískri jarðvarmavirkjun (Soda Lake), 95 MW í vatnsafli (rennslisvirkjun í Kanada sem kallast Toba Monterose í Bresku Kólumbíu) og 73 MW í kanadísku vindorkuveri (Dokie 1, einnig staðsett í Bresku Kólumbíu).

plutonic-dokie_wind.jpg

Jarðvarminn innan Alterra Power kemur allur frá Magma, en vatnsaflið og vindorkan koma frá Plutonic. Það er bara örstutt síðan Plutonic hóf að fá einhverjar tekjur í kassann. Fyrsta og eina vindorkuver Plutonic (Dokie 1) hóf starfsemi fyrir einungis fáeinum vikum og fyrsta rennslisvirkjun fyrirtækisins (Toba Monterose) hóf raforkuframleiðslu seint á liðnu ári (2010). Sú síðastnefnda er sögð eiga að ná fullum afköstum í ár (2011).

Hingað til hefur Plutonic því verið með litlar tekjur. Líklega var fyrirtækið farið á sjá fram á lausafjárskort og afar kostnaðarsama ef ekki ómögulega fjármögnun á þeim verkefnum sem þar er unnið að. A.m.k. hefur hlutabréfaverð í Plutonic ekkert verið að rétta úr kútnum, þrátt fyrir hækkandi olíuverð (sem almennt virkar vel á hlutabréf orkufyrirtækja; líka þeirra sem eru í græna orkugeiranum).

Magma Energy er í svolítið öðruvísi stöðu heldur en Plutonic Power. Magma hefur eingöngu verið í jarðvarma og haft talsvert handbært fé til ráðstöfunar eftir nokkuð vel heppnað hlutafjárútboð. En líklega hefur Magma samt líka séð fram á að geta ekki fengið nauðsynlegt fjármagn til að koma verkefnum sínum í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku almennilega áleiðis. Eina raunverulega tekjulindin í eignasafni Magma er væntanlega HS Orka. Og þó svo HS Orka skili vonandi viðunandi arði, er hætt við að það fjármagn hrökkvi skammt til að reisa nýjar jarðvarmavirkjanir í Chile eða Argentínu. Og það getur verið ansið þungt að fjármagna nýjar jarðvarmavirkjanir meðan auðlindin og orkukaupandi er ekki hvort tveggja að fullu sannreynt.

alterra-presentation-2011-1.png

Með Alterra Power er vel að merkja langt í frá verið að stofna fyrirtæki sem ætlar að einbeita sér að arðbærri orkuframleiðslu frá þeim 366 MW sem fyrirtækið ræður nú yfir. Áætlanir stjórnenda Alterra Power eru mun metnaðarfyllri og satt að segja afar stórhuga. Það er nefnilega svo, að innan fimm ára á uppsett afl fyrirtækisins næstum því að þrefaldast. Fara úr 366 MW og í um 900 MW!

Þetta samsvarar því að reisa nýjar virkjanir upp á 530-540 MW á einungis fimm árum. Það afl slagar hátt í eina Kárahnjúkavirkjun. Þarna er því um að ræða miklar fyrirhugaðar framkvæmdir hjá Alterra Power.

En hvar eiga þessar virkjanir að rísa? Þetta er ekki skilgreint alveg nákvæmlega í kynningu fyrirtækisins (sem nú má nálgast á heimasíðu Plutonic). En svo virðist sem til standi að megnið af þessum 530-540 MW verði nýjar jarðvarmavirkjanir eða um 400 MW. Og þar af virðist hið íslenska Reykjanes eiga að standa undir um 250 MW. Og það á næstu fimm árum.

alterra-presentation-2011-3.png

Nánar tilrekið er gert ráð fyrir að umrædd 400 MW í viðbótarafli, sem Alterra Power ætlar að vera búið að reisa árið 2016 séu eftirfarandi virkjanir:

1)  Upper Toba; 62 MW rennslisvirkjun í Bresku Kólumbíu.

2)  Ontario Solar; 5 MW sólarorkuver í Kanada (PV).

3)  Dokie; stækkun á núverandi vinorkuveri um 80 MW.

4)  McCoy; 15 MW jarðvarmavirkjun í Bandaríkjunum.

5)  Maule; 50 MW jarðvarmavirkjun í Chile.

6)   Eldvörp; 50 MW jarðvarmavirkjun á Reykjanesi.

7)   Reykjanesvirkjun; stækkun um 80 MW.

8)   Önnur jarðvarmaverkefni upp á um 200 MW.

Það eru einmitt þessi síðustu 200 MW sem eru hvað athyglisverðust fyrir okkur Íslendinga. Af áðurnefndiri kynningu um Alterra Power er ljóst að auk samtals 130 MW viðbótar á Reykjanesi með stækkun á Reykjanesvirkjun og virkjun í Eldvörpum, á líka verulegur hluti af umræddum 200 MW að vera nýjar virkjanir á Reykjanesi. Í kynningunni eru þar sérstaklega nefndar virkjanir í Krýsuvík, við Sandfell og við Trölladyngju.

eldvorp.jpg

Sjálfsagt á eitthvað af þessu 200 MW afli líka að vera nýjar virkjanir í Chile og Argentínu. En a.m.k. hluti þess á að vera virkjanir á umræddum þremur svæðum; Krýsuvík, Sandfelli og Trölladyngju. Eigum við að segja helmingurinn? Þá hljóða áætlanir Alterra Power þannig að á næstu fimm árum hyggist fyrirtækið reisa alls 230 MW virkjanir á Reykjanesi. Þ.e. 50 MW við Eldvörp, 80 MW stækkun á Reykjanesvirkjun og svo samtals um 100 MW við Krýsuvík, Sandfell og Trölladyngju. Jafnvel meira.

Þetta eru að mati Orkubloggarans ansið brattar áætlanir. A.m.k. þegar einungis er litið fimm ár fram í tímann, eins og gert er í kynningu Alterra Power. Sumir myndu jafnvel kalla þetta skýjaborgir.

alterra-presentation-2011-4.png

En hvað um það. Þetta er a.m.k. sú framtíðarsýn sem væntanlegir kaupendur hlutabréfa í Alterra Power hljóta að treysta á. Þegar þeir trítla í kauphöllina í Toronto til að festa fé sitt í þessu nýja skærgræna orkufyrirtæki; Alterra Power. Hvort það er viturleg fjárfesting eða ekki skal ósagt látið.

Svo er reyndar líka eftir að svara spurningunni hvert Alterra Power ætlar að selja raforkuna frá öllum þessum nýju virkjunum, sem fyrirtækið hyggst reisa á Reykjanesi. Það er a.m.k. enn ekki ljóst hvort álver rísi í Helguvík. En það er kannski allt önnur saga.

 


Sæstrengja-áratugur framundan?

Það er mikið að gerast í sæstrengjamálunum í V-Evrópu þessa dagana.

britned_route_260km_nl_uk-lowres.jpg

Sífellt meira rafmagn fer nú um háspennukapla, sem liggja eftir botni Norðursjávar. Nú í apríl (2011) byrjaði rafmagn að streyma eftir nýja kaplinum milli Bretlands og Hollands. Hann kallast BritNed og er um 270 km langur. Þetta er öflugur jafnstraumskapall - 1000 MW - en spennan er þó ekki nema 450 kV og rafmagnstapið því væntanlega talsvert. Það tók um ár að leggja kapalinn, en ákvörðunin um að ráðast í verkefnið var tekin 2007. Og núna fjórum árum síðar eru herlegheitin tilbúin.

BritNed er í eigu bresk-bandaríska orkurisans National Grid og hollenska TenneT, sem er einmitt einnig hluthafi í NorNed-kaplinum, sem liggur milli Hollands og Noregs. BritNed-kapallinn var talsvert skref fyrir breska raforkukerfið. Því þetta er fyrsta tenging Bretlands við meginland Evrópu síðan kapalstubburinn Interconnexion France Angleterre (IFA) var lagður milli Frakklands og Bretlands fyrir heilum aldarfjórðungi!

norger-map-lowres.png

BritNed eru ekki einu stóru tíðindin í sæstrengjunum þessa dagana. Það er líka örstutt síðan tilkynnt var um lagningu rafmagnskapals á milli Noregs og Þýskalands. Kapallinn sá er kallaður NorGer og verður hann svipaður að lengd eins og lengsti neðansjávarkapallinn er í dag eða um 600 km. Sá lengsti núna er áðurnefndur NorNed-kapall milli Noregs og Hollands. NorGer mun liggja nánast samsíða NorNed, en verður miklu öflugri kapall eða 1.400 MW, meðan NorNed er 700 MW. NorGer er sem sagt með tvöfalt meiri flutningsgetu en NorNed. Engu að síður er spennan í NorGer einungis sögð verða 500 kV, sem er eiginlega furðulítið þegar haft er í huga hversu rafmagnstapið minnkar eftir því sem spennan er höfð hærri. En sú staðreynd að menn ætli að ráðast í NorGer, þrátt fyrir talsverðar bilanir og vandræði með NorNed, sýnir að þessir sæstrengir eru góður bizzness. Annars væru menn ekki að fara af svo miklum krafti í þessa nýju kapla.

hvdc-cable_uk-norway.jpg

Það er svo sannarlega skammt stórra högga á milli í neðansjávarköplunum þessa dagana. Nýverið var tilkynnt um enn eitt kapalkvikyndið; norska Statnett og áðurnefnt National Grid ætla að leggja 1.400 MW neðansjávarkapal milli Bretlands og Noregs.

Þessi kapall milli Bretlands og Noregs hefur enn ekki hlotið nafn, en kannski mætti kalla hann BritNor. Kapallinn sá mun setja nýtt heimsmet. Því hann verður um 800 km langur og því um þriðjungi lengri en NorNed og NorGer og þar með afgerandi lengsti neðansjávar-rafstrengur heims.

lv-kapall-kynning-april-2011.png

Þessi HVDC-kapall milli Bretlands og Noregs verður sem sagt talsvert myndarlegt framfaraskref. Með honum verðum við farin að nálgast þá vegalengd sem kapall milli Íslands og Evrópu yrði. Slíkur kapall verður að lágmarki um 1.200 km langur, sbr. myndin hér til hliðar sem er úr kynningu Landsvirkjunar frá því í apríl s.l. (2011) og má nálgast á vef fyrirtækisins.

Farið var að vinna að alvöru í hugmyndinni að kaplinum milli Noregs og Bretlands árið 2009, en það var svo snemma í apríl sem leið að formleg ákvörðun var tekin um að ráðast í verkið. Kapallinn er sagður eiga að vera með 500 kV spennu, rétt eins og NorGer, en NorNed er 450 kV. Það virðist því enn vera eitthvað í að við sjáum langa neðansjávarlapla með 800kV spennu eða jafnvel meir.

Í þessu sambandi er athyglisvert að þegar Orkubloggarinn ræddi við starfsfólk hjá sænska risakapalfyrirtækinu ABB fyrir um ári síðan, var bloggaranum sagt að miðað við tækni dagsins yrði kapall til Íslands miðað við þáverandi tækni varla meira en 600 kV , en að 800 kV neðansjávarkaplar væru þó skammt undan.

hvdc-britned-cable-factory.jpg

Þessi kapall milli Bretlands og Noregs, sem hér er nefndur BritNor og mun kannski verða kallaður eitthvað allt annað á siðari stigum, á að verða tilbúinn á árabilinu 2017-2020. Enn eru ýmsir lausir endar og ekki alveg víst hvenær af þessu verður. En þetta nýjasta sæstrengja-verkefni lítur út fyrir að vera komið á góðan rekspöl. Eignarhaldið verður með þeim hætti að strengurinn verður hluti af dreifikerfi viðkomandi fyrirtækja í viðkomandi löndum og hagnaðurinn sem kapallinn skilar á að verða til lækkunar á raforkudreifikostnaðinum þar.

Kannski verður næsta heimsmet þar á eftir tenging milli Íslands og Evrópu? Það mætti ímynda sér að tímasetningin á þeim kapli fullbúnum gæti orðið fljótlega uppúr 2020. Kannski eðlilegast að miða við það, að kapallinn sá verði tilbúinn einmitt um það leyti sem Ísland hefur virkjað nóg til að framleiða um 30 TWst árlega? Sem gæti orðið árið 2025, sé miðað við þá framtíðarsýn sem Landsvirkjun kynnti okkur nýverið. Hugsanlega gæti slíkur kapall flutt allt að 4-5 TWst árlega.

hvdc-norned-kabel-legging.png

Já - það virðist blása byrlega fyrir lengri og öflugri HVDC-neðansjávarköplum þessa dagana. Og sennilega tímabært að huga mjög alvarlega að slíkri tengingu milli Íslands og Evrópu.

En þrátt fyrir að kapaltækninni hafi fleygt gríðarlega fram, er ennþá talsverð óvissa uppi um Íslandskapal; bæði hvað snertir tæknina og líka kostnaðinn. Það er líka óvíst hvaða landi heppilegast væri að tengjast. Sjálfur myndi Orkubloggarinn veðja á að IceGer sé besti kosturinn, þ.e. tenging við Þýskaland. Og bloggarinn myndi þar bæta við þeirri hugmynd, að þýska orkufyrirtækið RWE verði stærsti hluthafinn.

Vissulega er þó mögulegt að tenging við Bretland verði álitin einfaldari og ódýrari kostur. Svo er kannski mun lengra í svona Íslandsstreng en Orkubloggarinn álítur raunhæft, þrátt fyrir örar framfarir. En það virðast a.m.k. spennandi tímar framundan í kapalmálunum.

 


Höfuðpaurinn á hrávörumörkuðunum

glencore-gold.jpg

Þann 14. apríl s.l. (2011) birtist athyglisvert skjal á vefnum, sem sýnir í fyrsta sinn svart á hvítu að leynifélagið Glencore International er einn helsti hrávörukaupmaður heimsins.  Jafnvel stærri og umsvifameiri en við dauðlegir menn létum okkur dreyma um. Er þá sama hvort litið er til olíu, gulls, nikkels, kóbalts eða kopars - nú eða korns eða sykurs og ýmissa annarra landbúnaðarafurða.

Já - það allra mest æsandi í orku- og auðlindaveröldinni þessa dagana er skráning gullmyllunnar Glencore á hlutabréfamarkað og risastórt hlutbréfaútboðið sem þar er að bresta á. Hjá Glencore stefna menn nú að því að selja laufléttan fimmtungshlut í félaginu og afla þannig svona 10-15 milljarða USD til frekari fjárfestinga.

glencore-headoffice-swiss.jpg

Fram til þessa hefur Glencore verið sem hulið þykkri þoku - falið augum umheimsins í sviplítilli skrifstofubyggingu í smábænum Baar í Sviss. Bærinn sá í Zug-kantónunni undarlegu minnir kannski mest á sifjaða skógivaxna útgáfu af Akureyri. En þarna í hlédrægum aðalstöðvum Glencore hefur yfirstjórn fyrirtækisins í áratugi hljóðlega skipulagt ævintýraleg hrávöruviðskipti fyrirtækisins um allan heim. Og það með þvílíkum árangri að aðrir í bransanum líta fyrirtækið öfundaraugum og gleðjast yfir þeim fáu skiptum sem Glencore hefur misstigið sig.

Glencore er þekkt fyrir þagmælsku. En vegna fyrirhugaðs hlutabréfaútboðs- og skráningar á markað hefur fyrirtækið nú í fyrsta sinn birt ýmsar lykiltölur, sem gefa til kynna ótrúlegt umfang fyrirtækisins. Þar kemur m.a. fram að um 50% af öllum heimsmarkaðsviðskiptum með kopar fara gegnum Glencore og 60% af zinki. Í heimsmarkaðsviðskiptum með blý er hlutfall Glencore 45% og í álinu er Glencore með rúmlega 20%. Hlutfall þeirra í súrálinu er ennþá hærra eða nálægt 40%. Í heimsmarkaðsviðskiptum með korn er Glencore með 10% hlut og má t.d, nefna að ekkert fyrirtæki er jafn stórtækt í viðskiptum með rússneskt hveiti eins og Glencore. Og þó svo einhverjum kunni að þykja 3% vera fremur lágt hlutfall, þá er það ekkert smáræði þegar um er að ræða öll  hráolíuviðskipti í veröldinni - en þetta er einmitt hlutur Glencore í hráolíunni. Myndarlegt.

glencore-grain-banner-2.jpg

Glencore International stundar vel að merkja ekki bara kaup og sölu á  þessum mikilvægu vörum, sem eru margar hverjar grundvöllur alls viðskiptalífsins og jafnvel lífsviðurværis manna. Fyrirtækið er nefnilega líka víða í hlutverki framleiðandans. Glencore er t.d. mjög umsvifamikið í námurekstri gegnum dótturfélög sín bæði í Afríku og S-Ameríku og hefur verið vaxandi á sviði akuryrkju.

Þetta risafyrirtæki hefur lengst af verið lítt þekkt, en hefur í gegnum tíðina hægt og hljótt malað eigendum sínum ofsafé. Þar fer nú fremstur í flokki forstjórinn og Suður-Afríkumaðurinn Ivan Glasenberg, sem ásamt nokkrum öðrum skósveinum gamla hrávörumeistarans Marc Rich verður meðal auðugustu manna heims nú þegar Glencore fer á hlutabréfamarkað.

glencore-marc-rich_king-of-oil-cover.jpg

Horfur eru á að skráningin verði bæði á hlutabréfamörkuðunum í London og Hong Kong (en ekki í New York!) og er fastlega búist við því að félagið verði samstundis meðal stærstu félaganna í umræddum kauphöllum. Hjá Glencore er stefnan að selja um 15-20% hlut í og að fyrir það fáist a.m.k. 10 milljarðar USD. Þetta er jafnvel nokkuð hógværara en verðmat fjármálastofnana, sem hafa slegið á að Glencore sé um 60 milljarða dollara virði og heyrst hafa tölur eins og 70 milljarðar og allt að 100 milljarðar USD!  

Það er reyndar ekki hlaupið að því að verðmeta Glencore. Fyrirtækið er með margskonar tekjur og er bæði í hrávöruviðskiptum og framleiðslu. Þetta eru vel að merkja allt annars konar viðskipti en gerast í hrávörukauphöllunum. Glencore er ekki pappírstígur, heldur alvöru bisness. Það væri t.d. dæmigert fyrir Glencore að finna kaupanda sem er í stökustu vandræðum með að afla sér hráefnis, fylla ryðdall einhversstaðar í sóðalegri afrískri höfn af vörunni, hvort sem um er að ræða kopar eða korn, og sigla svo beinustu leið gegnum sjóræningjaslóðir með góssið til kaupandans. Áhættusamt en afar ábatasamt - þegar menn kunna tökin á þess háttar glæframennsku.

glencore-ceo-cob.jpg

Til að fá rökstuddan skynsamlegan verðmiða á Glencore hafa menn m.a. haft samanburð við hrávörurisann  Xstrata (sem Glencore á reyndar stóran hlut í) og hrávöruveldið Noble Group, en þau félög eru bæði á hlutabréfamarkaði. Niðurstaðan í slíkum samanburði núna, er að gefa Glencore verðmiða nálægt 50-60 milljörðum USD. En þetta er afar óvisst mat - það eina sem er augljóst er að þarna er mikill og stór gullkálfur á ferð. Skv. upplýsingum frá Glencore sjálfu hefur fyrirtækið að meðaltali skilað 38% ársávöxtun á eigið fé síðustu tíu árin. Tekjurnar á síðasta rekstrarári (2010) voru 145 milljarðar dollarar og EBITDA'n þá var rúmir 6 milljarðar dollara. Og vegna staðsetningar fyrirtækisins í lágskatta-kantóuninni alræmdu, greiðir Glencore nær enga skatta.

ivan-glasnberg-casual-1.jpg

Það er til marks um geggjaða peningalyktina af Glencore að arðgreiðslurnar 2011 munu nema um 1 milljarði USD. Sú greiðsla skiptist á milli tæplega 500 hundruð eigenda fyrirtækisins, sem allir vinna þar innanhúss. Það gerir að meðaltali rúmar 220 milljónir ISK á kjaft eftir árið. Reyndar fá ekki allir jafnmikið og fær Glasenberg mest, enda stærsti hluthafinn. En you get the point þegar menn tala um að Glencore sé peningamaskína.

Því má hér bæta við, að sagt er að eignarhlutur Glasenberg's í Glencore sé að jafnvirði lítilla 9 milljarða USD! Á gengi dagsins í dag eru sú fjárhæð sama og sléttir 1.000 milljarðar ISK. Nánast upp á krónu! Fróðlegt að sjá hvað gerist ef Glasenberg sækir um íslenskan ríkisborgararétt. Þar fengjum við reyndar ekki bara alvöru auðjöfur - heldur líka vörpulegan íþróttamann. Því á yngri árum var Glasenberg keppnismaður í göngu og var einungis hársbreidd frá því að keppa á Ólympíuleikunum í LA 1984. Það klikkaði þegar S-Afríka var útilokuð frá leikunum vegna aðskilnaðarstefnu stjórnvalda og klúðurs hjá ísraelska Ólympíusambandinu (gyðingurinn Glasenberg var þá kominn með tvöfaldan ríkisborgararétt).

glencore-mining.jpg

En aftur að Glencore. Þarna er sem sagt á ferðinni fyrirtæki sem hefur reynst eigendum sínum sannkölluð gullmylla. Þess vegna kemur kannski ekki á óvart að þetta hlutabréfaútboð, sem nú er að bresta á, stefnir í að verða eitt það stærsta í sögu evrópskra hlutabréfamarkaða. En það vinna ekki allir; mörg fjármálastofnunin er nú með böggum Hildar yfir því að hafa ekki verið valin til verksins. Þeir heppnu eru taldir skipta á milli sín hátt í hálfum milljarði dollara fyrir umsýsluna. Spælandi að íslensku bankarnir séu ekki enn í útrásinni í London!

Ekki má gleyma því að Glencore er ekki bara stúss í kringum kaup og sölu og flutning á hravörum; innan félagsins eru líka dulitlar eignir í formi hlutabréfa. Svo sem hluturinn í Xstrata, en skv. gengi hlutabréfa Xstrata þessa dagana er þarna um að ræða lauflétta eign upp á um 30 milljarða USD! Og tæplega 10% eignarhlutur Glencore í álrisanum Rusal er líklega rúmlega 2ja milljarða USD virði nú um stundir.

katanga-copperbelt-congo.jpg

Eitthvað "smáræði" felst líka í ¾ hlut Glencore í kandíska námafyrirtækinu Katanga Mining, sem starfar í hinu alræmda málmahéraði Katanga í Kongólýðveldinu (Zaire) í myrkviðum Afríku. Þá eign keypti Glencore á spottprís á jóladag 2008 þegar Katanga Mining rambaði á barmi gjaldþrots vegna lánsfjárkreppunnar ægilegu, sem skollið hafði á haustið 2008. Talandi um eignir Glencore, þá mætti einnig nefna 70% hlut þeirra í ástralska nikkel-framleiðandanum Minara Resources, en sú eign er hátt í milljarður dollara að verðmæti. Og sama má segja um hlut Glencore í Century Aluminum "okkar Íslendinga"; tæpur milljarður dollara í bauknum hjá Glencore þar.

Mining.jpg

Er þá glás af öðrum námum og fyrirtækjum í eigu Glencore ótalin, sem ekki verða rakin hér. Eins og t.d. félög í Indónesíu, Zambíu og Kólumbíu. Samt varla hægt að sleppa því að nefna stóran eignarhlut Glencore í rússnesku olíufélögunum Nafta-Ulyanovsk,  Ulyanovskneft og Varyeganneft, þar sem Glencore er í öllum tilvikum í samkrulli með rússneska olíufélaginu Russneft (sem ekki má rugla saman við olíurisann Rosneft). Til "gamans" má geta þess að hörð barátta hefur einmitt geysað undanfarið um yfirráðin í Russneft - og í kringum þá valdabáráttu hafa líkin hrannast upp. Þó ekki alveg jafn svakalega mörg, eins og var í álstríðunum í Rússlandi fyrir hálfum öðrum áratug - þegar blóðug barátta átti sér stað í tengslum við einkavæðungana á rússnesku álbræðslunum. En það er svo sannarlega engin lognmolla í rússneska þungaiðnaðinum. 

goldnugget.jpg

Sem fyrr segir, þá er erfitt að verðmeta Glencore, því þarna er á ferðinni óskráð félag sem bæði er hrávöruframleiðandi í mjög margbrotnu fyrirtækjaneti og fyrirtæki sem stundar margvísleg flókin hrávöruviðskipti um veröld víða. Af augljósum ástæðum er þó ljóst að verðmæti Glencore ræðst mjög af þróun hrávörumarkaða. Uppsveiflan í hrávörugeiranum síðustu misserin hefur líklega hækkað verðmat á fyrirtækinu um 50-60% á örstuttum tíma.

Það eina sem virðist öruggt er að hlutafjárútboðið mun á svipstundu gera alla eigendur Glencore að milljónamæringum - í dollurum! Og æðstu stjórnendurnir munu komast í milljarðamæringaklúbbinn ljúfa. Að vísu segir í útboðsskilmálunum að menn megi ekki selja hlutabréfin sin fyrr en eftir nokkur ár. En rætist spár um hækkandi hrávöruverð munu þeir ljúflingarnir hjá Glencore þá einfaldlega fá ennþá meira í sinn hlut eftir þann tíma!

glencore-rusal-sual.jpg

En það er smá vandamál. Sumir klóra sér nefnilega í höfðinu yfir þeirri ákvörðun Glencore að fara akkúrat núna á markað. Er það ekki barrrasta skýr yfirlýsing um að þar á bæ telji menn að hrávöruverð sé nú í toppi? Að gullkálfarnir hjá Glencore séu að notfæra sér gegjaða hrávörubólu til að hlaupa burt með hrikalegan ágóðann, skellihlæjandi að heimsku annarra?

Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. En hugleiðingar af þessu tagi gætu fengið suma fjárfesta til að hika. Engu að síður er sagt að ofsalegir olíusjóðir Persaflóaríkjanna ætli flestir að stökkva á Glencore - nánast sama hvert verðið verður. Og einnig gæti verið að saklausir lífeyrisþegar á Vesturlöndum verði brátt óafvitandi þátttakendur í hrávörugrugginu hjá Glencore. Af því skráning félagsins í London mun nánast sjálfkrafa valda því að fjöldi fjárfestingasjóða á vegum lífeyrissjóða mun kaupa hlut í félaginu, vegna innri reglna um dreifða hlutafjáreign.

Á fjármálamörkuðunum er líka mikið spekúlerað í því hvernig Glencore muni þróast eftir hlutabréfaskráninguna. Fyrirtækið mun tæplega áfram verða jafn umsvifamikið i vafasömum hrávöruviðskiptum við háskalegustu einræðisherra heimsins eins og verið hefur undanfarna áratugi.

xstrata-mining-australia.jpg

Á móti koma ný tækifæri; unnt verður að nota afrakstur hlutafjárútboðsins til að kaupa önnur félög í bransanum eða sameinast skráðum hrávörufyrirtækjum og verða þannig ennþá stærri og jafnvel ennþá gróðavænlegri. Kannski  stærsti hrávöruframleiðandi heimsins? Munu risar eins og Rio Tinto Alcan og BHP Billiton kannski bráðum þurfa að lúffa fyrir Glencore?

Margir eru fullvissir um að eftir skráninguna muni Glencore fljótlega sameinast öðrum hrávörurisa, sem er Xstrata. Það fyrirtæki er jú nátengt Glencore, sem á um þriðungshlut í Xstrata. Vermæti sameinaðs fyrirtækis yrði gríðarlegt og sagt er að sameinað stjórnendateymi þessarra tveggja fyrirtækja yrði svo harðsvírað að jafnvel raunverulegir hvítir hákörlar myndu leggja á flótta ef þeir strákarnir fengju sér sundsprett. Slíkt sameinað risafyrirtæki ætti auðveldara með að takast á við sívaxandi samkeppni frá kínverskum ríkisfyrirtækjum, sem nú kaupa upp hrávörur sem óðir menn. Þetta kann að vera meginástæðan að baki skráningu Glencore á hlutabréfamarkað.

Hjá Xstrata virðast menn þó reyndar spenntari fyrir því að sameinast málmarisanum Anglo American, sem Orkubloggið hefur áður sagt frá. En kannski munu barrrasta öll þessi þrjú hrávörufyrirtæki - Anglo American, Xstrata og Glencore - taka höndum saman? Það væri skemmtilegt að sjá þann þríhöfða verða að einum - t.d. sem "Anglencorex". Öll eru þessi þrjú risahrávörufyrirtæki þekkt fyrir að vera afsprengi Rotschild-auðsins og annarra góðra gyðinga með fullar hendur fjár. Og því fátt eðlilegra en að þau renni saman í eitt.

kazakhstan-mine-2.pngÖnnur fyrirtæki sem Glencore er sagt ásælast, eru t.d. hið sögufræga franska hrávörufyrirtæki Louis Dreyfus Group og þó jafnvel enn frekar námafyrirtækið  ENRC. ENRC (Eurasian Natural Resources Corporation) varð til við einkavæðingu ríkisnámanna í Kazakhstan eftir fall Sovétríkjanna á 10. áratug liðinnar aldar og er fyrirtækið nú skráð í kauphöllinni í London. Auk starfsemi ENRC í Kazakhstan er félagið í námastússi víða um heim og þá sérstaklega í sunnanverðri Afríku. Af skráðu félagi hefur ENRC þótt taka hressilega mikla áhættu, t.d. suður í Kongó. Sá risky hugsunarháttur virðist smellpassa fyrir Glasenberg og félaga hans hjá Glencore. En til að yfirtaka ENRC þarf ansið marga milljarða dollara og hlutafjárútboð Glencore gæti verið fyrsta skrefið skrefið til að ná völdum innan ENRC.

deripaska-putin.jpg

Þá gæla sumir við þá "yndislegu" hugmynd að Glencore renni saman við sjálfan álrisann Rusal. Sem er stærsti álframleiðandi veraldar og er nú að mestu leyti í eigu rússneska milljarðamæringsins með barnsandlitið; Oleg Deripaska (sem reyndar verst nú málaferlum úzbesku bræðranna Lev og Michael Cherney í London um eignarhaldið á Rusal, en sú ævintýralega saga tengist m.a. spillingunni og morðöldunni sem varð í tengslum við einkavæðingu rússnesku álveranna upp úr 1992). Glencore hefur jú í nokkur ár verið meðal stærstu hluthafanna í Rusal, með tæplega 10% hlut. Og eiginlega með ólíkindum að Century Aluminum hafi ekki líka runnið inn í Rusal, en Glencore er ráðandi hluthafi í Century.

Nánara samstarf milli Glencore og Rusal, sem nú er skráð í kauphöllinni í Hong Kong, virðist eiginlega alveg borðleggjandi. En þó svo maður geti varla hreyft sig í hrávörubransanum nú um stundir án þess að rekast á Deripaska, þá er aðkoma annars manns að hrávörmarkaði heimsins jafnvel ennþá meira áberandi þessa dagana. Sá er Nathaniel Rotschild.

Já - alltaf komum við aftur að Rotschild'unum! Nýleg aðkoma Glencore að eigendahópi Rusal og æ nánara samstarf þeirra Deripaska og Glasenberg við gyðinginn, gullkálfinn og piparsveininn geðþekka hefur gefið þeim sögum undir fótinn að þarna verði senn til nýtt ofurfyrirtæki. Fyrirtæki sem með sanni gæti kallast höfuðpaurinn á hrávörumörkuðum heimsins.

nataniel-_rotschild_babe.jpgÞeir þremenningarnir Nat Rotschild, Oleg Deripaska og Ivan Glasenberg eru einfaldlega mennirnir sem höndla með helstu náttúruauðlindir jarðarinnar nú á tímum. Og varla unnt fyrir okkur hina vesalingana svo mikið sem rista okkur brauðsneið eða hella uppá kaffibolla, án þess að aurar hrati á borð þessara hrávörufóstbræðra.

Kannski halda flestir lesendur Orkubloggsins að þessi ofurkapítalismi hrávörugeirans sé víðsfjarri okkur hér á Klakanum góða. En það er nokkuð öruggt að kampavínið á skrifstofum Glencore er a.m.k. jafn kalt eins og íslenskt jökulvatn. Að auki vill svo skemmtilega til, að Glencore er ráðandi hluthafi í Century Aluminum, sem á nokkur álver í Bandaríkjunum og svo auðvitað álverið í Hvalfirði og grunn í Helguvík. Skráning Glencore á hlutabréfamarkað og daður þess við Rusal, er því eitthvað sem allir Íslendingar hljóta að fylgjast spenntir með! Þó ekki væri nema bara til að fylgjast með því hvort rauðhærða vinkonan hans Nat sjáist kannski á Vínbarnum?

 


Mögulegar 30 TWst árið 2025

Ósjaldan hefur verið minnst á það hér á Orkublogginu, að íslensku orkulindirnar séu mesta auðlind þjóðarinnar. Í því sambandi er athyglisvert, að nú er mögulega að fara í hönd mesta virkjunartímabil Íslandssögunnar. Um yrði að ræða 15 ára tímabil, með mikilli en jafnri fjárfestingu þar sem raforkuframleiðsla Landsvirkjunar yrði allt að tvöfölduð. Að því gefnu m.a. að arðsemissjónarmið verði uppfyllt og að uppbyggingin samrýmist umhverfis- og náttúrverndarsjónarmiðum.

Þarna er vísað til þeirrar hugmyndar Landsvirkjunar að árið 2025 - eftir einungis tæp 15 ár - verði framleiddar 30 TWst af raforku árlega á Íslandi. Og að sú orka verði mestöll seld langt umfram kostnaðarverð og þá með miklum hagnaði. Landsvirkjun hefur kynnt rökstudda hugmynd þess efnis að hagnaðurinn af sölu á öllu þessu rafmagni, í formi skatt- og arðgreiðslna til ríkisins, gæti hlutfallslega jafnast á við það sem norski olíusjóðurinn skilar Norðmönnum. Þarna kunna sem sagt að vera á ferðinni gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir íslensku þjóðina - til langrar framtíðar.

hordur_arnarson.jpg

Sumir hafa gripið á lofti það eitt, að það sé nú stefna Landsvirkjunar að tvöfalda raforkuframleiðslu sína og það á næstu 15 árum. Í reynd hefur þó forstjóri Landsvirkjunar í kynningum og viðtölum ítrekað sagt að fyrirtækið hafi engan áhuga á að virkja bara til að virkja. Aftur á móti vill Landsvirkjun auka hagnaðinn af raforkusölunni, bæta þannig fjárhagsstöðu fyrirtækisins og skila meiri arði til eigandans (ríkisins). Þetta er forgangsatriðið og virðist ljóst að nýjar virkjanir verða ekki reistar af hálfu Landsvirkjunar nema þær uppfylli skilyrði um stóraukna arðsemi. 

Forstjóri Landsvirkjunar hefur einnig lagt áherslu á það, að stefna fyrirtækisins skuli samrýmast Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Landsvirkjun er því bersýnilega meðvituð um að Alþingi markar fyrirtækinu rammann um hvar komi til greina að virkja. Þar að auki ætti fólk etv. að hafa í huga, að í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að núverandi forstjóri Landsvirkjunar sé talsvert meðvitaðri um náttúruvernd og umhverfissjónarmið heldur en forverar hans.

lv-raforkusala_1966-2010_2.jpg

En setjum virkjanahugmyndir Landsvirkjunar í samhengi við þá raforkuframleiðslu sem nú á sér stað á Íslandi og skoðum aðeins hvaðan orkan á að koma. Í dag nemur raforkuframleiðslan hér samtals um 17 TWst árlega. Þar af framleiðir Landsvirkjun rúmlega 12 TWst. Til að heildarframleiðslan verði 30 TWst þarf því að auka raforkuframleiðslu á Íslandi um tæpar 13 TWst, sem er rétt rúmlega öll sú raforka sem Landsvirkjun framleiðir í dag!

Til samanburðar má nefna að Kárahnjúkavirkjun, þ.e. Fljótsdalsstöð, framleiðir um 4,6 TWst árlega. Þetta yrði sem sagt MJÖG mikil aukning á raforkuframleiðslu á Íslandi og það á tiltöllega stuttu tímabili. Skv. kynningu Landsvirkjunar á nýliðnum ársfundi fyrirtækisins, myndi hlutur Landsvirkjunar í þeirri aukningu verða um 11 TWst. Landsvirkjun myndi þá fara úr því að framleiða rúmar 12 TWst og í um 23 TWst árlega. Sem sagt næstum því tvöföldun á raforkuframleiðslu fyrirtækisins - og hugsanlega yrði allt viðbótaraflið byggt upp á einungis 15 árum.

lv-ha-2011-virkjanir-03-2.jpg

Gert er ráð fyrir að af þeim 11 TWst sem þarna myndu bætast við framleiðslu Landsvirkjunar á næstu 15 árum, komi 7,3 TWst frá fjórtán nýjum virkjunum. Og að heildarfjárfesting vegna þeirra muni jafngilda á bilinu 4,5-5 milljörðum USD. Slík fjárfesting, ásamt tilheyrandi iðnaðaruppbyggingu fyrirtækja sem verða notendur orkunnar, myndi valda miklum umsvifum og hagvexti. Í þessu sambandi talar Landsvirkjun um 15 ára hagvaxtarskeið, sem verði drifið áfram af uppbyggingu iðnaðar og mjög arðsamra orkumannvirkja. Og arðsemin verði til þess að koma í veg fyrir niðursveiflu í kjölfar þessara umfangsmiklu framkvæmda. Samkvæmt þessu verður því um að ræða sjálfbæra orkuvinnslu - bæði í umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti.

Sumar þessar 14 nýju virkjanir Landsvirkjunar, sem standa eiga undir framleiðslu á 7,3 TWst árlega, yrðu á nýjum virkjanasvæðum, en aðrar á svæðum sem nú þegar eru nýtt. Að auki eru svo 3,7 TWst, sem kæmu frá öðrum virkjunum á vegum Landsvirkjunar, sem hafa enn ekki verið tilgreindar. Þ. á m. yrðu, skv. kynningu Landsvirkjunar, mögulega vindorkuver og jafnvel sjávarorkuvirkjanir. Loks virðist gert ráð fyrir því í þessari framtíðarsýn, að raforkuframleiðsla annarra orkufyrirtækja fari úr núverandi 5 TWst og í um 7 TWst. Þannig að árið 2025 verði heildarframleiðsla raforku á Íslandi, sem fyrr segir, orðin um 30 TWst í stað þeirra 17 TWst sem nú er. Allt er þetta þó háð margvíslegri óvissu og fyrirvörum. Og talan 30 TWst er auðvitað enginn fasti, heldur bara viðmiðun eða ein hugmynd um hvernig sjá má virkjanauppbyggingu á Íslandi fyrir sér.

Þær fjórtán nýju virkjanir sem Landsvirkjun sér möguleika á að reisa á næstu 15 árum og með þeim framleiða samtals 7,3 TWst árlega, eru eftirfarandi (sjá má nánari upplýsingar um þessa virkjanakosti á pdf-skjölum á vef Rammaáætlunar, þar sem vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eru tilgreindar í sitt hvoru lagi, sbr. einnig yfirlitskort):

1)   Þeistareykjavirkjun (jarðvarmavirkjun).

2)   Krafla (ný jarðvarmavirkjun við Kröflu).

3)   Bjarnarflag (ný jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag).

4)   Hólmsárvirkjun í Hólmsá.

5)   Búðarhálsvirkjun í Tungnaá.

6-8)   Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun í Þjórsá.

9)   Búrfellsvirkjun í Þjórsá (ný virkjun við Búrfell).

10)  Skrokkölduvirkjun við Hágöngulón.

11)  Hágönguvirkjun (jarðvarmavirkjun í nágrenni Hágöngulóns).

12-14)  Fannalækjarvirkjun, Gilsárvirkjun og Kolkuvirkjun í Blöndu.

Þessir 14 virkjanakostur eru væntanlega þeir sem Landsvirkjun telur að séu bæði hagkvæmir og þess eðlis að líklegt sé að þokkalega pólítísk sátt náist um þá. Því miður er ekki tilgreint í upplýsingum frá Landsvirkjun af ársfundinum hversu stór hver virkjun myndi verða. En við lauslega athugun sýnist Orkubloggaranum að samanlagt afl þessara fjórtan virkjana gæti verið nálægt 1.000 MW og þá ekki ólíklegt að ársframleiðsla þeirra yrði í kringum þær 7,3 TWst sem er talan sem Landsvirkjun hefur tilgreint.

Skv. þessum hugmyndum er EKKI gert ráð fyrir að virkja ýmsa kosti sem sumir myndu kannski telja hagkvæma, en eru afar umdeildir út frá t.d. umhverfis- og nattúruverndarsjónarmiðum. Þar mætti nefna háhitasvæðin í Vonarskarði (sem reyndar þykja álitlegur virkjunarkostur skv. drögum að Rammaáætlun!) og jarðhitinn í Kerlingafjöllum og við Torfajökul. Og þarna er ekki heldur að finna neina virkjun í Jökulsá á Fjöllum, né í Skjálfandafljóti eða jökulánum í Skagafirði.

lv-ha-2011-virkjanir-02-2.jpg

Hvaða virkjunarstaðir koma að lokum til álita verður vel að merkja í höndum löggjafans og stjórnvalda. Á þessu stigi er því væntanlega eðlilegast að líta á umræddar hugmyndir Landsvirkjunar sem tillögur eða ábendingar. Sumum kann reyndar að þykja það að ætla að reisa allar þessar virkjanir á einungis 15 árum vera ansið hröð uppbygging. En af hálfu Landsvirkjunar er bent á að ef ráðist yrði í þessar framkvæmdir myndi það geta gerst mjög jafnt og þétt yfir allt tímabilið. Og að einfalt yrði að hægja á framkvæmdaferlinu, ef of mikill hiti væri að færast í efnahagslífið. Það er nefnilega enginn virkjanakostanna mjög stór; m.ö.o. ekkert í líkingu við Kárahnjúkavirkjun.

Landsvirkjun hefur í kynningum sínum lagt ríka áherslu á að það sé alls ekki verið að ráðast í framkvæmdir framkvæmdanna vegna. Heldur skuli allar framkvæmdir fyrirtækisins byggjast á rekstrarlegum forsendum og að miðað verði við arðsemiskröfur sem eru langt umfram það sem tíðkaðist áður fyrr hjá Landsvirkjun. Þar að auki mun fyrirtækið auðvitað miða allar sínar áætlanir við niðurstöðu Rammaáætlunar. Það er því í reynd Alþingi sem mun setja rammann um virkjanastefnu Landsvirkjunar.

lv-ha-2011-virkjanir-04-2.jpg

Til eru þeir sem hrökkva í kút við að sjá hugmyndir um svo sórfelldar virkjanaframkvæmdir. Enda er fyrri reynsla af aðdraganda virkjanaframkvæmda hér á Íslandi ekkert sérstaklega góð. Það er t.d. vart hægt að kalla það annað en misbeitingu á pólítísku valdi þegar þáverandi umhverfisráðherra snéri niðurstöðu Nátturuverndar ríkisins um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Vonandi er tími slíkra vinnubragða liðinn. Kynning Landsvirkjunar á framtíðarsýn fyrirtækisins er metnaðarfull og að mati Orkubloggarans nokkuð lituð bjartsýni - sérstaklega með tilliti til þróunar raforkuverðs. En þetta er um margt athyglisverð og jákvæð framtíðarsýn. Og nú er eðlilegt að fram fari opinská umræða um þessar humyndir í þjóðfélaginu, núna þegar Rammáætlunin fer loksins að verða tilbúin.

Við þurfum að bíða enn um sinn til að sjá hvernig þeirri vinnu reiðir af. En ef niðurstaðan verður nálægt þeim hugmyndum sem Landsvirkjun hefur sett fram, er kannski ekki fráleitt að segja sem svo að nú fyrst fari í hönd raunveruleg iðnvæðing á Íslandi, þar sem byggðastefna, kjördæmapot og fyrirgreiðslupólítík verða víðs fjarri. Það er vel.

--------------------------------------------------

[Glærurnar þrjár hér að ofan eru úr kynningu Landsvirkjunar á ársfundi fyrirtækisins fyrr í apríl og eru þær teknar af vefsvæði Landsvirkjunar].


Gamalt stórveldi í orkuþurrð

uk_primary_energy_prod_con.png

Er ekki alveg upplagt að Orkubloggið beini sjónum að Bretlandi í færslu dagsins? Svona með atburði helgarinnar í huga. Og skoði hvernig orkutölfræðin spáir heldur illa fyrir Bretunum.

Iðnbyltingin (bresku kolin) og síðar aðgangur að hrávörum nýlenduþjóðanna gerðu Bretland að stórveldi. Eftir að nýlendurnar fengu sjálfstæði (flestar á 7. áratugnum) varð það Bretum til happs að um sama leyti fannst olía í Norðursjó. Og allt fram undir aldamótin 2000 var Bretland orkustórveldi, þökk sé olíunni og gasinu úr iðrum Norðursjávar-landgrunnsins.

uk-energy-balance_1970-2009-1.png

Gríðarlegar kolvetnisauðlindirnar ollu því að mestallan 9. og 10. áratuginn framleiddi Bretlandi meiri orku en þjóðin notaði. Var m.ö.o. nettóútflytjandi að orku - og var það allt fram til 2003.

En nú er hnignunin hafin. Olíuframleiðsla Breta náði toppi 1999 og gasvinnslan toppaði skömmu síðar. Breska þjóðin er ekki lengur orkusjálfstæð og mun þurfa að flytja æ meira inn af gasi og olíu. Í dag kemur mest af þessum kolvetnisinnflutningi frá Noregi, en einnig frá löndum eins og Alsír og Líbýu. Bretland er sem sagt orðið nettóinnflytjandi að orku og allar horfur á að á næstu árum og áratugum verði breska þjóðin sífellt háðari innfluttum orkugjöfum.

Ennþá er Bretland þó í góðri stöðu miðað við næstum öll önnur aðildarríki ESB. Og þessi vaxandi innflutningsþörf væri sossem ekki vandamál ef markaðsverð á olíu og gasi væri lágt. En kaldhæðni örlaganna hagaði því svo, að einmitt um það leyti sem Bretland framleiddi og flutti út meiri olíu og gas en nokkru sinni, var verð á þessum afurðum í botni. Og árin sem Bretland hefur orðið æ háðara innfluttu eldsneyti/orkugjöfum hefur olíuverð hækkað hratt. Þarna er því kominn nýr og risastór útgjaldaliður fyrir bresku þjóðina - og kostnaðurinn mun að öllum líkindum vaxa hratt á næstu árum.

uk-energy-balance_1970-2009-2.png

Sem fyrr segir voru vatnaskilin í orkusjálfstæði Bretlands um aldamótin 2000. Árið 2008 var svo komið að útgjöld Breta vegna umræddrar innflutningsþarfar voru um 15 milljarðar punda. Lækkandi olíuverð 2009 bættu stöðuna aðeins það árið, en 2010 rauk kostnaðurinn aftur upp og útlitið framundan er ekki bjart.

Þetta eru vel að merkja útgjöld sem ekki voru til staðar fyrir einungis örfáum árum síðan - þegar Bretar þvert á móti voru nettóútflytjendur að orku og orkuiðnaðurinn skapaði þeim miklar útflutningstekjur. Og vegna þess hversu olíulindunum í bresku lögsögunni fer hratt hnignandi, má búast við að orkuinnflutningur Breta margfaldist á næstu árum. Og það þrátt fyrir stórfelldar fjárfestingar í vindorkuverum og bjartsýni þeirra um að geta fljótlega beislað sjávarfallaorku til rafmagnsframleiðslu.

uk-energy-balance_1970-2009-value.png

Svo skemmtilega vill til að Bretar eru nú um 185 sinnum fleiri en Íslendingar og eitt breskt pund kostar í dag einmitt um 185 ISK. Samsvarandi útgjöld fyrir Íslendinga væru því að þurfa að borga u.þ.b. 15 milljarða ISK á ári fyrir innflutta orku. 

Í reynd erum við að borga miklu meira fyrir innflutta orkugjafa. Skv. Hagstofu Íslands eru það nú um 55 milljarðar ISK árlega! Bretar myndu því kannski segja sem svo, hvern fjandann Orkubloggarinn sé að derra sig. En í reynd er staða Íslendinga í orkumálum til framtíðar allt önnur og miklu betri heldur en Breta. Ástæða mikils eldsneytisinnflutnings Íslendinga er m.a. vegna íslenska fiskiskipaflotans, sem er jú mjög umfangsmikill og er notaður til að framleiða útflutningsvörur. Þess vegna er þetta viðráðanlegt fyrir Íslendinga. 

uk_trade-balance_energy_1998-2009.png

Og öfugt við Íslendinga standa Bretar nú frammi fyrir því að þurfa að flytja inn æ meiri orku. Orkubloggarinn hefur séð spár þess efnis að strax árið 2013 verði kostnaður Breta vegna innfluttra orkugjafa orðinn á bilinu 25-50 milljarðar punda allt eftir því hvernig olíuverð þróast. Og færi svo áfram hratt vaxandi.

Þó svo að upphæðin sem þarna er nefnd sé miklu minni og jafnvel ekki nema hálfdrættingur á við það sem við Íslendingar erum að eyða í innflutt eldsneyti þessa dagana (þegar tekið er tillit til fólksfjölda) er þetta samt stórmál fyrir Breta. Staða Bretlands í orkumálum er svona ámóta eins og ef við Íslendingar sæjum fram á að bæði vatnsaflið og jarðvarminn væri senn að verða uppurið.

uk-coal-plant-drax-selby_north-yorkshire-england.jpg

Menn geta rifist um það hvort þeir sem segja að Bretland stefni beint í þjóðargjaldþrot séu ruglukollar, svartsýnisálfar eða raunsæismenn. En það er staðreynd að Bretland stendur frammi fyrir miklum vanda í orkumálum.

Við Íslendingar erum hins vegar í þeirri ákjósanlegu stöðu að eiga miklar orkulindir, sem ekki aðeins eru endurnýjanlegar heldur munu mögulega að umtalsverðu leyti leysa innflutt eldsneyti af hólmi í framtíðinni. Orkan í vatnsföllum Íslands og iðrum jarðar (og prótínið sem svamlar í sjónum umhverfis Ísland) eru auðlindir sem gera það að verkum, að Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni. Hvað sem Icesave líður!

 


Ferðasaga frá Bakú

Azerbaijan er einhver mesti olíuspútnik nútímans.

azerbaijan_oil_production_and_consumption_2010.gif

Þannig gengur tíminn í hringi. Fyrir heilli öld síðan voru svæðin kringum höfuðborgina Bakú í Azerbaijan einmitt vettvangur mikil olíuævintýris. Þar urðu sænsku Nóbelbræðurnir og nokkrir innlendir olíubarónar auðugustu menn veraldar og Bakú var þá ein mesta glæsiborg veraldarinnar.

Og núna þegar olíufyrirtækin eru komin með borpalla langt útá Kaspíahafið er þarna hafið nýtt og ekki síður æsilegt olíuævintýri. Tugmilljarðar USD streyma nú til Azerbaijan í formi fjárfestinga í olíuvinnslu. Þar að auki er gríðarlegt magn af gasi þarna að finna, sem í framtíðinni kann að streyma um langar gasleiðslur alla leið vestur til Evrópusambandsríkjanna.

azerbaijan_baku_oil_pollution.jpg

Engan ætti því að undra, að það var sannkölluð draumaferð fyrir Orkubloggarann að sækja Azerbaijan heim, en það var fyrir nánast sléttu ári síðan (apríl 2010). Ekki var síst "skemmtilegt" að líta þar augu einhver menguðustu svæði jarðar, þar sem jarðvegurinn er gegnsósa af olíudrullu eftir hundrað ára vinnslu.

Einhverjir lesendur Orkubloggsins hafa kannski gaman af að lesa ferðapistil um þessa heimsókn til Azerbaijan - jafnvel þó svo þar sé ekki mikið fjallað um orkumálin. Þá sögu má sjá hér á endurminningabloggi Orkubloggarans.

 


Græningjar fagna

graeningjar-fagna.jpgGræningjar voru að vinna mikinn kosningasigur í þýska sambandsfylkinu Baden-Württemberg. Tvöfölduðu fylgi sitt í þessu mikla hægrivígi; fengu rúmlega 24% og eru nú næststærsti flokkurinn á fylkisþinginu í Stuttgart.

Margir eru á því að þar hafi umræðan um þýsku kjarnorkuverin skipt sköpum. Það hefur reyndar lengi verið mikil andstaða við kjarnorkuver í Þýskalandi og í kjölfar kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986 stefndu þýsk stjórnvöld að því að mjög yrði dregið úr notkun kjarnorku í landinu. Um aldamótin voru meira að segja sett lög sem gerðu ráð fyrir því að því að síðasta kjarnorkuverinu í Þýskalandi yrði lokað árið 2021.

germany-anti-nuclear.jpgEn það var svo á síðasta ári (2010) að ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað að slá þeim áformum á frest. Enda er ekkert áhlaupaverk að ráðast í að loka öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi. Þýskaland þjáist af miklu orkuósjálfstæði og ekki á það bætandi að þurfa t.a.m. að flytja inn ennþá meira af rússnesku gasi til að fullnægja orkuþörf þjóðarinnar.

Í síðustu færslu Orkubloggsins var einmitt minnt á þá staðreynd að þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel stórþjóð eins og Þjóðverjar myndu lenda í margvíslegum vandræðum við að taka þvílíkt afl úr sambandi. Og það er athyglisvert að hvorki meira né minna en 60% raforkunnar sem notuð er í Baden-Württemberg kemur frá kjarnorkuverum! Og þarna er vel að merkja ekki um að ræða neitt smáfylki, heldur búa þar heilar 11 milljónir manna.

nuclear-power-atlas-world-map.jpgHér til hliðar er skemmtileg mynd sem sýnir umfang kjarnorkunnar í heiminum. Þarna má m.a. sjá hversu mjög dró úr byggingu kjarnorkuvera eftir miðjan 9. áratug liðinnar aldar (Chernobyl!). Og hversu gríðarlega mörg kjarnorkuver Kína og Indland hafa áform um að reisa á næstu árum og áratugum.

Það er fremur hæpið að kjarnorkuslysið í Japan muni breyta miklu um þær áætlanir. En skammtímaáhrifin af slysinu gætu orðið veruleg - kansnki ekki síst í vestrænum stjórnmálum. Þessa dagana er a.m.k. gaman hjá Græningjunum í Þýskalandi.

 


Kjarnorkuver á undanhaldi?

japan-nuclear-plants-3.jpg

Alvarleg óhöpp í kjarnorkuverum eru afar sjaldgæf. Og kjarnorkuver eru þokkaleg ódýr leið til að framleiða raforku. Og þau losa engar gróðurhúsalofttegundir.

Þess vegna hafa kjarnorkuver af mörgum þótt einhver besti kosturinn til raforkuframleiðslu. Enda eru allmörg ríki með áætlanir um að byggja mikinn fjölda nýrra kjarnorkuvera á næstu árum og áratugum. Orkubloggið hefur áður sagt frá metnaðarfullum kjarnorkuáætlunum Kínastjórnar. Og í Japan, þar sem kjarnorkan stendur undir um fjórðungi allrar raforkuframleiðslunnar, hafa stjórnvöld haft þá stefnu að hlutfall kjarnorkunnar í raforkuframleiðslu landsins hækki úr núverandi 27% í 40% fyrir 2017! Og að árið 2030 verði hlutfall kjarnorkunnar orðið 50%.

japan_electricity_generation-2009.png

Þetta eru stórhuga áætlanir hjá Japönum. Þær hafa m.a. orðið til af þeim sökum að Japan er svo gífurlega háð innflutningi á bæði gasi og kolum - og auðvitað líka á olíu. Kjarnorkan skapar Japönum meiri fjölbreytni í raforkuframleiðslu og ný kjarnorkuver eru raunhæfasta leiðin fyrir japönsku þjóðina að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og forðast mengun vegna kolefnisbruna. Já - kjarnorkan hentar Japönum jafnvel þó svo þeir þurfi að flytja inn eldsneytið í kjarnorkuverin (úranið). 

Þess vegna hafa Japanir veðjað á kjarnorkuna. Jafnvel þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd að engin þjóð þekkir betur skelfilegar afleiðingar kjarnorkunnar (þegar tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á Japan í ágúst 1945).

nuclear-power_europe-2009-map.gif

Kjarnorkan sem orkugjafi átti blómaskeið á 7. og 8. áratugum 20. aldar. En eftir það dró mjög úr byggingu kjarnorkuvera. Ekki síst í Bandaríkjunum, en ástæða þess að kjarnorkan missti meðbyr var m.a. óhappið í kjarnorkuverinu á Þriggja mílna eyju árið 1979. Og eftir slysið 1986 í Chernobyl í Úkraínu (sem þá var hluti af Sovétríkjunum) jókst andstaða við kjarnorkuver víða í Evrópu. Fyrir vikið hafa mörg kjarnorkuríki í Evrópu stefnt að því að fækka kjarnorkuverum. Þar má t.d. nefna Svíþjóð og Þýskaland.

Sum ríki hafa aftur á móti haldið fullri tryggð við kjarnorkuna. T.d. hefur Frakkland gengið svo langt að framleiða um 75-80% allrar raforku sinnar með kjarnorku. Og kjarnorka stendur undir stórum hluta allrar raforkuframleiðslunnar í mörgum öðrum löndum Evrópu og hefur t.a.m. verið furðu lítið umdeild í Finnlandi, sem hefur verið að auka þýðingu kjarnorkunnar í raforkuframleiðslunni.

germany-nuclear-plants.png

Þrátt fyrir nokkuð mikla andstöðu almennings við kjarnorkuver víða um lönd, má segja að sú andstaða hafi veikst þegar athygli fólks beindist að hlýnandi loftslagi - sem mögulega stafar einkum af bruna á kolum, olíu, gasi. Gott ef sumir voru ekki farnir að tala um kjarnorku sem græna orku! Bara vegna þess að kjarnorkuver losa ekki gróðurhúsalofttegundir - og þrátt fyrir margvíslegan og mikinn vanda sem getur fylgt geislavirkum úrgangi frá kjarnorkuverum. Þar að auki olli efnahagsvöxturinn í Asíu því að kjarnorkan fékk sífellt meiri athygli sem góður orkugjafi.

En svo varð jarðskjálftinn við Japan og enn á ný urðu kjarnorkuver ógnvaldur. Ennþá er ekki útséð hvernig fer með kjarnorkukljúfana í Fukushima og þetta atvik er sérstaklega ógnvænlegt þegar haft er í huga þéttbýlið á svæðinu (kjarnaverið er t.a.m. einungis um 200 km frá tugmilljónaborginni Tokyo). Ekki skrítið þótt á ný hafi blossað upp mikil andstaða gegn kjarnorkuverum og að stjórnvöld víða um hinn kjarnorkuvædda heim kippi að sér kjarnorkuhendinni.

En er raunhæft að við getum án kjarnorkunnar verið? Krafan um að loka kjarnorkuverunum virðist hvað háværust í Þýskalandi. Af allri raforkuframleiðslu þar í landi stendur kjarnorkan undir á bilinu 25-30%. Þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel fyrir fjölmenna þjóð eins og Þjóðverja, er ekki neitt smámál að taka svo mikið afl úr sambandi (samanlagt afl þýskra kjarnorkuvera er um 21 þúsund MW - afl allra íslenskra virkjana er um 2.600 MW).

nuclear-evening.jpg

Öll sú orka myndi þá þurfa að koma annars staðar frá. Þetta myndi auðvitað ekki gerast á einni nóttu. Lausnin gæti verið að auka innflutning á gasi og á t.d. einum áratug væri hægt að reisa þúsundir og jafnvel tugþúsundir MW af nýjum vindrafstöðvum (í dag er uppsett afl þýskra vindorkuvera um 26 þúsund MW, sem geta sennilega framleitt jafn mikla raforku eins og ca. 7 þúsund MW kjarnorkuver). Og svo mætti bæta við slatta af sólarorkuverum. Og kannski líka nýjum kolaorkuverum!

Þetta væri hægt. En þessu myndi fylgja gríðarlegur kostnaður. Þrátt fyrir allt, þá er kjarnorkan miklu ódýrari orkugjafi heldur en vindorka og margfalt ódýrari en að virkja sólarorku. Þar að auki hefur kjarnorkan þann kost að vera yfirleitt mjög áreiðanlegur orkugjafi, meðan bæði sól og vindur eru óvissir raforkugjafar og þurfa að geta stuðst við æpandi mikið varaafl.

nuclear_wind_1070905.jpg

Því miður er engin góð lausn borðleggjandi. Þjóðverjar vilja forðast að verða enn háðari því að kaupa gas frá Rússum. Og vilja minnka stórlega losun gróðurhúsalofttegunda. Það er vandséð hvernig uppfylla á slík markmið ef loka á þýskum kjarnorkuverum í stórum stíl.

Það er vægast sagt afar hæpið að endurnýjanlegir orkugjafar geti þar orðið allsherjarlausn. Til þess er kjarnorkan einfaldlega of stór og mikil umfangs. Og jafnvel þó svo þetta kunni að vera fræðilega mögulegt yrði kostnaðurinn svimandi. Eftir raforkuverðhækkanir síðustu ára er hæpið að almenningur sé tilbúinn að kyngja miklum hækkunum í viðbót bara til að losna við kjarnorkuverin.

Samskonar sjónarmið eiga við um Japan og flest önnur ríki sem nýta kjarnorku. Ætli menn að gera alvöru úr þeim orðum sínum að minnka notkun kjarnorku umtalsvert og þá helst með endurnýjanlegum orkugjöfum, þá verður það afar kostnaðarsamt. Kannski svo dýrt að almenningur muni snúast á sveif með kjarnorkunni - þrátt fyrir áhættuna, sem nýting kjarnorkunnar skapar.

japan-nuclear-plants-child.jpg

Orkubloggarinn er á því að EF slysið í Fukushima hefur þegar náð hámarki, muni það ekki hafa miklar langtímaafleiðingar á orkustefnu ríkja. En EF slysið á eftir að verða mun alvarlegra og veruleg geislun frá verinu berist til stórborga í Japan, yrði það mikið högg fyrir fylgjendur kjarnorkuvera. Sú atburðarás virðist þó á þessari stundu fremur ólíkleg. Vonandi hafa Japanir náð tökum á ástandinu í Fukushima. Og vonandi mun atburðurinn hafa þau jákvæðu áhrif, að rannsóknir og þróun á endurnýjanlegri orkuvinnslu verði stórefldar um allan heim.

Ríki heims þurfa að huga miklu meira að endurnýjanlegum orkugjöfum og sem flest ríki ættu að stefna í átt að orkusjálfstæði - ekki bara í orði heldur á borði! Kannski fara íslensk stjórnvöld loksins að hlusta á hvatningar Orkubloggsins - og byrja bráðum af alvöru að huga að því að skapa hér kjöraðstæður fyrir fyrirtæki sem t.d. vinna að framleiðslu á grænu eldsneyti og þróun sjávarorkutækni. Með sitt mikla vatnsafl og jarðvarma er Ísland kjörinn staður fyrir rannsóknir, þróun og framleiðslu á slíkri tækni. Þetta gæti meira að segja verið besta tækifærið í endurreisn íslensk efnahagslífs.

 


Spenna við Flóann

oil-graph-200-usd.jpg

Margir olíuspekúlantar biðu spenntir eftir föstudeginum sem leið (11. mars 2011). Vegna þess að skyndilega höfðu margir veðjað á að olíutunnan ryki upp. Í 150 USD eða 200 eða þaðan af meira!

Ástæða þess að menn gerðust svo djarfir fyrir helgina að spá æpandi miklum verðhækkunum á olíu, var að boðað hafði verið til víðtækra mótmæla gegn stjórnvöldum í Saudi-Arabíu og áttu þau að fara fram s.l  föstudag. Á ensku var talað um day of rage og sumir töldu þetta geta leitt til óeirða sem myndu trufla olíuframboð frá Sádunum. Eða a.m.k. valda því að markaðurinn færi af taugum og taka til við að hamstra olíu.

oil-collapse-2.jpg

Þar að auki hafa þegar orðið einhverjar ryskingar í austustu héruðum Saudi-Arabíu. Það vill svo til að þar býr mikið sjítum, sem eru afar ósáttir við yfirstéttina sem allt eru súnnítar, eins og flestir íbúarnir í landinu. Þar brást lögreglan hart við og skaut á fólk. Og þó svo mótmælin þarna virðast hafa verið kæfð niður, eru menn alls ekki rólegir. Þarna í austurhluta landsins liggja nefnilega margar stærstu og mikilvægustu olíulindir heimsins; ofurlindir eins og Manifa, Khurais og risinn Ghawar.

En föstudagurinn varð ekki sá ófriðardagur í Saudi-Arabíu eins og sumir höfðu búist við. Kannski varð jarðskjálftinn rosalegi við Japan til þess að dreifa huga fólks. Eða kannski hafði stjórnvöldum tekist að hræða fólk - eða jafnvel kaupa sér frið með nýju loforði Sádakonungs um 36 milljarða dollara fjárframlög til ýmissa verkefna. Ekki veitir af í landi þar sem atvinnuleysi ungs fólks er um 40%!

En stjórnvöld í Riyadh   ættu kannski ekki að fagna sigri of snemma. Stór hluti þjóðarinnar er löngu búinn að fá yfir sig nóg af einræðisstjórninni, sem með harðri hendi hefur haldið öllum umbótaöflum niðri. Þar að auki gæti ein allra minnsta þúfan orðið til þess að velta hlassinu. Þar er átt við nágrannaríki Sádanna; smáríkið Bahrain

bahrains-oil-importance_1068631.jpg

Bahrain á sér merkan sess í olíusögunni því fyrsti olíubrunnurinn á Arabíuskaganum var einmitt grafinn í sandinum í Bahrain (það var 1935). Í dag framleiðir Bahrain einungis um 40 þúsund olíutunnur á dag og skiptir því sáralitlu máli þegar rætt er um olíuframboð í heiminum. En Bahrain er eins og eyja í Súnnítahafi Arabíuskagans. Þar eru um 7/10 allra íbúanna sjítar, en öll valdastéttin eru súnnítar. Súnnítarnir eru lítt spenntir fyrir því að deila peningum og völdum með þorra þjóðarinnar og þarna á milli er því talsverð spenna. Sem gæti blossað upp núna þegar almenningur í öðrum Arabaríkjum hefur risið upp gegn ofríki þaulsetinna valdhafa. Og slíkar óeirðir gætu smitast yfir landamærin til Saudi-Arabíu.

us_navy_5th-fleet.jpg

Vert er líka að hafa í huga að líklegt er að sjítarnir í Íran styðji trúbræður sína í Bahrain - hvort sem er opinberlega eða með undirróðri - og hvetji til uppreisnar gegn súnnítastjórninni. Inní þetta blandast bandarískir hernaðar-hagsmunir, því mikilvægasta flotahöfn bandaríska sjóhersins við Persaflóann er í Bahrain. Og allar fyrrnefndar risalindir Sádanna eru rétt handan við landamæri Bahrain að Saudi-Arabíu. Bahrain er því sakleysisleg púðurtunna, sem gæti haft all svakalegar afleiðingar ef hún springur.

 


Vesturlandahræsnin

libya-oil-exports.jpg

Líbýa er einn stærsti olíuútflytjandinn í Afríku. Er þar í hópi með Alsír, Angóla og Nígeríu. Þess vegna varð mörgum hér í Westrinu um og ó þegar óeirðir breiddust út þarna í ríki Gaddafi's. Truflun á olíuútflutningi frá Líbýu er miklu stærra efnahagslegt mál heldur en vesenið í Túnis eða Egyptalandi. Því olían stjórnar jú öllu.

Truflunin á olíuútflutningi frá Líbýu skýrir líka að miklu leyti þann svakalega verðmun sem undanfarið hefur verið á olíu á mörkuðum sitt hvoru megin Atlantshafsins. Í Bandaríkjunum er allt fljótandi í svarta gullinu þessa dagana og allar birgðageymslur að verða stútfullar. Olían frá olíusandinum í Kanada og nýju vinnslusvæðunum kennd við Bakken í Dakota stútfylla nú tankana í Cushing, Oklahóma. En í Evrópu er menn með böggum Hildar vegna minnkandi olíuframboðs frá Líbýu.

gaddafi-looking-up.jpg

Fyrir vikið kostar olíutunna á Lundúnamarkaði nú sem samsvarar rúmum 116 USD, meðan sama magn af olíu kostar einungis 105 USD á Nymex. Þetta er meiri munur en flestir olíusvolgrarar muna eftir. Hreint magnað. Maður ætti kannski að leigja nokkra dalla og sigla með fáeina farma frá Mexíkóflóanum og austur til olíusoltinnar Evrópu?

En það er ekki bara að Evrópa kaupi mikið af olíu frá Líbýu.  Líbýa er ekki aðeins mikilvægur olíuútflytjandi; landið býr nefnilega yfir langmestum olíubirgðum af Afríkuríkjunum öllum (sbr. stöplaritið hér að neðan sem sýnir vinnanlega olíu í jörðu). Þetta er einmitt helsta ástæðan fyrir ótrúlegum sleikjuskap og undanlátsemi Vesturlandaleiðtoganna gagnvart Gaddafi í gegnum tíðina.

libya-2010_african_oil_reserves.gif

Það er ekki eins og menn hafi verið að komast að því núna á þorranum eða góunni á því Herrans ári 2010 að maðurinn sé fauti. Í Líbýu hafa andstæðingar Gaddafi's iðulega horfið sporlaust og alþekkt er hvernig Líbýa hefur í áratugi stutt hryðjuverkastarfsemi hingað og þangað um heiminn.

Sumum var reyndar nóg boðið þegar farþegaþota PanAm var sprengd í loft upp af líbýskum terroristum yfir Skotlandi  skömmu fyrir jólin 1988. En olían er bara meira virði en svo að menn væru að erfa þetta of lengi við kallinn. Bresk stjórnvöld leyfðu sprengjumanninum að trítla úr bresku fangelsi og vera fagnað sem þjóðhetju við komuna til Trípólí; höfuðborgar Líbýu. Að baki lá díll Breta við Gaddafi um að BP fengi að leika sér í olíuiðnaði Líbýu.

gaddafi-blair-1.jpg

Olían verður bersýnilega ekki metin til mannslífa - a.m.k. ekki í augum breskra stjórnvalda. Einræðisherrar í olíuríkjum þykja einfaldlega hið besta mál, svo lengi sem þeir eru liðlegir til að flytja út olíu og leyfa olíufyrirtækjum Vesturlanda að koma þar að vinnslunni. Þá er allt fyrirgefið; jafnvel hryðjuverk og fjöldamorð.

Vesenið núna er í reynd ekki tilkomið út af því að þegnar Gaddafi's risu upp gegn honum. Ástæðurnar fyrir hörðum víðbrögðum Vesturlandaleiðtoganna eru miklu fremur að vegna uppþotanna í landinu er bæði olíuframleiðslunni í Líbýu ógnað og aukin hætta á að Gaddafi fleygi enn á ný erlendum olíufélögum út úr landinu. Þess vegna spretta ráðamenn Vesturlanda nú skyndilega fram og fordæma Gaddafi í hópum - eins og 40 ára harðstjórn hans sé eitthvert nýabrum.

gaddafi-brown.jpg

En öllum er þeim í reynd skítsama um líbýsku þjóðina. Málið er einfaldlega að þarna þarf að komast á jafnvægi hið fyrsta - svo við hér í Evrópu getum áfram drukkið svarta blóðið frá Líbýu truflunarlaust.

 


Gasið í Egyptalandi

absim1.jpg

Síðustu vikurnar hefur Orkubloggarinn að sjálfsögðu fylgst spenntur með atburðunum í N-Afríku. Þegar maður var snáði voru sögurnar af Faraóunum með því mest spennandi sem maður las. Ekki var síður skemmtilegt að lesa um Aswan-stífluna, sem reist var í Egyptalandi á árunum 1960-70. Og um það hvernig risavaxnar fornminjarnar sem hefðu farið á kaf í uppistöðulónið voru sagaðar í sundur á vegum UNESCO og fluttar út fyrir lónstæðið. 

Stíflan við Aswan hefur fyrst og fremst það hlutverk að stýra rennsli hinnar miklu Nílar. En að auki er þarna virkjun í ánni upp á meira en 2.000 MW. Þegar ráðist var í þessar framkvæmdir þýddi það rafvæðingu sem á þeim tíma náði til um helmings egypsku þjóðarinnar. En í dag stendur raforkan frá Aswan einungis undir um 15% af raforkuþörf Egypta. Sem er til marks um þá gríðarlegu fólksfjölgun, sem orðið hefur í Egyptalandi eins og svo mörgum öðrum þróunarríkjum.

Þrátt fyrir að egypska lýðveldið sé orðið nærri 60 ára hafa einungis þrír forsetar ríkt yfir landinu á þessum tíma (ef við leyfum okkur að sleppa fyrsta forsetanum sem sat einungis í eitt ár). Þessir þrír voru Nasser (1956-70) sem þjóðnýtti Súez-skurðinn, Sadat (1970-81) sem samdi frið við Ísrael og svo Mubarak (1981-2011).

sadat-mubarak.jpg

Þarna er í reynd um að ræða eina samfellu, því bæði Sadat og Mubarak höfðu áður verið varaforsetar. Mubarak varð forseti landsins þegar Sadat var myrtur 1981 (myndin hér til hliðar mun hafa verið tekin örfáum andartökum áður en skothríðin buldi á Sadat; Mubarak slapp lítið særður). Sadat var hataður af mörgum leiðtogum annarra Arabaríkja fyrir friðarsamningana við Ísrael og um skeið var Egyptalandi vísað úr Arababandalaginu. En í staðinn varð Egyptaland einn helsti bandamaður Vesturlanda í Arabaheiminum. 

Mubarak viðhélt hinum kalda friði við Ísrael og þar með vinskap við Bandaríkin. Þrátt fyrir þjóðþing og lýðræði að nafninu til, var hann í reynd nær einráður; einræðisherra sem ríkti í skjóli "neyðarlaga" með aðstoð hersins og lögreglunnar. Hann hafði verið í forsetaembættinu í um þrjá áratugi nú þegar egypska þjóðin sagði hingað og ekki lengra og Mubarak mátti segja af sér með skömm.

egypt_petroleum-net.png

En það er vandséð að lýðræði eins og við skiljum það hugtak komist á í Egyptalandi. Og það blasa risavaxin vandamál við þjóðinni. Hún er afar fjölmenn - um 80 milljónir manna - og stór hluti hennar býr við sára fátækt. Opinberar tölur um atvinnuleysi segja það vera um 10%, en skv. sumum heimildum er það miklu meira. Verðbólga er einnig mikil; um 15% skv. tölum hins opinbera.

Við þetta bætist svo að Egyptar eru ekki lengur sjálfum sér nógir um olíu. Þó svo Egyptaland sé verulegur olíuframleiðandi - einn af þeim stærri í Afríku - er nú svo komið að framleiðslan stendur ekki lengur undir olíuþörf þessarar fjölmennu þjóðar.

Fyrir um 15 árum náði framleiðslan um milljón tunnum á dag, en slefar nú varla í 600 þúsund tunnur vegna hnignandi olíulinda. Það er nánast sama magn eins og þjóðin notar og því blasir við að senn muni olían ekki lengur skila Egyptum útflutningstekjum. Þvert á móti mun þessi fátæka þjóð senn þurfa að flytja inn olíuafurðir. Og keppa um þær á heimsmarkaði við okkur í vestrinu og aðra sem munu alltaf vera tilbúnir að yfirbjóða Egypta og aðrar snauðar þjóðir.

egypt_small.png

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Undanfarin ár hafa fundist miklar gaslindir út af óshólmum Nílar. Egyptaland hefur fyrir vikið stóraukið gasframleiðslu sína og útflutning á gasi. Svo gæti farið að landið verði einn af mikilvægustu gasbirgjum Evrópu. Löngu orðið tímabært að ESB tengist N-Afríkuríkjunum nánari böndum.

Einn af allra nýjustu gasvinnslu-samningunum sem egypsk stjórnvöld gerðu var nettur samningur við BP og þýska RWE upp á 9 milljarða USD. Undir hann var párað um mitt síðasta ár (2010). Og svo má ímynda sér hvort eitthvað lítilræði af þessum milljörðum dollara hafa runnið inn á reikninga í eigu Mubarak's í einhverjum ónefndum banka í ónefndu landi?

 


Álverskórinn syngur enn

Í vikunni sem leið bárust þær fréttir að Landsvirkjun og HS Orka hafi samið um raforkusölu til kísilverksmiðju, sem rísa á við Helguvík. Því miður er fólk samt ennþá að gæla við að álver Norðuráls muni taka þar til starfa - þó svo allir viti að það merkir að orka frá hundruðum MW verði þá seld álverinu á spottprís og með svo til engri arðsemi fyrir orkufyrirtækin.

kisilver-undirritun.jpgÞeir sem eru heitastir fyrir álveri í Helguvík hafa lítinn áhuga á arðsemi af raforkusölunni. Rétt eins og sumir þingmenn vilja að ríkisstjórnin taki ráðin af Landsvirkjun, sem "leiki lausum hala", horfa sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eingöngu á störfin og umsvifin í kringum sjálfa framkvæmdabóluna. En til allrar hamingju eru orkufyrirtækin hér smám að færast frá því að vera byggðastefnutæki stjórnvalda, yfir í það að leggja áherslu á að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Þar hefur Landsvirkjun haft frumkvæði - og hefur nú sýnt að þar á bæ er svo sannarlega verið að fylgja eftir nýrri stefnu fyrirtækisins.

Vert er að geta þess að Orkubloggarinn er enginn andstæðingur álvera - þó svo hann álíti komið nóg af þeim á Íslandi. Og til eru þeir sem vilja ganga mun lengra í að draga úr raforkusölu til álvera á Íslandi. Í þessu sambandi má rifja upp athyglisvert viðtal sem Egll Helgason átti við Gísla Hjálmtýsson í Silfri Egils fyrir um ári síðan. Viðtalið má sjá í tveimur hlutum á YouTube (fyrirsagnirnar þar eru reyndar útí hött):

 

Og hér er seinni hluti viðtalsins við Gísla: 

 

 


Olían á þrotum?

Í vikunni sem leið fór sú frétt sem eldur í sinu um heimsbyggðina, að miklu minna af olíu sé í jörðu en menn ætluðu. Í fréttinni fólst nánar tiltekið að Sádarnir hafi stórlega ofmetið olíulindir sínar - um allt að 40%! Í reynd sé olían þar því hátt í helmingi minni en menn hafi talið.

Fréttin birtist upphaflega á vef Guardian og heimildin var Wikileaks-skjölin frá bandarískum stjórnvöldum; nánar tiltekið einhver memo frá ræðismanni Bandaríkjanna í Riyadh. Fréttastofur og fjölmiðlar um allan heim tóku andköf; átu fréttina upp hver eftir öðrum og báru hana áfram gagnrýnislaust sem einhver stærstu tíðindin úr Wikieaks-skjölunum. 

sadad_al-husseini.jpg

En allir sem nenntu að lesa fréttina ráku fljótt augu í nafn, sem fékk bæði Orkubloggarann og aðra orkubolta þessa heims til að glotta. Heimildin fyrir þessari "stórfrétt" var nefnilega maður að nafni Sadad al-Husseini. Sem áður var einn af framkvæmdastjórum Saudi Aramco og þykir því af einhverjum ástæðum sjálfkrafa af sumum vera örugg heimild - en er í reynd afar umdeildur. Enda haggaði þessi "stórfrétt" ekki við olíumörkuðunum.

Það má vel vera að Al-Husseini sé vel meinandi. En í reynd eru þetta allt saman tómar getgátur. Og þar að auki alls ekki ný tíðindi. Al-Husseini hefur í mörg ár verið ötull boðberi þess að olían í hinni heilögu jörð Allah sé ekki eins mikil eins og sumir vonist eftir. Frétt Guardian var m.ö.o. eldgömul og sjálfur hefur Al-Husseini flutt fjölda fyrirtlestra og veitt viðtöl um nákvæmlega þetta sama, allt frá árinu 2004. En bandaríski ræðismaðurinn í Riyadh virðist fyrst hafa frétt af þessari kenningu hans í samtali við Al-Husseini árið 2007. Og stökk þá til og sendi skýrslu heim til Washington. Skýrslu sem er óttalegt bull, en er nú allt í einu orðin heimsfrétt. Svolítið hjákátlegt. 

Umrædd Wikileaks-skjöl voru sem sagt gamlar fréttir. Þar að auki er innihaldið tómar getgátur sem lítið hafa með staðreyndir að gera. Auk þess sem bandarísku sendiráðsmennirnir virðast ekki hafa skilið hvað átt er við með grundvallar-hugtökum eins og proven reserves og oil in place. Sic.

peak-oil-apocalypse.jpgSvolítið dapurlegt að sjá hvernig menn stukku á fréttina gagnrýnislaust. Meira að segja Financial Times sló þessu upp sem meiriháttar frétt. En varð brátt að birta viðauka um að þetta væri reyndar ekkert sérstaklega merkilegt og að þarna væru í reynd engar nýjar upplýsingar á ferðinni. Orðrétt segir núna um þetta á vef FT (leturbreyting er Orkubloggarans):

Update: I'll leave the blog below in tact, but really I should point out that the reason the oil price hasn't moved is that the person quoted in the Wikileaked cable, Sadad al Husseini, is a well-known peak oil theorist who has said this in public many times before.

Nú standa sem sagt fjölmiðlarnir - a.m.k. þeir sem vilja láta taka sig alvarlega - sveittir við að árétta að fréttin byggði á misskilningi og að getgátur eru ekki staðreyndir. Það á ekki bara við um Financial Times, heldur líka New York Times - og eflaust fleiri.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband