Forsetar láta sig dreyma

Í dag birtist fyrsta færsla gjörbreytts Orkubloggs! Í stað þess að birtast reglulega á sunnudögum verður Orkubloggið héðan í frá með óreglulegar færslur - sem þó munu væntanlega almennt birtast á mánudögum. Önnur breyting er sú að færslurnar verða mun styttri en verið hefur og meira í líkingu við það sem var í upphafi Orkubloggsins árið 2008. En að færslu dagsins:

------------------------------ 

Obama forseti var nýverið að árétta metnaðarfull markmið sín í orkumálum. Þess efnis að stórauka nýtingu á endurnýjanlegum orkuauðlindum OG stórminnka þörf Bandaríkjanna fyrir innflutta olíu. Það skemmtilegasta er auðvitað að þessi ofurgræna orkustefna felst einkum í tveimur grundvallaratriðum. Annars vegar að byggja fjölda nýrra kjarnorkuvera. Kjarnorkuver losa jú engar gróðurhúsalofttegundir og eru þess vegna allt í einu orðin alveg skærgræn! Hins vegar ætla Bandaríkjamenn að þróa hrein kolaorkuver; Clean Coal. Sem felst í því að taka útblásturinn frá kolaorkuverunum og dæla honum niður í jörðina.

jon-stewart_oil-independence.pngÞað á sem sagt að grafa skítinn í jörðu. Og væntanlega setja kjarnorkuúrganginn í einhverja fjallahella. Dúndrandi grænt! Sannleikurinn er sá að Bandaríkin sjá enga von um að geta snúið frá olíuknúnum hagvexti. Þrátt fyrir mikinn uppgang í bæði vind- og sólarorku blasir ekkert annað við en að jarðefnaeldsneyti verði áfram grundvöllurinn að efnahagskerfi Bandaríkjanna. 

Þar á bæ hafa forsetarnir í áratugi tuggið sömu klisjuna um að gera landið orkusjálfstætt. Og umhverfisvænna. Það magnaða er að líklega var það hrappurinn Nixon sem tók mörg grænustu skrefin. Eins og háðfuglinn Jon Stewart bendir á í þessu bráðskemmtilega myndbandi. Hvet alla til að horfa á og njóta!

 ------

PS: Linkurinn á Jon Stewart virðist hættur að virka. En nú er myndbandið komið á YouTube (að vísu speglað!:

 

 


Orkustefnan í Silfrinu

Upplagt að bæta hér einni færslu við.

Með upptöku af umræðum í Silfri Egils fyrir viku, þar sem rætt var um drög að orkustefnu fyrir Ísland. Sem fjallað var um í síðustu færslu Orkubloggsins.

 

 


Orkustefnan

Stýrihópur iðnaðarráðherra um mótun heildstæðrar orkustefnu hefur skilað drögum að orkustefnu fyrir Ísland. Allir geta lesið þessi drög og gert athugasemdir við þau á vefnum orkustefna.is. Sú slóð færir mann áfram á síðu á vef Orkustofnunar. Af því tilefni er vert að taka fram að drögin eru ekki samin af Orkustofnun, heldur sérstökum sjö manna stýrihópi, sem skipaður var af iðnaðarráðherra. Vissulega á orkumálastjóri þar sæti, en stýrihópurinn er undir formennsku Vilhjálms Þorsteinssonar.

hvdc_blue.jpg

Orkubloggarinn er mjög sáttur við flest í þessum drögum. Og ætti kannski að vera alveg í skýjunum - af því það vill svo skemmtilega til að niðurstöður stýrihópsins endurspegla mjög margt af því sem bloggarinn hefur talað fyrir hér á Orkublogginu

Það hefði kannski bara verið einfaldara og skilvirkara að fá Orkubloggarann í þetta verk? Kannski ekki; því þá væri skýrslan líklega a.m.k. 500 blaðsíður og e.t.v. alltof ítarleg til að nokkur nennti að lesa hana. En að vísu innihéldi hún þá í raun og veru tillögu að heildstæðri orkustefnu, þar sem tekið væri á öllu því sem nauðsynlegt er í slíkri stefnu. Í umræddum drögum af orkustefnu er aftur á móti sumstaðar skautað ansið hratt yfir hlutina. Og líka sleppt að fjalla um nokkur mikilvæg atriði sem ættu að vera hluti af orkustefnunni.

En skoðum hver eru meginatriðin í skýrslu stýrihópsins. Segja má að stefnan sem þarna er sett fram í orkumálum Íslands endurspeglist einkum í eftirfarandi meginatriðum:

1)    Að minnka og dreifa áhættu opinberu orkufyrirtækjanna. Og þá einkum með því að hætt verði að semja við álfyrirtækin um að raforkuverðið sé tengt álverði í svo miklum mæli sem verið hefur. Í reynd er Landsvirkjun einmitt byrjuð á þessu, því í nýjasta raforkusölusamningnum, sem var við álverið í Straumsvík, var raforkuverðið ekki tengt álverði. Sem merkir að Landsvirkjun ber þá ekki áhættuna af sveiflum á álverði. Þess í stað miðast orkuverðið einfaldlega við gengi á USD. Orkubloggarinn er sammála þessari stefnu.

2)    Að auka arðsemi orkufyrirtækjanna með því að stefna að hækkun á raforkuverði til stóriðjunnar til samræmis við hækkandi verð í Evrópu og víðar um heim. Um þetta markmið má líka segja, að Landsvirkjun hafi nú þegar kynnt það til sögunar í sínum rekstri. Sbr. t.d. kynning forstjóra fyrirtækisins fyrr á árinu, sem sagt hefur verið frá hér á Orkublogginu. Orkubloggarinn er sammála þessari stefnu stýrihópsins.

3)    Að kanna með lagningu rafstrengs til Evrópu í því skyni að auka hagkvæmni og arðsemi orkufyrirtækjanna. Einnig um þetta hefur Landsvirkjun fjallað talsvert á síðustu misserum! Og sagt vera áhugaverðan kost, en að þetta sé þó ekki nauðsynleg forsenda til að auka megi arðsemi fyrirtækisins. En stýrihópurinn vill sem sagt stefna að slíkum rafstreng, sem eru heilmikil pólitísk tíðindi verði þetta orkustefna íslenskra stjórnvalda. Orkubloggarinn er sammála þessari stefnu.

verne-banner.png

4)    Í skýrslu sinni dregur stýrihópurinn fram þá mynd að einhæfnin í raforkusölunni hér (80% til stóriðju og þar af er hluti álbræðslnanna langmestur) sé óheppileg og bendir á nokkra kosti sem myndu fylgja því auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Hópurinn nefnir þá leið "bjóða orku til smærri verkefna með styttri fyrirvara og með einfaldara og fyrirsjáanlegra afhendingarferli en tíðkast hefur". Leggur stýrihópurinn til að sérstaklega verði miðað að því að útvega smáum og meðalstórum fyrirtækjum raforku innan þess tímaramma sem uppbygging verkefna af þeim stærðargráðum almennt tekur að jafnaði, þ.e. innan 1-4 ára. Í þessu efni miðar stýrihópurinn annars vegar við fyrirtæki sem þurfa afl sem nemur 1-10 MW og hins vegar afl sem nemur 10-50 MW. Þetta er að mati Orkubloggarans hárrétt stefna. Að auki vill stýrihópurinn að raforkulög og reglur um raforkuflutning verði aðlagaðar þörfum smærri og meðalstórra orkunotendum.

Reyndar er svolítið hætt við að þessar áherslur stýrihópsins í lið nr. 4 hér að ofan, verði tengdar því að formaður stýrihópsins sé greinilega ekki stjórnarformaður álvers heldur... t.d. stjórnarformaður fyrirtækis sem hyggst byggja gagnaver! Sem einmitt þarf mun minni raforku en álver. Það hefði kannski verið eðlilegra að þeir sem í stýrihópnum sitja ættu enga beina hagsmuni af því hvernig orkustefna Íslands líti út. Vilhjálmur er vel að merkja stjórnarformaður Verne Global og með mikil tengsl víðar í viðskiptalífinu. Orkubloggarinn treystir Vilhjálmi vel til að vinna af algerum heilindum að orkustefnunni. En þetta er samt svolítið óheppileg tenging.

5)    Að hætt verði að veita ábyrgð hins opinbera vegna fjármögnunar virkjanaframkvæmda. Þetta er enn eitt atriðið sem forstjóri Landsvirkjunar hefur minnst á að sé framtíðarsýn fyrirtækisins. Og sömuleiðis hefur Orkubloggið sagt þetta vera mikilvægt. Hárrétt stefna.

cri-head.png

6)    Að framleitt verði íslenskt eldsneyti. Markmiðið sem stýrihópurinn leggur til í þessu sambandi er að árið 2020 verði búið að draga úr notkun innflutts eldsneytis OG auka hlutdeild innlendra orkubera/ eldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi, sem nemi a.m.k. 10% af heildarnotkun eldsneytis á þessum sviðum. Og af því Orkubloggið hefur hér verið að bera stefnu stýrihópsins saman við yfirlýst viðhorf Landsvirkjunar, má nefna að Landsvirkjun undirritaði einmitt nýverið viljayfirlýsingu við CRI um að kanna með byggingu metanólverksmiðju norður í landi og sölu á raforku til hennar. Og lesendum Orkubloggsins ætti að vera kunnugt um mikinn áhuga Orkubloggarans á að nýta íslenska orku til að framleiða hér eldsneyti. En umrætt markmið stýrihópsins er því miður fremur óljóst, eins og nánar verður vikið að hér a eftir. Þessi stefna þarf að verða miklu skýrari. 

7)    Að orkuauðlindir á svæðum í eigu ríkis og sveitarfélaga verði áfram í opinberri eigu og orkuauðlindum sem eru beint eða óbeint á forræði ríkisins verði safnað saman og þær vistaðar í sérstökum sjóði eða stofnun. Að öðru leyti fjallaði stýrihópurinn lítt um eignarhald og lét t.d. alveg vera að bera saman kosti þess og galla að einkafyrirtæki fjárfesti í íslenska raforkugeiranum. Þetta er sérkennilegt því hópnum var beinlínis falið að fjalla um "helstu leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu, kostir og gallar og áhrif á framkvæmd heildstæðrar orkustefnu" og jafnframt að skilgreina vænlegustu leiðir í þessu efni. Nauðsynlegt er að stýrihópurinn taki þetta til meðferðar, enda eitt af lykilatriðunum í orkustefnu hvers lands.

svartsengi_loftmynd.jpg

8)    Að nýtingarleyfi að orkuauðlindum verði til hóflegs tíma, til dæmis 25-30 ára í senn. Þetta yrði umtalsverð stytting frá því sem nú er, en í dag er þarna miðað við allt að 65 ár og ótakmarkaðan möguleika á framlengingum til allt að 65 ára í hvert sinn. Athyglisvert er að stýrihópurinn leggur til mun styttri nýtingarleyfi heldur en nefndin sem fjallaði um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum gerði sinni skýrslu. Þar var lagt til 40-50 ára afnotatímabil. Það eru því uppi afar mismunandi skoðanir um hver lengd afnotatímans skuli vera. Orkubloggið hefur áður fjallað um gildandi lagareglur um þetta efni, sem eru hreint með ólíkindum gallaðar. Þær þarf að skýra - og einnig er að mati Orkubloggarans skynsamlegt að afnotatími verði á bilinu 25-30 ár eins og stýrihópurinn leggur til.

Einnig þarf að meta hvort hér eigi að gilda sitt hvað um orkufyrirtæki í einkaeigu annars vegar og opinberri eigu hins vegar. Af drögum stýrihópsins má ráða að þar skuli gilda eitt og hið sama um lengd nýtingarleyfa. Hér ber líka að geta þess, að skýrt þarf að vera hvernig fer með virkjunarmannvirki við lok afnotatímans. Eiga þau að renna gjaldfrjálst til ríkisins (sbr. norska reglan um Hjemfall) eða á að greiða tiltekið matsverð fyrir þau ef viðkomandi rekstraraðili fær ekki nýtt (framlengt) nýtingarleyfi? Um þetta mikilvæga atriði er ekki að finna almennilega umfjöllun í skýrslu stýrihópsins.

9)    Einnig fjallaði stýrihópurinn um gjaldtöku vegna nýtingar á orkuauðlindum í eigu ríkisins og leggur til að þeir sem nýta slíkar orkuauðlindir greiði bæði það sem kallað er grunngjald og hluta af auðlindarentu þegar verkefni skilar s.k. umframarði (grunngjaldið á að lágmarki að samsvara fórnarkostnaði vegna glataðra náttúruverðmæta og annars umhverfiskostnaðar sem hlýst af nýtingunni og auk þess eftir atvikum rannsóknar-og öðrum undirbúningskostnaði sem til hefur fallið af hálfu opinberra aðila). Stýrihópurinn lét aftur á móti vera að útfæra þessar hugmyndir nánar og vísar þess í stað einfaldlega til niðurstöðu nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum. Þær tillögur má lesa í 8. kafla í skýrslu umræddrar nefndar, sem finna má á vef forsætisráðuneytisins. Orkubloggarinn er sammála því að tekin verði upp gjaldtaka af þessu tagi. En er ekki alveg sáttur við síðastnefnda skýrslu, sem fór t.d. heldur frjálslega með staðreyndir um fyrirkomulagið í norska raforkugeiranum. En það er önnur saga, sem þegar hefur verið minnst á hér á Orkublogginu.

--------------

Það eru augljóslega töluverð sameinkenni milli stefnunnar sem stýrihópurinn kynnir og þeirrar stefnu sem Landsvirkjun hefur verið að móta á síðustu misserum. Í þessu sambandi er óneitanlega mjög athyglisvert hvernig varla hefur heyrst hósti né stuna frá Orkuveitu Reykjavíkur síðustu árin um stefnumótun til framtíðar. Að vísu hefur eitthvað heyrst um að OR eigi héðan í frá að einbeita sér að þjónustu við borgarbúa, en ekki horfa til nýrrar stóriðju. En Orkuveitunni myndi svo sannarlega ekki veita af forstjóra með skýra og skynsamlega framtíðarsýn!

fjardaral-3.jpg

En víkjum aftur að markmiðum stýrihópsins, sem rakin eru hér að framan. Orkubloggarinn fær ekki betur séð en að stýrihópurinn sé í reynd að leggja það til að stóriðjustefnan verði endanlega kvödd. Sem fyrr segir þá rímar stefna stýrihópsins mjög við þá stefnumótun sem Landsvirkjun hefur kynnt, en stýrihópurinn gengur þó miklu lengra í því að þrengja að stóriðju. T.d. með því að lýsa yfir að núverandi form orkusölusamninga leiði til áframhaldandi einhæfni í orkufrekum iðnaði og skapi ekki umhverfi fyrir stofnun og vöxt minni og hugsanlega meira nýskapandi fyrirtækja. Þetta telur stýrihópurinn óheppilegt og vill að tekin verði upp stefna sem hvetji til meiri fjölbreytni og minni áhættu. Sem að mati Orkubloggarans er bara hið besta mál og mjög skynsamleg áhersla.

Þess ber að geta að líklega hafa álverin hér svigrúm til að þola eitthvað hærra raforkuverð en verið hefur hér á landi fram til þessa (raforkuverð til álbræðslnanna á Íslandi hefur verið um 25-30% lægra en heimsmeðaltalið). Þess vegna kann að vera ofmælt að verið sé að kasta stóriðjustefnunni alfarið fyrir róða, með markmiðum um að hækka raforkuverð til stóriðju. Álverin sem þegar er búið að byggja, munu sennilega geta kyngt einhverri hækkun þegar kemur að endurnýjun raforkusölusamninga. En ný álver munu ekki hafa áhuga á Íslandi ef raforkuverðið hækkar mjög verulega. Þá fara þau fremur t.d. til Persaflóans þar sem hægt er að fá raforku frá gasorkuverum fyrir skít og kanil.

bakki-husavik_1055326.jpgOg eigi að afnema ábyrgð hins opinbera vegna virkjanaframkvæmda mun það eitt og sér minnka stórlega líkurnar á því að hér rísi ný álbræðsla. Því þá verður væntanlega fjármagnið til virkjanaframkvæmdanna talsvert dýrara en ella og arður raforkusalans sama og enginn. Hæpið er að unnt yrði að fjármagna slíkar framkvæmdir, nema þá ef raforkuverðið hækki mjög umtalsvert frá því sem verið hefur. 

Markmiðin um hækkandi raforkuverð og afnám ábyrgðar hins opinbera eru því tengd og munu að öllum líkindum leiða til þess að ekki verður unnt að virkja fyrir stóriðju í líkingu við álver. Þess vegna er mjög líklegt að ef drögin að orkustefnu Íslands verða að formlegri stefnu stjórnvalda, muni hvorki rísa álver við Helguvík né Bakka.

Að mati Orkubloggarans er þetta hið besta mál. Álið er orðið alltof stór hluti af íslensku efnahagslífi og tímabært að stjórnvöld stuðli að fjölbreyttari gjaldeyristekjum. Og fjölbreyttara atvinnulífi. Og meiri arðsemi í raforkuframleiðslunni. Nýja orkustefnan er jákvætt skref í þá átt. Fyrir það á stýrihópurinn hrós skilið.

Þar með er ekki sagt að allt sé frábært við þessi drög. Þarna skortir t.d. úttekt á hlutverki skattkerfisins til að dreifa arði af raforkusölu stóru opinberu orkufyrirtækjanna. Í því sambandi er vert að hafa í huga hvernig stór sneið af arðinum í norsku raforkuvinnslunni rennur beint til sveitarfélaga. Slíkt fyrirkomulag er fallið til þess að breið samstaða verði um allt landið um orkustefnuna, en skv. tillögum íslenska stýrihópsins á þetta allt að vera afar miðstýrt og arðurinn að renna í einhvern sjóð á vegum ríkisins. Það er ekki endilega skynsamlegt að hugsa málið þannig. Nær væri að setja fram tillögur sem tryggja það að sveitarfélög sjái sér hag í að fá til sín iðnfyrirtæki sem greiði sem allra hæst raforkuverð, en ekki bara að fyrirtækið skapi atvinnu eins og menn munu einblína á ef arðurinn á allur að renna til ríkisins. Stýrihópurinn ætti að huga betur að þessu áður en hann gengur endanlega frá skýrslu sinni

repja_thorvaldseyri_1055329.jpg

Þá þykir Orkubloggaranum stýrihópurinn fara ansið bratt í það að búast við því að allt í einu muni hefjast stórfelld eldsneytisframleiðsla á Íslandi. Umrætt markmið stýrihópsins hljómar þannig [leturbreyting er Orkubloggarans]: Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með orkusparnaði og aukinni hlutdeild innlendra orkubera og eldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi, þannig að þeir verði að minnsta kosti 10% af heildarnotkun eldsneytis á þessum sviðum (bls.56 í skýrslunni). Þ.e. að lágmark 10% allrar orkunotkunar í öllum samgöngum og öllum sjávarútvegi skuli koma frá innlendum orkuberum eftir einungis tíu ár! Þetta er satt að segja mjög bjartsýnt og nánast algerlega óraunhæft. Í dag er a.m.k. lítið sem ekkert, sem bendir til þess að einhver vitrænn möguleiki sé á að ná þessu markmiði.

Nú kunna reyndar einhverjir lesendur Orkubloggsins að benda á að þarna sé ekki aðeins talað um notkun á innlendum orkugjöfum heldur eigi líka að ná þessu markmiði með orkusparnaði. Jamm - en þá er vandamálið bara það að á öðrum stað í skýrslu stýrihópsins er sett fram annað markmið, sem er svohljóðandi: spara og nýta betur jarðefnaeldsneyti (e. savings/efficiency) sem nemur samanlagt a.m.k. 20% í samgöngum og í skipaflotanum (bls. 53 í skýrslunni).

biofuels-algae.jpg

Þarna missti Orkubloggarinn svolítið þráðinn. Af hverju er á báðum stöðum talað um að spara orku? Þessi markmið virðast ekki vera fullhugsuð eða a.m.k. erfitt að átta sig hvað þau nákvæmlega þýða. Orkusparnaður er eitt en íslenskt eldsneyti eða -orkuberar er allt annað.

Þarna vantar líka sárlega skýr mælanleg markmið. Hversu mikla orku munu Íslendingar nota í samgöngum og fiskveiðum árið 2020 að mati stýrihópsins? Sú stærð hlýtur að vera algert lykilatriði þegar svona markmið eru sett fram.

Stýrihópurinn hefur heldur ekki haft fyrir því að skilgreina hvaða kostir komi þarna til greina sem íslenskir orkuberar. Vissulega er minnst á allt heila klabbið; metanól, DME, metan, vetni, lífdísil, annarrar kynslóðar etanól og ég veit ekki hvað og hvað (ekkert er þó minnst á lífhráolíu sem Orkubloggarinn er alveg sérstaklega áhugasamur um) . En það er alveg látið vera að gera tækni- og kostnaðarsamanburð á þessum mismunandi kostum og reyna þannig að leiðbeina stjórnvöldum um hvaða leiðir séu hugsanlega álitlegar eða raunhæfastar til að ná umræddum markmiðum. Þess í stað lætur stýrihópurinn nægja að fjalla mjög almennt um þetta og vísa til til áætlunar um orkuskipti í samgöngum, sem unnin hefur verið á vegum iðnaðarráðuneytisins.

Sú áætlun var einmitt lögð fram í formi þingsályktunartillögu núna í vikunni sem leið. Gallinn er bara sá að umrædd þingsályktunartillaga er engan veginn nógu skýr og of almenn til að raunhæft sé að ætla að hún skili þeim markmiðum sem stýrihópurinn setur fram. Þess vegna eru markmiðin í drögum að orkustefnu fyrir Ísland um að minnka mjög notkun jarðefnaeldsneytis og að hér verði stórframleiðsla á innlendum orkuberum, í reynd nánast útí bláinn. Þetta er tvímælalaust einn veikasti kafli skýrslunnar að mati Orkubloggarans. Nauðsynlegt er að fullklára kaflann og setja fram raunhæf markmið og leiðir sem eru tæknilega og fjárhagslega skynsamlegar.

djupborun_krafla_jotunn_2008.jpg

Orkubloggarinn vill líka lýsa undrun sinni á því að stýrihópurinn sneiðir alveg framhjá athyglisverðum hugmyndum sem fram hafa komið um að byggja hér upp það sem kallað hefur verið íslenskur jarðhitaklasi. Hér má vísa til þeirra áherslna sem Michael Porter hefur kynnt í því skyni að efla íslenska jarðvarmageirann og byggja upp öfluga atvinnustarfsemi; að nýting og þekking Íslendinga á jarðvarma verði stór og mikilvæg atvinnu- og útflutningsgrein.

Samkvæmt erindisbréfi stýrihópsins var eitt af verkefnum hans að fjalla sérstaklega "um möguleika á að nýta orkulindirnar og sérþekkingu okkar og reynslu á sviði orkumála til atvinnuuppbyggingar á næstu árum". En af einhverjum ástæðum er hvergi minnst á jarðhitaklasann og þá vinnu sem unnin hefur verið í tengslum við hugmyndir Porter's. Þetta er svolítið sérkennilegt; það hefði verið full ástæða til að fjalla um þessa möguleika í skýrslu um orkustefnu Íslands.

Hér mætti reyndar líka nefna að þegar settur er á fót stýrihópur um orkustefnu á Íslandi hefði maður ætlað að hann myndi líka fjalla um stefnumótun gagnvart olíuleit á íslenska landgrunninu. Þarna hefði t.a.m. gjarnan mátt skilgreina hvernig eigi að standa að olíuútboðum og greina ástæður þess að fyrsta olíuútboðið sem fór fram snemma árs 2009 floppaði algerlega. Þarna hefði líka mátt koma með tillögur að leiðum sem eru líklegar til að skila betri árangri í þessu efni. Þarna mætti t.d. skoða samstarf við Norðmenn, með sína miklu reynslu.

electricity-mast-worker.jpg

En stýrihópurinn virðist hafa álitið að olíuleitin sé utan orkustefnu Íslands. Hér er rétt að skoða aftur erindisbréf stýrihópsins. Þar segir orðrétt að hópurinn skuli ná  heildaryfirsýn yfir allar mögulegar orkulindir landsins og skoða möguleika á samvinnu við aðrar þjóðir í orkumálum. Hvergi segir berum orðum í erindisbréfinu að orkulindir sem kunni að vera á landgrunninu séu þarna undanskildar. Því hefði átt að liggja beint við að þarna væri líka mörkuð stefna gagnvart kolvetnisauðlindum - ekki satt?

En kannski er skiljanlegt að stýrihópurinn skuli hafa sleppt því að fjalla um mögulegar kolvetnisauðlindir landgrunnsins og hvernig best sé að standa að rannsóknum og leit þar. Það er vissulega sérstakt mál og snertir ekki nýtingu á hinum þekktu orkuauðlindum Íslands. Það er engu að síður alvarlegt mál hvernig olíuútboðið mistókst og svolítið einkennilegt að ekki hafi verið kallað til nýtt fólk til að stýra þeim málum.

deepwater-horizon-photoset-3.png

Vert er að minna á að Orkubloggarinn var búinn að vara stjórnvöld við því að fara af stað með slíkt útboð þarna snemma árs 2009. Bloggarinn hvatti líka stjórnvöld til að huga betur að útboðsskilmálunum; þeir væru óvenjulegir og til þess fallnir að skapa lítinn áhuga. Af einhverjum ástæðum virðist sem stjórnvöldum og þ.á m. núverandi iðnaðarráðherra sé alveg sérstaklega illa við að fara að ráðum Orkubloggarans. Veit ekki af hverju.

En það þýðir ekki að vera eitthvað súr yfir því. Þvert á móti vill Orkubloggarinn hér í lokin ítreka þá skoðun sína að flest það sem kemur fram í umræddum drögum að orkustefnu fyrir Ísland er afar skynsamlegt. Iðnaðarráðherra á hrós skilið fyrir a hafa komið þessu af stað. Og vonandi boðar þetta plagg að í framtíðinni muni íslensk stjórnvöld hafa skýra sýn og stefnu í orkumálum. Þó svo ennþá sé talsvert mikil vinna eftir til að svo megi vera.

Þetta verður síðasta færsla Orkubloggsins í núverandi mynd. Ég vil þakka lesendum samferðina.

 


Hólmsá

Hver er fallegasti staður á Íslandi? Þar hefur hver sinn smekk. Þegar útlendingar spyrja Orkubloggarann spurningarinnar hver sé fallegasti staður á Íslandi, mælir bloggarinn jafnan með Skaftafelli. Þangað er alltaf gaman að koma og "stórleikur landskaparins" óvíða meiri. 

atley-ketill-2.jpg

Í huga Orkubloggarans er þó annar staður sem stendur hjarta hans nær. Það er landsvæðið við Hólmsá í nágrenni Mýrdalsjökuls. Frá upptökum árinnar undan jöklinum þar sem hún rennur fyrst í norður og allt þar til hún nálgast Kúðafljótið, er að finna gríðarlega stórbrotið og fallegt landslag.

Næst jöklinum rennur áin þung og dökk eftir kolsvörtum söndum. En vegna fjölda bergvatnsáa og -lækja sem falla í Hólmsána frá Fjallabaki fær þetta úfna jökulljót fljótlega furðulegan og óvenjulegan gljáandi lit. Og þrátt fyrir auðnina sem áin rennur um nær mosi sér víða á strik og glóir þá oft sem dýrasta gull skaparans.

Skemmtilegast þykir Orkubloggaranum að aka að Hólmsá austanfrá. Þá er fyrst farið upp í Skaftártungu þar sem bæirnir Snæbýli, Ljótarstaðir og Borgarfell liggja á mörkum hins byggilega heims.

maelifellsleid-ketill-2.jpg

Þaðan sker vegaslóðinn sig upp brattar brekkur ofan við bæina og er hækkunin þarna ótrúlega mikil á stuttum kafla. Skyndilega opnast tilkomumikil útsýn vestur yfir auðnina norður af Mýrdalsjökli og yfir snæbreiðu jökulsins sjálfs, þar sem eldstöðin ægilega, Katla, lúrir undir. Í suðri sést yfir víðáttumikinn Mýrdalssandinn og til norðurs eru mosagróin móbergsfjöll Fjallabaksins.  

Í skamma stund er ekið um heiðarlönd, sem fljótlega breytast í lítt gróna ása og m.a. liggur slóðinn yfir skemmtilega hraunbrú (myndin hér að ofan er einmitt tekin af hraunbrúnni; horft til suðurs). Til vesturs sést til svartra sandanna næst jöklinum og hér og hvar rísa tignarleg fell upp úr sandinum og minna okkur á eldgosin þarna í fyrndinni. 

Sennilega þykir flestum Mælifellið tilkomumest. En Öldufellið er litlu síðra og Einhyrningur er alveg sérstaklega fallegur. Þó svo nafni hans vestan Eyjafjallajökuls sé þó kannski svipmeiri. Þarna er maður skammt frá byggðinni í Skaftártungu, en engu að síður er eins og maður sé komin langt inn á öræfi. The Icelandic Outback, eins og mér þykir svo viðeigandi að kalla það upp á ensku.

maelifellsleid-ketill-3.jpg

Við nálgumst nú Hólmsá. Þar kann ferðalangur að mæta bílum sem koma norðan frá Eldgjá um hina skemmtilega Álftavatnaleið. Sumum ökumanninum verður reyndar ekki um sel þegar hann sér slóðann hverfa útí ána og verður lítt hrifinn af því að halda áfram vestur yfir. Þarna við vaðið rennur Hólmsáin í tveimur kolmórauðum og úfnum kvíslum og getur verið afar óárennileg að líta. Venjulega er þó vaðið gott og lítið mál að ösla yfir.

Strax þarna er Hólmsáin afar ólík þeim jökulfljótum sem maður á að venjast, því bakkarnir eru víða grónir alveg fram á vatnsbakkann. Engu að síður getur alræmd sandbleyta jökulvatnanna stundum verið til vandræða.

atley-ketill-3.jpg

Þegar yfir ána er komið stendur valið milli þess að halda áfram vestur eftir auðnum Mælifellssands eða að sveigja til vinstri og halda suður s.k. Öldufellsleið. Þá er ekið í átt að Öldufelli og er víða tignarlegt að horfa þar yfir vötnin og í átt til Mýdalsjökuls. Það er þessu leið sem við förum í dag; Öldufellsleið.

Sól skín í heiði en engu að síður stendur kaldur blástur frá jöklinum. Nú er haldið áfram í rólegheitum um stund og ekki líður á löngu þar til aftur kemur að Hólmsá þar sem hún fellur um Hólmsárfoss.

Núna erum við vestan við ána og sum okkar verða sjálfsagt undrandi að sjá hvernig jökuláin hefur allt í einu fengið á sig tærbláan glampa. Hún minnir nú jafnvel meira á frussandi fagra lindá heldur en jökulfljót!  Hvannivaxnir hólmarnir útí í ánni ýta enn frekar undir þessi áhrif.

Þarna rétt neðan við fossana er kjörið að staldra við, kasta sér í þykkan mosann og maula nestið. Þegar gengnir eru þessir fáu metrar fráslóðanum og að fossunum finnur maður aflið sem þarna brýst fram á hraðleið niður í átt að Mýrdalssandi. Þetta er samt bara lítill hluti af fallinu; landið lækkar þarna nokkuð hratt til suðausturs uns Hólmsá fellur straumþung og ógnvekjandi um Hólmsárgljúfur og útí Kúðafljót.

atley-ketill-5.jpgEn við erum enn ekki komin þangað. Fyrst liggur leiðin um kolsvartar auðnir ofanverðs Mýrdalssands, þar sem við ökum yfir fáeinar afar hrörlegar brýr, yfir kolgráar þverár sem brjótast úr jöklinum og falla af furðumiklum þunga niður sandinn uns Hólmsá tekur þær í faðm sinn.

Þessi tignarlega náttúra er innrömmuð af Rjúpnafellinu og mörgum öðrum fellum, sem eru líkt og þeim hafi verið varpað niður á flatan sandinn beint af himnum ofan. Raunin er þó auðvitað þvert á móti sú, að þau eru komin beint að neðan frá þeim Svarta sjálfum; hafa myndast í eldsumbrotum undir jökli fyrir margt löngu.  

kotlugos-1918.jpgTil austurs gnæfir hetta Mýrdalsjökuls, sem ögrar okkur ævarandi með Kötlu. Manni verður ósjálfrátt hugsað til þess hvernig þarna myndi verða um að litast skömmu eftir hamfarahlaup af völdum Kötlu? Og hvort nokkuð mannvirki á þessum slóðum myndi standast slíka raun? Oft hafa slík jökulhlaup einmitt farið niður eftir farvegi Hólmsár.

Slóðinn liggur nú niður á slétturnar sunnan Hólmsár og þegar maður fer þessa leið í fyrsta sinn verður maður sífellt meira undrandi yfir hinum fjölmörgu jökulföllum, sem þarna birtast hvert á fætur öðru með miklum straumofsa. Sum þeirra hafa grafið alldjúp gil í sandinn, en falla að lokum í Hólmsá og kannski einhver þeirra í Skálm.

atley-ketill-7.jpgNú erum við komin í nágrenni Atleyjar og að tröllkarlinum sem þarna stendur við vegaslóðann. Lengi hafa verið uppi hugmyndir um að virkja Hólmsá og núna nýlega bárust fréttir af því að Landsvirkjun hafi keypti vatnsréttindin vegna Hólmsár. Fyrir nokkur hundruð milljónir króna að því sagt er. Hvort tröllkarlinn veit af því er ekki gott að segja - en hann rýnir út yfir auðnina líkt og áhyggjufullur landvættur, sem er máttvana gagnvart skurðgröfunum okkar, stíflunum, aðrennslisskurðunum og uppistöðulónum.

Þorsti okkar fyrir ennþá fleiri megawattstundir til að selja til iðnaðar lætur svona klettadrang varla stöðva sig. En vætturinn heldur í vonina. Vonina um að þjóðin sem landið byggir muni láta þetta ósnerta og tilkomumikla svæði í friði. 

atley-ketill-9.jpg[Ljósmyndirnar eru teknar af Orkubloggaranum á haustferð niður með Hólmsá (nema auðvitað myndin af Kötlugosinu 1918). Þó svo bloggarinn sé amatör með myndavél gefa þær vonandi einhverja hugmynd um þetta makalausa landsvæði. Lesa má meira um þessar virkjanahugmyndir í Hólmsá á vef Rammaáætlunar, en hér er vísað í sérstaka kynningu um Hólmsár- og Skaftárvirkjanir (athugið að skjalið er nokkuð þungt)]. 

 

 


Marcus Wallenberg & Elkem

Nú í vikunni bárust fréttir af því að Kínverjar hafi keypt hið fornfræga iðnfyrirtæki Elkem í Noregi. Sem m.a. á járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Elkem var brautryðjandi í því að byrjað var að nýta vatnsaflið í Noregi í upphafi 20. aldar. Í dag ætlar Orkubloggið að staldra við þá sögu.

rjukan-hydro-plant.jpg

Fyrstu virkjanirnar í Noregi voru byggðar á 19. öldinni, en það var fyrst eftir aldamótin 1900 að norska raforkuvæðingin fór af stað fyrir alvöru. Þar voru fyrst og fremst á ferðinni einkafyrirtæki. Og það eru þessi gömlu fyrirtæki sem í dag heita nöfnum eins og Norsk Hydro, Yara og Elkem. Öll þessi fyrirtæki eiga sem sagt um aldarlanga sögu að baki. Öll eru þau norsk en eru um leið stór á alþjóðavettvangi og öll eiga þau rætur að rekja til erlends fjármagns.

Það voru m.ö.o. ekki norskir peningar sem lögðu grunninn að þessum þekktu norsku iðnfyrirtækjum. Heldur þýskir, breskir, franskir og sænskir fjárfestar. Og grunnurinn að umræddum fyrirtækjum var lagður með virkjun norsku vatnsfallanna í byrjun 20. aldar - þar sem einkaframtakið var allsráðandi. 

sam_eyde_car.jpg

Norska ríkið var þá með litla burði til að standa í slíkum fjárfestingum. Þar með er þó ekki sagt að Norðmenn hafa bara verið áhorfendur. Þvert á móti var það norskur athafnamaður, Sam Eyde, sem var drifkrafturinn í stofnun þessara fyrirtækja. Auk þess sem Eyde sá tækifærin í vatnsaflinu, nýtti hann sér tækniþekkingu og uppgötvanir norsku vísindamannanna Carl Wilhelm Søderberg og Kristian Birkeland til að koma á fót nýjum iðnfyrirtækjum í Noregi.

Athyglisvert er að þrátt fyrir að það væru fyrst og fremst einkaaðilar sem virkjuðu norsku vatnsföllin í upphafi, þá tryggðu norskir stjórnmálamenn að norsku vatnsorkuverin myndu í fyllingu tímans verða eign norska ríkisins. Allt frá árinu 1906 var farið að beita því skilyrði að enginn fékk virkjanaleyfi nema skuldbinda sig til að afhenda norska ríkinu virkjunina endurgjaldslaust að ákveðnum tíma liðnum.

rjukanfossen_2.jpg

Sam Eyde var samtíðarmaður Einars Benediktssonar. En Eyde var lagnari en Einar Ben við að laða til sín erlent fjármagn - og gat að auki boðið peningamönnum aðgang að merku norsku hugviti! Þetta var upphafið að nokkrum stærstu og öflugustu iðnfyrirtækjum Evrópu í dag. Til urðu áburðarframleiðandinn Det Norske Aktieselskap for Elektrokemisk Industri  (í dag kallað Elkem) og orkufyrirtækið Norsk Hydro-Elektrisk Kvælstofaktieselskab (síðar nefnt Norsk Hydro og enn síðar bara Hydro). Síðar var sérstakt fyrirtæki stofnað um áburðarframleiðsluna á vegum Norsk Hydro og kallast það Yara International. Yara er einn allra stærsti áburðarframleiðandi heimsins í dag.

Þessi þrjú fyrirtæki starfa á ólíkum sviðum. Elkem er í dag einkum þekkt fyrir framleiðslu á kísilafurðum fyrir sólarsellur, Yara er sem fyrr segir í áburðarframleiðslu og Norsk Hydro er í dag fyrst og fremst álbræðslufyrirtæki eins og Alcoa eða Rio Tinto Alcan.

Á þeim hundrað árum sem liðin eru frá því Sam Eyde keypti virkjunarréttinn að Rjukanfossinum (sbr. myndin hér að ofan) hafa bæði Elkem og Hydro auðvitað farið í gegnum miklar sveiflur og allskonar dramatík. Í fyrstu voru þau bæði alfarið í einkaeigu og var sænska Wallenberg-fjölskyldan þar í fararbroddi. Síðar eignaðist norska ríkið Norsk Hydro, en það er í dag eigandi að rétt um 35% hlut. Sömuleiðis á norska ríkið nú 35-40% hlut í Yara.

orkla-logo.png

Elkem er líka löngu komið úr höndum Wallenberganna og var nú síðast í eigu norska fjárfestingafyrirtækisins Orkla. Nú í vikunni gerðist það svo að öll Elkem-samsteypan nema raforkuframleiðslan, var seld til kínverska fyrirtækisins National Bluestar Group. Sem kunnugt er, er járnblendiverksmiðjan á Grundartanga einmitt í eigu Elkem og fylgir hún með í kaupunum. Raforkuframleiðsluhluti Elkem - Elkem Energi - var aftur á móti undanskilinn í viðskiptunum við kínverska Bluestar og er því ennþá í eigu norska Orkla.

elkem-logo-2_1053331.jpg

Öll þessi þrjú fyrirtæki - Elkem, Yara og Norsk Hydro - hafa aðalstöðvar sínar í Noregi, en eru með framleiðslu um allan heim. Þess má geta að Orkla á afar merka sögu að baki; rætur fyrirtækisins liggja í rekstri koparnámu í Syðri-Þrándarlögum á 17. öld. Um aldamótin 1900 hellti Orkla sér svo í byggingu rafknúinna járnbrauta og það var þá sem sænska Wallenberg-fjölskyldan varð helsti eigandi Orkla. Já; Wallenbergernir voru hreinlega allstaðar!

Aðaleigandi Orkla í dag er norski auðmaðurinn Stein Erik Hagen, en fjölskylduauður hans skapaðist upphaflega í matvörukeðjunni Rimi á 8. áratug liðinnar aldar. Orkla er skráð í norsku kauphöllinni, rétt eins og líka gildir um Yara og Norsk Hydro. Orkla eignaðist meirihluta í Elkem árið 2005 og fyrirtækið allt árið 2009, en Elkem var afskráð af markaði 2005. Hagen er nú sagður ætla að einbeita sér að neytendavörum og mun það vera ein helsta ástæðan fyrir sölunni á Elkem.

markus-wallenberg-painting.jpg

Það sem er þó kannski athyglisverðast í þessu öllu saman, er sú staðreynd að öll þessi fyrirtæki eiga upphaf sitt og uppgang að þakka fjárfestingum auðkýfingsins Marcus Wallenberg. Wallenberg kom að stofnun bæði Norsk Hydro og Elkem. Og hann var virkur í stjórn fyrirtækjanna allt fram til ársins 1942, en þá var hann orðinn rétt tæplega áttræður.

Marcus var ekki aðeins lykilmaður við fjármögnun fyrirtækjanna; í næstum fjóra áratugi  átti hann tvímælalaust mestan þátt allra í árangursríkri starfsemi þeirra. Og þá ekki síst að koma þeim klakklaust í gegnum kreppuárin.

Svo virðist sem Einari Ben hafi ekki komið til hugar að tala við Wallenberg, þegar hann leitaði fjárfesta til að virkja Þjórsá. A.m.k. kom aldrei til þess að Einari tækist að láta drauma sína rætast um byggingu stórvirkjana og iðnvæðingu á Íslandi. En EF Marcus Wallenberg hefði fengið áhuga á Íslandi má velta fyrir sér hvort hér væru þá til stórfyrirtæki á sviði orku og stóriðju, sem nú myndu starfa um allan heim?

oslofjorden_bispevika.jpg

Á fallegum síðsumardegi í september sem leið (2010) sat Orkubloggarinn, ásamt öðrum landa, á fundi með tveimur þaulreyndum framkvæmdastjórum Hydro í höfuðstöðvum fyrirtækisins við kyrrlátan Oslófjörðinn. Og þegar menn voru að ljúka fundinum stóðst bloggarinn ekki mátið, að spyrja þessa gömlu jaxla hvort andi Sam Eyde svifi þarna enn yfir vötnum?

Þeir svöruðu því til að starfsfólk Hydro væri vissulega meðvitað um Eyde - en að það væri þó miklu fremur Marcus Wallenberg sem væri mönnum þarna innblástur. Það virtist ekkert vefjast fyrir þessum gegnheilu sósíal-demókratísku Norsurum að viðurkenna það að nokkrar helstu grundvallarstoðirnar í norsku atvinnulífi séu að miklu leyti sænskum kapítalista að þakka! 

Það er einnig athyglisvert að innan Elkem virðast menn mjög sáttir með eigendaskiptin og aðkomu Kínverja. Nú á föstudaginn sem leið fékk Orkubloggarinn t.a.m. tölvupóst frá forstjóra eins af fyrirtækjunum innan Elkem-samsteypunnar, þar sem sá hinn sami hafði á orði að nú sæi Elkem fram á bjartari tíma. Kínverjarnir séu nefnilega miklu áhugasamir um nýtingu sólarorku heldur en Orkla var - og að þeir muni vafalítið ætla sér að efla kísilframleiðslu Elkem enn frekar.

elkem-world.png

Staðreyndin er samt sú að Elkem mun ekki mikið lengur fá raforkuna í Noregi á því gjafverði sem lengi hefur verið. Nýverið seldi Elkem virkjanir í sinni eigu í Noregi (virkjanir sem hvort sem er voru að nálgast lok nýtingartímans) og þegar núverandi langtímasamningar Elkem renna út (upp úr 2020) er flest sem bendir til þess að verksmiðjur Elkem muni þá smám saman hverfa frá gamla heimaríkinu. Til annarra landa sem bjóða hagstæðara raforkuverð. Og það án tillits til þess hver á fyrirtækið.

Það er reyndar mögulegt að Elkem muni þá horfa til Íslands sem góðrar staðsetningar fyrir kísiliðnaðinn sinn. Stóra spurningin er bara hvaða raforkuverð þeir treysta sér til að borga? Verð sem væri jafnvel 40-60% hærra en álbræðslurnar hér borga, kann að vera áhugavert fyrir Elkem. Kannski verst hvað þeir eru orðnir góðu vanir í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga?

 


NorGer

Norðmenn eru að fara að slá enn eitt metið.

norned_hvdc-cable-work-1_1052495.png

Stutt er síðan lengsti neðansjávar-rafmagnskapall í heimi - NorNed - var lagður milli Noregs og Hollands. Og reynslan af þeim kapli er greinilega bærileg því nú eru Norsararnir ásamt vinum sínum sunnar í Evrópu að fara að leggja annan og helmingi stærri kapal milli Noregs og Þýskalands.

Já - nú er NorGer-verkefnið komið á fullt. Vegalengdin milli Noregs og Þýskalands, er svipuð eins og milli Noregs og Hollands, þar sem NorNed-kapallinn hefur nú legið í nokkur ár. Rétt eins og NorNed, þá verður NorGer um 600 km langur HVDC-neðansjávarkapall og dýpið sem báðir þessi kaplar fara um er svipað. Mest er það um 400 m, en þó talsvert minna stærstan hluta leiðarinnar.

Kapallinn verður grafinn niður í hafbotninn með sérstökum plóg en á svæðum sem það verður ekki unnt verður kapallinn hulinn grjóti. Sem fyrr segir þá verður flutningsgeta NorGer miklu meiri heldur en NorNed. NorNed er 700 MW en NorGer verður 1.400 MW og á hverju ári á hann að flytja allt að 11 TWst af raforku!

wind-turbines-blades-sea.jpg

Þetta jafngildir framleiðslu rúmlega tveggja Kárahnjúkavirkjana og um 2/3 af öllu rafmagni sem framleitt er á Íslandi í dag. Hér eru nú alls framleiddar um 17 TWst árlega, en til samanburðar þá framleiða Norðmenn samtals um 120 TWst að meðaltali á ári. NorGer mun þó ekki eingöngu flytja raforku frá Noregi, heldur líka til Noregs frá Þýskalandi - einkum á næturnar þegar raforkuverð er hvað lægst í Þýskalandi og heppilegt að safna orku í norsku miðlunarlónin og þess í stað nota t.d. raforku frá þýskum vindorkuverum.

NorGer verður sem sagt nokkuð öflugur strengur. Einmitt þess vegna varð Orkubloggarinn svolítið undrandi að sjá það að spennan verður einungis um 450-500 kV, sem er nálægt því sú sama og hjá NorNed (þar er hún 450 kV). Það er nefnilega svo að með hærri spennu yrði strengurinn hlutfallslega ódýrari og reksturinn hagkvæmari. Vandinn er bara sá að neðansjávarkapaltæknin er ekki komin lengra. Og ennþá eitthvað í að við sjáum t.d. 800 kV eða 1.000 kV HVDC-kapla í sjó - þó svo slíka kapla sé nú að finna á landi og þá ekki síst í Kína þar sem gríðarlangir HVDC-kaplar hafa hreinlega sprottið upp eins og gorkúlur á síðustu árum.

norger-map.png

Heildarkostnaður við NorGer-kapalinn og spennustöðvarnar vegna hans er ansið hár, sem er líka smá spælandi. Kostnaðurinn er nefnilega áætlaður 1,4 milljarðar evra, sem er meira en helmingi hærri upphæð en NorNed kostaði (hann kostaði um 600 milljónir evra). Þetta er kannski lógískt miðað við það að flutningsgeta NorGer er einmitt um helmingi meiri. Maður hefði samt búist við því að hlutfallslega yrði kostnaðurinn við NorGer eitthvað hógværari.

Það eru einnig nokkur vonbrigði að sjá að gert er ráð fyrir raforkutapi allt að 5% í NorGer. En þetta háa tap kemur til af því að spennan á strengnum á ekki að vera nema um 500 kV. "Ekki nema" hljómar kannski hjákátlega í eyrum einhverra lesenda - en málið er að hærri spenna myndi minnka raforkutapið verulega og þess vegna hefði mátt búast við að stefnt yrði að hærri spennu í kaplinum. Við erum t.d. farin að sjá HVDC-kapla á landi með 800 kV spennu og jafnvel ennþá meiri. En tæknin er bara ekki komin lengra en þetta í neðansjávarkapaltækninni.

norger-cable.jpg

Þess vegna hafa hugmyndir um kapal milli Íslands og Evrópu líka miðast við að kapallinn yrði með max 400-500 kV spennu. Raforkuverð í Evrópu er reyndar orðið það hátt að svona kapall milli Íslands og Evrópu myndi að öllum líkindum vera þokkalegasta fjárfesting. Þó kann að vanta svona eins og eitt hraustlegt tækniþróunarskref enn, til að nokkur vilji ráðast í slíka fjárfestingu þegar á reynir.

Kapall milli Íslands og Evrópu yrði vel að merkja rúmlega þrefalt lengri en NorNed eða NorGer og lægi um allt að þúsund metra dýpi. Þ.a. slíkur neðansjávarkapall verður talsvert stórt skref fram á við. Þetta er samt bara spurning um tíma. Mörg okkar eiga meira að segja hugsanlega eftir að upplifa rafmagnstengingu milli Evrópu og N-Ameríku. Í fúlustu alvöru - þó það sé vissulega enn bara framtíðarmúsík.

germany-city-electricity_1052502.jpg

NorGer á að vera kominn í gagnið árið 2015, en byrjað verður á sjálfu verkinu árið 2012. Fram að því verða m.a. gerðar ítarlegar rannsóknir á hafsbotninum þarna í Norðursjó til að finna bestu leiðina. Stærsti hluthafinn í strengnum verður norska ríkisorkudreifingar-fyrirtækið Statnett með 50% hlut. Að auki eru norsku raforkufyrirtækin Agder Energi og Lyse Produksjon og svissneska orkufyrirtækið Elektrizitäts-Gesellschaft Laufenburg eignaraðilar, en hvert þessarar þriggja orkufyrirtækja verður með 16.67% hlut.

Þróun raforkuverðs næstu misseri og ár mun sjálfsagt hafa einhver áhrif á tímaáætlunina. Gangi spár um síhækkandi raforkuverð eftir, þeim mun betri díll verður þessi kapall. En rætist aðrar spár um mikinn óstöðugleika á raforkuverði í N-Evrópu og þ.á m. um djúpar og jafnvel langvarandi dýfur af og til, gæti verið að áætlunum um NorGer muni seinka eitthvað.

ng_grid-lights-building-2.png

Það er sem sagt ekki borðleggjandi hvernig raforkuverð mun þróast í Evrópu á næstu árum og áratugum. En þessu þurfum við Íslendingar ekki að hafa áhyggjur af. Jafnvel þó svo færi að raforkuverð í Evrópu reynist nú hafa náð hámarki til langs tíma, þá er það orðið svo miklu hærra en raforkuverð á Íslandi að hér hafa skapast ný og spennandi tækifæri til að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni á Íslandi. Við höfum nú öðlast gott svigrúm til að t.d. bjóða fjölbreyttri flóru evrópskra iðnfyrirtækja mun lægra verð heldur en þau eru nú að borga í Evrópu - en um leið talsvert hærra verð en stóriðjan hér er að greiða. Þetta skapar okkur mikil tækifæri; ábatinn af því hversu ódýrt er að framleiða rafmagn á íslandi gæti loksins farið að renna almennilega til almennings á Íslandi í stað stóriðjunnar.

Þessi staða er tiltölulega nýlega upp komin, því aðeins örfá ár eru síðan raforkuverð víða í Evrópu var miklu lægra og verðmunurinn milli Evrópu og Íslands miklu minni en nú er. Og nú orðið kemur það að auki oft fyrir að raforkuverðið í Evrópu hreinlega rýkur upp úr öllu valdi, sérstaklega þegar mikið er um bilanir eða viðhald í raforkukerfinu og/eða þegar miklir kuldar geysa. 

nps_dec-10-2010.png

Helstu ástæður þess að raforkuverð víða í Evrópu hefur hækkað mjög síðustu árin eru að kolaverð hefur farið hækkandi og einnig var of mikið byggt af raforkuverum sem leiddi til tímabundins offramboðs af raforku. Þá hefur dregið úr umsvifum ríkisvaldsins í raforkugeiranum víða í álfunni, en markaðsvæðing raforkugeirans hefur leitt til hækkandi raforkuverðs þrátt fyrir meinta aukna samkeppni. Í reynd hefur nefnilega oft tekist heldur hrapallega til með einkavæðingu orkufyrirtækja. Alræmdasta dæmið þar um er sennilega sú fákeppni sem nú er á breska einkavædda raforkumarkaðnum. En það er önnur saga.

Það er sem sagt svo að á fáeinum árum hefur raforkumarkaðurinn í Evrópu tekið miklum breytingum og verð á raforku til framleiðanda hefur þar víða hækkað mikið frá því sem var fyrir t.d. áratug síðan. Þetta hefur leitt til þess að farið var að huga að nýjum tengingum og þar er lagning NorNed og NorGer nærtækt dæmi. Það er algert lykilatriði að opinberu orkufyrirtækin hér á Íslandi, eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, nýti sér þessi tækifæri. Bersýnilegt er að hjá Landsvirkjun eru menn afar meðvitaðir um þessi tækifæri, en lítið hefur borið á því að önnur orkufyrirtæki séu að huga að þessu. Sérstaklega er áberandi hvað lítið hefur heyrst frá Orkuveitu Reykjavíkur, þrátt fyrir að það sé nánast lífsnauðsyn fyrir fyrirtækið að eiga kost á betri arðsemi. A.m.k. ef ekki á að leggja allan skuldaklafann um háls Reykvíkinga og annarra almennra viðskiptavina fyrirtækisins.

past-present-future-sign1.jpgTil að auka hagnað íslensku orkuframleiðendanna er rafmagnskapall til Evrópu augljóslega áhugaverður. Hann er samt ekki eina leiðin - því í dag erum við einfaldlega samkeppnishæfari á raforkumörkuðunum en verið hefur og eigum góða möguleika á að nýta það til að laða hingað evrópsk iðnfyrirtæki af ýmsu tagi. Það myndi ekki aðeins bæta afkomu orkufyrirtækjanna heldur líka styrkja og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Framtíðin er sem sagt björt ef menn halda rétt á spöðunum, hafa skýra framtíðarsýn, marka sér skynsama og raunsanna stefnu og fylgja henni eftir af fagmennsku og bestu þekkingu. Þess vegna eru íslensku orkuauðlindirnar okkur nú líka efnahagslega mikilvægari en nokkru sinni áður. Vonandi átta íslensk stjórnvöld og eigendur opinberu orkufyrirtækjanna sig á þessari stöðu.

 


Nýársskaup og "Colombia"

Er ekki alveg nauðsynlegt að slá á örlítið létta strengi svona í upphafi nýs árs?

Þá er fátt betra en að rifja upp hið ómótstæðilega áramótablað Markaðarins við áramótin 2006/2007Markaðurinn var (og er) viðskiptakálfur Fréttablaðsins. Í dag ætlar Orkubloggarinn að glugga aðeins i þetta magnaða eintak blaðsins. Sem á forsíðunni skartaði þessari líka fínu mynd af manni ársins. Að mati Markaðarins. Sá var Hannes nokkur Smárason:

markadurinn-2006-2007-5.png

"Hannes Smárason er maður ársins 2006 að mati dómnefndar Markaðarins. Hann fór inn í þetta ár með ýmsar hrakspár á bakinu og efasemdir um stefnu, en kemur út úr því með innleystan hagnað fyrir á fimmta tug milljarða og með eitt öflugasta fjárfestingarfélag í Evrópu sem getur fjárfest fyrir 200 milljarða króna."

Því miður fann Orkubloggarinn hvergi þarna í umræddu blaði Markaðarins hvaða öndvegisfólk það var sem sat í dómnefndinni, sem valdi Hannes Smárason sem mann ársins. Kannski best fyrir það sjálft að halda nöfnum sínum leyndum.

En greinin heldur áfram á þessum bráðskemmtilegu og jákvæðum nótum: Umræðan á árinu um íslenska fjárfesta og fjármálakerfið var á tíðum ósanngjörn og illa ígrunduð. Skrifar blaðamaðurinn og vitnar svo í Hannes: „Þetta var svona slagorðaumræða þar sem menn máluðu skrattann á vegginn. Þessi umræða var óvægin og hörð, en það sem er merkilegast við hana er að það komu eiginlega allir sterkari út úr henni."

Þarna eru Hannes og Markaðurinn að vísa til neikvæðrar umfjöllunar um íslenskt viðskiptalíf á árinu 2006 frá t.d. Danske Bank og einhverjum leiðindapúkum hjá bandarískum bönkum. Til upprifjunar skal nefnt að á fyrri hluta 2006 skall á það sem nú er nefnt fyrri bankakreppan. Þegar íslenskum bönkum reyndist allt í einu erfitt að fá lánaða peninga í útlöndum til að endurfjármagna sig.

markadurinn-2006-2007-4.png

En sama ár birtist svo víðfræg skýrsla þeirra Frederics Mishkin og Tryggva Þórs Herbertssonar (sem síðar varð forstjóri Askar Captal þeirra Wernerbræðra og talar nú á Alþingi fyrir því að ríkisstjórnin taki ráðin af Landsvirkjun og virki í hvelli fyrir álver á Húsavík). Þetta var skýrslan sem hvítþvoði íslenskt viðskiptalíf og um hana segir Markaðurinn orðrétt:

"Í byrjun maí [2006] kom svo einnig út skýrsla Frederics Mishkin hagfræðiprófessors við Colombia-háskóla [sic] í Bandaríkjunum, þar sem hann sagði íslenskt hagkerfi standa traustum fótum. Viðskiptaráð hafði falið Mishkin að kanna stöðu efnahagslífsins og niðurstaðan var skýrsla sem hann skrifaði með Tryggva Þór Herbertssyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar. Mishkin vísaði algjörlega ábug kenningum um yfirvofandi kreppu. Mishkin var síðar á árinu tekinn inn í hóp seðlabankastjóra í Bandaríkjunum og er það til marks um þá virðingu sem hann nýtur í heimi hagfræðinnar, enda talinn í hópi færustu sérfræðinga á sínu sviði."

Nú segja reyndar sumir að þessi alræmda skýrsla hafi verið rituð af Tryggva Þór einum. En "vesalings" Mishkin situr uppi með að hafa párað nafn sitt undir kjaftæðið. Kalltuskan - þessi ótrúlega skýrsla á líklega eftir að fylgja honum eins og skugginn um aldur og ævi, sbr. t.d. umfjöllun á vef Financial Times. Mæli með því að lesendur horfi á vídeó-innslagið þar.

glitnir_smart_banking_1051272.gif

Í áðurnefndu viðtali í Markaðnum kom Hannes Smárason inn á fjármögnun Glitnis og annarra íslenskra banka. Og sagði í því samband: "Það er hins vegar afar merkilegt að sjá að bankarnir eru búnir að fjármagna sig í botn, með miklu meira lausafé og standa mun betur en þeir gerðu í upphafi árs... Við höfum góðan aðgang að alþjóðlegum fjármálamarkaði og ef við ráðumstu í stórverkefni, þá getum við fengið til liðs við okkur stóra erlenda banka."

Þannig talaði forstjóri FL Group í árslok 2006. Ekki veit Orkubloggarinn hvað snjallir viðskiptamenn eiga við með frasanum að "fjármagna sig í botn". En tuttugu mánuðum síðar var þetta allt orðið gjaldþrota.

Svo komu lokaorðin í viðtalinu sem eru auðvitað snilld: Við þurfum að vera sniðug til þess að geta haldið áfram að vaxa án þess að breytast í bresk eða skandinavísk félög og missa við það sérstöðu okkar. Hins vegar ef menn stíga ákveðin skref hér varðandi reglur og skattaumhverfi þá er engin ástæða til að ætla annað en að við getum haldið áfram. Við erum rétt að verða þekkt í alþjóðlegum fjárfestingarheimi, en það á algjörlega eftir að nýta þann möguleika að gera Ísland að spennandi fyrirtæki fyrir fjármálafyrirtæki og banka.

markadurinn-2006-2007-2.png

Jamm - sumir álíta að við "þurfum að vera sniðug". Og kannski ekkert að vera að reka fyrirtækin hér á Klakanum góða eins og einhver skandínavísk félög. Auðvitað alveg skelfilegt að fylgjast t.d. með öllum rotgrónu dönsku stórfyrirtækjunum, sem ekki kunna að taka almennilega áhættu í anda Vegas. Hannes og félagar þurfa líka endilega að kenna Danskinum að veita lán til viðskiptaklíkunnar veðlaust og helst líka án undirritunar.

Umrætt áramótablað Markaðarins er stútfullt af meiru ámóta rausi frá öðrum forkólfum íslensk viðskiptalífs. Rétt að hafa hér hlekk á blaðið, en athugið að þetta er nokkuð þungt pdf-skjal. Það er samt vel þess virði að hlaða því niður; lesningin er hrein veisla fyrir kjánahrollinn. Jón Ásgeir var kokhraustur og sagðist bara vera rétt að byrja. Og annað eftir því. Af öllum viðmælendum blaðsins var aðeins einn einasti maður sem mælti viðvörunarorð. Sá var þáverandi forstjóri Marel, Hörður Arnarson, sem nú er forstjóri Landsvirkjunar.

Já - á árunum 2005-2008 þandist "íslenska efnahagsundrið" út nánast hömlulaust en án innistæðu. Sorglegast er samt hvernig sum opinber fyrirtæki létu líka sogast með. Líklega er Orkuveita Reykjavíkur þar eitt besta dæmið.

gudmundur-thoroddsson-rei-2.jpg

Allt fram á síðustu dagana fyrir hrun stærðu stjórnendur Orkuveitunnar sig af glæstum sigrum. Þrátt fyrir ýmsar viðvörunarraddir um að hinn mikli lásbogi íslensks efnahagslífs væri með veikan streng, ákvað Orkuveita Reykjavíkur að ráðast í nýjar stórframkvæmdir með tilheyrandi aukinni skuldsetningu. Jafnvel svo seint sem sumarið 2008 voru gerðir stórir samningar um kaup á vélasamstæðum í nýjar virkjanir á Hengilsvæðinu, þrátt fyrir að verulegar blikur væru á lofti. Hvorki æðstu ráðamenn stjórnvalda né opinberra stofnana eða -fyrirtækja virtust sjá ástæðu til að staldra við né hugleiða að það sem fer mjög hratt upp kemur oft líka ansið hratt niður.

Af þessu tilefni er vert að rifja upp ummæli þáverandi forstjóra Orkuveitunnar í hinu alræmda áramótablaði Markaðarins. Þá voru viðræður Orkuveitunnar og Símans um sameiningu dreifikerfa sagðar vera á lokastigi. „Það er verið að hreinsa upp síðustu innansleikjurnar," sagði Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar." Skemmtilega að orði komist?

markadurinn-2006-2007-1.png

Það er sérstaklega athyglisvert að í þessu margumrædda flotta eintaki af Markaðnum er tvívegis sagt frá heimsókn Michael Porter til Íslands þá fyrr um árið. En í hvorugt skiptið er minnst einu orði á þau orð Porter's að hér væru augljós háskaleg þenslumerki, sem afar mikilvægt væri að bregðast við án tafar. Líklega hefur ritstjóra Markaðarins þótt þau ummæli Porter's vera full neikvæð, til að vera að rifja þau upp í þessu skemmtilega áramótablaði.

En "veislan" hélt áfram enn um sinn. Að vísu voru nokkrir leiðinlegir efasemdarmenn, sem leist alls ekki á blikuna og þótti eitthvað meira en lítið einkennilegt við módelið allt. Losuðu sig við öll sín íslensku hlutabréf og greiddu upp fasteignalánin sín. En gerðu það allt í hljóði og læddust með veggjum, vitandi að ef það fréttist yrðu þeir hafðir að háði og spotti. Komu sér burt frá hjörðinni og heyrðu partýglamrið fjarlægast... vissulega með smá söknuði. En stundum er bara alls ekki svo galið að fylgja eigin samvisku og eigin hyggjuviti.

 


Verður Ísrael næsti "Noregur"?

Norðmenn eru þakklátir skaparanum - eða náttúrunni. Nú í vikunni sem leið datt nýjasta útgáfa af Norwegian Continental Shelf inn um bréfalúgu Orkubloggarans og þar segir orðrétt:

norwegian-shelf-2-2010.png

Nature has been generous with Norway. That laid the basis for an adventure which began over 40 years ago and has led to the drilling of more than 3000 wells on the NCS. This in turn has made it possible to establish welfare provisions for the population which would otherwise have been impossible.

Já - norska olíuævintýrið hefur gert Norðmenn að einhverri allra ríkustu þjóð veraldar. En hvað með hina "einu sönnu Guðs útvöldu þjóð"; Ísraelsmenn?

Eins og fólk veit er allt löðrandi í olíu í næsta nágrenni Ísraels. Auðvitað mest við Persaflóann, en einnig í ýmsum löndum í næsta nágrenni flóans. Víða í löndum Norður-Afríku er að finna mikla olíu í jörðu - eins og t.d. í Egyptalandi og hjá Gaddafi í Líbýu - og meira að segja í Sýrlandi hefur fundist dágóður slatti af svarta gullinu. En ekki einn einasti dropi innan lögsögu Ísraels. Hvorki innan hins "upprunalega" Ísrael né innan hernumdu svæðanna - ekkert á Vesturbakka Jórdanár og ekkert á Gaza. Það vottar ekki einu sinni fyrir smá gasþunnildum undir sjálfri Jerúsalem.

golda_meir-time.jpg

Olían er sem sagt aðallega í einræðisríkjum "villutrúarmannanna"! Sumir Ísraelar gantast með að það sé líkt og Drottinn hafi ákveðið að láta alla við botn Miðjarðarhafsins njóta olíu nema Ísraela sjálfa. Golda Meir, fyrrum forsætisráðherra Ísraels mun hafa orðað þetta svo, að í fjörutíu ár hafi Móses leitt gyðinga um eyðimörkina til eina svæðisins í öllum Mið-Austurlöndum þar sem enga olíu er að hafa! Nema auðvitað ólífuolíu, sem þykir þó ekki alveg eins mikil náttúruauðlind í dag eins og var fyrir þúsundum ára.

Ekki hefur vantað viljann til að finna olíu í Ísrael. Í meira en hálfa lönd hafa menn staðið sveittir og leitað svarta gullsins um landið allt. Í leit sinni hafa sumir fyrst og fremst haft trúna að vopni. Eins og síonistinn og Texasbúinn John Brown, sem telur sig geta lesið vísbendingar í texta Gamla testamentisins um hvar finna megi olíu í landinu helga. En þrátt fyrir trúarhita Brown's hefur umfangsmikil leit fyrirtækis hans, Zion Oil, verið árangurslaus. Ekki minnsti dropi af nýtanlegum kolvetnisauðlindum hefur fundist í ísraelskri jörð. Né á öðrum svæðum sem Ísrael hefur hernumið. Og það þrátt fyrir að Zion Oil byggi leit sína á kýrskýrum vísbendingum úr Gamla testamentinu... sem reyndar ku heita Tóra  í gyðingdómnum ef Orkubloggaranum skjátlast ekki - en reyndar er trúarbragðafræði ekki hans sterkasta hlið.

israel-gas-map.gif

Fyrir fáeinum árum fannst reyndar vottur af gasi undir landgrunninu útaf Ísrael. En það var smotterí - og allt þar til fyrir rétt rúmu ári síðan leit út fyrir að Ísrael yrði um aldur og ævi háð fjárframlögum frá Bandaríkjunum til að geta keypt eldsneyti til að knýja þjóðfélagið.

Þetta var satt að segja farið að líta illa út; auknar efasemdarraddir voru farnar að heyrast frá Washingon DC um skilyrðislausan stuðning Bandaríkjanna við Ísrael og Palestínumenn voru farnir að eygja von um meiri sjálfstjórn. En viti menn. Einmitt þegar verulega var farið að þrengja að Ísraelsstjórn gerðist "kraftaverkið". Risastór gaslind fannst í lögsögu Ísraels um 50 sjómílur vestur af hafnarborginni Haifa. Gaslind sem hvorki meira né minna virðist hafa að geyma jafngildi 1,5 miljarða tunna af olíu.

Þetta var stærsta gaslindin sem fannst í heiminum árið 2009! Svæðið hefur verið nefnt Tamar, sem sérfróðir Biblíulesendur segja Orkubloggaranum að sé til heiðurs merkri konu sem sagt er frá í Gamla testamentinu. En varla höfðu fréttirnar af Tamar-gaslindinni borist til gyðingalandsins sérkennilega, þegar menn hittu enn á ný í mark á ísraelska landgrunninu. Og nú þótti ástæða til að kenna lindina við sjálft sæskrímslið ógurlega; Levíaþan. Sem mun vera einhvers konar Miðgarðsormur þeirra gyðinganna.

leviathan-destruction.png

Þessi nýjasta gaslind sem fannst um mitt þetta ár (2010) er sögð vera helmingi stærri en Tamar; þ.e. að hún jafngildi 3 milljörðum tunna af olíu. Sem er ansið hreint mikið og myndi gera Ísrael að jafn mikilvægu kolvetnisríki eins og Noregur er í dag. Nú blasir við að Ísrael verði ekki aðeins sjálfu sér nægt um orku, heldur verður landið stórútflytjandi á gasi. Enda er nú unnið hörðum höndum í ísraelsku stjórnsýslunni við að móta reglur um auðlindagjald og "olíusjóð" að norski fyrirmynd.

Enn eru allmörg ár í að gas fari að streyma frá fyrstu gasvinnslusvæðunum útaf strönd Ísraels. Ekki er orðið ljóst hvert gasið mun fara, en margt bendir til þess að auk innanlandsmarkaðar verði gasleiðsla lögð til Grikklands og gasið selt þangað og svo áfram innan ESB.

Þetta er þó enn ekki afráðið og það er kannski ennþá fullsnemmt að ætla að Ísraelar verði örugglega ofurrík kolvetnisþjóð. En vissulega er margt sem bendir nú til þess að Ísraelsþjóð eigi í vændum tugmilljarðadollara tekjur á næstu árum og áratugum.

burning-man-2007-crude_awakening_-art-installation.jpgHvort það mun styrkja friðarhorfur í Mið-Austurlöndum er allt önnur saga. Gasfundurinn er strax farinn að hafa slæm áhrif á sambandið milli Ísraela og Líbana, sem munu takast á um gaslindir á lögsögumörkunum. Sömuleiðis eru stjórnvöld í Egyptalandi á nálum. Egyptar hafa nefnilega gert samninga við Ísraela um stórfellda gas-sölu til Ísrael en sjá nú fram á óvissu um að þeir samningar verði efndir af hálfu Ísraelsmanna. Úps!

Nú eru jólin. Það er nokkuð ljóst að boðskapur kristninnar um frið og fyrirgefningu er ennþá víðs fjarri því að sætta þjóðir heimsins. Við sem búum hér svo fjarri stríðsátökum hljótum að freistast til að hugsa einmitt þau orð sem Bono söng hér um árið: Well, tonight, thank God it's them, instead of you! Jafnvel þó svo hér muni kannski aldrei finnast dropi af olíu, þá er Ísland alls ekki svo slæmur staður að fæðast á! Í reynd snýst lífið jú um allt annað heldur en olíu... eða orkublogg.

 


Olíuleki

Wikileaks-skjölin úr bandarísku stjórnsýslunni hafa opnað okkur athyglisverða sýn í veröld olíunnar.

obama-saudi-arabia.jpg

Þar kemur m.a. fram að yfirvöld í Saudi Arabíu vilji helst að Bandaríkin þurrki út Klerkastjórnina i Íran. Enda er Íran það land sem er með einhverjar mestu olíubirgðir veraldar og blessaðir Sádarnir treysta alls ekki trúbræðrum sínum í Persíu til að halda sig innan viðmiðana OPEC (þ.e. að virða framleiðslukvótana).

Ef olía tæki að streyma stjórnlaust á markaðinn frá Íran myndi olíuverð einfaldlega hrapa. Afleiðingin yrði sú að Saudi Arabía myndi samstundis lenda í miklum viðskiptahalla - með tilheyrandi innanlandsóróa. Þá gæti orðið stutt í byltingu gegn einræðisstjórninni, sem þar hefur setið að olíuauðnum og stýrt landinu með harða hendi trúarinnar að vopni.

julian-assange-time-cover_1049025.jpg

Hjá Wikileaks má líka finna skjöl um að í reynd sé það olíufélagið Shell sem stjórnar Nígeríu - miklu fremur en nígerísk stjórnvöld. Allar helstu ákvarðanir munu nefnilega vera bornar undir Shell áður en þær eru formlega teknar af sjálfum stjórnvöldum Nígeríu.

Einnig er þarna að finna skjöl um að bandaríski olíurisinn Chevron hafi skipulagt olíuviðskipti við Klerkana í Íran þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjastjórnar. Þó það nú væri! Fátt er ábatasamara en slík ólögmæt olíuviðskipti, eins og eigendur Glencore og fleiri fyrirtækja á jaðri hins siðmenntaða heims þekkja manna best. Hingað til hafa flestir álitið að stóru olíufélögin sem skráð eru á markaði héldu sig frá slíku. Að fara framhjá viðskiptabanni er einfaldlega svakalega áhættusamt fyrir hlutabréfaverðið ef upp kemst. En menn virðast barrrasta ekki standast mátið. Enda fátt ljúfara en að kaupa olíutunnuna á svona ca. 5-10 dollara og svo selja hana á 80 USD á markaði.

venezuela-china-simon-bolivar.jpg

Kostulegast er þó að lesa um hvernig hinar ægilegu hótanir Hugó Chavez, forseta Venesúela, um að hætta að selja Bandaríkjamönnum olíu og selja hana þess í stað til Kína, hafa snúist í höndum hans. Reyndar hefur Orkubloggið áður minnst á að þessar hótanir séu mest í nösunum á kallinum, enda er CITGO með nær alla olíuhreinsunina sína í Bandaríkjunum og því væri þeim dýrt að framkvæma "hótanirnar". Engu að síður hefur ljúflingurinn Chavez látið athafnir fylgja orðum í þetta sinn. Kínverjar hafa gert nokkra stóra samninga um kaup á olíu frá Venesúela og þannig tekið þátt í að skapa þann pólitíska sýndarveruleika að Bandaríkjamenn geti sko alls ekki treyst á að fá olíu frá Venesúela.

En Wikileaks-skjölin afhjúpa þann veruleika að Kínverjarnir borga Chavez og félögum einungis skitna 5 USD fyrir tunnuna! Og nú er Chavez fjúkandi illur því hann grunar Kínverjana um að nota ekki olíuna heima fyrir, heldur að selja hana beint inn á markaðinn! Þar sem verðið hefur verið í kringum 80 USD tunnan undanfarið. 

chavez-venezuela-chine-globe.jpg

Skjölin benda til þess að sumt af þessari olíu sem Kína kaupir af Venesúela fari til viðskiptalanda Kína í Afríku. Mest virðist þó fara beint á Bandaríkjamarkað! Því verður ekki betur séð en að fulltrúar alþýðunnar séu farnir að stunda sama leikinn eins og örgustu ímyndir heimskapítalismans.

Hingað til hafa menn einungis haldið slík viðskipti stunduð af alræmdustu skuggafyrirtækjum veraldarinnar; að kaupa olíu á slikk frá einangruðum stjórnvöldum og selja hana svo áfram með ofsahagnaði. En nú eru það Venesúelamenn sem sitja eftir með sárt ennið eftir að hafa verið svona duglegir að sýna viðleitni til sósíalískrar samstöðu. Kannski ekki furða að karlálftin hann Húgó klóri sér í kollinum - og velti fyrir sér af hverju olíuskipin sem sigla frá Venesúela og vestur um Panama-skurðinn virðast aldrei ná til Kína.

 


Rothschild í hrávörustuði

Nathaniel Philip Rothschild virðist hafa mikinn áhuga á áliðnaðinum þessa dagana.

nathaniel-rothschild-1_1047815.jpg

Þessi helsta stjarna Rothschild-fjölskyldunnar nú í byrjun 21. aldarinnar varð nýlega hluthafi í hrávörurisanum Glencore International. Fyrirtækinu dularfulla sem ræður því sem það vill ráða í Century Aluminum, sem er m.a. eigandi Norðuráls í Hvalfirði. Og nú virðist Rotskild-strákurinn æstur í að eignast umtalsverðan hlut í Rusal'inu hans Oleg Deripaska.

Þar er um að ræða stærsta álfyrirtæki heimsins. Kannski æxlast þetta þannig að Rusal (og þar með Deripaska) verði brátt orðið eigandi að álverinu í Hvalfirði og grunninum í Helguvík? Þá færi kannski að hýrna aftur yfir þeim álfunum suður með sjó, sem seldu frá sér ættarsilfrið í iðrum Reykjanessins. Það væri svo auðvitað athyglisverður bónus ef sjálfir Rothschild'arnir myndu fylgja með í kaupbæti.

Það er sossum ekkert nýtt að Rothschild-fjölskyldan sé áhugasöm um hrávörur og þar á meðal ál. Minnumst þess að Rothschild-bankarnir voru einmitt meðal æstustu þátttakenda í olíuæðinu við Bakú um aldamótin 1900. Og Rothschild-fjölskyldan var mikilvægasti fjármögnunaraðilinn á bak við demantaævintýri Cecil Rhodes í sunnanveðri Afríku skömmu fyrir aldamótin 1900. Fjölskyldan fjármagnaði líka málmaveldið Anglo American, sem oftast er kennt við hinn þýska Ernest Oppenheimer. Og Rotskildarnir hafa að auki alltaf átt mikla hagsmuni í námurisanum Rio Tinto. Sem í dag heitir Rio Tinto Alcan og er eigandi álversins í Straumsvík.

edmond_de_rothschild_banknote--israel.jpg

Já - bæði nítjándu öldina og nær alla þá tuttugustu var þessi ofurefnaða gyðingafjölskylda meðal helstu þátttakenda í hrávöruviðskiptum heimsins. Og nú eru horfur á að einhver bjartasta von fjölskyldunnar, ungstirnið Nathaniel Rothschild, ætli sér að leggja ennþá meiri áherslu á hrávörumarkaðinn en verið hefur síðustu árin. Enda vita framsýnir menn að hugsanlega er þetta allt að verða uppurið. Enfaldir hlutir eins og jörð og grjót kann að vera sú fjárfesting veraldarinnar sem mun skila mestum hagnaði nú þegar við erum "running out of everything"!

Það er ekki nóg með að einhver alefnaðasti laukur Rothschild-fjölskyldunnar eigi nú bæði hagsmuna að gæta í Straumsvík, í Hvalfirði og í Helguvík. En jafnvel þó þetta séu allt saman stór verkefni á íslenskan mælikvarða, eru þetta hreinir smámunir í augum piparsveinsins Nathaniel Rothschild. Hann horfir á stærri dæmi, eins og þátttöku í Rusal. Þar væri hann orðinn samtarfsmaður álmannsins með drengsandlitið; milljarðamæringsins Oleg Deripaska.

Þarna eru á ferðinni menn sem vita hvert skal halda til að fá góðan arð af náttúruauðlindum. Það væri kannski viðeigandi að þessir tveir ljúflingar yrðu aðaleigendur einhverra af íslensku álbræðslunum. Fyrirtækjanna sem skófla til sín mest af þeim ábata, sem til verður af hinni ódýru grænu íslensku orkuframleiðslu.

amschel-rothschild-and-sons.jpg

En höldum í smá stund til upphafsins og sögunnar. Fólk kennt við Rothschild er rakið til þýska gyðingsins Amschel Rothschild, sem uppi var í Frankfurt í Þýskalandi um aldamótin 1800 (1744-1812). Á sama tíma og Íslendingar tókust á við Móðuharðindin, efnaðist Amschel Rothschild á fjármálavafstri og var sannkallaður útrásarvíkingur þeirra tíma. Hann stofnaði til viðskipta í öllum helstu borgum Evrópu og fjölskyldan varð brátt þekkt fyrir að vera einn helsti lánveitandi aðalsins um alla álfuna.

Sagt er að grunnurinn að æpandi auði fjölskyldunnar hafi einkum verið styrjöld Breta og Frakka sem endaði með niðurlagi Napóleons við Waterloo. Á þeim tíma var Nathan Rothschild, einn af sonum Amschel Rothschild, yfir öllum viðskiptum fjölskyldunnar í Bretaveldi. Ásamt bræðrum sínum var Nathan þessi, sem einmitt er forfaðir áðurnefnds Nathaniels í þráðbeinan karllegg, upphafsmaðurinn að umfangsmiklum viðskiptum með skuldabréf ríkja eins og við þekkjum svo vel í dag. Þessi viðskipti gerðu Bretum kleift að fjármagna stríðsreksturinn gegn Napóleon og sköpuðu bönkum Rothschild-fjölskyldunnar æpandi mikinn hagnað. Og lögðu þannig grunninn að fjármálastórveldi fjölskyldunnar

wellington_at_waterloo_hillingford.jpg

Illar raddir segja reyndar að ofsagróði Rothschild-bræðranna þarna snemma á 19. öldinni, í kjölfar sigurs hertogans af Wellington á Napóleon við Waterloo, hafi orðið til með fremur vafasömum hætti. Rothschild-fjölskyldan hafi einfaldlega búið yfir hröðustu upplýsingaveitu Evrópu og fengið fréttirnar frá Waterloo á undan enskum stjórnvöldum! Sem þýddi að Nathan Rothschild fékk í reynd innsýn í framtíðina og gat nýtt sér þessar upplýsingar til að taka viðeigandi ákvarðanir í kauphöllinni í London, áður en markaðurinn vissi hvað gerst hafði við Waterloo. Hvað sem sannleika slíkra sagna líður, þá varð Nathan Rothschild á skömmum tíma efnaðasti maður á Bretlandseyjum. Og var meira að segja talinn vera ríkasti maður veraldar, þegar hann lést árið 1836.

british-gas-logo_1047819.jpg

Í dag eru Rothschild'arnir ekki lengur bara í viðskiptum í Evrópu, heldur dreifðir um veröld viða. Á tímabili var fjölskyldan stórtæk í hrávöruviðskiptum og þá helst með olíu og gull. En á síðari árum er það bankastarfsemi og fjármálaþjónusta sem hefur verið hryggjarstykkið í fyrirtækjum fjölskyldunnar. Fjölskyldan hagnaðist t.a.m. gríðarlega á einkavæðingu Thatcher's í Bretlandi, þegar fyrirtæki þeirra sáu bæði um einkavæðinguna á bresku járnbrautunum og á gasfyrirtækinu British Gas.

En lífið er ekki alltaf dans á rósum. Eins og svo margir aðrir milljarðamæringar hefur Rothschild-fjölskyldan stundum fengið að kenna á óréttlæti veraldarinnar. Árið 1996 gerðist það t.a.m. að fjármálamaðurinn Amschel Rothschild fannst hengdur á hótelherbergi í París, einungis rétt rúmlega fertugur að aldri. Einnig hann var kominn í beinan karllegg af sjálfum höfuðpaurnum Nathan Rothschild, sem spáð hafði með afbrigðum vel fyrir um sigur Wellington's við Waterloo. Amschel átti einmitt að taka við stjórnun á fyrirtækjum fjölskyldunnar í Englandi og því var þessi illskiljanlegi sorgaratburður gríðarlegt áfall.

mitterrand-dans-la-nievre-1987-afp.jpg

Og Rothschild-fjölskyldan hefur ekki bara þurft að takast á við persónulega harmleiki. Oft hafa utanaðkomandi öfl gert fjölskyldunni mikinn grikk. Byltingarástandið 1848, Kreppan mikla og uppgangur nasismans voru atburðir sem hjuggu djúp skörð í bankaveldi Rothschild-fjölskyldunnar um alla Evrópu.

Jafnvel núna í nútímanum er enginn friður. Það var t.a.m. magnað þegar Mitterand þáverandi forseti Frakklands tók sig til árið 1981 og þjóðnýtti sjálfan fjármálarisann Banque Rothschild í Frakklandi! Til að strá salti í sárið var fjölskyldunni í nokkur ár meinað af frönskum stjórnvöldum að stofna nýjan banka með nafni fjölskyldunnar. Fljótlega varð þó hægri maðurinn Chirac forsætisráðherra í Frakklandi og nánast samstundis varð til Rothschild & Cie Banque. Upprisa fjölskyldunnar í Frakklandi var hafin.

Þessi flétta hjá frönsku sósíalistunum gegn Rothschild-fjölskyldunnu um miðjan 9. áratuginn var óneitanlega svolítið kaldhæðnisleg í ljósi þess að í heimsstyrjöldinni síðari voru það nasistarnir sem þjóðnýttu bankastarfsemi fjölskyldunnar (í Þýskalandi). Og leppar nasistanna í frönsku Vichy-stjórninni gerðu hið sama í Frakklandi. Rothschild'arnir hafa því hvorki fengið að vera í friði fyrir fasistum né sósíalistum. Það er vandlifað. Sumir segja þetta vera skýrt dæmi um djúpstætt gyðingahatur í álfunni gömlu. Ljótt ef satt er.

peter-munk_barrick-gold.jpg

En nú er sem sagt þessi ósigranlega fjármálafjölskylda komin á fullt í hrávörurnar eftir að hafa að mestu haldið sig frá þeim um tíma. Hér hefur verið minnst á álið og hver veit nema umræddur Nathaniel Rothschild verði senn orðinn helsti eigandi einhverra íslensku álfyrirtækjanna.

En hann er á fleiri vígstöðvum en bara í álinu. Nathaniel er t.am. í stjórn Barrick Gold, sem er stærsta gullnámufyrirtæki veraldarinnar. Þar er hann í slagtogi með öðrum ofurríkum gyðingi; sjálfum Peter Munk [sbr. myndin]. Munk þessi er um margt merkilegur náungi. Hann var einn þeirra sem slapp frá Ungverjalandi árið 1944 þegar nasistarnir leyfðu slatta af sterkefnuðum gyðingum að flýja til Sviss - gegn laufléttri greiðslu. Um 450 þúsund aðrir ungverskir gyðingar voru ekki alveg jafn lánsamir og voru sendir í gasklefana í Auschwitz. Stundum er gott að eiga pening.

Það vantar ekki dramatíkina í kringum evrópsku gyðingana. Hvort sem það eru ofsóknir, hörmuleg örlög eða ævintýralegur auður, er lífshlaup þeirra engu líkt. Og hinn geðþekki Nathaniel Rothschild er hvergi nærri hættur. Undanfarið hefur heyrst að hann sé um það bil að gera sannkallaðan risadíl austur í Indónesíu, sem tryggi honum yfirráð yfir stórum hluta allrar kolavinnslu þar í landi. Horfur eru á að þar með verði Nathaniel einhver mesti kolaútflytjandinn til Kína! Spennandi fyrir strákinn.

deripaska-shadow.jpg

Sumir álíta meira að segja að þessi nýjustu skref Nathaniel's í álinu og kolunum muni verða til þess að við sjáum senn nýtt risahrávörufyrirtæki í heiminum. Sem muni jafnast á við sjálft Glencore eða Xstrata. En hvað sem því líður, þá er augljóslega ástæða til að fylgjast vel með brallinu í Nathaniel Philip Rothschild, Oleg Deripaska og öðrum helstu vinum þeirra. Einhver sem hefur séð þá á rölti um miðborg Reykjavíkur?

 


Suðurlandið til sölu

Sértu strákur eða stelpa með meirapróf uppá vasann og smá ævintýraþörf í blóðinu, þá er Orkubloggið með hugmynd: Eyddu einu ári suður í Ástralíu og komdu svo heim um næstu jól með 10 milljónir ISK í rassvasanum.

castlemaine_xxxx.jpg

Til að láta þetta rætast þarftu einungis að vinna svona ca. 15 tveggja vikna vaktir undir stýri á einum af stærstu trukkum heimsins. Þess á milli geturðu t.d. flatmagað á ströndinni við Sydney og notið lífsins. Ekki amalegt.

Á 2ja vikna fresti er þér skutlað með flugvél þvert yfir landið, þar sem þú klifrar uppí ofurtrukkinn og keyrir með rauða jörð frá skurðgröfunum og til skips. Vissulega þarf smá seiglu í vaktirnar, sem eru 12 tímar hver. En eftir vakt má alltaf skola niður svona eins og einum ísköldum Castlemain XXXX og eiga góða stund á barnum áður en haldið er til koju.

Já - á einhverju eyðilegasta horni Ástralíu má úr órafjarlægð sjá rykbólstrana stíga upp í kjölfar risatrukkana. Þar sem þeir keyra stanslaust allan sólarhringinn með 300 tonn af rauðum jarðvegi í hverri ferð!

pilbara-iron-ore-area.jpg

Allt er þetta hluti af kínverska efnahagsundrinu, sem hefur haft gríðarleg áhrif á daglegt líf Ástrala. Nánast óendanleg eftirspurn frá Kína eftir áströlskum kolum, gasi, málmum, úrani og ýmsum öðrum hrávörum hefur valdið því að í Ástralíu koma menn af fjöllum þegar þeir heyra talað um kreppu. Enda er Ástralíudollarinn nú meðal þeirra mynta sem mest viðskipti eru stunduð með í heiminum. Aðeins bandaríkjadalur, japanskt jen, breskt pund og evra hafa meiri veltu.

australia-se-asia-map.jpg

Það hefur verið hreint magnað að fylgjast með uppganginum í Ástralíu. Ekka bara síðustu árin fyrir "heimskreppuna" - sem er bara alls ekki að ná til alls heimsins - heldur líka þess sem hefur verið að gerast þarna á Suðurlandinu mikla síðustu tvö árin. Það er einfaldlega rífandi gangur í atvinnulífinu og fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að góðærið þar haldist lengi enn.

Efnahagsástandið í Ástralíu þessa dagana er svo sannarlega afar ólíkt því sem var, þegar Orkubloggarinn dvaldi þar við sólarstrendurnar dásamlegu í Sydney fyrir rétt rúmum áratug. Það var árið 1998 og áhrif Ásíukreppunnar voru ennþá mjög áberandi. Á leið sinni til þessa mikla og merka lands í suðri hafði bloggarinn haft viðkomu í Bangkok í Taílandi. Þar stóðu hálfbyggðir skýjakljúfar líkt og draugar út um alla borgina og ennþá langt í að Taíland næði sér upp úr kreppunni, sem hafði fellt gengi gjaldmiðils þeirra um helming. Enda var hægt að leyfa sér að gista þar á lúxushótelum og allt á spottprís - meira að segja fyrir Íslending.

aud-usd-1998-2010_1046558.png

Þegar komið var til Sydney virtist ástandið þar vera prýðilegt. En í reynd höfðu Ástralir orðið fyrir miklu höggi. Japan hafði verið þeirra mikilvægasti viðskiptavinur, en nú var japanska efnahagsundrið búið og ekkert virtist blasa við nema samdráttur. Efnahagslægðin í Japan olli því að Ástralíudollarinn snarféll, sem var auðvitað til góðs fyrir gestinn frá Íslandi. Það er alveg magnað að hugsa til þess að þá fór Ástralíudollarinn niður í hálfan bandaríkjadal, en í dag er gengið aftur á móti nánast 1:1! Það er svo sannarlega engin kreppa þarna í Suðrinu hinu megin á hnettinum.

Rétt um það leyti sem Orkubloggarinn kvaddi Ástralíu á steikjandi heitum desemberdegi 1998 fór æpandi uppgangurinn í Kína á skrið. Og á þessum rúma áratug sem liðinn er síðan þá, hafa viðskipti Ástralíu við Kína vaxið frá því að vera nálægt því engin og í það að nú fær Ástralía um fjórðung allra útflutningstekna sinna frá Kína! Vissulega flytja Ástralir líka mikið inn frá Kína, en viðskiptajöfnuðurinn við Kína er þeim samt hagstæður um tugi milljarða USD. Peningarnir sem sagt streyma frá Kína og til Ástralíu.

pilbara-truck-2.jpg

Það sem Kínverjar eru að kaupa svona mikið í Ástralíu þessa dagana er einfaldlega Ástralía sjálf. Náttúruauðlindir.

Áströlsk kol, ástralskt úran og ástralskt járn streymir sem aldrei fyrr til Kína. Hér í upphafi færslunnar var minnst á járngrýtið sem siglt er með í heilu skipalestunum frá rauðum auðnum NV-Ástralíu og til Kína. Jarðveginum er skóflað uppá sannkallaða risatrukka sem flytja það um borð í ofurpramma, sem svo færa góssið til Kína. Og þarna í Pilbara-héraðinu er af nógu að taka. Áætlað að auðnin þarna hafa að geyma um 40 milljarða tonna af þessum járnríka jarðvegi. Þ.a. þau milljón tonn sem nú er siglt daglega með frá Pilbara og gegnum sundin við Indónesíu og til Rauða Drekans, munu endast í dágóða stund.

xi-jinping_kevin-rudd_andrew-forrest-ceo-fortscue-metals.jpg

Þarna koma Kínverjarnir ekki bara fram sem laufléttir kaupendur að járngrýti og öðrum málmum og hrávörum. Þvert á móti hafa kínversk risafyrirtæki í námageiranum verið iðin við að kaupa upp áströlsk námafyrirtæki. Þarna eru á ferðinni nöfn eins og Sinosteel (stærsti járninnflytjandi Kína), kínverska ríkisfjárfestingafyrirtækið  CITIC og Chinalco (eitt stærsta álfyrirtæki heimsins). Ástralíumegin eru gamlir kunningjar lesenda Orkubloggsins eins og BHP Billiton og Rio Tinto (sem á m.a. álverið í Straumsvík undir merkjum Rio Tinto Alcan).

Stutt er síðan Chinalco keypti einmitt um 10% hlut í Rio Tinto og undanfarna mánuði hefur Kínalkóið verið að reyna að kaupa annað eins í viðbót. En nú var bæði áströlskum stjórnvöldum og öðrum hluthöfum Rio Tinto orðið nóg um - og díllinn var stöðvaður. Kínverjarnir tóku þá bara upp þá strategíu að verða stórir hluthafar í einstökum námaverkefnum í landinu; verkefni sem þeir fjármagna með Rio Tinto og öðrum slíkum fyrirtækjum. Og eru þannig smám saman að eignast stóran hlut í mörgum stærstu námum Ástralíu, þó svo kaup þeirra í áströlsku námarisunum hafi verið stöðvuð - í bili. Þar að auki er Kína einhver stærsti kaupandinn að skuldum Ástrala.

pilbara_gorgon-map.jpg

Utan við strönd Pilbara liggja svo hinar geggjuðu Gorgon-gaslindir, sem nýttar verða til að framleiða fljótandi gas (LNG) sem siglt verður með á risastórum tankskipum til Kína. Þar er á ferðinni fjárfesting upp á tugmilljarða USD, sem bætist við allt hitt fjármagnið sem streymt hefur í nýtingu ástralskra náttúruauðlinda síðustu árin. Búið er að undirrita samning við Kínverja um að þeir kaupi alla framleiðsluna næstu tuttugu árin. Kannski ekki skrítið að á liðnu ári (2009) hækkaði fasteignaverð í Pilbara um meira en 200%.

Ástralir fagna eðlilega góðu ástandi efnahagsmála. En núna þegar Kína stendur að baki um fjórðungi af öllum útflutningi frá Ástralíu eru menn farnir að spyrja hvort þetta geti verið tvíbent velmegun? Verði stöðnun í Kína er hætt við að efnahagur Ástralíu falli eins og steinn. Skyndilegt fall Ástralíudollarans í árslok 2008, þegar Kína tók lauflétta dýfu, er þörf áminning um þessa ógn.

pilbara-truck-1.jpg

Þeir Ástralir eru líka til, sem óttast að efnahagsstyrkur Kínverjar sé farinn að hafa óeðlilega mikil áhrif á ákvarðanatöku bæði ástralskra stjórnvalda og ástralskra kjósenda. Báðir þessir hópar hræðast fátt meira en efnahagslegan samdrátt og þess vegna er mikil freisting í þá átt að leyfa Kínverjum að fara sínu fram í Ástralíu.

Dæmi um þessa hugsun má t.d. sjá í því þegar vinstri stjórninni í Ástralíu mistókst að innleiða auðlindaskatt í landinu fyrir um ári síðan. Þar ætluðu menn að fara ekki ósvipaða leið eins og t.a.m. hefur verið gert í Noregi, enda vitað mál að kolin, járnið og úranið í Ástralíu mun ekki endast að eilífu og því æskilegt að koma á auðlindasjóði. En lobbýismi risafyrirtækjanna stöðvaði þessa tilraun til að koma á auðlindaskatti - og svo féll stjórnin í kosningunum þegar kjósendur refsuðu Verkamannaflokknum fyrir að leyfa ekki bara öllu að halda áfram með bensínið í botni. Það er jú bara svo gaman að gefa ennþá meira í!

iron-ore-ship.jpg

Og lífið gengur sinn vanagang í auðnum Ástralíu. Þar sem trukkarnir halda áfram að flytja ástralskar náttúruauðlindir til skipa, sem svo sigla með þær norður til Kína og kynda undir efnahagsuppganginn þar. Þarna eru gríðarlegir tekjumöguleikar fyrir vinnuafl, sem er tilbúið að halda á vit vertíðarlífsins í eyðimörkinni rauðu og nógir ísskápar fyrir bjórinn. Gæti varla betra verið.

Þó eru þeir til sem ofbýður atgangur Kínverjanna við uppkaup á námum og hrávörum í Ástralíu - og reyndar út um allan heim. En það má líka spyrja hvort nokkuð sé athugavert við það að fjölmennasta þjóð heimsins, með um 20% allra íbúa jarðarinnar, leitist við að festa sér a.m.k. sama hlutfall af auðlindum heimsins? Annað væri eiginlega vítavert gáleysi af hálfu Kínverja.

 


Porter og skammsýnir Alþingismenn

Í vikunni sem leið birtist álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík ásamt tilheyrandi virkjunum við Þeistareyki og Kröflu og háspennulínum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var m.a. sú að mikil óvissa sé um það hvort fyrirhugaðar jarðhitavirkjanir vegna álversins verði innan marka sjálfbærni.

bakki-husavik.jpg

Að baki þessu umhverfismati eru áætlanir um að reisa allt að 346 þúsund tonna álver á Bakka. Eigi þau áform að ganga eftir þarf orkuver með samtals u.þ.b. 570-580 MW afl. Umhverfismatið sem nú hefur farið fram miðaði að því að sýna fram á að þarna séu fyrir hendi 440 MW (Kröfluvirkjun II með 150 MW og Þeistareykjavirkjun með 200 MW, auk þess sem nú þegar liggur fyrir að Bjarnarflagsvirkjun verði 90 MW). Þessi 440 MW áttu að nægja álbræðslu með ca. 270 þúsund tonna framleiðslugetu. Hugmyndin var svo að þau nettu 135-140 MW sem uppá vantar til að unnt verði að byggja álverið í fullri stærð komi frá öðrum virkjunum

En nú liggur fyrir það álit Skipulagsstofnunar að ekki hafi verið sýnt fram á að Kröfluvirkjun II og Þeistareykjavirkjun geti skilað þeirri orku sem haldið hefur verið fram. Eða eins og segir í áliti Skipulagsstofnunar: "Ljóst er að engin vinnslusaga er til staðar á Þeistareykjasvæðinu og þrátt fyrir 30 ára reynslu af vinnslu jarðhita á Kröflusvæðinu með yfir 40 borholum hefur ekki tekist að útbúa reiknilíkan sem hermir jarðhitakerfið af einhverri nákvæmni vegna þess hve flókið kerfið er."

bakki-alver-umhverfismat-2.png

Það er sem sagt óvíst hversu mikil virkjanleg orka er þarna fyrir hendi. Verði farið í virkjanauppbyggingu með þeim hætti að byggja 150 MW virkjun við Kröflu (Krafla II) og 200 MW virkjun á Þeistareykjum, eru að mati Skipulagsstofnunar meiri líkur en minni á að orkuvinnslan verði ágeng. Sem þýðir að brátt kæmi að því, að ekki yrði unnt að viðhalda raforkuframleiðslunni á svæðunum. Það myndi hafa í för með sér hnignun jarðvarmasvæðanna við Kröflu og Þeistareyki og að leita þyrfti á ný svæði til að útvega álverinu raforku.

Framkvæmdin er samkvæmt þessu ekki ennþá fullhugsuð og því væri glapræði að fara að byggja álver á Bakka nú. Fyrst þurfa að fara fram meiri rannsóknir á umræddum jarðvarmasvæðum, svo menn viti hversu mikil virkjanleg orka er þarna í reynd og hversu hratt unnt er að virkja þá orku. Þannig að ekki sé gengið of nærri auðlindinni.

lv-ha_haust-2010_na-land.png

Jafnvel þó svo gríðarleg orka kunni að vera á svæðinu eru jarðvarmasvæði þess eðlis að það verður að fara varlega að þeim. Að öðrum kosti er hætt við ofnýtingu og að svæðið skili ekki þeirri stöðugu orku sem álverið þyrfti næstu áratugina.

Þetta er einmitt ein helsta ástæða þess að Landsvirkjun hefur ekki ennþá viljað skuldbinda sig til að afhenda orku handa álbræðslu við Húsavík. Þess í stað hefur fyrirtækið sagt að það geti samþykkt að sýna bestu viðleitni til að finna orkuna. Þetta viðhorf hefur t.a.m. komið mjög skýrt fram í nokkrum kynningum Landsvirkjunar á árinu sem er að líða (2010). M.a. á haustfundi fyrirtækisins snemma núna í nóvember. Þar útskýrði forstjóri Landsvirkjunar með skýrum og einföldum hætti hvernig uppbygging virkjana á jarðhitasvæðunum á NA-landi þurfi að fara fram í mörgum skrefum. Þar sem hvert skref verði helst alls ekki meira en 50-100 MW.

En það eru ekki allir sem eru sáttir við svona raunsæja stefnu og vísindalegar staðreyndir. Allra síst sumir íslenskir stjórnmálamenn. Fyrir fáeinum vikum lögðu hvorki meira né minna en 26 þingmenn fram tillögu á Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir því að ríkisstjórnin grípi fram fyrir hendur Landsvirkjunar og ljúki samningum um byggingu álvers við Húsavík. Þessi þingsályktunartillaga kom fram snemma í október og þar segir: "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar viðræður við Alcoa á Íslandi og kínverska álfyrirtækið Bosai Mineral Group (BMG) með það að markmiði að ljúka samningum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar við Húsavík..."

krafla_geothermal_power_station_2_1044831.jpg

Í greinargerð með þessari tillögu þingmannanna eru svo leidd rök að því að nóg sé af orku á svæðinu fyrir álver. Þar segir t.a.m. orðrétt [leturbreyting er Orkubloggarans]: "Mikil orka finnst á svæðinu og hefur það komið fram í svörum við fyrirspurnum hér á Alþingi... að varlega áætlað séu virkjanleg um 600 MW í Þingeyjarsýslum. Rannsóknir eru hins vegar alltaf að batna og Þeistareykjasvæðið er nú talið öflugra en áður."

Samkvæmt þessu virðast umræddir 26 þingmenn álíta borðleggjandi að virkja megi 600 MW í Þingeyjarsýslum og að sú tala sé jafnvel varlega áætluð. M.ö.o. að þarna sé jafnvel ennþá meiri virkjanleg orka. Og þess vegna engin ástæða til að staldra við, heldur barrrasta ljúka samningum um uppbyggingu álvers á Bakka. Slíkir samningar þýða auðvitað að samið yrði um afhendingu orkunnar á tilteknum tíma og að Landsvirkjun tæki á sig þá skuldbindingu. Fólk getur svo ímyndað sér hvað myndi gerast ef Landsvirkjun næði ekki að útvega orkuna á áætluðum tíma! Bótakrafa Alcoa eða annars eiganda álversins gæti jafnvel slegið út Icesave-upphæðina.

theistareykir-2.jpg

Fyrri umræða um þessa þingsályktunartillögu fór fram þann 11. nóvember s.l. - eða um viku eftir að svo skilmerkilega var útskýrt á haustfundi Landsvirkjunar að fara þurfi varlega í að lofa orku frá svæðinu. Ekki virðast þingmenn hafa áhyggjur af svoleiðis smámunum. Í umræðum um þingsályktunartillöguna má finna ýmis athyglisverð ummæli. Eins og t.d. að "gerð hafi verið góð grein fyrir um 440 megavöttum í Þingeyjarsýslum" [ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar]. Annar þingmaður bætti við: "Það er mikil orka í iðrum jarðar á þessu svæði og enda þótt menn greini á um það held ég að ljóst sé að sú orka í megavöttum sem komin er í gegnum skipulagsferlið sé um 525 megavött" [ummæli Sigmundar Ernis Rúnarssonar].

Eitthvað er brenglað við þekkingu umræddra þingmanna. Og það var ekki nóg með að þingmenn fullyrtu að þarna séu 440, 525 eða jafnvel 600 MW tiltæk fyrir stóriðju. Einn þeirra bætti um betur og skammaðist útí Landsvirkjun fyrir að vilja ekki lofa orku. Sagði það vera "algerlega ljóst að Landsvirkjun leikur lausum hala og fer þvert á stefnu stjórnvalda" - og spurði "hvort stjórnvöld ætli að láta Landsvirkjun algjörlega óáreitta í þessari stefnu sinni eða hvort til standi að stjórnvöld, sem eigendur, skipti sér af að því hvaða stefnu fyrirtækið taki" [ummæli Tryggva Þórs Herbertssonar].

althingi-vetur.jpg

Já - þingmönnum þótti einkennilegt að Landsvirkjun væri ekki tilbúin að skuldbinda sig til að afhenda orku sí sona. Og þeir gefa bersýnilega lítið fyrir það sjónarmið að skynsamlegt sé að kanna fyrst hvort orkan sé örugglega til staðar. Virðist þar engu skipta þó það sé alkunn staðreynd að erfitt eða jafnvel útilokað er að áætla nákvæmlega virkjanlega orku á jarðvarmasvæðum eins og við Kröflu eða Þeistareyki, nema hægt og sígandi með rólegri uppbyggingu. Væntanlega munu þingmennirnir nú skammast útí niðurstöðu Skipulagsstofnunar, sem nú hefur sagt hæpið að virkjanirnar geti staðið undir jafn mikilli raforkuframleiðslu eins og sumir hafa viljað halda fram.

Þetta er hið einkennilegasta mál. Það hlýtur hver maður að sjá að það væri algerlega galið ef Landsvirkjun færi að lofa orku, sem kannski er ekki fyrir hendi. Jafnvel þingmenn ættu að skilja þetta! Menn verða að horfa á staðreyndir málsins og ekki láta byggðastefnuna og atkvæðaveiðarnar gjörsamlega blinda sig. Álver verður ekki byggt við Húsavík fyrr en öllum efa hefur verið eytt um orkuöflunina. Taka þarf hvern virkjunarkost fyrir sig, rannsaka hann betur og virkja svæðið smám saman. Líklega best í u.þ.b. 50 MW skrefum. Þetta eiga menn að viðurkenna í stað þess að tala eins og álfar og segja að Landsvirkjun "leiki lausum hala".

Þetta er satt að segja grafalvarlegt mál. Það er líka alveg sérstaklega athyglisvert, að hvergi í umræddri þingsályktunartillögu, greinargerð með henni né í ræðum þingmanna er einu orði minnst á arðsemi framkvæmdanna! Hvergi er minnst á mikilvægi þess að raforkusala til álversins þurfa að skila tilteknum arði. Ekki eitt orð.

porter-haskolabio-1nov-2010.jpg

Það leiðir hugann að því að nýverið var prófessor Michael Porter hér á Íslandi og flutti þá erindi á ráðstefnu um jarðvarmageirann. Þar fjallaði Porter m.a. um gríðarlegt mikilvægi þess að Íslendingar kanni vel hvernig fá megi sem mestan arð af nýtingu raforkunnar. Í erindi sínu varaði Porter við því að Íslendingar selji ennþá meiri raforku til álvera. Hann álítur álverin hér mikilvæga stoð í efnahagslífinu, en að tímabært sé að huga að öðrum möguleikum. Möguleikum sem séu líklegir til að skila mun betri arðsemi og meiri þjóðhagslegum ávinningi heldur en álverin gera.

Porter gagnrýndi það sérstaklega að hér skuli ekki hafa verið gerður almennilegur samanburður á mismunandi kostum í orkufrekum iðnaði. Hvergi er t.d. að finna úttekt eða aðgengilegar upplýsingar í íslenska stjórnkerfinu um það hvort ný gagnaver eða nýtt álver skili þjóðarbúinu meiri arði. Porter undraðist þetta mjög. Hann lýsti einnig eftir opinberri orkustefnu. Þar sé um að ræða afar þýðingarmikið mál - bæði fyrir stjórnvöld og þjóðina alla. Slík langtímastefna sé ekki síður mikilvæg fyrir erlend fyrirtæki og fjárfesta til að auðvelda þeim að átta sig á því að Ísland sé áhugaverður fjarfestingakostur. Skýr langtímastefna í orkumálum á Íslandi sé m.ö.o. lykillinn að því að vekja áhuga nýrra iðngreina á Íslandi og þannig skapa hér meiri fjölbreytni í atvinnulífi og auka arðsemi í raforkusölunni.

icesave_clear-difference_1044833.jpg

Nú er Michael Porter auðvitað ekki óskeikull fremur en aðrir menn. En þessar ábendingar hans eru allrar athygli verðar og kannski upplagt að flutningsmenn áðurnefndrar þingsályktunartillögu kynni sér sjónarmið Porter's. Minnumst þess að árið 2006 varaði hann við ofþenslu í íslenska hagkerfinu. Ekki sá ríkisstjórnin eða meirihluti Alþingis ástæðu til að bregðast við þeim varnaðarorðum. Þess í stað horfðu menn þegjandi upp á bankakerfið halda áfram að blása í blöðruna og leyfðu henni áfram að þenjast út með dyggri aðstoð opinberra stofnana eins og Seðlabankans og Íbúðalánasjóðs.

Kannski finnst sumum Alþingismönnum okkar heldur engin ástæða til að bregðast við ábendingum Porter's í þetta sinn. Ábendingum hans um að varast of mikla áherslu á álbræðslur. Margir þingmanna virðast vilja keyra á fullt í enn eitt álverið án þess að skoða af alvöru hvað skynsamlegast sé fyrir íslensku þjóðina að nota orkuna í. Þeir vilja ekki einu sinni byrja á því að ganga almennilega úr skugga um það hvort nóg orka er fyrir hendi handa álverinu. Bara æða af stað. Er Alþingismönnum gjörsamlega ómögulegt að hugsa lengra en fram að næstu kosningum?

 


Orkubrúin Tyrkland

bond_the_world_is_not_enough_tortue-schene.jpg

Það var svolítið kaldrifjað hvernig olíuskvísan hún Electra King var skotin með köldu blóði. En svona gerist í baráttunni um olíuauðlindirnar við Kaspíahaf. Og sem kunnugt er var stúlkan sú með slæmar ráðagerðar. Nefnilega að sprengja upp sjálfa Ceyhan-olíuleiðsluna.

Til allrar hamingju náðist að stöðva þessa harðsvíruðu orkuskutlu tímanlega. Reyndar er olíuleiðslan frá Kaspíahafi til Tyrklands nefnd allt annað þarna í James Bond myndinni The World is Not Enough. En augljóslega er átt við Ceyhan-leiðsluna - sem fullu nafni heitir Baku-Tbilisi-Ceyhan-leiðslan eða BTC.

btc_map.gif

BTC-leiðslan hefur gjörbreytt strategískri stöðu Tyrklands. Þetta gríðarstóra land, sem Evrópumenn hafa löngum haft tilhneigingu til að líta á sem heldur lítilsgilt jaðarsvæði eða í besta falli þægilegan stuðpúða milli vesturs og austurs, er allt í einu er orðið að mikilvægri orkubrú milli Evrópu og Mið-Asíu.

Þetta er þörf áminning um það hversu mikilvægt Tyrkland verður í framtíðinni - til að koma bæði olíu og gasi frá ofboðslegum orkuboltum Mið-Asíu til orkuþyrstrar Evrópu. Þar að auki er vert að hafa í huga spá Goldman-Sachs um að árið 2025 verði Tyrkir meðal stærstu efnahagsþjóða heimsins. Kannski fyllsta ástæða fyrir ESB að bjóða Tyrki velkomna í sambandið fyrr en seinna.

btc-opening-2006-turkey-georgia-azerbaijan_bp-ceo-john-browne_at_the_opening.jpg

Gott samkomulag við Tyrkland kann að verða þýðingarmikið til að losa Evrópu undan orkuhrammi Rússa. Þarna er nærtækast að nefna olíugumsið sem dælt er upp í Kaspíahafslöndunum.  Það var árið 2006 sem 1.800 km löng BTC-leiðslan opnaði, en um hana streymir olía alla leið frá Bakú á vesturströnd Kaspíahafsins og vestur til tyrknesku hafnarborgarinnar Ceyhan við Miðjarðarhaf. Þar fer olían á tankskip, sem svo sigla með hana til Evrópulandanna. 

Og nú er horft til þess að líka verði lögð stór gasleiðsla, sem sniglist svipaða leið eins og BTC-olíuleiðslan. Alla leið frá Bakú og vestur til Evrópu og flytji þangað gríðarmikið af gasi á degi hverjum.

nabucco_gas_pipeline_project_gas_supply_sources_1043428.gif

Þar erum að ræða hina margumtöluðu Nabucco. Leiðslan sú mun ekki aðeins færa Evrópu gas frá gasboltunum á Kaspíahafssvæðinu. Nabucco-gasleiðslan er nefnilega ennþá mikilvægari; hún er hugsuð sem hryggjarstykkið í frekari framtíðartengingum Evrópu við gaslindir í Írak og jafnvel líka í Íran. Gangi þær áætlanir eftir mun orkubrúin Tyrkland ekki aldeilis verða einbreið og gamaldags Fnjóskárbrú, heldur verður þetta sannkallað Energy-Freeway fyrir Evrópu.

Nabucco virðist svo sjálfsögð framkvæmd að það er í reynd með ólíkindum að eftir átta ára umræðu og samninga, er verkefnið ennþá á hugmyndastigi. Og ennþá allsendis óvíst hvort af því verði. Gasþorstinn í orkuhnignandi Evrópusambandinu er mikill og óvíða er að finna meiri gaslindir en í Mið-Asíu. Samt er engin - ekki ein einasta - gasleiðsla þarna á milli.

btc-pipeline-2.jpg

Ennþá fær Evrópa langmest af gasinu sínu frá Rússum og hefur ekki í aðra almennilega gas-sjoppu að fara. Til að Evrópa geti hrist af sér tangarhaldið sem þetta hefur gefið Rússum, er Nabucco borðleggjandi framkvæmd.

Byrjað var af alvöru að vinna í hugmyndinni um Nabucco árið 2002. Búið er að ganga frá samningum um legu leiðslunnar og komin eru nokkur afar öflug orkufyrirtæki að verkefninu. Risaskref var tekið þegar þýski orkuboltinn RWE varð hluthafi í verkefninu árið 2008. Það eina sem er eftir til að geta byrjað að leggja leiðsluna er bara "smámálið"; nefnilega það að tryggja gas í leiðsluna!

south_stream_vs_nabucco.png

Enn hafa ekki náðst samningar þar um við Azerana og Túrkmenana. Þar að auki vantar ennþá gastenginguna þvert yfir Kaspíahafið; á milli Bakú og Túrkmenistans. Ómögulegt er að segja hvenær Trans-Kaspíahafsleiðslan verður lögð, eftir botni Kaspíahafsins, en hún mun bæði opna aðgang að gasinu í Túrkmenistan og að æpandi gaslindum Kazakhstan.

Það er sem sagt alls ekki víst að þessar stórhuga áætlanir um Nabucco og tengingar við gaslindirnar á Kaspíasvæðinu (og síðar Írak og Íran) verði að veruleika í bráð. Og samkeppnin er hörð. Kínverjar hafa verið afar duglegir undanfarin ár að tryggja sér aðgang að kolvetnisauðlindum Mið-Asíuríkjanna austan og sunnan Kaspíahafsins. Og Rússar ætla sér ekki að kyngja því þegjandi og hljóðalaust að Tyrkland verði í hlutverki orkubrúar milli Mið-Asíu og Evrópu. Baráttan milli Nabucco og South Stream er á fullu og ómögulegt að segja hvor leiðslan hafi vinninginn. Sú þeirra sem fyrr verður hafist handa við er líkleg til að ryðja hinni úr vegi.

putin-eu-meeting.jpg

Rússar hafa síðustu árin staðið sveittir í að tryggja sér samninga við gasveldin við Kaspíahaf um að kaupa frá þeim sem allra mest af gasi. Ekki til að nota í Rússlandi, enda nóg af gasi þar. Heldur til að þeir fái tekjurnar af því að flytja gasið áfram til annarra kaupenda - svo sem landa innan ESB.

Hugsunin þarna að baki byggir ekki bara á bissness. Miklu fremur er þetta útpæld strategía til að auka áhrif og völd Rússlands gagnvart Evrópusambandinu. Planið er sáraeinfalt; að gasið frá löndum eins og Kazakhstan, Túrkmenistan og Azerbaijan fari um leiðslur til Rússlands og Rússar svo selji það áfram til ESB um South Stream og aðrar gasleiðslur frá Rússlandi til Evrópu. Um leið myndu Rússar t.d. hafa í hendi sér að geta skrúfað fyrir gasið þegar þeim hentar! Sumir segja að þar með yrði Evrópa endanlega á valdi Rússlands.

Þó svo Orkubloggaranum þyki Moskva margfalt fallegri, glæsilegri og skemmtilegri borg en Brussel, veldur þessi þróun mörgum Evrópumönnum áhyggjum. Þeir hinir sömu líta svo á að það hafi gríðarlega pólitíska þýðingu fyrir Evrópu að Nabucco-leiðslan verði lögð.

gas_pipeline-construction-syria-sheep.jpg

Og takist ESB ekki fljótlega að tryggja lagningu Nabucco skapast líka ný hætta. Nefnilega sú að Tyrkland lendi í vandræðum með að fá gas til innanlandsnotkunar. Það gæti hrakið Tyrki endanlega í faðm Rússa, sem hefði afgerandi áhrif á pólitíska þróun mála ekki aðeins í Mið-Asíu heldur líka í Mið-Austurlöndum.

Rússar vilja ólmir að ESB fái gasið sitt austanfrá um South Stream fremur en Nabucco. Og að Tyrkir fái sitt gas líka beint frá Rússlandi. Rússland er nú þegar orðinn mikilvægasti gasbirgir Tyrkja, sem fá rússneskt gas um Blue Stream leiðsluna, sem lögð var milli landanna á árunum 2001-02 eftir botni Svartahafsins. Og nú hafa Rússar hug á að leggja aðra leiðslu þarna suður til Tyrklands, sem muni svo halda áfram til ríkjanna í Mið-Austurlöndum, þ.e. landanna sunnan Tyrklands.

Þá myndi gas streyma frá Rússlandi til landa eins og Sýrlands, Líbanon og Ísrael. Slíkt myndi væntanlega ekki alveg samrýmast bandarískum hagsmunum. Þess vegna kom það mörgum á óvart þegar sjálfur Obama Bandaríkjaforseti tók af skarið á liðnu ári og lýsti yfir stuðningi við lagningu South Stream. Þar með var hann í reynd að tala niður Nabucco, en fram að því hafði Bandaríkjastjórn lagt sérstaka áherslu á að Nabucco verði reist áður en South Stream komi til greina.

richard-morningstar.jpg

Umskiptin virðast einkum hafa komið til vegna þess að Bandaríkjastjórn hafi áhyggjur af því að Nabucco geti styrkt pólitíska stöðu Klerkastjórnarinnar í Íran. En í Brussel eru menn ekki aldeilis sama sinnis og þar ráku margir upp ramakvein við yfirlýsingu Rikharðs Morgunstjörnu f.h. bandarískra stjórnvalda.

Þetta sýnir glögglega hvernig Hvíta húsið westra lítur nú á Íran sem hinn eina sanna óvin. Að auki er hugsanlegt að Bandaríkjastjórn meti góð samskipti við Rússa jafnvel ennþá meira en velferð Evrópu. Það kann að stafa af áhyggjum Bandaríkjastjórnar af miklum uppgangi Kína. Kínverjar hafa verið að færa sig upp á skaftið gagnvart gömlu Sovétlýðveldunum við Kaspíahaf, þar sem bæði er að finna gríðarlegt gas og ekki síður olíu. Rússar hafa árangurslítið reynt að spyrna þar við fótum - en þurft að horfa upp á æ fleiri samninga milli Kínverjanna og Kaspíahafsríkjanna um sölu á bæði olíu og gasi þaðan og beint austur til Kína.

gas-pipeline-central-asia_china-2008.jpg

Byrjað er að reisa stórar gasleiðslur til Kína frá Túrkmenistan og öðrum ríkjum austan Kaspíahafsins og Bandaríkin skynja það, að til að eiga roð við Kínverjunum sé skynsamlegt að rækta gott samband við Rússa. Vegna þessa og vilja þeirra til að einangra klerkana í Tehran, virðist nú sem South Stream sé að hafa vinninginn umfram Nabucco. Á Evrópa öngvan vin?

En allt er í heiminum hverfult. Á síðustu misserum hefur orðið æ meira áberandi hvernig nýja shale-gas-tæknin virðist ætla að gjörbreyta þróuninni á gasmörkuðunum. Og þar með orkumörkuðunum eins og þeir leggja sig. Þessi nýja framleiðslutækni hefur stóraukið framboð af gasi í Bandaríkjunum. Það hefur valdið miklum verðlækkunum á gasi, sem er til þess fallið að hjálpa Evrópu og öðrum gaskaupendum að ná vopnum sínum á ný gagnvart Rússum og öðrum seljendum.

europe-shale-gas-map.jpg

Þar að auki er væntanlega bara tímaspursmál hvenær þessi nýja tegund af gasvinnslu kemur til Evrópu. Þar eru svæði í Þýskalandi, Póllandi og Úkraínu hvað áhugaverðust. En orkuiðnaðurinn í Evrópu virðist miklu þunglamalegri en vestan hafs. Ennþá hefur shale-gas-tæknin furðu lítið sést hér í Gamla heiminum.

Hvað um það. Gasverð hefur lækkað ótrúlega mikið á stuttum tíma og engan veginn náð að halda í olíuverðið (eins og sést vel af myndinni hér að neðan, sem er beint af vef Orkubloggsins). Lægra verð á gasi eru góð tíðindi fyrir gaskaupendurna, en stærstu gasútflutningsríkin eru að fá mikinn skellinn. Þetta er afar vond þróun fyrir Rússa, sem eru langstærsti gasútflytjandi heimsins. Þeir eru bæði að missa af miklum tekjum og nýja gasvinnslutæknin gæti þar að auki dregið talsvert úr pólitískum áhrifum þeirra gagnvart Evrópu.

oil-nat-gas_price_nov18-2010.png

Sumir segja að gasið sem nú flæðir á markaðinn frá shale-vinnslusvæðunum valdi því að í reynd verði hvorki þörf fyrir South Stream né Nabucco - fyrr en eftir fjöldamörg ár. Þar að auki muni brátt streyma gas til Evrópu frá nýjum vinnslusvæðum í A-Evrópu. Það væri engu að síður mikið kæruleysi af ESB að setja Nabucco á ís. Það mun koma að því að aðgangur að orkulindum Mið-Asíu verður algert grundvallaratriði til að halda efnahagslífinu gangandi. Þess vegna væri afar óskynsamlegt af ESB að slaka á í viðleitni sinni til að efla tengsl sín við orkubrúna Tyrkland.

Það mælir sem sagt allt með því að Evrópa fjölgi tengingum sínum við helstu gasframleiðendur heimsins og forðist að lenda í úlfakreppu af hendi eins eða örfárra framleiðenda. En vissulega mun nýja gasvinnslutæknin gefa ESB smá umhugsunarfrest og valda umtalsverðum breytingum í orkujafnvægi heimsins.

Efnahagslega mun þessi nýja tækni líklega fyrst og fremst styrkja Bandaríkin og veikja Rússland. Þetta gæti líka komið Norðmönnum illa, sem hafa verið að byggja upp mikla og dýra gasvinnslu lengst norður í rassi. Norðmenn geta þó alltaf huggað sig við það að gasið fýkur ekki burt. Sama hvernig fer þá mun alltaf koma að því að þeir geti ráðist í enn meiri gasvinnslu í Barentshafi. Bara spurning umtíma.

gazprom-sign-night.jpg

Kannski má segja að ein stærsta orsökin fyrir hnignun og falli Sovétríkjanna hafi verið að olíuverð hrundi í upphafi níunda áratugarins og hélst ofurlágt allan áratuginn. Olían var Sovétríkjunum mikilvæg tekjulind og þetta lága olíuverð stráfelldi efnahag þeirra. Enda er sagt að Reagan og félagar hafi lagt hart að Sádunum að framleiða olíu eins og brjálaðir menn til að grafa undan Sovétríkjunum.

Eitthvað er óvíst hvort þessar sögur um olíustrategíu Washington DC gagnvart Rússum eigi við rök að styðjast. En lágt olíuverð var a.m.k. veruleiki allan 9. áratuginn og það kom Sovétríkjunum illa. Ef það sama gerist nú með gasið er ekki víst að Rússland sjái fram á bjarta tíma í nánustu framtíð. Lágt gasverð mun tvímælalaust veikja Rússland.

gas-pipeline-russia.jpg

Þessi nýjasta vending í orkumálunum kann að hjálpa Evrópu að fá smá slaka á orkusnöruna, sem hefur verið að herðast að hálsi bandalagsins undanfarin ár. En menn mega ekki gleyma að hugsa til langs tíma. Gasleiðslur um Tyrkland eru bæði til þess fallnar að tryggja fjölbreyttara framboð OG aðgang að ódýrara gasi. Þess vegna ætti Evrópusambandið alls ekki að slaka á við að byggja upp Tyrkland sem orkubrú.

 


Aðvörunarorð frá Jeremy Grantham

Öll eigum við okkar idol. Hvort sem það er T. Boone Pickens, John Bogle eða Meredith Whitney. Eða einhver allt annar eða önnur.

jeremy-grantham-interview-cnbc_november-11-2010.png

En í dag mælir Orkubloggarinn með frábæru viðtali við Jeremy Grantham á CNBC nú í vikunni sem leið. Nánast skuggalegt að hlusta á þennan aldna snilling: "The Fed has spent most of the last 15, 20 years manipulating the stock market whenever they feel the economy needs a bit of a kick".

Í stuttu máli sagt, þá líst honum alls ekki vel á stöðu mála og ennþá verr á þær aðgerðir sem bandaríski Seðlabankinn hefur gripið til. Hlutabréf séu almennt orðin alltof dýr vegna fáránlegrar stefnu bankans og ekkert annað yfirvofandi en hrun á hlutabréfamörkuðum.

Fyrir Orkubloggarann er þó ennþá athyglisverðara það sem Grantham segir um hrávörumarkaðinn. Til skemmri tíma virðist hann reyndar sammála bloggaranum um að hrávöruverð nú um stundir sé óeðlilega hátt og sé líklegt til að lækka. En til lengri tíma litið virðist Grantham sannfærður um yfirvofandi miklar hækkanir á hrávöruverði.  Hann er sem sagt ekki jafn bjartsýnn eins og Orkubloggarinn um að enn sé nóg af hrávörum í jörðu. "We're entering a period where we're running out of everything. The growth rate of China and India is simply - can't be borne by declining quality of - of resources. And - and I think we're in a period that I call a chain-linked-crisis in commodities."  

maria_bartiromo_grantham-interview.png

Nú vill svo til að Grantham er einn af þessum vísu öldnu og þrautreyndu mönnum sem Orkubloggarinn hlustar ætíð á af mikilli athygli. Nánast sýgur í sig hvert orð og íhugar. Og ekki er verra þegar það er ofurskutla eins og hún Maria Bartiromo sem tekur viðtalið. Og í fúlustu alvöru; bloggarinn hvetur alla lesendur Orkubloggsins til að gefa sér tíma til að hlusta á eða lesa þetta viðtal hennar við Jeremy Grantham. Hverrar mínútu virði.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Grantham's er rétt að nefna að hann er einn stofnenda fjárstýringafyrirtækisins Grantham Mayo Van Otterloo (GMO) í Boston. Sem er með meira en 100 milljarða USD umhendis. Þannig að Jeremy Grantham er vanur að höndla með fjármuni og bera mikla ábyrgð gagnvart sínum viðskiptavinum. Hann er því enginn gasprari og vert að gefa orðum hans gaum.

Sem fyrr segir má sjá viðtalið á vef CNBC. Þeir sem frekar vilja lesa viðtalið, heldur en að hlusta á yfirvegaða rödd Grantham's, geta lesið viðtalið hér á vef CNBC. Einnig má skoða það m.a. á You Tube, þar sem það er nú að finna í þremur hlutum: 

 

 

 


Kárahnjúkar og Kína

Aldrei að segja aldrei. En væntanlega er það samt svo að stærsta vatnsaflsvirkjun sem byggð verður á Íslandi er risin. Kárahnjúkavirkjun.

three_gorges_dam-1.jpg

Metin eru aftur á móti enn að falla þegar litið er til heimsins alls. Nú fyrir rétt rúmri viku síðan urðu þau merku tímamót að lónshæð Þriggja gljúfra virkjunarinnar austur í Kínaveldi náði í fyrsta sinn hámarkshæð sinni (þetta markmið náðist þriðjudaginn 26. okt. 2010). Þar með getur þessi magnaða 18 þúsund MW risavirkjun senn farið að skila fullum afköstum. Sem mun skila u.þ.b. 85 TWst inn á dreifikerfið í Kína á ári, en það samsvarar um fimmfaldri raforkuframleiðslu allra virkjana á Íslandi!

En þó svo þetta mikla verkefni sé nú að baki, þá eru Kínverjar langt frá því að vera hættir í vatnsaflinu. Því þeir vinna nú að hugmyndum um sannkallaða ofurvirkjun, sem yrði næstum tvöfalt stærri en nýja risavirkjunin kennd við gljúfrin þrjú. Og sennilega bara tímaspursmál hvenær af því verður að þessi ótrúlega virkjun rísi - í ósnertum dölum Tíbets.

Það er reyndar svo að jafnvel Orkubloggarinn á erfitt með að átta sig á umfangi svona framkvæmda eins og þarna austur í Kína. Enda hefur bloggarinn aldrei komið á svæðið. En það er magnað að skoða myndir frá virkjunarsvæði Þriggja gljúfra stíflunnar - hvort sem eru af stíflumannvirkjunum, uppistöðulónunum eða skipastigunum.

three_gorges_three_gorges_dam_project_yangtze_river_2005.jpg

Það segir talsvert mikið um geggjaða stærðina, að virkjunin samanstendur af alls 26 hverflum (túrbínum) sem hver og einn er aflmeiri en samanlögð Kárahnjúkavirkjun! Því hver hverfill er nett 700 MW (Kárahnjúkavirkjun er alls 690 MW). Svo á virkjunin þar að auki eftir að stækka talsvert á næstu árum þegar sex hverflum verður bætt við. Þá verður aflið samtals rúmlega 22 þúsund MW og virkjunin mun þá framleiða hátt í 100 TWst árlega (nú um 85 TWst).

Það er ekki nóg með að Kínverjar hafi smíðað einhverja mestu skipastiga heimsins upp meðfram stíflunni, heldur eru þarna líka skipalyftur. Það tekur nefnilega skolli langan tíma fyrir skip, sem sigla eftir Yangtze-fljótinu, að fara eftir stigunum. Þess vegna var ákveðið að gera líka lyftur til að flýta fyrir skipaumferðinni!

three-gorges-dam-water.jpg

Þriggja gljúfra virkjunin er langstærsta vatnsaflsvirkjun sögunnar - til þessa. Sem fyrr segir er afl virkjunarinnar nú um 18 þúsund MW, sem er um níu sinnum meira afl en allar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi samanlagðar. Og um 30% meira en næst stærsta vatnsaflsvirkjun heimsins, sem er Itaipu-virkjunin á landamærum Brasilíu og Paraguay. Hún er 14 þúsund MW, en fullgerð verður Þriggja gljúfra virkjunin um 60% stærri en Itiapu að afli.

Fyrir þá sem álíta gott að Landsvirkjun fái þetta ca. 25 mills fyrir kWst frá Fljótsdalsstöð má nefna að raforkuverðið frá Þriggja gljúfra virkjuninni er á bilinu 35-45 mills! Þessi samanburður verður jafnvel ennþá athyglisverðari þegar haft er í huga að hvert MW í Þriggja gljúfra virkjuninni kostaði einungis um 1,5 milljón USD - sem er a.m.k. 25% minna en hvert MW mun kosta í neðri hluta Þjórsár. Við erum sem sagt að byggja dýrari virkjanir (m.v. uppsett afl) heldur en Kínverjarnir, en samt að selja raforkuna á miklu lægra verði. Það gengur svona.

three-gorges-dam-map.gif

Reyndar eru afköst íslensku virkjananna almennt mun meiri en gengur og gerist hjá vatnsaflsvirkjununum austur í Kína (þ.e. framleiðsla pr. MW). Fyrir vikið er unnt að reka íslensku virkjanirnar þrátt fyrir þetta áðurnefnda ofurlága raforkuverð til álveranna hér á Íslandi. En þetta breytir því ekki að hér á landi erum við að selja raforku frá nýjum vatnsaflsvirkjunum á verði sem þekkist hvergi annars staðar í heiminum.

Vissulega geta álver og önnur stóriðja fundið ódýra orku víðar en á Íslandi - eins og t.d. gasorkuna við Persaflóann. En það er slæmur bissness fyrir nýja vatnsaflsvirkjun að selja rafmagnið á jafn lágu verði eins og gerist hér.  Þetta segir okkur einfaldlega að þegar neðri Þjórsá verður virkjuð verður að miða við að orkuverðið þaðan verði a.m.k. 40-45 mills. Allt annað væri algerlega fráleitt í alþjóðlegu samhengi.

hvdc_china_cables.jpg

Það skemmtilega við þessa rosalegu virkjun þarna í Yangtze djúpt inni í Kína, er að hún hefur leitt til mikilla framfara í raforkuflutningum. Flytja þarf allt þetta gríðarlega rafmagn (85 og síðar 100 TWst árlega) hina löngu leið frá virkjuninni; þúsundir km austur til þéttbýlisins (mest fer til Shanghai-svæðisins). Þetta hefur leitt til þess að nú er komin ennþá meiri þekking og enn meiri reynsla á gríðarlangar háspennutengingar, sem flytja raforkuna á áfangastað í formi jafnstraums (HVDC-kaplar).

Þetta hefur einnig stuðlað að framförum í löngum neðansjávarstrengjum. Fyrir vikið gæti þróunin í Kína flýtt fyrir því að rafmagnskapall verði lagður milli Íslands og annarra landa. Og þá myndum við loks geta fengið álíka verð fyrri raforkuna - og jafnvel umtalsvert hærra verð - heldur en Þriggja gljúfra virkjunin fær fyrir sitt rafmagn. Það er því fullt tilefni fyrir Íslendinga að horfa björtum augum til framtíðar.

yarlung_tsangpo_river_tibet.jpg

Að lokum er vert að nefna að þó svo einungis rúm vika sé síðan vatnborð Þriggja gljúfra lónsins náði hámarki, eru Kínverjarnir strax byrjaðir að skipuleggja næstu risastíflu. Sem á að verða miklu stærri! Þar er um að ræða lauflétta 40 þúsund MW virkjun í einni af mestu stórám Asíu - ánni sem kennd er við sjálfan son hindúaguðsins Brhama.

Áin Brhamaputra heitir reyndar Yarlung Zangbo þarna sem hún rennur eftir gríðarmiklum dölum hátt uppi á tíbetsku háslettunni rétt norðan Himalaja-fjallanna. Þar er lækkunin um 1.500 m á nokkuð löngum kafla, en svo steypist áin ofan af hásléttunni og fellur þá um einhver svakalegustu gljúfur sem um getur í heimi hér.

yarlung-valley.jpg

Á einum stað treður áin sér á milli tindanna Namche Barwa og Gyala Peri, sem báðir eru yfir 7 þúsund metra háir og liggja austarlega í Himalaja-fjallgarðinum. Sjálfir tindarnir rísa þarna litla 5 þúsund metra upp af þröngum dalnum og segja kunnugir þetta einhverja mestu náttúru-upplifun á jörðinni allri. Hljómar ekki óspennandi. Stórleikur landskaparins - eins og Sigurður heitinn Þórarinsson lýsti náttúrufegurðinni í Skaftafelli - er hugsanlega hvergi meiri en einmitt þarna í frjósömum dölum Himalaja.

Monsúnrigningarnar sjá fyrir því að brattar hlíðarnar eru skógi vaxnar hátt upp og dýralífið hreint dásamlegt þarna í fjallasalanum frjálsa. Þar fellur áin í mörgum ofsalegum fossum og kannski er þetta það svæði sem mannshöndum ætti síðast að ná að setja mark sitt á. En Kínverjarnir eru ekkert að jarma með svoleiðis rómantísku söngli, enda er þarna um að ræða afar spennandi fallhæð.

Vesenið er bara að Yarlung Zangbo fellur síðan suður til Indlands og þaðan inní Bangladesh, þar sem hún sameinast sjálfri Ganges. Þess vegna eru Kínverjar ekki alveg afskiptalausir um hvað þeir gera við ána og nágrannar þeirra í suðri eru strax byrjaðir að nöldra útí stórhuga áform þeirra um að virkja Brahmhaputra.

brahmaputrarivermap.png

Ekki verður framhjá því litið að áin hefur mikil og bein áhrif á líf tugmilljóna ef ekki hundruð milljóna manna (hvað mest á óshólmasvæðunum rosalegu í Bangladesh). Tilfæringar með ána norður í Tíbet er því svolítið flóknara og umfangsmeira mál heldur en t.d. vatnshæð Hálslóns eða áfok þaðan. Nú er bara að sjá hvort Kínverjar láta slíkt smáræði stöðva sig. Skiljanlega súrt fyrir þá að sjá allt þetta ofsalega afl streyma óvirkjað til sjávar hér í orkuþyrstum heimi. En það er líka umhugsunarefni hvort enginn staður á jörðinni eigi að fá að vera í friði fyrir mannskepnunni?

 


Sæstrengur og þrír milljarðar evra

"Ég er með tvo aðila sem eru áhugasamir um að fjármagna lagningu sæstrengs fyrir Landsvirkjun til að flytja orku til meginlandsins. Þetta er verkefni upp á 3 milljarða evra... Við skulum átta okkur á því að núna fær Landsvirkjun helmingi lægra verð fyrir orkuna heldur en hún fengi á alþjóðamarkaði... Þessi tækni hefur verið til í 15 ár en stjórnmálamenn hafa engan áhuga haft á henni. Þeir skeyta ekkert um alþjóðlega markaði heldur vilja bara selja orkuna heim í hérað á hrakvirði og byggja þar verksmiðju".

heidar-mar-iceland.jpg

Hér er á ferðinni tilvitnun í Heiðar Má Guðjónsson í viðtali sem birtist á forsíðu Fréttatímans nú um helgina. Heiðar Már er þar sagður hafa verið kallaður Svarthöfði vegna efasemda sinna um útþenslu bankanna og að hann hafi haft uppi varnaðarorð allt frá árinu 2005. Eða einmitt á þeim tíma þegar Orkubloggarinn fór sjálfur að hnykla brýrnar yfir bönkunum.

Heiðar Már er fyrrum starfsmaður Novators Björgólfs Thors og það eitt og sér veldur því að sumir hér á Klakanum góða verða tortryggnir. Skiljanlega. Það breytir því þó ekki, að umrædd ábending Heiðars Más um orkuverðið og framkomu stjórnmálamannanna er einfaldlega hárrétt. Og það er líka full ástæða til að taka undir orð hans, sem fram koma í viðtalinu, um að vonandi takist hinum nýja forstjóra Landsvirkjunar, Herði Arnarsyni, að nýta vaxtarmöguleikana sem felast í svona sæstreng.

Heiðar Már hefur verið mikið á milli tannana á fólki síðustu dagana - vegna meintra áætlana hans og Novators um að taka þátt í að sjorta krónuna og hagnast þannig á falli hennar. Nú vill reyndar svo til að það að taka skortstöðu vegna gjaldmiðils eru bara viðskipti eins þau gerast á Eyrinni um allan heim á degi hverjum. Þ.a. það þýðir lítið að úthrópa sjortara sem eitthvað verri menn heldur en þá sem veðja á hinn veginn; að gjaldmiðill, hlutabréf, hrávara eða hvað sem er hækki í verði. Þá mætti eins halda því fram að þeir sem eru "long" í krónunni séu að taka þátt í ægilega ljótu veðmáli gegn íslenska sjávarútveginum og öðrum framleiðslugreinum sem byggja á útflutningi. Það er vandlifað.

En Orkubloggarinn ætlar ekki að fara hér að verja umræddan mann og enn síður Bjórgólf Thor. Heldur beina athygli að nokkrum atriðum sem fram koma í áðurnefndu viðtali. Þetta viðtal er nefnilega um margt athyglisvert. Þar er m.a. bent á ákveðna staðreynd sem tímabært er að Íslendingar átti sig: Þjóðin er svo gæfusöm að eiga æpandi miklar og mikilvægar náttúruauðlindir; hina nánast heilögu þrenningu vatn, prótín og orku. Gæti varla betra verið - í alvöru talað. Og það eru ekki síst þessar auðlindir sem eru til þess fallnar að börnin okkar og barnabörn geta horft fram á bjartari framtíð en flestir aðrir í heimi hér.

climate-change_index_countries_at_risk_map.png

Heiðar Már nefnir líka í viðtalinu annað afar mikilvægt atriði, sem Orkubloggarinn hefur sjálfur nokkrum sinnum minnst á og snertir okkur Íslendinga. Nefnilega það að sennilega standa fáar þjóðir jafn vel að vígi vegna hlýnandi loftslags, eins og einmitt Íslendingar. Þetta eru ekki bara orðin tóm - og þetta byggist ekki bara á því að það verði ósköp notalegt að fá aðeins mildari sumur hér á Klakanum góða. Þetta er beinlínis orðið vísindalega viðurkennt.

Vísinda- og fræðimenn virðast almennt orðnir sammála um það að afar litlar líkur séu t.a.m. á því að hlýnunin muni valda því að Golfstraumurinn hætti að fara hingað norður eftir (en það myndi geta valdið mikilli kólnun á Norðurslóðum og ekki síst við Ísland). Þess í stað bendir nú flest til þess að Golfstraumurinn haldi sínu striki og beri ennþá meiri varma hingað norður. Og það verði einmitt lönd eins og Noregur og Ísland sem muni koma best út af öllum ríkjum heimsins í kjölfar hlýnunar. Auðvitað er illmögulegt að segja hver áhrifin verða, en gangi þetta eftir merkir það einfaldlega að staða Íslands mun hlutfallslega styrkjast í framtíðinni.

hvdc-kapall-thversnid-2.jpg

Heiðar Már bendir sem sagt þarna á nokkur afar mikilvæg atriði. Og honum virðist umhugað um að Landsvirkjun fari í það að leggja rafstreng héðan til Evrópu. Það rímar að sumu leyti vel við það sem margoft hefur verið fjallað um hér á Orkublogginu. Það er eftir engu að bíða að reyna koma þessum kapalmálum á fullt skrið.

Engu að síður þykir Orkubloggaranum svolítið sérkennilegt að Heiðar Már talar um að einhverjir séu tilbúnir að fjármagna sæstreng milli Íslands og Evrópu "fyrir Landsvirkjun". Það væri varla neitt vit í því að Landsvirkjun færi að ráðast í svo mikla fjárfestingu og taka á sig alla rekstraráhættuna vegna strengsins. Svona framkvæmd getur varla orðið álitleg nema að t.d. eitthvert stórt TSO á meginlandinu taki þátt í henni. T.d hollenska TenneT eða þýska RWE svo dæmi séu tekin (TSO stendur fyrir Transmission System Operator og hér á landi er Landsnet í því hlutverki).

Með því móti mætti með einföldum hætti dreifa kostnaðinum af kaplinum á alla orkusölu viðkomandi TSO. Kapallinn yrði bara lítill hluti af risastóru dreifineti og með þessu yrði unnt að takmarka áhættuna og þar með auðveldara og ódýrara að fjármagna framkvæmdina. 

lansvirkjun-hordur-hvdc-april-2010.png

Auðvitað eru til önnur prýðileg viðskiptamódel um svona kapal - en samt dálítið galið að ætla að láta Landsvirkjun gera þetta. Sennilega væri kapall til Þýskalands í samstarfi við RWE einhver hagkvæmasta, raunhæfasta og öruggasta leiðin. Af því bæði er raforkuverð hátt í Þýskalandi og flutningskerfið þar afar vel búið til að taka við svona nýjum tengingum. Þar með er ekki sagt að ekki megi finna enn betri kosti - þetta er einfaldlega bara það sem kemur fyrst upp í hugann þegar maður veltir fyrir sér hvernig mætti útfæra svona verkefni svo vel sé. En leiðin sem Heiðar Már nefnir er ósannfærandi.

Bloggaranum þykir líka svolítið sérkennileg sú upphæð sem Heiðar Már lætur hafa eftir sér um kostnað vegna strengsins. Af því það er hæpið að strengurinn myndi kosta 3 milljarða evra, eins og Heiðar Már heldur fram. Svona kapall ásamt spennubreytum og tengimannvirkjum myndi að öllum líkindum kosta umtalsvert lægri fjárhæð en það - og er því væntanlega ennþá betri bissness en Heiðar Már álítur. Orkubloggarinn ætlar að láta vera að geta sér til um hver sé ástæðan fyrir þessari ofáætlun Heiðars Más. En það eru skrítnir fjárfestar sem bjóða fram 3 milljarða evra í verkefni sem flestir álíta að sé miklu mun ódýrara.

norned_hvdc_europe.jpg

Í reynd veit þó vissulega enginn nákvæmlega hvað þetta myndi kosta. Þetta væri margfalt lengri neðansjávar-rafmagnsstrengur heldur en sá lengsti sem lagður hefur verið fram til þessa. NorNed er sá lengsti; hann er um 580 km og kostaði 600 milljón evrur. Ef miðað er við að strengur frá Íslandi lægi til Þýskalands, þá yrði hann um 2.000 km langur. Meira en þrisvar sinnum lengri en NorNed!

Dýpið sem strengurinn lægi á yrði líka talsvert miklu meira en grunnsævið sem NorNed fer um. Þar er mesta dýpið rúmir 400 metrar, en á kafla myndi Íslandsstrengurinn þurfa að liggja á allt að 1.000 metra dýpi. Það þekkist þó að slíkir háspennustrengir í sjó liggi á ennþá meira dýpi. En þarna fer saman mikil lengd og verulega mikið dýpi. Þetta yrði því áhættusöm framkvæmd.

Vissulega er þessi HVDC-tækni löngu orðin vel þekkt og slíkir strengir á landi eru í sumum tilvikum mörg þúsund km langir. Ekki síst austur í Kína, sem er sannkallað gósenland fyrir ABB og aðra þá sem koma að framleiðslu og uppsetningu þessa tæknibúnaðar. En reynslan með mjög langa HVDC-strengi í sjó er ekki mjög mikil enn sem komið er. Og það yrði risaskref að fara úr 580 km og í 2.000 km sæstreng.

norned_hvdc-cable-work-1.png

Hjá ABB segja menn að þetta sé hægt. Og að svona langir kaplar verði orðnir staðreynd e.h. staðar í heiminum eftir tiltölulega fá ár. Mesta áhættan liggur í því ef - eða öllu heldur þegar - bilanir verða. Það er ekki einfalt mál að "kippa" svona streng upp til að laga hann. Né að framkvæma viðgerð á mörg hundruð metra dýpi. Og á meðan verið er að stússa í viðgerðum liggur allur flutningur um strenginn niðri, með tilheyrandi æpandi tekjutapi. Hver á að bera áhættuna af því? Vill einhver tryggja svona metnaðarfulla framkvæmd - svona mikið nýjabrum?

Höfum líka í huga að NorNed-kapallinn var ýmist grafinn talsvert ofaní hafsbotninn eða - þar sem því varð ekki viðkomið að grafa hann niður - varinn með grjóti. Þetta var m.ö.o. ekki einföld framkvæmd. Þó svo Orkubloggarinn hafi stundum talað fjálglega um svona kapal milli Íslands og Evrópu, er ekki unnt að fullyrða að þetta sé örugglega hagkvæmt. Til að geta komist að raunverulegri og nákvæmri niðurstöðu þar um, þarf einfaldlega að skoða þetta af alvöru og þá með þeim fyrirtækjum sem best þekkja til svona neðansjávar-HVDC-kapla.

norned_hvdc-cable-work-3.png

En það er margt að gerast í þessum kapalmálum. Það er jafnvel búist við að senn komi fram ný tegund af neðansjávar-rafstrengjum sem verði miklu hagkvæmari og betri en þeir sem þekkjast í dag. Og hvað sem allri áhættu og óvissu líður er svo sannarlega mikilvægt að þetta verði athugað mjög gaumgæfilega.

Það er hárrétt sem Heiðar Már segir í umræddu viðtali, að svona strengur myndi gjörbreyta samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart stóriðjunni. Álbræðslurnar hér á landi eru í áratugi búnar að mergsjúga til sín allan þann arð sem myndast í raforkuvinnslu á Íslandi. Stóriðjan hefur tvímælalaust borð fyrir báru til að greiða umtalsvert hærra raforkuverð en það sem hún hefur komist upp með til þessa.

verne-global-homepage.jpg

En það getur orðið vandasamt að ná fram hækkunum hér á raforkuverði til stóriðjunnar - nema að búa til nýja eftirspurn og virkari samkeppni um orkuna. Það gæti gerst með svona 10-20 gagnaverum (sic) og/eða með því að leggja sæstreng til Evrópu (eða Kanada).

Að þessu þarf að vinna af krafti. Þetta gæti orðið eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar og skapað mikinn arð af raforkuframleiðslunni. Þarna dugir þó ekki óðagot. "Svarthöfði" verður að passa sig á að halda bjartsýninni í hófi. En sé það rétt að 3 milljarðar evra séu tiltækir núna, verður reyndar varla erfitt að útvega fjármagn í þetta þegar þar að kemur. Þannig að kannski er barrrasta fyllsta tilefni til bjartsýni.

 


Tækifæri i jarðhita

rock-energy-header.png

Norðmenn eru búnir að uppgötva jarðvarmann. Já - æpandi vatnsaflið sem fellur af norska hálendinu og flæðandi olíu- og gaslindir landgrunnsins eru Norsurunum ekki nóg! Nú er norska fyrirtækið Rock Energy að undirbúa að bora litla 5 km undir yfirborðið til að komast þar í varma sem getur nýst til að hita vatn í um 90-95°C. Sjóðandi heitt vatnið á svo að fara inn á lagnir orkufyrirtækisins Hafslund, sem rekur veitukerfið í Osló.

Þetta ætla þau hjá Rock Energy að gera í samstarfi við Tækniháskólann í Noregi (NTNU). Menn frá norsku rannsóknarstofnuninni SINTEF og norsku jarðhitastofnuninni CGER fylgjast líka spenntir með þessu verkefni, enda alltaf gaman þegar ný tækni bætist í orkuflóruna.

wind_turbine_floating_1_1036762.jpg

Hér má líka minna á að í Noregi eru menn framsýnir í að þróa nýja möguleika í orkugeiranum. Þar við hina vogskornu strönd er nú risin seltuvirkjun, sem er rannsóknarverkefni hjá Statkraft (Statkraft er e.k. Landsvirkjun þeirra Norðmanna). Og olíufélagið Statoil er með á prjónunum risastórar fljótandi vindrafstöðvar djúpt útí Norðursjó. Þar hyggst Statoil nýta sér reynslu sína af flotpöllum, sem fyrirtækið hefur lengi notað í olíuvinnslunni.

Orkubloggaranum þykir svolítið ergilegt að horfa upp á öll þessi spennandi verkefni þarna hjá vinum okkar austan Síldarsmugunnar. Það er líka athyglisvert að á sama tíma og Norðmenn ætla að fara að bora þúsundir metra niður í bergið til þess eins að ná í smá yl, talar hávær hópur fólks hér heima á Íslandi gegn því að eitthvert mesta háhitasvæði heims sé nýtt til að framleiða einhverja ódýrustu endurnýjanlegu raforku í heimi. Það er líka slæmt að hér á landi er umræðan öll í einum graut. Það hvar eigi að virkja, fyrir hvaða starfsemi eigi að virkja og hverjir eigi að virkja er öllu blandað saman og ómögulegt að átta sig á hvað fólk eiginlega vill.

Umrætt jarðvarmaverkefni Rock Energy er hugsanlega bara fyrsta skrefið í ennþá metnaðarfyllri áætlunum Norsaranna. Um allan heim er nú horft til möguleika á að nýta s.k. hot rock til að sjóðhita kalt vatn og nota gufuþrýstinginn til að framleiða raforku - eða að nota vatnið til hitaveitu í anda þess sem gerist á Íslandi.

Norðmenn eru með mikla reynslu af því að bora djúpt undir yfirborð jarðar í leit að olíu og gasi. Þessa þekkingu vilja þeir gjarnan nýta til að framleiða endurnýjanlega orku. Og þess vegna finnst þeim borðleggjandi að skoða möguleika á að nýta hitann djúpt í jörðu. Norsararnir tala um að í framtíðinni muni þeir bora 10 km niður og verða leiðandi í nýtingu á ofsahitanum í iðrum jarðar.

geothermal_egs_1036764.jpg

Þess hot-rock tækni er ennþá á tilraunastigi, en nýtur víða mikils stuðnings í baráttunni fyrir kolefnisminni heimi. Orkubloggarinn hefur áður minnst á það sem Bandaríkjamenn og Ástralir eru að gera á þessu sviði.

Sjálfur reyndi bloggarinn fyrir um ári síðan að vekja áhuga eins reyndasta verfræðifyrirtækisins á Íslandi á Ástralíu. Bloggarinn hélt því fram að þar væri tækifæri til að fara í jarðvarmaverkefni, sem væru að miklu leyti kostuð af áströlskum stjórnvöldum og sáralítil fjárhagsleg áhætta fyrir hendi. En því miður var ekki áhugi á því - sem var svolítið súrt því nú fyrir fáeinum dögum bárust fréttir af fyrstu styrkjunum til slíkra verkefna í Ástralíu. Þau lukkulegu fyrirtæki sem þar voru valin úr fengu hvert um sig sem samsvarar um 750 milljónum ISK til borunarverkefna þar í Suðrinu. Kannski engin svakaleg upphæð, en samt hefði verið gaman að sjá íslenskt verkfræðifyrirtæki í þeim ljúfa hópi.

Þar með er ekki sagt að íslenskir verk-og jarðfræðingar séu ekki tilbúnir að spá í nýjungar. Orkubloggarinn fær ekki betur séð en að hjá HS Orku séu menn byrjaðir að nota nýjar aðferðir til að "frakka". Ekki til að ná í gas eins og gert er vestur í Bandaríkjunum, heldur til að losa um bergið í Reykjanesskaganum til að auka vatnsrennslið og fá meiri gufuþrýsting. Spennandi, en sjálfsagt líka umdeilt rétt eins og fracking í New York!

michael-porter_iceland-geothermal.png

Það er við hæfi hér í lokin að vekja sérstaka athygli á athyglisverðum atburði, sem verður hér á Íslandi þann 1. nóvember n.k. Þegar Michael Porter ásamt fleirum koma á ráðstefnuna Iceland Geothermal, sem íslenska fyrirtækið Gekon hefur unnið hörðum höndum að undanfarin misseri.

Vonandi verður þessi viðburður lóð á vogarskál þess að Íslendingar nái í enn ríkari mæli að nýta sérþekkingu sína og mikla reynslu af nýtingu jarðvarma. Bæði til að skapa landi og þjóð ný störf og meiri gjaldeyristekjur, en ekki síður vekja áhuga nýrra erlendra fyrirtækja til að fjárfesta á Íslandi. Frábært framtak.

 


Silfur!

Vikan sem leið færði okkur margar athyglisverðar fréttir.

corn-ethanol-pump.jpgÞar má nefna að bandarísk stjórnvöld ákváðu að leyfa E15 blöndu - sem þýðir 50% meiri styrk etanóls heldur en er í E10. Þó þetta muni sennilega ekki hafa mikil áhrif strax (af því þessi ákvörðun nær einungis til nýlegra bifreiða) hækkaði verð á maís samstundis. Það eru þó ekki endilega bein tengsl þarna á milli. Verðhækkunina á maís má líklega fyrst og fremst rekja til óhagstæðs veðurs. Hækkunin var að auki í takt við hækkun á olíu og gulli - sem sennilega kom einkum til vegna fallandi dollars og vaxandi ótta við verðbólgu.

Þetta eru óróatímar. Þó svo þeir séu margir sem reyna að telja okkur trú um að kreppan sé að baki og bjart sé framundan, er óvissan mikil og þokan á gatnamótum framtíðarinnar óvenju þykk. Sumir búast við verðhjöðnun á Vesturlöndum. Aðrir eru haldnir verðbólguótta.

Í Bandaríkjunum og víðar um heiminn eru peningar prentaðir villt og galið og dælt út í formi lána á afar lágum vöxtum, til að reyna að örva efnahagslífið (nema á Íslandi þar sem menn virðast halda að háir vextir og niðurskurður sé rétta svarið við atvinnuleysi). Þessi peningaprentun gæti haft jákvæð áhrif. En hún gæti valdið verðbólgu. Og ef hjörðin fer að trúa því að verðbólga sé í spilunum gæti senn myndast mikil bóla á hrávörumörkuðunum - þegar peningarnir leita skjóls í gulli og annarri hrávöru, fremur en að brenna upp í verðbólgubáli.

hunt-brothers_famous_rouge_traders.jpg

Þetta er Orkubloggaranum tilefni til að rifja upp einhverja geggjuðustu hrávörubólu allra tíma. Þegar tveir menn - bræðurnir Nelson Bunker Hunt og Herbert Hunt - urðu þess valdandi að silfurverð þrjátíufaldaðist si sona. Sú spákaupmennska með silfur endaði ekki gæfulega fyrir þessa tvo af auðugustu mönnum Bandaríkjanna, enda fer alltaf svo að lokum að markaðir leita jafnvægis. 

Það mætti reyndar pára margar bloggfærslur og jafnvel heilu bækurnar um ævintýralegt lífshlaup Hunt fjölskyldunnar. Fjölskyldunnar sem stóran hluta 20. aldarinnar var einhver sú allra efnaðasta í Bandaríkjunum og þó víðar væri leitað. Hunt er nafn sem klingir sömu bjöllum eins og Rockefeller, Howard Hughes eða Getty.  

Grunnurinn að ofsalegum auði Hunt-fjölskyldunnar var olíufélagið Hunt Petroleum, sem ættfaðirinn stofnaði snemma á 20. öldinni og gerði að stórveldi. Sá hét Haroldson Lafayette Hunt - jafnan kallaður HL Hunt eða bara HL. Hann var bandaríski draumurinn í sinni tærustu mynd; var kominn af fátækum bændum í Illinois en hélt í ævintýraleit til Arkansas snemma á 20.öldinni og fann þar gríðarlegar olíulindir. Og varð brátt efnaðasti einstaklingurinn í gjörvöllum Bandaríkjunum.

ewings.jpg

Sumir vilja meina að Ewing-fjölskyldan eigi sér fyrirmynd í Hunt-fjölskyldunni, enda minnir Jock Ewing um margt á ættföðurinn HL Hunt. Og þeir bræður JR og Bobby voru kannski stundum með svipaðan þankagang eins og Hunt-bræðurinir. En slíka samlíkingu álítur Orkubloggarinn vanvirðingu við Ewing'ana geðþekku. Jafnvel helstu skítaplott JR Ewing jafnast ekki á við vænisýkina, öfgarnar og takmarkalausa græðgina sem einkennt hefur svo marga úr Hunt-fjölskyldunni. 

Fátt er geðugt í fari Hunt-fjölskyldunnar. Það síðasta sem fréttist af afkomendum gamla HL Hunt var þegar eitt barnabarnabarn hans reyndi nýverið að komast yfir Hunt Petroleum (rétt áður en félagið var selt til XTO Energy) og stefndi í því skyni fötluðum föður sínum. Það er allt önnur saga og í dag ætlar Orkubloggið hvorki að fjalla um sögu Hunt Petroleum, slaginn um félagið né um stóðlífið hjá gamla HL Hunt, sem átti 15 börn með þremur konum. Þess í stað ætlar bloggið að staldra við það þegar áðurnefndir synir hans - Bunker og Herbert - ætluðu sér að auðgast ógurlega með því að ná kverkataki á silfurmarkaði veraldarinnar í lok áttunda áratugarins.

Áður en þetta silfurævintýri þeirra bræðra hófst, var Bunker Hunt reyndar löngu búinn að græða einhvern mesta pening sem sögur fara af. Og það á einhverjum stysta tíma sem sögur fara af! Það ævintýri gerðist þegar hann ákvað að leggjast í olíuleit í Mið-Austurlöndum og í N-Afríku. 

sahara-libya-acacus.jpg

Fyrst hélt hann til Pakistan og tapaði milljónum dollara á misheppnaðri olíuleit þar. Þaðan skellti hann sér svo til Líbýu 1957 og fékk leitarleyfi á svæði nr. 65. Þar gekk heldur ekki of vel. En viti menn - rétt um það leyti sem hlutaféð var að verða endanlega brunnið upp hitti borinn í mark. Og það var sko ekkert smá skot; Nelson Bunker Hunt hafði fundið eina af stærri olíulindum heimsins. Þarna hreinlega gubbaðist upp olía úr sannkallaðri risalind og þegar líða tók á sjöunda áratuginn var gamli H.L. Hunt ekki lengur ríkasti maður heims - Bunker sonur hans hafði tekið framúr föður sínum.

Á þessum tímum var olía vel að merkja ekki sjálfkrafa ávísun á auðæfi. Olíuverð var lágt og vonin að hagnast vel á henni var að finna æpandi miklar lindir þar sem gumsið var nánast sjálfrennandi gosbrunnur. Og þannig var þarna í Líbýu; það eina sem þurfti var slanga fra Sarir-lindinni og útí skip. Fyrir vikið var Bunker Hunt skyndilega orðinn auðugasti maður veraldar og var metinn á bilinu 8-16 milljarða dollara.

En lífið er aldrei auðvelt. Nú stóð Bunker frammi fyrir þeirri erfiðu spurningu hvað gera skyldi við aurana, sem spýttust þarna upp úr líbýsku sandeyðimörkinni. Hunt-fjölskyldan er þekkt fyrir að vera svolítið af gamla skólanum og Bunker vildi koma peningunum í eitthvað öruggt. Þar að auki voru þetta verðbólgutímar og því áleit Bunker að líklega væri helst að finna skjól í hrávöru.

roosevelt_gold.gif

Best leist Bunky á að kaupa gull. En vegna bandarískra laga frá því á dögum Kreppunnar miklu var einstaklingum og fyrirtækjum í Bandaríkjunum bannað að safna að sér gulli. Það var sjálfur Roosevelt forseti sem hafði komið því banni á á fjórða áratugnum. Kannski var það ein af ástæðum þess að Bunker Hunt hugsaði demókrötum jafnan þegjandi þörfina og leit þá sömu augum eins og væru þeir kakkalakkar. En gullkaup komu sem sagt ekki til greina, því þá yrði olíubollunni Bunky stungið beint í steininn.

Þetta gullkaupabann demókratanna var loks afnumið um miðjan 8. áratuginn. Nixon hafði hætt að binda dollarann við gullfót og samþykkt voru lög þess efnis að einkaaðilar mættu á ný eiga gullpeninga og gullstangir (lögin tóku gildi í ársbyrjun 1974). En þarna um 1970 gat Bunker Hunt ekki komið ágóðanum í gull, nema eiga á hættu réttarhöld og fangelsi heima í Bandaríkjunum. Enda bölvaði hann oft hressilega yfir demókrötum, sem hann og fleiri fjölskyldumeðlimir töldu jafnan vera hreinræktuð skítseiði og gott ef ekki á launaskrá hjá sjálfu Sovétinu. Í huga Hunt'anna ríkir sem sagt sönn Suðurríkjastemning - og Austurstrandarelítan álitin meðal þess versta í mannheimum. Enda hafa sumar samsæriskenningarnar meira að segja bendlað Bunker Hunt og nokkra aðra ofurhægrimenn í bandaríska olíuiðnaðinum við morðið á JFK. En það er allt önnur saga.

Úr því að gullið var úr leik ákvað Bunker að taka það sem næst kemur eðalmálminum dýrðlega. Silfur! Þar spilaði inní að silfurúnsan var á einungis á um 1,5 dollara og hverjum manni augljóst að það verð var langt undir kostnaðarvirði þess að vinna silfur úr jörðu. Silfurverð var sem sagt nánast óeðlilega lágt og því kannski ekki galið að kaupa svolítið af silfri.

Bunker fékk bróður sinn Herbert með í púkkið og saman byrjuðu þeir að kaupa silfur í stórum stíl. Þetta var 1972 og brátt höfðu þeir bræður keypt yfir 200 þúsund únsur af silfri. Verðið á silfri tók nú að hækka umtalsvert - allt virtist leika í lyndi og eflaust hefðu sumir einfaldlega innleist hagnaðinn. En þeir Bunker og Herbert vildu meira... miklu meira. Sagt er að þarna hafi þeir séð tækifæri til að ná heljartökum á silfurmarkaðnum sem myndi skila þeim ofsagróða.

gaddafi-1970.jpg

En nú kom smá babb í bátinn. Mið-Austurlönd voru að verða æ viðsjárverðari púðurtunna og árið 1973 rændi harðjaxlinn Gaddafi hershöfðingi völdum í Líbýu. Hann heimtaði strax að 51% olíuteknanna rynnu í ríkissjóð. Bunker Hunt  hringdi í snarhasti til Washington og vildi fá bandaríska flugherinn á svæðið eins og skot. En jafnvel þó svo repúblíkanar væru þá við stjórnvölinn í Hvíta húsinu gat Bunker ekki sannfært forsetann og hans menn um að velta Gaddafi úr sessi. Í Washington voru menn ennþá að sleikja sárin eftir Víetnam og lítt spenntir fyrir nýjum hernaðarátökum í framandi landi.

Bunker varð æfur og taldi víst að fjárans kommúnistarnir á Austurströndinni væru að vinna gegn honum. Þar átti hann við Rockefeller-fjölskylduna, sem ennþá var sú áhrifamesta í bandaríska olíuiðnaðinum. Gaddafi færði sig nú upp á skaftið og þjóðnýtti olíulindirnar og þar með lokaðist algerlega fyrir peningastreymið inn á reikninga Bunker's Hunt. Útlitið var alls ekki nógu gott fyrir Silfurdraum þeirra bræðra. Nú var úr vöndu að ráða.

Það breytti því ekki að þeir Bunker og Herbert voru þegar þarna var komið við sögu (ársbyrjun 1974) búnir að tryggja sér um 55 milljón únsur af silfri, sem höfðu tvöfaldast í verði (únsan var komin í um 3 dollara). Komið var að afhendingu mikils hluta af þessu silfri og leystu þeir það allt til sín.

silver-1_1034773.jpg

En nú voru sumir orðnir vænisjúkir. Bunker var sannfærður um að Bandaríkjastjórn ætlaði sér að bæta silfri á bannlistann - að einstaklingum yrði senn bannað að eiga silfur og að þeir bræður myndu þurfa að losa allar silfurbirgðir sínar í snarhasti með tilheyrandi tapi.

Hann og Herbert gripu skjótt til aðgerða - leigðu í snarhasti nokkrar Boeing 707 flutningaþotur sem voru fylltar af silfri og flogið beinustu leið yfir Atlantshafið og til Sviss. Mágur þeirra sem átti stóran búgarð í Texas hafði lánað þeim tólf haglabyssuvopnaða kúreka og þessir ágætu lærissveinar Suðurríkjanna gættu góssins uns það var komið á áfangastað. Þar var herlegheitunum komið fyrir í traustum bankahvelfingum fjarri krumlu bandarískra stjórnvalda. Þannig hefur Sviss oft verið hreiður fyrir áhyggufulla bandaríska ofurkapítalista, sem ekki treysta á eigið kerfi heima fyrir.

Hvort fréttir af þessum flutningum höfðu áhrif á silfurmarkaðinn er ekki gott að segja. En alla veganna hækkaði verðið og var nú komið í um 4 dollara únsan. En þeir Bunker og Herbert voru ekki aldeilis á því að byrja að leysa út gróðann (þeir réðu nú yfir hátt í 10% af öllu silfri veraldarinnar). Í reynd voru þeir bara rétt að byrja.

Sökum þess að olíupeningarnir frá Líbýu voru hættir að streyma inn á bankareikninga Bunker's, vantaði þá bræður sárlega almennilegt fjármagn til að halda silfurleiknum áfram. Þeir flugu því beinustu leið til Persíu og óskuðu liðsinnis keisarans þar.

faisal_saudi-king-gun.jpg

Sennilega hefur hinum gullslegna keisara Mohammad Reza Pahlavi ekki þótt silfur vera nógu spennandi stöff. Hafandi fengið afsvar í Tehran brunuðu Hunt-bræður nú á fund Faisal Sádakonungs. Hann nennti að hlusta og virtist ætla að stökkva á vagninn. En því miður fyrir þá Bunker og Herbert var Faisal myrtur skömmu síðar (í mars 1975). Fyrir vikið varð ekkert af því að Hunt-bræðurnir kæmu áformum sinum um frekari stórfelld silfurkaup í framkvæmd - í bili. Silfurmarkaðurinn róaðist, verðið lækkaði og næstu árin var silfurúnsan að dansa þetta í kringum 3-4 dollara.

Það gekk sem sagt brösuglega fyrir þá bræður að finna partner til að króa silfurmarkaðinn af. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Árið 1978 dúkkuðu skyndilega upp nokkrir forríkir Sádar, sem vildu taka þátt í spilinu og hjálpa Hunt-bræðrunum að koma áætlunum sínum í framkvæmd.

time-cover-john-connally_1979.jpgÞað mun hafa verið ævintýramaðurinn John Connally - fyrrum ríkisstjóri í Texas og sá sem sat í bílnum með JFK þegar hann var myrtur í Dallas - sem kom Sádunum og Hunt-bræðrunum saman á fund. Connally var mikill töffari og var á þessum tíma kominn í Repúblíkanaflokkinn og á kaf í olíuiðnaðinn. Sjálfsagt hefur hann fengið sinn snúð fyrir samkomulag Arabanna við Bunker og Herbert Hunt. En skömmu síðar sóaði hann því fé í baráttu um forsetaútnefningu Repúblíkana, þar sem hann tapaði illa fyrir Reagan. Hverfur Connally þar með úr sögu þessari.

Plan Sádanna og Hunt-bræðra gekk eftir. Þeir tvöfölduðu nú silfurkaup sín frá því 1974 og verðið hækkaði hratt. Um mitt ár 1979 var silfurúnsan komin í 8 dollara og í september stóð únsan í 11 dollurum. Nú fóru margir að verða órólegir og líka spenntir; ekki síst þeir sem töldu að senn myndi verða silfurskortur í heiminum. Fyrir vikið var fjöldi manna og fyrirtækja sem byrjuðu að hamstra silfur. Verðið tók auðvitað geggjaðan kipp enn á ný og hækkaði á fáeinum vikum upp í 16 dollara únsan og svo í 32 dollara! Munum að þetta voru viðsjárverðir tímar; ofsatrúar-klerkarnir voru nýbúnir að ræna völdum í Íran, verðbólga var mikil í Bandaríkjunum og óvissan skapaði æ meiri eftirspurn eftir hrávörum. Skyndilega voru komnar kjöraðstæður fyrir hækkun á silfri og ýmsum öðrum hrávörum.

hunt_herbert-lamar-bunker-federal-court.jpg

Hunt-bræðurnir héldu silfurkaupunum áfram á fullri ferð og nú var þriðji bróðirinn - Lamar Hunt - líka kominn í hópinn. Lamar var reyndar þekktari sem íþróttafrömuður og var m.a. stofnandi amerísku ruðningsfótboltadeildarinnar (AFL sem var undanfari NFL). Og silfur rauk nú upp í verði sem aldrei fyrr. Snemma árs 1980 virtist allt orðið vitlaust á silfurmörkuðunum og verðið á únsunni fór yfir 50 dollara! Allir virtust vilja vera með í peningamaskínu Hunt-bræðranna og kaupa silfur.

Nú fóru allskonar sögur á kreik. Skyndilega varð altalað að Hunt-bræður væru um það bil að kaupa sjálft Texaco, sem þá var eitt af stærstu olíufélögum heimsins. Sumir hrukku við, því þetta þýddi að bræðurnir myndu líklegast ætla að selja megnið af silfrinu. Þetta varð til að stöðva verðhækkanir á silfri - í bili.

hunt-brothers_bunker-herbert.jpgSilfursamningar Hunt-bræðranna höfðu hæst farið langt yfir 5 milljarða USD að verðmæti. Nú þegar smá slaki kom á verðið, lá verðmætið í ca. 4,5 milljörðum dollara. Talið er að þá hafi þeir bræður samtals verið búnir að borga innan um 1 milljarð dollara fyrir alla þessa samninga. Þ.a. á þessum tíma - jafnvel þegar silfurverðið var talsvert frá því sem það fór hæst - voru þeir með 3-4 milljarða USD í hagnað. Það þykir talsverður peningur í dag og þótti hreinlega stjarnfræðilega há fjárhæð fyrir 30 árum. Hunt-bræðurnir voru tvímælalaust í fámennum hópi allra ríkustu manna veraldar.

Það makalausa er að flestir virðast sammála um það, að EF þeir bræður hefðu á þessum tíma byrjað að selja silfurbirgðirnar hefði þeim tekist að fara út með gríðarlegan hagnað - jafnvel milljarða dollara. Þetta eru meiri peningar en gamli HL Hunt hafði önglað saman á allri sinni löngu olíuæfi. En Bunker og Herbert Hunt voru ekki á þeim buxunum að selja.

Hvað þeim bræðrum gekk til er og verður ráðgáta. Sumir segja að strákurinn Nelson Bunker hafi einfaldlega löngu verið búinn að missa trúna á peningaseðla og viljað eiga "raunveruleg verðmæti" - eins og gull eða silfur. Hann var líka sannfærður um að Bandaríkin væru á rangri braut og senn færi þar allt fjandans til.

hunt_nelson-bunker.jpg

Aðrir segja að þeir hafi ætlað að eignast svo mikið af kaupsamningum um silfur, að þegar kæmi að afhendingu yrði ekki nokkur séns fyrir seljendurna að útvega silfrið - nema kaupa það af þeim bræðrum á því verði sem þeir sjálfir ákvæðu. Það að króa markaðinn þannig af með kaupum á bæði hrávörunni og futures, hefur löngum verið draumur svakalegustu spekúlantanna. En ennþá hefur slík aðferð ekki gengið eftir með neina hrávöru... ekki enn.

Bunker hélt því alla tíð fram að ekki hafi hvarflað að honum að reyna að ná tangarhaldi á silfurmarkaðnum eða misbeita stöðu sinni þar. Hann hafi bara einfaldlega viljað eiga silfur því það væri góð fjárfesting og alvöru verðmæti.

En hvað sem því líður, þá var þeim sem stjórnuðu kauphallarviðskiptum westra nóg boðið. Hrávörukauphallirnar í Bandaríkjunum töldu Hunt-bræðurna vera að misnota markaðinn og til að þrengja að möguleikum manna til að versla með silfur var reglum þar breytt í snarhasti. Fyrir vikið hægðist á silfurviðskiptum, líkt og hjá bíl sem keyrir útí straumvatn, og verðið tók að síga.

paul_volcker.gif

Þar að auki var demókratinn Paul Volcker orðinn Seðlabankastjóri í Bandaríkjunum og hann var harðákveðinn í því að vinna á verðbólgunni heima fyrir, sem var komin vel yfir 13%! Bankinn snarhækkaði vexti og dró úr heimildum fólks og fyrirtækja til hrávöruviðskipta. Þetta leiddi til þess að peningar streymdu í skuldabréf og verðfall varð á hrávörum.

Verð á silfri tók nú að falla hratt og únsan var brátt komin undir 40 dollara. Vikurnar í febrúar og mars 1980 einkenndust af mikilli dramatík. Eftir miðjan mars fréttist af Bunker í París þar sem hann var sagður sitja á fundum með evrópskum bankamönnum. Og að svitinn rynni niður svírann í stríðum straumi. Þetta leit ekki vel út; verð á silfri hélt áfram að falla og únsan fór niður í 20 dollara.

silver_prices_1975-2010.png

Í reynd var spilið búið. Frá og með 26. mars 1980 hættu þeir Hunt-bræður að kaupa silfur, enda var þeim nú orðið ljóst að þeir gætu ekki staðið við gerða samninga. Lukkan var að snúast í höndum þeirra með ógnarhraða. Og nú sprakk blaðran í tætlur. Daginn eftir - 27. mars 1980 - var upphafsverðið á silfurúnsunni í rétt rúmum 15 dollurum. Og féll á ógnarhraða. Í lok dagsins hafði verðið lækkað um þriðjung og var komið undir 11 dollara únsan. Þessi ægilegi fimmtudagur hefur síðan kallast Silver Thursday í sögubókunum.

Við getum ímyndað okkur hvernig þeir Bunker og Hunt lágu þvalir undir sængum sínum aðfararnótt 28. mars á því Herrans ári 1980. Fyrir örfáum dögum höfðu þeir bræður verið meðal ríkustu manna veraldarinnar. En nú var eiginfjárstaða þeirra allt í einu komin í bullandi mínus. Skuldir þeirra umfram eignir námu vel yfir milljarði USD sem var heimsmet. Líklega hafði aldrei áður í sögu fjármálaviðskipta heimsins nokkur einkaaðili verið í ámóta stöðu. Þótti mörgum erfitt að skilja hvernig annað eins gat gerst.

hunt_herbert_lamar_ruth_nelson-bunker.jpg

Það er til marks um gríðarlegt umfang þessa gjaldþrots að það olli verulegu (en þó aðeins tímabundnu) verðfalli á hlutabréfamörkuðum og sjálfur Seðlabanki Bandaríkjanna þurfti að koma að uppgjörinu til að forða bönkum frá því að sogast með ofan í silfurhringiðu bræðranna. Fræg er sagan af Volcker Seðlabankastjóra á næturfundi aðfaranótt 28. mars á jakkanum yfir náttbuxurnar. Þetta var nánast neyðarástand og má kannski að einhverju leyti líkja við það sem gerðist þegar Lehman Brothers rúlluðu haustið 2008.

Ákveðið var að bjarga þeim bræðrum ekki - ekkert frekar en Lehman Brothers. Og Hunt-fjölskyldan mátti leggja fram háar tryggingar til að liðka fyrir lausn. Margrét Hunt, sem var aðalerfingi Hunt Petroleum og stóra systir þeirra bræðra (elst af samtals 6 alsystkinum og 15 börnum gamla HL Hunt) spurði þá forviða hvað þeir hefðu eiginlega verið að pæla! Sagt er að Bunker hafi svarað heldur kindarlegur á svip, að hann hefði bara ætlað að græða smá pening. Þannig fór nú það.

hunt-brothers-testifying_1034692.jpg

Sjálfur hefur Bunker Hunt alltaf haldið því fram að silfurblöðruna 1979-80 hafi einungis að litlu leyti mátt rekja til þeirra bræðra. Þúsundir og tugþúsundir spákaupmanna hafi séð hvernig þeir bræðurnir græddu á silfurkaupum sínum og skyndilega vildu allir vera með. Markaðurinn hafi snögglega yfirfyllst af gráðugum spekúlöntum og þegar blaðran blés upp og sprakk hafi verið auðvelt að benda á þá bræður sem sökudólga. Staðreyndin hafi aftur á móti verið sú að þeir hafi orðið fórnarlömb græðgi annarra og þess að bandarísku hrávörukauphallirnar og Seðlabankinn breyttu leikreglunum þegar spilið stóð sem hæst.

Næstu árin fóru í að gera upp þetta risagjaldþrot bræðranna. Olíulindir í Jemen og búgarðar í Ástralíu; allt fór þetta í skuldahítina. En eins og gerist með flest snyrtileg ævintýri auðmanna, fór þetta auðvitað allt vel að lokum. Dálaglegir samningar við banka, sem áttu himinháar kröfur á bræðurna, og fjármunir sem til þeirra áttu eftir að falla í framtíðinni úr sjóðum sem pabbi þeirra hafði stofnað fyrir börn sín, áttu eftir að losa bæði Bunker og Herbert úr gjaldþrotasnörunni.

bunker-hunt-old.jpg

Bunker hlaut að vísu dóm fyrir að beita ólögmætum viðskiptaklækjum og markaðsmisnotkun. En hann reis upp á ný sem vellauðugur maður og einbeitti sér að ræktun veðhlaupagæðinga westur í Texas. Bunker á líka olíufélagið Titan Resources, sem er með starfsemi í Eþíópíu og víðar í Afríku. Það er sem sagt hvergi nærri svo að Hunt-bræðurinir séu hættir í olíunni, þó svo séu komnir á níræðisaldur. Enda er olían kröftugri en flest annað í heimi hér.

Og þó svo gamli maðurinn komi ekki lengur nálægt silfri er hann ennþá sannfærður um að þar séu peningarnir hvað best geymdir. S.l. sumar þegar únsan var í um 16-18 USD var haft eftir honum að það væri gott verð til að kaupa. Og viti menni. Á föstudaginn síðasta var silfurúnsan... komin yfir 24 dollara. Öldungarnir vita hvað þeir syngja. Eða er kannski bara að myndast ný silfurbóla?

 


Vítislogar

Ein af mörgum óskaborgum sem Orkubloggarinn á eftir að heimsækja er Ashgabad. Kannski ekki sérstaklega frumleg ósk. Það er nefnilega sagt að leiðir allra liggi þessa dagana einmitt til Ashgabad. Þ.e.a.s. leiðir orkuboltanna; fyrirtækja eins og breska BP, bandaríska Chevron og franska Total.

niyazov-golden-statue.jpg

Kemur varla á óvart. Nafn borgarinnar mun reyndar þýða hvorki meira né minna en Borg ástarinnar. En ástin sem þessi fyrirtæki eru að leita eftir í Ashgabad, er ást full af orku. Aðdráttaraflið liggur í æpandi gasauðlindum Túrkmenistans.

Ashgabad er höfuðborg þessa merkilega lands, þarna austan við Kaspíahafið. Túrkmenistan er sem kunnugt er eitt af fyrrum lýðveldunum Sovétríkjanna. Við fall Sovétsins öðlaðist Túrkmenistan sjálfstæði, en breytingin var þó ekki meiri en svo að það var sjálfur leiðtogi kommúnistaflokksins í Túrkmenistan ("aðalritari" eins og það var kallað) sem varð forseti landsins, sem í reynd er einræðisríki. Þetta var hinn alræmdi Saparmurat Niyazov, sem eftir það lét nefna sig Turkmenbashi; hinn mikli leiðtogi Túrkmena.

asia-central-map.jpg

Túrkmenistan er gasrisi (einungis Rússland, Íran og Katar búa yfir meira af vinnanlegu gasi í jörðu heldur en Túrkmenistan). Fyrir vikið er Túrkmenistan nú í kastljósi hins orkuþyrsta heims. Fram fer mikið kapphlaup um aðganginn að bæði gaslindum landsins og olíunni í Kaspíahafshéruðunum. Þarna eru á ferð Kínverjar, Rússar, Persar og Indverjar og ekki síður útsendarar frá Evrópu. Allir vilja komast í gas Túrkmena og ekki útséð með það hvernig sú barátta fer.

Túrkmenistan er um margt afar sérkennilegt land. Íbúarnir eru einungis um 5 milljónir og að flatarmáli er landið um fimm sinnum stærra en Ísland. En þetta eru ekki eintómar grænar gresjur. Stærstur hluti Túrkmenistan er nefnilega eyðimörk; Karakum-eyðimörkin alræmda sem nær yfir 70-80% alls landsins.

turkmenistan-darvaz-gas-fires.jpg

Og það er einmitt þar í miðju þessarar riseyðimerkur sem okkur birtast svo ljóslifandi hinar gífurlegu gaslindir í Túrkmenistan. Þarna brenna nefnilega furðulegir eilífðareldar, þar sem gas streymir upp á yfirborðið og brennur líkt og þarna sé sjálft anddyri þess alræmda Svarta með klaufirnar.

Það vari upphafi áttunda áratugar liðinnar aldar - á þeim tíma sem gula Tonka-grafan var helsta gull Orkubloggarans - að sovéskir jarðfræðingar voru að bora eftir gasi þarna í auðninni austur í Túrkmenistan. Og þá komu bormenn niður á mikla hella sem voru fullir af gasi. En svo fór að yfirborið (hellaþakið) gaf sig, borinn hrundi niður og gas tók að streyma upp á yfirborðið.

turkmenistan-darvaz-gas-fires-up-close.jpg

Til að geta athafnið sig á svæðinu án þess að hætta væri á gaseitrun var ákveðið að kveikja í gasinu og láta það brenna, eins og algengt er á gasvinnslusvæðum. En gasið fuðraði ekki bara upp sísona, heldur reyndist þarna vera mikið og stöðugt gasútstreymi úr jörðu. Og núna hafa eldarnir logað sleitulaust í nærri fjóra áratugi!

Svona eilífðarloga er reyndar að finna mun víðar í heiminum. Ekki alveg jafn svakalega, en engu að síður elda sem brenna stanslaust ýmist vegna gasuppstreymis eða vegna kola í jörðu. Þetta þekkist t.a.m. á all mörgum stöðum í Mið-Asíu og litlir kolaeldar finnast líka nokkuð víða á gömlum kolanámusvæðum í bæði Bandaríkjunum og Kína. Og þegar Orkubloggarinn var í Azerbaijan s.l vor, skaust hann einmitt út fyrir Bakú til að kíkja á svona eilífðareld, þar sem gas streymir úr jörðu skammt fyrir utan Bakú. En það var auðvitað ekkert í líkingu við þessa ógnvekjandi gaselda í Karakum-eyðimörkinni í Túrkmenistan, sem sumir nefna innganginn að Víti.

turkmenistan_to_china_pipeline.gif

Já - þetta er í senn furðulegt og heillandi. En eftir að áðurnefndur furðufugl Saparmurat Niyazov náði völdum í hinu nýsjálfstæða Túrkmenistan einangraðist landið og náði ekki að hagnast á gaslindunum eins og búast hefði mátt við. Á þeim tímum hafði Túrkmenistan engar gasleiðslutengingar við umheiminn, að frátöldum gömlu sovésku gasleiðslunum og næstu árin gerðist fátt markvert í orkumálum Túrkmena.

Efnahagsþrengingarnar sem herjuðu á Rússland og fleiri ríki í Rússneska sambandinu sem þá var og hét, smituðu út frá sér. Tíundi áratugurinn í Túrkmenistan fór aðallega í að reisa risastórar gullstyttur af leiðtoganum, svo landsmenn gleymdu nú örugglega ekki hans guðdómlegu ásjónu. Verð á olíu og gasi var fremur lágt og enginn virtist áhugasamur um að stinga nýjum rörum í gaslindirnar ógurlegu þarna djúpt inni í Mið-Asíu.

iran-turkmenistan-gas-pipeline.jpg

En tímarnir breytast - og það stundum með undrahraða. Það voru reyndar blessaðir Persarnir sem fyrstir sáu hag í því að tengja sig þarna við. Árið 1997 opnaði lítil og nett 200 km löng gasleiðsla frá vestanverðu Túrkmenistan og til borgarinnar Kordkuy sem liggur nyrst í Írak, rétt hjá landamærunum að Túrkmenistan. Þetta var kannski ekkert stórmál, en var reyndar fyrsta millilanda-gastenging Túrkmena sem ekki lá um rússneskt landsvæði.

Það var þó fyrst eftir að nýr forseti tók við völdum í Túrkmenistan í ársbyrjun 2007 - ljúflingurinn með lipra nafnið Gurbanguly Berdimuhamedov - að hlutirnir komust á almennilega hreyfingu. Lögð var önnur gasleiðsla til Íran, sem þeir Berdimuhamedov og Mahmoud Ahmadinejad  Íransforseti opnuðu með pompi og pragt í janúar s.l. (2010). Myndinni hér að ofan var einmitt smellt af við það ánægjulega tækifæri.

turkmenistan-china-gas-deal.jpg

Og varla hafði Berdimuhamedov svarið embættiseiðinn árið 2007 þegar Kínverjar birtust í höfuðborginni Ashgabad. Kínverjum virðist einkar lagið að koma hlutunum í framkvæmd. Párað var undir samninga med det samme og aðeins tveimur árum síðar var komin 3.500 km gasleiðsla frá Túrkmenistan og all leið til Kína! Algerlega magnað.

Þessi fyrsti áfangi leiðslunnar mun hafa kostað skitna 7 milljarða dollara og á næstu árum stendur til að stækka hana og margfalda flutningsgetuna. Það var sjálfur Kínaforseti Hu Jintao sem vígði leiðsluna í desember 2009 ásamt  Berdimuhamedov, svo og forsetum Uzbekistan and Kazakhstan. Sannkallað Mið-Asíu gaspartý.

russia-turkmenistan-putin.jpg

Nú fóru hlutirnir að gerast hratt. Bæði Rússar og ESB höfðu fölnað upp við að sjá  hvenrig gasið frá Túrkmenistan (ásamt gasi frá Uzbekistan og Kazakhstan) fór allt í einu að streyma austur á bóginn til Kína. Og menn brugðust skjótt við. Pútin kom askvaðandi til Ashgabad og faðmaði Berdimuhamedov í blómahafi. Samið var um endurnýjun á gasleiðslum til Rússlands og gasið frá Túrkmenistan var svo sannarlega komið á beinu brautina til bæði suðurs, austurs og norðurs.

Í Brussel lá mönnum við yfirliði. Voru Evrópumenn endanlega að missa af aðgangi að Túrkmenagasinu? Enn er allsendis óvíst hvort ESB fái nokkru sinni Nabucco-leiðsluna sína austur eftir Tyrklandi og til Kaspíahafsins. En þrátt fyrir að þá tengingu vanti, var nú óðar ráðist í samningaviðræður um að Túrkmenar myndu líka selja gas til vesturs. Það leit reyndar alls ekki vel út með að þar næðist árangur. Túrkmenar bættu fyrst við einum nettum samningi við  Afgani, Pakistana og Indverja um gassölu þangað, sem er leiðsla upp á rúma 1.800 km og næstum geggjaða 8 milljarða USD. Í Evrópu óttuðust menn að Túrkmenum þætti þetta orðið gott í bili.

turkmenistan_gas_west.jpg

En svo allt í einu nú í sumarbyrjun (2010) lýsti Berdimuhamedov því yfir að hátt í 1000 km gasleiðsla verði senn lögð vestur að Kaspíahafi. Hjá skrifstofum framkvæmdastjóra orkumála í Brussel fóru menn loks að geta brosað. Kannski kemst gasleiðsla frá Túrkmenistan í átt til Evrópu bráðum á kortið.

En það er langt í land! Þó svo talað sé um að senn verði komin gasleiðsla frá nokkrum stærstu gaslindum Túrkmena og að austurströnd Kaspíahafsins, þá er eftir að tengja hana við Bakú. Eftir botni Kaspíahafsins! Og frá Bakú í Azerbaijan er næstum óendanlega langt vestur eftir Kákasus-löndunum og endilöngu Tyrklandi þar til gasið yrði loks komið til Evrópu.

turkmen_pipeline_dovletabat-sarakhs-khangiran_gas_pipeline.jpg

Og svo gæti allt eins farið, að Túrkmenagasið sem streyma mun í vesturátt, taki skyndilega beygju norður til Rússlands eða suður til Íran. Enn er alltof snemmt fyrir Evrópu að skála fyrir því að gas frá Túrkmenistan muni í framtíðinni halda heimkynnum Evrópubúa þokkalega hlýjum. Risaspurningunni um hvort Evrópa losni nokkru sinni undan gashrammi Rússa, hefur ennþá ekki verið svarað.

 


Skóflustungur

Etanól er sniðugt eldsneyti. En hefur þann stóra galla að vera framleitt úr korni og öðrum manneldisplöntum. Í Bandaríkjunum berjast menn við að finna hagkvæmar leiðir til að framleiða það sem kallað er annarrar kynslóðar etanól. Sem er etanól unnið úr sellulósa; þ.e. úr óætu hlutum plantnanna.

rangefuels-plant-skoflustunga.jpg

Vesenið er að þetta annarrar kynslóðar etanóleldsneyti ætlar að láta á sér standa. Jafnvel þó svo snillingar eins og Vinod Khosla og margir aðrir stórir fjárfestingasjóðir dæli í þetta peningum. Öll þykjast fyrirtækin vera alveg á mörkum þess að koma með lausnina. Dæmi er  Range Fuels, sem hefur lofað að brátt streymi annarrar kynslóðar etanól á markað frá nýju verksmiðjunni þeirra sem er að rísa í smábænum Soperton í Georgíufylki. Myndin hér að ofan er einmitt frá því fyrsta skóflustungan var tekin að verksmiðjunni þar. Range Fuels er bara eitt af mýmörgum grænorkuverkefnum áðurnefnds Vinod's Khosla, sem er einungis einn í hópi margra sem veðja stíft á annarrar og þriðju kynslóðar etanól.

En eitthvað virðist ganga hægt að koma þessu annarrar kynslóðar etanóli á brúsana. Orkubloggarinn er satt að segja farinn að efast um að súperetanól-draumurinn rætist í bráð. Hvort sem það er annarrar kynslóðar biofuel eða þriðju kynslóðar þörungasull. Þetta kann að koma e.h.t. í framtíðinni. En hugsanlega er miklu raunhæfara að heimurinn einbeiti sér að öðru og heldur óhollari alkóhóli. Nefnilega árans tréspíranum. Metanóli.

cri_svartsengi.jpg

Svo skemmtilega vill til að Íslendingar gætu þar orðið meðal brautryðjenda. Framleiðsla á metanóli - og jafnvel bráðum einnig á DME - er að hefjast á Íslandi. Metanólverksmiðja Carbon Recycling International (CRI) er að rísa við Svartsengi. Og uppi eru hugmyndir um DME-verksmiðju í Hvalfirði.

Hjá CRI í Svartsenginu er líklega á ferðinni einhver mesta frumkvöðlastarfsemi á landinu um þessar mundir. Ef vel tekst til gæti þetta orðið mikilvægt skref til að byggja upp nýjan og jafnvel umfangsmikinn iðnað á Íslandi. Ekki veitir af.

Þetta er spennandi. Ekki var búið að tryggja fjármögnun verksmiðjunnar í Svartsengi þegar hrunið skall á haustið 2008. Það lagðist illa í Orkubloggarann. En fyrirtækinu tókst hið ótrúlega; að fá nýtt fjármagn inní verkefnið á þessum erfiðu tímum.

cri_svartsengi-skoflustunga.jpg

Og í október í fyrra (2009) var fyrsta skóflustungan tekin að metanólverksmiðjunni við Svartsengi. Að viðstöddum Nóbelsverðlaunahafanum George Olah, sem hefur verið einn helsti boðberi þess að veröldin nýti metanól sem eldsneyti. Myndin hér til hliðar var einmitt tekin við það tækifæri. Veðrið var svolítið hryssingslegt, en dúndur hressandi.

Til að nota metanól í háu blöndunarhlutfalli sem bifreiðaeldsneyti, þarf að breyta bifreiðunum. Venjulegar vélar þola ekki mikinn styrk metanóls í eldsneytinu. Vandamálin munu t.d. bæði vera gangsetningartruflanir og tæring. Þess vegna er horft til þess að nota metanólið fremur sem lítinn hluta á móti bensíni. Þ.e. nota blöndu metanóls og bensíns, sem óbreyttar bílvélar þola. Þar gæti hlutfall metanólsins verið 10% eða jafnvel 15%.

Stærsta vandamál fyrirtækja sem veðja á metanól er það að enn sem komið er nýtur metanól yfirleitt lítils stuðnings sem bifreiðaeldsneyti. Bæði í Bandaríkjunum og hjá ESB hafa stjórnvöld tregast við að leyfa sterkari metanólblöndu en sem nemur 3% af rúmmáli. Sbr. t.d. tilskipun Evrópusambandsins um eldsneytisstaðla (Fuel Quality Directive nr. 2009/30).

ethanol-american-flag.png

Það yrði mikill ávinningur fyrir metanóliðnaðinn ef sterkari metanólblanda yrði staðall. Það myndi leggja grunn að öflugum metanóliðnaði, rétt eins og gildir um E10 (15% etanól á móti 90% bensíns). E10 staðallinn er í reynd grundvöllurinn að etanóliðnaðinum í Bandaríkjunum. Án slíkra staðla er hætt við að þróunin verði mjög hæg og fjármagnið treysti sér ekki í verkefnin vegna of mikillar áhættu.

Það er ekkert grín að ætla að koma með nýtt eldsneyti á markað í Bandaríkjunum. Jafnvel þó það verði bæði grænt og vænt. Bandaríski etanóliðnaðurinn tjaldar öllu til að berjast gegn slíku. Það var alveg makalaust að fylgjast með massífum lobbýismanum westur í Washington DC s.l. vor - gegn metanóli. Þar voru á ferð bæði olíuiðnaðurinn og bandaríski bílaiðnaðurinn - en þó fyrst og fremst etanóliðnaðurinn. Þokkaleg þrenning að eiga við! Ástæðan var sú að skv. frumvarpinu var stjórnvöldum heimilað að ákveða nýjan almennan staðal fyrir metanóleldsneyti - allt að M85! Jafnvel þó svo frumvarpið geymdi einnig ákvæði um að stefna að allt að 85% etanóli, beittu Etanólarnir sér af hörku gegn því að metanólið fengi að vera þarna með. 

american_clean_energy_and_security-discussions-house-of-representatives.jpg

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti nýja græna orkufrumvarpið í júní á liðnu ári (2009). En hvernig það mun endanlega líta út vitum við ekki. Ekki fyrr en Öldungadeildin hefur afgreitt frumvarpið. Ómögulegt er að segja hvort eða hvenær það verður. Og miðað við lætin er hætt við að metanólhvatar verði þá endanlega horfnir út frumvarpinu eða a.m.k. búið að draga úr þeim allar tennur.

Andstaðan við metanólið í þar vestra kemur sossum ekki á óvart. Ef metanólstandard upp á t.d M10 eða M15 yrði samþykktur myndi það geta haft slæm áhrif á etanóliðnaðinn. Það væri talsvert högg fyrir etanólið ef allt í einu væri hægt að renna inn á bensínstöð og dæla M10 eða M15 á bílinn. Þar með væri hin fræga E10 blanda skyndilega búin að fá dúndrandi samkeppni - frá vöru sem hefur t.d. þann kost umfram etanólið að vera unnin úr m.a. koldíoxíði, meðan etanólið er unnið úr korni og fleiri undirstöðum fæðuframboðs! Þarna er ólíku saman að jafna. Þar að auki er miklu ódýrara að framleiða metanól heldur en etanól. Líklega um 20-25% ódýrara m.v. orkuinnihald. Metanól virðist óneitanlega skynsamari kostur en etanól - en það er stundum bara ekki nóg.

dme-fuel-test.jpg

Orkupólitíkin er skrítin tík. Og meðan metanól fær ekki meira vægi hjá stjórnmálamönnunum leitar fjármagnið sem er tilbúið að fara í eldsneyti af þessu tagi, fremur í etanóliðnaðinn.

Þar með er þó alls ekki búið að dæma metanól úr leik. Í stað þess að metanólbensín (t.d. M10) verði að veruleika gæti metanól nýst sem eldsneyti á díselvélar. Þá væri metanólinu umbreytt í DME (CH3-O-CH3), sem unnt er að nota sem  eldsneyti á díselvélar og gæti t.d. hentað skipum og flutningabílum. Einungis mun þurfa að gera smávægilegar breytingar á vélunum til að geta notað DME. Þetta er eldsneytið sem menn tala nú um að framleiða í sérstakri verksmiðju í Hvalfirði. Þannig getur metanól orðið hlekkur í því að framleiða íslenskt DME.

methanol-china-standard.jpg

Enn sem komið er er einungis eitt land í heiminum sem hefur gert alvöru úr því að nota metanól sem eldsneyti á bifreiðar. Reyndar ekkert smá land - því þetta er sjálft Kína. Kínverjarnir eru á fullu í að framleiða bílvélar sem brenna hvorki meira né minna en M85 (85% metanól). Þarna í Austrinu kann því brátt að myndast verulega stór markaður fyrir metanól. Og það sem er sæmilega stórt í Kína, ætti að gefa ýmis tækifæri!

En vandamálin eru mörg. Það er ennþá varla hægt að tala um að til sé raunverulegur eldsneytismarkaður fyrir metanól hér á Vesturlöndum - né fyrir DME. Það er reyndar svo að eldsneytisverð úr dælunni ræðst ekki bara af olíuverði. Heldur t.d. líka af afköstum olíuhreinsunarstöðvanna. Þróunin síðustu misserin hér á Vesturlöndum hefur verið mikill samdráttur í rekstri olíuhreinsunarstöðva. Í Bandaríkjunum er t.a.m. vart hægt að lýsa þessu öðru vísi en að um sé að ræða hreinar raðlokanir í bransanum. Sú þróun mun valda hækkunum á bensínverði þegar (ef!) eftirspurnin vex á ný. Það gæti reynst metanóliðnaðinum vel. Og auðvitað öðrum tegundum af eldsneyti, sem keppa við hefðbundið eldsneyti.

oil_palace.jpg

Ennþá eru hvatarnir samt ónógir og ennþá er bensínverð í Bandaríkjunum of lágt til að hvetja fjármagnið til að hugleiða metanólframleiðslu af alvöru. Það virðist einfaldlega ennþá vera unnt að bjóða mönnum olíusullið á spottprís - jafnvel þó svo hráolían kosti sitt þessa dagana. Það er því á brattann að sækja fyrir metanólið. 

En það er margt að gerast. Orkubloggarinn hefur hér á blogginu stundum lýst aðdáun sinni á Kanada. Eldsneytisstefna Kanadamanna er einmitt eitt af því sem gerir landið áhugavert. Þarna má t.d. nefna reglur í Bresku Kólumbíu um að stórauka hlutfall á eldsneyti sem losar lítið kolefni. Reglugerðin sú nefnist Renewable and Low Carbon Fuel Requirements Regulation (RLCFRR) og tók hún gildi 1. janúar s.l. (2010). 

canada_bc_empr_1031417.gif

Þarna eru sett metnaðarfull markmið, sem ásamt kolefnisstefnu kanadísku alríkisstjórnarinnar gætu gert Kanada að leiðandi ríki í að nota t.d. bæði metanól og DME. Ætti Ísland kannski að einbeita sér meira að góðum og nánum samskiptum við Kanada?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband