Vesturfararnir

Einhver átakanlegasta bók sem Orkubloggið hefur lesið eru Vesturfarfararnir. Sem eru reyndar fjórar bækur - tetralógía - eftir Svíann Vilhelm Moberg.

vesturfarar

Allt sæmilega þroskað fólk ætti að muna eftir sjónvarpsþáttaröð, sem gerð var eftir þessari miklu sögu og var sýnd í Ríkissjónvarpinu fyrir margt löngu. Hin norska Liv Ullman sló þar í gegn. Held að þetta sé jafnvel ein af elstu sjónvarpsminningum Orkubloggsins.

Draumur flestra landnemanna um betra líf í Vesturheimi reyndist því miður tálsýn. Fólkið mætti miklu harðræði, sjúkdómum og hungri. Til allrar hamingju eru nú aðrir tímar, en þegar sárafátækir Norðurlandabúar flykktust vestur um haf í leit að nýjum tækifærum. Ameríski draumurinn lifir þó auðvitað enn í hugum margra. Sem í huga Íslendinga ætti kannski að kallast kanadíski draumurinn.

Fjárfestingafyrirtækið Geysir Green Energy hefur verið í fararbroddi orkufjárfestinga Íslands í Vesturheimi. Stutt er síðan GGE - þá reyndar undir stjórnarformennsku Hannesar Smárasonar - fjárfesti í jarðhitafyrirtækinu Western Geopower. Sem er að reisa jarðgufuvirkjun á s.k. Geyser-svæði skammt frá San Francisco. Framleiðslugeta virkjunarinnar á að verða um 35 MW.

wg_drill

Jarðhitinn hefur reyndar heldur átt undir högg að sækja í Bandaríkjunum. Meðan vind- og sólarorka hafa notið mun meiri velvilja og stuðnings.

Vissulega eru skattaívilnanir fyrir hendi í jarðhitageiranum þar vestra. En reglurnar eru með þeim hætti, að það eru fyrst og fremst risastór fyrirtæki með miklar tekjur, sem hafa séð hag í því að setja pening í bandarískan jarðhita. Fyrirtæki eins og Lehman Brothers, Morgan Stanley og fjarfestinga-armur General Electric hafa öll sýnt jarðhitaverkefnum býsna mikinn áhuga. En sem kunnugt er, er saga Lehman nú öll. Og krísan hefur gefið bæði Morgan Stanley, GE og öðrum tilefni til að hugsa um aðra hluti en að dæla pening í jarðhita.

GGE ákvað sem sagt að blanda sér í hópinn með þessum þekktu amerísku nöfnum, sem þá renndu hýru auga til jarðhitans. Því miður hefur gengi hlutabréfa í WGP líklega rýrnað um nálægt 50% frá því kaup GGE áttu sér stað. Bréfin eru skráð á kanadíska hlutabréfamarkaðnum Canadian Venture Exchange.

geo_geyser_fieldgif

Geyser-svæðið þarna í Kaliforníusólinni er vel þekkt virkjanasvæði. Engu að síður eru jarðhitaverkefni WGP nokkuð áhættusamur bransi. T.d. er veruleg óvissa um framleiðslugetuna á svæðinu. Rafmagnsframleiðslu á Geyser-svæðinu hnignaði mjög á 9. áratug liðinnar aldar vegna ofnýtingar. Með vatnsdælingu niður í borholur hefur tekist að auka afköst svæðisins á ný. Og nú veðja þeir hjá WGP að svæðið hafi eflst nægilega til að geta staðið undir nýrri virkjun.

Virkjunin á að vera tilbúin 2010 og samið hefur verið við Northern California Power Agency um orkusölu. Ennþá er óvíst hversu margar holur mun þurfa að bora, til að ná þeim afköstum sem stefnt er að. Til allrar hamingju hafa þó undanfarið verið að berast góðar fréttir af borunum á svæðinu. Sumar holurnar hafa reynst talsvert aflmeiri en búist var við!

WGP er einnig að reisa 100 MW jarðgufuvirkjun í Bresku Kólumbíu í Kanada. Um 170 km norður af Vancouver, á svæði sem er kennt við eldfjallið Meager. Það jarðhitaverkefni flokkast tvímælalaust sem hrein frumkvöðlastarfsemi. Þetta eru sannir eldhugar þarna hjá WGP. Jafnvel sprotar. Eða hvað það er nú allt kallað, þegar verið er að kjafta upp áhættufjárfestingar og nota um þær fín og flott orð.

GeothermalMapCanada

Þrátt fyrir umtalsverðan jarðhita á þessum slóðum, hafa Kanadamenn fram til þessa ekki virkjað gufuaflið til rafmagnsframleiðslu. Dæmi eru þar um hitaveitur, en gufuaflið er algerlega vannýtt. Árið 1984 var jarðhitaprógramm Kanadastjórnar beinlínis lagt til hliðar – aðallega vegna lágs olíuverðs. Og kanadíska jarðgufuaflið svaf Þyrnirósarsvefni í meira en tvo áratugi.

Það að Kanada hefur nú á ný tekið stefnu á jarðhitanýtingu, er kannski helst að þakka umræðu um hlýnun jarðar af völdum ólíubrennslu. En auðvitað er það sjálft olíuverðið sem þarna skiptir mestu. Og sem kunnugt er hækkaði olíuverð gríðarlega 2007 og fram eftir 2008.

Orkulindir eins og jarðhiti, vindorka og sólarorka eru í reynd algerlega háðar verðsveiflum á olíu. Lágt olíuverð er versti óvinur endurnýjanlegrar orku. Þess vegna fagnar endurnýjanlegi orkugeirinn sem hæstu olíuverði. Og vonar heitt og innilega að lækkunin undanfarið sé bara tímabundin.

Ormat_logo

Þó svo Íslendingar telji sig vita allt best í jarðhitanum, þá er jarðhitaþekking Bandaríkjamanna vart síðri. Þar í landi er löng og mikil reynsla af byggingu jarðgufuvirkjana. Fyrr vikið er þar að finna mjög öflug jarðhitafyrirtæki. Eins og t.d. Ormat Technologies frá Neveda - bara svona til að nefna dæmi.

Og bandarískt kapítal hefur sýnt jarðhitanum mikinn áhuga. T.d. er Google nú líklega það fyrirtæki sem fjárfestir hvað mest í nýrri jarðhitatækni. Og stærsti orkuframleiðandi heims í jarðhitanum er ekki smærri player en gamla góða Standard Oil of California. Chevron. Jarðhitavirkjanir olíu-ljúflinganna hjá Chevron eru þó reyndar fyrst og fremst í SA-Asíu, þ.e. á Filippseyjum og í Indónesíu.

maple

Kanada er aftur á móti óplægður akur. Orkubloggið hefur alveg sérstaka þrá til Kanada. Fallegt land með fjölbreyttu og góðu mannlífi. Land með litla þekkingu á raforkuframleiðslu úr jarðhita. Alveg kjörið fyrir jarðhitaverkefni íslenskra fyrirtækja. Hvernig væri barrrasta að taka upp Kanadadollar og gefa skít í þessa bresk-hollensku fýlupoka?

Hér í upphafi minntist Orkubloggið á sorgarsöguna um sænsku Vesturfarana eftir Vlhelm Moberg. Um Svíana sem flúðu hroðalega fátæktina heima fyrir og fluttust vestur um haf á 19. öldinni. Í leit að betra lífi.

vesturfarar-Liv.jpg

Hvorki sænsku landnemarnir í Minnesota né hinir íslensku Vesturfarar, sem fyrir rúmum hundrað árum héldu til Kanada, fundu það gósenland sem þeir vonuðust eftir. Nú er kominn tími á aðra og vonandi betur heppnaða íslenska útrás til Kanada. Útflutning á orkuþekkingu - sem ætti að geta orðið mun árangursríkari en streðið hjá landnemunum við Winnipeg-vatn.

Það er kannski bæði tilgerðarlegt og óviðeigandi af Orkublogginu að blanda saman útrásarævintýri Geysis Green og hörmungarsögum Vesturfaranna. En maður hugsar óneitanlega til þess, að hrun Glitnis, Kaupþings & Co. gæti orðið til þess að þúsundir Íslendinga flytji af landi brott.

Orkuveitan_Logo

En vonandi tekst íslenskum orkufyrirtækjum í framtíðinni að finna og nýta bestu tækifærin. Þó svo Orkuveita Reykjavikur og kannski ekki síður Landsvirkjun, stefni líklega hraðbyri í þrot þessa dagana. Þetta er a.m.k. alveg glataður tími til að skulda mikið í erlendum gjaldmiðlum og fá tekjur, sem tengdar eru hratt fallandi álverði. Og jafnvel bjórinn er hreint fjári dýr núna, hér í Sevilla, hvar Orkubloggið er statt þessa dagana. Samt gaman á vellinum í gærkvöldi að sjá Barca bursta Sevilla!


Tárahliðið

Like some ill-destined bark that steers
In silence through the Gate of Tears
 
Bab el-Mandeb_map
Þannig orti írska skáldið Thomas Moore fyrir um tveimur öldum síðan. Í tragíska ástarkvæðinu Fire Worshippers, um ungu elskendurna Hafed og hina fögru Hindu.
 
Í dag ætlar Orkubloggið að ímynda sér að bloggið sé nýkomið í gegnum Tárahliðið. Sundið sem tengir Adenflóa og Rauðahaf - og skilur að Arabíuskagann og austurhorn Afríku. Á frummálinu - arabísku - heitir sundið Bab el-Mandeb. Eða öllu heldur باب المندب.
 
Við getum líka ímyndað okkur að farkosturinn sé íslenska olíuskipið Svartifoss. Og nú er tilefni til að þakka sínum sæla fyrir að sjóræningjarnir á Adenflóa náðu hvorki okkur né þessu nýja stolti íslenska íslenska skipaflotans. Frá Tárahliðinu er siglt áfram norð-norðvestur eftir Rauðahafinu og að Súez-skurðinum.
 
Arabia_hormuz_map
Svartifoss gæti verið eitt af hinum fjölmörgu olíuskipum, sem flytja svarta gullið frá framleiðslulöndunum við Persaflóa, til okkar vesalinganna á Vesturlöndum.
 
Meira en helming af öllum olíubirgðum heimsins er að finna hjá Persaflóa-ríkjunum. Í dag framleiða þessi sólbökuðu ríki eyðimerkurinnar um þriðjung allrar olíu í heiminum - u.þ.b. 28 milljón tunnur á dag. Þar á meðal eru Írak, Saudi-Arabía, Kuwait og ríkin innan Sameinuðu Arabísku furstadæmanna. Og Íran.
 
Hluti af þessari gríðarlegu olíu er auðvitað nýttur af bæði Persunum og Arabaríkjunum sjálfum. Og hluti hennar er fluttur með miklum olíuleiðslum til viðskiptavina í nágrenninu. En stærsta sneiðin fer um borð í olíuskip, sem svo sigla með fullfermi suður Persaflóann og út um Hormuz-sund, áleiðis til síþyrstra Bandaríkjamanna, Evrópubúa, Japana og annarra landa út um víða veröld.
 
Sirius-Star-tanker
Út um sundið góða - Hormuz - er daglega siglt með u.þ.b. 17 miljón tunnur af olíu á degi hverjum (þetta magn er auðvitað breytilegt eftir eftirspurninni hverju sinni og er talan líklega eitthvað minni í dag). Þetta samsvarar um 20% af allri olíunotkun heimsins og gróflega 40% af öllum olíuviðskiptum milli ríkja.
 
Flest tankskipin eru gríðarlega stór og á venjulegum degi eru það ca. 15 olíutankskip sem fara um Hormuz-sund. Þar að auki fer allt fljótandi gas frá Qatar einnig með skipum þarna um sundið - en Qatar er einmitt stærsti LNG-útflytjandi heims.
 
Það sem Orkubloggið er að reyna að segja: Hormuz-sund er einfaldlega þýðingamesta siglingaleiðin á okkur dögum. Nefna mætti að Japanir fá 75% af allri sinni olíu um þessa siglingaleið. Þannig er veröldin í reynd háð því að olíuskip eigi greiða leið um þetta tæplega 30 sjómílna breiða sund, þar sem íranskir byssubátar og bandarísk herskip kýtast reglulega. Og allt getur farið í háaloft hvenær sem er.
 
oil_tanker_2
Um Hormuz-sund liggur líka aðalflutningaleiðin með hergögn til bandaríska hersins í Írak. M.ö.o. þá er þetta þrönga sund þarna milli Arabíu og Íran ekki beint rólegasti staðurinn á bláa hnettinum.
 
Flest þeirra olíuskipa sem koma frá Hormuz, sveigja fljótlega hart í bak - með stefnu í átt til A-Asíu. Engu að síður tekur um fimmtungur skipanna stefnuna til Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna – með laufléttri beygju á stjórnborða.
 
Þau allra stærstu sigla suður fyrir Góðravonarhöfða. En öll þau olíutankskip sem geta troðið sér gegnum Súez-skurðinn - skip í s.k. Suezmax stærðarflokki - taka nokkuð krappari beygju í átt að Rauðahafi. Og sigla sem leið liggur frá Hormuz, meðfram ströndum Oman og Jemen, inn á hinn alræmda Adenflóa og í átt að Tárahliðinu - innganginum að Rauðahafi. Og þaðan í gegnum Súez-skurðinn. Þar í gegn fara nú um 3,3 milljónir tunna af olíu daglega.
 
Þar að auki er sífellt að aukast olíudæling frá stórum olíuskipum í gegnum olíuleiðsluna sem liggur frá suðurenda Súez og norður að Sidi Kerir-höfninni við Alexandríu í Egyptalandi. Á strönd Miðjarðarhafsins. Það gæti þýtt enn meiri umferð risatankskipa inn á Rauðahaf.
 
pirate_flag
En áður en skipin komast að Tárahliðinu og inn á Rauðahaf, þurfa áhafnir þeirra að horfast í augu við 
nýjasta vandamálið á höfunum. Sem eru snarbrjálaðir sjóræningjar frá anarkíinu í Sómalíu. Þeir hafa gert Adenflóa að leikvelli Svartskeggja nútímans.
 
Lengi vel var Rauðahafið vissulega ekki beint rólegasta hafsvæði heims. En nú er það nánast orðið griðastaður. Því eftir að skip eru komin í gegnum Tárahliðið getur áhöfnin andað léttar. Sloppnir frá ströndum Sómalíu og skrílnum á Adenflóa.
 
Sómölsku sjóræningjana hafa reyndar verið að færa sig duglega upp á skaftið og herja nú líka á skip sem fara suðurleiðina - eru farnir að ráðast á skip á úthafinu fleiri hundruð sjómílur austur af Sómalíu og Kenía. Nú síðast náðu þeir þar risaolíuskipinu Sirius Star, sem sagt hefur verið frá í fréttum síðustu dagana. Það er í s.k. VLCC-flokki olíuskipa; Very Large Crude Carriers. Sem á mannamáli merkir að þetta er mjög stórt olíuskip og farmurinn allt að 2 milljón tunnur af olíu. En í dag ætlar Orkubloggið ekki að spá í stærð olíuskipa, heldur halda sig við Tárahliðið.
 
sheikh_tarek_mohammad_bin_laden
Það er reyndar alls ekki fyrst nú, á tímum olíuflutninga, sem Tárahliðið gegnir stórmerkilegu hlutverki. Það er nefnilega af mörgum talið hafa verið sú leið sem mannkynið fór frá Afríku fyrir svona 50-60 þúsund árum - og þar hafi jafnvel einungis verið á ferðinni um 150 einstaklingar. Þaðan hafi mannkynið dreifst smám saman um jörðina alla og við öll komin af þessum fámenna flokki afrískra sjófarenda. En líklega er Kári Stefánsson betur til þess fallin að útskýra tilurð þessarar kenningar, en Orkubloggið.
 
Tárahliðið er aðeins 14 sjómílur að breidd (25 km ) - og var enn mjórra fyrir 50 þúsund árum, þegar sjávarstæða var lægri en nú. Og nú er þetta sögulega sund enn og aftur í fókus. Stutt er síðan vellauðugur Sádi lýst því yfir að hann hyggist reisa brú yfir sundið, þarna á milli Jemen og Djibúti. Sá snillingur heitir Sjeik Tarek Mohammad Bin Laden og er vel þekktur kaupsýslumaður í Saudi Arabíu. Svo skemmtilega vill til að hann á hálfbróður sem heitir Osama Bin Laden. Já - þetta er lítill heimur. Sem því miður er samt ekki alltaf auðvelt að brúa.
 
Al Noor Cities
En ljúflingurinn Tarek Bin Laden er hvergi banginn. Brúin yfir sundið góða er aðeins smáflís í miklu stærri áætlun, sem hann er að ýta af stokkunum þarna á Afríkuhorninu. Sitt hvoru megin brúarinnar yfir Tárahliðið á nefnilega að rísa ný stórborg; Al Noor Cities.
 
Þetta er verkefni upp á litla 200 milljarða dollara og meiningin er að Al Noor muni í framtíðinni keppa við borgir eins og London og New York. Alltaf metnaður í gangi hjá Bin Laden fjölskyldunni.
 
En hverjir skyldu eiga að hanna þetta mikla samgöngumannvirki yfir Bab el-Mandeb sundið? Því miður ekki íslenska verkfræðistofan Mannvit né aðrir Íslendingar - heldir eru það frændur okkar Danir sem fengu það þetta verkefni.
 
Nánar tiltekið "barn" þeirra dönsku verkfræðinganna Christen Ostenfeld og Wriborg Jönson. Danska verkfræðifyrirtækið COWI. Það er óneitanlega athyglisvert að COWI var stofnað 1930 - rétt í þann mund að heimskreppan var skollin á. Hin nýstofnaða verkfræðiskrifstofa lognaðist þó ekki aldeilis útaf við fæðingu - er nú með starfsemi um allan heim. Og verður fyrir valinu til að hanna geggjaða framkvæmd eins og Al Noor brúna. Danir eru seigir.
 
Ostenfeld
Eins og gildir um svo mörg af öflugustu fyrirtækjum í Danmörku er COWI nú að mestu leyti í eigu sjálfseignastofnunar (COWI-sjóðsins). Sem er þvert á öll lögmál kapítalismans um velgengni fyrirtæka. Af einhverjum ástæðum virðist þetta undarlega danska viðskiptamódel fúnkera hreint prýðilega!
 
En aftur að Bin Laden og félögum. Bin Ladenarnir er ein af auðugustu fjölskyldunum í Saudi Arabíu. Líklega eiga þessar stórhuga byggingaáætlanir Tarek's Bin Laden þarna í Jemen og Djibútí, rætur að rekja til þess að hann á einmitt ættir að rekja til Jemen. Þeir hálfbræðurnir Tarek og Osama (samfeðra) munu eiga um eða yfir 50 systkini og eru börnin sögð fædd af 22 mæðrum.
 
Saudi Bin Laden Group logo
Auður fjölskyldunnar er risastór bygginga- og iðnaðarsamsteypa; Saudi Bin Laden Group. Það var fjölskyldufaðirinn, sjeikinn Mohammed Bin Awad Bin Laden, sem byggði upp þetta risafyrirtæki. Hann fæddist í Jemen 1908, en fór barn að aldri yfir til Saudi Arabíu. Örlögin höguðu því þannig að þessi fátæki Jemeni varð náinn vinur og samstarfsmaður Abdul Aziz Al-Saud.
 
RooseveltArabia
Ef nafnið Abdul Aziz Al-Saud klingir ekki bjöllum hjá einhverjum lesenda, hefur viðkomandi ekki lesið eldri færslur Orkubloggsins nógu vel!
 
Þetta var nefnilega maðurinn sem stofnaði nútímaríkið Saudi Arabíu og varð fyrsti konungurinn þar í landi. Maðurinn sem fundaði með fársjúkum Roosevelt á Jaltaráðstefnunni 1945, þegar sá snjalli forseti Bandaríkjanna tryggði landinu sínu aðgang að einhverjum mestu olíuauðlindum heims. Á meðan þeir Stalín og Churchill voru á barnum og stóðu í þeirri misskildu trú að þeir væru aðalgæjarnir.
 
Bush_Abdulla_2005
Núverandi konungur Sádanna er einmitt sonur Abdul Aziz Al-Saud. Og enn er mjög spes samband milli æðstu ráðamanna þessara tveggja ríkja; Bandaríkjanna og Saudi-Arabíu (núverandi konungur Sádanna, sem sést hér á myndinni með Bush, heitir Abdullah Bin Abdul Aziz Al-Saud).
 
Það var ekki amalegt fyrir höfuð Bin Laden fjölskyldunnar að verða góðvinur konungs Sádanna. Einmitt um það leyti sem hinar gríðarlegu olíuauðlindir landsins uppgötvuðust á fjórða áratug liðinnar aldar. Mohammed Bin Awad Bin Laden, fékk gríðarlega verktakasamninga upp á milljarða dollara, um uppbyggingu á moskum og ýmsum öðrum byggingum í landinu. Fyrir vikið auðgaðist hann gríðarlega. Góður peningur í trúar-bissnesinum þarna í Arabíu.
 
Sheikh Mohammed bin Awad bin Laden
Þessi goðsögn frá Jemen, faðir þeirra Osama og Tarek Bin Laden, er sagður hafa látist í flugslysi seint á sjöunda áratugnum. Í dag er fjölskyldufyrirtækið einkum þekkt fyrir að koma að bæði skipulagningu og byggingu risavaxinna mannvirkja, bæði fasteigna og samgöngumannvirkja eins og flugvalla og járnbrauta. Við ættum kannski að fá Saudi Bin Laden Group til að sjá um Vatnsmýrarsvæðið? A.m.k. yrði þá væntanlega minni hætta á að allt fari á sama veg og Tónlistarhúsið hjá Portus og Nýsi. Sic.
 
------------------------------------
 
thomas-moore
Já - menn skulu muna að saga þjóðanna á Arabíuskaganum er stórmerk. Og ætti auðvitað að vera námsefni á Orkumálabraut Háskóla Íslands. Sem er reyndar ekki til. Það þykir Orkublogginu þyngra en tárum taki.
 
PS: Ljóðlínurnar hér efst eru úr bókinni "Lalla Rookh, an Oriental Romance", sem kom út árið 1817. Eftir írska ljóðskáldið, rithöfundinn og söngvaskáldið Thomas Moore (1779-1852).

Drekasvæðið

Undanfarið hefur Orkubloggið beint athyglinni að olíuvinnslu á hafsbotni. Litið til þess hvernig olíuleit er að byggjast upp á djúpi Mexíkóflóans. Þar eru menn bjartsýnir um olíu- og gasvinnslu á hafdýpi sem er yfir 3 þúsund metrar.

Drekasvaedid_3

Á Drekasvæðinu íslenska er dýpið mun minna; 1-1,5 km. Hreint smotterí. Þaðan gæti þurft að bora ca. 3-3,5 km niður í hafsbotninn til að finna olíu og gas. Tæknilega séð yrði vinnsla þarna alls ekki sú dýrasta í heimi. Aftur á móti vantar alla innviði olíuiðnaðar hér. Það er eflaust eitt af því sem dregur úr áhuga fyrirtækja eins og Diamond Offshore Drilling. Sem vitnað var í hér á blogginu í síðustu færslu.

Í dag ætlar bloggið að rekja stuttlega hvað búið er að gera á Drekasvæðinu - af hverju menn telja að þar geti hugsanlega fundist olía og gas í vinnanlegu magni og hvernig stendur til að haga leyfiskerfinu.

Dreki_sildarsmuga

Orkubloggið hefur eins og aðrir Mörlandar auðvitað lengi verið meðvitað um ungan jarðfræðialdur Íslands. Sem mun gera vonir um olíufund á Klakanum góða að engu.

En við erum aftur á móti svo ljónheppinn að eiga lögsögu norður á Jan Mayen hrygginn. Sem sést svo prýðilega á myndinni hér til hliðar. Hluta hans svipar mjög til bæði landgrunns Noregs og Grænlands. Olíuauðlindir norska landgrunnsins eru alkunnar og einnig er gert ráð fyrir mikilli olíu við austurströnd Grænlands. Sama gæti einmitt verið upp á teningnum á Jan Mayen hryggnum – a.m.k. ákveðnum hluta hans. Eftir því sem sunnar dregur á hryggnum, hverfur hann undir landgrunn Íslands, sem er miklu yngri jarðfræðimyndun. 

Drekasvaedi_4

Ýmislegt jákvætt hefur komið fram við rannsóknir á svæðinu. Niðurstöður af hljóðendurvarpi, gerð jarðmyndana og ummerki um gas í yfirborðsseti eru allt vísbendingar um að olíu- og gas sé þarna að finna. Þetta mun sérstaklega eiga við um norðurhluta Drekasvæðisins. Sem liggur við efnahaglögsögumörkin að Jan Mayen.

Þar hefur sérstaklega verið afmarkað ca. 4.400 ferkm svæði, sem telst hvað álitlegast. Af því eru um 3.600 ferkm innan íslensku lögsögunnar (afgangurinn er innan þeirrar norsku annars vegar og sameiginlegrar norsk/íslenskrar lögsögu hins vegar, sbr. landgrunnssamningurinn milli Íslands og Noregs frá 1981).

oliudekasvaedi_1

Umræddar ályktanir um hugsanlegt íslenskt olíuævintýri eru ekki síst byggðar á skýrslu norska olíuleitarfyrirtækisins Sagex. Sem Jón Helgi Guðmundsson, oftast kenndur við í BYKO, á stóran hlut í. Eins og Orkubloggið hefur auðvitað löngu áður sagt frá.

Eignarhluti Jóns Helga í Sagex er í gegnum íslenskt fyrirtæki hans, Lindir Resources. Samkvæmt heimasíðu Linda, á félagið einnig í norska olíuleitarfyrirtækinu Nor Energy og í kanadíska Athabasca Oil Sands (AOSC). Hið síðastnefnda sérhæfir sig í olíuvinnslu úr olíusandi - sem er einhver óþrifalegasti bransinn í olíuiðnaðinum. Orkubloggið hefur ekki hugmynd um hvort þetta hafa reynst góðar fjárfestingar fyrir Lindir. En það er mikil synd og skömm að íslenskt fjármagn skuli ekki hafa horft meira til orkugeirans. Og hefur takmarkast um of við vatnsafl og jarðvarma.

Sagex-skýrslan er unnin með hliðsjón af þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið á Drekasvæðinu, m.a. hljóðendurvarpsmælingum norska InSeis. Þeir sem hafa áhuga á kolvetnisauðlindum svæðisins, munu geta keypt öll þessi gögn. Ekki veit ég hvert verðið er - en þeir hjá Sagex virðast duglegir að hæpa upp þann mikla ávinning sem svæðið búi yfir. Sem er væntanlega bara eðlileg markaðssetning á þeim gögnum sem í boði eru.

Nú virðist loks vera komið að því að senn verði boðin út leyfi til olíuleitar, rannsókna og vinnslu á svæðinu. Svæðinu verður þá skipt í reiti, svipað og t.d. er gert á norska landgrunninu. Skv. skýrslu iðnaðarráðuneytisins um Drekasvæðið frá 2007, verður hver reitur rétt tæplega 400 ferkm. Og alls um 110 reitir í boði. Þetta fyrirkomulag á þó eftir að ákveða endanlega.

oil_spar_platform

Sjá má framtíðina fyrir sér þannig: Strax á næsta ári verða leitarleyfin væntanlega boðin út. Þá fá útvalin fyrirtæki heimild til frekari rannsókna innan tiltekinna reita. Til að fá slíkt leyfi þarf viðkomandi fyrirtæki að uppfylla kröfur um sérþekkingu og fjárhagslegt bolmagn til að geta komið að olíuvinnslu. Veiting leyfanna verður í höndum Orkustofnunar.

Olíuleitin mun felast í ítarlegri jarðeðlisfræðilegum mælingum, t.d. hljóðendurvarpsmælingum og ýmsum sýnatökum. Ef fyrirtækið telur leitina gefa tilefni til starfsemi á svæðinu hefjast rannsóknaboranir. Þær eru einnig háðar samþykki Orkustofnunar, en að sjálfsögðu á viðkomandi fyrirtæki forgang að leyfi til rannsóknaborana á sínum reit. Til stendur að ránnsóknaleyfin verði gefin út til allt að 16 ára.

helicopter_platform

Það er fyrst við þessar rannsóknaboranir að borpallar (eða borskip) munu skjóta upp kollinum á Drekasvæðinu. Ekki ólíklegt að það verði einmitt fljótandi pallar, svipaðir þeim sem Orkubloggið hefur þröngvað upp á lesendur sína í síðustu færslum. Einhver ár eru í að þetta gerist.

Reynist rannsóknaboranirnar jákvæðar er svo ráðist í næsta stig - sjálfa vinnsluna. Fyrirtækið sem var handhafi rannsóknaleyfisins að viðkomandi reit, mun væntanlega geta fengið vinnsluleyfi til allt að 30 ára í senn.

Komi til olíuvinnslu á Drekanum mun skapast talsverður fjöldi starfa í landi við að þjónusta pallana. Þyrluflug íslenskra auðmanna er sagt á hraðri niðurleið þessa dagana. En þarna gætu íslenskir þyrluflugmenn etv. fengið nýjan starfsvettvang. Væntanlega yrði það Egilsstaðaflugvöllur, sem yrði nýttur fyrir þetta flug. Einnig myndu birgðaflutningar verða með skipum - hugsanlega yrði Húsavík eða Vopnafjörður kjörinn fyrir þá starfsemi?

bell430-1

Vandi er að spá um það hvaða fárhagslega ávinningi olíuvinnsla á Drekasvæðinu gæti skilað Íslandi. Þar eru óvissuþættirnir fjölmargir. Fer t.d. algerlega eftir því hversu mikil olía finnst á svæðinu, kostnaði við vinnsluna, hversu hátt olíuverð verður á næstu árum og áratugum, skattlagningarprósentunni o.s.frv.

Þess vegna er eiginlega útí bláinn að nefna einhverjar tölur. En hafa má í huga að í Noregi er vinnslan hressilega skattlögð. Sem hefur gert norska olíusjóðinn útbólginn og Norðmenn einhverja ríkustu þjóð heims. Þar er skattlagningin í olíuiðnaðinum líka all svakaleg eða nærri 80% (tekjuskattur plús sérstakur olíuskattur). Eitt er víst - ef veruleg olía finnst á Drekasvæðinu verður þetta margfalt meiri fjárfesting en Kárahnjúkavirkjun og allt það álvers-ævintýri var. Kannski ráðlegast að skipta fyrst yfir í alvöru gjaldmiðil, áður en þetta hugsanlega olíuævintýri fer af stað!

lng-tanker320

Einnig er mögulegt að verulegt gas sé að finna á Drekasvæðinu. Sem myndi væntanlega þýða að lögð yrði leiðsla í land og hér byggð upp verksmiðja sem kælir gasið og breytir því í fljótandi gas. Um slíka starfsemi geta lesendur Orkubloggsins t.d. lesið í færslunni “Mjallhvít”. Slík LNG-vinnsla myndi kalla á umtalsverða orku - m.ö.o. nýjar virkjanir. Menn ættu kannski að doka við með hugmyndir um Bakkaálver og geyma orkuna á Þeistareykjum fyrir meira spennandi verkefni en enn eina álbræðslu. Hafa orkuna fremur tilbúna til framleiðslu á LNG - fljótandi gasi. Og þá verður Húsavík kannski eins konar Hammerfest Íslands.

Nú gæla menn við að olían á Drekasvæðinu gæti enst í ca. 50 ár, en þetta er að sjálfsögðu skot í myrkri. Svo eru önnur svæði á íslenska landgrunninu, sem einnig hafa hugsanlega að geyma olíiu og gas. Kannski meira um þau síðar.

oil_platform_fire_night

En hvenær getum við gert ráð fyrir því að eldspúandi olíupallar verði komnir í fulla vinnslu á Drekasvæðinu? Þ.e.a.s. ef svarta gullið finnst. Sumir segja eftir svona áratug. Orkubloggið myndi veðja á að það taki allt að 15 ár. Rannsóknaboranir gætu byrjað strax 2010-12. En vinnsla verður varla komin á fullt fyrr en um eða eftir 2020.

Það er a.m.k. tómt mál að tala um að íslenskt olíuævintýri reddi málunum fyrir þjóðina nú. En kannski horfa sumir fyrrverandi bankamógúlar engu að síður gráðugum augum til rannsóknaleyfanna. Þó enginn gráðugri en Orkubloggið. Sem er þegar farið að svipast um eftir rétta flotpallinum.

Peningalyktin er spennandi í nefi margra. En minnt skal á að það er alls óvíst að olía finnist á Drekasvæðinu. Þó svo sumir leyfi sér bjartsýni, er vel mögulegt að þarna sé því miður enga vinnanlega olíu að hafa. En ávinningurinn gæti vissulega orðið mikill ef sullið leynist þarna í faðmi Drekans.

---------------------------------------------------------------------

gaddafi_sunglasses

PS:  Reyndar munu olíuhagsmunir Íslands teygja anga sína mun víðar, en segir hér að ofan. T.d. hafa verið að birtast fréttir um eign gamla Kaupþings í írska olíuleitarfyrirtækinu Circle Oil. Sem er m.a. í olíuvinnslu víða í N-Afríku. Enda mun líbýska ríkið eiga stóran hlut í þessu félagi.

Kannski hafa hinir dularfullu og ofurlítið slímugu angar íslensku bankanna fjárfest í fleiri olíufyrirtækjum. Alveg örugglega. Og jafnvel í N-Afríku. Það myndi gleðja Orkubloggið. En kannski er Gaddafi hershöfðingi ekki  alveg sá sem maður ímyndaði sér fyrstan í slíkt samstarf með íslenskum bankamönnum. "Circle completed a GBP 33 million equity funding - principal subscribers were Libya Oil Holdings and Kaupthing bank":

www.oilvoice.com/n/Circle_Oil_Announces_2008_Interim_Results/b911d8eb.aspx


Drekinn og demanturinn

DiamondOffshoreLogo

Orkubloggið er oftast nokkuð bjartsýnt. Eins og í síðustu færslu þegar bloggið veðjaði á Drekasvæðið. Og það jafnvel þótt bloggið væri þá þegar meðvitað um það sem demanturinn Lawrence Dickerson sagði fyrir um mánuði síðan.

Tilefni ummæla Dickerson's var níu mánaða uppgjör olíuleitarfyrirtækisins öfluga Diamond Offshore Drilling. Þá lét hann Larry, sem er forstjóri Demantsins, eftirfarandi orð falla vegna spurninga frá Thomas nokkurn Curran frá Wachovia Capital:

Wachovia Capital: “As you look out across the countries that are poised to open up offshore acreage for the first time, such as Iceland, which of those are you guys most excited about in terms of potential 2010-2011 incremental demand?

Dickerson_Diamond

Larry svaraði að bragði – og talaði þokkalega skýrt: "I think we're a ways away from some of these frontier places, like Iceland, getting out to actually awarding leases where oil companies begin contracting for us. I mean, we're most excited about just Southeast Asia, more countries that may have explored in the past that are ramping up production.”

M.ö.ó. þá er Drekasvæðið of mikið nýjabrum í augum Demantsins.

Reyndar bætti Larry við: “We took a jack-up down to Argentina, the Ocean Scepter, which is first offshore rig to return there in some time. And we had President Kirchner come out and she came on board the rig, so it was a big deal for the country (Cristina Fernandes Kirchner er forseti Argentínu). And those are the kind of things that I see in 2010-2011. I just think we're a long ways away from east coast to the US, and Iceland and Falklands and those kinds of places."

Cristina_Kirchner_Argentina

Iceland and Falklands and those kinds of places! Fjárans sjálfumglaði fýlupoki, segi ég nú bara. Enginn ljúflingur þarna á ferð. Ljótt ef kreppan hefur fleygt okkur niður á eitthvert Falklandseyja-level.

Kannski þarf Larry bara að fá smá hvatningu frá þeim Óla og Dorrit til að koma hlaupandi með borpall hingað norður í rass. Hann virðist soldið spenntur fyrir forsetum. En kannski bara kvenforsetum? Eins og henni Kristínu Kirchner.

Orkublogginu þykir það auðvitað spælandi að menn skulu ekki vera spenntari fyrir Drekanum okkar. Diamond Offshore Drilling þarna westur í Houston er vissulega ekki kóngur eins og Schlumberger eða drottning eins og Transocean. En Demanturinn er nú samt ekki bara eitthvert peð, sem maður getur bara fussað yfir.

Offshore_rig_market_share

Reyndar er Schlumberger yfirleitt ekki talið með þegar menn bera saman olíuborunarfyrirtækin – þeir eru í flestu öðru og því ekki nándar nærri eins sérhæfðir eins og t.d. Transocean, Noble eða Demanturinn. Því má segja að Transocean sé núna - eftir nýlega yfirtöku á GlobalSantaFe – langstærst í þessum bransa. Með rúmlega 20% markaðarins. Þar á eftir koma svo nokkur öflug fyrirtæki – öll með meira en 5% markaðshlutdeild – og meðal þeirra er einmitt Diamond Offshore Drilling.

Demanturinn - Diamond Offshore Drilling - getur rakið upphaf sitt til 6. áratugarins og er nú skráð á hlutabréfamarkaðnum í New York. Þar sem verðið hefur nánast hrunið nú á tímum lækkandi olíuverðs. Sem þýðir líklega ekkert annað en dúndrandi kauptækifæri í þessu snilldar olíuborunarfyrirtæki.

dod_chart

Larry Dickerson og félagar hans hjá Demantinum eru nefnilega með afskaplega gott safn af borpöllum. Þó svo þeir hafi reyndar skutlast með einn tjakk-pall suður til Argentínu, hafa þeir lagt mun meiri áherslu á fljótandi palla, sem nýta má við fjölbreyttar aðstæður. M.a. við djúpboranir á meira en 3 km dýpi og allt að 200 sjómílur frá landi. Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir þessum flotpöllum, enda menn farnir að leita æ lengra út a djúpið.

Þessi tækni er auðvitað ekkert annað en tær snilld. Orkubloggið leyfir sér að fullyrða að þótt Demanturinn sé aðeins með um 6% markaðshlutdeild í borpallaútgerðinni (m.v. 20% hjá Transocean), þá sé Diamond Offshore Drilling málið í þessum bransa. Af pöllunum þeirra 45 eru 2/3 fljótandi – heil 30 stykki - og gætu þeir orðið hrein gullnáma á næstu árum.

Og þó svo Demanturinn virðist ekki spenntur fyrir Drekasvæðinu, er bloggið á því að ekki muni líða langur tími þar til nokkrir fljótandi borpallar verða komnir inná Drekasvæðið, djúpt norðaustan við Ísland.

semisubmersible_oil_rigs

En það væri mikil skömm ef Íslendingar sjálfir leigja sér ekki a.m.k. einn svona pallræfil – til að vera með í olíu-lottóinu. Jafnvel þó að dagsleigan sé ca. 5-600 þúsund dollarar nú um stundir.

Af hverju láta útlendingana hirða kúfinn af olíugróðanum? Ef einhver verður. No pain - no gain!


Djúpið

Nú virðast íslenskir fjölmiðlar skyndilega hafa uppgötvað Drekasvæðið. Og halda vart vatni yfir þeim möguleika að við verðum bráðum öll orðin olíumilljónerar.

bulls-eye

Gott og blessað. En til að finna réttu olíulindina á Drekasvæðinu þarf mikinn pening. Hreint ógrynni. Og tíma. Líkurnar á að hitta á stóra og arðbæra olíulind á svo miklu dýpi, eru svona svipaðar eins og... eins og fljúga yfir Reykjavík í kolsvarta myrkri í 5 km hæð, henda niður fótbolta og hitta beint á miðpunktinn á Laugardalsvelli.

En það er hægt! Myndi auðvitað kosta nokkuð marga flugtúra og ógrynni fótbolta. Og sá sem hittir í bullseye, mun geta brosað breitt. Þannig er hinn harði heimur olíubransans. Það er oftast minnsta mál í heimi að sulla gumsinu upp. Jafnvel af miklu dýpi, fleiri km undir hafsbotninum.

Trikkið er að finna sullið. Hitta í mark. En menn skulu hafa í huga að hver bolti – aðeins einn brunnur - á svona mikið dýpi, kostar allt að 50-100 milljón dollara. Og þá er bara verið að tala um stofnkostnaðinn. Bara leigan á borpalli kostar ca. 600 þúsund dollara dagurinn. Ekki beint bisness fyrir þá sem leita eftir skammtímagróða.

DeepWaterDrilling1

Menn fara auðvitað ekki útí svona mikla fjárfestingu, nema viðkomandi trúi á hátt olíuverð til framtíðar. Sársaukamörk olíuverðs, m.t.t. djúpborana á hafi úti, eru almennt sögð liggja á bilinu 50-70 dollara tunnan. Og þó svo stutt sé síðan olíutunnan fór næstum í 150 dollara, er verðið nú skyndilega fallið ofaní þennan ljóta pytt. Akkúrat núna er verðið... ca. 57 dollarar á Nymex. Sem er náttlega barrrasta útí hött!

Gæti þýtt að olíuiðnaðurinn kippi að sér höndum og leggi allar djúpboranir á ís. Hvort sem er utan við baðstrendur Brasilíu, vestur af Afríku eða í Mexíkóflóa. Ég tala nú ekki um áhættasöm ný svæði, eins og Drekasvæðið.

Orkubloggið er samt bjartsýnt um að margir muni sýna Drekasvæðinu áhuga. Það er nefnilega þannig með djúpboranirnar, að þá horfa menn til langs tíma. Og eru ekki að stressa sig um of á tímabundnum niðursveiflum. Því þegar olíuverðið rýkur upp á ný, verður fátt betra en hafa eina feita uppsprettu tilbúna - hvort sem er hér í nágrenni Klakans góða eða í Mexíkóflóanum. T.d. hafa snillingarnir hjá Anadarko Petroleum sagt að það sé engin ástæða til að fresta djúpborunum, meðan horfur eru á að olíutunnan fari ekki undir 30 dollara til lengri tíma.

Anadarko_tower

Orkubloggið er fullkomlega sammála þessari viðmiðun. Þeir hjá Anadarko vita nefnilega sínu viti. Eru meðal fremstu fyrirtækjanna í Mexíkóflóanum - vel að merkja á djúpinu mikla utan við sjálft landgrunnið. Þeir eru nefnilega hvergi bangnir við að vaða svolítið utar - rétt eins og Orkubloggið hegðaði sér í skaftfellsku ánum hér í Den. Held m.ö.o. að það sé rétt að taka mark á þeim Anadarkóum . Þar sem þeir í ljósaskiptunum horfa gáfulegir á svip út um gluggana á Anadarko-turninum og yfir nýborgina sína sérkennilegu, Woodlands í Texas. Rétt utan við Houston.

Mexíkóflói er einmitt gott svæði að líta til, þegar maður veltir fyrir sér hvort raunhæft sé að fara að sulla á Drekasvæðinu. Þarna í “the Gulf” - á fellibyljasvæðinu ógurlega - er nú búið að bora einhverja svakalegustu holu til þessa dags. Tilraunabrunninn Jack 2, 150 sjómílur suður af ströndum Louisiana. Dýpið þarna er rúmir 2 km og holan sjálf 6 km ofaní hafsbotninn. Samtals heilir 8 km!

jack2_big-oil

Og þarna rákust menn á prýðilega lind, sem þegar í stað frussaði upp nokkur þúsund tunnum af olíu. Sem er náttúrulega bara smotterí - en menn eru vongóðir um að þarna leynist gríðarleg olía. En til að nálgast hana þurfa menn að vera tilbúinn með úttroðna buddu. T.d. kemur fyrir að sanddrulla þvælist með og stífli árans rörið. Hreint smámál að redda því - en ekki óalgengt að það kosti svona u.þ.b. eina milljón dollara.

Það var 2006 sem pallurinn Cajun Express kom niður á olíuna þarna í djúpinu. Í holunni sem kölluð er Jack 2. En fljótlega varð að setja verkefnið á hold, því þörf var á að nýta borpallinn annars staðar. Vegna síaukinnar eftirspurnar eftir olíu síðustu árin, hefur nefnilega orðið skortur á borpöllum og -skipum til djúpborana. Og ekkert bendir til annars, en að sú eftirspurn eigi eftir að aukast enn meira - um leið og heimurinn hristir af sér yfirstandandi samdrátt. Enda hefur allt verið á suðupunkti upp á síðkastið hjá skipasmíðastöðvum, sem sérhæfa sig í þessum apparötum. Þær eru fyrst og fremst í Suður-Kóreu og... auðvitað norskar skipasmíðastöðvar. Já – Norsararnir vinna alltaf.

mexico_gulf_oil

Fólkið á bak við Jack 2 brunninn er frá Chevron. Sem á helming í þessu djúpborunarævintýri þarna í Flóanum. Hinn helmingurinn skiptist á milli norsku vina okkar hjá StatoilHydro og Devon Energy - sem er eitt af þessum öflugu, lítt þekktu og “litlu” bandarísku olíufélögum.

Bandarískir fjölmiðlar ráku upp siguróp þegar fréttist af þessari nýfundnu olíu í Flóanum. “Nýtt Prudhoe - stærsta uppgötvunin í bandaríska olíubransanum í fjóra áratugi!”.

Já - þetta var talsverður viðburður. Enda var settur fjöldi heimsmeta við Jack 2 borunina. Merkasta metið var auðvitað að finna og ná upp olíu af svo fáheyrðu dýpi. Nú gæla menn við að undir djúpi Mexíkóflóans sé unnt að finna allt að 15 milljarða tunna af olíu. Sem myndi þýða að olíubirgðir Bandaríkjanna séu um 50% meiri en hingað til hefur verið talið.

Svo eru menn eitthvað að rugla um peak-oil! Málið er auðvitað að það er nóg af olíu. Vandamálið felst í kostnaðinum. Meðan peningar skipta ekki máli er hægt að finna fullt af olíu. En einhversstaðar liggja mörkin. Þegar olían verður “of dýr” mun framleiðslan toppa. En sú viðmiðun er síbreytileg og þess vegna er olíubransinn auðvitað ennþá aðalbransinn.

Oil_Rigs_Graph

Stóra spurningin er á hvað menn vilja veðja? Ef olíufélögin hella sér í djúpboranir utan landgrunnsins, væri brilljant að hafa sett pening í fyrirtæki sem framleiða borpallana (eða borskipin) sem þarf í svoleiðis stúss. Þeir eru nefnilega af mjög skornum skammti í dag. Þeir hjá Anadarko vita þetta og eiga til að mynda stóran hlut í rekstri á undrapallinum Independence Hub. Sem er risastór gasvinnslupallur, sem liggur djúpt úti af árósum Mississippi, hvar dýpið er um 2.500 m. Kannski meira um þennan pallabissness síðar hér á Orkublogginu.

Ekki er augljóst hvernig olíuvinnsla mun þróast þarna í Mexíkóflóanum. Kannski verður hagkvæmara að nálgast fyrst hinar stóru olíulindir undir NV-hluta Bandaríkjanna. Sem kenndar eru við Bakken. Þar undir Montana og Dakóta og alla leið norður til Saskatchewan í Kanada, er líklega að finna 200 milljarða tunna. Kannski er áhugaverðara fyrir olíufyrirtækin að horfa til þess, fremur en að standa í einhverju veseni djúpt útí rokbörðum sæ?

Drekasvaedid

En þó svo Bakken-lindirnar séu með glás af olíu, eru þetta soddan þunnildi að það kostar hreint ferlega mikið að sækja þá olíu. Í anda Drekans ætlar Orkubloggið því að veðja á djúpið mikla! 


Fláráður og vinir hans

"Je veux devenir calife à la place du calife". Þannig hafa margir látið sig dreyma. T.d. dreymir nú margan íslenskan stjórnmálamanninn um digran bankastjórnar-bitling. Og Fláráð stórvesír dreymdi um að verða kalífi. Rétt eins og gömlu olíurisana hefur lengi dreymt um að komast aftur yfir olíuna i Írak.  Og nú rætast draumarnir hver á fætur öðrum. Meðan almenningur stendur, horfir á og blæðir.

iznogoud_all

"Ég vil verða kalífi í stað kalífans!". Hver man ekki eftir þessari yndislegu setningu hans Fláráðs stórvesírs. Eða Iznogoud eins og hann heitir í upprunalegu frönsku útgáfunni. "Is-no-good"! Í teiknimyndasögunum um þrenninguna sprenghlægilegu; hinn sípirraða og gráðuga skíthæl Fláráð stórvesír, hinn ljúfa en vitgranna aðstoðarmann hans og grunlausu fitubolluna hann Harún kalífa.

Nú sýnist manni Ísland skyndilega lent í einu allsherjar Iznogoud-ástandi. Þar sem hefnigjarnir gamlir stjórnmálamenn og gráðugir bankastjórar sameinast í að vera klónar af stórvesírnum sjálfum. Honum Fláráði.

Og það er ekki leiðum að líkast. Í dag er Fláráður auðvitað snilldartáknmynd fyrir gömlu stóru olíufélögin. Sem nú keppast um að komast yfir einhverjar mestu olíubirgðir heimsins. Hinar svakalegu olíulindir í Írak.

oil_world_eni

Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar er olíuveröldin í reynd tvískipt. Annars vegar eru gömlu bandarísku olíufélögin, ásamt nokkrum evrópskum kunningjum, sem öll hafa mikla reynslu og tækniþekkingu en vantar aðgang að nýjum olíulindum. Hins vegar eru nýju ríkisolíufélögin, sem ráða yfir öllum stærstu olíulindum heimsins.

Mitt í valdabaráttu þessara tveggja fylkinga liggur einskismannslandið Írak. Sem ekki er enn útséð með í hvorri klíkunni lendir. Það munskipta gríðarlegu máli. Í Írak er að finna næstmestu olíubirgðir heimsins. Einungis Sádarnir eiga meiri birgðir (og auðvitað Kanada ef olíusandurinn er talinn með).

Cartoon_bush_iraq_oil

Nýjustu fréttir eru reyndar þær, að í Írak kunni jafnvel að vera ennþá meiri olía en í arabíska sandinum. Þess efnis að allt að 350 milljarðar tunna af olíu eigi eftir að finnast í Írak! Sem er hressilega meira en þær skitnu 215 milljarðar tunna sem Sádarnir líklega eiga. Orkubloggið barrrasta svitnar af sælu við þessa tilhugsun.

Þeim sem ráða á Vesturlöndum hryllir við þeirri tilhugsun að olíulindirnar í Írak lendi undir hrammi enn eins ríkisolíufélagsins. Eins og málin hafa þróast undanfarið, bendir allt til þess að íraski olíuauðurinn eins og hann leggur sig, hafni í faðmi gömlu olíurisanna. Sem Orkubloggið leyfði sér nýlega að kalla dvergana sjö.

Cartoon_iraq_oil

Nú sjáum við sem sagt möguleikann á upprisu dverganna. Eftir innrás Bandaríkjanna í Írak upphófst mikið baktjaldamakk vestur í Washington. Um það hvernig skyldi farið með olíulindir Íraka. Gömlu afkvæmi Standard Oil auðvitað slefuðu yfir því að komast í þetta massífa gums. Meðan aðrir töldu heppilegra að íraska olían yrði heldur í höndum nýfrelsaðra  Íraka - og vildu einkavæða olíuiðnaðinn í Írak með aðkomu íraskra fyrirtækja.

Svo fór að sjónarmið gömlu olíufélaganna urðu ofaná. Kannski aðallega vegna þess að mennirnir í Vesturálmunni voru meðvitaðir um "hættuna" sem annars gæti skapast - að skyndilega myndu írösk yfirvöld þjóðnýta olíulindirnar. Og kannski byrja að selja olíuna til Kínverja, Indverja eða annarra álíka vandræðagemsa. Vitað er að Kínverjar voru u.þ.b. að landa slíku samkomulagi við Saddam Hussein, skömmu fyrir innrásina í Írak.

Cartoon_Bush_iraq

Nei - þetta skyldi sko ekki gerast. Þarna var komið dásamlegt tækifæri til að styrkja gömlu, góðu vestrænu olíufélögin - og tryggja sér aðgang að einhverjum  mestu olíulindum heimsins.

Um leið myndi Vesturlöndum hugsanlega takast að klekkja á ofurvaldi OPEC-ríkjanna. Með því að nota írösku olíuna til að neyða OPEC til að lækka olíuverðið.

Þar með myndu Bandaríkin og önnur lönd í vestrinu hugsanlega ná aftur því mikla valdi á olíumörkuðunum, sem þau misstu í kjölfar orkukreppunnar 1973 og klerkabyltingarinnar í Íran1979.

Þarna er að rætast ekki ósvipaður draumur og ljúflingurinn Fláráður stórvesír hafði - um að verða kalífi í stað kalífans! Kannski verður óhamingja Íraka, sem í áratugi máttu þola harðstjórn Saddam Hussein, til þess að við ljúflingarnir á Vesturlöndum fáum aftur ódýra olíu. Og getum nýtt hana sem eldsneyti á enn eina bóluna og staðið keik, enn um sinn.

Já - kannski renna hinir "gömlu og góðu" dagar upp á ný. Í sumar var Pentagon einmitt búið að ákveða að Shell, BP, ExxonMobil, Chevron og Total gætu byrjað að stinga fingrunum í Íraska jörð. Svo skemmtilega vill til að þetta eru einmitt sömu olíufélögin og lengi vel réðu yfir olíunni í Írak. Í reynd allt fram til þess að Saddam Hussein þjóðnýtti gumsið árið 1972. Rétt fyrir olíukreppuna, sem Orkubloggið nefndi einmitt í síðustu færslu.

iznogoud_angry

Fjárans delanum honum Saddam tókst nefnilega að fleygja vestrænu olíufélögunum burt - og var að því leyti árangursríkari en íraski hershöfðinginn Abd al-Karim Qasim, sem reyndi hið sama árið 1961. Fyrir vikið varð Saddam þjóðhetja í Írak - tímabundið - og styrkti sig mjög í endalausri valdabaráttunni þar í landi.

Því miður fékk þetta fína plan Pentagon ekki snurðulausan framgang. Einhverjir hundleiðinlegir öldungadeildarmenn vestur í Washington þurftu að skemma planið hjá Pentagon. Með því að byrja að nöldra um óeðlileg hagmunatengsl. Og þar með fresta örlítið þessari fínu fléttu hjá Pentagon.

En það er huggun harmi gegn að nú í lok september - þegar allir voru hættir að huga um annað en forsetakosningarnar þarna vestra - fékk Shell loks samning um aðgang að olíulindum í Basra.

Og nú í byrjun nóvember - fyrir örfáum dögum - bárust þær fréttir að Shell hefði að auki fengið einkarétt til 25 ára að mestöllum olíu- og gaslindum í suðurhluta Íraks. Þannig að þetta er allt í áttina. Nú verður spennandi að sjá hvaða félag fær olíuna í Kirkuk!

Já - hann Fláráður virðist barrrasta vera orðinn kalífi. Kannski ekki í Bagdad ennþá - en a.m.k. í Basra.

vofa-davids

Og íslensku pólitíkusarnir eru aftur að komast í bankaráðin sín. Og sumir náðu bönkunum úr höndum "óreiðumannanna" og "götustrákanna". Gripu tækifærið og kaffærðu Glitni - og svo restina. En kannski voru íslensku bankarnir að drukkna hvort sem var...

Allt gerðist þetta án þess að íraska þjóðin eða íslenska þjóðin væru spurðar álits. Þetta er eitthvað svo sætt. En auðvitað hvílir ennþá skuggi óvissu yfir Fláráðum heimsins.


Leyfi nr. 229: Golíat

Mjallhvít litla var rétt nýkomin á svæðið, þegar risinn ógurlegi birtist. Og færði henni blóm, með von um ástríka framtíð. Enda ekki nema u.þ.b. 50 km á milli þeirra, þessara tveggja krúttlegu orkubolta í norska Barentshafinu.

goliat_article

Menn voru auðvitað pínupons hræddir við að leggja mikinn pening í að leita að olíu og gasi alla leið norður í Barentshafi. En varla voru Norsararnir byrjaðir að byggja upp gasvinnsluna á Mjallhvítarsvæðinu utan við Hammerfest í N-Noregi, þegar þeir römbuðu á hann Golíat. Pissfullan af olíu.

Reyndar voru það ekki norskar skotthúfur, heldurt suðrænir töffarar með 3ja daga skegg, sem fundu olíulindirnar kenndar við Golíat. Nefnilega Ítalir frá orkufyrirtækinu Eni. Sem lesendur Orkubloggsins ættu að vera farnir að kannast vel við. Og þar með gat gönguskíðaþjóðin góða byrjað að undirbúa fyrstu olíuvinnslu norður í Barentshafi.

Goliat_area_map

Já - einungis um 50 km suðaustan við hana Mjallhvíti hafa nú fundist nýjar og spennandi olíulindir. Sem fékk auðvitað Norsarana í Hammerfest til að brosa enn breiðar. Þar sem þeir mauluðu hádegisnestið sitt framan við tölvurnar og horfðu dreymandi út á sjóinn.

Aðdragandinn var sá að árið 1997 gáfu skriffinnarnir í norska olíumálaráðuneytinu út leyfi til olíuleitar á Golíat-svæðinu í Barentshafi. Framleiðsluleyfi nr. 229! Og haustið 2000 uppgötvaðist svo olíulindin. Næstu árin var talsverð andstaða við að fara í olíuvinnslu á þessu viðkvæma hafsvæði. Sem er ríkt af fiskimiðum og mengunarslys gæti valdið miklu tjóni. En í desember 2003 var ákveðið að slá til, eftir að ítarlegar rannsóknir höfðu farið fram á svæðinu. Og hinir rómantísku Ítalir - Gente di mare - settu allt á full swing.

Já - það var auðvitað Eni sem var fengið til að gera prufuboranirnar vegna Golíat – enda fáir með jafn mikla og góða reynslu af olíuleit á hafsbotni. Þeir ljúflingarnir suðrænu fleygðu dallinum Eiríki rauða þarna úti Barentshafið og boruðu alls þrjár holur. Eða brunna, eins og það er kallað í olíubransanum. Eni er reyndar það fyrirtæki sem hvað mest hefur komið að ævintýrinu á norska landgrunninu – komu þangað strax í upphafi partýsins á sjöunda áratugnum og hafa nú líklega ein 14 vinnsluleyfi innan norsku lögsögunnar.

Goliat_logo

ENI fékk 65% eignarhlut í leyfi nr. 229, Statoil átti 20% og norska fyrirtækið DNO (Det Norske Oljeselskap) 15%. Nýlega keypti Statoil DNO út og því eru nú einungis tveir handhafar að leyfinu.

Í kjölfar tilraunaborana leit út fyrir að Golíat byggi yfir u.þ.b. 50 milljón tunnum af olíu. Nú hafa tveir brunnar verið boraðir í viðbót – með þeirri ljúfu niðurstöðu að þarna séu a.m.k. 200-250 milljón tunnur. Og auðvitað gasið, sem liggur ofan við olíuna. Svo er aldrei að vita nema þetta sé rétt smjörþefurinn af olíunni af svæðinu – sólbrúnu jaxlarnir hjá Eni hafa hvíslað því að mér að þeir vonist eftir allt að 800 milljónum tunna frá Golíat!

Sjávardýpið þarna eru skitnir 340 metrar, en sjálfar auðlindirnar er að finna í tveimur lögum. Sem annars vegar eru ca. 1.000 m undir hafsbotninum og hins vegar heila 1.800 m. Þrýstingurinn virðist í lægri kantinum, þ.a. það verður ekki beint sáraeinfalt að ná svarta gullinu upp á yfirborðið. Enda er heildarkostnaður vegna vinnslunnar áætlaður um 20 milljarðar norskra króna. Sem er nú samt líklega ekki meira en svona rétt rúmlega tvær Kárahnjúkavirkjanir. Það þætti Landsvirkjun varla mikið...?

Undanfarna mánuði hefur Eni verið að velta vöngum yfir því hvernig best verði að standa að vinnslunni. Sem gæti staðið yfir í ca. 10-15 ár. Þeir í N-Noregi vildu auðvitað að vinnslan skapi sem flest störf í landi. Og vonuðust t.d. eftir því að leggja stóran og mikinn rafmagnskapal út á vinnslupallinn – sem myndi kalla á byggingu rafvirkjunar í landi.

Goliat_tech

Fyrr á þessu ári ákvað Eni aftur á móti að þeir muni nýta bortækni sem verður á hafsbotninum og fljótandi pallur verði notaður sem olíugeymir og virkjun. Væntanlega verður gasið frá Golíat nýtt til rafmagnsframleiðslunnar. Hæpið er að olíunni verði dælt í land, heldur sent beint til útflutnings. Ef fyrst ætti að senda gumsið til Hammerfest, myndi það nefnilega kosta aukalega ca. 13 milljarða norskra króna. Sem varla getur talist réttlætanlegt - nema kannski þar sem ríkir íslensk byggðastefna eins og hún gerist best.

Þess er vænst að byrjað verði að koma græjunum þarna fyrir eftir tvö ár og vinnslan byrji svo 2012. Framleiðslugetan verður þá ca. 100 þúsund tunnur á dag. Til samanburðar þá eru mestu olíuvinnslusvæði Norðmanna í dag, Tröllasvæðið og hið dásamlega gullepli Ekofisk, líklega að gefa af sér hátt í 300 þúsund tunnur daglega hvort um sig. Þannig að þetta verður sæmilegasta búbót frá honum Golíat.

Vonandi verður hinn norski Golíat langlífari en hinn íslenski Samson. Báðir voru þessir goðsögulegu risar heldur ógæfusamir í hinum upprunalegu sögnum.

samson_logo_3

Svo fór, sem kunnugt er, að Samson hinn íslenski tórði einungis í fáein ár - þó menn hér héldu að umrætt eignarhaldsfélag yrði kjölfestan í íslensku atvinnu- og fjármálalífi til ókominnar framtíðar. Til allrar hamingju eiga Bjöggarnir líklega ennþá smávegis skotsilfur - sem þeir geta kannski sett í Drekasvæðið íslenska?

E.t.v. eru Norðmenn bara einfaldlega snjallari fjárfestar en Íslendingar. A.m.k. virðist flest ganga upp hjá þeim í olíuævintýrinu mikla. Og hefur gengið þokkalega í meira en 40 ár.

---------------------------- 

PS: Læt fylgja hér undarlega frétt um nýtt samkomulag Íslands og Noregs, sem spyrðir einhvern meintan "óskýrleika" í landgrunnssamningi landanna frá 1981 saman við peningalán Norðmanna til Íslands: 

"Norway and Iceland sign border treaty…”A treaty from 1981 gives Norway the right to a 25 percent participation in a limited part of Iceland's continental shelf. The new treaty clarifies better the terms in the 1981 agreement. The new treaty is signed only three days after the Norwegian Bank gave the Icelandic Government a loan of approximately 1 million EUR".

 http://www.barentsobserver.com/norway-and-iceland-sign-border-treaty.4524106.html

 


Tangentopoli

Eni_logo_3

Eni. Ítalska ofurfyrirtækið sem er eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi. Fyrirtækið hans Enrico Mattei – sem margir telja að CIA eða leigumorðingjar hafi komið fyrir kattanef. Af því hann keypti olíu af Sovétmönnum og virtist jafnvel ætla að komast fram fyrir bandarísku olíufélögin í keppninni um olíuna frá bæði Írak og Persíu (Íran).

Í síðustu færslu sagði Orkubloggið stuttlega frá tilurð þessa magnaða ítalska fyrirbæris. Sem á fáeinum árum varð einn af aðalleikendunum í orkuleikriti veraldarinnar á eftirstríðsárunum, þó svo fremur litla olíu eða gas sé að finna í ítalskri lögsögu.

Enrico Mattei stamp

Við skildum við félagið 1962, þegar Mattei fórst í dularfullu flugslysi. Þá þegar var Eni orðið stórveldi – bæði vegna gaslinda sem fundust undir Adríahafinu og þó fyrst og fremst vegna starfseminnar erlendis. Mattei náði samningum við bæði Egypta og Persa um aðkomu Eni að olíulindunum þar. Eftir fráfall Mattei’s hélt félagið áfram að vaxa í skjóli ítalska ríkisins - þar sem yfirburðastöðu þess var óspart beitt til að ná kverkataki á stórum hluta iðnaðarframleiðslu í landinu.

 Í dag ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að niðurlægingu Eni í upphafi 10. áratugarins og manninum sem náði að hefja það til vegs og virðingar á ný. Eins og vonandi verður með íslensku bankana. 

Sagt er að vald spilli. Og eftir því sem Eni varð valdameira jókst spilling innan fyrirtækisins. En hún fór hljótt og komst í reynd ekki upp á yfirborðið fyrr en 1992. Þegar fyrirtækið var að sligast undan geggjaðri skuldsetningu. Og spilaborgin hrundi. Það drama leiddi til handtöku margra æðstu stjórnenda fyrirtækisins - með skelfilegum persónulegum harmleik.

Í júlí 1993 fannst Gabriele Cagliari, fyrrum forstjóri Eni, kafnaður í fangaklefa sínum - með plastpoka um höfuðið. Cagliari sætti þá ákærum um stórfelldar mútur og hafði setið í varðhaldi í nokkra mánuði.

gardini

Og örfáum dögum seinna skaut Raul Gardini höfuðið af sér í 18. aldar höllinni sinni í Mílanó. Það sjálfsmorð vakti smávegis athygli, enda var Gardini yfir næststærstu iðnaðarsamsteypu á Ítalíu - Ferruzzi Group. Fyrirtæki Gardini's var einfaldlega allt í öllu í ítölskum iðnaði (einungis Fiat-samsteypan hans Gianni Agnelli's var stærri en viðskiptaveldi Gardini).

Þetta var auðvitað sorglegur endir á ævi mikils merkismanns. Sem fáeinum mánuðum áður hafði baðað sig í dýrðarljóma, þegar risaskútan hans - Il Moro di Venezia – náði frábærum árangri í America's Cup. Já – mikil veisla fyrir Orkubloggið sem bæði dýrkar siglingar og olíu. 

Allt var þetta angi af hinni algjöru pólitísku spillingu á Ítalíu – Tangentopoli - sem náði bæði til kristilegra demókrata og sósíalista. Og leiddi til fjöldasjálfsmorða meðal æðstu klíku ítalskra embættismanna og viðskiptajöfra. Kannski má segja að hrun þessarar gjörspilltu klíku hafi náð hámarki þegar Bettino Craxi, sem verið hafði forsætisráðherra Ítalíu 1983-87, flúði undan réttvísinni til Túnis 1994.

Dentro Bettino, fuori il bottino”, hrópaði ítalskur almenningur. Og grýtti Craxi með smápeningum, þegar upp komst um viðurstyggilegt siðleysi hans og græðgi.

craxi_dead

Og Craxi snéri aldrei heim aftur, enda beið hans þar 10 ára fangelsisdómur. Það ótrúlega er nefnilega, að þrátt fyrir allt er til réttlæti á Íslandi... á Ítalíu vildi ég sagt hafa. En það má kannski segja að það hafi einmitt verið öll þessi upplausn sem kom Berlusconi til valda á Ítalíu. Sem var kannski ekki besta þróunin.

En hvernig gat Eni orðið eitt af stærstu orkufyrirtækjum heims? Líklega sambland af heppni og útsjónarsemi. Fyrirtækið náði tangarhaldi á miklum gaslindum í Túnis og Alsír á 7. áratugnum. Sem urðu að hreinni gullnámu þegar olíukreppan skall á 1973. Og eftirspurn eftir gasi jókst skyndilega.

Starfsemi Eni í Adríahafinu, sem hófst löngu á undan Norðursjávarævintýrinu, leiddi til þess að Eni varð leiðandi fyrirtæki við gasvinnslu úr hafsbotni. Og þeir búa enn að þessu forskoti sínu, núna þegar gasvinnsla er að hefjast í Barentshafi. Nú þegar vinnslan færist stöðugt norðar eru fyrirtæki eins og Eni og StatoilHydro einfaldlega í vinningsliðinu.

Já - Ítalirnir leyna á sér. A.m.k. ef litið er framhjá langvarandi taprekstri innan Eni-samsteypunnar og hroðalegri spillingar stjórnenda félagsins eftir daga Enrico Mattei. Líklega hefði félagið hrunið fljótlega upp úr 1990, eftir skandalinn mikla, ef ekki hefði komið til maður að nafni Franco Bernabé.

bernabe

Bernabé var millistjórnandi hjá Eni og hafði lengi barist fyrir breytingum innan fyrirtækisins. Í upphafi 10. áratugarins þegar Eni virtist einfaldlega að hruni komið fjárhagslega, taldi þáverandi forsætisráðherra Ítalíu,  Guiliano  Andreotti, að Bernabé væri rétti maðurinn til að reyna að bjarga því sem bjargað varð. 

Skuldir Eni í árslok 1992 námu a.m.k. 19 milljörðum dollara og tapið það ár var nærri 700 milljónir dollarar. Og Bernabé bretti upp ermarnar. En þá kom líka allur skíturinn í ljós - og skyndilega stóð hann einn. Öll yfirstjórn fyrirtækisins var komin á sakamannabekk og stjórnin sömuleiðis. Sjálfur hefur Bernabé lýst þessu þannig, að það hafi verið líkt og fá atómsprengju í höfuðið.

En til að gera langa sögu stutta, þá gekk Bernabé til verks, hreinsaði burtu óarðbæra starfsemi og rekstur sem kom orku ekki nokkurn skapaðan hlut við. Gjörsamlega umsnéri öllu hjá Eni. Og aðeins fjórum árum síðar skilaði Eni-samsteypan þremur milljörðum USD í hagnað og var orðið eitt stærsta og best rekna orkufyrirtæki heims.

olafur_eliasson

Ætli Íslendingar fái bráðum sinn eigin “Franco Bernabé”. Eða verða bankarnir barrrasta einkavinavæddir á ný? Eftir þessa snyrtilegu kennitölufléttu.

Þess má geta að Bernabé er nú orðinn forstjóri Telecom Italia. Og tók auk þess hliðarspor frá business as usual og varð formaður Feneyjatvíæringsins. Fjölhæfur og snjall náungi þar á ferð.


...og dvergarnir sjö!

Um miðja 20. öld skapaði ítalski stjórnmálamaðurinn og einhver áhrifamesti maðurinn í iðnaðaruppbyggingu Ítalíu, Enrico Mattei, hugtakið "systurnar sjö".

Enrico_Mattei

Flest íslenskt áhugafólk um olíu og iðnað þekkir væntanlega hann Enrico Mattei. En samt þykir Orkublogginu rétt að fara hér örfáum orðum um kappann.

Mattei var einn af andspyrnuhetjum Ítalíu í stríðinu. Fasistastjórn Mussolini's hafði komið á fót olíufélaginu Agip - og nú var Mattei falið það hlutverk að leysa félagið upp og losa Ítali við þennan viðbjóð fasistanna. En í stað þess að tvístra Agip - þessu sköpunarverki fasistanna - upp í frumeindir sínar, ákvað Mattei þvert á móti að halda bæri félaginu og nýta það til stórfelldrar iðnaðaruppbyggingar Ítalíu.

Þessa ákvörðun tók hann þvert á vilja pólitíkusana. En svo fór að vinstrimenn á Stígvélinu góða studdu áætlun Mattei's. Og fljótlega réð Agip - og Mattei - yfir hundruðum fyrirtækja í landinu. Árið 1953 samþykkti ítalska þingið svo lög, sem settu á fót orkufyrirtækið Eni, sem voru nýjar umbúðir utan um Agip.

En það var ekki létt verk að byggja upp metnaðarfullt ítalskt olíufélag, sem þurfti að keppa við stóru bandarísku félögin. Mattei fór ófögrum orðum um það sem hann kallaði "systurnar sjö" - risaolíufélögin sjö sem þá réðu nánast einu og öllu í olíuiðnaði veraldarinnar.

Seven_Sisters_Old

Flest þessi félög voru afsprengi Standard Oil – félagsins hans John D. Rockefeller's sem hafði verið leyst upp með dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Nánar tiltekið voru systurnar sjö Standard Oil of New Jersey (sem síðar varð Esso – og svo Exxon og er nú hluti af ExxonMobil), Standard Oil of New York (sem síðar varð Mobil og er nú líka hluti af ExxonMobil), Standard Oil of California (sem nú er Chevron), Gulf Oil (sem síðar rann inní Chevron), Texaco (sem nú er líka hluti af Chevron) og loks tvö evrópsk félög. Sem voru breska félagið Anglo Persian Oil Company (sem síðar varð að British Petroleum eða BP) og bresk-hollenska olíufélagið Shell.

Enrico Mattei_plane

Þegar Mattei talaði um ofurvald systranna sjö upp úr heimsstyrjöldinni síðari, grunaði hann ekki hvernig olíuheimurinn myndi gjörbreytast á næstu hálfri öld. Sjálfur var hann grjótharður nagli í viðskiptum og náði mörgum samningum fyrir olíuvinnslu Eni með því að undirbjóða systurnar sjö. Hann var dáður af ítölskum almenningi - svo vinsæll að enginn þorði að hreyfa við honum. Hvorki óvildarmenn á vinstri vængnum, né kristilegir demókratar. En sumir telja reyndar að flugvél Mattei's hafi verið skotin niður, þegar hún fórst skammt sunnan Mílanó í október 1962. Um borð í þessari nettu einkaþotu voru flugmaðurinn, Mattei og bandarískur blaðamaður og fórust þeir allir þrír. Mattei var þá 56ára.

Eftir fráfall Mattei fór að bera á ýmsum erfiðleikum hjá Eni. Og svo fór að ítalskt efnahagslíf lenti í miklum öldudal. En systurnar sjö lifðu áfram góðu lífi - enn um sinn. Eftir hinar geggjuðu sameiningar í lok 20. aldar, var reyndar byrjað að lýsa stærstu einkareknu olíufélögum heimsins sem risunum sex - "the six supermajors". Þau eru auðvitað áðurnefnd félög ExxonMobil, Shell, BP og Chevron, auk bandaríska ConocoPhillips og franska Total. Þetta eru sem sagt stærstu, hefðbundnu einkareknu olíufélögin í heiminum í dag. Arftakar systranna sjö. En eru þetta ennþá risarnir á olíu- og gasmarkaði heimsins?

Seven_sisters_oil_production

Nýr hugsanaháttur alþjóðasamfélagsins eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari leiddi til hruns nýlendustefnunnar. Upp spratt ný tegund olíufélaga - ríkisolíufélög á gömlu nýlendusvæðunum sem réðu yfir gríðarlegum olíulindum. Þetta byrjaði með ríkisvæðingu olíuiðnaðar Arabaríkjanna. Þar fór auðvitað Saudi Aramco þeirra Sádanna í fararbroddi. Einnig reis upp ríkisrekinn olíuiðnaður víðar í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og Venesúela. Völd bandarísku olíufélaganna og Shell og ekki síst BP fóru ört minnkandi á heimsmarkaðnum.

Það sem bjargaði gömlu systrunum sjö var tækniþekkingin og aðgangur að fjármagni vestrænna banka. Nýju ríkisolíufélögin voru fyrst og fremst umráðamenn olíulinda, en þurftu samstarf við systurnar til að ná gumsinu upp. Þess vegna eru félög eins og ExxonMobil, Shell og BP enn risastór og öflug félög - jafnvel þótt þau hafi mjög takmarkaða möguleika á að finna nýjar olíulindir heima fyrir. Eins og grafið hér að ofan sýnir vel.

opec-logo

Stofnun OPEC (Organization of the Petroleum Exporting Countries) í upphafi 7. áratugarins var líklega mikilvægasta skrefið í að færa áhrifasvæði olíuiðnaðarins frá Bandaríkjunum og Evrópu, til Mið-Austurlanda. En hugmyndin að OPEC mun reyndar hafa komið frá Venesúela.

Undir regnhlíf OPEC gátu nýju ríkisolíufélögin haft mikil áhrif á olíuframboð og þar með stýrt verðinu. Það var þó ekki fyrr en á 8. áratugnum að völd OPEC urðu almennilega áþreifanleg. Þegar Bandaríkin náðu ekki lengur að fullnægja eftirspurn innanlands með framleiðslu heima fyrir. Og urðu þar með háð innfluttri olíu.

Moshe_Dayan_Time_cover

Kaldur raunveruleikinn birtist Bandaríkjunum og öðrum Vesturlöndum á dramatískan hátt þegar Yom Kippur stríðið skall á í október 1973. Til að setja þetta í samhengi, læt ég hér fljóta með eina gamla forsíðu Time. Allt sæmilega þroskað fólk man eftir honum Moshe Dayan - hershöfðingjanum með leppinn. Sem m.a. stýrði ísraelska hernum einmitt til sigurs í Yom Kippur stríðinu gegn Egyptalandi og Sýrlandi. Þá var hann reyndar varnarmálaráðherra og mistókst hrapalega að sjá fyrir innrásina frá Arabaríkjunum. En Ísraelar líta engu að síður á hann sem þjóðhetju.

Arabaríkin voru ekki sátt við stuðning Vesturlanda við Ísrael og Sádarnir ákváðu að minnka olíuframboð til vestursins um heil 25%! Olíukreppan fræga skall á.

Samkomulag um lausn náðist fljótlega eða snemma árs 1974. En óróleikinn hafði þá þegar leitt til hlutabréfahruns - ekki síst í Bretlandi. Þessu öllu tengdust svo þeir atburðir að Bandaríkin hættu að tengja dollarann við verð á gulli og lögðu Bretton-Woods peningakerfið til hliðar. Dollarinn féll og það leiddi til ennþá ýktari hækkunar á olíuverði, því það reiknaðist í dollurum.

Oil_Crisis_Prices

Efnahagslegur raunveruleiki hundruða milljóna Bandaríkjamanna og Evrópubúa var gjörbreyttur til allrar framtíðar. Og hið hækkandi olíuverð færði sífellt meiri völd til ríkisreknu olíufélaganna og OPEC.

Næstu árin eftir 1974 einkenndust af háu olíuverði og mikilli verðbólgu víða um heim. Kannski var helsta rót þessa erfiða efnahagsástands óhófleg eyðsla Bandaríkjanna vegna Víetnamstríðsins. En Orkubloggið hættir sér ekki útí slíkar hagfræðipælingar. 

Nokkuð dró úr ofurvaldi OPEC þegar líða tók á 9. áratuginn. Um það leyti sem friður komst á milli Íran og Írak. Olíverð hélst hóflegt mestan part síðustu 15 ár liðinnar aldar. Að frátöldum hikstanum vegna Persaflóastríðsins 1991. En svo rauk það upp á ný - þegar saman fór efnahagsuppgangur og stríð í Írak. Og sló öll fyrri met um mitt þetta ár (2008).

Núna þegar eftirspurnin minnkar vegna efnahagssamdráttar, verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif OPEC hefur. Ekki er ólíklegt að OPEC-ríkin geti skotið verðinu upp á ný, með því að draga örlítið úr olíuframleiðslu sinni. Kannski erum við að upplifa svipaðar sviptingar nú, eins og á 8. áratugnum. Afleiðingar af óheyrilega dýru Íraksstríðinu og jafnvel hugsanlegu hámarki í olíuframleiðslugetu heimsins.

Seven_Sisters_New

Auk Saudi Aramco eru nýju olíurisarnir sjö - ríkisolíufélögin - hið rússneska  Gazprom, China National Petroleum Corporation eða CNPC í Kína, National Iranian Oil Company eða NIOC í Íran, Petróleos de Venezuela eða PDVSA í Venesúela, brasilíska Petrobras og Petronas í Malsíu. Í dag stefna Gazprom og CNPC í að verða stærstu olíufélög heims á hlutabréfamarkaði. Jafnvel stærri en ExxonMobil. Kannski má bráðum einfaldlega kalla gömlu systurnar sjö, dvergana sjö? Og gaman að því að nýju ríkisrisarnir eru líka sjö - rétt eins og gömlu systurnar voru!

Dvergarnir sjö. Það er ekki alveg útí hött. Bæði BP og Shell hafa nú þegar orðið að víkja fyrir Gazprom og PetroChina sem verðmætasta orkufyrirtækið á hlutabréfamarkaði (CNPC á mest allt hlutafé í PetroChina). ExxonMobil streitist enn við á topp-3 listanum.

Önnur viðmiðun og mun dramatískari er að líta til framleiðslu og aðgangs að auðlindunum. Miklu stærri hluti allrar olíu- og gasframleiðslu er nú í höndum ríkisolíufélaganna, en afkomenda gömlu systranna. Þetta misvægi verður ennþá meira þegar litið er til olíubirgða. Ríkisolíufélögin eru með rúmlega þriðjung allra olíu- og gasbirgða heimsins - en gömlu systurnar aðeins með 3%. Þess vegna má vel segja að þær séu nú dvergar í samanburði við ríkisolíufélögin.

Já - allt að 90% allra nýrra olíulinda verður senn að finna í  löndum þróunarríkjanna - og fyrst og fremst í löndum nýju ríkisrisanna. Reyndar eru afkvæmi Standard Oil og systur þeirra samt vongóðar um að ná aftur fyrri frægð. Lykillinn að upprisu þeirra heitir Írak. Eða réttara sagt olíu- og gaslindirnar svakalegu, sem þar er að finna. En það er önnur saga - og bíður betri tíma hér á blogginu.

En Orkubloggið sefur ágætlega þrátt fyrir þessi umskipti og umbrot. Það er fullt af smærri olíufélögum, sem eru að gera það gott. Og virðast jafnvel ætla að hagnast enn meira af núverandi ástandi. Þetta eru "lítil" félög sem stóru ríkisfélögin eru æst í að fá til samstarfs. Þarna mætti t.d. nefna norska StatoilHydro og bandaríska félagið Marathon. Og auðvitað áðurnefnda ítalska Eni!

Eni_Logo.svg

Ég held barrrasta að hann Enrico Mattei myndi glotta hressilega, ef hann sæi hvernig Eni stendur í dag. Nýbúnir að leggja Blue Stream gasleiðsluna eftir botni Svartahafsins. Og búnir að semja við Rússana um að leggja líka South Stream. Eni nútímans virðist ósigrandi. Kannski meira um þann sæta, sexfætta og eldspúandi svarta hvutta í næstu færslu.


Mjallhvít...

Nú er ár liðið síðan Norðmenn byrjuðu í fyrsta sinn að framleiða fljótandi gas (LNG). Gasið fá þeir úr hafsbotninum langt í norðri. Á svæði út af Hammerfest í Finnmörku – svæði sem kallað er Mjallhvít (Snöhvit).

snohvit_map

Þetta risatóra verkefni hefur gert krummaskuðin þarna við Hammerfest í Norður-Noregi að miðpunkti norska olíu- og gasævintýrisins. Hjá Norðmönnum er sagan um Mjallhvíti sko ekki aldeilis eitthvert ævintýrabull. Heldur “et sant eventyr”, eins og þeir Statoil-menn lýsa því.

Alls samanstendur Mjallhvítarsvæðið af þremur stórum gaslindum, sem kallaðar eru Mjallhvít, Albatros og Askeladd. Lindirnar liggja um 140 km frá strönd Noregs, en sjálf LNG-vinnslustöðin var reist á eyjunni Melköja skammt utan við Hammerfest. Enn sem komið er bíða Albatros og Askeladd þess að verða nýttar.

Gasið þarna uppgötvaðist 1984, en lengi vel var óvissa um hvort eða hvenær farið yrði í vinnsluna. Sökum þess að gassvæðin risastóru í Norðursjó, Tröllasvæðið, Ormurinn langi o.fl., munu ekki endalaust anna eftirspurninni eftir gasi, varð spennandi að leita norðar. Þó er stutt síðan að gasvinnsla í Barentshafi þótti nánast útilokuð - bæði vegna erfiðara aðstæðna, svo sem veðurofsans á veturna, en ekki síður vegna vandamála við að koma gasinu á markað. Hæpið er að byggja gasleiðslur alla leið þaðan í norðri og suður til Evrópusambandsins. Slíkt yrði mjög kostnaðarsamt. Þar að auki er áhugvert er að ná til fleiri markaða en bara Evrópu.

Eftir því sem eftirspurn eftir LNG jókst, ekki síst í Bandaríkjunum, sáu menn að það gæti orðið mjög arðbært að framleiða þarna fljótandi gas. Stórþingið norska blessaði verkefnið 2002 og þá gat Statoil farið á fullt. Aðeins 5 árum síðar - í ágúst 2007 - streymdi svo gasið frá borholunum á 250-350 metra hafdýpi, þessa 140 km til vinnslustöðvarinnar á Melköja. Þar sem því er umbreytt í fljótandi gas og sett á tankskip. Þá var liðinn rétt tæpur aldarfjórðungur síðan gaslindirnar fundust þarna langt í norðri.

snohvit-melkoja

Alveg eru þeir hreint magnaðir, Norsararnir. Það er ekki nóg með að þetta sé fyrsta LNG-verkefnið þeirra og stærsta LNG-verksmiðja í Evrópu. Allt vinnslukerfið á Mjallhvítarsvæðinu liggur neðansjávar og kerfinu öllu er stjórnað með joystick úr stjórnstöð á landi – 140 km frá vinnslusvæðinu. Þetta er líkast til ennþá meira tækniafrek en uppbygging gasvinnslunnar geggjuðu á Orminum langa - svæðinu langt vestur af Þrándheimi.

Sem fyrr segir er gasinu frá Mjallhvíti umbreytt í fljótandi gas - LNG. Kælingin á sér stað í vinnslustöðinni á Melköja og þar er fljótandi gasið sett á tvo gríðarstóra geyma. Sem eru í raun ekkert annað en risastórir ísskápar. Kæligeymarnir eru sagðir geta geymt samtals 125 þúsund teningsmetra af fljótandi gasi. Teikningin hér að neðan sýnir slíkan turn - með ráðhúsið í Osló sem stærðarviðmiðun.

LNG_tower_raadhus

Þessi kælingar-prósess þarf eðlilega örlítið rafmagn. Eða rúmlega 1,5 teravattstundir á ári hverju. Það er líklega svipað orkumagn og notað er á Íslandi á einum ársfjórðungi. Þar með talin öll orkunotkun almennings, fyrirtækja og allrar stóriðjunnar! Dágóður biti.

Raforkan sem fer í kælinguna er að sjálfsögðu framleidd með hluta gassins frá Mjallhvíti. Sem þýðir lauflétta losun á CO2. En Norsararnir fara létt með það. Koltvíoxíðinu er einfaldlega dælt til baka eftir leiðslu á hafsbotninum og ofaní sérstaka borholu. Þangað munu 7-900 þúsund tonn af CO2 á hverju ári hverfa í iður jarðar. Það er talsvert meira en allur íslenski fiskiskipaflotinn losar á heilu ári. Og u.þ.b. það sama og allur íslenski bílaflotinn losar árlega. Þessu gumsi dæla Norðmenn barrrasta niður í holu á hafsbotninum. Sniðugir pottormar, Norsararnir. 

Snohvite_route

Svo þarf auðvitað að sigla með gasið til kaupendanna vestur í Ameríku og suður á Spáni. Alls um 5,7 milljarða teningsmetra árlega (talið er að um 200 milljarðar rúmmetra af fljótandi gasi séu vinnanlegir þarna á Mjallhvítar-svæðinu). Á ca. 5 daga fresti siglir stórt og glæsilegt rauðmálað tankskip inní höfnina við Melköja til að flytja fljótandi gasið suður til markaðanna.

Alls eru þetta um 70 ferðir árlega - og munu skipin fara sem leið liggur skammt austan við Austfirði. Kannski kominn tími á “vegatoll” í íslenskri lögsögu? Svona með hliðsjón af skattpíningu Noregskonunga hér áður fyrr.

Til þessara flutninga hafa Norsararnir nú þegar fengið fjögur LNG-tankskip. Annars vegar frá heimamönnunum hjá Leif Höegh & Co og hins vegar frá hinni fornfrægu japönsku skipasmíðastöð með skemmtilega nafnið; Kawasaki Kisen Kaisha.

gas_sv_tanker

Eitt er það sem fer smá í taugarnar á Orkublogginu. Meðan norsku Höegh-skipin Arctic Princess og Arctic Lady sigla um Atlantshaf stútfull af fljótandi gasi, er Eimskipum siglt í þrot. Þó hefur Eimskipafélagið haft rúmlega áratug lengri tíma en Höegh-skipafélagið til að byggjast upp. Súrt. Kannski hefði Eimskip átt að horfa til þess að flytja fljótandi gas?

StatioilHydro á um þriðjung í Mjallhvítar-verkefninu og annar þriðjungur er í höndum norska ríkisfyrirtækisins Petoro. Hlutverki Petoro má etv. lýsa þannig, að meðan Statoil er að mörgu leyti eins og hvert annað fyrirtæki þar sem arðsemin er aðalatriði, er Petoro ætlað að gæta þess að viðskipti Statoil samrýmist víðtækari hagsmunum norska ríkisins. Svona svipað eins og ef Landvirkjun hefði ekki setið ein að Kárahnjúkavirkjun, heldur hefði ábyrgðinni verið skipt á milli tveggja ríkisfyrirtækja í því skyni að efla áhættumatið.

Total_logo

Aðrir eigendur Mjallhvítar-verkefnisins eru ýmis fyrirtæki í gasiðnaðinum. Þar á meðal auðvitað franska Total, sem er með mikla þekkingu á LNG (eiga rúm 18% í Mjallhvíti).

Þessi fyrsti áfangi hins mikla LNG-ævintýris mun hafa kostað um 58 milljarða norskra króna. Nú á tímum gengisfalls - stjúpunnar vondu sem virðist einkum uppsigað við Ísland - er maður ekkert að umreikna þetta í íslenska krónuræfla.

Kostnaðurinn var einhver 5% yfir upphaflegri áætlun. Sem þætti vel gert í opinberum framkvæmdum á Íslandi! Og það sem meira er – um 6/10 alls fjárins fór til norskra fyrirtækja. Og það þó svo StatoilHydro og flestir Norðmenn hefðu varla svo mikið sem heyrt um LNG áður en til þess risaverkefnis kom. En nú eru þeir orðnir sérfræðingar í LNG-vinnslu í Barentshafi.

Þar með eru Norðmenn nánast búnir að tryggja aðkomu sína að næsta stóra LNG-dæminu i í Norðurhöfum. Sem er Shtokman-verkefni Rússana aðeins austar í Barentshafi, norðan Kólaskaga.  Og gaslindirnar í nágrenni Mjallhvítar, sem kenndar eru Albatros og Askeladd, eru enn ósnertar. Björt framtíð hjá Norðmönnum.

gas_tanker_melkoja

Myndin hér til hliðar sýnir tankskipið Arctic Princess lesta fyrsta LNG-farminn á Melköya. Þetta var fyrir sléttu ári síðan (20. október 2007). Og þaðan sigldi skipið með Mjallhvítar-gasið í átt til markaðarins - um íslenskt hafsvæði.


LNG – tækifæri hins nýja Onassis?

Nýlega leyfði Orkubloggið sér að fullyrða að gasdraumar Rússa liggi í LNG. Liquefied Natural Gas – fljótandi gasi.

Lng_tanker

Ástæðan er ekki flókin. Bæði Bandaríkin og Japan eru óð í meira gas. Rússar, sem eiga gnótt af gasi og eru búnir að sigra Evrópu, finna peningalyktina frá þessum risastóru mörkuðum i austri og vestri. En þangað geta Rússar ekki flutt gasið sitt í gegnum pípur, eins og til Evrópu. Þess vegna er lausnin LNG - fljótandi gas sem flutt er með stórum, sérsmíðuðum tankskipum.

Öll þekkjum við gas sem lofttegund - loftkennt efnasamband sem aðallega samanstendur af metani (CH4). Með því að kæla gasið niður í rúmlega -160 gráður á celsíus verður það fljótandi. Og þá er rúmmál þess u.þ.b. 600 sinnum minna en þegar gasið er loftkennt! Fyrir vikið er hægt að nota kælingar-aðferðina til að flytja mikið magn af orku, t.d. með tankskipum eða járnbrautalestum.

Augljóslega kostar það skildinginn að kæla gas svo svakalega. Og þetta er ekki bæra orkufrek kæling. Fyrst þarf að hreinsa öll efni úr gasinu, sem myndu frjósa við hið geysilága hitastig. Gasið sem kemur úr iðrum jarðar er oft um 90% metangas, en afgangurinn eru önnur efnasambönd sem ná þarf burt til að geta komið gasinu í fljótandi form.

Fljótandi gasið er unnt að flytja langar leiðir yfir úthöfin með skipum. Á áfangastað þarf að umbreyta LNGinu aftur í loftkennt form. Þá er loks unnt að koma því til neytenda um hefðbundið gasdreifikerfi. Allt þetta ferli gerir LNG ekki beint að ódýrri orku - en er samt víða talsvert ódýrara og hagkvæmara en að flytja inn olíu.

US_Gas_Imports

LNG er m.ö.o. dýrara eldsneyti en venjulegt gas, sem fer beint í dreifingu um pípulagnir veraldarinnar. En sökum þess hversu verð á olíu hefur farið hækkandi undanfarin ár - og gasverðið líka - er nú æ betri bissness i LNG. Auk þess vilja mörg ríki einfaldlega auka fjölbreytni í notkun orkugjafa - og auka gasnotkun eins mikið og mögulegt er, á kostnað olíunnar.

Ef stór gaslind er fyrir hendi getur það því gefið góðan arð að framleiða LNG. Og sigla með það til landa, sem ekki geta fullnægt gaseftirspurn sinni.

Líklega er Japan besta dæmið um kaupanda að LNG. Þangað er ekki unnt að leiða gas eftir leiðslum og því þurfa Japanir að kaupa gasið í fljótandi formi. Aðrir stórir kaupendur LNG eru t.d. Suður-Kórea og Taívan. Svo og Spánn, Mexíkó og fleiri ríki. Grafið hér að ofan sýnir aftur á móti gasinnflutning til Bandaríkjanna. Þar sést vel að veruleg aukning hefur orðið á influtningi á fljótandi gasi. Og því er spáð að þessi innflutningur vaxi hratt á næstu árum og áratugum.

Bandaríkin eiga gríðarlegar gaslindir og hafa einnig dælt til sín gasi frá Kanada. Á allra síðustu árum hefur gasið orðið æ ákjósanlegri kostur út af þeirri einföldu staðreynd að gasverðið hefur verið talsvert lægra en olíuverðið (m.v. orkumagnið). Auk þess losar gasnotkun miklu minna koldíoxíð en olíunotkun. Aukin gasnotkun á kostnað olíunnar slær því tvær flugur í einu höggi. Er ódýrari orka og losar minna CO2.

US_LNG-Imports-by-Country

Nú er svo komið að gasið sem framleitt er innanlands og í Kanada fullnægir vart eftirspurninni í Bandaríkjunum. Því hefur innflutningur á LNG verið að aukast þar í landi.

Stór sérsmíðuð tankskip flytja nú fljótandi gas til Bandaríkjanna frá löndum eins og Karabísku orkuparadísinni Trínidad og nokkrum Afríkuríkjum. Þar eru t.d.  Alsír, Egyptaland og Nígería stórir seljendur. Og Qatar mun á næstu árum stórauka LNG-framleiðslu sína. Hvernig fór annars með 25 milljarða fjárfestingu Katarprinsins í Kaupþingi? Hann brosir varla núna - nema kaupin hafi "gengið til baka".

Sökum þess að eftirspurn eftir gasi eykst nú um allan heim – og það mun hraðar en olíueftirspurnin – verða fjárfestingar í LNG sífellt áhugaverðari. Bæði í vinnslu, flutningum og geymslu.

Onassis_Callas

Sumir búast við því að sá hluti orkugeirans sem muni vaxa hraðast á næstu árum, sé einmitt LNG. Hafandi í huga hvernig Onassis varð billjóner af því að sjá fyrir aukna olíueftirspurn eftir heimsstyrjöldina síðari og veðja á stór olíutankskip, gæti nú verið rétti tíminn að setja pening í smíði nokkurra LNG-skipa. Kannski ekki síst skipa sem ráða við að sigla á hafísslóð. Og geta flutt fljótandi gas frá norðursvæðum Rússlands og Noregs, til hungraðra gasneytenda út um allan heim.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga, að nú eru horfur á að senn byrji vinnsla á tveimur gríðarlegum gaslindum í nágrenni Íslands. Og útlit er fyrir að stórum hluta þess gass verði umbreytt í LNG.

goliat

Þetta er annars vegar Shtokman-lind Rússana norður af Kólaskaga - gaslindin, sem alþjóðlegi orkugeirinn horfir nú hungruðum augum til. Og hins vegar er gasverkefni sem er lengra komið og stendur okkur ennþá nær – þ.e. svæðið vestur af Noregi sem kennt er við Mjallhvíti. Sem virðist jafnvel geta orðið enn betra ævintýri en Tröllasvæðið, sunnar í norsku lögsögunni. Sem Orkubloggið fjallaði um í síðustu færslu.

Já - það verður bráðum skollið á LNG-æði skammt fyrir norðaustan okkur. En sem fyrri daginn, mun Ísland líklega ekki sína þeirri uppbyggingu neinn áhuga. Hér hafa stjórnvöld í gegnum tíðina agerlega vanrækt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum að verða þátttakendur í orkuævintýrinu í Norðursjó. Sem nú er einnig komið inní færeysku lögsöguna og Barentshafið. Hér hefði strax fyrir 30 árum átt að beina Háskóla Íslands í þann farveg að verða sérhæfður Orkuháskóli. Í staðinn sitjum við uppi með þrjár eða jafnvel fjórar lagadeildir í landinu. Og skrilljón viðskiptafræðinga. Athyglisverð menntastefna. Geisp.

Þriðja stóra gassvæðið, sem mun í framtíðinni verða mikil uppspretta fyrir LNG, er auðvitað hið alræmda Sakhalin-verkefni austast í Rússkí. Þar sem Shell hefur verið í miklum slag við Rússana hjá Gazprom. Sú gaslind verður mikilvæg fyrir t.d. Japani og Suður-Kóreu.

onassis_kennedy_wedEkki er vandséð að eftirspurn eftir risastórum LNG-tankskipum mun aukast mikið í náinni framtíð. Einhvern sem langar að setja pening í smíði slíkra skipa? Sem kunna að margfaldast í verði á fáeinum árum. Gleymum ekki hvernig Ari Onassis auðgaðist á stóru olíutankskipunum!


Tröllaorka

Katie_Melua_Troll

Þeir sem ekki lifa og hrærast í heimi olíusullsins kunna að spyrja sig að því, hvað í ósköpunum Katie Melua, orkulindir norðursins og norsk tröll eiga sameiginlegt. Svarið er auðvitað að öll koma þau saman á hafsbotni – á 300 metra dýpi – til að njóta tónlistar. Meira um það síðar.

Orkubloggið ætlar á næstu dögum að snobba svolítið fyrir Norðmönnum. Og byrja á því að dást að fegurð norskra trölla. Sem eru allt annars eðlis en hún Grýla gamla eða Gilitrutt. Því þótt bæði íslensku og norsku tröllin séu sögð búa í fjöllunum, hafa hin norsku tröll fært sig um set. Út á haf. 

Tröllasvæðið s.k. í norsku efnahagslögsögunni, rúmlega 30 sjómílur vestur af Bergen, er mesta gasvinnslusvæði Norðmanna. Þar á sér líka stað mikil olíuvinnsla. Þessar auðlindir fundust fyrir 30 árum, byrjað var að huga að vinnsluleyfum í kringum 1980 og loks kom að því að norska Stórþingið samþykkti áætlun um einhverja almestu olíu- og gasvinnslu Noregs. Og einungis hálfum áratug síðar var búið að smíða það sem til þurfti - þar á meðal einhvern svakalegasta borpall sögunnar. Gas og olía tók svo að streyma upp á yfirborðið 1996.

troll_map

Sökum þess að dýpi á þessum slóðum er hressilega mikið, um 300 m, og veður válynd, þurftu menn að smíða sérstaklega sterka og öfluga borpalla.

Tæknin í kringum 1980 fólst í "fíngerðum" stálpöllum, en óttast var að slíkir pallar myndu ekki þola aðstæðurnar á svæðinu. Niðurstaðan varð að útfæra s.k. Condeep-hönnun, sem fram til þessa hafði reyndar einungis verið nýtt við smíði mun minni borpalla.

Condeep-pallurinn á Tröllasvæðinu, sem nefndur er Tröll A, teygir sig upp af 300 m dýpi og meira en 150 metra upp úr sjónum. Eins og risastórt háhýsi - eða "flottur riddarakastali" eins og stráksi minn kallar hann. Pallurinn hvílir á gríðarmiklum steinsteyptum súlum, sem var þrykkt 35 metra niður í hafsbotninn. Þetta er svo sannarlega alvöru tröll eða risi. Eða nútíma riddarakastali.

TrollA_towed_2

Á Tröllasvæðinu eru nú þrír stórir borpallar. Sem kallaðir eru Tröll A, Tröll B og Tröll C. Trölli A var komið fyrir árið 1995 og var þá stærsta hreyfanlega mannvirki sem nokkru sinni hafði verið smíðað í heiminum. Enda hefur tröllinu verið lýst sem einhverju mesta verkfræðiundri sögunnar.

Sjálf smíðin fór fram nokkuð víða, en pallurinn var að mestu settur saman í iðnaðarbænum Vats í Rogalandshéraði í V-Noregi. Þaðan var Tröll A, með öll sín 656 þúsund tonn, einfaldlega dreginn á áfangastað. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Þessi gígantíski borpallur á að geta rækt hlutverk sitt í a.m.k. 70 ár. Enda eru gaslindirnar á svæðinu gríðarlegar. Tröll B og Tröll C eru ekki alveg jafn miklir risar; Tröll B er s.k. hálfljótandi borpallur en Tröll C er fljótandi pallur, sem festur er með e.k. akkerum. Þeir Trölli B og C hófu vinnslu 1995 og 1999.

troll platform

Til að sækja gasið og olíuna á Tröllasvæðinu þarf að bora 1,5 km niður í hafsbotninn. Þar liggja kolvetnin í víðáttumiklum en nánast "örþunnum" lögum - sem einungis eru um 25 metra þykk. Til að ná sem mestu af gasinu og olíunni upp á yfirborðið, er fyrst borað þessa 1.500 metra beint niður og síðan haldið áfram og borað lárétt. Láréttu göngin eða borholurnar geta verið allt að 3 km á lengd og jafnvel lengri.

Framleiðslan á Tröllasvæðinu jókst hratt og var fljót að ná hámarki. Það gerðist strax árið 2002 og síðan þá hefur dregið úr framleiðslunni.  Það er nefnilega veruleg kúnst að samhæfa vinnsluna. Því of mikil vinnsla á einum stað getur dregið stórlega úr vinnslu á öðrum stað. Með skerti nettóafkomu.

Þetta er því eins konar kolvetnis-línudans, þar sem tröllin þrjú þurfa að sýna glæsilegar jafnvægiskúnstir. Um mitt síðasta ár (2007) ákváðu norsk stjórnvöld að setja 2 milljarða USD í að auka framleiðslugetuna á svæðinu. Gnægð af olíu og gasi er fyrir hendi þarna og mun endast í marga áratugi enn. Trikkið er að ná gumsinu upp með sem ódýrustum hætti.

Gert er ráð fyrir að olían á Tröllasvæðinu nemi alls um 1,5 milljarði tunna og svæðið verði tæmt á árabilinu 2020-30. Og menn telja og að þarna sé unnt að vinna um 1.300 milljarða teningsmetra af gasi – og að gasvinnslunni ljúki um 2050. Þá verður einmitt bráðum kominn tími á Tröll A.

TrollA_Eiffel

Tröllasvæðið með hinu þríhöfða trölli A, B og C útvegar nú milljónum Evrópubúa gas. Gasinu er fyrst dælt um gasleiðslu eftir hafsbotninum þessa 60 km austur til Kollsness, sem er skammt frá Bergen. Eins og sjá má á kortinu hér ofar í færslunni. Og þaðan fer gasið áfram eftir gaspípum frá Noregi til Evrópu, til þeirra sem þurfa orkuna.

Það er Shell sem er stærsti erlendi eigandinn að vinnslunni á Tröllasvæðinu, með um 8% hlut. Nokkur önnur erlend olíufélög eiga svo smærri bita í þessu miklu orkuævintýri Tröllanna. Þar á meðal eru franska Total og bandaríska ConocoPhillips. En norsku StatoilHydro og Petoro fara auðvitað með meirihlutann í þríhöfðanum - heil 86%. Rétt eins og Íslendingar eiga meirihluta i álverunum... not!

Auðvitað er ekkert íslenskt fyrirtæki hluti af starfseminni þarna á Tröllasvæðinu. Olíuævintýrið í Norðursjó hefur af einhverjum ástæðum hvorki heillað íslensk stjórnvöld né íslensk verkfræðifyrirtæki eða verktaka. Enda örlítið tæknilegri framkvæmdir en skóflur og skurðgröfur. Til allrar hamingju hefur orðið til mikil þekking og reynsla hjá ýmsum íslenskum fyrirtækjum á nýtingu vatnsafls og jarðhita. Og gaman af því að Íslendingur átti t.d. hagstæðasta tilboðið í hönnun Kárahnjúkastíflunnar; Pálmi Jóhannesson. En Orkublogginu þykir miður að Íslendingar skuli alfarið hafa látið olíu- og gasævintýrið i túnjaðrinum framhjá sér fara.

Katie_Melua_2

Upplagt að ljúka þessu með því að nefna söngfuglinn Katie Melua. Og ævintýri hennar, þegar hún heimsótti tröllin þarna djúpt undir yfirborði sjávar. Það var í október 2006 að menn héldu upp á 10 ára afmæli gasvinnslu hjá Trölli A. Og buðu Katie að smella sér með lyftunni niður í einn af fjórum steinsteypustólpunum, sem Tröll A hvílir á.

Þarna 300 metrum neðan sjávarmáls raulaði Katie m.a. "Closest Thing To Crazy" með gítarinn sinn fyrir Norsara í rauðgulum samfestingum. Og að eigin sögn mun hún barrrasta hafa haft alveg þrælgaman af þessum óvenjulegu tónleikum, stelpuskottið.

http://www.youtube.com/watch?v=7P_vOPR78FE


It’s Miller time!

Ljúflingurinn hann Alexei Miller er líklega einn valdamesti maðurinn í orkugeira heimsins. A.m.k. meðan ekki slettist upp á vinskap hans við Pútín. Í síðustu færslu leit Orkubloggið til rússneska gasrisans Gazprom. Þar sem Miller er forstjóri. Í dag ætlar bloggið að beina athyglinni að Miller sjálfum – og einnig skoða tilvonandi höfuðstöðvar olíuarms Gazprom, Gazprom Neft, sem Miller ætlar að reisa í Skt. Pétursborg.

gazprom_putin_miller

Alexei Miller er af rússneskum gyðingum kominn - fæddist í Skt. Pétursborg árið 1962 og lagði stund á nám í fjármálum og hagfræði. Þá hét borgin auðvitað Leningrad. Það var á borgarskrifstofunum þar, sem Miller starfaði á fyrstu árum hins endurreista Rússlands. Ekki er ólíklegt að þar hafi hann kynnst Pútín, sem einnig var embættismaður hjá Skt. Pétursborg á þessum tíma. Og skammt frá stússuðu þeir Björgólfur Thor og Magnús Þorsteinsson við að selja Rússum bjór og tappa Pepsi í neytendaumbúðir. Með alkunnum árangri.

Gaman væri að vita hvað Pútín var að hugsa þegar ljósmyndin hér til hliðar var tekin. A.m.k. virðist hann horfa með velþóknun á hnakka Miller. Enda vann Miller sig hratt upp í borgarkerfi Leningrad. Hann var þá þegar kominn með doktorsgráðu í hagfræði frá skóla þar í borg – en maður veltir því auðvitað fyrir sér hvers konar hagfræði hafi verið stúderuð í Leníngrad á sovét-tímanum (Miller mun hafa útskrifast 1989). En hagfræðikenningar kommúnismans virðast ekki hafa reynst honum fjötur um fót. Hann var skipaður aðstoðar-orkumálaráðherra Rússlands aldamótaárið 2000 og ári seinna varð hann forstjóri Gazprom – þá aðeins 38 ára gamall. Og það var einmitt árið 2001 sem Pútín byrjaði fyrir alvöru afskipti af Gazprom, með það að markmiði að koma fyrirtækinu á ný í hendur ríkisins. Og þar unnu þeir Pútín og Miller vel saman og náðu þeir meirihluta í fyrirtækinu f.h. ríkisins síðla árs 2004.

Þar með má etv. segja að "Sílóvíkarnir" hafi náð að sigra "Óligarkana". Eftir að Sovétríkin féllu varð mikil valdabarátta milli hinna nýríku milljarðamæringa annars vegar (sem margir höfðu verið nátengdir Boris Jeltsín) og hins vegar hóps sem tengdur var stofnunum gömlu sovésku leyniþjónustunnar (einkum KGB). Til eru þeir sem segja að með kjöri Pútíns sem forseta Rússlands, handtöku og fangelsun Mikhail Khodorkovsky og loks yfirtöku ríkisins á Gazprom, hafi gamla KGB-klíkan (Siloviks) sigrað í rússneska valdataflinu. Og Olígarkarnir orðið að lúta í lægra haldi.

khodorkovsky

Orkubloggið er barrrasta alls ekki nógu vel að sér í þessum fræðum til að hætta sér frekar útá þær brautir. En a.m.k. hafa þeir Pútín og Alexei Miller tögl og haldir í Gazprom. Og í dag munu reyndar vera liðin nákvæmlega 5 ár síðan hann Mikhail Khodorkovsky var handtekinn á flugvellinum I Novosibrisk, austur í Síberíu. Sem er kannski táknrænt um það hverjir ráða í Rússlandi. En etv. eru svona samsæriskenningar bara tóm vitleysa.

Hvað um það. Það verður varla annað sagt en að hann Alexei Miller sé öflugur stjórnandi. Nema ef hugsast gæti að Gazprom sé orðið allt of skuldsett og hrynji einn daginn! Kannski fylgir Rússland í kjölfar Íslands - og við fáum aldrei neitt sætt Rússalán. Því þrátt fyrir ótæpilegar náttúruauðlindir sínar kann Rússland í reynd að standa á brauðfótum. En hvað sem slíkum leiðinda vangaveltum líður, þá hefur Miller gert Gazprom að allt í öllu í rússneska orkugeiranum. Og sett fram metnaðarfulla áætlun um að innan fárra ára verði Gazprom stærsta orkufyrirtæki heims – auðvitað fyrir utan ríkisorkufyrirtæki Sádanna og önnur slík sem eru alls ekki á hlutabréfamarkaði.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Miller’s um glæsta framtíð Gazprom, er ekki auðséð hvert fyrirtækið stefnir. Orkubloggið myndi þó veðja á, að það sem Gazprom hungrar hvað mest í þessa dagana, er að verða stærri í LNG. Fljótandi gasi. Þeir Gazprom-gæjarnir eru svo sannarlega sérfræðingar að dæla upp gasi og byggja stórar gasleiðslur út um hvippinn og hvappinn. En það að kæla gas og höndla það í fljótandi formi er ekki þeirra sterka hlið. Orkubloggið myndi gjarnan veðja miklu á, að hjá Gazprom leiti menn nú logandi ljósi að rétta LNG-fyrirtækinu. Samstarfsaðila sem sameini það að kunna manna best á LNG-sullið og sé ekki líklegur til að vera með einhver leiðindi út af smámálum, eins og umhverfisvernd eða mannréttindum.

LNG_tanker

Málið er nefnilega að til að GAS-OPEC komi til með að virka, þarf að vera til virkur og hraður markaður með gas. Öruggasta leiðin til að skapa slíkan markað er að geta stóraukið hlutfall LNG á markaðnum – sem kallar á betri tækni til að vinna, flytja og geyma fljótandi gas. Eins og getið var um í síðustu færslu, eru nú einmitt horfur á að “Gas-ópekkið” líti brátt dagsins ljós. En meira þarf að koma til, eigi það að hafa sambærileg áhrif og OPEC hefur haft í gegnum tíðina á olíuverðið. Og enn eitt sem spilar inní þessa meintu framtíðardrauma Gazprom er hin risastóra Shtokman-gaslind, sem fundist hefur undir botni íshafsins norður af Kólaskaga. Að dæla öllu því gasi um gasleiðslur á einn og sama markaðinn (Evrópu) væri útí hött. Skynsamara væri að geta selt hluta þess sem LNG, t.d. til Bandaríkjamanna. Og þeir flutningar myndu reyndar að stóru leyti fara gegnum íslenska lögsögu! Kannski meira um það síðar hér á Orkublogginu.

Ég ætla að ljúka þessari færslu með draumnum um Gazprom-city. Eftir hönnunarsamkeppni, sem margar frægustu arkitektastofur heims tóku þátt í, tilkynnti dómnefndin að tillaga alþjóðlegu arkitektastofunnar RMJM hefði borið sigur úr býtum. Í samkeppninni um hönnun á nýjum höfuðstöðvum Gazprom Neft (sem er olíuarmur Gazprom) ásamt tilheyrandi hótelum, skrifstofubyggingum og ráðstefnumiðstöð. Úrslitin voru tilkynnt í desember 2006 og þess er vænst að senn verði unnt að byrja að reisa herlegheitin, á bökkum árinnar Nevu í Skt. Pétursborg.

Gazprom-Okhta_Center

Enn sem komið er er einungis skilti með mynd af dýrðinni á framkvæmdastaðnum. Þannig að þetta er enn styttra á veg komið en tónlistarhúsið, sem Björgólfur og Reykjavík ætla að reisa niðrí bæ. Spurningin er hvort verður fullbyggt á undan – tónlistar- og ráðstefnuhöll Reykjavíkur eða Gazprom City? Sem nú er reyndar búið að umskýra í Okhta Center, en Okhta er þverá sem rennur í Nevu. Menn áttuðu sig á því að heitið Gazprom City væri kannski aðeins of mikilmennskulegt.

Eins og alltaf þegar stórhuga menn lýsa hugmyndum sínum, er fólk tilbúið að vera með tóm leiðindi. Menn um allan heim ýmist fylltust skelfingu eða lýstu viðbjóði sínum, þegar þeir sáu tillögurnar sem bárust í keppnina um Gazprom City. Á endanum höfðu þrír af þeim fjórum arkitektum sem sátu í dómnefndinni, sagt sig frá verkefninu. Þannig að það kom í hlut Miller's og nokkurra annarra embættismanna að skera úr um hvaða tillaga skyldi hreppa hnossið. Og illar raddir segja að Miller og skriffinnarnir hafi gjörsamlega verið með Eiffel-turninn á heilanum og það eitt hafi stjórnað vali þeirra.

gazprom_1

Sjá má sigurtillögu þeirra frá RMJM hér til hliðar. Við sólsetur virðist byggingin nánast virka sem risastór gaslogi, þarna sem hún gnæfir 400 metra yfir Skt. Pétursborg.

Meðal þeirra sem lýst hafa skelfingu vegna þessarar hugmyndar eru t.d. fjölmörg arkitektasamtök og einnig UNESCO. Enda er turninn óneitanlega nokkuð á skjön við hina lágreistu og glæsilegu heildarmynd Skt. Pétursborgar – borgarinnar sem Pétur mikli lét reisa á 18. öld.

Sjálfur hef ég alltaf verið svolítið veikur fyrir svona brjáluðum hugmyndum – og þess vegna ekki komist hjá því að hrífast af myndum af turninum. En ég verð líka að viðurkenna að enn hef ég ekki druslast til að heimsækja Skt. Pétursborg (sem kannski mun e.h.t. verða breytt í Pútíngrad). Og geri mér því ekki vel grein fyrir hvernig turninn og borgin muni fara saman. En í anda þeirra framkvæmdagleði sem maður sýndi sem smápatti austur á Klaustri hér í Den - vopnaður skóflu úr Kaupfélaginu og Tonka-gröfu - er ég viss um að þetta verður suddalega flott bygging. Og hananú.

PS: Menn geta fræðst meira um Gazprom-turninn á heimasíðu verkefnisins:   http://www.ohta-center.ru/eng/tomorrow/index.html

Gazprom_okhta_tower

 

 

 


Gaztroika

Syrtir enn í álinn í orkumálum Vesturlanda? Nú í vikunni kynntu gaspáfarnir þrír - þeir félagar Gholamhossein Nozari, orkumálaráðherra Íranstjórnar, Abdullah al-Attiyah, orkumálaráðherra Qatar og Alexei Miller, forstjóri Gazprom – um að nú sé að rætast draumur þeirra um að koma á stofn ríkjasamtökum, til að hafa samráð um gasframboð.

Gas_Doha

Sem yrði eins konar gas-OPEC, er muni leitast við að stýra heimsmarkaðsverði á gasi. Bandaríkin og ESB ráku þegar í stað upp ramakvein. Það er nefnilega svo að á síðustu árum hefur trendið verið að skipta yfir í gasið. Bæði vegna hækkandi olíuverðs og til að auka fjölbreytni í orkunotkun – draga úr olíufíkn Bandaríkjanna og Evrópu. Í reynd hefur olíueftirspurnin því aukist hægar en annars hefði orðið. Til að skýra þetta má t.d. skoða hlutfall orkunotkunar í dag og bera það saman við ástandið fyrir rúmum aldarfjórðungi.

Árið 1980 nam olía 45% af allri orkunotkun heimsins og gasið um 20%. Í dag stendur olían einungis fyrir um 35% orkunotkunarinnar en hlutfall gassins er komið í um 25%. Samtals var þetta hlutfall 65% 1980 en er nú um 60%.

gas_opec_chart

Málið er sem sagt að gasið hefur orðið æ álitlegri kostur og því hefur eftirspurn eftir gasi aukist mun hraðar en eftirspurn eftir olíu. Nefna má að kolin hafa nánast haldið óbreyttu hlutfalli (um 28%) en notkun kjarnorkunnar aukist (var 2% 1980 en er nú um 7%).

Helsta ástæðan fyrir hinni gríðarlegu eftirspurn eftir gasi er einföld. Auðvitað sú að það hefur reynst ódýrari og hagkvæmari kostur en olían. Þetta hefur leitt til stóraukins innflutnings á gasi til Evrópu, ekki síst frá Rússlandi. Og nú á allra síðustu árum eru Indverjar og Kínverjar líka farnir að horfa til gassins. Þannig að gasið sem Evrópu hefur séð streyma til sín frá Rússlandi og fleiri löndum í Asíu, kann bráðum að sveigja af leið í gegnum nýjar pípur til Austurlanda fjær. Þetta fær svita til að spretta fram á mörgu evrópsku enni.

Gas_world_reserves

Í reynd er staðan orðin sú að Rússar eru komnir með heljartök á mörgum nágrannaríkjum sínum, sem eru orðin háð gasinu frá þeim. Þar eru nokkur stærstu lönd ESB innifalin, t.d. Þýskaland. Og nú vilja Rússar, ásamt Írönum og Katörum, ná sterkari tökum á gasframboði og þar með ná meri stjórn á heimsmarkaðsverði á gasi. Með því að stofna samtök til að stýra gasframboði og þar með verðinu.

Og þó það nú væri. Hver vill ekki fá meira fyrir sinn snúð? Sérstaklega er skemmtilegt hvernig ljúflingurinn Alexei Miller kemur þarna fram sem ríkisleiðtogi, fremur en fyrirtækjaforstjóri. Orkubloggið vaknaði upp við að bloggið hefur lítt minnst á þennan orkurisa. Því býður Orkubloggið nú upp í dans með Gazprom.

Skylt er að nefna að meðal annarra leikenda í þessum skemmtilega leik þeirra Gazprom-manna er t.d. Alsír. Samanlagt skaffa Rússland og Alsír ESB um 70% af öllu því gasi sem notað er í bandalaginu. Þar er Gazprom þungamiðjan. Enda ræður Gazprom yfir 90% af öllum gasauðlindum Rússlands, sem eru hinar langmestu í heiminum. Því má næstum því segja að Evrópa fái einfaldlega gasið sitt frá Gazprom.

Gazprom-Logo-rus.svg

Rússland er með meira en fjórðung allra gasbirgða heimsins og Gazprom eitt ræður yfir 90% af öllum gasauðlindum Rússlands. Þess vegna er sjaldnast talað um að Rússland sé að stofna gasbandalag – heldur er það Gazprom. Sem vissulega er í meirihlutaeigu rússneska ríkisins – en er engu að síður eins og ríki í ríkinu.

Samkvæmt nýlegri úttekt Reuters um fyrirhugað gasbandalag Gazprom og félaga var niðurstaðan sú að ekkert væri að óttast. Rússar séu efnahagslega háðir Evrópu um kaup á gasinu og samningar um kaup á gasi séu gerðir til langs tíma öfugt við olíu. Þess vegna sé þetta í reynd miklu stöðugri markaður en olíumarkaðurinn.

gas_pipelines-eu_asia

Orkubloggið er fullkomlega sammála þessari niðurstöðu. Til skamms tíma. En til lengri tíma gæti þessi niðurstaða reynst hið mesta bull. Vegna legu Rússlands og annarra stórra gasútflytjenda frá fyrrum Sovétríkjunum (t.d. Turkmenistan) er sú “hætta” raunveruleg að gasið þaðan muni senn streyma eftir pípum til Kína og Indlands, fremur en Evrópu.

Bæði Indland og Kína stefna nú að því að auka notkun gass heima fyrir. Sem þýðir að þessi nettu ríki þurfa að stórauka innflutning á gasi. Gangi þau plön eftir munu rísa nýjar gasleiðslur frá Rússlandi og ríkjum í Mið-Asíu til bæði Kína og Indlands. Og þá muni samráð gasútflutningsríkja hugsanlega gera Evrópu erfitt fyrir. Í dag yrði svona bandalega kannski ekki áhyggjuefni – en svolítið óþægileg tilhugsun til framtíðar. Svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta er hin yfirvofandi Gaztroika.

putin_medvedev

Gazprom er svo sannarlega gasrisi veraldarinnar. Við fall Sovétríkjanna var öllum gasiðnaði Rússlands steypt saman í eitt fyrirtæki. Öfugt við olíuiðnaðinn, sem var strax skipt niður á þrjú fyrirtæki. Í upphafi lék rússneski forsætisráðherrann Viktor Chernomyrdin stærsta hlutverkið innan Gazprom, en hann hafði áður unnið í þeim hluta sovéska stjórnkerfisins sem fór með alla gasvinnslu í landinu. Svo fór að hann lenti í deilum við Boris Yeltsin, sem vildi aðgang að sjóðum Gazprom og setja þá í ríkiskassa Rússlands. Sem stóð vægast sagt illa í lok 10. áratugarins. Allt frá því félagið var sett á hlutabréfamarkað 1994 stóð yfir mikil valdabarátta um það. Enda talsvert í húfi! Aldamótaárið 2000 tók nýr ljúflingur við stjórnarformennskunni og heitir sá Dimitry Medvedev. Kannski ekki nafn sem klingir bjöllum – en er reyndar forseti Rússlands í dag.

gazprom_putin_cartoon

Eftir mikið brask með hlutabréf í Gazprom tókst rússneska ríkinu að ná aftur meirihluta í félaginu árið 2004. Og á nú 50,002% hlutabréfanna. Eftir það gat Pútin, þáverandi Rússlandsforseti, beitt Gazprom að vild. T.d. með því að skrúfa fyrir gasútflutning til Úkraínu, eins og frægt varð.

Núverandi stjórnarformaður Gazprom – og sá sem tók við af Medvedev þegar sá varð forseti Rússlands - heitir Viktor Zubkov. En hann var einmitt forsætisráðherra Rússlands áður en Pútín settist í það sæti. Þessir þrír ljúflingar höfðu sem sagt stólaskipti. Einfalt og ekkert vesen.

Í dag getur Gazprom nánast lýst sér þannig: “Rússland – það er ég". Fyrirtækið er uppspretta fjórðungs allra skatttekna rússneska ríkisins og síðan í júlí 2007 er það með einkaleyfi á gasútflutningi frá Rússlandi.

Russian Oil Production 2006

Eftir að hafa keypt meirihlutann í Sibneft 2005, á Gazprom nú einnig eitt stærsta olíuvinnslufyrirtæki Rússlands (heiti Sibneft er nú Gazprom Neft). Vert er einnig að nefna að Gazprom á meirihlutann í stærsta einkarekna banka Rússlands, Gazprombankanum. Og sá góði banki á stærsta fjölmiðlafyrirtæki Rússlands; Gazprom Media. Skemmtilegt. Ennþá skemmtilegra er auðvitað að hinn venjulegi Íslendingur getur fjárfest í Gazprom ef hann vill. Eftir að rússneska ríkið náði aftur meirihlutanum í Gazprom var nefnilega galopnað á kaup útlendinga í fyrirtækinu.

Og auðvitað er Gazprom sjálft á fullu í útlöndum. Nú í haust hafa þeir t.d. fundað stíft með olíufélögum og stjórnvöldum í Alaska um að koma að gasiðnaðinum þar. Spurning hvað henni Söru Palin og öðrum góðum Ameríkönum þyki um þá hugmynd að gasið frá Alaska berist til “the 48’s” gegnum rússneskar gasleiðslur? Og hver veit nema Rússalánið okkar komi beint frá Gazprom.

gazprom_tower

Forstjóri Gazprom, Alexei Miller, hefur lýst því yfir að stefnan sé að Gazprom verði fljótlega stærra en bæði PetroChina og ExxonMobil. Þ.e. stærsta orkufyrirtæki heims á hlutabréfamarkaði.

Því er ekki að undra að uppi eru áætlanir um nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar fyrir einn hluta Gazprom. Í Skt. Pétursborg, á bökkum árinnar Nevu og gegnt Smolny dómkirkjunni, stendur til að byggja "Gazprom City". Hvar 400 m hár turn Gazprom Neft, í formi gasloga, mun gnæfa yfir þessari merku borg. Meira um það arkítektasukk síðar.

PS: Eldri færslu um fyrirhugaðar gasleiðslur frá Rússlandi til Evrópu má lesa hér:   http://askja.blog.is/blog/askja/entry/601343/


Ted og tuddarnir

Hvernig væri að auka aðeins fjölbreytnina í íslensku atvinnulífi? Og gera okkur ekki algjörlega háð sveiflum á álverði. Af hverju gerir Landsvirkjun ekki aðeins meira til að markaðssetja orkuna fyrir t.d. sólarorkuiðnaðinn?

Stutt er síðan Þorlákshöfn missti af nýrri sólarupprás. Þegar norsk-bandaríska fyrirtækið REC Solar ákvað að staðsetja nýja kísilflöguverksmiðju sína í Kanada fremur en á Íslandi.

bison_killing

Ástæður þess virðast óljósar. Kísilflöguframleiðslan í sólarorkuiðnaðinum er mjög orkufrek og þess vegna reisa menn helst slíkar verksmiðjur þar sem orkuverð er lágt og vinnuafl til staðar með réttu tækniþekkinguna. Ísland virðist ekki hafa náð að heilla þá hjá REC Solar nægjanlega mikið að þessu leyti. Undarlegt.

Nýlega sá ég reyndar upplýsingar um að Alf Bjørseth, stofnandi REC Solar, sé nú byrjaður að fjárfesta í annarri sólarsellutækni en kísilflögunum. Þetta kæmi mér ekki á óvart - sílikonið verður brátt á undanhaldi. Það veit Orkubloggið jafn vel og hann Bjørseth. Og þar sem REC Solar er aðallega í sílikoninu held ég að það fyrirtæki sé ekki endilega mjög spennandi kostur til framtíðar.

Alf þessi Bjørseth er um margt áhugaverður náungi. Hefur m.a. unnið að hugmynd um byggingu þórín-kjarnorkuvers í Noregi. Nokkuð sem Orkubloggið hefur áður sagt frá. Líklega er hann með sem nemur einhverjum 15 milljörðum ISK í vasanum eftir að hafa selt hlut sinn í REC. En nóg um Alf í bili. Í staðinn ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að öðrum snillingi. Sem er Ted nokkur Turner.

TedTurner_Time_Cover

Ekki er langt síðan Orkubloggið sagði frá PV-sólarsellutækni sem það bindur mestar vonir við. Thin-film tækninni, sem þeir hjá First Solar  eru hvað fremstir í. Þó svo Walmart-fjölskyldan sé kjölfestan í First Solar er vert að minnast einnig á nýjasta celebrity-hluthafann þar á bæ. Sá er nefnilega “landshöfðinginn” Ted Turner. Stofnandi CNN, TNT og Cartoon Network. Gamli steggurinn hennar Jane Fonda. Og stærsti landeigandi í Bandaríkjunum.

Aðkoma Turner að sólarorkunni hefur reyndar verið nokkuð sérkennileg. Þetta byrjaði þannig að í upphafi ársins 2007 tilkynnti Turner að hann ætlaði að setja glás af péning í að þróa umhverfisvænar orkulausnir. Og keypti sólarorkufyrirtækið DT Solar í New Jersey.

Í reynd er DT Solar n.k. verkfræði-bisness-development fyrirtæki, sem sérhæfir sig í byggingu sólarorkuvera. Sem kannski hefði geta hentað Turner ágætlega því hann er stærsti landeigandi í Bandaríkjunum! Og því væntanlega með nóg pláss fyrir sólarorkuver.

Turner virtist sem sagt hafa mikinn metnað til handa endurnýjanlegri orku. Hann setti DT Solar undir nýtt eignarhaldsfélag sitt, sem hann kallaði Turner Renewable Energy. En eitthvað var Turner fljótur að verða leiður á þessu sólarorkustússi hjá DT Solar. Því ekki var liðið ár þar til hann var búinn að selja allt heila klabbið. Og kaupandinn var einmitt First Solar. Sem breyttu nafni Turner Renewable Energy í First Solar Electric.

Hluti kaupverðsins var greiddur með hlutabréfum. Þannig að Ted Turner er líklega enn þátttakandi í sólarorku í gegnum bréfin sín í First Solar. Svo er kannski ekki skrítið að hann hafi helst viljað eiga eitthvað í First Solar – fyrirtæki sem er svo sannarlega í fararbroddi í sólarorkutækni. Þeir hjá First Solar hyggjast nýta þekkinguna innan DT Solar til að koma framleiðslu sinni hraðar á markað. DT Solar er nefnilega með afar góð sambönd við nokkur helstu orkudreifingarfyrirtækin vestur í Bandaríkjunum.

firstsolar_thinfilm

Orkubloggið hefur áður sagt frá nýju sólarsellunum þeirra hjá First Solar, sem gerðar eru úr kadmín-tellúríði í stað hins rándýra sílikons. Varla er til meira spennandi stöff í þessum bransa - nema ef vera skyldu CIGS-flögurnar (sem á íslensku myndu væntanlega kallast KIGS). Þær eru reyndar bara annar handleggur á sömu tækni, þ.e. thin-film. Og eru samsettar úr frumefnunum kopar, indíni, gallíni og seleni. Lykilatriðið er að finna sem ódýrasta leið til að nýta hálfleiðara, til að örva rafeindir þegar ljóseindir frá sólinni lenda á þeim. Og þar virðist "KIGSið" reynast hvað best.

Ég held barrrasta að það eigi enginn roð við þeim hjá First Solar. Samt eru auðvitað fjölmörg önnur fyrirtæki að þróa sig áfram í svipaða átt. Mér dettur t.d. í hug bandaríska Nanosolar og þýska fyrirtækið SolarWorld. Miðað við geggjaðar fjárfestingar í þessum bransa þessa dagana - og möguleika Íslands á að bjóða endurnýjanlega orku á góðu verði – er grátlegt hversu illa mönnum hér gengur að fá fyrirtæki af þessu tagi til landsins. Líklega er óstöðug króna þar aðal skaðvaldurinn.

CIGS_solar

Menn skulu reyndar passa sig á einu. Að vera ekki að draga hingað einhver sílikon-PV fyrirtæki. Sílikoninu er spáð hrakförum - mestur vöxtur er talinn verða í kadmíntellúríðinu og KIGSinu. Einfaldlega vegna þess að sú tækni er ódýrari og því miklu líklegri til að geta náð að keppa við kolaóþverrann og aðra hefðbundna orkugjafa í rafmagnsframleiðslu.

Ef þeir hjá Þorlákshöfn eða annars staðar vilja komast á réttu brautina, er engin spurning í huga Orkubloggsins hvert leita skal.

------------------------------------------------ 

tedturner-horse

Rétt að slútta þessu með því að minnast aftur á ljúflinginn Ted Turner. Stærsta landeigandann í Bandaríkjunum. Einn æskudraumur minn var að búa í nágrenni við Klettafjöllin eða álíka stórbrotna náttúru. Í nágrenni glæsilegra fjalla, vatna og skóga – og með birni og bjóra í nágrenninu.

Maður las líklega full mikið að J.F. Cooper eða Frumbyggjabókunum norsku. En kannski hefur Turner átt sér svipaða drauma. Því hann mun nú eiga meira en tug risastórra búgarða í Bandaríkjunum og reyndar nokkra aðra í Argentínu.  Alls á Ted Turner nú rúmlega 8 þúsund ferkílómetra lands í Bandaríkjunum. Frá Nýju-Mexíkó og Oklahóma í suðri og allt norður til Dakóta og Montana.

Þegar hann byrjaði á landakaupunum fyrir um 20 árum eignaðist hann þrjá vísunda. Tvær kýr og einn tudda. Í dag eru meira en 50 þúsund vísundar á búgörðum hans. Sem auðvitað kallaði á nýjan bisness. Árið 2002 opnaði fyrsta Vísundagrillið og nú er keðjan Ted’s Montana Grill með um 60 staði víðs vegar um Bandaríkin.  Allur ágóði rennur auðvitað til verndar vísundum.

Teds-Montana-Grill-Logo

Svolítið magnað að  hugsa til þess að þegar hvítir menn komu til Ameríku, er talið 30 milljón vísundar hafi verið þar á sléttunum. En eftir að Buffaló-Bill og félagar höfðu leikið sér þar um skeið, var svo komið að einungis um eitt þúsund vesalingar voru eftir.

Hér að neðan er gömul ljósmynd sem sýnir hauskúpuhrúgu. Já - þetta eru eintómar vísindahöfuðkúpur. Það var lítið mál að skjóta niður þessi þunglamalegu dýr. Það er satt að segja erfitt að ímynda sér hvers konar blóðvöllur sléttur vestursins voru, þegar Buffalo Bill reið þar um og slátraði vísundunum. 

Bison_skull_pile

Nú er vísundastofninn í Bandaríkjunum aftur á móti kominn í um hálf milljón dýr. Og þar af er um 10% slátrað árlega í vísundasteikur. Sem m.a. má fá hjá Ted’s Montana Grill. Maður fær óneitanlega vatn í munninn.


mbl.is Geta borað við Þeistareyki og Kröflu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæfa og gjörvileiki

Bandaríkin! Landið þar sem afskorið eyra, Art Deco og rússneskar bensínstöðvar tengjast með athyglisverðum hætti. Landið þar sem menn horfðu lengi óttaslegnir til himins. Til að sjá hvort Rússarnir væru að koma.

Chrysler_building

Nú verður brátt allt ættarsilfur Bandaríkjanna meira eða minna komið í erlenda eigu. Olíusjóður frá Abu Dhabi keypti Chrysler-bygginguna nú í sumar. Og bensínstöðvar Getty gamla eru komnar í eigu stærsta olíufélags Rússlands. En líklega er Könum nokk sama. Rétt eins og milljarðamæringnum Jean Paul Getty (1892-1976) var sama og lét mannræningja skera eyrað af sonarsyni sínum. Fremur en að borga lausnargjaldið án múðurs.

Getty Oil var á sínum tíma eitt öflugasta olíufélag í Bandaríkjunum. Vissulega má segja að hann J. Paul Getty I hafi fæðst með silfurskeið í munni (faðir hans var George Getty; bandarískur iðnjöfur). Engu að síður skapaði hann auð sinn að mestu sjálfur. Hann hafði nef fyrir því að græða pening i olíuiðnaðinum. Aðeins 25 ára hafði J. Paul Getty I grætt fyrstu dollaramilljónina sína í olíubransanum í Oklahóma. En hélt þá vestur til Hollywood hvar hann sökk í kvennafar.

Faðirinn var lítt hrifinn og nánast afneitaði þessum lúsablesa áður en hann sjálfur fór í gröfina 1930. En J. Paul Getty lét sér fátt um finnast og hélt áfram að djamma í Kaliforníusólinni.

J_Paul_Getty

Hann sneri þó aftur i olíuna. Í kringum 1950 keypti hann nokkur olíufélög og sameinaði þau í Getty Oil. Það sem þó gerði Getty Oil að stórveldi var fyrst og fremst samningur J. Paul Getty's I við Sádana. Þangað hélt hann skömmu eftir seinna stríð og leigði sér skika á landamærum Saudi Arabíu og Kuwait. Og áður en menn vissu af sullaði Getty milljónum tunna daglega upp úr sandinum. Og varð á örfáum árum einhver ríkasti maður í heimi. Í aurum talið.

En það eru gömul sannindi að veraldlegur auður og hamingja eiga ekki endilega samleið. Þegar sonarsonur hans Getty's, J. Paul Getty III (f. 1956) sem þá var 16 ára, hvarf á Ítalíu árið 1973 lét sá gamli sér fátt um finnast. Er krafa um lausnargjald barst frá meintum mannræningjum var hann viss um að strákurinn væri bara að reyna að plata pening út úr afa gamla. Eitthvað mildaðist hann þegar eyra af drengnum barst skömmu seinna í pósti, með hótun um að hann kæmi í smábitum yrði ekki borgað. Ekki hljóp Olíu-Getty þó til með peninginn, heldur prúttaði við ræningjana og náði loks "betri díl". En eins og allir Íslendingar vita er auðvitað lykilatriði að prútta við Ítalasulturnar.

getty_earjpg

Getty gamli setti það reyndar sem skilyrði fyrir greiðslunni að sonur hans, Jean Paul Getty II (1932-2003) og pabbi stráksa, endurgreiddi honum lausnargjaldið. Með vöxtum! Ekki er Orkublogginu kunnugt um efndir á því loforði. En a.m.k. fannst hinn 16 ára gamli Getty III skömmu síðar, með eitt eyra og í taugaáfalli. Hann náði sér aldrei  - varð háður eiturlyfjum og hefur lengi legið lamaður eftir of stóran skammt árið 1981. Ræningjarnir sem taldir voru vera mafíósar frá Kalabríu, fundust aldrei.

Í dag er gamli Getty I líklega þekktastur sem einlægur listunnandi og stofnandi Getty-safnsins í Kaliforníu. Það góða safn hefur reyndar lent í veseni, eftir að í ljós kom að nokkrir merkir munir í eigu safnsins voru þjófstolnir frá Ítalíu. Leiðindamál. En það er önnur saga.

talitha getty

Um Gettyana má bæta því við að J. Paul Getty II, sonur Olíu-Getty's og faðir stráksins sem rænt var, giftist súperskvísunni og leikkonunni Talithu Pol. Sem lést í Róm af stórum heróínskammti 1971. Myndin hér til hliðar er eimitt tekin af þeim hjónakornunum af ljósmyndaranum fræga Lichfield lávarði. Staðurinn er Marokkó þar sem þau hjónin bjuggu þá í anda sukkandi blómabarna. Aðdáendur snillinganna i hljómsveitinni Crosby, Stills, Nash & Young vita allt um lífið þar.

Halda mætti lengi áfram að lýsa bóhemlífi og bölvun Gettyanna, t.d. eyðnismiti Aileen, dóttur J. Paul Getty II. En líklega tímabært að hætta þessu Getty-þvaðri. Þó verð ég að nefna, að ég man afskaplega vel eftir umfjöllun íslenskra dagblaða um Getty gamla, þegar hann lést árið 1976 - þá á níræðisaldri. Enda lengi hrifist af olíubarónum.

Þó svo Getty-safnið sé heimsfrægt er þó líklega algengara að sjá Getty-nafnið í tengslum við Getty-images. Sem er ljósmyndavefur, sem mikið er notaður af netmiðlum heimsins, tímaritum og dagblöðum. Það var einmitt sonur Jean Paul Getty's II - og bróðir Aileen og hins eyrnaskorna Jean Paul Getty's III - sem stofnaði Getty Images. Sá ljúfur heitir Mark Getty (f. 1960).

Sienna-Miller-Balthazar-Getty_2

Unnendur kvikmynda og slúðurblaða kunna þó að þekkja enn betur hann Balthazar Getty. Sá er fæddur 1975 og er einmitt einkabarn J. Paul Getty's III, lék eitt aðalhlutverkið í Flugnahöfðingjanum eða Höfuðpaurnum (Lord of the Flies) og sást nýlega í miklu kossaflensi með hálfberri Siennu Miller. Sem er kannski ekki stórfrétt, nema þá sökum þess að hann Balthazar er kvæntur (annarri en Siennu) og 4ra barna faðir. Þetta er allt svolítið kaldhæðnislegt, þegar haft er í huga að Sienna lék einmitt fiðrildið Edie Sedgwick í nýlegri bíómynd um Andy Warhol og gengið hans í "Verksmiðjunni". Það er nokkuð víst að afi hans Balthazars, J. Paul Getty II, sukkaði duglega þar á bæ í lok 7. áratugarins. Og Verksmiðjusukkið hjá Warhol-genginu náði að drepa Edie litlu, áður en hún náði þrítugu. Vona að Sienna sé ekki að lenda í slæmum félagsskap.

Mestu auðæfin innan Getty Oil voru seld út úr fyrirtækinu á sjöunda og áttunda áratugnum En Getty-bensínstöðvarnar  héldust áfram innan fyrirtækisins.

getty_station

Þar kom þó að, að þær voru líka seldar - og það gerðist síðla árs 2000. Kaupandinn kom langt úr austri. Þar á ferð var enginn annar en rússneski olíurisinn Lukoil. Þannig að í dag geta vesturfarar rennt upp að þessu háameríska vörumerki - Getty Oil - og dælt á tankinn vitandi það að aurarnir renna austur til snillingsins Vagit Alekperov og annarra Lukoil-manna.

Gaman að þessu. Þessi tæplega sextugi Azeri, hann herra Alekperov, er í dag einn mesti auðmaður veraldarinnar. Svo skemmtilega vildi til að hann var aðstoðarorkumálaráðherra á síðustu dögum Sovétríkjanna. Hann átti í framhaldinu þátt í stofnun rússneska ríkisolíufyrirtækisins Langepas-Urai-Kogalymneft 1991. Hvers nafni var breytt i LUK-oil árið 1993.

vagit-alekperov

Sama ár var lítill hluti hlutabréfanna í Lukoil settur á markað, en ríkið hélt áfram meirihlutanum. Fyrir "einskæra tilviljun" urðu öll bréfin smám saman föl - og nú ræður hann Vagit Alekperov yfir um fimmtungi þeirra (ásamt einum gömlum viðskiptafélaga sínum). Svona getur lífið stundum verið skemmtilega einfalt.

Lukoil er STÓRT. Annað af tveimur stærstu olíufélögum Rússlands. Var jafnvel stærra en Rosneft, allt þar til þeir Rosneftar yfirtóku Yukos. Sem var félagið hans Mikhail Khodorkovsky. Af þeim olíufélögum heimsins, sem skráð eru á hlutabréfamarkað, mun aðeins eitt félag búa yfir meiri olíubirgðum en Lukoil. Sem er risinn Exxon Mobil.

Alltaf gaman að ofurlítilli tölfræði. Svona rétt til að setja hlutina í samhengi: Lukoil fer með nærri 20% af allri olíuvinnslu i Rússlandi. Og er auðvitað með starfsemi víða annars staðar um heiminn. T.d. í Írak. Alls mun félagið nú framleiða 2,3% af olíuframboði heimsins og ráða yfir 1,3% af öllum þekktum olíubirgðum veraldar.

lukoil_logo

Og sem fyrr segir getur maður nú látið hreinsa framrúðuna á skrjóðnum á Lukoil-bensínstöðvum vestur í henni Ameríku. Menn þurfa sem sagt ekki lengur að óttast að Rússarnir séu að koma - þeir eru nefnilega löngu komnir. Til Bandaríkjanna. Kannski tímabært að þeir komi líka til Íslands?


mbl.is Rússar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Единые Энергетические Системы

Stulli_Tanya

Maður hefur beðið spenntur eftir því hvort honum Stulla tækist að redda okkur léttu Rússaláni. Vona að honum hafi liðið vel þarna í Moskvu - ásamt Tönju og fleiri ljúflingum. En hafi þau lent í einhverju stappi væri etv. skynsamlegast að snúa sér til hans Alexanders Lebedev. Hann hefur nefnilega ákveðna sérstöðu í rússneska milljarðamæringaheiminum.

Það gerðust ýmsir hreint magnaðir atburðir eftir hrun Sovétríkjanna. Um rússneska orkugeirann og raforkukerfið er það að segja, að 1992 var sett á fót sérstakt félag um allan þann ríkisbisness. Félag þetta varð á Vesturlöndum þekkt sem Unified Energy System of Russia. Nær öll orkufyrirtæki landsins, sem fram til þessa höfðu verið í ríkiseigu, voru sett í þetta netta fyrirtæki (kjarnorkuverin þó undanskilin). Þarna undir féllu einnig fjölmörg stærstu verktakafyrirtæki landsins og nánast allt dreifikerfi raforkunnar.

Russia_energy__system6

Alls mun Unified Energy System (UES) hafa eignast um 7/10 allrar raforkuframleiðslu Rússlands og sama hlutfall af öllum raflínum landsins. Og allar háspennulínur um Rússland þvert og endilegt.

Eignarhaldinu var þannig komið fyrir að helmingur þessa risastóra orkufyrirtækis var í eigu rússneska ríkisins en hinn helmingurinn gekk kaupum og sölu á hlutabréfamarkaðnum. Á árunum 1997-99 var mikil valdabarátta um stjórn fyrirtækisins. Endaði þetta með því að UES var leyst upp í fjölda smærri eininga. Í hönd fór eitthvert geggjaðasta tímabil einkavæðingar í Rússlandi. Um það leyti sem Björgólfsfeðgar og Maggi seldu bjórverksmiðjurnar og komu mestu af sínu fé út úr Rússlandi. Kannski hefðu þeir frekar átt að veðja á rússneska orkugeirann, Frekar en að hirða Landsbankann og Eimskipafélagið. Úr því að svo fór sem fór.

Russia_Energy_System3

Umbreytingu UES lauk ekki fyrr en um mitt þetta ár (2008). Eitt af þeim fyrirtækjum sem tók við hinum fölbreytta orkurekstri þess, er sérstakt orkudreifingarfyrirtæki sem komið var á fót 2002. Á ensku er það nefnt Federal Grid Company (FGC) og fer með einkaleyfi á öllu háspennukerfinu og mest allri raforkudreifingu í landinu.

Rússneska ríkið fer með meirihluta hlutabréfanna í FGC og á yfir 75%. Tæplega 25% eru í höndum annarra. Kreppukvaldir mörlandar geta nálgast slík bréf í gegnum kauphöllina í Moskvu; MICEX (bréfin bera auðkennið FEES).

lebedev

Áðurnefndur Alexander Lebedev er einmitt einn stærsti einkaaðilinn í FGC. Þessi fimmtugi Rússi er með doktorsgráðu í hagfræði og starfaði lengi hjá KGB áður en hann snéri sér að bissness. Hann byggir núverandi viðskiptaveldi sitt á bankanum sínum, sem er einn þeirra stærstu í Rússlandi. Á ensku ber bankinn það hógværa nafn National Reserve Bank. Hann er kannski frægastur fyrir að vera einn örfárra banka sem lifðu af hrun rúblunnar 1998. Hrunið sem gerði næstum út af við bjórbisness Björgólfsfeðga i Skt. Pétursborg. En bæði Lebedev og Bjöggarnir komu standandi út úr þeim hremmingum og stóðu uppi sem sigurvegarar.

Í gegnum bankann sinn á Lebedev reyndar einnig talsvert fleira dót í Rússlandi, en bara hlutinn í orkudreifingarfyrirtækinu magnaða. T.d. á hann hlut í Gazprom, sem er stærsti gasframleiðandi heims. Og þriðjung hlutabréfanna í hinu gamla og góða Aeroflot (þar er Lebedev stærsti hluthafinn á eftir rússneska ríkinu, sem á 51% í Aeroflot). Ásamt fjölda annarra fyrirtækja í rússneskum iðnaði og landbúnaði. Og svo skemmtilega vill til að bankinn hans Lebedev mun einmitt vera einn helsti viðskiptabanki Gazprom.

Já - hann Alexander Lebedev er vellauðugur - en ekki alveg eins og hver annar ólígarki. Meðan hann vann hjá rússneska sendiráðinu í London á 9. áratugnum er hann sagður hafa verið hreinræktaður njósnari. Hann ku hafa fílað vel hinn aristókratíska breska klúbblifnaðarhátt - og nýtur þess að eiga góðar stundir með öðrum gömlum njósnurum í leyniklúbbnum, sem Lundúnabúar kalla "Russian spies".

Lebedev_Gorbi

Lebedev var í góðum tengslum við Jeltsin og það hjálpaði honum auðvitað að byggja upp fjármálaveldi eftir fall Sovétríkjanna. En Lebedev hefur engu að síður verið ófeiminn við að gagnrýna stjórn Pútins og ekki síst talað fyrir bættum mannréttindum í Rússlandi. Þó hann sitji nú í Dúmunni sem þingmaður stjórnarflokksins er hann um leið félagi Mikhail Gorbachev í útgáfu dagblaðsins Novaya Gazeta. Ekki hægt að segja annað en hann Alexander Lebedev sé svellkaldur náungi. Kannski vill hann lána okkur pening...


mbl.is Ekki niðurstaða í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Das Kapital

"Ef að illar vættirinn um myrkragættir, bjóða svikasættir, svo sem löngum ber, við í heimi hér, þá er ei þörf að velja: þú mátt aldrei selja það úr hendi þér."

Oxararfoss

Þannig segir í kvæðinu Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson. Síðustu árin hefur veröldin tilbeðið fjármagnið. Viðskiptaumfjöllun heltók fjölmiðlana. Björgólfur Thor kostaði sýningu Ólafs Elíassonar í Listasafni Reykjavíkur. Og það er táknrænt fyrir þessa þróun að á vef Morgunblaðsins er hvergi að finna valmöguleikann "Menning". Þetta stingur Orkubloggið sérstaklega í augun, hafandi verið nærri tvö ár í Danmörku, hvar t.d. menningarumfjöllun í dagblöðunum er mjög umfangsmikil.

Sá sem stendur bak við Orkubloggið er afar langt frá því að flokkast sem menningarviti - gæti líklega frekar kallast menningarsóði. Ég er t.d. heldur lítið fyrir tónleika og leiðist yfirleitt ferlega á leiksýningum og í söfnum (þó svo Louisiana-safnið sé líklega uppáhaldsstaðurinn minn í Köben - ekki síst vegna garðsins þar við safnið og útsýnisins yfir Eyrarsund).

Áhugamál mín eru sem sagt ekki beinlínis á því sem kallað er menningarsviðið. Engu að síður sakna ég þess hversu ótrúlega lítil áhersla er á menningu í íslenskum fölmiðlum. Dægurmálaþras og viðskiptafréttir kaffærðu slíka umfjöllun. En kannski sjáum við fljótlega afturhvarf til hinna góðu gilda - áherslunnar á listina, mannlífið og hvað gefur lífinu gildi.

Orkublogginu hefur þótt athyglisvert að fylgjast með því hvernig nú, í skyndilegu falli bankanna, virðist þjóðin hafa enduruppgötvað snillinga eins og Stein Steinarr og Guðmund Böðvarsson. Núna á tímum hruns stærstu fyrirtækja landsins hittir kaldhæðni Steins í mark - og þjóðernisást Guðmundar Böðvarssonar ekki síður. Þó svo Guðmundur hafi beint orðum sínum gegn aðild Íslands að NATO, eiga þau orð ekki síður vel um þá ömurlegu staðreynd að þjóðfélagið rambar nú á barmi gjaldþrots eftir að fiskimiðin voru einkavædd og helstu fyrirtæki í eigu ríkisins seld bröskurum.

steinn_steinarr

Já - Orkubloggið er mikill aðdáandi bæði Steins Steinarr og Guðmundar Böðvarssonar. En bloggið trúir engu að síður áfram á kapítalismann og líka á kvótakerfið og líka á NATO-aðildina. Fyllibytturnar koma óorði á brennivínið. Og nú hafa "útrásarvíkingarnir" komið óorði á íslenskan kapítalisma. Orkubloggið er mikill hófdrykkjumaður. Og trúir því að hér muni senn rísa hógvær og skemmtilegur kapítalismi. Sem mun lúta skýrum leikreglum og skapa grunn að góðri framtíð á Klakanum góða.

Um leið er vert að viðurkenna að ljóðlínur sem þessar eru öllu kapítali æðri:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið. 

-------------------------------------

PS: Í dag munu vera liðin 100 ár frá fæðingu Steins Steinarr.

 


mbl.is Slökkt á fossum Ólafs í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyde og Einar Ben

Nýlega upplýsti Orkubloggið ósk sína um nýtt Kalmarsamband. Sem er auðvitað eins og hvert annað grín. Aftur a móti er bloggið skotið í nánu sambandi Íslands og Noregs. Í fúlustu alvöru.

Síðustu dagana hef ég beðið eftir því að Norðmenn taki af skarið. Og bjóði Íslendingum lánið sem við þurfum. Ég trúi enn að af því verði. Norðmenn eru varkárir og ana ekki að hlutunum. Hugsanlega eru þeir ekki bara að skoða möguleika á láni - heldur líka að íhuga möguleika að kaupa umtalsverðan hlut íslenska fjármálakerfisins. Ég held satt að segja að bankarnir væru miklu betur komnir í höndum Norðmanna, en að hér nái íslenska ríkið einræði á bankamarkaði og blessaðir valdhafarnir komi á nýjum helmingaskiptum og einkavinavæðingu.

einar_ben

En að öðru. Í dag ætlar Orkubloggið að gæla við þá hugsun hvernig Ísland hefði geta þróast. Ef, ef...

Allir sæmilega meðvitaðir Íslendingar þekkja Einar Benediktsson, skáld og sýn hans um uppbyggingu virkjana og iðnaðar. Þessir draumar Einars rættust ekki og Íslendingar  byrjuðu fyrst að nýta vatnsorkuna af alvöru síðla á 7. áratugnum. Og reyndar hefur iðnvæðing íslands orðið með þeim hætti að öll helstu iðnfyrirtækin eru í eigu útlendinga. En hvað hefði gerst ef Einari hefði tekist ætlunarverk sitt? Ættum við þá etv. nokkur öflugustu iðnfyrirtæki Evrópu?

Orkublogginu hefur oft orðið hugsað til Norðmannsins Sam Eyde - og hvernig Ísland liti út ef Einar Benediktsson hefði orðið e.k. Sam Eyde Íslands. Þeir Eyde voru samtíðarmenn - fæddust skömmu fyrir 1870 og létust báðir árið 1940. Þeir voru þó um margt ólíkir - annar var skáld og lögfræðingur en hinn verkfræðimenntaður og með skyn fyrir uppfinningum. Og það var uppfinningamaðurinn Sam Eyde sem tókst að fá fjármagnseigendur til liðs við sig og gat boðið þeim bæði tæknivit og náttúruauðlindir Noregs.

Þar er helst að nefna að Eyde tókst í félagi við norska vísindamanninn Kristian Birkeland að þróa aðferð til að framleiða áburð. Sem felst í að nýta nitur úr andrúmsloftinu til að vinna saltpétur. Það ferli krefst mikillar orku og þar gat Eyde lagt fram orkuna, því hann hafði þá nýlega orðið sér úti um mikil virkjanaréttindi í Telemark.

Já - enn og aftur er Orkubloggið lent í Telemark - þessu "Þjórsársvæði" Norðmanna sem næstum varð til þess að útvega Nasista-Þýskalandi kjarnorkusprengju. En nóg hefur verið fjallað um það ævintýri hér á blogginu í eldri færslum.

sam_eyde

Þeir félagarnir Eyde og Birkeland voru nú með í höndunum aðferð og orku til að framleiða tilbúinn áburð handa heimsbyggðinni. Þetta var árið 1903 - um það leyti sem íslenska Heimastjórnin leit dagsins ljós og einungis nokkrum árum áður en Einar Benediktsson stofnaði Fossafélagið Títan.

Eyde og Birkeland stofnuðu félag í kringum áburðarframleiðsluna, sem nefndist Elektrokemisk Industri. Fjármagn fékkst frá nokkrum sænskum ljúflingum - nefnilega Wallenbergunum sem þá byggðu veldi sitt einkum á bankarekstri í Svíþjóð. Fyrsta áburðarverksmiðja Elektrokemisk Industri - er löngu síðar varð að Elkem sem Íslendingar þekkja auðvitað vel - hóf rekstur tveimur árum síðar. Og þetta sama ár - 1905 - stofnaði Sam Eyde annað félag um orkuvinnslu og áburðarframleiðslu og nefndist það Norsk Hydro-elektrisk Kvælstofaktieselskab. Sem síðar varð risaálfyrirtækið Norsk Hydro.

Þó svo líf Einars Benediktssonar teljist líklega um margt hafa verið dramatískara en ferill Sam Eyde, þurfti sá síðarnefndi einnig að þola lífsins byrðar. Eftir að hafa stofnað og stjórnað báðum fyrrnefndum fyrirtækjum, sem i dag eru meðal helstu iðnaðarrisa heimsins, fór svo að honum var fljótlega ýtt til hliðar. Hann þótti erfiður í skapi og árið 1917 bolaði stjórnin honum úr forstjórastól og 1925 lét hann af stjórnarformennskunni. Sagt er að hann hafi gert sérstakan samning við stjórnina, sem megi etv. teljast fyrsti alvöru starfslokasamningurinn! Já - það voru hvorki bandarískir forstjórar né íslenskir auðmenn sem fundu upp þann ósið. Heldur góðir og kristilega þenkjandi Norðmenn. Það gengur svona.

NOK_200kr

Norðmenn kunna á bissness! Og hananú. Það telur Orkubloggið næg rök til að kasta sér í þeirra fang. Ekki seinna vænna. Úr því Einar Ben náði ekki tengslum við þá Birkeland og Wallenbergana.

PS: Bæði Einar Benediktsson og Kristian Birkeland hafa komist á peningaseðla. En mér er ekki kunnugt um að neinn slíkur seðill hafi borið mynd Eyde. Sem er auðvitað hreinn skandall.


mbl.is Norsk stjórnvöld leggja fram 41 milljarð evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólgyðjan

Það er merkilegt að fylgjast með fréttunum. Meðan geimskutlur Bandaríkjanna hrapa ein af annarri og eyðileggja almenningsálit bandarísku þjóðarinnar á geimferðaráætluninni, berast fréttir af vel heppnuðum geimferðum Rússa. Og langdrægu kjarnorkueldflaugarnar þeirra virðast líka vera að virka prýðilega.

Europe_solar-radiation

Eftir fall Sovétríkjanna sögðu margir að nú væri einungis eitt stórveldi eftir í heiminum. Í reynd virðist Rússland sjaldan hafa verið öflugara en í dag. Og hefur nánast tekist að hneppa Evrópu í orkufjötra.

Orkubloggið hefur verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess, að Evrópa nái orkusjálfstæði. Ekki síst hefur bloggið snobbað fyrir einni sólarorkutækninni. Tækninni þar sem geislum sólar er speglað í brennipunkt til að mynda gríðarmikinn hita og hitinn nýttur til að mynda gufu. Sem knýr túrbínu og framleiðir þannig rafmagn. Concentrated solar power!

Bloggið hefur talað fyrir því að Evrópusambandið taki upp náið samstarf við ríkin í N-Afríku um uppbyggingu slíkrar tækni. En í dag ætla ég að beina athyglinni að annarri hlið sólarorkunnar. Sem etv. er mörgum betur kunn en CSP og krefst ekki jafn mikillar sólgeislunar eins og CSP.

PV_power_station

Þá á ég við sólarorkutæknina sem byggir á sólarsellum. Hún byggist á því að sólargeislarnir lenda á sólarsellunum, sem við það framleiða rafmagn.

Til nánari útskýringar, þá lenda ljóseindir (photons) frá sólinni á rafeindum í sólarsellunum og örva þær. Við það myndast rafmagn. Rafmagnið frá sólarsellunum má svo auðvitað nýta beint, setja á raforkukerfi eða nota á rafhlöður. Og tæknin getur nýst mjög víða í Evrópu - jafnvel langt norðan Mundíufjalla.

Þetta er milliliðalaus og að því leyti einföld rafmagnsframleiðsla. En aftur á móti nokkuð dýr aðferð. Það eru ekki síst kísilflögurnar í sólarsellunum, sem eru mjög dýrar.

pam-anderson-baywatch

Eins og heitið gefur til kynna eru kísilflögurnar gerðar úr kísil eða sílikoni (silicon), sem er eitt af frumefnunum. Hafa ber í huga, að þó svo kísil sé reyndar að finna í þeim merku púðum sem sumar dömur láta setja í brjóst sín, er heitið sílikonbrjóst ofurlítið villandi. Það sem notað er til brjóstastækkana hefur m.ö.o. lítið með kísil að gera.

Á ensku eru sólarsellurnar oft nefndar "photovoltaic solar panels". Heitið photovoltaic (photo og voltaic) vísar til ljóseindanna frá sólinni og rafmagnsins sem unnt er að framleiða með þessari tækni. Oft er einfaldlega talað um PV-tækni í þessu sambandi - þar sem PV er auðvitað skammstöfun fyrir photovoltaic.

Þessi tækni hefur verið fyrir hendi í marga áratugi og smám saman hefur náðst að draga úr kostnaði við framleiðsluna. Nú er sólarsellutæknin komin inn á borð okkar Íslendinga - undanfarið hafa fyrirtæki verið að skoða þann möguleika að smíða hér kísilflögur í sólarsellurnar. Kísilflöguframleiðslan er nefnilega orkufrek og sem kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld lengi iðkað það að bjóða erlendum fjárfestum ódýra orku.

Solar PV thin film

Enn þann dag í dag eru kísilflögurnar yfirgnæfandi á sólarsellumarkaðnum. En vegna þess hversu dýrar þær eru, er Orkubloggið á því að þetta verði aldrei raunverulegur valkostur til rafmagnsframleiðslu í stórum stíl. Nema ný og betri efni finnist en sílikonið.

Verið er að þróa PV-sellur sem byggjast á öðru en kísil. Sú PV-tækni sem Orkubloggið hrífst mest af þessa dagana kallast thin-film tækni og er hugsanlega allt að helmingi ódýrari en kísilflögurnar. Þessar nýju sólarsellur eru gerðar úr efni sem nefnist kadmín-tellúríð. Eins og nafnið bendir til samanstendur það af frumefnunum kadmín (cadmium) og tellúr eða tellúríð (telluride).

Ég steinféll fyrir þessu thin-film stöffi, við fyrstu sýn. Þessar kadmín-tellúríð-flögur nýta sólarorkuna miklu betur og munu nú geta breytt allt að 10% sólarorkunnar, sem fellur á sólarselluna, yfir í rafmagn. Lykilatriðið er að kostnaðurinn við rafmagnsframleiðsluna verði nálægt því sem rafmagn frá kolum kostar. Þessi nýja tækni hefur skapað bjartsýni um að þetta markmið geti náðst innan fárra ára.

FirstSolarChart

Helsta vandamálið er að kadmín mun vera mjög heilsuspillandi og getur jafnvel leitt til dauða. Þess vegna er vandmeðfarið að nota það í iðnaði. Bæði við framleiðsluna og eyðingu gamalla sólarsella þarf að gæta þess að kadmínagnir berist t.d. ekki í öndunarveginn.

Það fyrirtæki sem að öllum líkindum stendur fremst í að framleiða þessar nýju sólarsellur, nefnist First Solar. Vöxtur First Solar hefur verið hreint ævintýralegur. Hér til hliðar má sjá þróun hlutabréfaverðs First Solar. Eftir geggjaða uppsveiflu hefur það tekið mikla dýfu upp á síðkastið. Sem kannski er fyrst og fremst vegna lækkandi olíuverðs. Þarna hefur líka áhrif sú óvissa sem verið hefur um bandariskar skattareglur fyrir sólarorkuiðnaðinn. En þær góðu fréttir bárust fyrir nokkrum dögum að Bandaríkjaþing var að afgreiða hagstæðan pakka þar að lútandi. Og Bush er búinn að staðfesta lögin!

Fólk heldur kannski að fyrirtæki í svona mikilli tækniþróun sé rekið með tapi. Því fer fjarri. Á síðasta ári (2007) voru tekjur First Solar um 640 milljónir USD og hagnaðurinn hvorki meira né minna en rúmar 100 milljónir dollara.

Sam_Walton_Time_Cover

Stærstu hluthafarnir í First Solar eru hin vellauðuga Walton-fjölskylda. Þ.e. afkomendur Sam Walton, stofnanda Wal Mart. Fjölskyldan kom snemma inn í fyrirtækið og þar var þolinmótt fjármagn á ferðinni. Ekki alveg sami skyndigróða hugsunarhátturinn eins og hjá íslenskum auðmönnum - sem nú skilja eftir sig rjúkandi rústir. En ætli hlutabréfaverðið í First Solar núna bjóði upp á reyfarakaup?.


mbl.is Rússar skjóta langdrægum eldflaugum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband