LNG – tækifæri hins nýja Onassis?

Nýlega leyfði Orkubloggið sér að fullyrða að gasdraumar Rússa liggi í LNG. Liquefied Natural Gas – fljótandi gasi.

Lng_tanker

Ástæðan er ekki flókin. Bæði Bandaríkin og Japan eru óð í meira gas. Rússar, sem eiga gnótt af gasi og eru búnir að sigra Evrópu, finna peningalyktina frá þessum risastóru mörkuðum i austri og vestri. En þangað geta Rússar ekki flutt gasið sitt í gegnum pípur, eins og til Evrópu. Þess vegna er lausnin LNG - fljótandi gas sem flutt er með stórum, sérsmíðuðum tankskipum.

Öll þekkjum við gas sem lofttegund - loftkennt efnasamband sem aðallega samanstendur af metani (CH4). Með því að kæla gasið niður í rúmlega -160 gráður á celsíus verður það fljótandi. Og þá er rúmmál þess u.þ.b. 600 sinnum minna en þegar gasið er loftkennt! Fyrir vikið er hægt að nota kælingar-aðferðina til að flytja mikið magn af orku, t.d. með tankskipum eða járnbrautalestum.

Augljóslega kostar það skildinginn að kæla gas svo svakalega. Og þetta er ekki bæra orkufrek kæling. Fyrst þarf að hreinsa öll efni úr gasinu, sem myndu frjósa við hið geysilága hitastig. Gasið sem kemur úr iðrum jarðar er oft um 90% metangas, en afgangurinn eru önnur efnasambönd sem ná þarf burt til að geta komið gasinu í fljótandi form.

Fljótandi gasið er unnt að flytja langar leiðir yfir úthöfin með skipum. Á áfangastað þarf að umbreyta LNGinu aftur í loftkennt form. Þá er loks unnt að koma því til neytenda um hefðbundið gasdreifikerfi. Allt þetta ferli gerir LNG ekki beint að ódýrri orku - en er samt víða talsvert ódýrara og hagkvæmara en að flytja inn olíu.

US_Gas_Imports

LNG er m.ö.o. dýrara eldsneyti en venjulegt gas, sem fer beint í dreifingu um pípulagnir veraldarinnar. En sökum þess hversu verð á olíu hefur farið hækkandi undanfarin ár - og gasverðið líka - er nú æ betri bissness i LNG. Auk þess vilja mörg ríki einfaldlega auka fjölbreytni í notkun orkugjafa - og auka gasnotkun eins mikið og mögulegt er, á kostnað olíunnar.

Ef stór gaslind er fyrir hendi getur það því gefið góðan arð að framleiða LNG. Og sigla með það til landa, sem ekki geta fullnægt gaseftirspurn sinni.

Líklega er Japan besta dæmið um kaupanda að LNG. Þangað er ekki unnt að leiða gas eftir leiðslum og því þurfa Japanir að kaupa gasið í fljótandi formi. Aðrir stórir kaupendur LNG eru t.d. Suður-Kórea og Taívan. Svo og Spánn, Mexíkó og fleiri ríki. Grafið hér að ofan sýnir aftur á móti gasinnflutning til Bandaríkjanna. Þar sést vel að veruleg aukning hefur orðið á influtningi á fljótandi gasi. Og því er spáð að þessi innflutningur vaxi hratt á næstu árum og áratugum.

Bandaríkin eiga gríðarlegar gaslindir og hafa einnig dælt til sín gasi frá Kanada. Á allra síðustu árum hefur gasið orðið æ ákjósanlegri kostur út af þeirri einföldu staðreynd að gasverðið hefur verið talsvert lægra en olíuverðið (m.v. orkumagnið). Auk þess losar gasnotkun miklu minna koldíoxíð en olíunotkun. Aukin gasnotkun á kostnað olíunnar slær því tvær flugur í einu höggi. Er ódýrari orka og losar minna CO2.

US_LNG-Imports-by-Country

Nú er svo komið að gasið sem framleitt er innanlands og í Kanada fullnægir vart eftirspurninni í Bandaríkjunum. Því hefur innflutningur á LNG verið að aukast þar í landi.

Stór sérsmíðuð tankskip flytja nú fljótandi gas til Bandaríkjanna frá löndum eins og Karabísku orkuparadísinni Trínidad og nokkrum Afríkuríkjum. Þar eru t.d.  Alsír, Egyptaland og Nígería stórir seljendur. Og Qatar mun á næstu árum stórauka LNG-framleiðslu sína. Hvernig fór annars með 25 milljarða fjárfestingu Katarprinsins í Kaupþingi? Hann brosir varla núna - nema kaupin hafi "gengið til baka".

Sökum þess að eftirspurn eftir gasi eykst nú um allan heim – og það mun hraðar en olíueftirspurnin – verða fjárfestingar í LNG sífellt áhugaverðari. Bæði í vinnslu, flutningum og geymslu.

Onassis_Callas

Sumir búast við því að sá hluti orkugeirans sem muni vaxa hraðast á næstu árum, sé einmitt LNG. Hafandi í huga hvernig Onassis varð billjóner af því að sjá fyrir aukna olíueftirspurn eftir heimsstyrjöldina síðari og veðja á stór olíutankskip, gæti nú verið rétti tíminn að setja pening í smíði nokkurra LNG-skipa. Kannski ekki síst skipa sem ráða við að sigla á hafísslóð. Og geta flutt fljótandi gas frá norðursvæðum Rússlands og Noregs, til hungraðra gasneytenda út um allan heim.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga, að nú eru horfur á að senn byrji vinnsla á tveimur gríðarlegum gaslindum í nágrenni Íslands. Og útlit er fyrir að stórum hluta þess gass verði umbreytt í LNG.

goliat

Þetta er annars vegar Shtokman-lind Rússana norður af Kólaskaga - gaslindin, sem alþjóðlegi orkugeirinn horfir nú hungruðum augum til. Og hins vegar er gasverkefni sem er lengra komið og stendur okkur ennþá nær – þ.e. svæðið vestur af Noregi sem kennt er við Mjallhvíti. Sem virðist jafnvel geta orðið enn betra ævintýri en Tröllasvæðið, sunnar í norsku lögsögunni. Sem Orkubloggið fjallaði um í síðustu færslu.

Já - það verður bráðum skollið á LNG-æði skammt fyrir norðaustan okkur. En sem fyrri daginn, mun Ísland líklega ekki sína þeirri uppbyggingu neinn áhuga. Hér hafa stjórnvöld í gegnum tíðina agerlega vanrækt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum að verða þátttakendur í orkuævintýrinu í Norðursjó. Sem nú er einnig komið inní færeysku lögsöguna og Barentshafið. Hér hefði strax fyrir 30 árum átt að beina Háskóla Íslands í þann farveg að verða sérhæfður Orkuháskóli. Í staðinn sitjum við uppi með þrjár eða jafnvel fjórar lagadeildir í landinu. Og skrilljón viðskiptafræðinga. Athyglisverð menntastefna. Geisp.

Þriðja stóra gassvæðið, sem mun í framtíðinni verða mikil uppspretta fyrir LNG, er auðvitað hið alræmda Sakhalin-verkefni austast í Rússkí. Þar sem Shell hefur verið í miklum slag við Rússana hjá Gazprom. Sú gaslind verður mikilvæg fyrir t.d. Japani og Suður-Kóreu.

onassis_kennedy_wedEkki er vandséð að eftirspurn eftir risastórum LNG-tankskipum mun aukast mikið í náinni framtíð. Einhvern sem langar að setja pening í smíði slíkra skipa? Sem kunna að margfaldast í verði á fáeinum árum. Gleymum ekki hvernig Ari Onassis auðgaðist á stóru olíutankskipunum!


Tröllaorka

Katie_Melua_Troll

Þeir sem ekki lifa og hrærast í heimi olíusullsins kunna að spyrja sig að því, hvað í ósköpunum Katie Melua, orkulindir norðursins og norsk tröll eiga sameiginlegt. Svarið er auðvitað að öll koma þau saman á hafsbotni – á 300 metra dýpi – til að njóta tónlistar. Meira um það síðar.

Orkubloggið ætlar á næstu dögum að snobba svolítið fyrir Norðmönnum. Og byrja á því að dást að fegurð norskra trölla. Sem eru allt annars eðlis en hún Grýla gamla eða Gilitrutt. Því þótt bæði íslensku og norsku tröllin séu sögð búa í fjöllunum, hafa hin norsku tröll fært sig um set. Út á haf. 

Tröllasvæðið s.k. í norsku efnahagslögsögunni, rúmlega 30 sjómílur vestur af Bergen, er mesta gasvinnslusvæði Norðmanna. Þar á sér líka stað mikil olíuvinnsla. Þessar auðlindir fundust fyrir 30 árum, byrjað var að huga að vinnsluleyfum í kringum 1980 og loks kom að því að norska Stórþingið samþykkti áætlun um einhverja almestu olíu- og gasvinnslu Noregs. Og einungis hálfum áratug síðar var búið að smíða það sem til þurfti - þar á meðal einhvern svakalegasta borpall sögunnar. Gas og olía tók svo að streyma upp á yfirborðið 1996.

troll_map

Sökum þess að dýpi á þessum slóðum er hressilega mikið, um 300 m, og veður válynd, þurftu menn að smíða sérstaklega sterka og öfluga borpalla.

Tæknin í kringum 1980 fólst í "fíngerðum" stálpöllum, en óttast var að slíkir pallar myndu ekki þola aðstæðurnar á svæðinu. Niðurstaðan varð að útfæra s.k. Condeep-hönnun, sem fram til þessa hafði reyndar einungis verið nýtt við smíði mun minni borpalla.

Condeep-pallurinn á Tröllasvæðinu, sem nefndur er Tröll A, teygir sig upp af 300 m dýpi og meira en 150 metra upp úr sjónum. Eins og risastórt háhýsi - eða "flottur riddarakastali" eins og stráksi minn kallar hann. Pallurinn hvílir á gríðarmiklum steinsteyptum súlum, sem var þrykkt 35 metra niður í hafsbotninn. Þetta er svo sannarlega alvöru tröll eða risi. Eða nútíma riddarakastali.

TrollA_towed_2

Á Tröllasvæðinu eru nú þrír stórir borpallar. Sem kallaðir eru Tröll A, Tröll B og Tröll C. Trölli A var komið fyrir árið 1995 og var þá stærsta hreyfanlega mannvirki sem nokkru sinni hafði verið smíðað í heiminum. Enda hefur tröllinu verið lýst sem einhverju mesta verkfræðiundri sögunnar.

Sjálf smíðin fór fram nokkuð víða, en pallurinn var að mestu settur saman í iðnaðarbænum Vats í Rogalandshéraði í V-Noregi. Þaðan var Tröll A, með öll sín 656 þúsund tonn, einfaldlega dreginn á áfangastað. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Þessi gígantíski borpallur á að geta rækt hlutverk sitt í a.m.k. 70 ár. Enda eru gaslindirnar á svæðinu gríðarlegar. Tröll B og Tröll C eru ekki alveg jafn miklir risar; Tröll B er s.k. hálfljótandi borpallur en Tröll C er fljótandi pallur, sem festur er með e.k. akkerum. Þeir Trölli B og C hófu vinnslu 1995 og 1999.

troll platform

Til að sækja gasið og olíuna á Tröllasvæðinu þarf að bora 1,5 km niður í hafsbotninn. Þar liggja kolvetnin í víðáttumiklum en nánast "örþunnum" lögum - sem einungis eru um 25 metra þykk. Til að ná sem mestu af gasinu og olíunni upp á yfirborðið, er fyrst borað þessa 1.500 metra beint niður og síðan haldið áfram og borað lárétt. Láréttu göngin eða borholurnar geta verið allt að 3 km á lengd og jafnvel lengri.

Framleiðslan á Tröllasvæðinu jókst hratt og var fljót að ná hámarki. Það gerðist strax árið 2002 og síðan þá hefur dregið úr framleiðslunni.  Það er nefnilega veruleg kúnst að samhæfa vinnsluna. Því of mikil vinnsla á einum stað getur dregið stórlega úr vinnslu á öðrum stað. Með skerti nettóafkomu.

Þetta er því eins konar kolvetnis-línudans, þar sem tröllin þrjú þurfa að sýna glæsilegar jafnvægiskúnstir. Um mitt síðasta ár (2007) ákváðu norsk stjórnvöld að setja 2 milljarða USD í að auka framleiðslugetuna á svæðinu. Gnægð af olíu og gasi er fyrir hendi þarna og mun endast í marga áratugi enn. Trikkið er að ná gumsinu upp með sem ódýrustum hætti.

Gert er ráð fyrir að olían á Tröllasvæðinu nemi alls um 1,5 milljarði tunna og svæðið verði tæmt á árabilinu 2020-30. Og menn telja og að þarna sé unnt að vinna um 1.300 milljarða teningsmetra af gasi – og að gasvinnslunni ljúki um 2050. Þá verður einmitt bráðum kominn tími á Tröll A.

TrollA_Eiffel

Tröllasvæðið með hinu þríhöfða trölli A, B og C útvegar nú milljónum Evrópubúa gas. Gasinu er fyrst dælt um gasleiðslu eftir hafsbotninum þessa 60 km austur til Kollsness, sem er skammt frá Bergen. Eins og sjá má á kortinu hér ofar í færslunni. Og þaðan fer gasið áfram eftir gaspípum frá Noregi til Evrópu, til þeirra sem þurfa orkuna.

Það er Shell sem er stærsti erlendi eigandinn að vinnslunni á Tröllasvæðinu, með um 8% hlut. Nokkur önnur erlend olíufélög eiga svo smærri bita í þessu miklu orkuævintýri Tröllanna. Þar á meðal eru franska Total og bandaríska ConocoPhillips. En norsku StatoilHydro og Petoro fara auðvitað með meirihlutann í þríhöfðanum - heil 86%. Rétt eins og Íslendingar eiga meirihluta i álverunum... not!

Auðvitað er ekkert íslenskt fyrirtæki hluti af starfseminni þarna á Tröllasvæðinu. Olíuævintýrið í Norðursjó hefur af einhverjum ástæðum hvorki heillað íslensk stjórnvöld né íslensk verkfræðifyrirtæki eða verktaka. Enda örlítið tæknilegri framkvæmdir en skóflur og skurðgröfur. Til allrar hamingju hefur orðið til mikil þekking og reynsla hjá ýmsum íslenskum fyrirtækjum á nýtingu vatnsafls og jarðhita. Og gaman af því að Íslendingur átti t.d. hagstæðasta tilboðið í hönnun Kárahnjúkastíflunnar; Pálmi Jóhannesson. En Orkublogginu þykir miður að Íslendingar skuli alfarið hafa látið olíu- og gasævintýrið i túnjaðrinum framhjá sér fara.

Katie_Melua_2

Upplagt að ljúka þessu með því að nefna söngfuglinn Katie Melua. Og ævintýri hennar, þegar hún heimsótti tröllin þarna djúpt undir yfirborði sjávar. Það var í október 2006 að menn héldu upp á 10 ára afmæli gasvinnslu hjá Trölli A. Og buðu Katie að smella sér með lyftunni niður í einn af fjórum steinsteypustólpunum, sem Tröll A hvílir á.

Þarna 300 metrum neðan sjávarmáls raulaði Katie m.a. "Closest Thing To Crazy" með gítarinn sinn fyrir Norsara í rauðgulum samfestingum. Og að eigin sögn mun hún barrrasta hafa haft alveg þrælgaman af þessum óvenjulegu tónleikum, stelpuskottið.

http://www.youtube.com/watch?v=7P_vOPR78FE


It’s Miller time!

Ljúflingurinn hann Alexei Miller er líklega einn valdamesti maðurinn í orkugeira heimsins. A.m.k. meðan ekki slettist upp á vinskap hans við Pútín. Í síðustu færslu leit Orkubloggið til rússneska gasrisans Gazprom. Þar sem Miller er forstjóri. Í dag ætlar bloggið að beina athyglinni að Miller sjálfum – og einnig skoða tilvonandi höfuðstöðvar olíuarms Gazprom, Gazprom Neft, sem Miller ætlar að reisa í Skt. Pétursborg.

gazprom_putin_miller

Alexei Miller er af rússneskum gyðingum kominn - fæddist í Skt. Pétursborg árið 1962 og lagði stund á nám í fjármálum og hagfræði. Þá hét borgin auðvitað Leningrad. Það var á borgarskrifstofunum þar, sem Miller starfaði á fyrstu árum hins endurreista Rússlands. Ekki er ólíklegt að þar hafi hann kynnst Pútín, sem einnig var embættismaður hjá Skt. Pétursborg á þessum tíma. Og skammt frá stússuðu þeir Björgólfur Thor og Magnús Þorsteinsson við að selja Rússum bjór og tappa Pepsi í neytendaumbúðir. Með alkunnum árangri.

Gaman væri að vita hvað Pútín var að hugsa þegar ljósmyndin hér til hliðar var tekin. A.m.k. virðist hann horfa með velþóknun á hnakka Miller. Enda vann Miller sig hratt upp í borgarkerfi Leningrad. Hann var þá þegar kominn með doktorsgráðu í hagfræði frá skóla þar í borg – en maður veltir því auðvitað fyrir sér hvers konar hagfræði hafi verið stúderuð í Leníngrad á sovét-tímanum (Miller mun hafa útskrifast 1989). En hagfræðikenningar kommúnismans virðast ekki hafa reynst honum fjötur um fót. Hann var skipaður aðstoðar-orkumálaráðherra Rússlands aldamótaárið 2000 og ári seinna varð hann forstjóri Gazprom – þá aðeins 38 ára gamall. Og það var einmitt árið 2001 sem Pútín byrjaði fyrir alvöru afskipti af Gazprom, með það að markmiði að koma fyrirtækinu á ný í hendur ríkisins. Og þar unnu þeir Pútín og Miller vel saman og náðu þeir meirihluta í fyrirtækinu f.h. ríkisins síðla árs 2004.

Þar með má etv. segja að "Sílóvíkarnir" hafi náð að sigra "Óligarkana". Eftir að Sovétríkin féllu varð mikil valdabarátta milli hinna nýríku milljarðamæringa annars vegar (sem margir höfðu verið nátengdir Boris Jeltsín) og hins vegar hóps sem tengdur var stofnunum gömlu sovésku leyniþjónustunnar (einkum KGB). Til eru þeir sem segja að með kjöri Pútíns sem forseta Rússlands, handtöku og fangelsun Mikhail Khodorkovsky og loks yfirtöku ríkisins á Gazprom, hafi gamla KGB-klíkan (Siloviks) sigrað í rússneska valdataflinu. Og Olígarkarnir orðið að lúta í lægra haldi.

khodorkovsky

Orkubloggið er barrrasta alls ekki nógu vel að sér í þessum fræðum til að hætta sér frekar útá þær brautir. En a.m.k. hafa þeir Pútín og Alexei Miller tögl og haldir í Gazprom. Og í dag munu reyndar vera liðin nákvæmlega 5 ár síðan hann Mikhail Khodorkovsky var handtekinn á flugvellinum I Novosibrisk, austur í Síberíu. Sem er kannski táknrænt um það hverjir ráða í Rússlandi. En etv. eru svona samsæriskenningar bara tóm vitleysa.

Hvað um það. Það verður varla annað sagt en að hann Alexei Miller sé öflugur stjórnandi. Nema ef hugsast gæti að Gazprom sé orðið allt of skuldsett og hrynji einn daginn! Kannski fylgir Rússland í kjölfar Íslands - og við fáum aldrei neitt sætt Rússalán. Því þrátt fyrir ótæpilegar náttúruauðlindir sínar kann Rússland í reynd að standa á brauðfótum. En hvað sem slíkum leiðinda vangaveltum líður, þá hefur Miller gert Gazprom að allt í öllu í rússneska orkugeiranum. Og sett fram metnaðarfulla áætlun um að innan fárra ára verði Gazprom stærsta orkufyrirtæki heims – auðvitað fyrir utan ríkisorkufyrirtæki Sádanna og önnur slík sem eru alls ekki á hlutabréfamarkaði.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Miller’s um glæsta framtíð Gazprom, er ekki auðséð hvert fyrirtækið stefnir. Orkubloggið myndi þó veðja á, að það sem Gazprom hungrar hvað mest í þessa dagana, er að verða stærri í LNG. Fljótandi gasi. Þeir Gazprom-gæjarnir eru svo sannarlega sérfræðingar að dæla upp gasi og byggja stórar gasleiðslur út um hvippinn og hvappinn. En það að kæla gas og höndla það í fljótandi formi er ekki þeirra sterka hlið. Orkubloggið myndi gjarnan veðja miklu á, að hjá Gazprom leiti menn nú logandi ljósi að rétta LNG-fyrirtækinu. Samstarfsaðila sem sameini það að kunna manna best á LNG-sullið og sé ekki líklegur til að vera með einhver leiðindi út af smámálum, eins og umhverfisvernd eða mannréttindum.

LNG_tanker

Málið er nefnilega að til að GAS-OPEC komi til með að virka, þarf að vera til virkur og hraður markaður með gas. Öruggasta leiðin til að skapa slíkan markað er að geta stóraukið hlutfall LNG á markaðnum – sem kallar á betri tækni til að vinna, flytja og geyma fljótandi gas. Eins og getið var um í síðustu færslu, eru nú einmitt horfur á að “Gas-ópekkið” líti brátt dagsins ljós. En meira þarf að koma til, eigi það að hafa sambærileg áhrif og OPEC hefur haft í gegnum tíðina á olíuverðið. Og enn eitt sem spilar inní þessa meintu framtíðardrauma Gazprom er hin risastóra Shtokman-gaslind, sem fundist hefur undir botni íshafsins norður af Kólaskaga. Að dæla öllu því gasi um gasleiðslur á einn og sama markaðinn (Evrópu) væri útí hött. Skynsamara væri að geta selt hluta þess sem LNG, t.d. til Bandaríkjamanna. Og þeir flutningar myndu reyndar að stóru leyti fara gegnum íslenska lögsögu! Kannski meira um það síðar hér á Orkublogginu.

Ég ætla að ljúka þessari færslu með draumnum um Gazprom-city. Eftir hönnunarsamkeppni, sem margar frægustu arkitektastofur heims tóku þátt í, tilkynnti dómnefndin að tillaga alþjóðlegu arkitektastofunnar RMJM hefði borið sigur úr býtum. Í samkeppninni um hönnun á nýjum höfuðstöðvum Gazprom Neft (sem er olíuarmur Gazprom) ásamt tilheyrandi hótelum, skrifstofubyggingum og ráðstefnumiðstöð. Úrslitin voru tilkynnt í desember 2006 og þess er vænst að senn verði unnt að byrja að reisa herlegheitin, á bökkum árinnar Nevu í Skt. Pétursborg.

Gazprom-Okhta_Center

Enn sem komið er er einungis skilti með mynd af dýrðinni á framkvæmdastaðnum. Þannig að þetta er enn styttra á veg komið en tónlistarhúsið, sem Björgólfur og Reykjavík ætla að reisa niðrí bæ. Spurningin er hvort verður fullbyggt á undan – tónlistar- og ráðstefnuhöll Reykjavíkur eða Gazprom City? Sem nú er reyndar búið að umskýra í Okhta Center, en Okhta er þverá sem rennur í Nevu. Menn áttuðu sig á því að heitið Gazprom City væri kannski aðeins of mikilmennskulegt.

Eins og alltaf þegar stórhuga menn lýsa hugmyndum sínum, er fólk tilbúið að vera með tóm leiðindi. Menn um allan heim ýmist fylltust skelfingu eða lýstu viðbjóði sínum, þegar þeir sáu tillögurnar sem bárust í keppnina um Gazprom City. Á endanum höfðu þrír af þeim fjórum arkitektum sem sátu í dómnefndinni, sagt sig frá verkefninu. Þannig að það kom í hlut Miller's og nokkurra annarra embættismanna að skera úr um hvaða tillaga skyldi hreppa hnossið. Og illar raddir segja að Miller og skriffinnarnir hafi gjörsamlega verið með Eiffel-turninn á heilanum og það eitt hafi stjórnað vali þeirra.

gazprom_1

Sjá má sigurtillögu þeirra frá RMJM hér til hliðar. Við sólsetur virðist byggingin nánast virka sem risastór gaslogi, þarna sem hún gnæfir 400 metra yfir Skt. Pétursborg.

Meðal þeirra sem lýst hafa skelfingu vegna þessarar hugmyndar eru t.d. fjölmörg arkitektasamtök og einnig UNESCO. Enda er turninn óneitanlega nokkuð á skjön við hina lágreistu og glæsilegu heildarmynd Skt. Pétursborgar – borgarinnar sem Pétur mikli lét reisa á 18. öld.

Sjálfur hef ég alltaf verið svolítið veikur fyrir svona brjáluðum hugmyndum – og þess vegna ekki komist hjá því að hrífast af myndum af turninum. En ég verð líka að viðurkenna að enn hef ég ekki druslast til að heimsækja Skt. Pétursborg (sem kannski mun e.h.t. verða breytt í Pútíngrad). Og geri mér því ekki vel grein fyrir hvernig turninn og borgin muni fara saman. En í anda þeirra framkvæmdagleði sem maður sýndi sem smápatti austur á Klaustri hér í Den - vopnaður skóflu úr Kaupfélaginu og Tonka-gröfu - er ég viss um að þetta verður suddalega flott bygging. Og hananú.

PS: Menn geta fræðst meira um Gazprom-turninn á heimasíðu verkefnisins:   http://www.ohta-center.ru/eng/tomorrow/index.html

Gazprom_okhta_tower

 

 

 


Gaztroika

Syrtir enn í álinn í orkumálum Vesturlanda? Nú í vikunni kynntu gaspáfarnir þrír - þeir félagar Gholamhossein Nozari, orkumálaráðherra Íranstjórnar, Abdullah al-Attiyah, orkumálaráðherra Qatar og Alexei Miller, forstjóri Gazprom – um að nú sé að rætast draumur þeirra um að koma á stofn ríkjasamtökum, til að hafa samráð um gasframboð.

Gas_Doha

Sem yrði eins konar gas-OPEC, er muni leitast við að stýra heimsmarkaðsverði á gasi. Bandaríkin og ESB ráku þegar í stað upp ramakvein. Það er nefnilega svo að á síðustu árum hefur trendið verið að skipta yfir í gasið. Bæði vegna hækkandi olíuverðs og til að auka fjölbreytni í orkunotkun – draga úr olíufíkn Bandaríkjanna og Evrópu. Í reynd hefur olíueftirspurnin því aukist hægar en annars hefði orðið. Til að skýra þetta má t.d. skoða hlutfall orkunotkunar í dag og bera það saman við ástandið fyrir rúmum aldarfjórðungi.

Árið 1980 nam olía 45% af allri orkunotkun heimsins og gasið um 20%. Í dag stendur olían einungis fyrir um 35% orkunotkunarinnar en hlutfall gassins er komið í um 25%. Samtals var þetta hlutfall 65% 1980 en er nú um 60%.

gas_opec_chart

Málið er sem sagt að gasið hefur orðið æ álitlegri kostur og því hefur eftirspurn eftir gasi aukist mun hraðar en eftirspurn eftir olíu. Nefna má að kolin hafa nánast haldið óbreyttu hlutfalli (um 28%) en notkun kjarnorkunnar aukist (var 2% 1980 en er nú um 7%).

Helsta ástæðan fyrir hinni gríðarlegu eftirspurn eftir gasi er einföld. Auðvitað sú að það hefur reynst ódýrari og hagkvæmari kostur en olían. Þetta hefur leitt til stóraukins innflutnings á gasi til Evrópu, ekki síst frá Rússlandi. Og nú á allra síðustu árum eru Indverjar og Kínverjar líka farnir að horfa til gassins. Þannig að gasið sem Evrópu hefur séð streyma til sín frá Rússlandi og fleiri löndum í Asíu, kann bráðum að sveigja af leið í gegnum nýjar pípur til Austurlanda fjær. Þetta fær svita til að spretta fram á mörgu evrópsku enni.

Gas_world_reserves

Í reynd er staðan orðin sú að Rússar eru komnir með heljartök á mörgum nágrannaríkjum sínum, sem eru orðin háð gasinu frá þeim. Þar eru nokkur stærstu lönd ESB innifalin, t.d. Þýskaland. Og nú vilja Rússar, ásamt Írönum og Katörum, ná sterkari tökum á gasframboði og þar með ná meri stjórn á heimsmarkaðsverði á gasi. Með því að stofna samtök til að stýra gasframboði og þar með verðinu.

Og þó það nú væri. Hver vill ekki fá meira fyrir sinn snúð? Sérstaklega er skemmtilegt hvernig ljúflingurinn Alexei Miller kemur þarna fram sem ríkisleiðtogi, fremur en fyrirtækjaforstjóri. Orkubloggið vaknaði upp við að bloggið hefur lítt minnst á þennan orkurisa. Því býður Orkubloggið nú upp í dans með Gazprom.

Skylt er að nefna að meðal annarra leikenda í þessum skemmtilega leik þeirra Gazprom-manna er t.d. Alsír. Samanlagt skaffa Rússland og Alsír ESB um 70% af öllu því gasi sem notað er í bandalaginu. Þar er Gazprom þungamiðjan. Enda ræður Gazprom yfir 90% af öllum gasauðlindum Rússlands, sem eru hinar langmestu í heiminum. Því má næstum því segja að Evrópa fái einfaldlega gasið sitt frá Gazprom.

Gazprom-Logo-rus.svg

Rússland er með meira en fjórðung allra gasbirgða heimsins og Gazprom eitt ræður yfir 90% af öllum gasauðlindum Rússlands. Þess vegna er sjaldnast talað um að Rússland sé að stofna gasbandalag – heldur er það Gazprom. Sem vissulega er í meirihlutaeigu rússneska ríkisins – en er engu að síður eins og ríki í ríkinu.

Samkvæmt nýlegri úttekt Reuters um fyrirhugað gasbandalag Gazprom og félaga var niðurstaðan sú að ekkert væri að óttast. Rússar séu efnahagslega háðir Evrópu um kaup á gasinu og samningar um kaup á gasi séu gerðir til langs tíma öfugt við olíu. Þess vegna sé þetta í reynd miklu stöðugri markaður en olíumarkaðurinn.

gas_pipelines-eu_asia

Orkubloggið er fullkomlega sammála þessari niðurstöðu. Til skamms tíma. En til lengri tíma gæti þessi niðurstaða reynst hið mesta bull. Vegna legu Rússlands og annarra stórra gasútflytjenda frá fyrrum Sovétríkjunum (t.d. Turkmenistan) er sú “hætta” raunveruleg að gasið þaðan muni senn streyma eftir pípum til Kína og Indlands, fremur en Evrópu.

Bæði Indland og Kína stefna nú að því að auka notkun gass heima fyrir. Sem þýðir að þessi nettu ríki þurfa að stórauka innflutning á gasi. Gangi þau plön eftir munu rísa nýjar gasleiðslur frá Rússlandi og ríkjum í Mið-Asíu til bæði Kína og Indlands. Og þá muni samráð gasútflutningsríkja hugsanlega gera Evrópu erfitt fyrir. Í dag yrði svona bandalega kannski ekki áhyggjuefni – en svolítið óþægileg tilhugsun til framtíðar. Svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta er hin yfirvofandi Gaztroika.

putin_medvedev

Gazprom er svo sannarlega gasrisi veraldarinnar. Við fall Sovétríkjanna var öllum gasiðnaði Rússlands steypt saman í eitt fyrirtæki. Öfugt við olíuiðnaðinn, sem var strax skipt niður á þrjú fyrirtæki. Í upphafi lék rússneski forsætisráðherrann Viktor Chernomyrdin stærsta hlutverkið innan Gazprom, en hann hafði áður unnið í þeim hluta sovéska stjórnkerfisins sem fór með alla gasvinnslu í landinu. Svo fór að hann lenti í deilum við Boris Yeltsin, sem vildi aðgang að sjóðum Gazprom og setja þá í ríkiskassa Rússlands. Sem stóð vægast sagt illa í lok 10. áratugarins. Allt frá því félagið var sett á hlutabréfamarkað 1994 stóð yfir mikil valdabarátta um það. Enda talsvert í húfi! Aldamótaárið 2000 tók nýr ljúflingur við stjórnarformennskunni og heitir sá Dimitry Medvedev. Kannski ekki nafn sem klingir bjöllum – en er reyndar forseti Rússlands í dag.

gazprom_putin_cartoon

Eftir mikið brask með hlutabréf í Gazprom tókst rússneska ríkinu að ná aftur meirihluta í félaginu árið 2004. Og á nú 50,002% hlutabréfanna. Eftir það gat Pútin, þáverandi Rússlandsforseti, beitt Gazprom að vild. T.d. með því að skrúfa fyrir gasútflutning til Úkraínu, eins og frægt varð.

Núverandi stjórnarformaður Gazprom – og sá sem tók við af Medvedev þegar sá varð forseti Rússlands - heitir Viktor Zubkov. En hann var einmitt forsætisráðherra Rússlands áður en Pútín settist í það sæti. Þessir þrír ljúflingar höfðu sem sagt stólaskipti. Einfalt og ekkert vesen.

Í dag getur Gazprom nánast lýst sér þannig: “Rússland – það er ég". Fyrirtækið er uppspretta fjórðungs allra skatttekna rússneska ríkisins og síðan í júlí 2007 er það með einkaleyfi á gasútflutningi frá Rússlandi.

Russian Oil Production 2006

Eftir að hafa keypt meirihlutann í Sibneft 2005, á Gazprom nú einnig eitt stærsta olíuvinnslufyrirtæki Rússlands (heiti Sibneft er nú Gazprom Neft). Vert er einnig að nefna að Gazprom á meirihlutann í stærsta einkarekna banka Rússlands, Gazprombankanum. Og sá góði banki á stærsta fjölmiðlafyrirtæki Rússlands; Gazprom Media. Skemmtilegt. Ennþá skemmtilegra er auðvitað að hinn venjulegi Íslendingur getur fjárfest í Gazprom ef hann vill. Eftir að rússneska ríkið náði aftur meirihlutanum í Gazprom var nefnilega galopnað á kaup útlendinga í fyrirtækinu.

Og auðvitað er Gazprom sjálft á fullu í útlöndum. Nú í haust hafa þeir t.d. fundað stíft með olíufélögum og stjórnvöldum í Alaska um að koma að gasiðnaðinum þar. Spurning hvað henni Söru Palin og öðrum góðum Ameríkönum þyki um þá hugmynd að gasið frá Alaska berist til “the 48’s” gegnum rússneskar gasleiðslur? Og hver veit nema Rússalánið okkar komi beint frá Gazprom.

gazprom_tower

Forstjóri Gazprom, Alexei Miller, hefur lýst því yfir að stefnan sé að Gazprom verði fljótlega stærra en bæði PetroChina og ExxonMobil. Þ.e. stærsta orkufyrirtæki heims á hlutabréfamarkaði.

Því er ekki að undra að uppi eru áætlanir um nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar fyrir einn hluta Gazprom. Í Skt. Pétursborg, á bökkum árinnar Nevu og gegnt Smolny dómkirkjunni, stendur til að byggja "Gazprom City". Hvar 400 m hár turn Gazprom Neft, í formi gasloga, mun gnæfa yfir þessari merku borg. Meira um það arkítektasukk síðar.

PS: Eldri færslu um fyrirhugaðar gasleiðslur frá Rússlandi til Evrópu má lesa hér:   http://askja.blog.is/blog/askja/entry/601343/


Ted og tuddarnir

Hvernig væri að auka aðeins fjölbreytnina í íslensku atvinnulífi? Og gera okkur ekki algjörlega háð sveiflum á álverði. Af hverju gerir Landsvirkjun ekki aðeins meira til að markaðssetja orkuna fyrir t.d. sólarorkuiðnaðinn?

Stutt er síðan Þorlákshöfn missti af nýrri sólarupprás. Þegar norsk-bandaríska fyrirtækið REC Solar ákvað að staðsetja nýja kísilflöguverksmiðju sína í Kanada fremur en á Íslandi.

bison_killing

Ástæður þess virðast óljósar. Kísilflöguframleiðslan í sólarorkuiðnaðinum er mjög orkufrek og þess vegna reisa menn helst slíkar verksmiðjur þar sem orkuverð er lágt og vinnuafl til staðar með réttu tækniþekkinguna. Ísland virðist ekki hafa náð að heilla þá hjá REC Solar nægjanlega mikið að þessu leyti. Undarlegt.

Nýlega sá ég reyndar upplýsingar um að Alf Bjørseth, stofnandi REC Solar, sé nú byrjaður að fjárfesta í annarri sólarsellutækni en kísilflögunum. Þetta kæmi mér ekki á óvart - sílikonið verður brátt á undanhaldi. Það veit Orkubloggið jafn vel og hann Bjørseth. Og þar sem REC Solar er aðallega í sílikoninu held ég að það fyrirtæki sé ekki endilega mjög spennandi kostur til framtíðar.

Alf þessi Bjørseth er um margt áhugaverður náungi. Hefur m.a. unnið að hugmynd um byggingu þórín-kjarnorkuvers í Noregi. Nokkuð sem Orkubloggið hefur áður sagt frá. Líklega er hann með sem nemur einhverjum 15 milljörðum ISK í vasanum eftir að hafa selt hlut sinn í REC. En nóg um Alf í bili. Í staðinn ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að öðrum snillingi. Sem er Ted nokkur Turner.

TedTurner_Time_Cover

Ekki er langt síðan Orkubloggið sagði frá PV-sólarsellutækni sem það bindur mestar vonir við. Thin-film tækninni, sem þeir hjá First Solar  eru hvað fremstir í. Þó svo Walmart-fjölskyldan sé kjölfestan í First Solar er vert að minnast einnig á nýjasta celebrity-hluthafann þar á bæ. Sá er nefnilega “landshöfðinginn” Ted Turner. Stofnandi CNN, TNT og Cartoon Network. Gamli steggurinn hennar Jane Fonda. Og stærsti landeigandi í Bandaríkjunum.

Aðkoma Turner að sólarorkunni hefur reyndar verið nokkuð sérkennileg. Þetta byrjaði þannig að í upphafi ársins 2007 tilkynnti Turner að hann ætlaði að setja glás af péning í að þróa umhverfisvænar orkulausnir. Og keypti sólarorkufyrirtækið DT Solar í New Jersey.

Í reynd er DT Solar n.k. verkfræði-bisness-development fyrirtæki, sem sérhæfir sig í byggingu sólarorkuvera. Sem kannski hefði geta hentað Turner ágætlega því hann er stærsti landeigandi í Bandaríkjunum! Og því væntanlega með nóg pláss fyrir sólarorkuver.

Turner virtist sem sagt hafa mikinn metnað til handa endurnýjanlegri orku. Hann setti DT Solar undir nýtt eignarhaldsfélag sitt, sem hann kallaði Turner Renewable Energy. En eitthvað var Turner fljótur að verða leiður á þessu sólarorkustússi hjá DT Solar. Því ekki var liðið ár þar til hann var búinn að selja allt heila klabbið. Og kaupandinn var einmitt First Solar. Sem breyttu nafni Turner Renewable Energy í First Solar Electric.

Hluti kaupverðsins var greiddur með hlutabréfum. Þannig að Ted Turner er líklega enn þátttakandi í sólarorku í gegnum bréfin sín í First Solar. Svo er kannski ekki skrítið að hann hafi helst viljað eiga eitthvað í First Solar – fyrirtæki sem er svo sannarlega í fararbroddi í sólarorkutækni. Þeir hjá First Solar hyggjast nýta þekkinguna innan DT Solar til að koma framleiðslu sinni hraðar á markað. DT Solar er nefnilega með afar góð sambönd við nokkur helstu orkudreifingarfyrirtækin vestur í Bandaríkjunum.

firstsolar_thinfilm

Orkubloggið hefur áður sagt frá nýju sólarsellunum þeirra hjá First Solar, sem gerðar eru úr kadmín-tellúríði í stað hins rándýra sílikons. Varla er til meira spennandi stöff í þessum bransa - nema ef vera skyldu CIGS-flögurnar (sem á íslensku myndu væntanlega kallast KIGS). Þær eru reyndar bara annar handleggur á sömu tækni, þ.e. thin-film. Og eru samsettar úr frumefnunum kopar, indíni, gallíni og seleni. Lykilatriðið er að finna sem ódýrasta leið til að nýta hálfleiðara, til að örva rafeindir þegar ljóseindir frá sólinni lenda á þeim. Og þar virðist "KIGSið" reynast hvað best.

Ég held barrrasta að það eigi enginn roð við þeim hjá First Solar. Samt eru auðvitað fjölmörg önnur fyrirtæki að þróa sig áfram í svipaða átt. Mér dettur t.d. í hug bandaríska Nanosolar og þýska fyrirtækið SolarWorld. Miðað við geggjaðar fjárfestingar í þessum bransa þessa dagana - og möguleika Íslands á að bjóða endurnýjanlega orku á góðu verði – er grátlegt hversu illa mönnum hér gengur að fá fyrirtæki af þessu tagi til landsins. Líklega er óstöðug króna þar aðal skaðvaldurinn.

CIGS_solar

Menn skulu reyndar passa sig á einu. Að vera ekki að draga hingað einhver sílikon-PV fyrirtæki. Sílikoninu er spáð hrakförum - mestur vöxtur er talinn verða í kadmíntellúríðinu og KIGSinu. Einfaldlega vegna þess að sú tækni er ódýrari og því miklu líklegri til að geta náð að keppa við kolaóþverrann og aðra hefðbundna orkugjafa í rafmagnsframleiðslu.

Ef þeir hjá Þorlákshöfn eða annars staðar vilja komast á réttu brautina, er engin spurning í huga Orkubloggsins hvert leita skal.

------------------------------------------------ 

tedturner-horse

Rétt að slútta þessu með því að minnast aftur á ljúflinginn Ted Turner. Stærsta landeigandann í Bandaríkjunum. Einn æskudraumur minn var að búa í nágrenni við Klettafjöllin eða álíka stórbrotna náttúru. Í nágrenni glæsilegra fjalla, vatna og skóga – og með birni og bjóra í nágrenninu.

Maður las líklega full mikið að J.F. Cooper eða Frumbyggjabókunum norsku. En kannski hefur Turner átt sér svipaða drauma. Því hann mun nú eiga meira en tug risastórra búgarða í Bandaríkjunum og reyndar nokkra aðra í Argentínu.  Alls á Ted Turner nú rúmlega 8 þúsund ferkílómetra lands í Bandaríkjunum. Frá Nýju-Mexíkó og Oklahóma í suðri og allt norður til Dakóta og Montana.

Þegar hann byrjaði á landakaupunum fyrir um 20 árum eignaðist hann þrjá vísunda. Tvær kýr og einn tudda. Í dag eru meira en 50 þúsund vísundar á búgörðum hans. Sem auðvitað kallaði á nýjan bisness. Árið 2002 opnaði fyrsta Vísundagrillið og nú er keðjan Ted’s Montana Grill með um 60 staði víðs vegar um Bandaríkin.  Allur ágóði rennur auðvitað til verndar vísundum.

Teds-Montana-Grill-Logo

Svolítið magnað að  hugsa til þess að þegar hvítir menn komu til Ameríku, er talið 30 milljón vísundar hafi verið þar á sléttunum. En eftir að Buffaló-Bill og félagar höfðu leikið sér þar um skeið, var svo komið að einungis um eitt þúsund vesalingar voru eftir.

Hér að neðan er gömul ljósmynd sem sýnir hauskúpuhrúgu. Já - þetta eru eintómar vísindahöfuðkúpur. Það var lítið mál að skjóta niður þessi þunglamalegu dýr. Það er satt að segja erfitt að ímynda sér hvers konar blóðvöllur sléttur vestursins voru, þegar Buffalo Bill reið þar um og slátraði vísundunum. 

Bison_skull_pile

Nú er vísundastofninn í Bandaríkjunum aftur á móti kominn í um hálf milljón dýr. Og þar af er um 10% slátrað árlega í vísundasteikur. Sem m.a. má fá hjá Ted’s Montana Grill. Maður fær óneitanlega vatn í munninn.


mbl.is Geta borað við Þeistareyki og Kröflu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæfa og gjörvileiki

Bandaríkin! Landið þar sem afskorið eyra, Art Deco og rússneskar bensínstöðvar tengjast með athyglisverðum hætti. Landið þar sem menn horfðu lengi óttaslegnir til himins. Til að sjá hvort Rússarnir væru að koma.

Chrysler_building

Nú verður brátt allt ættarsilfur Bandaríkjanna meira eða minna komið í erlenda eigu. Olíusjóður frá Abu Dhabi keypti Chrysler-bygginguna nú í sumar. Og bensínstöðvar Getty gamla eru komnar í eigu stærsta olíufélags Rússlands. En líklega er Könum nokk sama. Rétt eins og milljarðamæringnum Jean Paul Getty (1892-1976) var sama og lét mannræningja skera eyrað af sonarsyni sínum. Fremur en að borga lausnargjaldið án múðurs.

Getty Oil var á sínum tíma eitt öflugasta olíufélag í Bandaríkjunum. Vissulega má segja að hann J. Paul Getty I hafi fæðst með silfurskeið í munni (faðir hans var George Getty; bandarískur iðnjöfur). Engu að síður skapaði hann auð sinn að mestu sjálfur. Hann hafði nef fyrir því að græða pening i olíuiðnaðinum. Aðeins 25 ára hafði J. Paul Getty I grætt fyrstu dollaramilljónina sína í olíubransanum í Oklahóma. En hélt þá vestur til Hollywood hvar hann sökk í kvennafar.

Faðirinn var lítt hrifinn og nánast afneitaði þessum lúsablesa áður en hann sjálfur fór í gröfina 1930. En J. Paul Getty lét sér fátt um finnast og hélt áfram að djamma í Kaliforníusólinni.

J_Paul_Getty

Hann sneri þó aftur i olíuna. Í kringum 1950 keypti hann nokkur olíufélög og sameinaði þau í Getty Oil. Það sem þó gerði Getty Oil að stórveldi var fyrst og fremst samningur J. Paul Getty's I við Sádana. Þangað hélt hann skömmu eftir seinna stríð og leigði sér skika á landamærum Saudi Arabíu og Kuwait. Og áður en menn vissu af sullaði Getty milljónum tunna daglega upp úr sandinum. Og varð á örfáum árum einhver ríkasti maður í heimi. Í aurum talið.

En það eru gömul sannindi að veraldlegur auður og hamingja eiga ekki endilega samleið. Þegar sonarsonur hans Getty's, J. Paul Getty III (f. 1956) sem þá var 16 ára, hvarf á Ítalíu árið 1973 lét sá gamli sér fátt um finnast. Er krafa um lausnargjald barst frá meintum mannræningjum var hann viss um að strákurinn væri bara að reyna að plata pening út úr afa gamla. Eitthvað mildaðist hann þegar eyra af drengnum barst skömmu seinna í pósti, með hótun um að hann kæmi í smábitum yrði ekki borgað. Ekki hljóp Olíu-Getty þó til með peninginn, heldur prúttaði við ræningjana og náði loks "betri díl". En eins og allir Íslendingar vita er auðvitað lykilatriði að prútta við Ítalasulturnar.

getty_earjpg

Getty gamli setti það reyndar sem skilyrði fyrir greiðslunni að sonur hans, Jean Paul Getty II (1932-2003) og pabbi stráksa, endurgreiddi honum lausnargjaldið. Með vöxtum! Ekki er Orkublogginu kunnugt um efndir á því loforði. En a.m.k. fannst hinn 16 ára gamli Getty III skömmu síðar, með eitt eyra og í taugaáfalli. Hann náði sér aldrei  - varð háður eiturlyfjum og hefur lengi legið lamaður eftir of stóran skammt árið 1981. Ræningjarnir sem taldir voru vera mafíósar frá Kalabríu, fundust aldrei.

Í dag er gamli Getty I líklega þekktastur sem einlægur listunnandi og stofnandi Getty-safnsins í Kaliforníu. Það góða safn hefur reyndar lent í veseni, eftir að í ljós kom að nokkrir merkir munir í eigu safnsins voru þjófstolnir frá Ítalíu. Leiðindamál. En það er önnur saga.

talitha getty

Um Gettyana má bæta því við að J. Paul Getty II, sonur Olíu-Getty's og faðir stráksins sem rænt var, giftist súperskvísunni og leikkonunni Talithu Pol. Sem lést í Róm af stórum heróínskammti 1971. Myndin hér til hliðar er eimitt tekin af þeim hjónakornunum af ljósmyndaranum fræga Lichfield lávarði. Staðurinn er Marokkó þar sem þau hjónin bjuggu þá í anda sukkandi blómabarna. Aðdáendur snillinganna i hljómsveitinni Crosby, Stills, Nash & Young vita allt um lífið þar.

Halda mætti lengi áfram að lýsa bóhemlífi og bölvun Gettyanna, t.d. eyðnismiti Aileen, dóttur J. Paul Getty II. En líklega tímabært að hætta þessu Getty-þvaðri. Þó verð ég að nefna, að ég man afskaplega vel eftir umfjöllun íslenskra dagblaða um Getty gamla, þegar hann lést árið 1976 - þá á níræðisaldri. Enda lengi hrifist af olíubarónum.

Þó svo Getty-safnið sé heimsfrægt er þó líklega algengara að sjá Getty-nafnið í tengslum við Getty-images. Sem er ljósmyndavefur, sem mikið er notaður af netmiðlum heimsins, tímaritum og dagblöðum. Það var einmitt sonur Jean Paul Getty's II - og bróðir Aileen og hins eyrnaskorna Jean Paul Getty's III - sem stofnaði Getty Images. Sá ljúfur heitir Mark Getty (f. 1960).

Sienna-Miller-Balthazar-Getty_2

Unnendur kvikmynda og slúðurblaða kunna þó að þekkja enn betur hann Balthazar Getty. Sá er fæddur 1975 og er einmitt einkabarn J. Paul Getty's III, lék eitt aðalhlutverkið í Flugnahöfðingjanum eða Höfuðpaurnum (Lord of the Flies) og sást nýlega í miklu kossaflensi með hálfberri Siennu Miller. Sem er kannski ekki stórfrétt, nema þá sökum þess að hann Balthazar er kvæntur (annarri en Siennu) og 4ra barna faðir. Þetta er allt svolítið kaldhæðnislegt, þegar haft er í huga að Sienna lék einmitt fiðrildið Edie Sedgwick í nýlegri bíómynd um Andy Warhol og gengið hans í "Verksmiðjunni". Það er nokkuð víst að afi hans Balthazars, J. Paul Getty II, sukkaði duglega þar á bæ í lok 7. áratugarins. Og Verksmiðjusukkið hjá Warhol-genginu náði að drepa Edie litlu, áður en hún náði þrítugu. Vona að Sienna sé ekki að lenda í slæmum félagsskap.

Mestu auðæfin innan Getty Oil voru seld út úr fyrirtækinu á sjöunda og áttunda áratugnum En Getty-bensínstöðvarnar  héldust áfram innan fyrirtækisins.

getty_station

Þar kom þó að, að þær voru líka seldar - og það gerðist síðla árs 2000. Kaupandinn kom langt úr austri. Þar á ferð var enginn annar en rússneski olíurisinn Lukoil. Þannig að í dag geta vesturfarar rennt upp að þessu háameríska vörumerki - Getty Oil - og dælt á tankinn vitandi það að aurarnir renna austur til snillingsins Vagit Alekperov og annarra Lukoil-manna.

Gaman að þessu. Þessi tæplega sextugi Azeri, hann herra Alekperov, er í dag einn mesti auðmaður veraldarinnar. Svo skemmtilega vildi til að hann var aðstoðarorkumálaráðherra á síðustu dögum Sovétríkjanna. Hann átti í framhaldinu þátt í stofnun rússneska ríkisolíufyrirtækisins Langepas-Urai-Kogalymneft 1991. Hvers nafni var breytt i LUK-oil árið 1993.

vagit-alekperov

Sama ár var lítill hluti hlutabréfanna í Lukoil settur á markað, en ríkið hélt áfram meirihlutanum. Fyrir "einskæra tilviljun" urðu öll bréfin smám saman föl - og nú ræður hann Vagit Alekperov yfir um fimmtungi þeirra (ásamt einum gömlum viðskiptafélaga sínum). Svona getur lífið stundum verið skemmtilega einfalt.

Lukoil er STÓRT. Annað af tveimur stærstu olíufélögum Rússlands. Var jafnvel stærra en Rosneft, allt þar til þeir Rosneftar yfirtóku Yukos. Sem var félagið hans Mikhail Khodorkovsky. Af þeim olíufélögum heimsins, sem skráð eru á hlutabréfamarkað, mun aðeins eitt félag búa yfir meiri olíubirgðum en Lukoil. Sem er risinn Exxon Mobil.

Alltaf gaman að ofurlítilli tölfræði. Svona rétt til að setja hlutina í samhengi: Lukoil fer með nærri 20% af allri olíuvinnslu i Rússlandi. Og er auðvitað með starfsemi víða annars staðar um heiminn. T.d. í Írak. Alls mun félagið nú framleiða 2,3% af olíuframboði heimsins og ráða yfir 1,3% af öllum þekktum olíubirgðum veraldar.

lukoil_logo

Og sem fyrr segir getur maður nú látið hreinsa framrúðuna á skrjóðnum á Lukoil-bensínstöðvum vestur í henni Ameríku. Menn þurfa sem sagt ekki lengur að óttast að Rússarnir séu að koma - þeir eru nefnilega löngu komnir. Til Bandaríkjanna. Kannski tímabært að þeir komi líka til Íslands?


mbl.is Rússar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Единые Энергетические Системы

Stulli_Tanya

Maður hefur beðið spenntur eftir því hvort honum Stulla tækist að redda okkur léttu Rússaláni. Vona að honum hafi liðið vel þarna í Moskvu - ásamt Tönju og fleiri ljúflingum. En hafi þau lent í einhverju stappi væri etv. skynsamlegast að snúa sér til hans Alexanders Lebedev. Hann hefur nefnilega ákveðna sérstöðu í rússneska milljarðamæringaheiminum.

Það gerðust ýmsir hreint magnaðir atburðir eftir hrun Sovétríkjanna. Um rússneska orkugeirann og raforkukerfið er það að segja, að 1992 var sett á fót sérstakt félag um allan þann ríkisbisness. Félag þetta varð á Vesturlöndum þekkt sem Unified Energy System of Russia. Nær öll orkufyrirtæki landsins, sem fram til þessa höfðu verið í ríkiseigu, voru sett í þetta netta fyrirtæki (kjarnorkuverin þó undanskilin). Þarna undir féllu einnig fjölmörg stærstu verktakafyrirtæki landsins og nánast allt dreifikerfi raforkunnar.

Russia_energy__system6

Alls mun Unified Energy System (UES) hafa eignast um 7/10 allrar raforkuframleiðslu Rússlands og sama hlutfall af öllum raflínum landsins. Og allar háspennulínur um Rússland þvert og endilegt.

Eignarhaldinu var þannig komið fyrir að helmingur þessa risastóra orkufyrirtækis var í eigu rússneska ríkisins en hinn helmingurinn gekk kaupum og sölu á hlutabréfamarkaðnum. Á árunum 1997-99 var mikil valdabarátta um stjórn fyrirtækisins. Endaði þetta með því að UES var leyst upp í fjölda smærri eininga. Í hönd fór eitthvert geggjaðasta tímabil einkavæðingar í Rússlandi. Um það leyti sem Björgólfsfeðgar og Maggi seldu bjórverksmiðjurnar og komu mestu af sínu fé út úr Rússlandi. Kannski hefðu þeir frekar átt að veðja á rússneska orkugeirann, Frekar en að hirða Landsbankann og Eimskipafélagið. Úr því að svo fór sem fór.

Russia_Energy_System3

Umbreytingu UES lauk ekki fyrr en um mitt þetta ár (2008). Eitt af þeim fyrirtækjum sem tók við hinum fölbreytta orkurekstri þess, er sérstakt orkudreifingarfyrirtæki sem komið var á fót 2002. Á ensku er það nefnt Federal Grid Company (FGC) og fer með einkaleyfi á öllu háspennukerfinu og mest allri raforkudreifingu í landinu.

Rússneska ríkið fer með meirihluta hlutabréfanna í FGC og á yfir 75%. Tæplega 25% eru í höndum annarra. Kreppukvaldir mörlandar geta nálgast slík bréf í gegnum kauphöllina í Moskvu; MICEX (bréfin bera auðkennið FEES).

lebedev

Áðurnefndur Alexander Lebedev er einmitt einn stærsti einkaaðilinn í FGC. Þessi fimmtugi Rússi er með doktorsgráðu í hagfræði og starfaði lengi hjá KGB áður en hann snéri sér að bissness. Hann byggir núverandi viðskiptaveldi sitt á bankanum sínum, sem er einn þeirra stærstu í Rússlandi. Á ensku ber bankinn það hógværa nafn National Reserve Bank. Hann er kannski frægastur fyrir að vera einn örfárra banka sem lifðu af hrun rúblunnar 1998. Hrunið sem gerði næstum út af við bjórbisness Björgólfsfeðga i Skt. Pétursborg. En bæði Lebedev og Bjöggarnir komu standandi út úr þeim hremmingum og stóðu uppi sem sigurvegarar.

Í gegnum bankann sinn á Lebedev reyndar einnig talsvert fleira dót í Rússlandi, en bara hlutinn í orkudreifingarfyrirtækinu magnaða. T.d. á hann hlut í Gazprom, sem er stærsti gasframleiðandi heims. Og þriðjung hlutabréfanna í hinu gamla og góða Aeroflot (þar er Lebedev stærsti hluthafinn á eftir rússneska ríkinu, sem á 51% í Aeroflot). Ásamt fjölda annarra fyrirtækja í rússneskum iðnaði og landbúnaði. Og svo skemmtilega vill til að bankinn hans Lebedev mun einmitt vera einn helsti viðskiptabanki Gazprom.

Já - hann Alexander Lebedev er vellauðugur - en ekki alveg eins og hver annar ólígarki. Meðan hann vann hjá rússneska sendiráðinu í London á 9. áratugnum er hann sagður hafa verið hreinræktaður njósnari. Hann ku hafa fílað vel hinn aristókratíska breska klúbblifnaðarhátt - og nýtur þess að eiga góðar stundir með öðrum gömlum njósnurum í leyniklúbbnum, sem Lundúnabúar kalla "Russian spies".

Lebedev_Gorbi

Lebedev var í góðum tengslum við Jeltsin og það hjálpaði honum auðvitað að byggja upp fjármálaveldi eftir fall Sovétríkjanna. En Lebedev hefur engu að síður verið ófeiminn við að gagnrýna stjórn Pútins og ekki síst talað fyrir bættum mannréttindum í Rússlandi. Þó hann sitji nú í Dúmunni sem þingmaður stjórnarflokksins er hann um leið félagi Mikhail Gorbachev í útgáfu dagblaðsins Novaya Gazeta. Ekki hægt að segja annað en hann Alexander Lebedev sé svellkaldur náungi. Kannski vill hann lána okkur pening...


mbl.is Ekki niðurstaða í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Das Kapital

"Ef að illar vættirinn um myrkragættir, bjóða svikasættir, svo sem löngum ber, við í heimi hér, þá er ei þörf að velja: þú mátt aldrei selja það úr hendi þér."

Oxararfoss

Þannig segir í kvæðinu Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson. Síðustu árin hefur veröldin tilbeðið fjármagnið. Viðskiptaumfjöllun heltók fjölmiðlana. Björgólfur Thor kostaði sýningu Ólafs Elíassonar í Listasafni Reykjavíkur. Og það er táknrænt fyrir þessa þróun að á vef Morgunblaðsins er hvergi að finna valmöguleikann "Menning". Þetta stingur Orkubloggið sérstaklega í augun, hafandi verið nærri tvö ár í Danmörku, hvar t.d. menningarumfjöllun í dagblöðunum er mjög umfangsmikil.

Sá sem stendur bak við Orkubloggið er afar langt frá því að flokkast sem menningarviti - gæti líklega frekar kallast menningarsóði. Ég er t.d. heldur lítið fyrir tónleika og leiðist yfirleitt ferlega á leiksýningum og í söfnum (þó svo Louisiana-safnið sé líklega uppáhaldsstaðurinn minn í Köben - ekki síst vegna garðsins þar við safnið og útsýnisins yfir Eyrarsund).

Áhugamál mín eru sem sagt ekki beinlínis á því sem kallað er menningarsviðið. Engu að síður sakna ég þess hversu ótrúlega lítil áhersla er á menningu í íslenskum fölmiðlum. Dægurmálaþras og viðskiptafréttir kaffærðu slíka umfjöllun. En kannski sjáum við fljótlega afturhvarf til hinna góðu gilda - áherslunnar á listina, mannlífið og hvað gefur lífinu gildi.

Orkublogginu hefur þótt athyglisvert að fylgjast með því hvernig nú, í skyndilegu falli bankanna, virðist þjóðin hafa enduruppgötvað snillinga eins og Stein Steinarr og Guðmund Böðvarsson. Núna á tímum hruns stærstu fyrirtækja landsins hittir kaldhæðni Steins í mark - og þjóðernisást Guðmundar Böðvarssonar ekki síður. Þó svo Guðmundur hafi beint orðum sínum gegn aðild Íslands að NATO, eiga þau orð ekki síður vel um þá ömurlegu staðreynd að þjóðfélagið rambar nú á barmi gjaldþrots eftir að fiskimiðin voru einkavædd og helstu fyrirtæki í eigu ríkisins seld bröskurum.

steinn_steinarr

Já - Orkubloggið er mikill aðdáandi bæði Steins Steinarr og Guðmundar Böðvarssonar. En bloggið trúir engu að síður áfram á kapítalismann og líka á kvótakerfið og líka á NATO-aðildina. Fyllibytturnar koma óorði á brennivínið. Og nú hafa "útrásarvíkingarnir" komið óorði á íslenskan kapítalisma. Orkubloggið er mikill hófdrykkjumaður. Og trúir því að hér muni senn rísa hógvær og skemmtilegur kapítalismi. Sem mun lúta skýrum leikreglum og skapa grunn að góðri framtíð á Klakanum góða.

Um leið er vert að viðurkenna að ljóðlínur sem þessar eru öllu kapítali æðri:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið. 

-------------------------------------

PS: Í dag munu vera liðin 100 ár frá fæðingu Steins Steinarr.

 


mbl.is Slökkt á fossum Ólafs í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyde og Einar Ben

Nýlega upplýsti Orkubloggið ósk sína um nýtt Kalmarsamband. Sem er auðvitað eins og hvert annað grín. Aftur a móti er bloggið skotið í nánu sambandi Íslands og Noregs. Í fúlustu alvöru.

Síðustu dagana hef ég beðið eftir því að Norðmenn taki af skarið. Og bjóði Íslendingum lánið sem við þurfum. Ég trúi enn að af því verði. Norðmenn eru varkárir og ana ekki að hlutunum. Hugsanlega eru þeir ekki bara að skoða möguleika á láni - heldur líka að íhuga möguleika að kaupa umtalsverðan hlut íslenska fjármálakerfisins. Ég held satt að segja að bankarnir væru miklu betur komnir í höndum Norðmanna, en að hér nái íslenska ríkið einræði á bankamarkaði og blessaðir valdhafarnir komi á nýjum helmingaskiptum og einkavinavæðingu.

einar_ben

En að öðru. Í dag ætlar Orkubloggið að gæla við þá hugsun hvernig Ísland hefði geta þróast. Ef, ef...

Allir sæmilega meðvitaðir Íslendingar þekkja Einar Benediktsson, skáld og sýn hans um uppbyggingu virkjana og iðnaðar. Þessir draumar Einars rættust ekki og Íslendingar  byrjuðu fyrst að nýta vatnsorkuna af alvöru síðla á 7. áratugnum. Og reyndar hefur iðnvæðing íslands orðið með þeim hætti að öll helstu iðnfyrirtækin eru í eigu útlendinga. En hvað hefði gerst ef Einari hefði tekist ætlunarverk sitt? Ættum við þá etv. nokkur öflugustu iðnfyrirtæki Evrópu?

Orkublogginu hefur oft orðið hugsað til Norðmannsins Sam Eyde - og hvernig Ísland liti út ef Einar Benediktsson hefði orðið e.k. Sam Eyde Íslands. Þeir Eyde voru samtíðarmenn - fæddust skömmu fyrir 1870 og létust báðir árið 1940. Þeir voru þó um margt ólíkir - annar var skáld og lögfræðingur en hinn verkfræðimenntaður og með skyn fyrir uppfinningum. Og það var uppfinningamaðurinn Sam Eyde sem tókst að fá fjármagnseigendur til liðs við sig og gat boðið þeim bæði tæknivit og náttúruauðlindir Noregs.

Þar er helst að nefna að Eyde tókst í félagi við norska vísindamanninn Kristian Birkeland að þróa aðferð til að framleiða áburð. Sem felst í að nýta nitur úr andrúmsloftinu til að vinna saltpétur. Það ferli krefst mikillar orku og þar gat Eyde lagt fram orkuna, því hann hafði þá nýlega orðið sér úti um mikil virkjanaréttindi í Telemark.

Já - enn og aftur er Orkubloggið lent í Telemark - þessu "Þjórsársvæði" Norðmanna sem næstum varð til þess að útvega Nasista-Þýskalandi kjarnorkusprengju. En nóg hefur verið fjallað um það ævintýri hér á blogginu í eldri færslum.

sam_eyde

Þeir félagarnir Eyde og Birkeland voru nú með í höndunum aðferð og orku til að framleiða tilbúinn áburð handa heimsbyggðinni. Þetta var árið 1903 - um það leyti sem íslenska Heimastjórnin leit dagsins ljós og einungis nokkrum árum áður en Einar Benediktsson stofnaði Fossafélagið Títan.

Eyde og Birkeland stofnuðu félag í kringum áburðarframleiðsluna, sem nefndist Elektrokemisk Industri. Fjármagn fékkst frá nokkrum sænskum ljúflingum - nefnilega Wallenbergunum sem þá byggðu veldi sitt einkum á bankarekstri í Svíþjóð. Fyrsta áburðarverksmiðja Elektrokemisk Industri - er löngu síðar varð að Elkem sem Íslendingar þekkja auðvitað vel - hóf rekstur tveimur árum síðar. Og þetta sama ár - 1905 - stofnaði Sam Eyde annað félag um orkuvinnslu og áburðarframleiðslu og nefndist það Norsk Hydro-elektrisk Kvælstofaktieselskab. Sem síðar varð risaálfyrirtækið Norsk Hydro.

Þó svo líf Einars Benediktssonar teljist líklega um margt hafa verið dramatískara en ferill Sam Eyde, þurfti sá síðarnefndi einnig að þola lífsins byrðar. Eftir að hafa stofnað og stjórnað báðum fyrrnefndum fyrirtækjum, sem i dag eru meðal helstu iðnaðarrisa heimsins, fór svo að honum var fljótlega ýtt til hliðar. Hann þótti erfiður í skapi og árið 1917 bolaði stjórnin honum úr forstjórastól og 1925 lét hann af stjórnarformennskunni. Sagt er að hann hafi gert sérstakan samning við stjórnina, sem megi etv. teljast fyrsti alvöru starfslokasamningurinn! Já - það voru hvorki bandarískir forstjórar né íslenskir auðmenn sem fundu upp þann ósið. Heldur góðir og kristilega þenkjandi Norðmenn. Það gengur svona.

NOK_200kr

Norðmenn kunna á bissness! Og hananú. Það telur Orkubloggið næg rök til að kasta sér í þeirra fang. Ekki seinna vænna. Úr því Einar Ben náði ekki tengslum við þá Birkeland og Wallenbergana.

PS: Bæði Einar Benediktsson og Kristian Birkeland hafa komist á peningaseðla. En mér er ekki kunnugt um að neinn slíkur seðill hafi borið mynd Eyde. Sem er auðvitað hreinn skandall.


mbl.is Norsk stjórnvöld leggja fram 41 milljarð evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólgyðjan

Það er merkilegt að fylgjast með fréttunum. Meðan geimskutlur Bandaríkjanna hrapa ein af annarri og eyðileggja almenningsálit bandarísku þjóðarinnar á geimferðaráætluninni, berast fréttir af vel heppnuðum geimferðum Rússa. Og langdrægu kjarnorkueldflaugarnar þeirra virðast líka vera að virka prýðilega.

Europe_solar-radiation

Eftir fall Sovétríkjanna sögðu margir að nú væri einungis eitt stórveldi eftir í heiminum. Í reynd virðist Rússland sjaldan hafa verið öflugara en í dag. Og hefur nánast tekist að hneppa Evrópu í orkufjötra.

Orkubloggið hefur verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess, að Evrópa nái orkusjálfstæði. Ekki síst hefur bloggið snobbað fyrir einni sólarorkutækninni. Tækninni þar sem geislum sólar er speglað í brennipunkt til að mynda gríðarmikinn hita og hitinn nýttur til að mynda gufu. Sem knýr túrbínu og framleiðir þannig rafmagn. Concentrated solar power!

Bloggið hefur talað fyrir því að Evrópusambandið taki upp náið samstarf við ríkin í N-Afríku um uppbyggingu slíkrar tækni. En í dag ætla ég að beina athyglinni að annarri hlið sólarorkunnar. Sem etv. er mörgum betur kunn en CSP og krefst ekki jafn mikillar sólgeislunar eins og CSP.

PV_power_station

Þá á ég við sólarorkutæknina sem byggir á sólarsellum. Hún byggist á því að sólargeislarnir lenda á sólarsellunum, sem við það framleiða rafmagn.

Til nánari útskýringar, þá lenda ljóseindir (photons) frá sólinni á rafeindum í sólarsellunum og örva þær. Við það myndast rafmagn. Rafmagnið frá sólarsellunum má svo auðvitað nýta beint, setja á raforkukerfi eða nota á rafhlöður. Og tæknin getur nýst mjög víða í Evrópu - jafnvel langt norðan Mundíufjalla.

Þetta er milliliðalaus og að því leyti einföld rafmagnsframleiðsla. En aftur á móti nokkuð dýr aðferð. Það eru ekki síst kísilflögurnar í sólarsellunum, sem eru mjög dýrar.

pam-anderson-baywatch

Eins og heitið gefur til kynna eru kísilflögurnar gerðar úr kísil eða sílikoni (silicon), sem er eitt af frumefnunum. Hafa ber í huga, að þó svo kísil sé reyndar að finna í þeim merku púðum sem sumar dömur láta setja í brjóst sín, er heitið sílikonbrjóst ofurlítið villandi. Það sem notað er til brjóstastækkana hefur m.ö.o. lítið með kísil að gera.

Á ensku eru sólarsellurnar oft nefndar "photovoltaic solar panels". Heitið photovoltaic (photo og voltaic) vísar til ljóseindanna frá sólinni og rafmagnsins sem unnt er að framleiða með þessari tækni. Oft er einfaldlega talað um PV-tækni í þessu sambandi - þar sem PV er auðvitað skammstöfun fyrir photovoltaic.

Þessi tækni hefur verið fyrir hendi í marga áratugi og smám saman hefur náðst að draga úr kostnaði við framleiðsluna. Nú er sólarsellutæknin komin inn á borð okkar Íslendinga - undanfarið hafa fyrirtæki verið að skoða þann möguleika að smíða hér kísilflögur í sólarsellurnar. Kísilflöguframleiðslan er nefnilega orkufrek og sem kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld lengi iðkað það að bjóða erlendum fjárfestum ódýra orku.

Solar PV thin film

Enn þann dag í dag eru kísilflögurnar yfirgnæfandi á sólarsellumarkaðnum. En vegna þess hversu dýrar þær eru, er Orkubloggið á því að þetta verði aldrei raunverulegur valkostur til rafmagnsframleiðslu í stórum stíl. Nema ný og betri efni finnist en sílikonið.

Verið er að þróa PV-sellur sem byggjast á öðru en kísil. Sú PV-tækni sem Orkubloggið hrífst mest af þessa dagana kallast thin-film tækni og er hugsanlega allt að helmingi ódýrari en kísilflögurnar. Þessar nýju sólarsellur eru gerðar úr efni sem nefnist kadmín-tellúríð. Eins og nafnið bendir til samanstendur það af frumefnunum kadmín (cadmium) og tellúr eða tellúríð (telluride).

Ég steinféll fyrir þessu thin-film stöffi, við fyrstu sýn. Þessar kadmín-tellúríð-flögur nýta sólarorkuna miklu betur og munu nú geta breytt allt að 10% sólarorkunnar, sem fellur á sólarselluna, yfir í rafmagn. Lykilatriðið er að kostnaðurinn við rafmagnsframleiðsluna verði nálægt því sem rafmagn frá kolum kostar. Þessi nýja tækni hefur skapað bjartsýni um að þetta markmið geti náðst innan fárra ára.

FirstSolarChart

Helsta vandamálið er að kadmín mun vera mjög heilsuspillandi og getur jafnvel leitt til dauða. Þess vegna er vandmeðfarið að nota það í iðnaði. Bæði við framleiðsluna og eyðingu gamalla sólarsella þarf að gæta þess að kadmínagnir berist t.d. ekki í öndunarveginn.

Það fyrirtæki sem að öllum líkindum stendur fremst í að framleiða þessar nýju sólarsellur, nefnist First Solar. Vöxtur First Solar hefur verið hreint ævintýralegur. Hér til hliðar má sjá þróun hlutabréfaverðs First Solar. Eftir geggjaða uppsveiflu hefur það tekið mikla dýfu upp á síðkastið. Sem kannski er fyrst og fremst vegna lækkandi olíuverðs. Þarna hefur líka áhrif sú óvissa sem verið hefur um bandariskar skattareglur fyrir sólarorkuiðnaðinn. En þær góðu fréttir bárust fyrir nokkrum dögum að Bandaríkjaþing var að afgreiða hagstæðan pakka þar að lútandi. Og Bush er búinn að staðfesta lögin!

Fólk heldur kannski að fyrirtæki í svona mikilli tækniþróun sé rekið með tapi. Því fer fjarri. Á síðasta ári (2007) voru tekjur First Solar um 640 milljónir USD og hagnaðurinn hvorki meira né minna en rúmar 100 milljónir dollara.

Sam_Walton_Time_Cover

Stærstu hluthafarnir í First Solar eru hin vellauðuga Walton-fjölskylda. Þ.e. afkomendur Sam Walton, stofnanda Wal Mart. Fjölskyldan kom snemma inn í fyrirtækið og þar var þolinmótt fjármagn á ferðinni. Ekki alveg sami skyndigróða hugsunarhátturinn eins og hjá íslenskum auðmönnum - sem nú skilja eftir sig rjúkandi rústir. En ætli hlutabréfaverðið í First Solar núna bjóði upp á reyfarakaup?.


mbl.is Rússar skjóta langdrægum eldflaugum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugnahöfðinginn

Athyglisvert að lesa athugasemdir lesanda við greinina í Guardian. Her er smá "best of": 

You sold your fishing rights. You sold your rivers. You even sold your DNA. Now you've got nothing left that anyone wants.

Iceland is a country which got rich on other peoples money. Wealth was created from nothing. Iceland produces nothing. Manufactures nothing. Contributes virtually nothing to the real economy. Most people in Iceland sit around and pushing paper all day. Icelandics don't know the meaning of hard work.

Bjork, and her music that she inflicted on the world. If she comes to the UK gordon shoudl arrest her and send her to Guantanmo Bay. I bet she would not look cute in a orange jumpsuit or second thoughts maybe she would (file under icelandic pixie fantasy).

How could a small country in the North Atlantic that had no manufacturing base, exported nothing, and imported everything it needed have a standard of living like this? 

 If it wasn't for the one maybe two good tracks on each of her albums, i'd throw away my Bjork collection in disgust.

Oh, I forgot to mention their perverse status as one of the three nations on earth to persist with whaling. Bastards.

Kicking Iceland is great fun for those of us who have actually met Icelandic people in recent years. It is difficult to think of any people who are smugger - constantly going on about how wonderful their little island is, how green, how prosperous.

Hey Pharma! but Iceland have no army said Iceland 007. Now, if they have no army how could have engaged in mass murder alongside the Brits in Iraq? 

Gordon_Brown_Cartoon

Við erum sem sagt fjöldamorðingjar sem ekki framleiðum nokkurn skapaðan hlut, erum með engan útflutning og seldum erfðaefni okkar. Hvaladráparar og letingjar sem aldrei hafa nennt að vinna.

Gott að sjá hvernig greindin leiftrar af þessari "vinaþjóð" okkar. Frábær landkynning. Í boði Gordon Brown og Icesave.


mbl.is „Sparkað í liggjandi (Ís)land"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nótt í Moskvu

Stundum er sagt að neyðin kenni naktri konu að spinna. Sú björgunaraðgerð sem helst hefur verið horft til síðustu dagana er að fá lán frá Rússum. En aðrir vilja heldur ganga bónveg til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sem er dáldið eins og segja sig á hreppinn - og því kannski í anda þjóðar í fjötrum.

Margaret-Queen-I

Orkubloggið gælir þó við aðra leið. Mig hefur nefnilega lengi dreymt um endurreist Kalmarsamband. Tóm vitleysa að Norðurlöndin séu að pukra þetta sitt í hvoru horni. Með sinn hvern gjaldmiðilinn og meira að segja klofin í Evrópusambandsaðildinni. Fjölskyldan þarf að sameinast - og nú er svo sannarlega ekki versti tíminn til þess.

Sem kunnugt er varð Kalmarsambandið til sem sameinað ríki Norðurlandanna, undir henni Margréti Valdimarsdóttur, drottningu. Sem stundum er líka kölluð Margrét fyrsta - og nú ríkir einmitt Margrét önnur í Danaveldi. Hvar íslenskir útrásarvíkingar hafa gert mikið strandhögg, en kunna senn að verða hraktir til hafs á ný. Vonum bara að það kosti ekki blóði drifið Kóngsins Nýja Torg.

Danir hafa átt ofurlítið erfitt með að skilja hvernig "við" gátum hirt bæði Magasin og Hotel d'Angleterre - þessar tvær glæsibyggingar sem setja hvað mestan svip á þetta flottasta torg Kaupmannahafnar. Kannski ekki að undra þó aðeins hlakki í fjárans Danskinum þessa dagana. 

Kalmar_Union.svg

Ekki ætla ég að hætta mér í miklar skilgreiningar á Kalmarsabandinu. En læt nægja að minna á að sambandið var myndað seint á 14. öld og tórði fram á 16. öld. Það lifði m.ö.o. einungis í rúma eina öld. En meðal afleiðinga þessarar ríkjasamvinnu var að Ísland færðist úr yfirráðum Noregs og til Danmerkur. Sem er auðvitað mesta ógæfa okkar - því annars sætum við hér smjattandi á krásum góðum með guðaveigar í glasi og banka fulla af norskum krónum.

Jamm. Íslands óhamingju verður allt að vopni. En ég bind ennþá vonir við nýtt Kalmarsamband. Þar sem núverandi þjóðþing verða eins konar fylkisþing með sjálfræði í flestum málum líkt og fullvalda ríki. Nema hvað aðeins verður ein utanríkisstefna, ein mynt og einn Seðlabanki. Þetta yrði evrópskt stórveldi með öflugasta sjávarútveg í heimi, háþróaðan iðnað, heilbrigðan og öflugan landbúnað og glæsilega hönnun og hugvit. Og um 25 milljón íbúa  - því auðvitað yrðu öll Norðurlöndin með. Ekki má heldur gleyma að þarna færi eitthvert sterkasta olíu- og orkuveldi í hinum vestræna heimi.

Sjálft alríkisþingið - Althinget - yrði auðvitað í Kalmar (vinsamlegast sendið landráðakærur beint til ljúflingsins Ríkislögreglustjóra). Reyndar litist mér betur á að hafa það í Noregi. En Svíarnir myndu aldrei fallast a það, enda langfjölmennasta þjóð Norðurlandanna.

Því miður verður þetta líklega aldrei af veruleika. Af sams konar ástæðum og það hversu erfiðlega gengur að sameina hreppa á Íslandi. Og fyrir vikið endar Ísland líklega í faðmi Rússa. Sem kannski er reyndar alls ekki svo slæmur kostur. A.m.k. hafa Rússar lengst af sýnt okkur meiri velvild en t.d. Bretar. Voru ávallt reiðubúnir að kaupa af okkur nánast hvað sem var hér í Den. Ekki síst s.k. gaffalbita, sem var varla matur. Í staðinn fengum við t.d. olíu á miklu hagstæðari kjörum en okkur bauðst annars staðar. Og aldrei voru Rússarnir neitt að bögga okkur - fyrir utan að hafa kannski beint að okkur nokkrum kjarnaflaugum svona just in case.

Basil_moskva.jpg

En svona til að segja eitthvað af alvöru: Ég satt að segja botna ekkert í frændþjóðum okkar að sitja aðgerðarlausar og horfa á íslensku efnahagslífi blæða út. Og Norðmenn munu naga sig í handarbökin þegar Rússar verða búnir að ná hér áhrifum í skjóli peninganna sinna. Og mynda ógnvænlegan hálhring um Noreg.

Þó svo ég hafi notið þess að standa einn á Rauða torginu eina ískalda nóvembernótt og dáðst að furðulegri dómkirkjunni þarna gegnt Kreml, líst mér ekki alveg á það hvernig málin eru að þróast. Kannski gerist hið ómögulega. Þegar Skandinavísku bankarnir byrja líka að hrynja. Og nýtt Kalmarsamband mun rísa úr öskustó nýfrjálshyggjunnar.


mbl.is Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússajepparnir koma

Í fréttum af Rússaláninu segir að þreifingar þar um hafi byrjað í sumar. Í dag kom fram á heimasíðu RÚV að tveir ríkustu auðjöfrar Rússlands standi að baki því að lánið verði veitt. Heimildin fyrir þeirri frétt er sögð vera "hin virta" sjónvarpsstöð Ekho Moskvy.

Stöðin sú er að mestu í eigu fyrirtækis sem nefnist Gazprom Media. Og eins og nafnið gefur til kynna er þetta dótturfyrirtæki orkurisans Gazprom. Þar sem Pútín og fylgismenn hans ráða ríkjum. Það kemur því kannski sumum á óvart að RÚV kalli umrædda stöð "virta". Þegar hafðar eru í huga sögur um hvernig rússnesk stjórnvöld hafa leikið frjálsa fjölmiðlun í Rússlandi.

Deripaska_Abramovich

Hvað um það. Samkvæmt fréttinni eru þessir tveir ljúflingar, sem hafa komið því til leiðar að rússnesk stjórnvöld eru tilbúin til að skoða lán til Íslands, þeir Roman Abramovich og Oleg Deripaska (sem RÚV reyndar misritar Derepaska og gefur honum hinn hógværa titil "annar ungur milljarðamæringur").

Abramovich er Íslendingum auðvitað að góðu kunnur; eigandi Chelsea og hefur komið nokkrum sinnum hingað til Íslands. Hann hefur lengi verið talinn efnaðasti Rússinn. En með uppgangi og geysihröðum vexti rússneska álrisans Rusal kann Oleg Deripaska að hafa komist frammúr Abramovich á peningalistanum. Orkubloggið hefur áður nefnt þá fögru staðreynd að Rusal er stærsta álfyrirtæki heims. Ekki er lengra síðan en í gær að bloggið birti einmitt lógó þeirra Rusalmanna hér á Orkublogginu, í tengslum við Rússalánið. Þó svo á þeim tímapunkti hefði bloggið ekki minnstu hugmynd um að aðaleigandi Rusal stæði að baki láninu til Íslands. Nema kannski ómeðvitað! Því er nú ærið tilefni til að beina athyglinni að aðaleiganda Rusal; Oleg Deripaska. Sem kannski er nýjasti Íslandsvinurinn.

gaz69

Í geggjuðu eignasafni Deripaska er meirihlutaeign hans í Rusal auðvitað kórónan. En hann á einnig ýmis önnur leikföng. Og eflaust hefðu Íslendingar gaman að tengjast sumum af þeim. Á ný. Þar stendur hjarta Orkubloggsins næst bílaframleiðandinn GAZ - eða Gorkí-bílaverksmiðjurnar dásamlegu. Sem á sínum tíma framleiddu bæði Rússajeppa og Volgu. Síðar tóku UAZ-verksmiðjurnar við framleiðslu Rússajeppanna, sem lengi sáust víða hér um landið. Ekki síst á 8. áratugnum. Já - ég verð bara hrærður við þá tilhugsun að eigandi GAZ láni okkur pening. Og reisi kannski Rússajeppaverksmiðju, t.d. við Gljúfrastein. Eða í Ketildölum?

Deripaska hefur verið "verðlagður" á um 30 milljarða USD af Forbes. Kannski hefur sú upphæð lækkað eitthvað nú þegar álverðið er á rússíbanareið niður á við. Sem er enn eitt lóðið á óhamingjuvog Íslands. Því raforkuverðið til álveranna hér mun vera tengt heimsmarkaðsverði á áli.

Líklega veit enginn nema Deripaska nákvæmlega hversu þykkt veskið hans er eða hvernig hann auðgaðist svo ofsalega. En hann veit allt um hina nýju íslensku landvætti; orku og ál.

oleg_deripaska

En hver er þessi maður, sem bæði á stærsta álfyrirtæki heims og nokkrar af stærstu vatnsaflsvirkjunum Rússlands?Deripaska, sem er aðeins fertugur að aldri, var mikill námsmaður og útskrifaðist með eðlisfræðigráðu frá Moskvuháskóla skömmu eftir að kommúnisminn féll. Hann hóf störf í áliðnaðinum og varð fyrst stjórnandi í Sayanogorsk álverinu og síðar forstjóri í hjá iðnaðarfyrirtæki sem hét Sibirsky. Það varð á skömmum tíma eitt af tíu stærstu álfyrirtækjum heims - og sameinaðist fljótlega fleiri rússneskum álfyrirtækjum og varð þungamiðjan í Rusal. Þetta var á tímum rússnesku einkavæðingarinnar og einhvern veginn æxluðust málin þannig að Deripaska varð aðaleigandi fyrirtækisins. Sem varð kjölfestan í fjárfestingafyrirtæki hans; Basic Element. Viðskiptafélagi Deripaska við myndun Rusal var... já, auðvitað Íslandsvinurinn Abramovich.

Basic Element er ekki bara umbúðir um mest öll hlutabréfin í Rusal. Heldur einnig ýmis fleiri dágóð rússnesk fyrirtæki. T.d. stærsta tryggingafyrirtæki Rússlands, banka og eitt stærsta verktakafyrirtækið í Moskvu. Þeirri dásamlegu borg.

Best að fara að slútta þessu. T.d. með smáræði um Rusal. Sem er stærsta álfyrirtæki heims, eigandi gríðarlegra báxítnáma, starfar í 19 löndum og er með 100 þúsund manns í vinnu. Ársframleiðslan er meira en 11 milljón tonn af áli. Deripaska á góðan meirihluta í þessum iðnaðarrisa í gegnum Basic Element, En+Group og fleiri eignarhaldsfélög sín. Ljúft að fá þessa stráka til Íslands.

Sumir segja að þeir Abramovich og Deripaska hafi reyndar ekkert með mögulega lánveitingu til Íslands að gera. Heldur sé það tilkomið vegna persónulegra tengsla Björgólfs Thors við Pútín. En hann mun hafa verið háttsettur embættismaður hjá Skt. Pétursborg þegar Björgólfur var að byggja upp bjórveldið þar. Og borgarstjóri um skeið. Hvað svo sem satt er um áhrif Bjögga, verður spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls. Reyndar er Oleg Deripaska sjálfur nátengdur Pútín - og mig satt að segja grunar að þau tengsl séu mun sterkari en hugsanleg vinátta Björgólfs!

Polina_Deripaska_2

Já - Orkubloggið á eflaust fljótlega aftur eftir að velta upp steinum, sem tengjast Oleg Deripaska. Enda bæði skarpgreindur maður og sterkur karakter. Samt verður bloggið að viðurkenna að skvísan hans er ennþá áhugaverðari.

Seinna verður t.d. kannski sagt frá því hvernig Deripaska hefur verið í fararbroddi iðnjöfra, sem vilja stórtækar aðgerðir til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum. Hann er nefnilega ekki bara gáfaður heldur líka hugsjónamaður. Því miður hafa yfirvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi verið með tóm leiðindi við þennan ljúfling. Svipt hann vegabréfi og jafnvel vænt hann um glæpi. Tóm öfund segi ég bara - öfund skriffinna sem ekki ná í gellur eins og hana Polinu. 

-------------------------------

PS: Frétt RÚV um rússneska lánið og Deripaska:  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item230255/ 


mbl.is Fundur um rússneskt lán á þriðjudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuboltinn Ísland

Aftur a byrjunarreit? Í kjölfar bankahrunsins heyrast nú ýmsir segja að Ísland hafi hrokkið 25 ár aftur í tímann. Og nú muni íslenskt efnahagslíf á ný byggjast a fiski. Það hefur jafnvel heyrst talað um uppbyggingu i landbúnaði. Geisp. Og auðvitað hljómar söngurinn um fleiri álver.

back_to_the_future-1

The wonderful eighties! Já - þá átti Orkubloggið góða daga. Þannig að kannski er þetta stökk aftur í tímann bara hið besta mál. En auðvitað er tóm della að setja málið svona fram. Tækninni hefur fleygt fram og olíuframleiðsla kann að hafa náð hámarki. Umhverfisvitund almennings hefur gjörbreyst frá því fyrir 25 árum.

Nú liggja stóru tækifærin í endurnýjanlegri orku. Eins og Orkubloggið hefur oft áður sagt frá, rísa nú stór vindorkuver og sólarorkuver víða um heim. Sem framleiða rafmagn. En ennþá vantar nýjan orkugjafa í samgöngugeirann. Þar kunna að verða miklar breytingar á tiltölulega stuttum tíma.

Ennþá er nokkuð langt í að rafmagnsbílar verði raunhæfur kostur. Líklega nokkrir áratugir. Vetnistæknin er heldur ekki að bresta á. Ennþá langt á það.

Í millitíðinni þurfum við samt ekki að sitja uppi með að vera háð innfluttu bensíni og díselolíu. Til eru íslensk fyrirtæki sem búa yfir tækniþekkingu og mannviti til að framleiða eldsneyti, sem má nýta á hefðbundnar bensínvélar. Metanól.

Í upphafi yrði hlutfall metanóls i eldsneytinu ekki ýkja hátt. En engu að síður yrði það lykilatriði í að ná að minnka bensíninnflutning um t.d. 10% á stuttum tíma. Og metanólið er framleitt úr koltvíoxíði, svo metanólframleiðslan leiðir til minni kolefnislosunar. Þetta eldsneyti er því mikilvægur hlekkur í að ná skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar. Útlit er fyrir að hlutfall metanóls á móti bensíni geti hækkað mjög á fáeinum árum. Einnig er líklegt að fljótlega megi nýta metanóltæknina til að framleiða eldsneyti á díselvélar. Skip og flutningabíla. Loks eru hraðar framfarir í því að nýta metanól í efnarafala, þ.a. metanólið verður líka mikilvægur orkugjafi þegar rafbílatæknin þroskast.

Carbon_Fuel

Nei - Ísland er ekki komið á byrjunarreit. Við erum miklu fremur á spennandi krossgötum. Ef stjórnvöld skynja tækifærin. Nú ættu stjórnvöld að setja í forgang að íslensk orka verði nýtt til að framleiða eldsneyti, sem minnkar þörfina á innfluttu bensíni og olíu og minnkar kolefnislosun. Um leið ykist fjölbreytnin í íslensku atvinnulífi. Erlent fjármagn kæmi inn í landið - og myndi ekki sitja eitt að kökunni heldur vinna með skynsömum og þolinmóðum íslenskum fjárfestum (en ekki fjárglæframönnum) Og ný störf yrðu til. Rétt eins og þegar álver er byggt - nema hvað þessi fjárfesting og þessi störf munu vekja hrifningu alþjóðasamfélagsins og gera Ísland að hinni fullkomnu fyrirmynd í orkumálum framtíðarinnar.


mbl.is Helstu spár: Evrópa hlýnar hraðar en meðaltal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússagullið

Á ýmsu átti maður von. En að Rússar myndu verða þeir sem bjarga Íslandi frá algeru hruni...!

Rusal_Logo

Er þá ekki bara tímaspursmál hvenær ljúflingarnir í Rusal byrja að byggja álverksmiðjur á Íslandi. Svo þætti Íslendingum eflaust gott að fá aftur herstöð. Fátt jafnast á við hermangið. Skiptir varla miklu hvort það er amerískur eða rússneskur her. Eða hvað?

Eins og Orkubloggið hefur sagt frá er Moskva tvímælalaust magnaðasta stórborg heimsins. A.m.k. af þeim borgum sem bloggið hefur heimsótt fram til þessa. Kannski maður ætti að drífa sig og ganga í MÍR. Einhvern tímann heyrði ég að það væri enn til - ku reyndar nú heita Félag um menningartengsl Íslands og Rússlands. Í stað Ráðstjórnarríkjanna.

M_tal

Ég kom einu sinni í húsakynni hins gamla MÍR. Mætti þangað sem unglingur að tefla við Mikhail Tal. Þann mikla skáksnilling. Hann stútaði mér í ca. 22 leikjum. Það  gengur svona. Man hvað Rússarnir reyktu svakalega.

Svo verð ég líka nefna að ekkert vodka jafnast á við rússnesk gæðavodka. Uppáhaldið er auðvitað Russian Standard, sem jaxlinn hann Roustam Tariko framleiðir. Hann er svalur.

PS: Kannski er þetta bara útsmogin strategía hjá Dabba og Seðlabankanum. Með tilkynningunni er pikkað í báðar lufsurnar sitt hvoru megin Atlantshafsins. Yfirlýsingin segir "vinum" okkar á meginlandinu að koma með gott lán strax - eða skammast sín ella um alla framtíð. Og "vinir" vorir vestanhafs fá áminningu um að þeir ættu kannski að bregðast vel við vandræðum Íslands. Ef þeir vilja ekki sjá rússneskan base á Miðnesheiði. Já - alltaf gaman að samsæriskenningunum.


mbl.is Seðlabankinn fær lán frá Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamar, sigð og dramatík

Nú hef ég verið að hlusta á Alþingismenn í 1. umræðu um hið dramatíska frumvarp, sem virðist stefnt að algerri ríkisvæðingu íslenska bankakerfisins. Og minnist "Glitnislógósins", sem ég notaði hér með færslu fyrr í morgun.

Geir_rikisvaeding

Annars er þetta líklega versta PR sem ég hef nokkru sinni kynnst. Forsætisráðherra flytur ræðu, sem gefur það eitt í skyn að Ísland kunni að standa frammi fyrir algeru efnahagslegu hruni. Og boðar einhverjir loðnar og ótilteknar aðgerðir ríkisins.

Svo er loks hálftíma síðar kynnt frumvarp, sem segir allt og um leið ekkert. Stendur til að ríkið eignist allar íslenskar fjármálastofnanir strax á morgun og hlutafé í þeim sé orðið verðlaust? Mjög einkennilegt að ekki sé jafnhliða kynnt hvað nákvæmlega standi til.

Á bloggi Egils Helgasonar sá ég þessa athugasemd nú áðan:  "Þeir fengu bankana fyrir lítið. Og það tók þá fimm ár að eyðileggja þá." 

NourielRoubini

Annars er nokkuð sérkennilegt þegar menn segja að enginn hafi getað séð fyrir þessar aðstæður. Í viðtali í sjónvarpinu áðan sagði viðskiptaráðherrann nánast orðrétt að enginn maður hefði ímydað sér að þessi staða gæti komið upp. Þetta er hreinasta rugl. Um það væri hægt að skrifa langa ritgerð - og verður eflaust gert í framtíðinni. Ég læt hér nægja að minna á varnaðarorð hagfræðingsins Nouriel Roubini. Það sem gerst hefur undanfarna daga er einfaldlega það sem Roubini spáði afdráttarlaust fyrir löngu. Og lýsti t.d. nokkuð vel í plagginu "The Rising Risk of a System Financial Meltdown - the 12 Steps to Financial Disaster".

Eini munurinn er sá að hér á landi var fjármálakerfið enn verr búið til að takast á við vandann. Vanda sem var fyrirséður. En bæði Seðlabankinn og bankarnir lokuðu augunum.

Lesa má um þróunina, sem Roubini sá fyrir, víða á Netinu. Sjá t.d. hér:   http://media.rgemonitor.com/papers/0/12_steps_NR

PS: Orkublogginu hefur borist til eyrna að stofnuð hafi verið samtökin "Málverkin heim". 


mbl.is Gengi krónunnar veiktist um 11,65%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Billjón tonn hjá Billiton?

Nú stefnir í að álverið í Straumsvík skipti enn einu sinni um eiganda. Þ.e. að ofurfyrirtækið BHP Billiton eignist Rio Tinto - og þar með Straumsvíkurverið. Ásamt dálitlu fleiru, sem er í hinu geggjaða eignasafni Rauðármanna.

straumsvik_2

Í þá góðu gömlu daga var eitt álver á Íslandi. Álverið! Sem byrjað var að reisa draumaárið 1966 - fæðingarár þess sem hér párar. Ekki skrítið þó ég sé alltaf soldið skotinn í áli. Verið var staðsett í Straumsvík og í eigu svissneska fyrirtækisins og "auðhringsins" Alusuisse. Um leið rættust loks gamlir orkudraumar Einars Benediktssonar, með stofnun Landsvirkjunar og virkjun Þjórsár (Búrfellsvirkjun).

Hér heima var álverið rekið undir fyrirtækjanafninu Íslenska álfélagið.  Upphaflega álverið í Straumsvík þætti ekki merkilegt í dag. Fyrsti áfanginn mun hafa verið skitin 30 þúsund tonn eða svo. Og framleiðslugetan rúmlega helmingi meiri eftir annan áfanga. Á árunum 1980-1997 var framleiðslugetan um 100 þúsund tonn. Sem kunnugt er getur álverið nú framleitt um 185 þúsund tonn árlega.

Eftir nokkrar breytingar á eignarhaldi komst Alusuisse í eigu kanadíska álfyrirtækisins Alcan árið 2000. Saga Alcan er löng og merkileg. Auk þess að reka álver stundar Alcan báxítvinnslu víða um heim.

Rio_Tinto_Alcan

Seint á síðasta ári (2007) var Alcan keypt af risafyrirtækinu Rio Tinto Group. Fyir litla 38 milljarða USD, sem mörgum þótti all hressilegt. Alcoa vildi reyndar líka eignast Alcan, en bauð "einungis" 28 milljarða dollara. Því fór svo að til varð Rio Tinto Alcan, sem er álarmur þessa námu- og iðnaðarrisa. Annars hefði kannski orðið til Alcoalcan.

Spurning hvort Rio Tinto hafi hugsanlega greitt full mikið fyrir bitann? Svona í upphafi niðursveiflu, sem gæti dregið úr eftirspurn eftir málmum. Og sé hugsanlega að lenda í fjárhagskröggum vegna kaupanna?

Rio Tinto Alcan er með aðalstöðvar sínar í Montreal í Kanada og er eitt af þremur stærstu álfyrirtækjum í heimi. Hin tvö eru auðvitað annars vegar Íslandsvinirnir í Alcoa og hins vegar ljúflingarnir hjá rússneska kvikyndinu Rusal. Rusal er rússneski risinn, sem hann Chelsea-Abramovich átti m.a. þátt í að stofna. Í rússnesku einkavinavæðingunni á síðasta áratug liðinnar aldar. Fjárans klúður að íslenska ríkið skyldi hvorki eiga Straumsvíkurverið né Norðurál í Hvalfirði. Hefði geta orðið skemmtileg einkavæðing! Ekki annað hægt en að sleika út um við tilhugsunina.

alcoa_logo

Já - Rio Tinto og Alcoa kepptust um Alcan. Og Alcoa tapaði þeim bardaga. En það skemmtilegasta er auðvitað það að eitt sinn í árdaga voru Alcan og Alcoa eitt og sama fyrirtækið. Þannig að Straumsvík og Reyðarál eru í reynd fjarskyldir ættingjar. Þó svo þau séu væntanlega svarnir óvinir í dag.

Þessi tvö af þremur stærstu álfyrirtækjum heimsins eru sem sagt bæði afsprengi sama snillingsins. Sá er bandaríski uppfinningamaðurinn og frumkvöðullinn Charles Martin Hall. Hall (1863-1914) var einn af tveimur mönnum, sem á nánast sama tíma fundu upp samskonar aðferð til að vinna ál úr málmblöndu (súráli) með hjálp rafmagns. Hinn var Frakkinn Paul Héroult (1863-1914).

Charles Martin Hall

Þessir tveir snillingar fæddust sama ár - og létust líka sama ár. Svolitið dularfullt og kannski hugmynd að Arnaldur Indriðason noti það í næsta þrillerinn sinn. Álvinnsluaðferðin er kennd við þá báða; Hall-Héroult aðferðin. Uppfinning þeirra er enn sá grunnur sem notaður er við álframleiðslu í dag. Myndin hér til hliðar er af Hall, sem er sagður hafa verið kominn á kaf í efnafræðitilraunir strax á barnsaldri.

Hall stofnaði Pittsburgh Reduction Company og hóf fyrirtækið álframleiðslu árið 1888. Viðskiptafélagi Hall var framsýnn, bandarískur bissnessmaður. Sá hét Alfred Hunt (1855-1899) og hefði líklega orðið einn að helstu iðnjöfrum heimsins ef hann hefði ekki látist langt um aldur fram.

Fyrirtæki þeirra félaganna byggði nokkrar álverksmiðjur í Pennsylvaníu og víðar. Og skömmu eftir aldamótin var nafninu breytt í Aluminum Corporation of America - og síðar stytt sem Alcoa.

Alcan_Alcoa

Eitt af dótturfyrirtækjum Alcoa nefndist Alcan. Það má rekja til þess að Alcoa stofnaði Aluminum Company of Canada. Sbr. hlutabréfið hér til hliðar. Alcan var sem sagt Kanada-armur Alcoa.

Allan fyrri hluta 20. aldar hafði Alcoa 100% markaðshlutdeild á bandaríska álmarkaðnum. Sem leiddi til einhvers frægasta samkeppnismáls þar í landi. Álmarkaðurinn óx hratt og að því kom að bandarískum stjórnvöldum ofbauð einokunarstaða Alcoa. Skömmu fyrir upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari var fyrirtækið kært fyrir ólögmæta einokun. Dómsmálið tók mörg ár og var afar umdeilt. Margir töldu Alcoa fórnarlamb eigin velgengni - fyrirtækið gæti ekki að því gert að ekkert annað álfyrirtæki gæti keppt við þá tæknilega séð. Þetta minnir kannski svolítið á stöðu Microsoft í dag.

Réttarhöldin urðu bæði löng og ströng. Stóðu yfir í meira en hálfan áratug og lengi vel leit út fyrir sigur Alcoa. En lokaorðið hafði dómari að nafni Learned Hand (mætti etv. útleggjast sem Lærða Hönd!). Þetta er einhver þekktasti og jafnframt umdeildasti dómurinn í bandarísku samkeppnismáli.

learned_hand

Málið kom til kasta Learned Hand eftir að flestir dómarar í Hæstarétti Bandaríkjanna höfðu lýst sig vanhæfa. Hand byggði niðurstöðu sína á því að hann taldi Alcoa hafa beitt sér í því skyni að koma í veg fyrir mögulega framtíðarsamkeppni. Margir hafa gagnrýnt niðurstöðuna. Það er staðreynd að ný álfyrirtæki voru að koma fram á sjónarsviðið og ekki varð séð að Alcoa hefði aðhafst neitt gegn þeim. Nýju álverin voru reyndar einkavædd álver, sem stjórnvöld höfðu byggt í stríðinu, og Alcoa fékk ekki að kaupa þrátt fyrir að tæknin kæmi frá þeim.

Kannski stóð mat Hand's á veikum grunni. Orkubloggið ætlar ekki að kveða upp úr með það. En hann Learned Hand þykir engu að síður einn merkasti dómari sem Bandaríkin hafa átt. Þó svo aldrei yrði hann hæstaréttardómari. Í kjölfar dómsins varð Alcan sjálfstætt fyrirtæki árið 1950 og ekki lengur í eigu Alcoa. Tækniframfarir á 6. áratugnum urðu svo til þess að ný álfyrirtæki náðu að vaxa og skapa nýja samkeppni i áliðnaðinum.

Enn sem fyrr eru Alcoa og Alcan meðal stærstu álrisanna. Reyndar mátti litlu muna, að árið 2007 væri saga Alcoa og Alcan komin í hring. Þá gerði Alcoa tilraun til að eignast Alcan á ný og ætlaði sér þannig að koma á fót stærsta álfyrirtæki í heimi.  En Rio Tinto hafði betur, eins og lýst var hér að ofan. Og eignaðist Alcan - og álverið í Straumsvík. Skemmtilegt.

Marius_Kloppers

Og þá er komið að ofurrisanum; BHP Billiton. Nú vill BHP Billiton eignast Rio Tinto. Með húð og hári. Og þar með Alcan. Og Straumsvík. Þetta yrði reyndar gert með hlutabréfaskiptum.

BHP Billiton er einfaldlega eitthvert stærsta námafyrirtæki í heimi. Þar ræður ríkjum ljúflingurinn Marius Kloppers, sem var skipaður forstjóri fyrirtækisins á síðasta ári, aðeins 44 ára. Gaman að segja frá því að áður var Kloppers í vinnu hjá Suður-Afríska fyrirtækinu Sasol. Sem Orkubloggið hefur áður sagt frá og er eitt af þeim fyrirtækjum, sem eru að skoða nýja möguleika í eldsneytisframleiðslu.

Enn er ekki útséð um það hvort BHP Billiton eignist Rio Tinto Group. Stjórn Rio Tinto hefur staðið gegn sameiningunni, en engu að síður hafa samkeppnisyfirvöld í Ástralíu og Evrópusambandinu skoðað málið. Menn hafa ekki síst áhyggjur af því að sameining þessara tveggja námurisa gefi þeim samkeppnishamlandi aðstöðu í járngrýtisiðnaðinum.

BHP Billiton logo

Í dag eru þrjú fyrirtæki lang stærst í þeim bransa. Og eru samtals með um 70-75% markaðshlutdeild. Þetta eru BHP Billiton með 15%, Rio Tinto með 25% og brasilíska námatröllið Vale do Rio Doce með 30-35% (glöggir lesendur Orkubloggsins kannast við þetta brasilíska kompaní, frá eldri færslu).

Horngrýtis járngrýtið. Vandamál samkeppnisyfirvalda er að ákveða hvort það sé betra eða verra fyrir samkeppnina að einn eða tveir járnrisar berjist við snaróða Brasilíumennina. Sem sagt; tveir stórir eða þrír stórir - hvort er betra?

Reyndar er verið að hvísla að manni núna, að á morgun verði bara tveir bankar á Íslandi. Skyldi Samkeppnisstofnun vera með á næturfundum í Ráðherrabústaðnum? Á meðan við bíðum eftir fréttum þaðan, bíða stálframleiðendur um allan heim skjálfandi á beinunum eftir því hvort samkeppni járnframleiðenda eigi enn eftir að minnka. Það er svo sannarlega vandlifað víðar en á Klakanum góða nú um stundir. 


mbl.is Heimila samruna BHP Billitons og Rio Tinto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil gleði í Mosdalnum

Carbon_Price_300908

Rétt eins og forstjóra kjarnorkuversins fallega í Springfield, Mr. Burns, gleður það mitt svarta hjarta að álverin á Íslandi skulu nú hafa fengið þennan góða ríkisstyrk. Ókeypis losunarheimildir upp á rúm 700 þúsund kolefniskredit. Enda vart hægt að ætlast til þess að smásjoppur eins og Alcoa, Century Aluminum eða Rio Tinto  þurfi að borga fyrir koldíoxíðlosunina. Svona til samanburðar má sjá hvað kolefniskreditin hafa verið seld á annars staðar í Evrópu síðustu vikurnar. Á grafinu hér til hliðar. Verðið er i evrum pr. tonn.

Aluminum_Producers

Rio Tinto er stærsti álframleiðandi heims og Alcoa er í þriðja sæti (Rusal er þarna á milli). Og CO2 er nú einu sinni lífsnauðsynlegt fyrir ljóstillífun. Sem endar svo á súrefnisframleiðslu til handa okkur og öðrum dýrum náttúrunnar. Eiginlega ættum við að borga þeim fyrir þessi góðverk, að losa svona mikið koltvíildi lífríkinu til handa.

Hluthafar Alcoa, Rio Tinto og Century Aluminum ættu nú samt að hafa eitt í huga. Og um leið jafnvel hugsa hlýlega til okkar Íslendinga. Á markaðnum er verðmæti þessara losunarheimilda, sem fyrirtækin hafa nú fengið afhentar, rúmar 16 milljón evrur. Miðað við gengi gærdagsins á evrópska kolefnismarkaðnum í London.

Það jafngildir um 2,4 milljörðum af íslenskum krónuræflum. Þar af fékk Norðurál sem samsvarar verðmæti 1,8 milljarða króna. Býst við að þeir setji eitthvað af þeim fjármunum í... t.d. uppbyggingu á metanólframleiðslu á Íslandi. Og hananú. Þá væri kerfið a.m.k. að gefa eitthvað vitrænt af sér.

Simpsons_Burns

Já - þetta var fallega gert af henni Siggu bekkjarsystur minni úr lagadeild og öðrum í Úthlutunarnefnd losunarheimilda. Og það er aldeilis fínn bisness að byggja álver á Íslandi. Ókeypis losunarheimildir og ríkisstyrkt orkuframleiðsla. Mér er sagt að þetta kallist íslenskur kapítalismi. Og nú síðast höfum við á ný fengið okkar eigin ríkisbanka. Marteinn Mosdal hlýtur að vera himinlifandi. Jafnvel enn glaðari en Mr. Burns.

Svona til gamans má nefna að í Bandaríkjunum - landinu sem ekki er aðili að Kyoto-bókuninni og ber þar af leiðandi engar lagalegar skuldbindingar til að stýra losun á CO2 eða öðrum s.k. gróðurhúsalofttegundum -  var einmitt verið að halda fyrsta uppboðið á losunarheimildum.

Þar á uppboðinu á vegum Regional Greenhouse Gas Initiative, voru í síðustu viku seld 12,5 milljón kolefniskredit á samtals 38,5 milljón USD. Sem gera um 3 dollara fyrir tonnið. Það er auðvitað miklu lægra verð en er í Evrópu (úps - ég meina í Evrópu utan Íslands). Enda um að ræða markað sem ekki er háður alþjóðlegum reglum. Samt enn betra að vera á Íslandi. Þar sem stöffið fæst frítt.

rggi_logo

PS: Lesa má um bandariska kolefnislosunarkerfið og uppboðið hér:  www.rggi.org


mbl.is Þrjú fyrirtæki fá losunarheimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kviksyndi

Palin_Cover

Orkubloggið hefur auðvitað alltaf rétt fyrir sér. Eins og þegar bloggið hafnaði því að olíuverðið gæti farið undir 100 USD tunnan. Með þeim ljúfa fyrirvara, að ef það myndi gerast, þýddi það einungis eitt: Að djúp kreppa væri að skella á Bandaríkjunum.

Tunnan var undir hundraðinu í morgun. En er nú... að slefa í 101 dollar. Fáránlega lágt verð. Enda allt að fara fjandans til þarna fyrir westan. Skemmtilegast væri auðvitað ef Bandaríkjamenn kjósa Alaskabeibið fyrir forseta (McCain tórir varla lengi). Þá myndu villtustu blautu draumar olíufyrirtækjanna loksins rætast. Hún Sarah Palin frá krummaskuðinu Wasilla, vill nefnilega láta bora sem allra víðast í Alaska. Og ekkert náttúruverndarkjaftæði. God bless America.

Nú reynir á hvort Bandaríkjaþingi takist að henda út björgunarhringnum. Sem mun líklega tryggja að olían fari aftur vel yfir 100 dollara múrinn. Svo olíufyrirtækin geti fagnað á ný. En allt er þetta auðvitað gert til að vernda almenning. Rétt eins og björgun Glitnis.

Svo virðist sem íslenski fjármálageirinn sé jafnvel lentur i enn verra kviksyndi en sá bandaríski. Og kviksyndin leynast víða. Ef olían sekkur, mun endurnýjanlega orkan líka sökkva. Því það verður einfaldlega vonlaust fyrir vindorku eða sólarorku að keppa við 50 dollara olíutunnu.

Og reyndar eru ölduvirkjanirnar strax byrjaðar að sökkva. Í orðsins fyllstu merkingu. Það fór nefnilega svo að flotta risabaujan þeirra hjá Finavera Renewables barrrasta sökk eins og steinn. Niður a botn Kyrrahafsins. Þar fóru 2 milljónir dollara í súginn. Soldið spælandi.

wave_finavera-buoys

Reyndar er þetta kannski heldur kjánaleg tenging hjá Orkublogginu. Því óhappið hjá Finavera hefur nákvæmlega ekkert með kreppu að gera. Og gerðist þar að auki í september... fyrir ári!

Fyrirtækið Finavera Renewables í Vancouver í Kanada hefur gert það nokkuð gott í vindorkunni. Og hefur einnig verið að þreifa fyrir sér með þróun ölduvirkjana. Nú síðast hafa þeir verið að hanna ölduvirkjun, sem á að samanstanda af nokkrum risastórum hólkum í sjónum. Sem stinga kollinum upp úr, eins og sjá má á myndinni.

Það er súrt í broti að horfa á hina yfirþyrmandi orku hafsins fara í súginn. Í stað þess að virkja hana. Menn hafa auðvitað reynt það með ýmsu móti. Bæði með sjávarfallavirkjunum og virkjunum sem nýta ölduorkuna eða öllu heldur orkuna í hreyfingu hafsins.

wave_finavera_aquabuoy-2

Hjá Finavera hafa þeir hannað þennan hólk, sem er um 25 m langur og flýtur lóðréttur í sjónum. Í hólknum er sjór og þegar hólkurinn hreyfist upp og niður vegna hreyfingar hafsins, myndast þrýstingur. Þegar hann nær ákveðnu marki spýtist sjórinn eftir röri og knýr túrbínu.

Það er eitthvað við þessar ölduvirkjanir sem mér finnst ekki alveg nógu traustvekjandi. En aðrir trúa á þessa tækni. Enda orkan þarna óþrjótandi og gjörsamlega laus við mengun eða neikvæð umhverfisáhrif. Markmiðið er að hver "orkubauja" geti framleitt 250 kW (0,25 MW). Til stendur að virkjun samanstandi af slatta af svona orkubaujum, sem kallaðar eru Aquabuoy, og verði samtengdar.

Finavera_chart

Orkudreifingarfyrirtækið Pacific Gas & Electric í Kaliforníu hefur samið við snillingana hjá Finavera um að kaupa orkuna frá þeim. Og virkjunin á að vera tilbúin 2012. Í fyrrasumar var tilraunabauju komið fyrir út af strönd Oregon. En þvi miður fór það svo að þessi 40 tonna baujuskratti einfaldlega sökk eftir aðeins tvo mánuði. Líklega út af bilun í flotholtum. Og þá hafði enn ekki náðst 250kW framleiðsla.

Lítið hefur heyrst af Aquabuoy síðan þá. En ef menn vilja vera með í þessu, þá má kaupa hlutabréf í Finavera í kauphöllinni í Toronto. Eins og sjá má eru bréfin nánast ókeypis þessa dagana. Grafið hér að ofan sýnir verðþróunina siðustu 12 mánuðina. 

Hér er loks kynningarmyndband um þetta ævintýri. Sem vonandi rætist:

 

 


mbl.is Fréttaskýring: Klúður í kappi við tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr öskustónni...

Þetta er óneitanlega búin að vera mikil dramatík síðustu dagana í islenska fjármálakerfinu. Nú er bara að sjá hvort þessir 84 milljarðar ISK, sem ríkið setur í Glitni, brenni líka upp. Því fjármálakreppan er langt í frá búin. Rétt í þessu var Bandaríkjaþing að fella frumvarpið um innspýtingu ríkisins þar. Úff, úff.

En hvað tekur við á Klakanum góða? Áttum við ekki að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð? Verðum við nú barrrasta að halda áfram í álinu og slorinu? Hver skollinn.

Dimethyl-ether

Orkubloggið er að sjálfsögðu með svarið. Hér á blogginu hefur mikið verið fjallað um vöxtinn sem á eftir að verða næstu árin um allan heim í endurnýjanlegri orku. Orkubloggið hefur einnig minnt á að þessi gríðarlegi vöxtur í t.d. vindorku og sólarorku er bara hreinir smámunir í heildarorkudæminu. Það sem máli skiptir næstu áratugina er sem fyrr; olía, gas og kol. Og kjarnorka. Hitt stöffið er bara peanuts.

Staðan er einfaldlega þessi: Það sem þarf að gera er að brúa bilið milli núverandi orkugjafa og orkugjafa framtíðarinnar. Umbreytingin frá brennslu jarðefnaeldsneytis yfir í græna orku verður bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Brúin þarna á milli gæti falist í því að nýta kolefnislosunina til að framleiða eldsneyti. Í dag er nefnilega til staðar tækni til að umbreyta koldíoxíði yfir í fljótandi eldsneyti, sem hentar t.d. skipum og bílaflotanum. Og í dag er unnt að nýta þessa tækni til að framleiða slíkt eldsneyti á samkeppnishæfu verði. Svo sem með framleiðslu á metanóli eða DME (dimethyl ether). 

Carbon_Recycle

Þetta er engin framtíðarmúsík. Heldur raunverulegur valkostur.  Auðvitað hljóta menn að spyrja af hverju í ósköpunum þetta hefur þá ekki löngu verið gert? Svarið er einfaldlega það að til að fyrirtæki fjárfesti í framleiðslu á þessu eldsneyti, þarf ríkisvaldið fyrst að huga að öllu skatta- og rekstrarumhverfinu. Allur orkugeiri heimsins er í viðjum ríkisafskipta. Flest ríki t.d. í Asíu eyða svimandi fjárhæðum til að niðurgreiða bensín og olíu til almennings og fyrirtækja. Í Bandaríkjunum, mesta orkubruðlara heimsins, nýtur olíugeirinn sérstaks velvilja. Meðan endurnýjanlegi orkugeirinn þarf ár eftir ár að berjast fyrir smávægilegum skattalækkunum sér til hagsbóta.

Þetta snýst sem sagt allt um pólítiskan vilja. Nú er einstakt tækifæri fyrir íslenska stjórnmálamenn að gera eitthvað af viti. Og setja löggjöf sem hvetur til fjárfestinga í metanólframleiðslu. Bæði Hitaveita Suðurnesja og Century Aluminum eru að skoða þessa möguleika. Nú ætti Össur iðnaðarráðherra vor að taka af skarið og smella fram frumvarpi, sem fær Ísland til að rísa úr öskustó efnahagshruns. Og gera Ísland nánast óháð innfluttum orkugjöfum. Það er nánast öruggt að ESB myndi hrífast með. En þar á bæ þurfa menn góða fyrirmynd. Svo þeir trúi að hugmyndin sé framkvæmanleg. Ísland getur orðið sú fyrirmynd.


mbl.is Baksvið: Gömlu einkabankarnir ríkisvæðingu að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband