Ætti að fara niður... en fer kannski upp

Undanfarið hefur Orkubloggið ýjað að því að snögg verðlækkun á olíu kunni að vera í spilunum. Kannski.

Cartoon_economic_crisisRökin þar að baki eru einkum þau að nú séu svo miklar uppsafnaðar olíubirgðir til staðar að verðið hljóti að gefa eftir.

En nú hafa skyndilega birst blikur á lofti. Í stað þess að lækka hressilega kann olíuverð þvert á móti að æða upp. Bandaríkjastjórn virðist vera að herða á afstöðu sinni gagnvart kjarnorkuáætlun Írana. Íran er ekki aðeins einn mesti olíuframleiðandi heims, heldur liggur landið að Persaflóa og spenna á svæðinu hefur því áhrif á allan olíuiðnaðinn við Flóann. Og þar með heimsmarkaðsverð á olíu.

Það gæti því verið alröng stefna að taka upp á því núna að sjorta olíu. Þvert á móti eru sumir strax farnir að finna blóðþefinn. Samsæriskenningasmiðirnir eru margir orðnir handvissir um að bandarísk stjórnvöld ætli sér að gefa blessuðum olíufyrirtækjunum ljúfa uppsveiflu á Wall Street. Með því að bregðast harðar við ögrunum Íransforseta og draga sverðin úr slíðrum.

Iran-president-finger-2Vaxandi líkur á átökum við Írani munu samstundis þrýsta olíuverði upp á við. Og um leið myndi eftirspurn væntanlega aukast eftir hlutabréfum í vestrænu olíufyrirtækjunum. Þeir sem nú vilja leggja allt að veði með svo ljómandi glöðu geði, ættu kannski að stökkva í olíusundlaugina. Með þá von í brjósti að eftir örfáa mánuði geti þeir baðað sig í stjarnfræðilegum ágóðanum.

Ef, ef, ef... Er þetta ekki barrasta alveg yndisleg óvissuveröld?


Afleitar afleiður?

Orkubloggarinn hefur undanfarnar vikur furðað sig á miklu bjartsýnistali í fjölmiðlum um allan heim, þess efnis að kreppan hafi náð botni.

Oil_burning_familyVelta má fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar ómeðvituð sameiginleg ákvörðun manna um að tala viðskiptalífið upp úr kreppunni. Vonandi að svo sé ekki - vonandi er kreppan í alvöru á undanhaldi. En hættumerkin eru samt víða.

Víðskiptalíf veraldar beið spennt eftir því hvað myndi gerast á G20  fundinum vestur í Pittsburgh nú í vikunni. Yrði niðurstaðan vonbrigði gætu hlutabréfavísitölurnar lent í enn einni slæmri dýfu. Og olíuverð jafnvel hrunið.

Í fjármálabransanum eru margir sem telja að núverandi eftirspurn eftir olíu gefi ekki tilefni til hærra verðs en um 35 dollara. Samt hefur tunnan verið að dansa kringum 70 dollarana. Í hópi svartsýnismanna eru sem sagt margir sem telja að olíuverðið núna sé í reynd helmingi hærra en eftirspurnin gefi tilefni til. Og að ástæðan sé óhófleg bjartsýni spákaupmanna. Sádarnir hafi hreinlega dottið í lukkupottinn að fá verðið svo hátt á ný.

derivatives_1Þeir hinir sömu eru sannfærðir um að nú sé farin að spýtast olía út á samskeytunum í öllum birgðageymslum heimsins. Allt sé orðið stútfullt og það eina sem sé framundan sé fallandi olíuverð.

Lækkandi olíuverð yrði þó ekki vandamál fyrir okkur í vestrinu. Efnahagslífið tæki því að sjálfsögðu fagnandi - þó svo Norðmenn myndu auðvitað verða svolítið súrir á svipinn. Og slíkt verðfall yrði að líkindum nokkuð fljótt að ganga yfir. Til lengri tíma litið eru líkurnar á 90 dollara olíutunnu mun meiri en minni.

Nei - olían er ekki aðal áhyggjuefni dagsins. Það sem viðskiptaforkólfar á Vesturlöndum ættu að óttast mest þessa dagana er hinn risastóri afaleiðumarkaður. Að hann lendi senn í þvílíku niðurstreymi, að hann dragi okkur öll í ennþá dýpra drullusvað. Veikustu hlekkirnir núna á afleiðumörkuðunum eru af mörgum sagðir vera annars vegar hinn risastóri markaður þar sem veðjað er á vaxtakjör og hins vegar afleiður þar sem menn veðja á gjaldmiðlasveiflur.

Derivatives_1987-2007

Afleiðumarkaðir hafa á örfáum árum þanist út með ógnarhraða. Spilapeningarnir á þessum markaði eru því miður raunverulegir peningar sem hafa að stórum hluta verið fengnir að láni. Ef illa fer getur tapið orðið geigvænlegt og gert öflug fjármálafyrirtæki gjaldþrota í einni svipan.

Nærtækasta dæmið um alvarlegar afleiðingarnar misheppnaðra afleiðuviðskipta, er hrun bandaríska tryggingarisans AIG  fyrir nánast sléttu ári síðan. Fyrirtækinu var reyndar forðað frá gjaldþroti - en til þess þurfti ríkisvaldið að leggja AIG litla 85 milljarða dollara.

Ekki er víst að dollarinn þyldi nýja holskeflu af afleiðuhruni hjá bandarískum risafyrirtækjum. Það er umhugsunarvert að stjórnvöld í Bandaríkjunum og annars staðar skuli hafa leyft þessum viðskiptum að byggjast upp í jafn gríðarlegu magni og raunin varð. Vísir menn segja að heildarmarkaðurinn fyrir afleiður sé nú um 600 þúsund milljarðar dollara (600 trilljónir dollara). Sem er margfalt verðmæti allra hlutabréfa og skuldabréfa í heiminum og ku jafngilda næstum tífaldri þjóðarframleiðslu í heiminum öllum!

cartoon_derivatives_bankruptcyAfleiður geta verið snilldar fyrirbæri og t.d. hjálpað fyrirtækjum að forðast mikla áhættu í rekstri. En segja má að hver einasti afleiðusamningur skapi nýja áhættu á móti þeirri sem er takmörkuð - og geggjað umfang afleiðuviðskipta gerir það að verkum að öll yfirsýn hefur glatast og afleiðingar þess eru ófyrirséðar.

Fjármálaáhættan sem þetta skapar er nánast út fyrir mannlegan skilning. Og kannski vafamál að leiðtogar G20 ríkjanna geti gert nokkurn skapaðan hlut til að varna því að afleiðuhamfarir skelli á okkur - fyrr eða seinna. Þó svo þeir hafi vissulega reynt að nálgast þennan vanda, sbr. það sem segir undir tölulið 13 í yfirlýsingu  fundarins. Reyndar þykir hjátrúarfullum það eflaust afleitt að afleiðuályktunin komi undir tölulið nr. 13!

Spurningin er kannski bara hvort verði fyrr; afleiðuhrunið eða skuldabréfahrunið.


Drekinn mun snúa aftur

Er þetta í alvöru rétti tíminn að bjóða út leit á Drekasvæðinu? Tæplega."

Þannig sagði í einni færslu Orkubloggsins í janúar s.l. Bloggarinn taldi lágt olíuverð geta valdið áhugaleysi á Drekasvæðinu. Þó svo verðið hafi hækkað nú í sumar er samt ennþá mikil óvissa á markaðnum, þ.a. þessi röksemd er enn ekki orðin marklaus. Í febrúar bætti Orkubloggið um betur og varaði við því að fjármálakreppa væri afleitur tími fyrir slíkt útboð. Þar að auki væru óraunsæjar skattareglur í íslensku útboðsskilmálunum mögulega til þess fallnar að draga úr áhuga öflugra olíuleitarfyrirtækja á svæðinu. Sem sagt væri margt sem mælti með því að slá útboðinu á frest.

Aker_Sagex_logoSvo fór að einungis tvær umsóknir um leitarleyfi á Drekasvæðinu bárust áður en umsóknarfresturinn rann út í maí. Báðar frá minni spámönnum úr bransanum. Þegar það lá fyrir benti  Orkubloggið á að hvorugur umsækjendanna gæti talist áhugaverður. Og óneitanlega fylltist bloggarinn talsverðri kjánatilfinningu þegar iðnaðarráðherra lýsti  yfir ánægju sinni með niðurstöðuna og talaði um „stóran dag í íslenskri orkusögu". Þegar öllum sem til þekktu mátti vera ljóst að niðurstaða útboðsins var einfaldlega gríðarleg vonbrigði. En kannski var henni Katrínu Júlíusdóttur vorkunn; svona eiga pólitíkusar líklega að tala og fylla fólk bjartsýni á erfiðum tímum. Sannleikurinn er oft óttalega leiðinlegur.

Í sumar dró annar umsækjandinn umsókn sína til baka. Það var því miður áhugaverðari umsækjandinn; Aker Exploration. Og hefur hinn umsækjandinn sömuleiðis dregið sína umsókn til baka. Það var reyndar alltaf augljóst að Sagex  hefði vart nokkra burði til að fara í raunverulega olíuleit á Drekasvæðinu nema með aðkomu öflugra samstarfsaðila. Umsókn þeirra hjá Sagex var því frá upphafi afar veik og hefði væntanlega verið hafnað.

Áhugaleysið á Drekasvæðinu er m.a. komið til vegna alls þess sem Orkubloggarinn hafði varað við. Of háir skattar, erfitt árferði í að fjármagna leit á nýjum og áhættusömum olíusvæðum og óvenjumikil óvissa um þróun olíuverðs. Af samtölum sínum við hátt sett fólk hjá nokkrum öflugustu olíufyrirtækjum heims í djúpvinnslubransanum, verður bloggarinn þó að bæta hér einni ástæðu við: Allt of lítilli kynningu á Drekasvæðinu.

DrekasvaedidÁ allra síðustu árum hafa opnast möguleikar til olíuleitar á mörgum nýjum og mjög áhugaverðum olíusvæðum. Drekasvæðið er nýtt og lítt þekkt og er í samkeppni við ýmis önnur svæði þar sem leitaráhættan er mun minni og líkur á góðum ávinningi miklu meiri. Þar má t.d. nefna olíusvæðin utan við strendur Angóla og víðar við Vestur-Afríku, svæði í Kaspíahafi og í utanverðum Mexíkóflóa.

Til að vekja áhuga alvöru fyrirtækja í djúpvinnslubransanum þarf einfaldlega miklu meiri og betri kynningu á svæðinu. Stjórnvöld verða að horfast í augu við það að slíkt er bæði tímafrekt og kostar peninga. Það er út í hött að halda að menn geti fengið fyrirtæki til að leggja milljarða í olíuleit á Drekanum með nokkrum power-point kynningum á fáeinum olíuleitarráðstefnum. Þetta er erfið þolinmæðisvinna.

Hugsanlega hafa menn hér heima blindast af góðærinu, þegar þeir voru að undirbúa Drekaútboðið. Og haldið að Drekinn væri í augum allra æsispennandi - beztur í heimi - ekki síst þegar olíuverð rauk í næstum 150 dollara um mitt ár 2008.

Hvað um það. Verum ekki að nöldra yfir fortíðinni. Enda fyllsta ástæða til að brosa. Það er í reynd miklu betri niðurstaða að ekkert leitarleyfi sé gefið út á Drekasvæðinu, heldur en að gefa út leyfi til fyrirtækis sem myndi klúðra leitinni. Það hefði verið versta niðurstaðan.

Katrin_Juliusdottir_2Nú geta iðnaðarráðherra og Orkustofnun stokkað spilin upp á nýtt og horft björtum augum fram á veginn. Lært af reynslunni og undirbúið ennþá vandaðra útboð. Útboð sem mun skila alvöru umsækjendum, sem hafa mikla reynslu af olíuleit og vinnslu á erfiðum og djúpum hafsvæðum.

Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld m.a. að gæta þess að tímasetja útboðið vel. Þarna þarf bæði þekkingu og útsjónarsemi. Skynsamasti kosturinn væri auðvitað að ráða Orkubloggarann til að skipuleggja það ferli!


Ylurinn frá Saudi Arabíu

Sádunum tókst að koma olíuverðinu aftur upp í 70 dollara. Með því að draga hressilega úr framleiðslunni. Þetta verð er viðmiðunin þeirra - ef verðið er lægra lenda þeir í halla á ríkissjóði. Svo bíða þeir bara eftir að kreppunni linni og munu þá horfa í að fá a.m.k. 90 dollara fyrir tunnuna.

al_naimi_bangHvatarnir að baki 70 dollara olíuverði eru reyndar margbreytilegri og flóknari en svo að þetta sé bara undir Sádunum komið. Olíuverð ræðst ekki bara af framleiðslumagni Sádanna og hinna ljúflinganna í OPEC. Inn í þetta spila fjölmörg önnur atriði; ekki síst sveiflur á dollar gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum og svo einnig hinn ægilega sveiflukenndi áhrifavaldur; spákaupmennskan!

Víða er fullyrt að það sé fyrst og fremst spákaupmennska sem valdi því að olíuverð hefur hækkað svo hressilega á ný. Það var komið niður í um 30 dollara tunnan fyrir nokkrum mánuðum Mögulegar ástæður fyrir miklum áhuga spákaupmanna á olíu nú um stundir eru eflaust af ýmsum og mismunandi toga. Sumir þeirra eru að veðja á að kreppunni muni brátt ljúka og olíueftirspurn þá aukast hratt með tilheyrandi verðhækkunum. Aðrir óttast verðbólgu og telja þess vegna sé best að koma aurunum sínum í hrávöru svo þeir brenni ekki á verðbólgubáli. T.d. setja peninginn í gull... eða olíu.

En hvað gerist ef snögglega mun draga úr ótta við verðbólgudrauginn? Eða upp komi vísbendingar um að enn sé langt í almennilegan efnahagsbata? Í báðum tilvikum gæti olíverð hreinlega hrunið. Í 30 dollara, 20 dollara, 10 dollara... Það er ekki víst að Sádarnir gætu gripið nógu fljótt inn í; það tekur dágóða stund að minnka framboðið til að vega upp á móti hratt lækkandi olíuverði. Þess vegna gæti olíuverð lækkað mikið og snögglega.

Saudi_Arabia_Oil_ShaybahFæstir virðast þó trúaðir á slíkt verðfall. Í flestum nýlegum könnunum þar sem „sérfræðingar" eru spurðir um olíuverð árið 2010 eru algeng meðaltöl í ágiskunum „sérfræðinganna" á bilinu 70-75 dollarar.

Orkubloggarinn er á því að þarna séu menn reyndar heldur bjartsýnir um stöðu efnahagsmála. Batinn í Bandaríkjunum er hugsanlega of hægur til að réttlæta núverandi verð. Og þar að auki er Kína ennþá með snert af efnahags-hiksta. Vissulega bendir tölfræðin til þess að Kína sé að rétta úr kútnum. En vegna þess hversu ástandið er viðkvæmt myndi Orkubloggarinn fremur veðja á að meðalverð olíu 2010 verði undir 70 dollurum. Nema ef Sádarnir draga meira úr framleiðslunni.

Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Óvissuþættirnir eru óteljandi. En það er athyglisvert að olíutunna upp á 70-90 dollara hefur þau áhrif að að draumurinn um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er fjær en nokkru sinni. Olíuverð yfir 50 dollara - tala nú ekki um 70 eða 90 dollara - gerir það nefnilega hagkvæmt að framleiða olíu úr ýmsum öðrum kolvetnisgjöfum. Jafnvel þó svo það sé orkufrek og dýr framleiðsla. Með olíverð hátt yfir 50 dollurum eins og nú er, er að verða ansið líklegt að senn muni framleiðsla á t.d. olíu úr kolum aukast umtalsvert. Hvernig heimurinn ætlar að höndla þá þróun og minnka kolefnislosun um leið, er vandséð.

Sasol_synfuelEn kannski skiptir litlu hvaða hagsmunir muni ná yfirhöndinni: Að Sádarnir fái sína 70 dollara fyrir tunnuna og ýti óvart um leið undir meiri framleiðslu á synfuel  og meiri losun gróðurhúsalofttegunda - eða að olíuverðið haldist lágt sem mun koma hjólum efnahagslífsins betur í gang með tilheyrandi aukningu á losuninni. Sama hvernig olíuverðið þróast mun kolvetnisbruni fara vaxandi. Við losnum aldrei við ylinn frá Sádunum og erum í reynd öll pikkföst í spennitreyju olíu, kola og gass.


First Solar á fyrsta farrými í Kína

Sólskinsvinur Orkubloggsins, bandaríski þunnselluframleiðandinn First Solar, er á blússandi ferð. Nú síðast voru þau hjá First Solar að að semja við Kínverja um að byggja risastórt sólarorkuver austur í Innri-Mongólíu.

PV_Solar_ValleyÞar mun First Solar leggja til sólarsellur upp á heil 2 þúsund MW. Þrjár Kárahnjúkavirkjanir úr sólarsellum! Kínverjana munar ekki um það. Soldið magnað þegar haft er í huga að rafmagn með sólarsellum kostar svona circa fimm sinnum meira heldur en ef rafmagnið er fengið með vatnsaflsvirkjun.

Kínverjarnir láta ekki svoleiðis smámuni vefjast fyrir sér. Enda vita þeir að í framtíðinni munu þeir lenda í stórkostlegri orkukreppu ef þeir draga lappirnar. Þeim er einfaldlega lífsnauðsynlegt að finna lausnir í orkumálum. Eina leiðin til þess er að prófa alla kosti og sjá hvað virkar best. Og ef framleiðslukostnaður á sólarsellum minnkar um 50% á hverju 5 ára tímabili næstu 20 árin eða svo, verður ekki amalegt að vera kominn með góða reynslu í að reisa stór sólarsellu-orkuver.

Samt vaknar sú spurning hvort þarna sé verið að skjóta hressilega yfir markið. Og taka óþarfa áhættu. Þetta verður stærsta sólarorkuver heims og með næstum því jafnmikla framleiðslugetu eins og allar virkjanir á Íslandi eru með samanlagt! Það væri ekki séns að reisa slíkt orkuver neins staðar annars staðar í heiminum en í Kína. Alger miðstýring raforkukerfisins er forsenda þess að svona orkuver eigi möguleika að lifa af í samkeppni við hefðbundna raforkuframleiðslu. Bæði hvað snertir verð og dreifingu. Aðkoma og algert vald stjórnvalda er einmitt megin ástæðan fyrir því að bæði sólarorkufyrirtækin og vindorkufyrirtækin liggja slefandi fyrir Kínverjunum. Þar eru lang mestu möguleikarnir fyrir þessa sniðugu en dýru tegund af rafmagnsframleiðslu. Ekki bara vegna fólksfjöldans heldur fyrst og fremst vegna þess að þarna ríkir alger miðstýring í orkugeiranum. Þess vegna segja bandarísku kapítalistarnir sem kaupa hlutabréfin í First Solar og GE Wind: „Guð blessi kommúnismann í Kína".

Ordos_desertNánar tiltekið á þetta gríðarstóra sólarorkuver að rísa við borgina Ordos  í nágrenni við Ordos-eyðimörkina í Innri-Mongólíu. Orkubloggarinn getur vitnað um að Innri-Mongólar eru afar meðvitaðir og stoltir af uppruna sínum. Ein bekkjarsystir bloggarans úr MBA-bekknum í Köben var einmitt frá þessu merkilega héraði á mörkum Kína og Mongólíu. Hvort hún He Mi er spennt fyrir þessu sólarorkuveri í sínu heimahéraði er svo allt annað mál.

Planið er að fyrsti áfangi versins verði 30 MW og honum verði lokið jafnvel strax á næsta ári (2010). Áfangar 2-4 hljóða svo upp á 100 MW, 870 MW og 1.000 MW og þetta á allt að verða risið innan áratugar eða árið 2019. Sala á raforkunni verður tryggð með niðurgreiðslum frá stjórnvöldum. Vonandi að rykið frá eyðimerkur-sandstormunum stúti ekki þessum laglegu sólarsellum.

Vegna stærðarinnar á þessu rosalega sólarorkuveri, er First Solar nú að spekúlera í að reisa sólarselluverksmiðju við Ordos. Samtals þarf hátt í 30 milljón þunnsellur í þetta ljúfa dæmi og heildarflatarmál landsvæðisins undir þær allar verður litlir 65 ferkm. Það slagar í stærð Þingvallavatns - eða er réttara sagt rúmlega 3/4 af flatarmáli vatnsins. Svona til viðmiðunar.

Michael_ Ahearn_First_SolarMichael Ahearn, sem ennþá er forstjóri First Solar þrátt fyrir margboðaðar breytingar þar á, er eðlilega drjúgur yfir þessum samningi við Kínverjana. Í reynd er þó einungis um viljayfirlýsingu að ræða. Og eins og Húsvíkingar vita manna best er svoleiðis plagg varla pappírsins virði. Það er sem sagt ennþá allsendis óvíst að eitthvað verði úr þessum metnaðarfullu áformum um risastórt sólarsellu-orkuver í Innri-Mongólíu.

Enda er þetta kannski álíka kjánaleg - eða jafngóð - hugmynd eins og risastórt álver við Húsavík. Það skemmtilegasta er auðvitað að báðar þessar hugmyndir byggja á því að bygging orkuvera í þessum tveimur löndum - Kína og Íslandi - hefur lítið með venjuleg viðskiptalögmál að gera. Heldur er um að ræða pólitískar ákvarðanir sem aðallega byggjast á niðurgreiðslum stjórnvalda og þar með almennings. Bæði íslenskum og kínverskum pólitíkusum finnst það bráðsnjöll hugmynd að taka rándýrar ákvarðanir um virkjanir eða rafmagnssölu, sem almenningur situr uppi með.

Nú er upplagt fyrir lesendur Orkubloggsins að opna veðbanka: Hvort mun rísa fyrr; sólaraselluverið við Ordos eða álverið við Húsavík? Tromm, tromm, tromm...


Græna kolaorkulandið

Taugarnar voru þandar til hins ýtrasta í vikunni sem leið við hina vindbörðu strönd Jótlands í Danaveldi. Gott ef ekki mátti sjá svitann spretta fram á enni þeirra Friðriks Danaprins, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og Anders Eldrup, forstjóra danska ríkisorkufyrirtækisins Dong Energi.

Wind_Horns_Rev2_1Þessi ljúfa þrenning var að víga stærsta vindorkuver heims á hafi úti. Það nefnist Horns Rev 2  og er glæsilegur skógur af 2,3 MW Siemens-vindrafstöðvum. Alls standa þarna 91 turnar u.þ.b. hundrað metra upp úr sjónum og aflið er samtals heil 209 MW. Fyrir er Horns Rev 1  á sömu slóðum með 160 MW uppsett afl. Samtals geta því allar þessar túrbínur við Horns Rev, nokkrar sjómílur utan við Esbjerg, fræðilega séð framleitt 369 MW. Sem er óneitanlega talsvert.

Þó verður að minnast þess að meðalnýtingin vindorkuvera er ekkert í líkingu við t.d. vatnsaflsvirkjanir. Vindurinn er óstöðugur orkugjafi. Raunhæft er að ætla að nýtingin hjá Horns Rev vindorkuverunum sé jafnvel innan við 1/3 m.v. uppsett afli. Þarna er meðalvindurinn um 10 m/s, sem er nokkuð gott en samt langt frá því sem skilar fullum afköstum.

Horns_Rev2_02Horns Rev 2var sem sagt formlega vígt fyrir fáeinum dögum. Það var Friðrik krónprins sem ýtti á start-takkann; einhverjir spaðar tóku að hreyfast en svo varð allt kyrrt. Líklega misstu einhver hjörtu slag þegar sekúndurnar liðu og allt virtist pikkfast - fólk var farið að gjóa augum hvert á annað með spurnarsvip. Þeim mun meiri varð gleðin þegar spaðarnir skriðu loksins af stað eftir u.þ.b. hálfa mínútu. Sumir segja að feginsbylgja hafi þá farið um viðstadda, enda talsvert í húfi.

Horns Rev 2 mun vera fjárfesting upp á 3,5 milljarða danskra króna, sem í dag jafngildir meira en 70 milljörðum ISK. Það er óneitanlega hressilegt þegar haft er í huga að líklega skilar þetta vindorkuver álíka mikilli raforku eins og 75 MW vatnsaflsvirkjun. Enn sem komið er eru þessi vindorkuver á hafi úti miklu dýrari en á landi. Næstum milljarður á megawattið!

Horns_Rev_mapDanir fögnuðu því líka nú í vikunni sem leið að öflugasta vindorkufyrirtæki Bandaríkjanna horfir til þess að framleiða stórar og öflugar vindrafstöðvar sínar í Danmörku. Af þeirri einföldu ástæðu að Danmörk sé líklega besta land Evrópu til að stunda slíka framleiðslu í.

Þar er á ferðinni GE Wind. Sem er eitt af fyrirtækjum General Electric. Rætur GE Wind liggja reyndar hjá Enron, sem hugðist á sínum tíma hasla sér völl í vindorkuiðnaðinum. Eftir gjaldþrot Enron keypti GE vindarm þessa alræmda spillingarfyrirtækis og breytti nafninu í GE Wind. Sá bissness hefur gengið blómlega undir merkjum GE, sem m.a. hefur horft mjög til markaðarins í Kína. Markmið ESB um að hækka hlutfall endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu í 20% fyrir 2020 gerir Evrópu spennandi fjárfestingarkost fyrir GE Wind.

Danir eru eðlilega upp með sér yfir því að GE skuli vera skotið í Danmörku. Og það er kannski verðskuldað. Danmörk er það land sem hefur náð mestum árangri í að byggja stór vindorkuver á hafi úti. Enn er þó ekki endanlega víst að GE Wind velji Danmörku sem sinn nafla í Evrópu. Annað konunglegt eyríki gæti reynst ennþá meira spennandi í augum GE. Bretar hafa sett sér afar metnaðarfull markmið um uppbyggingu nýrra vindorkuvera og þar gætu reynst bestu tækifæri fyrir fyrirtæki í vindorkuiðnaðinum.

Jack-Steinberger_1Það er ekki alltaf meðvindur með danskri vindorku. Fyrr í þessum mánuði móðgaði hinn aldni Nóbelsverðlaunahafi Jack Steinberger alla dönsku þjóðina þegar hann lýsti því yfir að það sé nákvæmlega ekkert vit í vindorku. Vindorka geti aldrei orðið það umfangmikil að hún leysi kol og gas af hólmi svo einhverju nemi. Þar verði menn að horfa til sólarorkunnar.

Steinberger, sem fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1988, veðjar sem sagt á sól og gegn vindi. Um leið lýsti hann frati á mikla uppbyggingu vindorkuvera í löndum eins og Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Steinberger nýtur víða mikils álits og því var þetta talsvert sárt fyrir Dani og aðrar vindorkuþjóðir.

Vindurinn blæs sem sagt úr mörgum áttum. Hvort dönsk vindorka mun í framtíðinni njóta meðbyrs eða mótvinds verður barrrrasta að koma í ljós. Ennþá geta Danir a.m.k. glaðst yfir því að stærsta vindorkufyrirtæki heims er danskt. Þó svo markaðshlutdeild Vestas  í heiminum sé nú öllu minni en var fyrir fáeinum árum, er Vestas ennþá af flestum álitið fremsta vindorkufyrirtæki í heimi. Þann sess munu Danir auglýsa grimmt þegar athygli heimsins beinist að Kaupmannahöfn í vetur - þegar ríki heims munu reyna að koma sér saman um ný markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það á að gerast á 15. fundi  aðildarríkja Loftslagssamnings(FCCC) í desember. Danir vona að þá muni ný tímamótabókun í alþjóðalögum líta dagsins ljós; Köben-bókunin sem leysi Kyoto-bókunina af hólmi. Og að vindorkan fái mesta athygli sem hinn græni framtíðarorkugjafi heimsins.

GE_EnergySamkeppnin í vindorkuiðnaðinum er gríðarlega hörð. Siemens hefur á síðust árum komið eins og hvirfilbylur inn á markaðinn með risastórar vindrafstöðvar sínar og nú hyggst GE  ná stærri sneið af kökunni. Þetta verður ekki auðveld barátta hjá Vestas, jafnvel þó svo fyrirtækið hafi breiðfylkingu danskra stjórnmálamanna á sínu bandi.

Í reynd er Danmörk eins og kleyfhugi þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Vel hefur tekist til með danska vindorku og fyrir vikið líta bæði ríkisstjórnir og almenningur um víða veröld á Danmörku sem fyrirmyndarríki í grænni orku. Raunveruleikinn er samt svolítið svartari. Í reynd fá Danir langstærstan hluta raforku sinnar frá kolaorkuverum - og danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi  er bullsveitt við að reisa fjölda nýrra kolaorkuvera um alla Evrópu. Að auki dæla Dong og Mærsk upp ógrynni af olíu og gasi úr danska landgrunninu; þessi vinnsla er meiri heldur en nemur gas- og olíunotkun Dana sjálfra. Danir eru sem sagt olíuþjóð sem hefur sérhæft sig í kolaorkuverum. Engu að síður er orkuásýnd Dana græn í gegn! Þetta hlýtur að vera eitt besta dæmið um snilldar markaðssetningu.

Olafur_Ragnar_natturaÞað verður ekki af Dönum tekið; þeir eru seigir. Við ættum kannski að fá danska spunameistara til að lappa upp á skaddaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi?

Það verður að halda því á lofti að Ísland nýtur algerrar sérstöðu í orkumálum. Engin önnur þjóð á jafn geggjaða möguleika í hagkvæmri framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Vonandi kemur Ólafur Ragnar þessu til skila á orkuráðstefnunni í Washington DC nú í komandi viku.


Bifreiðaeldsneyti framtíðarinnar

Hvað mun knýja bifreiðar á Íslandi eftir 30 ár? Bensín og díselolía, íslenskt rafmagn, DME unnið úr koldíoxíðútblæstri, vetni eða jafnvel íslenskt lífrænt fljótandi eldsneyti? Kannski blanda af þessu öllu saman?

Algae_biofuel

Eins og lesendur Orkubloggsins vita hefur stjórn Obama ýtt til hliðar hugmyndum um vetnisvæðingu. Þar sigraði raunsæið draumórana. Og nú er sagt að Ólafur Ragnar hafi fylgt fordæmi Obama og veðji á rafbílavæðingu. Í reynd eiga Íslendingar mun raunhæfari og hagkvæmari kost; að framleiða eigið lífrænt eldsneyti.

Hafa ber í huga að Ísland hefur mikla sérstöðu í orkumálum vegna hinnar gríðarlegu endurnýjanlegu orku, sem hér er að finna. Þessi sérstaða gerir það að verkum að hagsmunir Íslands í orkumálum fara ekki endilega saman við orkuhagsmuni annarra ríkja. Hér eru tækifærin einfaldlega miklu meiri en víðast hvar annars staðar til að þjóðin geti orðið orkusjálfstæð - og byggt það sjálfstæði alfarið á endurnýjanlegri orku. Þess vegna er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera bjartsýnir á framtíðina. Að því gefnu að rétt verði á málum haldið og hér verði komið á orkustefnu sem byggir á skynsemi og langtímasýn.

Nýlokið er 3ju ráðstefnu Framtíðarorku um framtíðarsýn í eldsneytismálum - þar sem áherslan er á sjálfbærar orkulausnir í samgöngum. Þau hjá Framtíðarorku eða FTO Solutions eiga heiður skilið fyrir að hafa komið þessum viðburði á fót - og náð að halda dampinum.

Eflaust hefur hver sína skoðun á því hvað athyglisverðast var við ráðstefnu Framtíðarorku að þessu sinni. Í raunsæishuga Orkubloggarans hljóta þau Hans Kattström og Ann Marie Sasty að hafa vakið mesta athygli fundargesta. Þó svo kínverska BYD og norsk/íslenski rafbíladraumurinn hjá Rune Haaland  hafi kannski verið það sem virkaði mest spennó. Þetta síðastnefnda er reyndar æpandi útópía.

Sakti3_logoHin jarðbundna Ann Marie Sasty er forstjóri sprotafyrirtækisins Sakti3, sem er að vinna að þróun endurhlaðanlegra rafgeyma. Enn sem komið er, er langt í land með að slíkir rafgeymar verði nógu öflugir og ódýrir til að rafbílar verði af alvöru samkeppnishæfir við hefðbundna bíla. Vissulega eru gríðarleg tækifæri í rafbílum, en alltof snemmt að spá hvort eða hvenær þeir munu ná mikilli útbreiðslu. Og það mun ekki gerast nema upp spretti fjölmörg fyrirtæki í líkingu við Sakti3 - þá mun kannski koma að því að eitthvert eða einhver þeirra finni réttu leiðina í rafgeymatækninni. Sakti3 er eitt af þeim fyrirtækjum sem Orkubloggið mun fylgjast spennt með í þessu sambandi.

ScandinavianGts_logoMaðurinn með skemmtilega nafnið,  Hans Kattström, er í forsvari fyrir sænska gasframleiðandann Scandinavian GtS, en Svíar eru einmitt í fararbroddi ríkja sem nýta lífrænt eldsneyti á bifreiðar. Með lífrænu gasi er átt við gas unnið úr lífrænum efnum, t.d. úr sorpi eða plöntum. Á ensku er þetta gjarnan kallað biogas; þetta er í reynd metan og er náskylt hefðbundnu náttúrugasi.

Metan er að mörgu leyti snilldarorkugjafi. Íslendingar ættu tvímælalaust að horfa til þess hvernig Svíarnir hafa farið að því að gera metan að alvöru orkugjafa í sænska samgöngugeiranum. Menn skulu þó hafa í huga, að til að fjárhagslegt vit sé í slíkri framleiðslu þarf hún bæði að verða umfangsmikil og afurðin vera á viðráðanlegu verði. Til að lífefnaeldsneyti eigi sér raunverulega framtíð og höggvi ekki stór skörð í kaupmátt almennings og/eða í tekjur ríkissjóðs m.t.t. skattlagningar ríkisins á ódýru, innfluttu eldsneyti, þarf iðnaðurinn sem sagt alfarið að miðast við fjárhagslega hagkvæmni!

Það er hæpið að sérhæfð metanframleiðsla geti keppt við jarðefnaeldsneyti. Nema með verulegum niðurgreiðslum eða styrkjum. Sennilega er mun álitlegra að fara með lífmassann alla leið, ef svo má að orði komast. Vinna úr honum lífræna hráolíu fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku.

Theistareykir_1Slíkur iðnaður myndi líklega henta mjög vel á Íslandi vegna þess hversu mikla endurnýjanlega orku við eigum. Þetta er einfaldlega raunhæfasti og nærtækasti kosturinn fyrir Ísland í orkumálum. Og þetta yrði ný og mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi og myndi að auki spara mikinn gjaldeyri. Myndi sem sagt bæði þýða meiri fjölbreytni í stóriðju, ný tækifæri í landbúnaði, arðmeiri nýtingu á orkuauðlindum Íslands og um leið draga stórlega úr þörfinni á innfluttu eldsneyti með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði.

Sennilega væri skynsamlegt að nýta t.d. orkuna á Þeistareykjum til slíkrar framleiðslu, fremur en að nota hana í áliðnað. Orkubloggið hefur reyndar nokkrar áhyggjur af því að stjórnvöld hér átti sig ekki á þessum möguleikum og séu stundum helst til fljót að eyrnamerkja orkuna nýjum álverum. Það er mjög óskynsamlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ber vott um ótrúlega skammsýni. Nú reynir á hvaða stefnu iðnaðarráðherra, ríkisstjórnin og Alþingi taka. Ný, raunhæf og betri tækifæri blasa við ef fólk bara nennir að staldra við og íhuga valkostina.


Norman Borlaug

Á Íslandi og í öllum vestrænum samfélögum virðist vera sívaxandi hópur fólks sem hefur það að leiðarljósi sínu að vera á móti framförum í heiminum.

ORF_logoFyrr í sumar átti bloggarinn leið um Suðurland og heyrði þá í útvarpinu auglýstan kynningarfund í Gunnarsholti um áætlanir íslenska fyrirtækisins Orf Líftækni  um tilraunaræktun með erfðabreytt bygg. Orkubloggaranum þótti þetta upplagt tækifæri til að heyra meira um þessa forvitnilegu tilraun Orfsmanna. Og varð heldur undrandi þegar í ljós kom að fundarmenn reyndust flestir fólk sem sá þessari ræktun allt til foráttu.

Niðurstaðan varð engu að síður sú að Orf Líftækni fékk leyfi Umhverfisstofnunar til ræktunarinnar, enda var fyrirtækið talið uppfylla öll lagaskilyrði þar að lútandi. Líklega hefur árangurinn þó orðið heldur snautlegur, því skemmdarverk voru unnin á ræktunarreitnum nú í sumar. Væntanlega mun verkefnið halda áfram á komandi sumri.

Norman_Borlaug-5Blogginu varð hugsað til þessa verkefnis Orf Líftækni í dag þegar fréttir bárust af andláti hins stórmerka landbúnaðarvísindamanns Norman Borlaug. Sem einmitt var fjallað um hér á Orkublogginu í færslu s.l. sumar (2008). Borlaug (f. 1914) náði miklum árangri í kynbótum á hveiti, maís og fleiri plöntutegundum, til að auka mætti framboð fæðu í heiminum. Þetta starf hans er sagt hafa bjargað mörg hundruðum milljóna manna frá hungurdauða og hlaut Borlaug mikla viðurkenningu fyrir. Þ.á m. Friðarverðlaun Nóbels árið 1970.

Borlaug var á síðustu árum og áratugum óþreytandi við að benda á nauðsyn þess að meira verði unnið að nýjum leiðum til að auka fæðuframleiðslu enn frekar. Raunveruleg hætta sé á því að heimurinn muni horfa fram á vaxandi hungur og skelfingar meðal fólks, ef ekki verði brugðist við í tíma. Borlaug gagnrýndi hvernig vestræn samfélög hafa í auknum mæli snúist gegn vísindatilraunum með matvæli og hann hefur furðað sig á þeirri forgangsröðun að fagna lífrænni ræktun en snúast gegn erfðabreyttum matvælum.

Borlaug_wheat_2Norman Borlaug áleit fátt ef nokkuð benda til þess að lífrænt ræktaðar afurðir séu hollari en þær sem ræktaðar eru með hefðbundnari aðferðum, þar sem notaður er tilbúinn áburður og skordýraeitur. Áhugi fólks á lífrænt ræktuðum matvælum byggi sem sagt á misskilningi eða jafnvel röngum upplýsingum. Þetta sé hið versta mál, því lífræn ræktun skili minni afurðum en hefðbundnari aðferðir. Hann var einnig harður á því að miklu meira þurfi að vinna að erfðabreyttri ræktun. Það sé mannkyninu algerlega nauðsynlegt til að geta mætt fæðueftirspurn í framtíðinni.

Orkubloggarinn er á því að við eigum að hlusta vel á það sem Borlaug sagði. Og ekki leggjast af ofstopa gegn erfðabreyttum matvælum. Að sjálfsögðu má þetta ekki gerast í blindri trú á tæknina; nauðsynlegt er að sýna varúð og forðast umhverfisslys. En þröngsýni og lúxusveröld Vesturlanda  má ekki verða til þess að aðrir hlutar heimsins búi við hungur og fátækt. Þess vegna er mikilvægt að nýta framþróun í erfðatækni og taka fyrirtækjum eins og Orfi Líftækni af opnum huga.

wheat-blueFyrir þá sem vilja kynna sér betur lífsstarf Borlaug‘s má t.d. benda á fróðlega grein sem birtist í tímaritinu The Atlantic árið 1997. Hana má sjá hér.


Þyrnirós vakin upp í Texas

Það ríkir nýtt gullæði í gamla olíuríkinu Texas. Æði sem kennt er við Barnett Shale.

George P. Mitchell_3Þarna í villta vestrinu er löngu búið að dæla megninu af svarta gullinu upp úr aðgengilegu olíulindunum sem svo auðveldlega mátti finna í stórum saltsteinshvelfingum undir yfirborði jarðar. En sumir vildu ekki afskrifa Texas. Til var maður sem var sannfærður um að þarna í fylki sjálfs JR Ewing hlyti að mega finna meiri olíu og gas. Ef maður bara sýndi nógu mikla þolinmæði og útsjónarsemi. Þessi maður er George P. Mitchell.

Í dag er olíubaróninn og fasteignakóngurinn George P. Mitchell kominn á tíræðisaldur (f. 1919 í Galveston í Texas, af grísku bergi brotinn). En þrjóska hans hefur borið ríkulegan ávöxt. Á síðustu tíu árum hafa villtustu draumar Mitchell um nýja olíu- og gasuppsprettu í Texas ræst svo um munar.

spindletop_texasForsaga þessa nýja ævintýris er í stuttu máli eftirfarandi: Í gegnum tíðina hefur Texas verið eitt mikilvægasta olíuvinnslusvæði í Bandaríkjunum. Olíu- og gaslindirnar þar má gróflega flokka í tvennt.

Annars vegar eru lindir þar sem olía og gas hefur safnast saman í eins konar hvelfingum og tiltölulega auðvelt hefur verið að bora niður og dæla gumsinu upp. Þessar olíu- og gaslindir eru lykillinn að baki því að Texas varð snemma helsta vinnslusvæði Bandaríkjanna.

Hins vegar  má finna þunn lög af olíu og þó einkum gasi í sjálfum jarðlögunum þar sem gasið hefur myndast í jörðinni. Það borgar sig sjaldnast að bora niður í þessi gasþunnildi, því oftast næst einungis örlítið magn þar upp. Svo þarf að færa borinn nokkur hundruð metra og bora aftur - og svo framvegis. Þetta er sem sagt mjög dýrt og því hafa þessi olíu- og gasþunnildi á milli grjótharðra sandsteinslaga að mestu legið í friði. Þrátt fyrir óseðjandi hungur Bandaríkjamanna eftir bæði olíu og gasi.

Þegar stóru og auðunnu olíulindirnar í Texas tæmdust smám saman töldu flestir stefna í að saga Texas sem olíufylkis væri senn á enda. Menn voru jafnvel farnir að sjá fyrir sér að rafmagnsframleiðsla með vindorkuverum yirði næsti stóriðnaður þessa risastóra og fornfræga fylkis.

Barnett_Shale_Geology_east-westGeorge Mitchell var á öðru máli. Athygli hans beindist að sérstökum jarðlögum sem kölluð voru Barnett-lögin. Ástæðan fyrir nafngiftinni er að í upphafi 20. aldar veittu jarðfræðingar athygli óvenju dökku jarðvegslagi við árbakka einn í Texas. Áin sú er kennd við landnema á svæðinu - John W. Barnett - og þetta jarðvegslag reyndist vera óhemjuríkt af lífrænum leifum.

Í ljós kom að hugsanlega mætti finna olíu og gas í Barnett. Víðast hvar er nokkuð djúpt niður á gumsið, þó svo þarna mætti sem sagt sjá það í bakkanum. Það hefur lengi verið tæknilega unnt að bora niður í slík jarðlög og ná bæði olíu og gasi upp. Vandamálið er að slík vinnsla borgar sig ekki nema þar sem olía eða gas hefur náð að safnast saman í miklu magni - og að auki er Barnett umlukið grjóthörðum sandsteini sem valdið hefur mönnum vandkvæðum. Hefðbundnar vinnsluaðferðir borguðu sig hreinlega ekki og þess vegna skeyttu menn lengst af ekki um þunnildin í Barnett.

Fyrir vikið sváfu gas- og olíulindirnar í Barnett áfram værum svefni. Í heil hundrað ár rétt eins og Þyrnirós. En þá birtist prinsinn á hvíta hestinum - prinsinn sem var nógu þolinmóður til að finna hagkvæma leið til að höggva niður þétt þyrnigerðið umhverfis kastalann sem geymdi  gasið í völundarhúsi sínu.

Prinsinn sá var reyndar maður kominn vel yfir miðjan aldur, en jafn mikill olíu-sjarmör fyrir því. Það var um 1980 að Geroge Mitchell, þá um sextugt, byrjaði að skoða möguleika á að þróa lárétta bortækni  til að nálgast Barnett-þunnildin. Og viti menn; með öflugu tuttugu manna teymi tókst honum að ná tökum á bortækni, sem byggðist á nýrri hugsun. Eftir nærri tveggja áratuga þróunarvinnu varð nú skyndilega unnt að ná upp feykimiklu af bæði gasi og olíu á svæðum sem fram til þessa höfðu verið álitin vonlaus.

Shale_technology_horizontalLykillinn í lausn George Mitchell og starfsmanna Mitchell Energy  fólst í því að nota háþrýstivatn  til að brjóta sér leið gegnum saltsteinslögin og sötra upp gasið. Eftir á virðist þetta ósköp einfalt. Í staðinn fyrir að nota hefðbundna bortækni ruddi Mitchell sér leið lárétt gegnum sandsteininn með sandblönduðu háþrýstivatni. Þar með varð leiðin greið til að reka rörin lárétt inn að þunnum gashólfunum og dæla gasinu og olíunni upp upp.

Næstu árin, þ.e. upp úr aldamótunum, fínpússaði Mitchell svo tæknina og fór að stórgræða. Björninn var unninn og nýtt gullæði hófst í Texas. Olíufyrirtækin tóku streyma aftur til gamla, góða olíufylkisins og bullsveittir útsendarar þeirra æða nú þar um héruð og kaupa upp vinnsluréttindi villt og galið. Og landeigendur brosa.

barnett_shale_mapÞó svo hér að ofan sé mikið talað um olíu er það þó fyrst og fremst gas sem er þarna að hafa. Sérstaklega eru þessi gullvægu gasþunnildi í gríðarlegu magni beint undir borgunum Dallas og Fort Worth. Og á nokkurra þúsunda ferkm svæði þar í kring.

Þarna liggur gasið sem sagt á milli afar þéttra sandsteinslaga sem eru ca. 320-360 milljón ára gömul og enginn hægðarleikur að komast þar í gegn. En með nýju bortækninni er unnt að láta rörin fara eins og snák lárétt eftir gaslindunum. Þetta er ekki dýrari vinnsla en svo að peningalyktin hefur á ný gosið upp í Dallas og nágrenni. Það er sem sagt kominn tími á Dallas Revisited þar sem hinn ungi, útsmogni og harðsvíraði John Ross Ewing II hefur byggt upp nýtt veldi; Ewing Gas! Og keppir þar auðvitað hvað harðast við hina gullfallegu frænku sína Pamelu Cliffie Barnes.

dallas_bobby_pamÞetta Barnett-stöff er sko ekkert smáræði. Þó svo líklega hafi fæstir Íslendingar orðið varir við umfjöllun um þetta ofboðslega magn af nýju Texasgasi í fjölmiðlum, má bera þetta saman við mestu olíuæðin sem urðu í Bandaríkjunum fyrr á tíð. Án gríns!

Þetta eru risaauðæfi og þess vegna sannkölluð efnahagsbylting yfirvofandi í Texas. Menn sjá fyrir sér að Texasgasið nýja muni skila landeigendum 35 milljörðum dollara og verða 100 milljarða dollara efnahagssprauta fyrir fylkið. Búið er að staðreyna nærri 70 milljarða rúmmetra af gasi í Barnett og taldar góðar líkur á að þar megi finna tíu sinnum meira eða 500-800 milljarða teningsmetra. Það lítur sem sagt út fyrir að beint undir Dallas og nágrenni sé einfaldlega stærsta gaslind í gjörvöllum Bandaríkjunum (að frátöldu landgrunninu auðvitað).

Barnett_Shale_production_2006Það hefur valdið borgaryfirvöldum í Dallas og Fort Worth nokkrum heilabrotum hvernig eigi að standa að gasvinnslunni. Þarna er ekki einfaldlega hægt að fara út á tún - eins og gildir um olíuþunnildin í Dakota - og barrrasta byrja að bora. Allt eins líklegt að við munum fremur sjá gasvinnslutól beint undir hraðbrautarfléttunum kringum miðbæjarháhýsin. Þetta er svona svipað eins og ef háhitasvæði uppgötvaðist allt í einu beint undir Austurvelli og Arnarhváli. Kannski iðnaðarráðherra ætti að kíkja undir stólinn sinn?

Á þeim tíma sem George Mitchell bisaðist við að ná til gassins í Barnett-jarðlögunum höfðu stóru olíufélögin engan áhuga á að standa í svona veseni. En þegar gasið byrjaði að streyma upp hjá Mitchell komu þau auðvitað strax æðandi - ásamt þúsundum annarra smærri spámanna. Meðal þeirra var Devon Energy sem sá hvað var á seyði og keypti Mitchell Energy  af þeim gamla árið 2002 á litla 3,5 milljarða dollara. George Mitchell taldi sig hafa sannað mál sitt, tók við aurunum og slakaði loksins á kominn á níræðisaldur. Reyndar alveg makalaust hvað menn virðast eldast vel í olíubransanum.

Devon_Energy_2Á síðustu árum hafa líklega tugþúsundir af nýjum borleyfum verið gefin út í sýslunum umhverfis Dallas og Fort Worth. Kapphlaupið er æðisgengið. Greiðslur frá gasvinnslufyrirtækjunum til landeigenda hafa rokið upp úr öllu valdi í viðleitni þeirra að tryggja sér sem mest land. Vaxtarmunar-slefið úr munnvikum íslenskra bankadólga er hreinn barnaskapur miðað við flóðið úr kjafti gasfyrirtækjanna þegar Barnett-gasþunnildin eru annars vegar.

Einungis örfáir brunnar hafa reynst þurrir; nýja bortæknin hefur hreinlega opnað gasgáttir út um allt. Og þar sem kemur upp gas, þar þarf að byggja gasleiðslur. Afleiðingin af þessu öllu saman er auðvitað enn eitt góðærið í Texas. Á örfáum árum hafa orðið til einhver 70 þúsund störf í kringum þessar nýju gaslindir og samt er ævintýrið bara rétt að byrja. Eins og svo oft áður á Texas framtíðina fyrir sér!

Barnett_Shale_derrick_workerAfleiðingarnar eru víðfeðmar - og stundum óvæntar. Nú er möguleiki á að gasleiðslunni, sem átti að byggja frá norðurströndum Alaska og alla leið suður til Alberta í Kanada, verði slegið á frest. Alaskabúum til sárra armæðu - leiðslan sú átti jú að verða mikil lyftistöng fyrir efnahaginn þar í dreifbýlistúttufylkinu á norðurhjara veraldarinnar.

Þegar allt í einu streymir ógrynni af nýju gasi upp í Texas sjá peningamenn lítinn tilgang í því að kosta stórfé til að flytja gas alla leið norðan frá Alaska og til Alberta og þaðan til Bandaríkjanna. Alaskaleiðslan nýja á að kosta 26 milljarða bandaríkjadala og t.d. hefur ljúflingurinn og einn besti vinur Orkubloggsins, gamli olíurefurinn T. Boone Pickens, sagt það tóma vitleysu að fara útí slíka fjárfestingu þegar nóg er af Texasgasinu. Pickens segir að best sé að setja Alaskaleiðsluna á ís í a.m.k. 10-15 ár, enda eins víst að unnt verði að finna samskonar gaslindir eins og í Texas í fjölmörgum öðrum fylkjum Bandaríkjanna. Það væri magnað.

Já - Pickens trúir á gasið. Og gasið í Texas virðist reyndar ætla að verða einn helsti bjargvættur Bandaríkjamanna á tímum hækkandi orkuverðs. Kannski væri besta efnahagsheilræðið handa íslenskum stjórnvöldum að taka Pickens á orðinu og byrja að kaupa upp gasvinnsluréttindi hingað og þangað um Louisiana, Arkansas og Pennsylvaníu.

barnett_US_ShalesÖll þessi fylki gætu haft að geyma svipaðar gaslindir þéttlokaðar milli sandsteinslaganna, rétt eins og við sjáum núna kringum Dallas og Fort Worth. Þess vegna ríkir nú mikil bjartsýni þar vestra um að auka megi gasvinnslu Bandaríkjanna verulega. Ekki veitir af.


Listagyðjan í olíubaði

Maður er nefndur Andrew Hall. Hann er að nálgast sextugt, fæddur í Bretlandi, er menntaður efnafræðingur og MBA og sést oft sitja við skrifborðið sitt í gömlu fjósi vestur í Connecticut í Bandaríkjunum. Þaðan stundar hann olíu- og önnur hrávöruviðskipti í gegnum tölvuna sína. Eins og svo fjölmargir aðrir gera út um víða veröld

Georg_Baselitz_Nude_Elke_2Vinnudagurinn hjá Andrew Hall á skrifstofunni í þessu gamla uppgerða fjósi er sem sagt ósköp svipaður eins og hjá svo mörgum öðrum vesælum drottinssauðum í óblíðri veröld kapítalismans. Starf hans er að höndla með verðbréf sem tengjast hrávörum og þá sérstaklega olíu.

Í störfum sínum reynir Hall einfaldlega að spá fyrir um þróun olíuverðs eftir bestu getu. Hann kaupir og selur samninga um olíuviðskipti til framtíðar með það einfalda leiðarljós að nota þekkingu sína og innsæi til að þessi áhættusömu viðskipti hans skili sem allra mestum gróða.

Svo virðist sem Andrew Hall sé einkar spámannslega vaxinn. Vart er ofsagt að þessi hægláti og dagfarsprúði maður sé einfaldlega einhver albesti fjárhættuspilarinn á olíumörkuðum heimsins. Meðan vinnuveitandi hans tapaði samtals næstum 19 milljörðum dollara og fékk nýverið tugi milljarða dollara fjárjagsaðstoð frá bandarískum stjórnvöldum til að forðast þrot, skilaði árangurstengdur launasamningur Hall honum 100 milljónum dollar í tekjur á síðasta fjárhagsári fyrirtækisins.

Anselm_Kiefer_artAndrew Hall starfar hjá gamalgrónu fyrirtæki sem lengi hefur sérhæft sig í hrávörumörkuðum og nefnist Phibro. Móðurfélag Phibro er öllu þekktara; nefnilega fjármálarisinn Citigroup. Gríðarlegar tekjur Hall á yfirstandandi ári bætast við 200 milljónir USD sem hann vann sér inn síðustu fimm árin þar á undan. Hann er m.ö.o. orðinn stórefnaður maður. Þrátt fyrir að vinnuveitandi hans - Citigroup - sé nánast á brauðfótum

Vegna hroðalegrar afkomu Citigroup og mikillar umræðu vestan hafs um ofurlaun, beindist kastljós fjölmiðlanna skyndilega að þessum rólynda verðbréfamiðlara. Sem reyndar er yfirmaður Phibro. Fjölmiðlaumfjöllunin um Hall tengdist ekki aðeins umræðunni um ofurlaun, heldur urðu fjölmiðlarnir líka forvitnir um hvað Andrew Hall gerði við alla þessa peninga sem hann græddi á olíuviðskiptunum.

Þeirri spurningu reyndist fljótsvarað: Launin sem Hall fær fyrir árangur sinn, notar hann hvorki í sportbíla né einkaþyrlur - heldur til að svala hrifningu sinni á þýskum nýexpressjónisma  (Neue Wilden).

Joerg_Immendorff_Cafe_DeutschlandSérstaklega er Hall sagður hrífast af verkum Þjóðverjanna Anselm Kiefer, Georg Baselitz og Joerg Immendorff. Listaverk þeirra prýða einmit þessa færslu - þó svo þetta sé heldur þungúin list að smekk Orkubloggarans. Einnig mun Andrew Hall vera skotinn í bandarískri nútímalist og er sagður safna verkum manna eins og David Salle, Bruce Nauman, Julian Schnabel og Andy Warhol.

Það er sem sagt listagyðjan sem hefur notið hinna gríðarlegu launabónusa sem Hall fékk fyrir að veðja rétt á stóraukna olíueftirspurn Kínverja upp úr 2003, fyrir að veðja á að olíuverð færi vel yfir 100 dollara á fyrri hluta 2008, fyrir að veðja á fallandi olíuverð á síðari hluta 2008 og loks veðja á hækkandi olíuverð 2009.

Schloss_Derneberg_gardenJá - Andrew Hall virðist hreinlega vera með a.m.k. einu skilningarviti meira en flestir aðrir þeir sem braska á sviði olíuviðskiptanna. Hann fer meira að segja létt með að slá Orkubloggarann út. Sem er jú nánast ómannlegt!

Líklega hefur Hall fundist óviðeigandi að hengja meistaraverkin upp á veggi skrifstofunnar sinnar í litla snobb-bænum Westport vestur í Connecticut. Því nú má berja dýrðina augum í þúsund ára gömlum kastala, sem hann festi kaup á í Þýskalandi. Nánar tiltekið Schloss Derneberg  skammt frá Hanover í Saxlandi. Þessi  sögufræga bygging mun einmitt áður hafa verið í eigu áðurnefnds listamanns Georg Baselitz!

Hall_Andrew_PhibroSjálfur er Andrew Hall aftur á móti dags daglega við skrifborðið sitt á skrifstofu Phibro. Í gamla fjósinu í smábænum fallega; Westport í Connecticut. Þar situr þessi breski flugmannssonur framan við skjáinn ásamt félögum sínum og veðjar áfram á það hvernig olíuverð muni þróast í framtíðinni. Sem er jú ein skemmtilegasta iðja sem unnt er ímynda sér - ekki satt?


BYD og Framtíðarorka

"Íslendingar gætu sparað rúmlega einn milljarð króna í gjaldeyri í hverjum mánuði með því að hætta að nota olíu og bensín á bílaflotann og skipta yfir í innlenda orkugjafa svo sem rafmagn og metan."

Þannig byrjar frétt  sem birtist á á Eyjunni fyrr í dag. Á tímum gjaldeyrisskorts eru frétt af þessu tagi óneitanlega spennandi fyrir Íslendinga. Og á hvaða tímum sem er hlýtur það að vera áhugaverður kostur ef Ísland myndi geta framleitt sitt elgið eldsneyti.

drivingsustainability-logoFréttin tengist ráðstefnunni Driving Sustainability, sem fer fram hér á landi nú eftir helgi á vegum Framtíðarorku. Þeir innlendu orkugjafar sem þarna er einkum horft til eru annars vegar metan og hins vegar rafmagn. Þó svo Orkubloggið telji nokkuð langt í að þessir orkugjafar geti talist jafn hagkvæmir eins og olíuafurðir, verður mjög áhugavert að heyra hvað fyrirlesarar á ráðstefnunni hafa að segja.

byd-f3dmSérstaklega er bloggið spennt fyrir því hvað boðskap talsmaður kínverska rafbílaframleiðandans BYD hefur fram að færa. Sá heitir Alex Zhu, en þetta makalausa kínverska fyrirtæki  gæti orðið helsti spútnikinn í rafbílavæðingu heimsins. Þarna í Shenzhen í SA-horni Kína hófu menn í árslok 2008 að bjóða fyrsta fjöldaframleidda tengil-tvinnbílinn. Sá er kallaður er BYD F3DM, en DM stendur fyrir Dual Mode.

Fyrirtækjaheitið BYD er sagt standa fyrir "build your dreams". Þetta er sannkallað risakompaní með um 130 þúsund starfsmenn! Og á sér stutta en merkilega sögu; dæmi um ameríska drauminn í Kína.

BYD_wang-chuanfuÞað var kínverski bóndasonurinn Wang Chuanfu  sem stofnaði BYD árið 1995 með peningum sem hann fékk lánaða frá ættingjum og vinum. Fyrstu árin einbeitti fyrirtækið sér að framleiðslu búnaðar fyrir farsíma og náði miklum árangri í að þróa endurhlaðanlegar rafhlöður í slíka síma. Rafhlöðurnar frá BYD eru nokkuð frábrugðnar hefðbundnari liþíum-jóna rafhlöðum, en reyndust svo vel að fyrirtækið varð á skömmum tíma einn stærsti farsímarafhlöðu-framleiðandi í heimi. Það er einmitt sú verðmæta tækni sem skapaði grunninn að því að BYD ákvað að hella sér í rafbílavæðinguna.

Framleiðslan á F3DM árið 2009 er sögð verða 350 þúsund bílar. Og BYD hyggst byrja bílasölu í Bandaríkjunum árið 2011. Það er ekki bara Orkubloggið sem er spennt fyrir BYD. Sjálf véfréttin frá Omaha - Warren Buffet- hefur keypt myndarlegan hlut í BYD. Buffet virðist hafa mikla trú á því að F3DM verði einn af fyrstu sigurvegurunum í rafbílavæðingunni sem senn mun fara af stað í Bandaríkjunum og víðar um heiminn.

Bissnessmódel Kínverjanna er svolítið spes. Í dag eru flestir bílaframleiðendur heimsins í reynd bara samsetningarverksmiðjur. En hjá BYD smíða menn hlutina sjálfir. Þarna er einfaldlega á ferðinni mjög óvenjulegt og forvitnilegt fyrirtæki.

Buffet_Electric_CarÞar sem rafbílavæðing er einn af hornsteinum orkustefnu Obama, eru gríðarleg tækifæri fyrir rafbílaframleiðendur í Bandaríkjunum. Nú standa stóru bandarísku bílarisarnir frammi fyrir því að Kínverjarnir nái forskoti á þeim risamarkaði. Þess vegna er nú hafið mikið kapphlaup í bransanum. Það ásamt ýmsum efnahagslegum hvötum kann að flýta fyrir því að rafbílavæðing verði loksins að veruleika.

Þarna er þó vissulega mikil óvissa uppi. En það væri risastór vinningur fyrir Ísland ef næðist að framleiða hagkvæman rafbíl. Þar með kæmist  umtalsverður hluti íslenska bílaflotans á innlent rafmagn. Þess vegna verður spennandi að fylgjast með þessari ráðstefnu Framtíðarorku.


HS Orka og Magma Energy

Orkuveita Reykjavíkur ætlar að selja hlut sinn í HS Orku. Til erlends fyrirtækis.

Ketill_Sigurjonsson-Silfur_Egils_2Egill Helgason fékk Orkubloggarann til að koma í Silfrið í dag til að ræða þessa sölu. Hér er tæpt á nokkrum helstu atriðunum, sem tengjast því spjalli.

Sumir segja þessa sölu eingöngu tilkomna vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá júlí 2008. Þó svo niðurstaðan í samkeppnismálinu skipti auðvitað máli, er sérkennilegt að vera að hengja sig í það. Eins og stjórnarformaður Orkuveitunnar gerir sí og æ í viðtölum. Aðalatriði málsins hlýtur að snúast um grundvallaratriðið; ætla íslenskir stjórnmálamenn að halda áfram á leið einkavæðingar orkufyrirtækjanna eða að snúa af þeirri braut?

Hvað sem því líður þá er HS Orka nú í stökustu vandræðum. Eigið fé fyrirtækisins er líklega nánast allt gufað upp. Hugsanlega geta kröfuhafar yfirtekið fyrirtækið ef þeir vilja vegna ákvæða lánasamninga um lágmarkshlutfall eignfjár. Að auki eru talsverðar líkur á að HS Orka muni brátt lenda í greiðsluþroti. Það má a.m.k. öllum vera augljóst að staða fyrirtækisins er grafalvarleg og lífsspursmál að fá inn nýtt hlutafé.

Það er ekki einfalt mál í dag að afla fjármagns. Hvorki lánsfjár né hlutafjár. Orkubloggið hefur allt frá því í vetur sem leið talið nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld sýni framsýni og leiti leiða til að tryggja stöðu orkufyrirtækjanna. Ef illa skyldi fara og þau lenda í greiðsluþroti - þá þarf að vera búið að undirbúa hvaða úrræða gripið yrði til. Svo komast megi hjá því að endurtaka paníkina sem varð í byrjun október s.l. (2008) þegar bankarnir féllu.

Sérstaklega hefur Orkubloggarinn verið áhugasamur um að fá sterkt Skandínavískt orkufyrirtæki - hugsanlega norrænt ríkisorkufyrirtæki - sem eignaraðila að stóru íslensku orkufyrirtækjunum. Helst sem minnihluta-eiganda (þ.e. með allt að 49% eignarhlut). Íslensk stjórnvöld hljóta fyrir löngu að vera búin að íhuga og kanna þennan möguleika af mikilli alvöru. Ekki síst þegar í ríkisstjórn sitja flokkar, sem eru í takt við norræna velferðarpólitík. Þarna má t.d. hugsa sér aðkomu norska orkufyrirtækisins Statkraft, sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku. Um slíkar þreifingar hefur ekkert heyrst og hafi þær ekki farið fram er það einfaldlega vítavert kæruleysi af ríkisstjórninni.

magma_energy_webEn hvað svo sem hefur gerst á bakvið tjöldin, þá virðist einungis einn aðili hafia áhuga á HS Orku. Kanadíski jarðhitafjárfestirinn Magma Energy. Stóra spurningin núna er hvort hér séu einhverjir voða vondir útlendingar á ferð. Sem ætla sér að hirða HS Orku á spottprís, blóðmjólka fyrirtækið og koma arðinum undan úr landi.

Orkubloggið á erfitt með að skilja ótta sumra Íslendinga við útlendinga. Hræða sporin? Hér hafa í áratugi starfað erlend fyrirtæki eins og álfyrirtækin. Blogginu er ekki kunnugt um annað en að samstarfið við þessi fyrirtæki hér á landi hafi almennt gengið prýðilega - sérstaklega á síðari árum. Það voru stundum einhver leiðindi í gangi með álverið í Straumsvík meðan Svissararnir ráku það - "hækkun í hafi" og eilífar vinnudeilur - en þau leiðindi eru löngu úr sögunni. Í reynd hefði líklega verið mun farsælla fyrir íslensku þjóðina ef meira hefði verið hér um erlendar fjárfestingar og minna um umsvif íslenskra fjárfesta!

Orkubloggarinn þekkir ekki persónulega til Magma Energy eða mannsins þar að baki; Ross Beaty. En hvergi hefur bloggarinn rekist á annað en fremur jákvæðar umsagnir um Magma og Beaty. Vissulega virðist þessi kanadíski Silfurrefur  vera einkar laginn að sjá hvenær verðsveifla er í botni og stekkur þá til. M.ö.o. er talsvert líklegt að hann hafi nú enn einu sinni reiknað rétt og sé að fá hlutinn í HS Orku á algerum spottprís. En ef enginn annar nægjanlega traustur kaupandi er finnanlegur, er þó vart hægt að klína því á Beaty að hann sé að blóðmjólka Ísland.

HS-orka-logoEf Magma Energy eignast hlut í HS Orku eða jafnvel fyrirtækið allt og gengur vel með fyrirtækið í framtíðinni, mun Magma eflaust hagnast mjög vel á þessum kaupum. Kannski er Beaty meira að segja strax búinn að semja við kröfuhafa HS Orku um að ef hann komi að rekstri HS Orku verði tilteknar skuldir fyrirtækisins felldar niður og afskrifaðar. Kannski er Magma Energy að eignast hlut í HS Orku fyrir ekki neitt - þegar upp verður staðið.

Sumum finnst fúlt þegar aðrir græða. Finnst jafnvel betra að allir tapi. Orkubloggið er ekki ósátt við þótt Magma geri þarna reyfarakaup og stórgræði á öllu saman. EF það leiðir til þess að sterkari HS Orka standi hér hnarreist eftir nokkur ár og fyrirtækið muni bjóða góða þjónustu á sanngjörnu verði og lúta að fullu leikreglum íslenskra laga.

Þjóðin öll á að geta treyst því að Orkuveita Reykjavíkur og íslensk stjórnvöld stefni að þessu sama markmiði. Og hafi lagst í mikla vinnu, sem sýni svo ekki verður um villst að Magma Energy sé fyrirtæki sem sé mjög líklegt til að ná góðum árangri og geri viðskiptavini sína ánægða. Nú reynir á hvort stjórn Orkuveitunnar, borgaryfirvöld og ríkisstjórnin hafi unnið þessa heimavinnu af eins mikilli vandvirkni og Orkubloggið væntir. Framtíðin mun væntanlega leiða það í ljós.

------------------------------------------------

Viðtalið í Silfrinu má sjá á vef RÚV; HÉR.


Græðgin á kreiki í Írak

Það er byrjað að úthluta olíuvinnsluleyfum í Írak. Og öfugt við það sem gerist svo víða í Mið-Austurlöndum, eru vestræn olíufyrirtæki nú velkomin til Írak. Enda ætti öllum að vera augljóst að til þess var leikurinn jú gerður; einn helsti drifkrafturinn að baki innrásinni í Írak var að opna Vesturlöndum aðgang að hinum risastóru olíulindum þessa forna menningaríkis.

IRAQ_OIL_Future-ProductionJá - nú eru loks horfur á að afkomendur hins bandaríska Standard Oil ásamt BP og Shell fái aftur yfirráð yfir olíulindunum í Írak sem þau "misstu" smám saman í hendur stjórnvalda eftir að nýlendutímabilinu lauk. Það fór jú svo að leiðtogar Íraka þjóðnýttu olíuiðnaðinn og fleygðu vestrænu olíufélögunum út úr landinu. Þar með misstu þau nokkrar stærstu olíulindir heims. 

Það eru sannarlega ógrynni af olíu í Írak. Þó svo hið nýja lýðveldi Íraka sé í dag „einungis" í fjórða sæti yfir þær þjóðir sem búa yfir mestum olíubirgðum í jörðu, er vel mögulegt að í Írak verði í framtíðinni mesta olíuríki veraldar. Í dag eru það auðvitað Sádarnir sem tróna í efstir með 270 milljarða tunna af sannreyndum olíubirgðum (proven reserves), Kanada er í öðru sæti með 180 milljarða tunna af olíusandgumsinu sínu norður í Alberta og klerkarnir í Íran í þriðja sæti með 140 milljarða tunna. Írak er svo í 4. sæti með 115 milljara tunna af olíu.

iraq-oil-gasoline_pumpsBúist er við gríðarlegri aukningu í olíuframleiðslunni í Írak nú þegar fjármagnið fer að streyma þangað á ný eftir áratuga hlé. Vegna áratugalangrar óstjórnar Saddam Hussein lenti íraski olíuiðnaðurinn í tómu veseni og var langt frá því að tækniþróun þar héldist í takt við það sem gerðist í olíuiðnaði annars staðar í veröldinni. Með auknu fjármagni og nútíma tækni eru góðar líkur á að senn verði unnt að staðreyna miklu meira af olíu í íraksri jörð. Sumir spámenn segja að senn megi fastsetja olíubirgðir í Írak upp á 400 milljarða tunna!

Þessi tala - 400 milljarðar tunna af olíu -er ekki komin frá neinum bjálfa. Heldur einum af æðstu yfirmönnum ítalska risaolíufélagsins ENI. sem eins og önnur vestræn olíufélög hafa lengi slefað við tilhugsunina um að komast til Íraks. Flestir spámenn í bransanum láta þó nægja að spá „einungis"  svona 200-250 milljörðum tunna  af olíu í Írak. Það mydni samt duga til þess að Írak yrði annað af tveimur lang stærstu olíuveldum veraldarinnar. Þess vegna var svo mikilvægt að tryggja aðgang Bandaríkjanna og Vesturlanda að olíulindum Íraks.

iraq_flag_oil_companiesOg jafnvel þó svo olíubirgðir Íraka ættu ekki eftir að vaxa um eina einustu tunnu, er af miklu að taka. Því brostu vestrænu olíufélögin breitt þegar innrásin var gerð. Norðursjávarolían er á hraðri niðurleið svo tímabært var að skaffa vestrænu olíufyrirtækjunum aftur aðgang að risalindunum í Írak. Auk vestrænu einkareknu olíufélaganna voru líka nokkur ríkisolíufélög sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Þar á meðal var kínverski risinn CNPC, sem er að verða á stórtækur í olíuvinnslu víða um heiminn.

Það var í janúar s.l. (2009) að tilynnt var um fyrsta útboðið á olíuvinnslusvæðum í Írak. Þá voru liðin meira en þrjátíu ár síðan Saddam Hussen endanlega þjóðnýtti olíulindirnar. Það ásamt klerkabyltingunni í Íran 1979 varð nánast til þess að veita BP og breska olíuiðnaðinum náðarhögg. Þeim til happs leyndist mikið af olíu í Norðursjónum og BP fékk þar fljótlega aðgang að gnægð olíu - í bili.

Iraq_Oil_FieldsÍ fyrsta útboðinu var óskað eftir tilboðum í sex þekkt olíusvæði; Rumaila, Vestur- Qurna, Zubair, Missan, Kirkuk og Bai. Þarna á meðal eru sannkallaðar ofurlindir  og þetta fyrsta útboð á írösku olíulindunum mun reyndar hafa verið stærsta olíútboð sögunnar! Þannig að menn geta ímyndað sér hvar hugur olíufélagana hefur legið síðustu misserin.

Umhugsunarvert af hverju í ósköpunum íslensk stjórnvöld ákváðu að halda útboð sitt á Drekasvæðinu á sama tíma og olíufélög með glýju í augum sáu ekkert nema Írak. Að bjóða út Drekann á þessum tíma var svolítið eins og setja kjallaraíbúð við Hverfisgötu til sölu hjá fasteignasala sem sérhæfir sig í lúxusíbúðum. Enda var áhugi olífélaganna á Drekanum nánast enginn.

Eftir að hafa farið yfir þau fyrirtæki sem lýstu áhuga sínum, ákvað íraska olíumálaráðuneytið að leyfa 35 fyrirtækjum að bjóða í svarta gullið. Á hverju svæðanna sex skyldu fyrirtækin einfaldlega bjóða tiltekna upphæð pr. tunnu auk þess að tilgreina hversu mikið fjármagn þau hygðust setja í vinnsluna. Að sjálfsögðu voru öll stærstu vestrænu olíufélögin með í púkkinu. Tilboðin skyldu liggja fyrir 29. júní og biðu nú margir spenntir bæði í Bagdad, Washington og víðar. Eðlilega var mesta peningalyktin af risalindunum Rumalia, Kirkuk og Vestur-Qurna, sem hafa hver um sig að geyma litla 8-18 milljarða tunna af olíu (proven!). Sá sem fengi þó ekki væri nema eitt þessara geggjuðu olíusvæða yrði barrrasta nokkuð vel settur til langrar framtíðar.

Iraq_Oil_MinistryEn nú er kreppa og jafnvel stór olíufyrirtæki eiga í veseni með fjármögnun. Til að gera langa sögu stutta þá buðu stóru olíufélögin einfaldlega hroðalega lítið í írösku olíulindirnar. Mönnum hjá olíumálaráðuneytinu í Bagdad leist ekkert á þessa vitleysu og höfnuðu nánast öllum boðunum, sem reyndust hvert og eitt einasta vera langt undir viðmiðunarverðinu. Þetta var talsverð spæling.

iraqi_oilfield-PICSamt fór reyndar svo að eitt leyfi var gefið út. Eftir að hafa skoðað sameiginlegt tilboð frá breska BP (2/3) og kínverska CNPC (1/3), sem vildu fá 3,99 dollara fyrir vinnslu á hverri tunnu úr Rumalia-lindunum, var ákveðið að ganga til samninga við þau. Og svo fór að samið var um að þessi tvö nettu kompaní fái að vinna þessa milljarða tunna í Rumalia gegn því að tunnugjaldið til þeirra verði 2 dollarar. Af hverju þau töldu sig upphaflega þurfa 3,99 dollara fyrir tunnuna en sættust svo á 2 dollara er líklega eitthvað sem við dauðlegir menn munum aldrei fá skýringu á. Kannski kallast það græðgi?

Það var reyndar svo að BP og CNPC áttu þarna í keppni við ExxonMobil, en hið síðar nefnda hafði boðið 4,80 USD í tunnugjald. Írakarnir í olíumálaráðuneytinu slógu í borðið og sögðust borga 2 dollara fyrir tunnuna og ekki einu centi meira. "Litla" ExxonMobil treysti sér ekki í slíkt, en BP og CNPC slógu til. Það sem BP og CNPC vissu ekki, var að þarna í sama herberginu hjá olíumálaráðuneytinu þennan örlagaríka dag höfnuðu öll önnur olíufélög gagntilboðum Írakanna. Nú velta menn í bransanum því fyrir sér hvort BP og félagar hafi hlaupið á sig.

Iraq_oil_licensing_round2Það hversu lág tilboð bárust í írösku olíulindirnar í þessu fyrsta útboði olli talsverðum vonbrigðum hjá olíumálaráðherranum Hussain Ibrahim Saleh al-Shahristani  og félögum hans í íraska olíumálaráðuneytinu. En nú horfa menn spenntir til þess þegar næsta útboð  verður haldið eftir fáeina mánuði. Nú vita olíufélögin að þau þurfa líklega að vera aðeins rausnarlegri til að komast yfir þessar gríðarlegu olíuauðlindir og leika sér þar næstu áratugina. Nema þau standi öll saman um að bjóða barrrasta nógu lítið og reyni þannig að þjarma að Írökunum. Ætli Samkeppnisstofnun sé á tánum?

Iraq_oil_minister_Hussein al-Shahristani_3Orkubloggið mun að sjálfsögðu fylgjast spennt með þegar úrslitin í næsta olíuútboði Íraka liggja fyrir. Það á að verða í desember n.k. (2009). En auðvitað skiptir mestu að íraska þjóðin er orðin frjáls á ný - ekki satt? Og hlýtur því í ríkum mæli að fá að njóta arðsins af hinum geggjuðu orkulindum landsins. Rétt eins og gerist hjá íslensku þjóðinni, sem væntanlega á eftir að njóta gríðarlegra skattekna og auðlindagjalds frá starfsemi HS Orku.


Paradís á Jörðu?

Tree_of_KnowledgeÞar sem hin fornfrægu fljót Efrat og Tígris mætast má kallast vagga menningarinnar. Enda hafa verið uppi kenningar um að sjálfur Edensgarður hafi legið á þeim slóðum þar sem fljótin tvö mynda Shatt al-Arab, sem nú skilur að fjandvinina í Írak og Íran.

Þó svo langt sé um liðið síðan kviknakin Eva teygði sig eftir eplinu af Skilningstré góðs og ills í þessum þá dásamlega Paradísarreit, býr svæðið ennþá yfir mikilli og sérstakri fegurð. Nei - ekki af því að þarna á bökkum fljótsins sprangi gjafvaxta stúlkur um á Evuklæðum. Það ku vera löngu liðin tíð. Í dag er þetta svæði betur þekkt sem vettvangur hinna grimmilegu stríðsátaka Írans og Íraks í Persaflóastríðinu fyrra

Nútímafegurð svæðisins lýsir sér aftur á móti í því að í augum olíuspekúlanta er þarna hugsanlega að finna Paradís á Jörðu. Þarna undir liggja nefnilega einhverjar mestu peningauppsprettur framtíðarinnar. Olíulindirnar kenndar við Vestur-Qurna.

Shatt-al_Arab_mapOlíulindirnar við Qurna draga nafn sitt af samnefndu þorpi þarna í sunnanverðu Írak - ekki langt frá hinni umtöluðu Basra, sem við heyrum svo oft um í fréttunum. Þó svo lindirnar í Vestur-Qurna séu ekki stærstu olíulindirnar í Írak eru þær með þeim stærstu. Þar er talið að unnt sé að vinna 10-15 milljarða tunna af olíu og að dagsframleiðslan geti náð allt að 1 milljón tunna á dag.

Þetta eru vel að merkja sannreyndar birgðir (proven reserves). Og magnið slagar hátt í helminginn af allri olíuframleiðslu Norðmanna og er tíundi hluti þess sem Sádarnir gætu framleitt með því að setja allt í botn. Vestur-Qurna hefur sem sagt að geyma einhverjar mikilvægustu olíulindir heimsins.

Nú í sumar gafst öllum helstu olíufélögum heimsins kostur á að bjóða í risaolíulindirnar í Vestur-Qurna. Í einhverju stærsta olíuútboði sem nokkru sinni hefur farið fram - ef ekki einfaldlega það allra stærsta. Niðurstaðan lá fyrir nýlega og mönnum til mikillar furðu voru öll tilboðin í Vestur-Qurna svo lág að þeim var einfaldlega hafnað af íraska olíumálaráðuneytinu.

iraq_Oil_West-QurnaÞví miður voru Chevron, ExxonMobil og aðrir olíurisar heimsins sem sagt samstíga í því að bjóða skít og kanil í svörtu jarðeplin í Eden. Og var þess vegna hent út úr Edensgarði - í bili. Líka gaman að geta þess að meðal þeirra sem höfðu mikinn áhuga á að komast yfir olíuna í Vestur-Qurna voru frændur okkar hjá Mærsk og Statoil. Þau Skandínavísku félög mynduðu hóp með spænska Repsol og vildu komast í þessa milljarða tunna gegn því að Írakarnir greiddu þeim tæpa 20 dollara fyrir tunnuna.

Það þætti kannski mörgum prýðilegur díll fyrir írösku þjóðina nú þegar olíuverð er langt yfir 60 dollara tunnan og sumir spá því yfir 100 dollara innan skamms. Írösk stjórnvöld vildu aftur á móti einungis borga tunnugjald upp á 1,9 dollara!  Þarna á milli Norðurlandabúanna og Írakanna var sem sagt himinn og haf. Og enn hefur enginn náð samningum við Írak um aðgang að megalindunum í Vestur-Quarna. Það er sem sagt laust herbergi í Paradís. Og Freistarinn líklega ennþá á ferli þar í nágrenninu.


Hikstinn í Kína

Síðustu vikur og jafnvel í allt sumar hafa menn viða um heim gerst afar bjartsýnir og spáð því að kreppan hafi náð botni og viðreisnin sé byrjuð.

shanghai_3_monthOrkubloggið hefur varað við að fagna of snemma. Vísbendingar um bata hafa vissulega komið fram í Evrópu undanfarna mánuði og jafnvel enn frekar austur Asíu. En samt getur maður ekki komist hjá því að álykta sem svo að enn sé talsvert loft í kínversku hlutabréfabólunni, sem eigi eftir að streyma út.

Vöxturinn í Kína var lengi vel hreint ævintýralegur og var meðal þess sem dró olíuverð upp í hæstu hæðir árið 2007 og fram eftir 2008. En fallið var líka mikið. Svo fór Eyjólfur að hressast á ný, að því er virtist, og þegar batinn virtist vera að bresta á eftir því sem leið á 2009 urðu sífellt fleiri til þess að segja að kreppunni væri lokið.

Shanghai_3_monthDesværre fór Kína aftur að hiksta nú í águst. Og sú niðursveifla hefur þurrkað út hlutabréfahækkanir sumarsins.

Að mati Orkubloggsins er því miður allt of snemmt að spá því að kreppunni sé lokið eða rétt í þann mund að ljúka. Ekki er útilokað að fasteignamarkaðurinn í Kína eigi enn eftir að lofta hressilega út. Með viðeigandi afleiðingum fyrir hlutabréfavísitölur heimsins.

China_real_estate_3Ástandið þegar fólk í kauphugleiðingum beið í röðum á morgnana utan við kínverskar fasteignasölur var afar sérstakt. Vandamálið er bara að fyrir Íslending sem gengur út í hressandi haustloftið hér á Klakanum góða, er afskaplega erfitt að átta sig á hvað sé eðlilegt ástand í Kína. Er jafnvægi komið á þar í þessu risasamfélagi - eða á kínversk efnahagslíf enn eftir að taka svona eins og eina dýfu áður en botninum verður náð?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband