2.3.2014 | 21:59
Gashagsmunir í Úkraínu
Árið 1938 réttlætti ónefndur þýskur stjórnmálaleiðtogi hernaðarafskipti þýska hersins innan Tékkóslóvakíu og Austurríkis með því að gæta þyrfti þýskra hagsmuna og vernda fólk af þýskum ættum. Sambærilegt gerðu serbneskir leiðtogar löngu síðar gagnvart héruðum í Króatíu og Bosníu. Og nú tala leiðtogar í Rússlandi um mikilvægi þess að verja rússneska hagsmuni og fólk af rússnesku bergi brotið á Krímskaga og víðar innan Úkraínu
Já, enn og aftur bankar óhugnaðurinn uppá innan Evrópu. Tvær risastórar Evrópuþjóðir, Rússar og Úkraínumenn, virðast á barmi styrjaldar. Innan Úkraínu hafa rússneskar hersveitir nú þegar haft sig í frammi á Krímskaga og samkvæmt nýjustu fréttum búast stjórnvöld í Úkraínu við hinu versta.
Undanfarin ár hafa fréttir af Úkraínu mjög tengst annars vegar gaskaupum Úkraínu af Rússum og hins vegar flutningi á rússnesku gasi í gegnum Úkraínu og til Evrópuríkjanna vestan Úkraínu. Fyrir áhugafólk um orkumál hlýtur ástandið í Úkraínu núna að beina kastljósinu að gasinu. Því það er jú svo að ef flutningur á rússnesku gasi til Evrópu gegnum Úkraínu stöðvast er örstutt í alvarlegan orkuskort innan fjölmargra Evrópulanda.
Í Mið-Evrópu eru mörg ríki sem reiða sig svo mjög á rússneskt gas að alvarlegur orkuskortur gæti orðið innan 2-3ja vikna. Og stórþjóðir á borð við Þjóðverja og Frakka myndu sennilega lenda í vandræðum innan 2ja mánaða. Verst er þó auðvitað staða Úkraínumanna sjálfra, sem samstundis myndu finna fyrir alvarlegum orkuskorti.
Úkraína er mjög háð rússnesku gasi
Úkraínumenn eru afar fjölmenn þjóð (um 45 milljónir) og fyrir vikið er Úkraína meðal þeirra ríkja í heiminum sem flytur inn hvað mest af jarðgasi og þarf að eyða geysilegum fjárhæðum í kaupin á öllu því gasi. Það gas er svo til allt fengið frá Rússlandi.
Úkraínumenn framleiða reyndar stóran hluta raforku sinnar með kjarnorkuverum. Í landinu eru starfræktir fimmtán kjarnaofnar, sem útvega Úkraínumönnum um helming allrar raforkunnar sem notuð er þar í landi. Afgangur raforkunnar kemur einkum frá kola- og gasorkuverum. Að auki er gas mikið notað til eldunar og upphitunar.
Tvær stærstu gasleiðslurnar til Úkraínu frá Rússlandi kallast þeim notalegu nöfnum Samband (Soyuz) og Bræðralag (Bratstvo). En samband Rússa og Úkraínumanna einkennist þó ekki beint af bræðralagi þessa dagana.
Úkraína er mikilvægasti aðgangur Evrópu að rússnesku gasi
Úkraína er ekki bara háð rússnesku gasi, heldur gegnir landið afar mikilvægu hlutverki í flutningi á gasi frá Rússlandi til Evrópulandanna vestan Úkraínu. Nær helmingur af öllu því gasi sem Evrópuríki fá frá Rússlandi kemur um gasleiðslur sem liggja gegnum Úkraínu. Þetta er geysihátt hlutfall - ekki síst þegar haft er í huga að löndin vestan Úkraínu uppfylla mörg á bilinu 40-100% af gasþörf sinni með innfluttu rússnesku gasi. Meira að segja Ítalir og Frakkar fá á bilinu 15-25% af gasinu, sem þar er notað, frá Rússlandi. Og eins og áður sagði kemur langmest af þessu rússneska gasi gegnum Úkraínu.
Fyrirtækið sem höndlar með þessa gasflutninga gegnum Úkraínu er annað af tveimur stærstu fyrirtækjum landsins; orkufyrirtækið Naftogaz. Naftogaz var stofnað árið 1991 þegar Úkraína lýsti yfir sjálfstæði og er alfarið í eigu úkraínska ríkisins. Þetta gríðarstóra úkraínska orkufyrirtæki sér sem sagt um að flytja rússneskt jarðgas gegnum Úkraínu til Evrópu. Stærstu leiðslurnar þarna liggja yfir til Slóvakíu, en þaðan fer gasið áfram til Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu, Frakklands og víðar.
Úkraína er á barmi gjaldþrots
Naftogaz og þar með Úkraína hafa miklar tekjur af gasflutningum Rússa gegnum landið. En þær tekjur duga skammt til að vega á móti kostnaði Úkraínu vegna gaskaupa af Rússum. Inní þetta blandast svo sú stefna Gazprom að draga úr mikilvægi Úkraínu með því að ætla að leggja nýja gasleiðslur vestur til Evrópu framhjá Úkraínu. Í því skyni stendur bæði til að leggja aðra gasleiðslu eftir botni Eystrasalts og nýja gasleiðslu eftir botni Svartahafsins.
Undanfarin ár hafa einkennst af deilum Úkraínumanna við Gazprom og rússnesk stjórnvöld um verðlagningu á því gasi sem Úkraína kaupir af Rússunum. Og um leið hefur verið deilt um það hvað Gazprom eigi að greiða Naftogaz fyrir gasflutninginn gegnum Úkraínu. Jafnvel þó svo núverandi pólitískur ágreiningur milli landanna leiði kannski ekki til vopnaðra átaka, munu Rússar áfram hafa efnahagslegt kverkatak á Úkraínu. Og það tak virðist mun sterkara en ótti Rússa við að verða tímabundið af einhverri gassölu til Evrópu.
Fyrir liggur að Úkraína skuldar Gazprom háar fjárhæðir vegna ógreiddra gasreikninga (talan er á reiki en virðist liggja nú á bilinu 1-2 milljarðar USD). Að auki verja úkraínsk stjórnvöld geysilegum fjárhæðum í niðurgreiðslur á gasi, því almenningur í Úkraínu ekki efni á að greiða fullt verð fyrir gasið
Þetta ásamt öðrum erfiðleikum í efnahagslífi Úkraínu veldur því að landið er á barmi gjaldþrots. Og gæti þurft tugi milljarða USD í neyðarlán til að halda sér á floti. Efnahagsleg staða landsins er sem sagt vægast sagt afar erfið.
Til framtíðar er þó von um að unnt verði að stórauka gasframleiðslu innanlands - því Úkraína er talin hafa að geyma mikið af þunnum lögum af jarðgasi sem unnt verði að nálgast með sama hætti og verið hefur að gerast vestur í Bandaríkjunum. En þessi von skiptir litlu þessa dagana. Úkraína á sér litla von nema vestrænu lýðræðisríkin styðji nú af alefli við sjálfstæði Úkraínu. Fróðlegt verður að sjá hvort sú lýðræðishugsjón sé ennþá jafn sterk og staðföst hér á Vesturlöndum eins og var á tímum kalda stríðsins. Eða hvort það viðhorf sé kannski að verða útbreitt að gælur við einræðisöfl í austri séu mun ábatasamari og skemmtilegri?
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.6.2014 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.2.2014 | 12:02
Rússland býr yfir mestu orkuverðmætum veraldarinnar
Á síðustu árum hefur listinn yfir þau lönd sem búa yfir mestu orkubirgðum veraldarinnar breyst nokkuð.
Eftir því sem olíuverð hefur hækkað hefur orðið hagkvæmt að vinna olíu úr olíusandi. Þar með var eðlilegt að taka geysilegar olíubirgðir sem þar er að finna með í reikninginn. Afleiðingin var einkum sú að olíubirgðir Kanada og Venesúela jukust mjög.
Svipað hefur gerst vegna nýrra vinnsluaðferða við að nálgast bæði olíu og gas sem liggja í þunnum lögum innklemmd í sandsteini (sem stundum er líka nefndur leirsteinn í skrifum um þetta á íslensku - og þá gjarnan talað um leirgas en sjaldnar um leirolíu; á ensku er talað um shale gas og tight oil). Þær vinnsluaðferðir (hydrologic fracturing eða fracking) hafa enn sem komið er fyrst og fremst aukið gasvinnslu í Bandaríkjunum. En talið er líklegt að þetta opni á aukna gas- og olíuvinnslu í mörgum öðrum löndum, t.d. í Rússlandi, Kína og Argentínu.
Mestu orkubirgðirnar liggja þó í kolum. Gífurleg eftirspurn eftir raforku í Kína og fleiri nýmarkaðslöndum hefur meira að segja valdið því að síðustu árin hefur verið algengt að mestur hlutfallslegur vöxtur í nýtingu orkuauðlinda hafi verið í kolum! Kolanotkunin hefur þannig stundum vaxið ennþá hraðar hlutfallaslega heldur en nýting á endurnýjanlegum auðlindum eins og sól eða vindi!
Fjölmiðillinn Business Insider var að birta nýjan lista yfir þau lönd sem búa yfir mestu orkubirgðunum (þar er sem sagt verið að fjalla um olíu-, gas- og kolavinnslu framtíðarinnar). Listinn byggir á gögnum frá BP Statistical Review 2013, sem er oft talin ein besta heimildin um orku í veröldinni. Þessi listi Business Insider tekur ekki til endurnýjanlegra orkuauðlinda, enda er nýting þeirra afar lítil miðað við allt jarðefnaeldsneytið. Og kjarnorkan er líka utan þessa samanburðar. Þetta er sem sagt eingöngu listi yfir jarðefnaeldsneytið (olíu, jarðgas og kol) sem lönd búa yfir.
Business Insider ákvað að leggja mat á verðmæti þessara auðlinda. Þar var i fyrsta lagi miðað við olíuverð á Brent-markaðnum, í öðru lagi var miðað við kolaverð á áströlskum kolum (sem mjög oft er miðað við í viðskiptum með kol) og í þriðja lagi var miðað við meðalverð á gasi í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Japan (gasverð er afar misjafnt í heiminum, enda miklu flóknara að flytja gasið langar leiðir heldur en olíu eða kol).
Listinn yfir fimm verðmætustu orkuríkin lítur þannig út (til samanburðar má t.d. hafa í huga að árleg verg þjóðarframleiðsla (GDP) í Bandaríkjunum er nú um 16 þúsund milljarðar USD og sama er að segja um Evrópusambandslöndin öll til samans):
1. Rússland. Heildarverðmæti rússnesku kolvetnislindanna er um 41 þúsund milljarðar USD. Landið býr yfir um 87 milljörðum tunna af olíu (8. mestu olíubirgðirnar), tæplega 34 þúsund milljörðum teningsmetra af jarðgasi (2. mestu gasbirgðirnar; einungis Íran býr yfir meira af jarðgasi) og 157 milljónum tonna af kolum (2. mestu kolabirgðirnar; einungis Bandaríkin búa yfir meiru af kolum). Orkuútflutningur er langmikilvægasta tekjulind Rússlands, sem fær meira en helming útflutningstekna sinna með þeim hætti.
2. Íran. Heildarverðmætið er um 35 þúsund milljarðar USD. Landið býr yfir um 157 milljörðum tunna af olíu (4. mestu olíubirgðirnar) og 34 þúsund milljörðum teningsmetra af jarðgasi (mestu gasbirgðirnar í víðri veröld!). Kolavinnsla er aftur á móti lítil í Íran alþjóðlegu samhengi.
3. Venesúela. Heildarverðmætið er um 35 þúsund milljarðar USD. Með olíusandinum er Venesúela talið búa yfir um 298 milljörðum tunna af vinnanlegri olíu! Það eru mestu olíubirgðir heimsins - meira en Saudi Arabía. Ennþá er reyndar nokkuð umdeilt hvort réttlætanlegt sé að áætla olíubirgðir Venesúela svo miklar. En það sama má segja um uppgefnar birgðir margra annarra landa. Veruleg og raunar aukin óvissa er talin vera um olíubirgðir í heiminum - vegna þess að stjórnvöld sumra ríkja eru grunuð um að kynna tölur sem byggja á of litlum rannsóknum. Umrædd tala um olíubirgðir í Venesúela eru þó viðurkenndar sem viðmiðunartölur. Venesúela er líka álitið búa yfir miklu jarðgasi eða um 6 þúsund milljörðum teningsmetrum (8. mestu í heiminum). Einnig er mikið af kolum í Venesúela eða um 480 milljónir tonna (15. mestu kolanámur veraldarinnar).
4. Saudi Arabía. Heildarverðmætið er um 33 þúsund milljarðar USD. Stutt er síðan Saudi Arabía var álitin búa yfir mestri oliu i jörðu í heimi hér. Í dag hefur Venesúela tekið það efsta sæti. Olíubirgðir í jörðu í Saudi Arabíu eru metnar um 266 milljarðar tunna (2. mestu í heiminum). Þar er líka að finna geysilegt magn af jarðgasi eða um 8 þúsund milljarðar teningsmetrar (6. mestu í heiminum). Kol eru aftur á móti ekki umtalsverð í alþjóðlegu samhengi. Það er athyglisvert að samtals eru olíubirgðirnar í Saudi Arabíu og Venesúela um 40% allrar olíu sem álitið er að vinna megi í heiminum öllum!
5. Bandaríkin. Heildarverðmætið er um 29 þúsund milljarðar USD. Þar að baki eru um 35 milljarðar tunna af olíu (11. mestu olíubirgðir í heiminum), um 9 þúsund milljarðar teningsmetrar af jarðgasi (5. mestu gasbirgðir í heiminum) og um 237 milljónir tonna af kolum (sem eru mestu kolabirgðir sem nokkurt ríki býr yfir). Bandaríkin eru sem sagt mesta kolastórveldið. Vegna aukinnar olíuvinnslu (vegna fracking) gætu Bandaríkin orðið mesti olíuframleiðandi heims innan fárra ára. Það er þó fremur ólíklegt að svo yrði lengi og Bandaríkin munu því áfram þurfa að flytja inn verulegt magn af olíu og/eða olíuafurðum. Þess vegna má gera ráð fyrir því að Bandaríkin munu áfram leitast við að halda áhrifum sínum við t.d. Persaflóann, þar sem flestar stærstu olíulindirnar eru.
-----------------
Kína er í dag orðið mesti orkunotandi heimsins. En er einungis í 10. sæti yfir þau lönd sem búa yfir verðmætustu orkuauðlindunum. Innflutningsþörf Kínverja á orku er geysileg og það gæti til framtíðar skapað togstreitu milli Kína og Bandaríkjanna. En það er önnur saga.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2014 | 13:03
Orkusveitarfélög njóti aukinnar arðsemi
Í desember s.l. var athyglinni hér á Orkublogginu beint að því hvernig áherslan og umræðan um íslenska orkugeirann snýst oft ansið mikið um að hið opinbera beiti sér til að útvega sem allra ódýrasta orku til handa stóriðju. Í tali íslenskra stjórnmálamanna (og ýmissa annarra) um orkumál heyrist af einhverjum ástæðan lítið um mikilvægi arðseminnar. Þeim mun meira er talað um að koma framkvæmdum í gang" og að skapa störf".
Oftast er þetta beintengt við uppbyggingu á stóriðju. Því má segja að orkustefnan hér hafi löngum einkennst mjög af stóriðjustefnu. Gallinn er bara sá að það að skapa störf og koma framkvæmdum í gang á ekki endilega samleið með því að ná eðlilegri eða skynsamlegri arðsemi af fjárfestingum í raforkuvinnslu. Þvert á móti er það óhjákvæmilegur fylgifiskur stóriðjustefnunnar að raforkusalan skilar botnarðsemi.
Ísland er mesti raforkuframleiðandi heimsins (miðað við stærð þjóða) og mestöll raforkuframleiðslan er í höndum fyrirtækja í opinberri eigu. Aukin arðsemi í raforkuframleiðslunni hér er því eitthvert mesta hagsmunamál þjóðarinnar. Við eigum að skoða vandlega alla möguleika til að auka langtímaarðsemi af fjárfestingum opinberu orkufyrirtækjanna og draga úr áhættu þeirra með fjölbreyttari kaupendahópi.
Skynsamlegt kann að vera að koma á sérstökum hvötum sem geta hjálpað til við að ná slíkum markmiðum. Hanna mætti kerfi sem myndi hvetja til þess að hugað verði í ríkari mæli að aukinni arðsemi í raforkuvinnslunni. Hér á Orkublogginu í dag verður athyglinni beint að þessum möguleika - og horft til þess sérstaklega að virkja nágrannasveitarfélög orkulindanna í þessum tilgangi. Það gæti orðið mikilvægt skref í raunverulegu fráhvarfi frá áhættusamri og arðlítilli stóriðjustefnunni og leitt okkur til aukinnar arðsemi í raforkuvinnslunni.
Frá rafvæðingu til aukinnar verðmætasköpunar
Á sínum tíma var eðlilegt að viðhorf okkar til vatnsaflsins og jarðvarmans byggðist fyrst og fremst á því að ná að nýta þessar náttúruauðlindir til rafvæðingar og húshitunar. Á tímabili átti stóriðjustefnan góða samleið með þessu viðhorfi. Þannig voru fyrstu stóru virkjanirnar í Þjórsá og víðar um land reistar fyrir stóriðju og þær framkvæmdir voru um leið mikilvægur hluti af uppbyggingu íslenska raforkukerfisins. Á þeim tíma var uppbygging raforkukerfisins skammt á veg komin og framkvæmdirnar fyrir stóriðjuna þá voru almenningi tvímælalaust til hagsbóta - jafnvel þó svo lágmarksarðsemi í raforkuvinnslu sé óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar stóriðjustefnu.
En þeir tímar eru löngu liðnir að við þurfum aðkomu stóriðju til að hjálpa okkur að njóta rafmagns og hita og/eða stuðla að uppbygginu öflugs dreifikerfis. Ísland er í dag langstærsti raforkuframleiðandi heimsins (miðað við fólksfjölda). Það met varð staðreynd þegar Kárahnjúkavirkjun var komin í gang. Og við erum líka með eitthvert allra öruggasta raforkuflutningskerfi sem þekkist í víðri veröld (alþjóðlegar kannanir raða Íslandi þar jafnan í eitt af efstu sætunum). Við erum sem sagt búin að byggja upp frábært raforkukerfi - sem við munum að sjálfsögðu viðhalda og styrkja með skynsamlegum hætti. En nú er orðið tímabært að huga alveg sérstaklega að því að orkuauðlindirnar skapi okkur meiri arð.
Til að svo megi vera er nauðsynlegt að við leggjum stóriðjustefnuna til hliðar eða höfum hana a.m.k. ekki í öndvegi. Því hún er dragbítur á að koma markmiðum um aukna arðsemi af raforkuvinnslunni í framkvæmd. Vandinn er bara sá að furðumargir virðast fastir í gamla farinu og jafnvel afneita nýjum tækifærum. Orsökin þar kann að vera ákveðinn kerfisgalli sem við búum við.
Núverandi fyrirkomulag vinnur gegn aukinni arðsemi af orkuvinnslunni
Þegar umtalsverðar virkjanir eru reistar á Íslandi snýst það oft ansið mikið um það að eitthvert tiltekið sveitarfélag hreppi stóra vinninginn. Þessi stóri vinningur er líkt og tvær súlur eða stoðir stóriðjustefnunnar. Og þær súlur virðast beinlínis halda uppi viðhorfinu um að arðsemin í raforkuframleiðslunni sé aukaatriði.
Annars vegar felst umræddur stóri vinningur" sveitarfélags í því að fá til sín sjálft stóriðjuverið (sem er forsenda virkjunarinnar). Þannig skapast störf innan sveitarfélagsins í stóriðjuverinu auk þess sem sveitarfélagið fær þar fasteignagjöld í sinn hlut frá stóriðjunni og ný störf verða til. Hins vegar er vinningurinn" sá að fá stöðvarhús virkjunarinnar innan marka sveitarfélagsins. Því þá renna fasteignagjöld vegna virkjunarinnar til viðkomandi sveitarfélags.
Þannig byggir stóriðjustefnan fyrst og fremst á stuttu framkvæmdatímabili, fasteignagjöldum og nýjum stóriðjustörfum. En hefur lítið sem ekkert með arðsemi raforkuvinnslunnar að gera. Hvergi í þessu ferli verður aðalatriðið að raforkuvinnslan skili góðri arðsemi. Nema hjá raforkusalanum.
En jafnvel viðleitni raforkusalans til aukinnar arðsemi getur verið til lítils. Ef það eru ekki beinlínis ráðherrar sem fara að skammast útí slíka stefnu raforkufyrirtækisins, þá koma sveitarstjórnarmenn askvaðandi og væna raforkusalann um óheilindi, tafir og/eða beinlínis að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Stíf pressa myndast á stóru orkufyrirtækin til að útvega" orku svo unnt verði að skapa störf". Í þeirri pressu er lítt hugað að arðsemi verkefnanna til lengri tíma litið. Enda er kjörtímabil bæði þingmanna og sveitarstjórnarmanna stutt.
Óheppilegur kerfisgalli
Allar orkuauðlindirnar (vatnsaflið og jarðvarminn) eru að sjálfsögðu innan lögsögumarka sveitarfélaga. En sveitarfélög sem búa yfir orkuauðlindum innan sinna marka hafa furðulítinn hag af því að sem hæst verð fáist fyrir orkuna. Þvert á móti virkar kerfið hér þannig, að sveitarfélögin virðast jafnvel telja það henta sér best að sem allra lægst verð fáist fyrir orkuna. Af því þá er líklegra að risaframkvæmdir í formi stóriðju með tilheyrandi virkjunum verði innan sveitarfélagsins.
Hætt er við að afleiðing þessa sé sú að mikill þrýstingur skapist um að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki einbeiti sér að því að útvega sem ódýrasta orku til handa stóriðju. Það er kallað að skapa störf" og koma framkvæmdum í gang".
Umræddur þrýstingur kemur ekki aðeins frá sveitarstjórnarmönnum. Hann virðist líka eiga sér marga fylgismenn á Alþingi, enda eru byggðastefnusjónarmið þar ennþá furðuáhrifamikil. Það eru þó ekki bara stjórnmálamenn sem búa til umræddan þrýsting, heldur líka verktakar og þessi viðhorf smitast líka til kjósenda sem ekki virðast átta sig á tækifærunum sem orkuauðlindirnar geta gefið okkur. Þess í stað virðast margir líta á Landsvirkjun sem einhverskonar ríkisapparat, sem hafi fyrst og fremst þann tilgang að stuðla að stórframkvæmdum með miklum lántökum.
Það að ráðast í virkjanaframkvæmdir (og skapa þannig störf og koma framkvæmdum í gang) verður að aðalatriði. En arðsemin af þessum risastóru og talsvert áhættusömu fjárfestingunum verður aukaatriði. Þessi kerfisgalli kann ekki góðri lukku að stýra fyrir þjóðina. Það er vandséð hvernig megi breyta þessu viðhorfi. Kannski skortir á einhvers konar innbyggða hvata til að auka arðsemina.
Fasteignagjöldin af virkjunum hér eru ótengd orkuverði og renna til afar þröngs hóps
Eins og áður sagði þá er fyrirkomulagið á Íslandi í dag með þeim hætti að þegar stærstu orkufyrirtækin hér reisa virkjun skiptir geysilega miklu máli fyrir sveitarfélög landsins á hvaða bletti stöðvarhúsið er staðsett. Staðsetning stöðvarhúss virkjunarinnar hefur nefnilega alger grundvallaráhrif á tekjur sveitarfélaga af virkjunum.
Aftur á móti eru nákvæmlega engin fasteignagjöld greidd af virkjunum til þeirra sveitarfélaga sem einungis hafa t.d. aðrennslisskurði, aðrennslisgöng og /eða stíflur innan sinna marka. Og þau sveitarfélög sem háspennulínurnar liggja um fá heldur engar tekjur af þeirri aðkomu sinni að raforkugeiranum. Þetta er varla sanngjarnt og ennþá síður skynsamlegt kerfi. Því afleiðingin er sú að sveitarfélög verða oft óskaplega áhugasöm um að fá stöðvarhús, en eilíft vesen getur verið að koma t.d. upp nýrri raflínu (í öðru sveitarfélagi).
Rétt er að gefa vísbendingu um það hvaða fjárhæðum fasteignagjöld af virkjunum (stöðvarhúsum) eru að skila sveitarfélögum í tekjur. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins síðla árs 2012 fengu Ása- og Skeiða- og Gnúpverjahreppar á Suðurlandi (Þjórsár- og Tungnaárstöðvar), Fljótsdalshreppur (Fljótsdalsstöð) og Húnavatnshreppur (Blöndustöð) samtals um 370 milljónir ISK í formi fasteignagjalda vegna virkjananna (eða öllu heldur vegna stöðvarhúsanna sem liggja innan marka þessara sveitarfélaga).
Samtals eru íbúar þessara fjögurra sveitarfélaga innan við 1.200 talsins (sbr. upplýsingar á vef Hagstofunnar). Þar af eru einungis 80 íbúar í Fljótsdalshreppi, sem nýtur fasteignagjalda af langstærstu virkjuninni, sem er Kárahnjúkavirkjun (þ.e. Fljótsdalsstöð). Þegar fasteignagjöldin af virkjununum eru borin saman við íbúafjöldann sést að umrædd gjöld skila að meðaltali um 300 þúsund ISK á hvern íbúa sveitarfélaganna (Fljótsdalshreppur fékk þó meira en milljón ISK á mann).
Eflaust eru skiptar skoðanir um hvort þetta séu miklar eða litlar tekjur þegar þær eru skoðaðar í hlutfalli við þau verðmæti sem vatnsréttindi og virkjanir eru. En þessar tekjur skipta viðkomandi sveitarfélög miklu máli. Og nú er risið dómsmál þar sem nágrannasveitarfélag Fljótsdalshrepps, Fljótsdalshérað, reynir að fá viðurkenndan rétt sinn til að leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi innan sveitarfélagsins. Það er Landsvirkjun sem er handhafi þeirra vatnsréttinda, sem Fljótsdalshérað sækist eftir að myndi stofn fasteignagjalda með svipuðum hætti eins og sjálf virkjunin (Fljótsdalsstöð).
Umrætt dómsmal sýnir nokkuð vel að núverandi fyrirkomulag er háð ýmsum göllum eða óvissu, sem löggjafinn virðist hafa veigrað sér að taka á. Það er heldur óspennandi framtíðarsýn að sveitarfélög ráðist nú í þann leik að reyna að klípa sem mest af orkufyrirtækjunum í formi fasteignagjalda af vatnsréttindum og þannig skerða ofurlága arðsemi orkufyrirtækjanna. Skynsamlegra væri að löggjafinn myndi taka sig til og bæði skýra skattkerfi raforkufyrirtækjanna OG skapa sterka hvata fyrir sveitarfélögin og landsmenn alla til að setja arðsemi raforkuvinnslunnar í forgang.
Bein hagsmunatenging milli nærsamfélaga og arðsemi virkjana gæti verið skynsamleg
Hugsanlega væri skynsamlegt að byrja á að breyta skattareglunum á þann hátt að nærsamfélög virkjana myndu sérstaklega njóta hærra raforkuverðs og meiri arðsemi í raforkuframleiðslunni. Þannig yrði til hvati fyrir sveitarfélög, sem hafa orkuauðlindir og virkjunarmannvirki innan sinna marka, að arðsemi í raforkuvinnslunni sé hámörkuð. Í þessu sambandi er áhugavert hvernig Norðmenn hafa hannað starfsumhverfi og skattkerfi gagnvart raforkuiðnaðinum á þann hátt að ríkir hvatar myndast hjá nærsamfélögum virkjana og ríkisvaldinu til að arðsemin af orkuvinnslunni og nýtingu vatnsaflsauðlindarinnar sé sem mest.
Í fyrsta lagi er norska löggjöfin þannig úr garði gerð að hvort sem orkulindir eru í einkaeigu eða opinberri eigu, skuli þess gætt að nýting þeirra sé þjóðinni allri til hagsbóta. Allur almenningur nýtur góðs af auknum hagnaði vatnsaflsfyrirtækjanna - bæði í formi skattgreiðslna vatnsaflsfyrirtækjanna og arðgreiðslna til eigenda fyrirtækjanna (því eigendurnir eru í langflestum tilvikum norsku sveitarfélögin, norsku fylkin og norska ríkið). Í öðru lagi eru norsku reglurnar þannig úr garði gerðar, að að þær hvetja nærsamfélög virkjana til að gæta þess að orkulindirnar innan lögsögu þeirra skili sem mestri arðsemi. Hér á landi er fyrirkomulagið aftur á móti þannig að stóriðjustefnan - sem byggist beinlínis á lágri arðsemi í raforkuvinnslunni - er svo til allsráðandi.
Þegar upp er staðið virkar norska skattkerfið sem hvati til að arðsemi sé í fyrirrúmi í raforkuvinnslunni; þannig fá sveitarfélögin til sín meiri beinharða peninga sem þau geta nýtt til góðra verka og til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Sveitarfélögin geta t.d. notað tekjurnar til að bæta þjónustu sína og/eða til að lækka skatta á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þannig ná þau að verða samkeppnishæfari en ella væri. Um leið nýtur norska ríkið góðs af fyrirkomulaginu, því verulegur hluti skatttekna af raforkuvinnslunni rennur til þess.
Loks ber að hafa í huga að í norska kerfinu snýst ekki allt um staðsetningu stöðvarhúss. Þar er nefnilega tekið tillit til þess að orkan á rætur sínar á öllu vatnasvæði virkjunarinnar og forsendur raforkuframleiðslunnar eru ekki bara túrbínurnar, heldur líka öll önnur mannvirki virkjunarinnar. Loks er í norska kerfinu líka tekið tillit til flutningskerfisins og búið svo um hnútana að flutningskerfið geti skilað viðkomandi sveitarfélögum tekjum. Í Noregi eru það því öll nærsamfélög virkjana og orkumannvirkja sem njóta tekna vegna raforkuvinnslunnar.
Tillaga að kerfisbreytingu
Stærstur hluti orkuauðlindanna hér á landi er í eigu eða umráðum ríkisins og sveitarfélaga. Með það eignarhald fara pólitískir fulltrúar. Þeir láta ekki endilega stjórnast af arðsemissjónarmiðum, heldur jafnvel miklu fremur af því að orkuauðlindirnar séu einkum nýttar til stórframkvæmda. Þarna ráða staðbundnir byggðastefnuhagsmunir og skammtímasjónarmið um tímabundnar framkvæmdir oft miklu, en arðsemissjónarmiðin eru afgangsstærð. Enda er afar fátítt að heyra stjórnmálamenn tala um það að mestu skipti að orkuauðlindirnar séu nýttar með þeim hætti að hámarka arð af þeim fjárfestingum.
Það væri fróðlegt að sjá áhrif þess ef hagsmunir nærsamfélaga orkumannvirkja (orkusveitarfélaga) yrðu í ríkara mæli tengdir við aukna arðsemi í raforkugeiranum. Þetta mætti gera með tiltölulega einfaldri lagasetningu. Þar gæti verið kveðið á um að sveitarfélög sem teldust til nærsamfélaga virkjunar (skv. nánari skilgreiningum) fengju fasta prósentu af hverri einustu kWst sem seld væri umfram afmarkað kostnaðarverð. Þar með myndaðist hvati fyrir umrædd nærsamfélög að orkan þar yrði ekki seld nálægt kostnaðarverði, heldur með sem mestri arðsemi.
Nærsamfélög virkjunarinnar yrðu ekki aðeins skilgreind sem sveitarfélagið sem hefði stöðvarhúsið innan sinna marka, heldur öll þau sveitarfélög sem hefðu virkjunarmannvirki og háspennulínur innan sinnar lögsögu. Hér verður ekki lagt til hvernig umræddum orkutekjum (sem t.d. mætti kalla orkuauðlindagjald) yrði skipt hlutfallslega milli viðkomandi nærsamfélaga. Mestu skiptir að þarna gæti myndast mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin, sem næmi verulegum fjárhæðum á ári hverju. Um leið væri eðlilegt að fella niður núverandi fasteignagjaldafyrirkomulag af virkjunum.
Tekjur sveiatrfélaga vegna orkuauðlindagjalds myndu verða litlar ef raforkan væri seld nálægt kostnaðarverði. En tekjurnar færu vaxandi með hækkandi raforkuverði (og aukinni arðsemi). Þannig myndi myndast hvati til aukinnar arðsemi af raforkuvinnslunni og áhuginn á hinni óarðbæru stóriðjustefnu minnka. Þetta myndi að auki valda því að fleiri sveitarfélög hér hefðu beina hagsmuni af raforkuvinnslunni heldur en er í núverandi kerfi.
Nærsamfélög virkjana og orkumannvirkja myndu geta notað orkuauðlindagjaldið til að gera viðkomandi sveitarfélög áhugaverðari til búsetu. Það gæti gerst í formi lægra útsvars, betri heilsugæslu, betri skóla o.s.frv. Að auki myndu allir landsmenn njóta þessarar þróunar, því meiri arðsemi í raforkuvinnslunni myndi þýða meiri skatttekjur fyrir ríkissjóð. Þar að auki myndu arðgreiðslur orkufyrirtækjanna vafalítið hækka (vegna aukins hagnaðar) og það koma almenningi til góða (hér er jú langmestur hluti raforkuframleiðslunnar í höndum fyrirtækja í opinberri eigu).
Þingmenn, ríkisstjórn og sveitarstjórnarmenn ættu að einbeita sér að álitamálum af þessu tagi og huga að hvatakerfi til að stuðla að meiri arðsemi í raforkuframleiðslunni hér. Í stað þess að segjast t.d. ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að álver rísi í Helguvík. Hætt er við að slík framkvæmd yrði sorgleg trygging fyrir því að raforkuframleiðslan hér skili algerri lágmarksarðsemi í margra áratuga í viðbót. Það væri afar miður fyrir þjóð sem býr yfir mestu og hagkvæmustu raforkuauðlindum í heimi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.12.2013 | 19:53
Áramótakveðja
Það að við Íslendingar puðrum upp nokkrum flugeldum um áramót þykir sumum illa farið með peninginn. Myndin sýnir logana frá brennandi jarðgasi á borpöllum í Norðursjó. Verðmæti alls þess jarðgass sem brennt er svona útí loftið á ári hverju í heiminum er talið jafngilda markaðsverðmæti sem nemur nokkrum tugum milljarða USD. Eða allt að 60 milljörðum USD (um 7.000 milljörðum ISK) ef miðað er við markaðsverð á gasi í Asíu. Svo koma gróðurhúsaáhrifin af þessum gasbruna með í kaupbæti. Það gengur svona. Orkubloggið óskar lesendum sínum farsæls komandi árs og þakkar samveruna á árinu sem er að liða.
16.12.2013 | 15:59
Stórnmálamenn í viðjum stóriðjustefnu
Í þessum pistli er athyglinni beint að því hvernig stjórnmálaumræðan um orkageirann einkennist furðu mikið af skammtímasjónarmiðum og þröngum byggðastefnuhagsmunum. Sem sagt hinni klassísku íslensku stóriðjustefnu.
Óheppilegur og jafnvel alvarlegur kerfisgalli
Í umræðu um virkjanaframkvæmdir á Íslandi er algengt að áherslan sé mjög á að skapa störf" og koma framkvæmdum í gang". Það að taka lán og virkja vatnsafl og jarðvarma - og skapa þannig störf og koma framkvæmdum í gang - verður oft að aðalatriði þegar stjórnmálamenn, verkalýðsforkólfar og fleiri tjá sig um orkugeirann og hlutverk opinberu orkufyrirtækjanna (einkum Landsvirkjunar). En arðsemin af þessum risastóru fjárfestingunum verður nánast að aukaatriði.
Gott dæmi um þetta var erindi iðnaðarráðherra á haustfundi Landsvirkjunar í nóvember sem leið (2013). Þar nánast snupraði ráðherrann stjórnendur og stjórn Landsvirkjunar fyrir það að leggja áherslu á að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni. Í erindi sínu minntist ráðherrann ekki einu orði á mikilvægi þess að framkvæmdir Landsvirkjunar séu arðbærar. En var dugleg að lýsa óþreyju sinni á að hér fari verkefni í gang.
Ein ástæða þessarar óheppilegu forgangsröðunar eða litlu áherslu á arðsemi orkuframkvæmda, sem er furðu áberandi í tali íslenskra stjórnmálamanna, má sennilega að talsverðu leyti rekja til kerfisgalla. Kerfið hér eða lagaumhverfið er byggt þannig upp, að það eru alltof fáir sem sjá hag í því að arðsemin í orkuvinnslunni sé góð. Það virðist vanta skynsamlega hvata til handa stjórnmálamönnum og landsmönnum til að vilja auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Þetta er bæði óheppilegt og einkennilegt. Því fjárfestingarnar í orkugeiranum eru ekki aðeins risastórar, heldur líka með ábyrgð hins opinbera og þar með skattborgara og almennings.
Stjórnmálamenn virðast margir hverjir fyrst og fremst vilja nýta orkulindirnar til að skapa snögga hagvaxtarsveiflu sem nýtist þeim til að stæra sig af í næstu kosningum. Sveitarstjórnarmenn þrýsta á um að framkvæmdir tengdar orkuvinnslu verði sem mest í þeirra heimahéraði - og hafa jafnvel ennþá minni áhuga á arðsemi fjárfestingarinnar heldur en þingmennirnir. Verkalýðsforkólfar og talsmenn atvinnulífsins virðast einnig fyrst og fremst horfa til skammtímahagssveiflunnar. Nánast enginn í hópi þessara valdamiklu eða áhrifamiklu einstaklinga gerir arðsemi fjárfestingarinnar að aðalatriði.
Og jafnvel þó svo mestar þessar framkvæmdir séu á vettvangi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Landsnets, virðast ýmsir og jafnvel stór hluti almennings lítt áhugasamir um að arðsemin sé sett í forgang. Margt fólk er t.d. fljótt að hlaupa út á torg og kveina ef bent er á að sala á raforku um sæstreng til Evrópu gæti mögulega skilað okkur margfælt hærri arðsemi af orkuvinnslunni - og jafnvel gert raforkuframleiðsluna hér álíka mikilvægan eins og olían er fyrir Noreg.
Kveinin felast í því að þá muni raforkuverð til almennings og fyrirtækja á Íslandi hækka og það bæði skerði kaupmátt almennings og auki kostnað fyrirtækja. Betra sé að taka arðinn af orkulindunum út í lágu raforkuverði til almennings og fyrirtækja (og það jafnvel þó svo þá megi segja að hátt í 80% arðsins af orkulindunum fari til stóriðjunnar í formi lágs raforkuverðs). Þetta er hæpið viðhorf og hlýtur eiginlega að teljast andstætt grundvallarviðmiðunum þess hagkerfis sem við búum í.
Eins gott fyrir Noreg að hafa ekki beitt íslenskum aðferðum
Það er sem sagt svo að ofangreind sjónarmið stjórnmálamanna, sveitarstjórnarfólks, áhrifafólks í atvinnulífi og verkalýðsfélögum og verulegs hluta almennings eru fremur óskynsamleg. Til að útskýra það betur er nærtækt að taka norska olíugeirann til samanburðar.
Í Noregi er umfangsmikil olíuvinnsla stunduð á norska landgrunninu. Norska ríkið nýtur mikilla tekna af þeirri vinnslu. Þær tekjur og hagnaður væri miklu minni ef norsk stjórnvöld hefðu beitt íslensku aðferðinni, eins og hér virðist ennþá tíðkast gagnvart raforkuvinnslunni. Um 1960 sóttist bandarískt olíufélag (Phillips Petroleum) eftir víðtækum réttindum á norska landgrunninu, gegn greiðslu sem hefði tryggt norskum stjórnvöldum dágóðar fastar tekjur. En það fyrirkomulag hefði um leið stórlega skert möguleika Noregs til að hagnast mikið af kolvetnisvinnslu til framtíðar.
Norðmenn hefðu getað litið svo á að lang mikilvægast væri að fá erlenda fjárfestingu inn í landið eða lögsögu sína. Og gengið svo langt að ákveða að enginn skattur skyldi leggjast á fyrirtæki í olíuiðnaðinum umfram það sem almennt gerist hjá norskum fyrirtækjum. Norðmenn hefðu líka getað tekið þá ákvörðun að hafa lítið sem ekkert eftirlit með viðskiptaháttum olíuiðnaðarins og þ.á m. hafa lítið sem ekkert eftirlit með t.d. milliverðlagningu (transfer pricing) eða annarri mögulegri skattasniðgöngu erlendra fyrirtækja í norska olíuiðnaðinum. Aðalatriðið væri að fá erlenda fjárfestingu og sem allra minnst skyldi þrengja að henni.
Norðmenn fóru reyndar þá leið að heimila erlendum fyrirtækjum að fjárfesta í olíuleit á norska landgrunninu. En Norsararnir komu einnig á fót eigin ríkisfyrirtækjum (olíufyrirtækið Statoil og fjárfestingasjóðinn Petoro) sem nú eru þau umsvifamestu í vinnslunni á norska landgrunninu. Þrátt fyrir þessa aðferðafræði hefðu Norðmenn getað beitt íslensku aðferðinni. Það hefði t.d. verið hægt að tryggja að engin olía væri flutt út fyrr en að hafa verið unnin í olíuhreinsunarstöðvum í Noregi. Slíkt fyrirkomulag hefði verið í anda þess að íslensk raforka skuli helst ekki flutt út nema í formi álkubba eða s.k. barra.
Það eru reyndar nokkrar olíuhreinsunarstöðvar í Noregi (þar sem um 1/6 hluti olíunnar er unnin). En til að fylgja íslensku aðferðinni sem best eftir, myndu Norðmenn hafa búið svo um hnútana að auk útflutningsbanns á óunna olíu væru allar olíuhreinsunarstöðvarnar í eigu erlendra fyrirtækja. Og þessum fyrirtækjum myndi Statoil selja olíuna á verði sem væri nálægt kostnaðarverði. Þannig væri leitast við að efla sem mest áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta á norska olíuhreinsunariðnaðinum. Að auki væri búið svo um hnútana að ein myndarleg olíuhreinsunarstöð væri í norskri ríkiseigu og hún seldi Norðmönnum bensínið, díselolíuna og aðrar olíuafurðir afar ódýrt.
Sambærilegt fyrirkomulag væri í norsku jarðgasvinnslunni. Í stað gaslagnanna, sem nú flytja norska gasið beint inn á markaði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu, væri skylt að allt jarðgas bærist til sérstakra gasvinnslustöðva í Noregi. Þær stöðvar, sem væru allar í eigu erlendra fyrirtækja, fengju gasið nálægt kostnaðarverði, umbreyttu því í fljótandi gas (LNG) og seldu það á margföldu verði til þeirra markaða sem best borga (nú um stundir Japan og Suður-Kórea). Reyndar fengju norskir neytendur einnig að kaupa gas til upphitunar og eldunar á umræddu lágu verði, sem væri nálægt kostnaðarverði.
Þó svo þetta fyrirkomulag myndi valda því að arðsemin af olíu- og gasvinnslu Statoil væri afar lág, væru Norðmenn samt almennt mjög ánægðir og stæðu flestir í þeirri trú að þetta væri snilldarfyrirkomulag. Því þannig væri jú búið um hnútana að norska fyrirkomulagið skapaði fullt af störfum í olíuiðnaðinum innan Noregs, laðaði að erlenda fjárfestingu og tryggði landsmönnum ódýrt eldsneyti. Norskir stjórnmálamenn myndu flestir styðja þessa stefnu á þeim grundvelli að hún skapi störf í norskum olíuhreinsunarstöðvum og í sjálfri olíuvinnslunni. Norskur almenningur myndi styðja stefnuna því eldsneytisverð í Noregi væri afar ódýrt.
Þetta kerfi myndi lágmarka arðsemi í norsku olíuvinnslunni og færa mest allan arðinn af þessari auðlindanýtingu til þeirra erlendu fyrirtækja sem ættu olíuhreinsunarstöðvarnar og gasvinnslustöðvarnar (LNG verksmiðjurnar). Svo til einu tekjurnar sem Norðmenn hefðu af olíuvinnslunni væru skatttekjur af störfum þess fólks sem ynni í iðnaðinum. Að auki myndu Norðmenn að sjálfsögðu njóta góðs" af því að geta keypt ódýrt eldsneyti. Rétt eins og gerist í mörgum þriðja heims löndum sem hafa olíulindir innan sinnar lögsögu. Þar er nefnilega afar algengt að eldsneytisverð til almennings sé langt undir því sem gerist á hinum raunverulega heimsmarkaði. En sem fyrr segir myndi mest allur arðurinn af olíuvinnslunni á norska landgrunninu enda hjá erlendum fyrirtækjum utan lögsögu norskra skattyfirvalda. Við Íslendingar virðumst aftur á móti fremur aðhyllast þróunarlandastefnuna, þar sem stjórnmálamenn nýta sér orkulindirnar í pólitískum tilgangi og almenningur er deyfður með lágu orkuverði.
Norðmenn fóru ekki íslensku leiðina
Eins og kunnugt er þá fóru Norðmenn ekki íslensku leiðina. Heldur aðra leið sem hefur m.a. valdið því að í dag er norski Olíusjóðurinn einhver allra stærsti ríkisfjárfestingasjóður heimsins og Statoil eitt þekktasta olíufyrirtæki veraldar og með starfsemi víða um heiminn.
Í hnotskurn þá felst norska leiðin í regluverki sem hvetur fyrirtæki til sem mestrar arðsemi (líka ríkisfyrirtækin!). En leggur um leið háa skatta á hagnað fyrirtækjanna og hefur geysilegt eftirlit með því að fyrirtækin komist ekki upp með að fela hagnað sinn - eða færa hann í skattaskjól áður en norska ríkið og norsku sveitarfélögin hafa fengið það sem þeim ber lögum samkvæmt. Þetta eru grundvallaratrið sem íslenskir stjórnmálamenn mættu veita meiri athygli.
Frá stóriðjustefnu til hvatakerfis
Norðmenn völdu þá leið gagnvart olíuiðnaðinum að hafa hámörkun arðsemi að leiðarljósi. En nú má vel vera að einhverjum þyki hæpið að bera svona saman olíuvinnsluna í Noregi og raforkuvinnsluna á Íslandi. Þess vegna er rétt að nefna hér nokkur atriði því til stuðnings að þessi samanburður sé að ýmsu leiti bæði sanngjarn og eðlilegur.
Norska aðferðin byggir á nokkrum mikilvægum meginatriðum. Í fyrsta lagi að skoða öll þau tækifæri sem geta verið í boði (fyrir íslenska raforkugeirann er eitt slíkt tækifæri mögulega að flytja út raforku um sæstreng). Í öðru lagi hafa Norðmenn forðast það að binda sig við kerfi sem valdið getur lágri arðsemi til langs tíma (íslenska stóriðjustefnan er andstæð þessu sökum þess til hversu langs tíma raforkusamningarnir við álfyrirtækin og aðra stóriðju eru).
Stóriðjustefnan hér átti mögulega rétt á sér allt fram undir aldamótin síðustu. Þ.e. þegar raforkuverð var víðast hvar fremur lágt og afar fá tækifæri til að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum. En umhverfið hefur breyst mikið á síðustu tíu árum eða svo. Hér miðast kerfið þó ennþá mjög við stóriðjustefnuna. Og alltof fáir virðast átta sig á tækifærunum - og vilja jafnvel ríghalda í stóriðjustefnuna og sjá engan hag í því að arðsemin aukist.
Í næstu færslu hér á Orkublogginu verður fjallað sérstaklega um það hvernig megi breyta kerfinu hér. Og taka upp hvata sem gætu verið til þess fallnir að stuðla að jákvæðri hugarfarsbreytingu gagnvart þeirri auðlind sem orkulindarnar á Íslandi eru. Það væri afar mikilvægt að þetta myndi gerast. Það er nefnilega orðið tímabært að setja stóriðjustefnuna til hliðar. Og þess í stað gera sjálfa arðsemi raforkuvinnslunnar að aðalatriði.
8.12.2013 | 17:43
Skattkerfið í norska vatnsaflsiðnaðinum
Ísland og Noregur eru langstærstu raforkuframleiðendur í heimi (miðað við fólksfjölda). Bæði löndin byggja raforkuframleiðslu sína nær eingöngu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Í Noregi er vatnsaflið yfirgnæfandi og svo er einnig hér á landi, en að auki nýtum við Íslendingar jarðvarmann okkar til raforkuframleiðslu.
Það er athyglisvert að Íslendingar og Norðmenn eiga það einnig sameiginlegt að eignarhaldið á virkjununum í þessum tveimur löndum er mjög ámóta. Þ.e. yfirgnæfandi hluti þess er í opinberri eigu. Skattkerfi landanna gagnvart raforkuiðnaðinum er aftur á móti afar ólíkt.
Hér verður fjallað um norska skattkerfið. Og útskýrt hvernig það m.a. hvetur til þess að orkuauðlindirnar séu nýttar með sem mesta arðsemi í huga og hvernig nærsamfélög virkjana - og nærsamfélög annarra mannvirkja sem tengjast orkuvinnslunni - njóta margvíslegra tekna af þessari starfsemi.
Nærsamfélög í Noregi njóta virkjana
Í Noregi, rétt eins og á Íslandi, er litið svo á að vatnsföllin séu auðlind sem háð er einkaeignarétti landeiganda (þetta er ólíkt því lagalega fyrirkomulagi sem ríkir víða á meginlandi Evrópu þar sem eignaréttur landeiganda nær sjaldnast til vatnsfalla né til auðlinda djúpt í jörðu). Í Noregi er að reyndar litið svo á að þrátt fyrir þennan ríka einkaeignarétt eigi öll þjóðin rétt á að njóta verulegs hluta arðsins og ábatans af vatnsaflinu. Vatnsaflið er sem sagt að vissu leyti álitin sameiginleg auðlind þjóðarinnar, m.a. vegna þess að umtalsverðan hluta vatnsaflins er að rekja til þess vatns sem rennur ofan af hálendinu.
Umrætt sjónarmið birtist t.d. í norsku reglunni um hjemfall. Sem felst í því að sá sem fær að virkja vatnsfall í Noregi hefur eftir tiltekinn árafjölda þurft að afhenda ríkinu virkjunina endurgjaldslaust. Sjónarmiðið um að öll þjóðin eiga að njóta verulegs hluta ábatans og arðsins af nýtingu vatnsaflsins kemur einnig fram í því að norski vatnsaflsiðnaðurinn er skattlagður verulega (heildarskattprósentan nálgast það sem er í norska olíuiðnaðinum!).
Í Noregi er að auki rík áhersla lögð á að nærsamfélög virkjana og vatnsfalla eigi sérstaklega rúman rétt til að njóta arðs af þeim auðlindum. Aukin arðsemi í raforkuvinnslunni skapar sem sagt ekki aðeins orkufyrirtækjunum auknar tekjur og meiri hagnað, heldur er norska kerfið þannig upp byggt að sveitarfélögum (og fylkjum) á nærsvæðum virkjana er tryggð ákveðin hlutdeild í tekjunum. Þetta kerfi virkar bæði sem hvati til að nýta orkuna og að arðsemi sé í fyrirrúmi í raforkuvinnslunni. Íslenska lagaumhverfið um orkugeirann hér virðir aftur á móti hvatann um aukna arðsemi að vettugi.
Skattkerfið í norska roforkuiðnaðinum í hnotskurn
Skipta má skattareglunum sem fjalla um norska raforkuiðnaðinn í sjö hluta. Upphæðirnar sem þetta skattkerfi skilar til hins opinbera skiptist í tvo nokkuð jafna hluta. Um helmingur fer til ríkisins og um helmingur til sveitarfélaga og fylkja (fylkin eru millistjórnsýslustig; hvert fylki samanstendur venjulega af nokkrum sveitarfélögum). Hlutfallið þarna á milli er þó ekki fast, heldur er það breytilegt.
Skattkerfið er þannig hannað að það tryggi sveitarfélögum nokkuð jafnar skatttekjur af vatnsaflsiðnaðinum. Tekjur ríkisins af vatnsaflsiðnaðinum geta aftur á móti sveiflast verulega á milli ára. Þær sveiflur stafa fyrst og fremst af sveiflum í raforkuverði; í Noregi geta langvarandi þurrkar haft mikil áhrif á raforkuverðið því þar er lítið um afgangsorku og miðlun hlutfallslega minni en t.a.m. hér á landi).
Eins og áður sagði þá rennur u.þ.b. helmingur skattgreiðslnanna frá norska vatnsaflsiðnaðinum til sveitarfélaga (og fylkja). Þannig fá norsku sveitarfélögin til sín beinharða peninga sem þau geta nýtt til góðra verka og til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Sveitarfélögin geta t.d. nýtt tekjurnar til að bæta þjónustu sína og/eða til að lækka skatta á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þannig ná þau að verða samkeppnishæfari og eftirsóttari en ella væri. Um leið nýtur norska ríkið góðs af fyrirkomulaginu, því verulegur hluti skatttekna af raforkuvinnslunni rennur til þess.
Í hnotskurn eru umæddir sjö skattar eftirfarandi: Í fyrsta lagi er innheimtur hefðbundinn tekjuskattur af raforkufyrirtækjunum (skattur af hagnaði) rétt eins við þekkjum á Íslandi. Í öðru lagi er lagður sérstakur tekjuskattur á fyrirtækin, sem er skattur á hagnað sem er umfram ákveðna viðmiðun. Í þessu sambandi er stundum talað um auðlindarentu (sem hér á landi rennur í reynd að mestu leyti til álfyrirtækjanna). Í þriðja lagi er lagður s.k. náttúruauðlindaskattur á raforkuvinnsluna í Noregi. Sá skattur er föst upphæð á hverja framleidda kWst. Í fjórða og fimmta lagi þurfa allar virkjanir að greiða sveitarfélögum árleg leyfisgjöld annars vegar og afhenda sveitarfélögum tiltekið magn af raforku á kostnaðarverði hins vegar (s.k. leyfistengd raforka). Í sjötta lagi geta norsk sveitarfélög ákveðið að leggja eignaskatt á virkjanamannvirki. Loks þurfa raforkufyrirtækin í vissum tilvikum að greiða auðlegðarskatt.
Hafa ber í huga að sérreglur gilda um norskar smávirkjanir. En meginreglurnar sem reifaðar eru hér eiga við um langstærstan hluta af norska vatnsaflsiðnaðinum. Og eins og áður sagði þá er sá iðnaður, rétt eins og íslenski raforkuiðnaðurinn, að langmestu leyti í eigu hins opinbera (í Noregi er það hlutfall um eða rétt yfir 90%). Eftirfarandi er stutt yfirlit um hvern skattanna í norska vatnsaflsiðnaðinum:
Tekjuskattur: Þetta er almennur fyrirtækjaskattur og hefur hann undanfarin ár numið 28% af hagnaði fyrirtækjanna. Upphæð tekjuskatts einstakra raforkufyrirtækja er mjög breytileg milli ára, því hagnaður fyrirtækjanna sveiflast verulega vegna mikilla sveiflna á raforkuverði (ræðst af úrkomu og fleiri atriðum). Tekjuskatturinn rennur alfarið til ríkisins.
Grunnrentuskattur (auðlindarenta): Margar norsku vatnsaflsvirkjananna skila afar miklum hagnaði sökum þess að raforkuverð hefur farið hækkandi og virkjanirnar eru margar upp greiddar og fjármagnskostnaður því lítill. Í Noregi er talið eðlilegt að skattleggja þennan mikla hagnað með aukaskatti. Grunnrentuskatturinn er sem sagt viðbótarskattur á hagnað. Hann nemur 30% og leggst eingöngu á tekjur (hagnað) sem skilgreindar eru sem umframhagnaður eða auðlindarenta (skv. sérstökum reglum þar um). Grunnrentuskatturinn er reiknaður af hverri virkjun fyrir sig og upphæð hans getur verið afar breytileg milli ára vegna sveiflna á raforkuverði. Grunnrentuskattur rennur til ríkisins (rétt eins og tekjuskatturinn). Miðað við núverandi raforkuverð á Íslandi yrði vart um nokkurn grunnrentuskatt að ræða (skattur af þessu tagi kæmi etv. frekar til greina í íslenska sjávarútveginum). En ef t.d. raforka yrði seld um sæstreng héðan til Bretlands myndi grunnrentuskattur geta skilað Íslandi gríðarlega háum upphæðum.
Náttúruauðlindaskattur: Þetta er sérstakur skattur sem reiknast á vatnsaflsvirkjanir í Noregi. Skatturinn nemur fastri upphæð á hverja framleidda kWst (lagareglurnar um náttúruauðlindaskattinn eru óháðar því hvert raforkuverðið er á hverjum tíma). Viðtakendur náttúruauðlindaskattsins eru nærsamfélög virkjana og virkjaðra vatnsfalla. Náttúruauðlindaskatturinn rennur þó ekki eingöngu til þess sveitarfélags og fylkis þar sem sjálft stöðvarhúsið er staðsett, heldur t.d. líka til annarra sveitarfélaga og fylkja sem vatnsfallið fellur um. Um 85% skattsins rennur til sveitarféaga og um 15% skattsins rennur til fylkja. Hafa ber í huga að reglurnar um norska náttúruauðlindaskattinn hafa áhrif á upphæð tekjuskattsins og eru með þeim hætti að skatturinn skapar ekki aukaálögur á raforkufyrirtækin. Skattur af þessu tagi kann að vera óheppilegur í umhverfi þar sem lítill hagnaður er af raforkuvinnslu.
Leyfisgjöld: Sá sem fær virkjunarleyfi í Noregi þarf að sæta því að greiða sérstakt gjald á ári hverju, s.k. leyfisgjald. Leyfisgjöldin eru föst upphæð af hverri framleiddri kWst. Gjaldið rennur að stærstum hluta til sveitarfélaga. Viðtakendur eru öll sveitarfélög á vatnasvæði virkjunarinnar. Hér á landi eru leyfisgjöld í formi afar lágrar eingreiðslu við útgáfu virkjunarleyfis og íslenska fyrirkomulagið því mjög frábrugðið norsku leyfisgjöldunum.
Leyfistengd raforka: Sá sem fær leyfi til að virkja vatnsfall í Noregi þarf að sæta því að afhenda sveitarfélögum sem liggja að viðkomandi vatnsfalli allt af 10% raforkunnar á kostnaðarverði (samsvarandi skilyrði gildir um afhendingu á 5% af raforkunni til ríkisins, en því hefur ekki verið beitt). Hér á landi myndi þetta þýða að sveitarfélög hér fengju nú um 1,75 TWst af raforku afhenta á ári á kostnaðarverði, sem þau gætu síðan selt áfram. Vegna lágs raforkuverðs hér yrði þetta þó ekki jafn mikil hagnaðarlind eins og hjá sveitarfélögum í Noregi. Þetta yrði aftur á móti afar mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin ef tækifæri væri til að selja raforku á hærra verði (t.d. til Bretlands gegnum sæstreng).
Eignaskattur (og auðlegðarskattur): Eignarskattur á virkjanir og dreifikerfi í Noregi getur numið 0,7% af verðmæti virkjunar / dreifikerfis. Sveitarfélög þurfa að taka sérstaka ákvörðun um að leggja skattinn á. Skatturinn er víða innheimtur vegna virkjana, en einungis í helmingi tilvika vegna dreifikerfa. Viðtakendur eignarskattsins geta verið öll þau sveitarfélög sem hafa virkjunarmannvirki /dreifikerfi innan lögsögunnar. Loks má geta þess að skv. norskum lögum geta raforkufyrirtæki þurft að greiða sérstakan auðlegðarskatt. Hann nemur 1,1% miðað við tiltekna eign umfram skuldir, en leggst ekki á hlutafélög og skiptir því litlu máli í norska vatnsaflsiðnaðinum.
Hér á Íslandi skortir hvata til aukinnar arðsemi
Ýmis atriði í norska skattkerfinu eru þess eðlis að nærsamfélög virkjana hagnast á því að raforkuverð sé sem hæst og alls ekki hagkvæmt að raforkan sé t.a.m. seld nálægt kostnaðarverði til stóriðju. Skattkerfið virkar sem sagt hvetjandi fyrir íbúa nærsamfélaga virkjana til að vandlega sé hugað að því að ekki sé léleg arðsemi af orkusölunni.
Í þessu norska kerfi er ekki bara litið til virkjananna sjálfra. Því reglurnar eru þannig úr garði gerðar að sveitarfélög sem hafa önnur mannvirki en sjálft stöðvarhúsið innan sinnar lögsögu njóta einnig skattgreiðslna.
Hér á Íslandi er kerfið aftur á móti þannig að litlir sem engir hvatar eru hjá nærsamfélögum virkjana til að arðsemi aukist í raforkuvinnslunni. Hér skiptir langmestu - og nær eingöngu - hvar sjálft stöðvarhús virkjunar rís. Nánast einu beinu skatttekjur sveitarfélaga hér af virkjunum eru fasteignaskattar af virkjuninni - og þeir hafa runnið óskiptir til þess sveitafélags sem hefur stöðvarhúsið innan sinna stjórnsýslumarka. Í þessu sambandi hefur engu máli skipt hvar uppistöðulón liggja, hvar aðrennslisskurðir liggja, hvar jarðgöng liggja, hvar stíflur liggja, né hvar háspennulínur liggja. Allt snýst um stöðvarhúsið, þ.e. í hvaða sveitarfélagi það er staðsett.
Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar fjallað um það hvernig fyrirkomulagið hér á Íslandi beinlínis vinnur gegn sjónarmiðum um að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Og hvernig það virðist hreinlega hafa læst okkur í óarðbærri stóriðjustefnunni.
2.12.2013 | 13:38
Magnaður Miðjarðarhafskapall
Ef/þegar rafmagnskapall verður lagður milli Íslands og Evrópu verður hann að lágmarki u.þ.b. 1.100 km langur (og færi þá til Bretlands). Og þessi langi sæstrengur mun fara niður á allt að 1.000 m dýpi.
Eðlilega veltir fólk fyrir sér hvort þetta sé framkvæmanlegt og hvort áhættan af t.d. bilun komi í veg fyrir að unnt verði að fjármagna svona verkefni. Íslandskapallinn yrði nær helmingi lengri en lengsti rafstrengur af þessu tagi er í dag. Þar er um að ræða NorNed, sem er 580 km langur og liggur milli Noregs og Hollands (og liggur því á miklu minna dýpi). Flest bendir þó til þess að það sé bæði tæknilega gerlegt og fjárhagslega mögulegt að ráðast í Íslandskapalinn.
Þetta má rökstyðja með ýmsum hætti. Svo sem með tilvísun til góðrar reynslu af þeim sæstrengjum sem nú þegar hafa verið lagðir. Og með tilvísun til þeirra gagna sem fjalla um þá kapla af þessu tagi sem nú eru í bígerð. Það virðist í reynd einungis tímaspursmál hvenær svona geysilega langir rafmagnskaplar neðansjávar verða að veruleika. Það kann vissulega að tefjast eitthvað. En það er fyllilega tímabært að við skoðum þessa möguleika nákvæmlega og könnum til hlítar bæði tæknilegar og viðskiptalegar forsendur.
Líklegt er að sá sæstrengur sem næst mun slá lengdarmetið verði kapall sem stendur til að leggja milli Noregs og Bretlands (hann er merktur inn á kortið hér að ofan). Þessi kapall verður á bilinu 700-800 km langur (eftir því hvaða leið verður endanlega fyrir valinu). Og flutningsgetan verður tvöföld á við NorNed!
Það á þó við um norsku kaplana að þeir fara um hafdýpi sem er miklu minna en það sem mest er á milli Íslands og Evrópu. Þetta er þó ekkert úrslitaatriði. Það er vel þekkt að unnt er að leggja svona neðansjávarkapla þó svo hafdýpið sé afar mikið. Þannig fer t.d. rafstrengurinn sem liggur milli Ítalíu og ítölsku Miðjarðarhafseyjarinnar Sardiníu (SAPEI kapallinn) niður á um 1.600 m dýpi. Og nú eru áætlanir um ennþá stærri og dýpri Miðjarðarhafsstreng, sem mun slá öll núverandi met.
Þessi magnaði Miðjarðarhafskapall á að tengja raforkukerfi Ísraels, Kýpur og Grikklands. Gert er ráð fyrir að orkan sem fer um kapalinn verði fyrst og fremst raforka frá gasorkuverum í Ísrael og á Kýpur. Á landgrunninu innan lögsögu þessara tveggja ríka hafa á síðustu árum fundist geysilegar gaslindir. Þær væri unnt að nýta til að framleiða raforku til stóriðju heima fyrir eða að umbreyta gasinu í fljótandi gas (LNG) og sigla með það til viðskiptavina sem greiða gott verð (t.d. Japan og Suður-Kórea). Einnig væri mögulegt að leggja gasleiðslu yfir til meginlands Evrópu, þar sem gasverð er nokkuð hátt. Fýsilegast þykir þó að nýta a.m.k. verulegan hluta gassins til að framleiða rafmagn og selja það til Evrópu um rafstreng! Þannig er talið að hámarka megi arðinn af gaslindunum.
Þessi nýi Miðjarðarhafskapall er kallaður EuroAsia Interconnector. Gert er ráð fyrir að heildarlengd kapalsins verði á bilinu 1.000-1.500 km (eftir því hvaða leið verður fyrir valinu) og stærðin um 2.000 MW. Þetta á sem sagt að verða risastór kapall og geysilega langur. Það sem þó verður erfiðasti hjallinn er vafalítið hið mikla hafdýpi á svæðinu.
Milli Kýpur og Krítar þarf EuroAsia sæstrengurinn að fara niður á dýpi sem er á bilinu 2.000-2.500 m eða jafnvel nokkru meira. Þessi leið milli Kýpur og Krítar er jafnframt lengsti neðansjávarleggur kapalsins. Milli þessara tveggja eyja verður kapallinn mögulega allt að 880 km langur (nokkru styttri leið er þó möguleg). Sem fyrr segir er ráðgert að heildarlengd kapalsins verði 1.000-1.500 km, en bæði endanleg lengd og dýpi kapalsins mun ráðast af leiðarvalinu.
Nú má vel vera að einhverjir hafi litla trú á því að Ísraelar, Grikkir og Kýpverjar geti staðið að þvílíkri risaframkvæmd. En í því sambandi er vert að hafa í huga að ísraelsk fyrirtæki byggja mörg yfir geysilegri hátækniþekkingu. Þar að auki nýtur verkefnið mikils velvilja innan Evrópusambandsins. Enda er þessi sæstrengur í samræmi við þá stefnu ESB-ríkjanna að fá aðgang að meiri og fjölbreyttari uppsprettum raforku og styrkja þannig orkuöryggi sitt.
Það er til marks um áhuga ESB að nú í október sem leið (2013) var þessi magnaði kapall settur inn á lista ESB um lykilverkefni næstu ára á sviði orkumála. Þetta er góð vísbending um að Íslandskapall muni vekja mikinn áhuga bæði stjórnvalda og fyrirtækja í Evrópu. Fyrst og fremst verða það þó auðvitað íslenskir hagsmunir sem munu ráða því hvort og hvenær Íslandskapallinn verður lagður. Á síðustu mánuðum og misserum hafa komið fram afar skýrar vísbendingar um að það verkefni geti skapað okkur íslensku þjóðinni geysilegan hagnað og fordæmalausan arð af orkuauðlindunum okkar. Um það verður brátt fjallað nánar hér á Orkublogginu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.11.2013 | 08:45
Kínverska vistarbandið losað
Vísbendingar eru um að á næstu árum kunni að vera að hægja talsvert á efnahagsuppganginum í Kína. Undanfarin ár hefur a.m.k. dregið úr þeim ofsavexti sem þar hefur verið í vergri þjóðarframleiðslu. Stóra spurningin virðist vera sú hvort jafnvægi sé að nást - eða hvort áfram hægi þarna á?
Hversu hratt eða hægt það kann að gerast er ófyrirsjáanlegt. En þær þjóðir sem hafa notið kínversku uppsveiflunnar í hvað ríkustum mæli og stórhagnast á mikilli eftirspurn frá Kína, hafa talsverðar áhyggjur af þróuninni núna.
Þar er Ástralía sennilega besta dæmið. Hratt vaxandi eftirspurn Kína eftir kolum og járni (fyrir kínversku stáliðjuverin) hefur valdið geysilegu góðæri í Ástralíu undanfarinn áratug. En nú hefur hægt talsvert á efnahagsuppganginum þar syðra og fyrir vikið hefur t.d. nokkrum stórum áströlskum námuverkefnum verið slegið á frest.
Kólnun á hagvextinum í Kína gæti vissulega haft slæmar afleiðingar fyrir ástralskt efnahagslíf. En það er þó varla ástæða til að örvænta. Kínverjar eru fjölmennasta þjóð heims og ennþá eru mörg hundruð milljónir Kínverja sem hafa að mestu staðið utan efnahagsuppgangsins. Ekki virðist ólíklegt að á næstu tíu árum eða svo bætist u.þ.b. 200-300 milljónir Kínverja við þann hóp sem hefur aura afgangs til að setja í betra húsnæði, betra farartæki, meiri fatnað, meiri mat o.s.frv.
Þetta eru risavaxnar tölur! Kínverska millistéttin kann sem sagt að stækka meira næsta áratuginn en sem nemur öllum Bandaríkjamönnum eða jafnvel öllum íbúum innan Evrópusambandsins.
Í þessu sambandi er reyndar áhugavert að í Kína hafa í áratugi (og reyndar í aldir) verið í gildi ýmsar strangar reglur sem takmarka heimildir eða tækifæri fólks til að flytjast milli landshluta. Reglurnar fela í sér eins konar vistarband og hafa vafalítið haldið aftur af borgarmyndun í Kína. Eða a.m.k. leitt til mun hægari breytinga á þróun fólksflutninga þar en ella hefði verið. Nýverið slökuðu kínversk stjórnvöld á þessum reglum. Það gæti aukið enn frekar áhrif markaðsbúskapar í Kína og gæti hjálpað til að keyra upp hagvöxtinn. Þar að auki er líka nýbúið að slaka á ströngum reglum um barneignir. Sem mun örugglega valda fjölgun í ungu kynslóðinni og um leið auka eftirspurn eftir alls konar vörum sem barnafólk þarf og vill.
Í ár (2013) verður hagvöxturinn í Kína líklega á bilinu 7-8%. Sumir voru farnir að búast við því að hann myndi á næstu árum minnka jafnt og þétt. En hver veit; kannski mun hagvöxturinn þarna þvert á móti brátt taka að aukast á ný. Hvort það nægi til að koma í veg fyrir efnahagslægð í Ástralíu verður að koma í ljós. Þetta skiptir reyndar heiminn allan miklu máli, því ef hagvöxtur verður brátt lítill í Kína mun það nær örugglega valda djúpri efnahagskreppu víða um heim. En það eru sennilega óþarf áhyggjur - eða hvað?
20.11.2013 | 17:14
Gámafiskur í Helguvík
Myndin hér til hliðar sýnir forsíðu Guardian í dag (miðvikudaginn 20. nóvember 2013).
Bresk stjórnvöld sömdu nýverið um byggingu nýs kjarnorkuvers í Bretlandi. Sem verður hið fyrsta sem reist verður þar í landi í áratugi. En Japanir þekkja manna best áhættuna af kjarnorkuverum. Og vara Breta við því að fara í þennan hættulega leiðangur. En Bretland þarf sárlega á meira orkuöryggi að halda og kjarnorkuverinu er ætlað að vera hluti af því.
Kjarnorkan fær 150 USD/MWst.
Fréttir af þessu breska kjarnorkuveri eru mjög áhugaverðar fyrir Ísland. Því þarna hafa bresk stjórnvöld samið við franskt orkufyrirtæki um að reisa kjarnorkuver sem verður að verulegu leyti fjármagnað með kínverskum peningum. Og samningurinn hljóðar þannig að bresk stjórnvöld tryggja orkuverinu að fá 92,50 GBP á hverja MWst (u.þ.b. 150 USD/MWst) til 35 ára!
Ekki síður áhugavert er að nú er breska þingið að ljúka við lagasetningu sem felur í sér nýja orkustefnu sem er ætlað að hvetja til fjárfestinga í orkugeiranum. Tilgangurinn þar er fyrst og fremst sá að tryggja Bretum nægja orku. Í því sambandi er m.a. lögð rík áhersla á fjölbreytni í orkuframleiðslu og að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku.
Ný orkustefna Breta tryggir lágmarksverð til grænnar raforkuframleiðslu
Til að auka áhuga fjárfesta á að feta þá slóð sem bresk stjórnvöld telja bæði æskilega og nauðsynlega, er gert ráð fyrir að tryggja fjárfestunum tiltekna lágmarksarðsemi af orkufjárfestingum. Í því felst m.a. að bresk stjórnvöld tryggi jarðvarmaorkuverum 120-125 GBP/MWst (u.þ.b. 190-200 USD/MWst) og tryggi vatnsaflsorkuverum 95 GBP/MWst (nálægt 150 USD/MWst).
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að íslensku jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanirnar fá nú sennilega nálægt 25 USD/MWst fyrir um 3/4 af allri raforkunni sem hér er framleidd (rúmlega 70% raforkunnar hér fer til álveranna þriggja og alls fer um 80% raforkunnar til stóriðju). Og hér gengur viðskiptamódelið ekki aðeins út á það að orkuverðið er afar lágt - heldur eru samningarnir við álverin og stóriðjuna um þetta lága raforkuverð gerðir til margra áratuga. Þar að auki er svo áhætta færð af álfyrirtækjunum og yfir á raforkufyrirtækin með því að stór hluti raforkusölunnar er beintengdur við álverð.
Tekjur af vindorkunni verða á bilinu 150-250 USD/MWst
Eins og að ofan sagði á nýja kjarnorkuverið í Bretlandi að fá 150 USD/MWst, jarðhitavirkjanir eiga að fá 190-200 USD/MWst og vatnsaflsvirkjanir eiga að fá um 150 USD/MWst. Það er þó svo að bresk stjórnvöld gera ráð fyrir að langmest af nýrri endurnýjanlegri orku komi frá vindorkuverum. Enda hentar sú tækni almennt mun betur til raforkuframleiðslu í Bretlandi heldur en t.d. jarðvarmi.
Raforkuverðið sem nýjum vindorkuverum er tryggt er misjafnt eftir því hvort þau eru reist á landi (onshore) eða utan við ströndina (offshore). Vindorkuver á landi eiga að fá 95-100 GBP/MWst (u.þ.b. 150-180 USD/MWst). Vindorkuver á hafi eru mun dýrari og því stendur til að tryggja þeim talsvert hærra raforkuverð eða á bilinu 135-155 GBP/MWst (sem jafngildir um 215-250 USD/MWst).
Sökum þess að vindorkan er í reynd grundvallaratriðið í orkustefnu Bretanna, má segja að viðmiðunarverðið þar gefi bestu vísbendingun um það hvaða orkuverð Bretar eru almennt tilbúnir að greiða fyrir raforku frá endurnýjanlegum auðlindum. Því er rétt að ítreka að þarna í vindorkunni er lægsta verðið 150 USD/MWst og hæsta verðið 250 USD/MWst.
Á nýlegum haustfundi Landsvirkjunar var vikið að hugmyndinni um sæstreng. Þar voru einmitt kynnt þau verð sem fjallað er um í bresku orkustefunni og þau sett í samhengi við verðlistaverð Landsvirkjunar. Sbr. myndin hér að ofan, sem er úr kynningu Landsvirkjunar og sjá má á vef fyrirtækisins. Inn á myndina er Orkubloggarinn búinn að bæta við rauðri línu, sem sýnir meðalverðið sem líklegt er að stóriðjan hér greiðir fyrir raforkuna um þessar mundir (25 USD/MWst). Hver og einn getur séð hversu fáránlega lágt það verð er - miðað við hvað fæst fyrir raforkuna í Bretlandi.
Raforka frá Íslandi gæti orðið verðlögð á a.m.k. 150 USD/MWst
Í Bretlandi er viðmiðunarverð raforku frá kjarnorku sem sagt um 150 USD/MWst og viðmiðunarverð fyrir vindorku á bilinu 150-250 USD/MWst. Ef til þess kæmi að raforka yrði seld frá Íslandi til Bretlands má velta fyrir sér hvort sú orka yrði verðlögð á þessu bili. Það virðist vera talsvert líklegt; íslenska orkan kæmi frá mjög tryggum endurnýjanlegum orkugjöfum og það gæti t.d. hentað Bretum afar vel að spara sér geysilega dýrt vindorkuver utan við ströndina með kaupum á íslenskri raforku. Það kann því að vera vel raunhæft að a.m.k. 150 USD fengjust fyrir íslensku megavattstundina. Jafnvel hærra verð.
Þarna má auðvitað leika sér með ýmsar forsendur. Og svo er eðlilegt að draga frá þann kostnað sem færi í flutninginn um sæstrenginn milli Íslands og Bretlands. Nýverið lagði Vilhjálmur Þorsteinsson fram það mat sitt að útflutningur á 5 TWst á ári gæti skilað okkur 500 milljónum USD árlega í framlegð. Sá sem þetta skrifar hefur áður birt útreikninga (þar sem byggt er á eilítið öðrum forsendum en Vilhjálmur gerir í umræddri grein sinni) sem benda til þess að hreinn hagnaður af sölu á 5 TWst til Bretlands gæti a.m.k. numið um 330 milljónum USD. Og þó svo enn sé mikil óvissa um það hversu arðsemin yrði mikil (einkum vegna óvissunnar um hvað rafstrengurinn eða flutningur um hann myndi kosta) eru nú margar vísbendingar komnar fram um að þetta geti verið geysilega arðbært fyrir okkur Íslendinga. Og jafnvel jafnast á við mikilvægi olíunnar fyrir Norðmenn (eins og sjá má í glærunni hér að ofan, sem er frá haustfundi Landsvirkjunar).
Það er ekki tilviljun að útflutningsstærðin er gjarnan miðuð við 5 TWst árlega. Þetta er nefnilega raunhæft magn miðað við hvaða stærð af sæstreng myndi verða bæði hagkvæm og tæknilega möguleg (ca. 700-1000 MW strengur). Þetta miðast líka við hvað raunhæft er að við viljum og getum flutt mikið út af raforku án þess að þrengt sé að aðgangi að orku hér innanlands.
Gámafiskurinn í Helguvík
Hér að framan var minnst á skrif Vilhjálms Þorsteinssonar, sem er nátengdur Samfylkingunni og því kunna sumir að setja skoðanir hans í pólitískt samhengi fyrst og fremst. En það er ekki aldeilis svo að viðhorf Vilhjálms verði stimplað sem eitthvert Samfylkingarviðhorf eða pólitík. Svipuð viðhorf um mikilvægi þess að hverfa frá stóriðjustefnunni hér á Íslandi má t.d. sjá í nýlegum skrifum Arnars Sigurðssonar á Fésabókarsiðunni hans og sömuleiðis i skrifum Sveins Valfells (Sveinn er reyndar ekki bara andstæður fleiri álverum hér, heldur virðist hann líka andstæður því að flytja út raforku með sæstreng - vill þess í stað nýta orkuna á þágu annarrar starfsemi hér innanlands).
Það virðist því orðið nokkuð útbreitt viðhorf að það væri algerlega út í hött að virkja hér meira fyrir álver. Enda eru viðskipti orkufyrirtækjanna við álverin orðin óeðlilega mikil, þ.e. of mikil áhætta fólgin í þeim viðskiptum (eins og fjallað var um í síðustu færslu Orkubloggsins).
En byggðastefnan og sérhagsmunir kjördæmapotaranna eru samt ennþá furðusterkir. Þannig mátti skilja orð iðnaðarráðherra á haustfundi Landsvirkjunar að meira máli skipti að Landsvirkjun virki fyrir álver í Helguvík, nánast sama hvað það kostar og sama hvert orkuverðið yrði, en að þetta mikilvæga orkufyrirtæki landsmanna reyni að auka arðsemi af raforkusölunni (ráðherrann minntist ekki einu orði á mikilvægi arðseminnar). Þetta er reyndar ekki bara undarlegt viðhorf, heldur líka ósanngjarnt að byggja þannig upp væntingar þeirra sem vonast eftir álveri í Helguvík (eins og Viðskiptablaðið benti á fyrr í vikunni). Staðan á álmörkuðum er nefnilega með þeim hætti að það er algerlega óraunhæft að hér rísi nýtt álver á næstu árum (nema kannski ef það stendur til að láta álverið hafa neðri hluta Þjórsár á kostnaðarverði).
Ennþá lengra gekk bæjarstjóri Reykjanesbæjar í byggðastefnutalinu. Þegar hann í viðtali við vikublaðið Reykjanes í aðdraganda Alþingskosninganna nú í vor sagði að ein af ástæðum þess að uppbygging álvers í Helguvík hafi tafist sé viðhorf Landsvirkjunar um að nota eigi orku til að selja beint til útlanda eins og gámafisk fremur nota hér heima í framleiðslu".
Þetta er mikið öfugmæli hjá bæjarstjóranum. Miklu nær væri að líkja verðlítilli raforkunni sem færi til álvers í Helguvík við gámafisk. Umrædd sjónarmið bæjarstjórans og iðnaðarráðherra einkennast ansið mikið af staðbundnum sérhagsmunum, en horfa framhjá þjóðarhagsmunum. Þau bæjarstjórinn og iðnaðarráðherra eru reyndar í sama stjórnmálaflokknum - og flokksformaðurinn þeirra er fjármálaráðherra og því sá sem skipar stjórn Landsvirkjunar. Orkubloggarinn treystir Bjarna Benediktssyni þó fullkomlega til að láta hagsmuni þjóðarinnar í forgang. Og að hann álíti rétt að leitast við að hámarka arðinn af raforkuframleiðslu Landsvirkjunar. Vonandi mun skipan hans á næstu stjórn fyrirtækisins staðfesta þetta.
Staðan er einfaldlega sú að möguleikinn á sæstreng er sennilega besta viðskiptatækifæri íslensku þjóðarinnar. Ennþá er ekki komið í ljós hvort þetta er tæknilega og fjárhagslega gerlegt. En það ættu allir að vera sammála um að þetta er tækifæri sem við eigum að skoða til hlítar og setja í forgang. Þar með er einnig skynsamlegast að bíða með að gera nýja langtíma-orkusamninga á botnverðum. Það er því miður óhjákvæmilegt að samningar um raforkusölu til Helguvíkur yrðu einmitt slíkir hrakvirðissamningar. Vonandi verður ekki hlaupið í að gera slíka samninga núna - þegar við erum svo heppin að þróun orkumála í nágrannalöndunum kunna að vera að skapa okkur margfalt betri tækifæri.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2013 | 17:55
Ögurstund í íslenskum orkumálum?
Ísland er mesti raforkuframleiðandi veraldar (per capita). Svo gott sem öll þessi íslenska raforka er framleidd með nýtingu afar hagkvæmra endurnýjanlegra náttúruauðlinda (mikið vatnsafl og óvenju aðgengilegur jarðvarmi). Og við höfum ennþá tækifæri til að auka þá raforkuframleiðslu verulega - án þess að skerða náttúrugæði um of.
Þrátt fyrir hinar hagkvæmu íslensku orkuauðlindir er arðsemin í raforkuframleiðslunni hér afar lág. Það stafar af því að hér fer geysilega hátt hlutfall allrar raforkunnar til álvera og annarrar stóriðju sem beinlínis þrífst á lágu raforkuverði. Nú fer um 70% allrar raforkuframleiðslunnar á Íslandi til áliðnaðarins og alls er hlutfall raforkusölu til stóriðjunnar nálægt 80%.
Stóriðjustefnan leiðir til lágrar arðsemi orkufjárfestinga OG verulegrar áhættu
Gríðarlegar fjárfestingar í raforkugeiranum hér hafa fram til þessa byggt mjög á því að selja raforkuna til álvera. Nánast allar þær virkjunarframkvæmdir eru fjármagnaðar með ríkisábyrgð eða með ábyrgð sveitarfélaga. Þarna má því tala um ábyrgð - og þar með áhættu - skattgreiðenda og reyndar almennings alls.
Auk þess sem svo geysihátt hlutfall raforkunnar hér fer til álvera, þá er líklega u.þ.b. helmingur raforkusölunnar hér beintengdur álverði (þ.e. verðið sem álverin greiða fyrir raforkuna sveiflast í takt við álverð). Sú tenging veldur því að orkufyrirtækin og þar með almenningur á Íslandi eru í reynd þátttakendur í veðmáli um þróun álverðs.
Almenningur á Íslandi hefur sem sagt tekið á sig mjög umtalsverðan hluta af rekstraráhættu álveranna. Áhættan af þessu fyrirkomulagi ætti að vera öllum ljós. Þarna er veðjað stíft á einungis einn tiltekinn málm. Og það er grafalvarlegt mál fyrir Íslendinga að nú er mikið offramboð af þessum málmi í heiminum og verð á áli því lágt. Fyrir vikið var t.a.m. Landsvirkjun rekin með tapi skv. hálfsársuppgjöri 2013. Og búast má við því að afkoma orkufyrirtækjanna á þessu ári verði í daufari kantinum.
Því miður eru horfur á að kreppan á álmörkuðunum geti staðið yfir í mörg ár enn. Nýjar reglur London Metal Exchange (LME) sem lúta að því að stytta afhendingartíma á áli eru taldar munu draga enn meira úr tekjum álframleiðenda. Það mun væntanlega leiða til ennþá erfiðara rekstrarumhverfis í áliðnaðinum og gera það ennþá ófýsilegra að selja raforku til álfyrirtækja.
Og jafnvel þó svo álverð færi að skríða upp á við (vegna þess að sum álfyrirtækjanna hafa verið að draga úr framleiðslu sinni) væri það afar óskynsamlegt og eiginlega óskiljanleg ákvörðun ef orkufyrirtækin hér myndu auka raforkuframleiðslu til álvera. Því þegar horft er til komandi ára eru litlar líkur á því að raforkusala til álvera geti skilað þvílíkri arðsemi að það réttlæti áhættuna af því að skuldsetja orkufyrirtækin hér ennþá meira fyrir áliðnað.
Viðskiptamódelið gengur vart upp
Það má reyndar gera ráð fyrir því að við núverandi markaðsaðstæður geti orkufyrirtæki almennt ekki fjármagnað virkjanir sem ættu að selja raforkuna til nýrra álbræðslna. Viðskiptalega gengur slíkt módel varla upp nú um stundir - nema þá með einhverskonar niðurgreiðslum frá ríkisvaldinu.
Dæmi um slíkar niðurgreiðslur eða stuðning má sjá í sumum Persaflóaríkjunum. Í þeim tilvikum er ríkisvaldið (sem vel að merkja er þarna jafnan miklu nær því að byggja á einveldi en lýðræði) tilbúið til að nýta hluta af olíuauðæfunum til að veðja á hækkandi álverð. Og nota galopinn aðgang sinn að bæði fjármagni og ódýrri orku til uppbyggingar á risastórum álverum. Persaflóaríkin sjá þetta sem áhugaverðan kost til að koma strönduðu gasi í verð og þannig auka tekjur sínar a.m.k. til skemmri tíma - kryddað með von um að til lengri tíma litið muni álverð hækka. Að keppa við slíkt viðskiptamódel, sem segja má að einkenni áliðnað nútímans, getur ekki með nokkru móti verið æskilegt fyrir Ísland.
Annað dæmi er að finna í Kína. Þar eru markaðsaðstæður álvera með mjög sérstökum hætti, þar sem bæði ríkisvald og héraðsstjórnir nota fjármuni óspart til að styðja við uppbyggingu áliðnaðar. Nýjustu fréttir frá Kína benda til þess að lítt sé að hægja á ofboðslegum vexti í álframleiðslu þar. Og að þar sé meira að segja farið að bera á offramleiðslu í áiðnaðinum - þrátt fyrir efnahagsuppganginn og mikla eftirspurn eftir áli innanlands. Þetta gæti leitt til aukins útflutnings á áli frá Kína. Þetta er enn ein vísbendingin um að afar áhættusamt - og því óskynsamlegt - sé að auka álframleiðslu hér á Íslandi.
Tími kominn til að setja VERÐMÆTASKÖPUN í forgang
Þetta merkir þó ekki að fjárfestingin hér í orkuvinnslu fyrir álver hafi alltaf verið tóm vitleysa. Þvert á móti var þetta á sínum tíma farsæl leið til að tryggja nóg framboð af raforku til almennings og íslenskra fyrirtækja á hógværu verði. Um leið var reist öflugt flutningskerfi fyrir raforkuna og allt leiddi þetta til þess að hér byggðist upp mikil þekking innan tækni- og verkfræðigeirans.
En nú er kominn tími til að horfast í augu við þau tækifæri sem breyttir tímar hafa fært okkur. Við erum svo gæfusöm að tækniþróunin í heiminum hefur orðið með þeim hætti að komin eru tækifæri til að stórauka arðinn af raforkuframleiðslunni hér. Við værum að fara afar illa með tækifærin ef við ætlum enn á ný að bæta við mörg hundruð megavöttum (MW) til handa áliðnaði. Slíkt var snjall leikur fyrr hálfri öld (Straumsvík), nokkuð skynsamlegt fyrir tæpum tveimur áratugum (Columbia Ventures; Norðurál), en fljótlega þar á eftir fór þessi stefna að verða óáhugaverðari og óskynsamari.
Og nú er svo komið að bæði er áhættan orðin óþægilega mikil og ný tækifæri hafa opnast. Þess vegna er mál að linni og ekki skynsamlegt að auka hér raforkusölu umtalsvert til áliðnaðar. Þvert a móti ættum við jafnvel strax að byrja að leita að tækifærum fyrir arðbærari verkefni fyrir orkuna þegar raforkusamningarnir við álfyrirtækin renna út.
Síðasta áratuginn hefur orðið bylting í fjarskiptamálum. Eins og líklega flestir þekkja, með smartsíma í vasanum og/eða á þráðlausa netinu í fartölvunni. En það sem kannski færri gera sér grein fyrir er að síðasta áratuginn hefur líka orðið bylting í flutningi á raforku.
Sú bylting einkennist þó ekki jafn mikið af tækniframförum eins og í fjarskiptageiranum, heldur mun meira af stóraukinni eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku. Ofan á það bætist svo að nokkur afar fjölmenn og þar með orkufrek ríki í nágrenni Íslands standa frammi fyrir minnkandi orkusjálfstæði. Þar er nærtækast að nefna Bretland (þar hefur gasframleiðsla snarminnkað og innflutningsþörfin til að knýja gasorkuverin því aukist mjög). Einnig má nefna Þýskaland (þar sem stórlega hefur verið dregið úr notkun á kjarnorku af öryggisástæðum).
Þessi þróun hefur breytt miklu á fremur stuttum tíma. Bæði umrædd lönd hafa mikinn áhuga á að auka aðgang sinn að hagkvæmri og þá ekki síst tryggri og endurnýjanlegri orku. Þetta skapar Ísland algerlega einstakt tækifæri. Því þarna fæst verð sem er miklu hærra en það sem áliðnaðurinn greiðir. Og það sem öllu máli skiptir; sú verðhækkun yrði uppspretta þess hagnaðar sem eðlilegt er að orkuauðlindirnar loksins skili okkur.
Allir sem beita skynseminni og kynna sér málin hljóta að sjá að það væri algerlega galið að næstu 200, 350 eða 500 MW sem við kunnum að virkja fari til enn eins álversins. Nú er tímabært að við setjum verðmætasköpun í forgang.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2013 | 12:00
Samspilið milli álverðs og raforkuverðs
Álver eru fyrst og fremst byggð þar sem lægsta raforkuverðið býðst. Þetta stafar af þeirri einföldu ástæðu að álvinnsla er geysilega orkufrek. Raforkukaupin nema oft um þriðjungi af framleiðslukostnaði álvera og stundum jafnvel meira.
Á grafinu hér til hliðar má sjá samspilið milli raforkuverðs og álverðs. Þarna er sýnt hvernig einstök álver geta skilað miklum hagnaði jafnvel þó svo raforkuverð sé mjög hátt, að því gefnu að álverð sé einnig hátt. Og að sama skapi hversu raforkuverðið hefur mikil áhrif á rekstrarhæfi álvera þegar álverð er lágt.
Þetta graf er frá bandaríska álfyrirtækinu Century Aluminum. En grafið er að finna í skýrslu sem fjallar um áliðnaðinn vestur í Kentucky í Bandaríkjunum og Orkubloggarinn hefur undir höndum. [ATH: Sú ábending barst frá Norðuráli að grafið sé ekki frá Century, eins og Orkubloggaranum hafði skilist af höfundum skýrslunnar.]
Í dag er álverð á London Metal Exchange (LME) um 1.800 USD/tonn. Það merkir að almennt eru öll álver sem fá raforkuna á um 30-35 USD/MWst rekin á sléttu (að sjálfsögðu er þetta þó mismunandi eftir fjármagnskostnaði einstakra álvera). Í þessu sambandi er vert að nefna að í nýlegum gögnum frá Century Aluminum kemur einmitt fram að álver fyrirtækisins í Bandaríkjunum þoli raforkuverð sem sé nálægt 34 USD/MWst.
Í þeim tilvikum þar sem álver fá raforkuna á lægra verði en 30-35 USD/MWst þurfa álverin sem sagt almennt séð alls ekki að vera í rekstrarvandræðum, jafnvel þó svo álverð sé einungis um 1.800 USD/tonn. Og sum álver fá raforkuna talsvert undir 30 USD/MWst og geta því verið að hagnast verulega nú um stundir - þrátt fyrir lágt álverð.
Hér á Íslandi eru álverin sennilega að fá raforkuna á u.þ.b. 25 USD/MWst að meðaltali um þessar mundir eða jafnvel eitthvað lægra. Þetta má ráða af síðasta ársreikningi Landsvirkjunar. Þar kom fram að á árinu 2012 var meðalverð á raforku sem seld var til iðnaðar um 26 USD/MWst. Raforkuverðið til álveranna hér er sennilega eitthvað lægra í dag (meðaltalið) en var árið 2012. Vegna þess að stór hluti raforkusölunnar er tengdur álverði - sem hefur verið að lækka.
Það hlýtur að vera áhugavert fyrir íslensku orkufyrirtækin og Íslendinga alla, að stærstur hluti áliðnaðarins hér myndi bersýnilega þola miklu hærra raforkuverð en hér er. Þar að auki hefur færst í vöxt að álverin selji afurðir sínar á verði sem er talsvert hærra en verðið á LME. Líklega er verulegur hluti álframleiðslunnar frá Íslandi seldur með slíku premium eða álagi. Þetta veldur því að einhver álfyrirtækin hér myndu nú um stundir þola ennþá hærra raforkuverð en umrædda 30-35 USD/MWst.
Í áðurnefndri skýrslu um áliðnaðinn í Kentucky kemur fram að hækkun álverðs um 250 USD/tonn geti réttlætt hækkun raforkuverðs til álvera sem nemur 10 USD/MWst. Undanfarin misseri hefur álagið eða aukaverðið sem mörg áfyrirtæki fá fyrir framleiðslu sína einmitt verið nálægt 250 USD/tonn. Það merkir að a.m.k. hluti áliðnaðarins hér á Íslandi myndi ekki aðeins þola raforkuverð á bilinu 30-35 USD/MWst. Heldur tíu dollurum meira eða á bilinu 40-45 USD/MWst!
Í staðinn eru álverin hér að greiða nálægt 25 USD/MWst. Það hlýtur að teljast heldur súrt fyrir íslensku orkufyrirtækin. Og þar með almenning allan, sem er jú í reynd eigandi og í skuldaábyrgð vegna mest allrar raforkuframleiðslu á Íslandi. Furðulegast er þó ef fólki þykir þetta bæði hagkvæm og eðlileg viðskipti fyrir þjóðina - og vilja jafnvel auka þau.
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.10.2013 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.10.2013 | 09:04
Risaálverin við Persaflóa
Á síðustu áratugum hafa fundist geysilega gaslindir í lögsögu Persaflóaríkjanna. Vinnslan þar hefur verið að byggjast upp undanfarin ár og er nú orðin afar umfangsmikil. Besta dæmið þar um er gasvinnslan í Katar. Katarmenn sjá fram á það að verða eitt mesta gasframleiðsluland heims um langa framtíð, enda hefur þetta fremur fámenna land um 14% allra gasbirgða heimsins innan lögsögu sinnar . Katar er þar að auki stór olíuframleiðandi. Miklar gaslindir hafa einnig fundist í Saudu Arabíu, Abu Dhabi (sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum) og fleiri ríkjum við Persaflóann.
Eftir því sem gasvinnslan í Katar og fleiri Persaflóaríkjum hefur vaxið hafa þau jafnframt þurft að leita nýrra möguleika á að selja gasið - og að sjálfsögðu helst á sem hæstu verði. Það er þó þrautin þyngri. Öfugt við olíu er bæði dýrt og flókið að flytja gas mjög langar leiðir. Þess vegna er gasinu við Persaflóa stundum líkt við strandaða orku.
Með strandaðri orku er átt við að umtalsverðar orkulindir eru til staðar, en eftirspurn eftir orkunni er af einhverjum ástæðum takmörkuð og nokkuð erfitt að koma henni í verð. Afleiðingin er sú að orkan er gjarnan seld ódýrt og skilar þá oft mun minni arðsemi en gengur og gerist í orkugeiranum.
Hér verður fjallað um það hvernig þessi strandaða orka i formi jarðgass hefur orðið til þess áliðnaður byggist nú hratt upp í Persaflóaríkjunum. Og raunar með svo miklum ógnarhraða að það jafnast á við sprenginguna í kínverska áliðnaðinum.
Persaflóagasið leitar kaupenda
Persaflóinn er, eins og flestir vita, mesta olíuvinnslusvæði heimsins. Góð eftirspurn og talsvert hátt olíuverð veldur því að einfalt mál er að selja olíuna frá Katar og öðrum Persaflóaríkjum með miklum hagnaði. Og flytja hana þvers og kruss um heiminn. Þar er því alls ekki um að ræða strandaða orku, heldur þvert á mótu orku sem er mjög eftirsótt og afar arðbær.
Allt annað gildir um jarðgasið þarna við Persaflóa. Stórir viðskiptavinir sem hafa áhuga á jarðgasi eru afar fjarri og mjög kostnaðarsamt er að koma gasinu til slíkra viðskiptavina. Möguleikarnir þar á eru tvenns konar. Annars vegar að flytja gasið eftir afar löngum gasleiðslum. Hins vegar að umbreyta því í fljótandi gas (LNG) og sigla með það á áfangastað, þar sem gasinu er aftur umbreytt í loftkennt form. Báðar þessar flutningsaðferðir kalla á uppbyggingu mikilla innviða og eru afar kostnaðarsamar.
Til greina hefur komið að byggja gasleiðslu alla leið frá Katar til Evrópu (slík gasleiðsla myndi mögulega einnig tengjast gaslindum í Abu Dhabi og fleiri Persaflóaríkjum). En vegna mikils framboðs af gasi frá Rússlandi og öflugra gasleiðslna milli Rússlands og Evrópu annars vegar og milli Noregs og Evrópu hins vegar, er gasleiðsla milli Evrópu og Persaflóa enn ekki orðin raunhæfur kostur. Og gasleiðsla milli Evrópu og Katar þyrfti að öllum líkindum að liggja um Sýrland, Jórdaníu eða Írak. Evrópsk orkufyrirtæki álíta hagkvæmara og áhættuminna að nálgast í framtíðinni gas frá Azerbaijan fremur en um leiðslu frá Persaflóa. Gasleiðsla milli Katar og Evrópu er því ennþá nokkuð fjarlægur kostur.
Af þessum sökum flytur Katar gasið sitt út með því fyrst og fremst að umbreyta því í fljótandi form og sigla með það á áfangastað. Sem hefur einkum verið Japan og Suður-Kórea, ásamt Bretlandi og Indlandi. Það að breyta gasi í fljótandi form er aftur á móti afar dýrt; kostnaðurinn við eina slíka verksmiðju getur hlaupið á tugum milljarða USD. Og eins og áður sagði eru langar gaslagnir líka mjög dýrar.
Til að koma meira gasi í verð hafa Persaflóaríkin á síðustu árum veðjað á áliðnaðinn. Þ.e. að nota gasið til að framleiða ódýra raforku fyrir álbræðslur. Og nú er svo komið að þetta er það svæði heimsins þar sem uppbygging álvera er hröðust utan Kína. Uppbygging álvera þarna við Persaflóann fer reyndar langt með að jafnast hlutfallslega á við ævintýralegan vöxt áliðnaðar í Kína síðustu árin.
Persaflóaríkin bjóða hræódýra raforku
Til að geta aukið sölu á jarðgasi, án þess að þurfa að ráðast í rándýrar flutningsleiðir eða byggingu fleiri LNG-verksmiðja, hafa Katar og fleiri ríki við Persaflóa sem sagt ráðist í uppbyggingu á mikilli álframleiðslu. Þar sem unnt er að nýta jarðgasið (þ.e. raforkuna sem gasorkuverin framleiða) til framleiðslunnar.
Ástæða þess að veðjað hefur verið á áliðnað er einfaldlega sú að það sú tegund stóriðju sem er orkufrekust (auk þess sem menn hafa verið ansið bjartsýnir um þróun álverðs). Raforkuverðinu til álveranna er haldið í algeru lágmarki; ríkin eru í reynd að veðja á að álverð verði nógu hátt til að þessi framleiðsla skili þeim góðum arði. Bissness-módelið byggist sem sagt á því að fjárfestingasjóðir á vegum Katar og annarra Persaflóaríkja eru stórir hluthafar í álverunum. Í sumum tilvikum er eignahaldið á álverunum alfarið í höndum umræddra fjárfestingasjóða, en í nokkrum tilvikum eru stór erlend álfyrirtæki meðeigendur.
Álverum við Persaflóa býðst sem sagt strönduð orka, sem gefur kost á einhverju ódýrasta rafmagni í heiminum. Þetta hefur stóru vestrænu álfyrirtækjunum þótt spennandi kostur og hafa þau flest tekið þátt í þessum fjárfestingum með innlendu risafjárfestingasjóðunum í Persaflóaríkjunum. Það á t.d. við um Alcoa, Norsk Hydro og Rio Tinto Alcan. Og þessi Persaflóaálver eru með þeim allra stærstu og hagkvæmustu í heiminum, enda mjög nýleg og með afar fullkominn tæknibúnað. Og fyrir liggur að þarna muni álframleiðsla aukast mikið á næstu árum.
Líklega býðst álverum hvergi í heiminum jafn ódýrt rafmagn eins og nú gerist við Persaflóann. Sem veldur því að álverin þar skila sennilega hagnaði jafnvel þó svo álverð fari niður í um 1.500 USD/tonn. Hafa ber í huga að raforkuverðið þarna er mun lægra en álverin hér á landi þurfa að borga og af þeim sökum eru álverin á Íslandi ekki eins samkeppnishæf. Þar að auki er útilokað er að unnt sé að byggja hér nýjar virkjanir sem geta boðið jafn lágt raforkuverð eins og gerist nú í Katar og víðar við Persaflóann.
Risaálver rísa við Persaflóa
Álframleiðsla á sér nokkuð langa sögu við Persaflóann. Það var þó ekki fyrr en á allra síðustu árum, með stóraukinni gasframleiðslu, að áliðnaðurinn þarna rauk upp á við. Í þessu sambandi voru það talsverð tímamót þegar 585 þúsund tonna Qatalum-álverið í Katar náði fullum afköstum árið 2010. Nýlega var þetta álver svo stækkað í 625 þúsund tonn. Framleiðslugeta þessa eina álvers í Katar er sem sagt næstum því 80% af framleiðslugetu allra íslensku álveranna. Enda var Qatalumverið til skamms tíma stærsta álver í heimi.
Á þeim örfáu árum sem liðin eru frá byggingu Qatalum hefur uppbygging nýrra álvera við Persaflóa verið nánast ógnvekjandi hröð. Ódýrt jarðgasið er sem sagt ekki aðeins grundvöllur Qatalum. Fleiri risaálver hafa bæst í þann góða hóp þarna við Persaflóann og eldri álver þar hafa verið stækkuð verulega á liðnum árum. Lykillinn að þessu er strönduð orka.
Nýlega var t.a.m. lokið við stækkun Alba-álversins í Bahrain, sem nú getur framleitt um milljón tonn árlega. Og nú er verið að stækka risaálver Emal í Abu Dhabi, sem mun fara úr 800 þúsund tonna framleiðslugetu og í að framleiða um 1,3 milljónir tonna af áli árlega! Þá er ótalið Dubal-álverið í Dubai, sem hefur verið stækkað mikið og framleiðir nú um 1 milljón tonn af áli á ári. Á næsta ári (2014) nær svo enn eitt risaálverið við Persaflóann fullum afköstum; nýja Ma'adan í Saudi Arabíu, sem verður með 740 þúsund tonna framleiðslugetu. Sú framleiðsla verður dálaglegt innlegg í núverandi offramboð af áli.
Í samanburði við ofangreind álver, þá er Sohar-álverið í Oman nánast eins og smápeð. Með sína 390 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Sem þó er um 45 þúsund tonnum meira en stærsta álverið á Íslandi!
Hafandi í huga að þarna við Persaflóann fæst raforkan á mun lægra verði en unnt væri að útvega með nýjum virkjunum hér landi, er svolítið áhyggjuefni hversu mjög sumir ráðherrar hér tala fjálglega fyrir nýju álveri á Islandi. Það blasir við hverja við erum að keppa við, ef við ætlum að selja áliðnaði ennþá meiri raforku. Þá erum við komin í beina samkeppni við nýju raforkustóriðjuna við Persaflóa. Það kann varla góðri lukku að stýra fyrir Ísland að hella sér i þá samkeppni - við hljótum að íhuga önnur og betri tækifæri.
Persaflóinn er samt barnaleikur miðað við Kína
Á næsta ári (2014) lítur út fyrir að álframleiðsla Persaflóaríkjanna muni ná um 5 milljónum tonna. Sem er gífurleg aukning frá því sem var fyrir einungis fáeinum árum. En þó svo uppbyggingin þarna hafi verið hröð, er hún nánast barnaleikur miðað við hvað gerst hefur í Kína. Þar er það ekki jarðgas sem knýr álverin, heldur ódýr kolaorka þar sem umhverfisviðmið eru þar að auki lítt til trafala.
Einna hraðastur er vöxturinn í byggingu álvera núna í hinum kolaauðugu norðvesturhéruðum Kína og einnig í Innri-Mongólíu. Það er þó svo að við þurfum sennilega ekki mikið að vera að velta okkur upp úr þeirri aukningu. Talverðar líkur eru nefnilega á því að Kína leitist áfram við að vera sjálfbært í álframleiðslu, en gerist ekki stór útflytjandi á áli. Þess vegna eru íslensku álverin fyrst og fremst í samkeppni við önnur álver utan Kína - a.m.k. enn sem komið er. Ef Kína aftur á móti fer að flytja út meira af áli gæti álverð lækkað ennþá meira á skömmum tíma. Það að selja meiri íslenska raforku til álvera kann því að vera ansið áhættusamt og varla réttlætanlegt að opinberu orkufyrirtækin taki það til mála.
Hvað segir Samál?
En hvar álíta íslensku álfyrirtækin að áver munu rísa utan Kína. Verður það á Íslandi, við Persaflóa eða einhvers staðar allt annars staðar?
Ekki liggur fyrir opinber skoðun íslensku álfyrirtækjanna um þetta (nema hvað Century Aluminum segist vilja reisa álver í Helguvík, eins og kunnugt er). En þannig vill til að íslensku álfyrirtækin, eða öllu heldur móðurfélög þeirra, eru öll þátttakendur í samstarfi sem nefnist International Aluminium Institute (IAI). Og þar má sjá eftrifarandi sjónarmið um það hvar líklegast er að ný álver verði reist:
Given that electricity will remain the most important driver of competitiveness, the new smelters will be found in the Middle East region, Russia, the western and north-western provinces of China, Malaysia, Africa [...], India and other regions where stranded energy can be available.
Þarna er að sjálfsögðu vísað til þess hvar helst megi nálgast strandaða orku. Þar eru tækifæri í Afríku (vatnsafl), Malasíu (vatnsafl), vestur- og norðvesturhéruðum Kína (kol), Rússlandi (vatnsafl í Síberíu) og að sjálfsögðu Mið-Austurlönd (jarðgas við Persaflóa). Ekki er minnst þarna einu orði á Ísland, enda blasa nú mun betri tækifæri við íslensku raforkufyrirtækjunum en að selja ennþá meiri raforku til álvera - með lágmarksarðsemi.
Þar að auki er hlutfall álvera í nýtingu á íslenskri raforku svo hátt (vel yfir 70%) að það væri ansið áhættusamt að auka það hlutfall ennþá meira. Ef illa fer í áliðnaði Persaflóaríkjanna munu þau flest fara létt með að mæta þeim áföllum vegna geysilegra olíutekna. Ísland hefur ekki sambærilegan bakhjarl og ber því tvímælalaust að varast umrædda áhættu. Í því sambandi má vekja athygli á því, að bæði álver Norðuráls (Century Aluminum) í Hvalfirði og álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík skiluðu tapi á síðasta ári (2012).
Setjum verðmætasköpun í forgang
Orkumarkaðir heimsins hafa breyst verulega á síðustu tíu árum eða svo. Lönd sem eiga möguleika á að framleiða raforku með hagkvæmum hætti eiga mörg hver góða möguleika á að fá mikinn arð af þeirri framleiðslu - ef þau nýta tækifæri til að tengjast áhugaverðum raforkumörkuðum. Nærtækasta dæmið þar um er Noregur, sem hefur staðið að byggingu öflugra tenginga við raforkumarkaði nágrannalandanna þar sem verð er oft hátt. Og hagnast mjög vel á þeim tengingum; bæði norsku raforkufyrirtækin og norska þjóðin öll.
Nánast engir markaðir eru jafn áhugaverðir fyrir raforkuframleiðendur eins og markaðir í vestanverðri Evrópu. Því þar er heildsöluverð á raforku jafnan með því hæsta í heimi. Þess vegna er einmitt svo spennandi að nú kann senn að verða orðið tæknilega og fjárhagslega gerlegt fyrir Ísland að tengjast raforkumörkuðum í vestanverðri Evrópu.
Ef aftur á móti álver rís í Helguvík (eða annars staðar á Íslandi) er það tær táknmynd um að arðsemi af raforkuframleiðslu hér mun vart hækka nokkru sem nemur. Þess í stað verður hún áfram afar lág og miklu lægri en gerist t.d. í raforkuframleiðslu í Evrópu. Það væri hálf nöturlegt - þegar haft er í huga að ekkert land í heiminum býr hlutfallslega yfir jafn mikilli orku sem nýta má til raforkuframleiðslu - og þar að auki endurnýjanlegri orku!
Nýtt álver hér væri líka skýrt tákn um að við höfum í reynd lítinn áhuga á að gera okkur meiri mat úr orkuauðlindum okkar. Og kjósum þess í stað kosti sambærilega þeim sem gefast í samfélögum í Síberíu eða sunnanverðri Afríku - eða á fremur vanþróuðum svæðum i austanverðri Asíu þar sem iðnvæðing er í forgangi en umhverfismál mæta algerum afgangi. Þar að auki myndi meiri uppbygging áliðnaðar hér merkja að við þurfum í enn meira mæli að keppa við ofurhagkvæm risaálver, sem nú spretta upp á jarðgassvæðunum við Persaflóa.
Þetta hlýtur að vera alveg sérstaklega umhugsunarvert, nú þegar okkur virðist í fyrsta sinn mögulegt að selja raforkuna ekki á hrakvirði heldur með mjög góðri arðsemi. Með því að tengjast Evrópu með sæstreng. Við hljótum að setja verðmætasköpun í forgang. Þar að auki ætti ástandið á álmörkuðum í dag - með tilheyrandi samdrætti í afkomu Landsvirkjunar - að vera okkur góð áminning um að setja ekki fleiri egg í álkörfuna. Við hljótum a.m.k. að doka við með meiri raforkusölu til álvera uns það fer að sjást til sólar á álmörkuðum - því þá verður samningsstaða raforkufyrirtækjanna mun sterkari. Og við hljótum einnig að doka við með slíka raforkusölu þar til við fáum skýrari mynd af þeim möguleika að fá tengingu við evrópskan raforkumarkað með sæstreng. Það má vel vera að í framtíðinni muni raforkusala til álvera á Íslandi verða aukin - en nú er alls ekki rétti tíminn til þess.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2013 | 12:57
Bless að blöffa?
Stutt er síðan Michael Bless drap niður fæti hér á Klakanum góða. Bless er forstjóri bandaríska álfyrirtækisins Century Aluminum, þar sem hrávörurisinn Glencore Xstrata er langstærsti hluthafinn. Við þetta tækifæri birtist viðtalsfrétt við Bless þar sem eftirfarandi var haft eftir honum (leturbreyting er Orkubloggsins, en fréttin birtist á visir.is í lok ágúst s.l.):
Forstjóri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, vonast til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við álverið í Helguvík í haust. [...] Mike segir að samningaviðræður um orkukaup hafi gengið ágætlega og hann er bjartsýnn á að hægt verði að ná samkomulagi. Hann vonast til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir eftir tvo til þrjá mánuði. Álframleiðsla gæti þá hafist eftir tvö ár [þ.e. haust eða vetrarbyrjun 2015].
Michael Bless - eða Mike eins og blaðamaður Vísis kallar hann svo kumpánlega - er sem sagt bjartsýnn um að raforkusamningar vegna álversins verði kláraðir innan örfárra mánaða. Og þá fari allt á fullt í Helguvík og álframleiðslan hefjist eftir tvö ár, þ.e. árið 2015.
Það er reyndar ekkert nýtt að Michael Bless lýsi því yfir að stutt sé í að framkvæmdir fari á fullt suður í Helguvík. Fyrir nánast sléttu ári, í september 2012, sagði hann eftirfarandi:
Michael Bless, forstjóri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, segir að samningar um orku fyrir álver í Helguvík séu á lokametrunum. Takist það þá sé ekkert til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir í vor. Ég er mjög bjartsýnn á að samningar náist á næstu einum, tveimur, þremur mánuðum. Það er orðtak úr bandaríska fótboltanum sem segir að erfitt sé að komast að tveggja jarda línunni, en það hafist. Síðustu tveir jardarnir séu erfiðastir. Við erum á síðustu tveimur jördunum með að vinna úr smáatriðum, en höfum náð saman um aðalatriðin."
Í þessari frétt haustið 2012 var - rétt eins og fréttinni ári síðar í ágústlok 2013 - talað um að samningar um raforkusölu til Helguvíkur séu örskammt undan. Einungis sé eftir að semja um smáatriði og líklegt sé að framkvæmdir við álver í Helguvík fari brátt á fullt og álverið muni hefja framleiðslu árið 2015.
Í dag er augljóst að ummæli Bless frá 2012 stóðust ekki. Því vaknar spurningin hvort ummælin núna séu eitthvað líklegri til að standast?
Af báðum ummælunum (2012 og 2013) má ráða að Century álíti aðstæður á álmörkuðum það góðar að Century vilji ganga rösklega til verks um uppbyggingu álvers í Helguvík. Svo það geti hafið starfsemi ekki seinna en 2015. Þetta er sérstaklega merkilegt þegar haft er í huga að álverð er afar lágt um þessar mundir og offramleiðsla á áli virðist aldrei hafa verið meiri en núna. Framtíðarhorfur á álmörkuðum virðast því alls ekki goðar. Um þetta má t.d. vitna til nýlegrar skýrslu Boston Consulting Group, þar sem útskýrt er að framundan séu erfiðir tímar í vestræna áliðnaðinum. Og að álfyrirtækin hreinlega verði að draga úr álframleiðslu sinni ef ekki á að verða gjaldþrotahrina í iðnaðinum.
Það er líka athyglisvert að nú í sumar var haft eftir Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS Orku, að álverð í heiminum í dag sé of lágt til að hægt sé að byggja arðsamt álver í Helguvík og á sama tíma arðbærar virkjanir til að sjá álverinu fyrir orku. Orðrétt var haft eftir Júlíusi:
Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800-1.900 Bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir [Century] geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir. Þetta er ekki að skapa nægar tekjur til að ganga upp.
Þetta var sagt í júní s.l. (2013). Og álverð er ennþá á sömu nótum. Ástandið er sem sagt ekkert betra í dag en var þá. Og smáatriðin sem Michael Bless talaði um haustið 2012 standa bersýnilega eitthvað í Júlíusi og HS Orku.
En er Michael Bless kannski bara að blöffa? Til að halda Helguvíkurverkefninu á lífi. Í því sambandi má minna á að í gögnum frá Century hefur komið fram að þar var settur á stofn sérstakur bónuspottur upp á 4 milljónir USD vegna Helguvíkurverkefnisins - til handa forstjóranum og öðrum æðstu stjórnendum. Greiðslurnar skyldu stjórnendurnir fá að því gefnu að þeim tækist að tryggja verkefninu samninga um raforku, raforkuflutning o.þ.h.
Í þessu sambandi má minnast þess að álver Century Aluminum á Grundartanga er með þeim hagkvæmustu í heiminum. Vegna þess hversu góða raforkusamninga álverið hefur. Kannski er stjórn Century Aluminum og stærsti hluthafinn þar (Glencore Xstrata) að vonast til þess að geta fengið svipaða samninga vegna álvers í Helguvík. En það er ansið hæpið að það gangi eftir. Af þeirri einföldu ástæðu að orkufyrirtækin hér myndu varla geta fjármagnað nýjar virkjanir hér gegn svo lágum tekjum.
Engu að síður er fróðlegt að velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi breyst í viðskiptaumhverfi Century hér á Íslandi á þessu eina ári? Sem kann að auka líkurnar á að álver rísi í Helguvík? Þar mætti nefna að komin er ný ríkisstjórn sem gæti hugsanlega haft áhuga á að veita álveri Century hagstæðara rekstrarumhverfi en leiðir af núgildandi fyrirkomulagi. Og sökum þess að álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík hefur dregið mjög úr stækkunaráformum sínum gæti raforka frá Búðarhálsvirkjun mögulega farið til álvers í Helguvík.
Að þessu leiti má etv. segja að staðan hér innanlands kunni að vera orðin Century heldur hagstæðari en var 2012. Á móti kemur þó að ennþá hefur Century ekki tryggt sér næga orku fyrir álverið. Og íslensk stjórnvöld munu ekki fjármagna nýjar virkjanir; það fjármagn þarf að koma erlendis frá. Loks er svo staðan í áliðnaðinum í dag verri en hún var fyrir ári síðan; bæði hefur álverð lækkað ennþá meira en var og álbirgðir í heiminum aukist. Um þetta og fleiri málefni sem tengjast áliðnaðinum og Century Aluminum verður brátt fjallað nánar í auðlindaumfjölluninni á viðskiptavef Morgunblaðsins.
25.7.2013 | 23:56
Hrávöruparadísin Brasilía
Orkubloggarinn tók nýverið þátt í laufléttum spurningaleik á Facebook. Leikurinn gekk út á að svara ýmsum spurningum um áhugamál og störf - og svörin notuð til að segja manni hvaða land í heiminum sé álitlegast fyrir mann að flytja til. Ef maður á annað borð hefur áhuga á að setjast að utan Íslands.
Sú niðurstaða sem bloggarinn bjóst helst við að fá var annað hvort Ástralía eða Kanada. En það fór þó ekki svo. Þess í stað álitu höfundar leiksins að besta landið fyrir Orkubloggarann að setjast að í sé ævintýralandið Brasilía! Skýringin sem fylgdi var sú að það sé einkum hrávörugeirinn og olíuiðnaðurinn sem geri Brasilíu að fyrirheitna landinu fyrir bloggarann.
Olíuborpallarnir heilla
Nú vill svo til að Orkubloggarinn hefur einu sinni komið til Brasilíu. Og hreifst vissulega mjög af landi og þjóð. Það var reyndar svo að bloggarinn var vart kominn inn í landið áður en hann kynntist hrávöruævintýrinu sem þar geisaði.
Strax í hæggengri röðinni í vegabréfaskoðuninni á alþjóðaflugvellinum í Rio de Janeiro kom í ljós að umtalsverður hluti farþeganna voru erlendir olíustarfsmenn. Sem voru á leið úr fríi - með stefnu á olíuborpallana út af ströndum Brasilíu. Það átti t.d. við um báða Bretana sem voru næstir Orkubloggaranum í röðinni. Annar þeirra var að vísu nýkominn á eftirlaun, en hafði lengi unnið í olíuiðnaðinum í Brasilíu og átti brasilíska eiginkonu í Ríó; hafði bara rétt skroppið í gamla grámann á Bretlandi. Hinn var aftur á móti yngri og var á leið beint út á borpallinn - og sagðist líka þetta flökkulíf vel.
Þarna spannst áhugavert samtal um lífið á olíuborpöllunum á brasilíska landgrunninu og ævintýralegt olíuæðið sem þá var nýlega byrjað í hrávöruparadísinni Brasilíu. Þetta var fyrir tæpum áratug. Síðan þá hefur brasilíska hrávöruævintýrið bara orðið ennþá stærra. Olíuframleiðslan hefur næstum tvöfaldast og Brasilía ekki aðeins orðin sjálfri sér næg um olíu heldur stefnir hraðbyri á að verða umtalverður olíuútflytjandi. Þetta má einkum þakka risalindunum, sem hafa verið að finnast úti á brasilíska landgrunninu, m.a. utan við borgina ægifögru Rio de Janeiro.
Mikill uppgangur undir stjórn Lula
Skiptar skoðanir eru um það hverjum beri að hrósa fyrir efnahagsbatann í Brasilíu - þar sem allt var í kalda kolum fyrir um tuttugu árum eða svo. Frægt er þegar verðbólgan þarna syðra fór í um 5.000% árið 1993! Þá var Brössum nóg boðið og pólitísk sátt náðist um víðtækar efnahagsaðgerðir.
Aðgerðirnar sem gripið var til (Plano Real) stefndu einkum að því að koma böndum á verðbólguna og auka innstreymi erlends fjármagns. Þar kom m.a. til einkavæðing fjölda ríkisfyrirtækja (ríkið hélt þó eftir stærstum hluta í þjóðarstoltinu Petrobras, sem er helsta olíufyrirtæki landsins).
Engu að síður voru ríkisskuldirnar áfram skelfilega miklar og mikil óvissa um framhaldið. Ekki batnaði álit erlendra fjárfesta á Brasilíu í upphafi nýrrar aldar, þegar flest benti til þess að vinstri maðurinn Lula da Silva, frambjóðandi Verkamannaflokksins, myndi ná kjöri. Kalt vatn rann á milli skinns og hörunds þeirra sem komið höfðu með fjármagn inn í Brasilíu í einkavæðingunni. Því margir þeirra töldu að Lula myndi hætta að borga af erlendum lánum og þjóðnýta öll stærstu fyrirtækin. Og færa Brasilíu í átt til þess sem var hjá Hugó Chavez í Venesúela.
En það fór aldeilis á annan veg. Lula náði vissulega kjöri og það með talsverðum yfirburðum. Og hann varð ekki aðeins einhver ástsælasti forseti brasilísku þjóðarinnar, heldur líka besti vinur kapítalistanna. Hagkerfi Brasilíu óx hratt í stjórnartíð Lula og mikill fjöldi Brasilíumanna komst úr fátækt til bjargálna. Í valdatíð hans fór þetta 200 milljón manna þjóðfélag frá því að vera á barmi efnahagslegs hengiflugs og í það að verða að einu stærsta efnahagsveldi heimsins.
Saga Lula - fátæka skóburstarans sem var alinn upp af átta barna einstæðri móður og komst til æðstu metorða í risalandinu Brasilíu - er ævintýri líkust. Það er aftur á móti umdeilt hvort þakka megi Lula efnahagsuppganginn í Brasilíu eða hvort ytri skilyrði voru honum einfaldlega afar hagstæð. Í valdatíð Lula var hrávöruverð almennt hátt, sem kom Brasilíu afar vel og skapaði landinu miklar tekjur. Og æsispennandi hrávörugeirinn laðaði að erlenda fjárfestingu.
En hvað sem ytri skilyrðunum líður þá stóð Lula svo sannarlega ekki í vegi fyrir því að einkaaðilar - brasilískir eða erlendis frá - gætu fjárfest í náttúruauðlindum landsins. Undir hans stjórn var hagkerfið opnað enn meira en verið hafði og erlent fjármagn streymdi til Brasilíu. Hagvöxturinn varð mikill - og jafnvel þrátt fyrir samdráttinn á Vesturlöndum upp úr 2007-08 æddi vöxturinn í Brasilíu áfram.
Það verður heldur ekki af Lula tekið að í uppsveiflunni tókst að auki að halda verðbólgu í skefjum. Í landinu sem lengi hafði verið frægt fyrir óðaverðbólgu.
Verður Rousseff einungis eitt kjörtímabil?
Forseti Brasilíu má sitja tvö kjörtímabil (í röð). Þegar öðru kjörtímabili Lula lauk í árslok 2010 flykkti brasilíska þjóðin sér að baki eftirmanni hans úr Verkamannaflokknum, sem er kjarnakonan Dilma Rousseff. Hún var áður einlægur marxisti og mátti sem ung kona sæta fangelsun og pyntingum af hálfu herforingjastjórnarinnar. En rétt eins og Lula, þá hefur Rousseff náð viðhalda friði milli verkalýðsstéttarinnar og stórfyrirtækjanna og áfram verið nokkuð góður gangur í brasilíska efnahagslífinu.
Að vísu hefur hagvöxturinn í Brasilíu dalað eilítið síðustu tvö árin. Og það kann að skapa togstreitu - eins og reyndar hefur þegar mátt sjá í útbreiddum mótmælum gegn stjórnvöldum síðustu vikur og mánuði. Það vakti almennt mikinn fögnuð hjá brasilísku þjóðinni fyrir nokkrum árum þegar Brasilía tryggði sér bæði heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2014 og Olympíuleikana í Río de Janeiro árið 2016. En núna, þegar hægt hefur á hagvextinum, ofbýður mörgum Brasilíumanninum fjáraustur hins opinbera í leikvanga og önnur mannvirki vegna HM og þó einkum Ólympíuleikanna. Á sama tíma hefur nefnilega harðnað verulega á dalnum hjá brasilísku millistéttinni og minna fé er til að reka skóla- og heilbrigðiskerfið.
Óánægjuöldurnar virðast aftur á móti hafa lítil sem engin áhrif á geysilega ánægju Brasilíumanna með Lula. Undanfarið hefur talsvert borið á vangaveltum um að Rousseff verði ekki í endurkjöri, þegar kjörtímabili hennar lýkur eftir rúmt ár. Heldur verði Lula aftur frambjóðandi Verkamannaflokksins.
Fullvíst virðist að Lula myndi sigra forsetakosningarnar nokkuð örugglega - þó það sé kannski vafasamt að vera að spá svona fram í tímann. Í kosningunum gæti skipt miklu máli að fáir ef þá nokkur annar stjórnmálamaður í heiminum hefur þvílíka persónutöfra eins og Lula, sem á sínum tíma heillaði Orkubloggaranna upp úr skónum. Lula hefur þar að auki alveg einstaklega landsföðurlegt yfirbragð og verður varla skotaskuld úr því að verða aftur forseti Brasilíu. Ef hann lætur slag standa.
Hrávöruparadísin heillar Kína
Uppgangurinn í Brasilíu síðasta áratuginn byggist fyrst og fremst á náttúruauðlindum landsins. Í því sambandi skiptir sennilega eftirspurnin frá Kína langmestu máli.
Brasilíska fyrirtækið Vale er stærsti framleiðandi heimsins á járngrýti. Og þó svo járnútflutningurinn sé það sem hvað mestu máli skiptir fyrir Brasilíu, þá hefur landið einnig hagnast mjög á aukinni olíuvinnslu síðustu árin. Að auki er Brasilía stór útflytjandi að ýmsum landbúnaðarafurðum, sem einmitt hækkuðu mikið í verði í efnahagsuppsveiflunni nú í aldarbyrjun. Dæmi þar um er kaffi, kjúklingar, sojabaunir og sykur.
Útflutningur frá Brasilíu felst þó alls ekki bara í hrávörum. Í Brasilíu hefur t.a.m. byggst upp margvísleg tækniþekking og gott dæmi um það er brasilíski flugvélaframleiðandinn Embraer. Sem er í dag stærsti flugvélaframleiðandi heims á eftir Boeing og Airbus!
Það er samt hrávöruútflutningurinn sem er grunnurinn að gríðarlegum efnahagsvexti Brasilíu síðasta áratuginn. Og þar skiptir mestu, eins og áður sagði, mikil eftirspurn frá Kína.
Árið 2009 fór Kína fram úr Bandaríkjunum sem stærsta viðskiptaland Brasilíu og Kína er nú orðið langstærsta innflutningsland heims á vörum og þjónustu frá Brasilíu. Kína er einnig orðið stærsti erlendi fjárfestirinn í Brasilíu. Árlegar fjárfestingar kínverskra fyrirtækja þar syðra hafa aukist mjög hratt. Fyrir örfáum árum var þetta smotterí. En hefur undanfarið numið tugum milljarða USD á ári og er orðið meira en helmingur allra erlendra fjárfestinga í Brasilíu.
Fjárfestingar kínverskra fyrirtækja í Brasilíu hafa einkum verið í landbúnaði, orkuframleiðslu og námavinnslu. Sem sagt í hrávörugeiranum - því sem á ensku er nefnt commodities sector. Eitt dæmi um fjárfestingar Kínverjanna eru kaup kínverska ríkisolíufélagsins Sinopec á stórum hlut í tveimur brasilískum olíufyrirtækjunum. Þau viðskipti námu samtals um 11 milljörðum USD. Til gamans má nefna að Sinopec er einmitt sagt vera að semja um aðkomu að olíuleit á íslenska Drekasvæðinu þessa dagana (og einnig kínverska CNOOC). Sem er allt önnur saga.
Kínverjarnir fjárfesta einnig í innviðum hrávörugeirans
Kínversk fyrirtæki eru ekki bara áhugasöm um brasilískan landbúnað, málma og orku; þau hafa líka fjárfest mikið í innviðum sem tengjast hrávörugeiranum. Þar má nefna raforkudreifikerfið, járnbrautir og hafnir.
Eitt dæmi þar um er kínverska raforkudreifingafyrirtækið SGCC, sem hefur undanfarið keypt alls sjö brasilísk raforkudreifingarfyrirtæki fyrir um milljarð USD. Það munar um minna að fá slíkan fjárfesti inn í landið; SGCC er samtals með um 1,5 milljónir starfsmanna og eigið fé fyrirtækisins nemur vel á annað hundrað milljarða USD. Umsvifin eru sem sagt talsverð! Kannski SGCC hafi áhuga á að kaupa hlut í Landsneti?
Annað dæmi er kínverska ríkisfyrirtækið WISCO, sem er þátttakandi í byggingu nýju risahafnarinnar sem nú er að rísa skammt utan við Rio de Janeiro. Höfnin sú er fjárfesting upp á litla 40 milljarða USD og verður stærsta stórskipahöfn Suður-Ameríku og sú þriðja stærsta í heiminum!
Þessi nýja risahöfn kallast Açu Superport. Hún á m.a. að þjónusta nýja tegund ofurskipa sem eru kölluð Chinamax og geta flutt 400.000 tonn af járngrýti í hverri ferð. Það er um 100.000 tonnum meira en hefðbundin risaflutningaskip (s.k. VLOC). Chinamax risaskipin eru flutningaskipin sem í framtíðinni eiga að verða í stanslausum ferðum með járngrýti og ýmsar aðrar afurðir frá Brasilíu til Kína. Til að mæta sívaxandi eftirspurn Kína eftir stáli, kolum, fæðu o.s.frv.
Það segir kannski svolítið um mikilvægi kínverska markaðarins og framtíðarsýn brasilískra fyrirtækja, að brasilíski námu- og álrisinn Vale er einmitt núna að láta smíða fyrir sig rúmlega þrjátíu slík risaskip. Sem Brassarnir hjá Vale kalla reyndar alls ekki Chinamax heldur að sjálfsögðu Valemax [Bragi Þór; hvenær kemur Eimskipmax? Fyrir Íshafsleiðina!]. Enda ríkir mikil bjartsýni í Brasilíu um að landið verði um langa framtíð lykilaðili í að metta hrávöruþörfina í Kína.
Olía, járn, sojabaunir, kaffi, gúmmí...
Mikill hagvöxtur í Brasilíu undanfarinn áratug eða svo hefur valdið því þetta risastóra og dularfulla land, sem lengi var einkum þekkt fyrir snjalla knattspyrnumenn og miskunnarlausa herforingjastjórn, er nú orðið eitt allra stærsta hagkerfi heimsins. Í dag er hagkerfi Brasilíu u.þ.b. á pari með Frakklandi og Bretlandi. Það eru því einungis bandaríska, kínverska, japanska og þýska hagkerfið sem eru stærri.
Engu að síður eru laufléttar blikur á lofti. Þar kemur einkum til að eitthvað virðist vera að hægja á eftirspurninni frá Kína. Verðlækkun á t.d. járngrýti kemur sér illa fyrir brasilískt efnahagslíf - og sú þróun er sjálfsagt í og með ein af undirliggjandi ástæðum þeirrar óánægju sem hefur undanfarið komið fram hjá brasilískum almenningi.
Það er vel að merkja ekkert nýtt að hrávöruparadísin Brasilía upplifi mikla uppsveiflu - og hressilega niðursveiflu. Þetta er jafnvel einkenni á brasilísku efnahagslífi í gegnum söguna. Efnahagur landsins hefur löngum verið afar háður verði á tilteknum hrávörum; ýmist á járni, kaffi eða gúmmíi.
Það er langt í frá gulltryggð fjárfesting að ætla að taka þátt í hrávöruævintýri suður í Brasilíu. Frægt er þegar bandarísku auðjöfurinn Daniel Ludwig eyddi meira en milljarði USD í risastórt mislukkað landbúnaðarverkefni og pappírsframleiðslu inni í Amazonfrumskóginum á áttunda áratug liðinnar aldar.
Amazon var líka vettvangur annars ennþá stærra og dramatískara hrávöruævintýris - þegar auðæfin frá brasilísku gúmmítrjánum urðu grundvöllur þess að ein glæsilegasta borg heimsins á þeim tímum reis þar djúpt inni í frumskóginum. Þar er að sjálfsögðu átt við undraborgina Manaus.
Borgin sú byggðist upp í kringum framleiðslu og útflutning á gúmmíi frá gúmmítrjánum þarna inni í frumskóginum. Tilkoma bifreiða olli stóraukinni eftirspurn eftir gúmmíi og nánast á svipstundu urðu svonefndir gúmmíbarónar í Manaus meðal auðugustu manna heimsins. Það er til marks um auðinn í Manaus að hún varð fyrsta borgin í Brasilíu sem var raflýst. Þar var reist óperuhús - Teatre Amazonas - sem hafði margar helstu stórstjörnur óperuheimsins á sviði (sumar heimildir segja að sjálfur Caruso hafi þanið raddböndin í Manaus). Og lúxusvörur frá Evrópu streymdu til nýríku auðstéttarinnar í borginni.
Um 1910 tók skyndilega að berast gúmmí á markaðinn frá gúmmíplantekrum í nýlendum Breta í SA-Asíu. Fræjum brasilíska gúmmítrésins hafði verið smyglað frá Amazon og með stórauknu framboði snarféll gúmmíverð. Gúmmíræktunin í Amazon gat ekki keppt við nýju gúmmíplantekrurnar í Asíu og Manaus hnignaði jafn hratt og hún hafði blómstrað. Þannig einkennist efnahagslífið af sífelldum sveiflum og breytingum.
Tekst Brasilíu að sleppa við djúpa niðursveiflu?
Í dag eru frumskógar Brasilíu ekki lengur vettvangur gúmmíævintýra, heldur miklu fremur risanáma og nokkurra stærstu vatnsaflsvirkjana heimsins. Þarna djúpt í frumskógi Amazon er námu- og álrisinn Vale t.d. núna þessa dagana að byggja upp nýja járnnámu upp á tugi milljarða USD (um það má einmitt lesa í færslu Orkubloggsins fyrr á þessu ári).
Og ekki langt frá þessum risaframkvæmdum Vale eru aðrar lítið minni framkvæmdir nýlega byrjaðar við risavirkjunina Belo Monte. Sem fullbyggð verður rúmlega 11 þúsund MW (meira en fimmtán sinnum stærri en Kárahnjúkavirkjun) og þriðja stærsta virkjun veraldar. Það er sem sagt ýmislegt í gangi suður í Brasilíu - jafnvel þó svo einhverjar laufléttar blikur kunni að vera á lofti í efnahagslífinu þar þessa dagana.
Gallinn er bara sá að núorðið verða svona efnahagssveiflur jafnvel með ennþá hraðari og dramatískari hætti en var á dögum gúmmíbarónanna í Manaus. Til marks um það má nefna að samkvæmt síðustu tíðindum frá Brasilíu hefur lækkandi verð á járngrýti og hægari efnahagsvöxtur í Kína á örskömmum tíma farið langleiðina með að fella ríkasta mann Brasilíu af stalli! Á einungis rúmu ári hefur auður hans hrunið úr 30 milljörðum USD og niður í 10 milljarða USD eða þar um bil. Varla eru dæmi í veraldarsögunni um aðra eins snögglega uppgufun verðmæta.
Hér er að sjálfsögðu átt við milljarðamæringinn Eike Batista. Sem fyrir skömmu síðan var afar bjartsýnn um að hann yrði brátt auðugasti maður heims og næði fyrstur manna 100 milljarða dollara markinu. En virðist nú jafnvel mega þakka fyrir að sleppa við gjaldþrot. Orkubloggið á örugglega bráðlega eftir að fjalla nánar um Batista og hið ótrúlega snögglega hrun olíu- og hrávöruveldisins EBX Group.
Stóra spurningin er hvort sá slaki sem virðist vera í kínverska hagkerfinu þessa dagana eigi eftir að valda ennþá stærri brasilískum fyrirtækjum vandræðum? Fyrirtækjum eins og Petrobras og Vale! Ef það gerist gæti gamanið farið að kárna þarna í suðri.
Vonandi gerist það þó a.m.k. ekki fyrr en að afstöðnu HM 2014. Úrslitaleikurinn á að fara fram síðdegis sunnudaginn 13. júlí á sjálfum Maracana-leikvangnum í draumaborginni Rio de Janeiro. Borginni þar sem bæði Petrobras og Vale eru með höfuðstöðvar sínar. Orkubloggarinn er strax byrjaður að hlakka til að sjá Pelé brosa út að eyrum - þegar Brassarnir vonandi taka við gullstyttunni góðu á heimavelli. Áfram Brasilía!
Viðskipti og fjármál | Breytt 26.7.2013 kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2013 | 16:19
Vorhret hjá Desertec... og víðar
Ekki er langt síðan margt benti til þess að senn myndu fjöldamörg sólarorkuver spretta upp í löndunum við Miðjarðarhafið og sólarorkan verða einn helsti segull fjárfesta í orkugeiranum. En nú kunna að vera blikur þar á lofti.
Lækkandi kostnaður og mikill áhugi gaf fögur fyrirheit
Fyrir nokkrum árum blómstraði sólarokutæknin suður í Andalúsíu og víðar á Spáni, þar sem geislar sólarinnar voru byrjaðir að knýja virkjanir í orðsins fyllstu merkingu. Þar reis hvert speglaorkuverið á fætur öðru, enda nutu sólarorkufyrirtækin góðs af ríflegum fjárhagsstuðningi spænskra stjórnvalda við iðnaðinn.
Bjartsýni ríkti um hraðann vöxt. Enda er þessi speglatækni, sem þarna var svo áberandi, fremur einföld í sniðum og vel þekkt (hún nefnist á ensku Concentrated solar Power eða CSP). Sérstaklega þóttu íhvolfu speglarnir reynast vel. Þar að auki má geyma orkuna fram á kvöld með því að hita upp sérstaka saltlausn í stórum tönkum. Eftir sólarlag er sá mikli hiti notaður til að halda raforkuframleiðslunni áfram langt fram eftir dimmum kvöldunum þarna í suðri.
Áhugi stórra fyrirtækja, eins og þýska hátæknispegla-framleiðandans Schott, gaf vonir um að brátt færu stærri framleiðslueiningar í gang - sem myndi lækka kostnaðinn við speglana verulega. Það virtist hreinlega borðleggjandi að lækkandi kostnaður og stórhuga áætlanir landa Evrópusambandsins (ESB) um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, myndi verða vatn á myllu þessarar sniðugu tækni til að láta sólina framleiða rafmagn. Framtíðin var björt.
Desertec nær eyrum margra öflugustu fyrirtækja Evrópu
Stórhuga menn settu fram áætlanir um að byggja þúsundir og jafnvel tugþúsundir MW af svona speglaorkuverum í Suður-Evrópu, löndum N-Afríku og víða í Mið- Austurlöndum. Búið var að ákveða staðsetningu fyrstu speglaorkuveranna í Marokkó og Túnis og stutt virtist í að verkefnið færi af stað.
Að auki sáu mörg sólbökuð Arabaríkin þetta sem sem gott tækifæri til að nýta sólarorku til að eima sjó og framleiða þannig vatn til áveitu. Að vísu var tæknin dýr, en sem fyrr segir stóðu vonir til að kostnaðurinn færi hratt lækkandi.
Stofnuð voru samtökin Desertec um að koma þessu verkefni í framkvæmd. Þýsk stórfyrirtæki voru áberandi í hópi samstarfsaðilanna þar, en einnig voru þar fjölmörg önnur evrópsk og arabísk fyrirtæki.
Síðla árs 2009 var svo sérstakt fyrirtæki sett á laggirnar í kringum verkefnið, Desertec industrial initiative eða DII, með geysilega öflugan hlutahafahóp. Þar má nefna áðurnefnt Schott, auk Siemens, EOn, RWE, ABB, Deutsche Bank, tryggingarisann Münchener Rück, spænska Abengoa, MAN Solar Millennium, alsírska Cevital, þýska verkfræðirisann MW Zander og Bosch. Eins og sjá má voru þarna í hópnum mörg öflugustu fyrirtækin í evrópsku fjármála- og orkugeirunum og einnig t.d. fyrirtæki í matvælaiðnaði.
Erfiðleikar í sólarorkuiðnaðinum
Ekki minnkaði bjartsýnin þegar arabíska vorið breiddist út um N-Afríku árið 2011. Brátt yrði öll norðanverð Afríka þátttakandi í þessu græna orkuverkefni. Það myndi skapa ríkjum eins og Egyptalandi, Líbýu, Alsír, Túnis og Marokkó traustar úrflutningstekjur af raforkusölu til Evrópu. Og styrkja sambandið milli Evrópu og N-Afríku.
En spænsku orkufyrirtækin sem höfðu verið hvað áhugasömust um CSP ráku sig nú á vegg - þegar spænska ríkið dró nú snarlega úr stuðningi við þessa tegund raforkuframleiðslu vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs.
Ennþá verra var þó það að nú höfðu Kínverjar uppgötvað tækifærin í endurnýjanlegri orku. Ódýrar kínverskar sólarsellur (photovoltaics eða PV) flæddu yfir evrópska markaði og verð á sólarsellum snarféll. Fyrir vikið varð sólarsellu-framleiðsla margra evrópskra fyrirtækja óhagkvæm og iðnaðurinn allur þótti skyndilega óspennandi. Og svo fór að nýlega ákváðu bæði Bosch og Siemens að losa sig út úr þessum iðnaði og um leið hættu þau þátttöku í Desertec og DII.
Þetta var visst áfall fyrr Desertec og stórhuga áformin þar á bæ. Enn hefur enginn komið i stað stóru evrópsku samstarfsaðilanna sem hrukku úr skaftinu. Engu að síður eru stjórnendur Desertec vongóðir um að sólin eigi eftir að verða afar mikilvægur þáttur í raforkuframleiðslu allt umhverfis Miðjarðarhafið. Aðstöðunni nú um stundir megi líkja við vorhret; verkefnið muni vissulega ganga talsvert hægar en ráðgert hafði verið, en eigi engu að síður bjarta framtíð. Þegar sólin rennur upp á ný!
Framtíðin er alltaf óviss
Það má sem sagt segja að nú virðast skammtímahorfurnar í evrópska sólarorkuiðnaðinum nokkuð erfiðar. En menn engu að síður bjartsýnir um að til lengri tíma litið muni sólarorka eiga eftir að spjara sig vel - bæði í Evrópu og víðar um heiminn.
Þetta er kannski ámóta eins og viðhorfin í áliðnaðinum á Íslandi nú um stundir. Til skemmri tíma litið virðist nú ólíklegt að hér verði álframleiðsla aukin, þ.e. á næstu árum. Og sáralitlar líkur á því að nýtt álver rísi í Helguvík.
Það er meira að segja svo, að rétt eins og mörg stóru þýsku iðnfyrirtækin virðast nú hafa misst áhugann á sólarorkunni, eru talsverðar líkur á að a.m.k. eitt álfyrirtækjanna á Íslandi vilji losa sig við álverið sitt. Það er sem sagt allt eins líklegt að íslenski áliðnaðurinn upplifi brátt sviptingar í anda evrópska sólarorkuiðnaðarins. Um þetta verður bráðlega fjallað nánar á Auðlindasíðunni á viðskiptavef Moggans.
30.4.2013 | 09:23
Keisarans hallir skína
Kína er ríkasta land í heimi. Þessi fullyrðing er sennilega alveg hárrétt; að því gefnu að hún hafi verið sögð áður en iðnbyltingin hófst í Evrópu! Því þá fyrst náði verg landsframleiðsla landa eins og Bretlands loksins því sem verið hafði í Kína um langt skeið (GDP per capita).
Rannsóknir á hagsögu heimsins hafa sýnt fram á að Kína hafi verið eitt ríkasta land heims mest allt tímabilið frá upphafi okkar tímatals og allt fram að iðnbyltingunni. Það að Kína sé ekki ríkasta land veraldar er sem sagt fremur undantekning en hitt. En með iðnbyltingunni náðu mörg Evrópulönd að sigla hratt fram úr Kína. Um sama leyti hófst tímabil hnignunar í Kína, sem m.a. einkenndist af miklum óróa innanlands og hungursneyðum.
Hnignunarskeiðinu sem hófst í Kína snemma á 19. öldinni stóð yfir í meira en heila öld. Friður komst á í landinu um 1950, í kjölfar þess að kommúnistastjórnin náði öllum völdum í Kína. En sem kunnugt er, þá var kínverska efnahagslífið þó ekki burðugt á tímum Maó's og menningarbyltingarinnar. En svo gerðist það upp úr 1980 að kínversk stjórnvöld gjörbreyttu hagstjórn sinni. Kína gerði viðskiptasamninga við ýmis ríki í SA-Asíu og einnig við bæði Bandaríkin og Evrópubandalagið (EB, sem nú kallast Evrópusambandið; ESB). Dregið var úr tollum og takmarkaðar erlendar fjárfestingar leyfðar.
Í árslok 2001 varð Kína svo aðili að Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO). Í kjölfarið tók erlend fjárfesting í Kína að aukast hratt. Og í sem allra fæstum orðum má segja að árangur hinnar nýju hagstjórnarstefnu Kína og aukinna samskipta landsins við alþjóðasamfélagið hefur verið ævintýralegur. Afleiðingin er hreint ótrúlega hraður uppgangur í kínversku efnahagslífi og þá einkum og sér í lagi síðustu tíu árin eða svo.
Kínverska millistéttin vex ört
Kínverjar eiga ennþá langt í land með að ná sambærilegum kaupmætti og lífsgæðum eins og gerist hér á Vesturlöndum. En Kína hefur engu að síður verið að slá hvert efnahagsmetið á fætur öðru.
Kína varð t.d. nýlega það land sem fær mesta erlenda fjárfestingu af öllum löndum heimsins (Kína fór þarna nýverið fram úr Bandaríkjunum, sbr. grafið hér til hliðar). Þá voru aðeins liðin örfá ár síðan Kína varð mesta útflutningsríki heims (fór fram úr Þýskalandi árið 2009).
Árið 2010 varð Kína annað stærsta hagkerfi heimsins (fór fram úr Japan og kemur nú næst á eftir bandaríska hagkerfinu). Þetta sama ár (2010) varð Kína mesti orkunotandi heimsins (fór þá fram úr Bandaríkjunum). Á liðnu ári (2012) varð Kína svo stærsta viðskiptaveldi heimsins (þegar samanlagt verðmæti inn- og útflutnings fór fram úr því sem var hjá Bandaríkjunum).
Þetta síðastnefnda er afar athyglisvert - þegar haft er í huga að um 1980 voru milliríkjaviðskipti Kína nánast engin! Þessi gífurlegi vöxtur Kína á sviði alþjóðaviðskiptanna hefur verið slíkur að ekkert hagkerfi hefur vaxið jafn hratt síðasta áratuginn eins og hið kínverska (þá er átt við vöxt í vergri landsframleiðslu; GDP).
Fyrir vikið hefur skyndilega orðið til afar stór kínversk millistétt, sem getur leyft sér margfalt meiri neyslu en þekktist fyrir örfáum árum. Kínverska millistéttin er í dag álitin vera um 250 milljónir manna. Þetta hefur gerst mjög hratt og hefur m.a. leitt til sívaxandi vöruinnflutnings til Kína. Í því sambandi má t.d. nefna að í desember sem leið (2012) var útflutningur Þýskalands til Kína í fyrsta sinn í sögunni meiri en útflutningur Þjóðverja til Bandaríkjanna (sbr. grafið hér að ofan).
Margt bendir til þess að innan örfárra ára verði kínverska millistéttin orðin margfalt stærri en nú eða á bilinu 600-800 milljónir manna. Þarna munu sem sagt a.m.k. nokkur hundruð milljónir manna í viðbót senn verða þátttakendur í blessuðu neyslukapphlaupinu (sem ætti kannski fremur að vera kallað viljinn til mannsæmandi lífs).
Ef spár ganga eftir bætist þarna brátt við ámóta fjöldi í kínversku millistéttina eins og nemur öllum íbúum Bandaríkjanna eða rúmlega það. Spárnar gera sem sagt ráð fyrir að senn bætist a.m.k. 350 milljónir manna (og kannski ennþá fleiri) í þann hóp Kínverja sem mun eiga efni á stærra húsnæði, betri og meiri mat, meiri fatnaði, getur ferðast og keypt sér bíl. Gangi þetta eftir mun það vafalítið hafa fordæmalaus áhrif á efnahagslíf heimsins alls. Kínverska efnahagsundrið er sem sagt kannski bara rétt að byrja.
Kínverska útrásin er staðreynd
Það er að vísu óvíst hversu hratt eða hversu snurðulaust kínverskt efnahagslíf mun vaxa á komandi árum. Blikur kunna að vera á lofti, t.d. vegna gríðarlegrar skuldsetningar margra kínverskra borga og vegna þess að víða í Kína gætu fasteignabólur u.þ.b. verið að springa. Og það leynir sér ekki að síðustu misserin hefur nokkur slaki komið í efnahagsvöxtinn þarna eystra; vöxturinn núna er ekki jafn hraður og var. Engu að síður blasir við að í Kína er hafin þróun sem afar líklegt er að haldi áfram - jafnvel þó svo sá vegur kunni að verða holóttur.
Lengi vel virtist sem nánari viðskiptatengsl Kína við umheiminn hefðu nær alger einstefnuáhrif gagnvart fjárfestingum. Þ.e. að þetta þýddi fyrst og fremst innstreymi á erlendu fjármagni til Kína (þá er átt við beina fjárfestingu eða það sem á ensku er kallað direct foreign investment; FDI). En svo fór að bera á því að kínversk fyrirtæki væru farin að dútla við ýmislegt utan Kína - og fjármagna það fyrst og fremst heiman frá. Kínverska útrásin var byrjuð!
Fyrir um áratug nam fjárfesting kínverskra fyrirtækja erlendis einungis rúmlega 5 milljörðum USD árlega, sem var einungis brot af öllum erlendum fjárfestingum í heiminum (innan við 1%). Einungis fimm árum síðar var erlend fjárfesting kínverskra fyrirtækja orðin tífalt meiri. Og kínverska útrásin öx nú hratt. Árið 2011 nam fjárfesting kínverskra fyrirtækja erlendis líklega nálægt 70 milljörðum USD og á síðasta ári (2012) var hún sennilega nálægt 90 milljörðum USD (heimildir eru nokkuð misvísandi - niðurstaða greiningaraðila ræðst m.a. af þvi hversu vel eða illa þau treysta upplýsingum kínverskra stjórnvalda).
Til samanburðar má nefna að öll erlend fjárfesting í heiminum árið 2012 nam um 1.700 milljörðum USD. Þar eru bandarísk fyrirtæki ennþá lang umsvifamest. Erlend fjárfesting Kínverja er enn sem komið er fremur lítil í alþjóðlegu samhengi (samtals er fjárfesting evrópskra og bandarískra fyrirtækja erlendis meira en tíu sinnum meiri en kínverskra fyrirtækja).
Þetta kann brátt að breytast. Þeir sem gerst þekkja gera ráð fyrir að innan einungis fimm ára verði árleg erlend fjárfesting Kínverja orðin um 800 milljarðar USD. Sem er u.þ.b. tífalt það sem var á liðnu ári (2012). Og sumar spár segja að áður en langt um líður verði erlend fjárfesting kínverskra fyrirtækja komin yfir þúsund milljarða USD árlega - og muni áfram vaxa hratt og áður en varir nálgast það að verða 2.000 milljarðar USD árlega!
Það er vissulega mögulegt að eitthvað í líkingu við þessar spár eigi eftir að verða að raunveruleika - og það jafnvel þó svo vísbendingar séu um að eitthvað kunni að vera að hægja á efnahagsvextinum Kína. Hagvöxturinn í Kína varð einungis" 7,8% á árinu 2012, sem er sá hægasti s.l. 13 ár. Það að athyglisvert að þrátt fyrir þennan slaka dró ekkert úr erlendum fjárfestingum kínverskra fyrirtækja. Þær eru þvert á móti ennþá að aukast hratt og slógu öll fyrr met fyrstu mánuði þessa árs (2013).
Kínversk fyrirtæki munu sennilega verða sífellt meira áberandi í fjárfestingum erlendis á næstu árum og áratugum. Og við erum mögulega að upplifa einhverjar mestu og dramatískustu breytingar í efnahagslífi veraldarinnar frá dögum iðnbyltingarinnar. Það er a.m.k. skynsamlegt að við reynum að búa okkur vel undir að takast á við þá nýju heimsmynd sem þessi þróun kann að skapa.
Gífurlegur gjaldeyrisforði
Hratt vaxandi útflutningur frá Kína hefur orðið til þess að skapa Kínverjum geysilegar gjaldeyristekjur. Og nú er svo komið að ekkert ríki býr yfir eins stórum gjaldeyrisvaraforða eins og Kína. Hann nemur nú vel yfir 3.400 milljörðum USD (er einmitt að miklu leyti í dollurum) og er þrisvar sinnum stærri en gjaldeyrisvaraforði Japans (sem er sá næstmesti).
Þetta er meðal þess sem hefur gefið kínverskum fyrirtækjum tækifæri til að ráðast í miklar og vaxandi fjárfestingar erlendis. Sú þróun hófst fyrir örfáum árum, en þessi vöxtur kann að vera það sem mun verða mest einkennandi fyrir kínverska efnahagslífið á næstu árum. Mjög stór hluti af fjárfestingu kínverskra fyrirtækja erlendis til þessa hefur verið í olíu- og námavinnslu - og þarna eru kínversk ríkisfyrirtæki í fararbroddi.
Til gamans má geta þess að fyrir núverandi gjaldeyrisvaraforða Kína mætti kaupa um 35 milljarða tunna af olíu - sem er meira en árs framleiðsla heimsins af olíu og um tíu sinnum meiri olía en Kína notar nú árlega.
Og jafnvel miðað við dágott yfirverð gæti Kína fyrir þennan gjaldeyrishaug keypt öll tuttugu stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna (á hlutabréfamarkaði) með húð og hári. Þ.m.t. eru ExxonMobil, Chevron, General Electric, JPMorgan, Apple, Google, Microsoft og Coca Cola.
Mörg stærstu fyrirtæki heimsins eru kínversk
Það er til marks um hreint ótrúlegan vöxt kínverska efnahagslífsins að í dag eru tvö stærstu fyrirtæki heimsins á hlutabréfamarkaði bæði kínversk (skv. viðmiðunum viðskiptatímaritsins Forbes). Þar er um að ræða tvo kínverska banka; ICBC og CCB (hér verður notast við enskar skammstafanir á nöfnum flestra kínversku fyrirtækjanna, sem nefnd eru í færslunni). Þó svo þessir risabankar séu á hlutabréfamarkaði eru þeir báðir að mestu leyti í eigu kínverska ríkisins.
Í hópi tuttugu stærstu fyrirtækja heimsins (skv. umræddum lista Forbes) eru fimm kínversk fyrirtæki. Auk fyrrnefndra tveggja banka eru þarna tveir aðrir kínverskir bankar og eitt kínverskt olíufélag; PetroChina. Annað kínverskt olíufélag, Sinopec, er skammt undan - í 26. sæti.
Aðeins neðar á listanum yfir stærstu fyrirtæki heimsins (á hlutabréfamarkaði) koma svo nokkrir kínverskir bankar í viðbót, fleiri kínversk orkufyrirtæki, kínverskt símafyrirtæki og kínversk tryggingafélög. Flest þessi fyrirtæki eru að stóru leyti í eigu kínverska ríkisins. Og skera sig þannig mjög frá flestum öðrum stærstu fyrirtækjum heims á hlutabréfamarkaði, sem langflest eru fyrst og fremst í einkaeigu en ekki opinberri eigu.
Það er líka svolítið athyglisvert að á kínverska þinginu eiga nú sæti meira en áttatíu milljarðamæringar í dollurum talið! Enginn slíkur situr á Bandaríkjaþingi; efnaðasti þingmaðurinn í Washington DC mun eiga rétt innan við hálfan milljarð USD, en sá er Michael McCaul frá Texas. Það er freistandi að segja að kommúnistaríkið Kína sé a.m.k. að sumu leyti orðið höfuðvígi kapítalismans. Sem hljómar óneitanlega eins og ansið mikil þversögn.
Olía og gas heilla
Langmest af erlendri fjárfestingu kínversku fyrirtækjanna síðustu árin hefur verið í orku- og námuiðnaði. Samtals nemur þessi fjárfesting Kínverja í olíu- og námavinnslu erlendis nálægt 400 milljörðum USD á síðustu tíu árum. Þessi tegund erlendrar fjárfestingar kínversku fyrirtækjanna hefur farið hratt vaxandi og er nú nálægt 70 milljörðum USD árlega.
Undanfarin ár hefur hlutfall orku- og námufjárfestinga kínversku fyrirtækjanna verið hátt í 2/3 af öllum erlendum fjárfestingum Kínverjanna. Einhver stærsta nýlega erlenda fjárfesting Kínverjanna er einmitt kaup á amerísku orkufyrirtæki. Það var fyrr á þessu ári (2013) að kínverska ríkisolíufélagið CNOOC (China National Offshore Oil Corporation) keypti kanadíska olíu- og gasvinnslufyrirtækið Nexen með húð og hári - fyrir rúma 15 milljarða USD.
Nexen er með starfsemi nokkuð víða um heiminn. En sennilega hafa Kínverjarnir einkum og sér í lagi verið að horfa til olíuvinnslunnar á vegum Nexen á olíusandsvæðunum norður í Alberta. Þar er á ferðinni ein af stærstu (og mest mengandi) uppsprettum olíu framtíðarinnar.
Af öðrum nýlegum dæmum um erlendar fjárfestingar Kínverja er vert að nefna kaup kínverska ríkisfjárfestingasjóðsins CIC á 30% hlut í franska orkufyrirtækinu GDF-Suez fyrir 4 milljarða USD. Lokið var við kaupin í árslok 2011 og þar með varð kínverska CIC næstum því jafn stór hluthafi í GDF-Suez eins og sjálft franska ríkið! CIC er vel að merkja stærsti ríkisfjárfestingasjóður heimsins og er sjóðurinn metinn á litla 500 milljarða USD.
Einnig mætti hér nefna nýleg kaup (2012) kínverska ríkisfyrirtækisins CTG á fimmtungshlut portúgalska ríkisins í raforkufyrirtækinu Energias de Portugal (EDF). Þetta voru gríðarstór viðskipti eða upp á um 3,5 milljarða USD - og veitti eflaust ekki af fyrir blankan ríkissjóð Portúgal. CTG er þó líklega þekktara fyrir að eiga og reka stærsta vatnsorkuver heimsins; Þriggja gljúfra stífluna í Kína.
Fjárfestingar Kínverja hafa einkum verið á Vesturlöndum
Algengt er að sjá fréttir þess efnis að Kína sé hreinlega að kaupa upp mörg þróunarríki og að t.a.m. séu sum Afríkulönd svo gott sem orðin eign Kínverja. Þetta er orðum aukið.
Reyndin er sú að langmest af erlendri fjárfestingu kínverskra fyrirtækja hefur verið á Vesturlöndum; í löndum eins og Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada og einnig innan Evrópusambandsins (ESB).
Stærstu erlendu kínversku fjárfestingarnar þar fyrir utan hafa svo verið í Brasilíu, Indónesíu og Íran. En vissulega hafa Kínverjar líka verið að setja mikið fé inn í mörg Afríkuríki og það hefur haft veruleg áhrif á þróun atvinnulífs í sumum þeirra. Þar má nefna Angóla, Gabon, Kongó, Nígeríu og Súdan.
Miklar fjárfestingar vestanhafs
Ef við færum okkur vestur um er af nógu að taka í leit að dæmum um kaup kínverskra fyrirtækja í orku- og námuvinnslu. Þar má nefna kaup kínverska risaolíufélagsins Sinopec á þriðjungshlut í bandaríska orkufyrirtækinu Devon Energy. Kaupin átti sér stað á liðnu ári (2012) og var fjárfesting upp á næstum 2,5 milljarða USD.
Það ár keypti Sinopec einnig helmingshlut af olíuvinnslu kanadíska Talisman Energy í Norðursjó - fyrir um 1,5 milljarða USD. Á liðnu ári kom svo móðurfélag Sinopec - CPC- við í Portúgal og gerði sannkallaða risafjárfestingu í brasilíska hluta portúgalska orkufyrirtækisins Galp Energia. Þessi brasilíski hluti Galp nefnist Petrogal Brasil og þar keypti móðurfélag Sinopec 30% hlut. Fréttir um stærð þessarar fjárfestingar voru misvísandi, en gæti hafa verið nálægt 4 milljörðum USD.
Nefna má að rætur Galp liggja í olíuvinnslu í fyrrum nýlendum Portúgala. En í dag eru það Kínverjar sem oft eru stórtækastir í fjárfestingum í mörgum þessum gömlu nýlendum Portúgala og annarra nýlenduríkja Evrópu. Árið 2010 keypti t.d. kínverska Sinopec 40% hlut í brasilíska hluta spænska orkufyrirtækisins Repsol. Það voru viðskipti upp á rúma 7 milljarða USD! Og eins og áður sagði eru Kínverjar orðnir stórtækir í olíuvinnslu í nokkrum löndum Afríku.
Kínversk fyrirtæki hafa fjárfest í mörgum öðrum stórum orku- og hrávörufyrirtækjum og -verkefnum vestan hafs. Þannig hefur t.d. kínverski orku- og efnavinnslurisinn Sinochem keypt gasvinnsluréttindi vestur í Texas fyrir milljarða dollara. Sama hefur áðurnefnt Sinopec gert í Oklahóma og Mississippi (seljandinn þar var Chesapeake Energy). Sinopec er líka nýbúið að kaupa gasvinnslufyrirtæki í Kanada, sem nefnist Daylight Energy, fyrir rúma 2 milljarða USD. Og svona má áfram telja.
Svo virðist sem þessi þróun sé bara rétt að byrja og bæði Bandaríkin, Kanada og Evrópa eigi enn eftir að upplifa geysilegt innstreymi fjármagns frá Kína. Slíkt yrði væntanlega kærkomið fyrir þá sem vilja styrkja efnahagslífið t.d. í sunnanverðri Evrópu. Meiri efasemdir kunna að vera um pólitísku áhrifin sem þetta gæti haft. Upp á síðkastið hefur t.a.m. talsvert borið á andstöðu við það vestur í Kanada að leyfa kínverskum ríkisfyrirtækjum að fjárfesta í kanadískum fyrirtækjum.
Umsvif Kínverja á Norðurlöndunum eru ennþá takmörkuð
Ef við lítum okkur nær, þá er Danmörk eitt af þeim löndum sem hafa fengið kínverska fjárfestingu. Enda er Danmörk mjög opin fyrir erlendu fjármagni. Nú eru um áttatíu kínversk fyrirtæki með starfsemi í Danmörku. Þar af hefur næstum helmingur fyrirtækjanna komið til Danmerkur á síðustu þremur árum (2010-2012).
Eitt af nýjustu verkefnum Kínverja í Danaveldi eru kaup kínverska Titan Wind Energy á einni framleiðslueiningu danska vindorkufyrirtækisins Vestas. Titan Wind hefur sérhæft sig í framleiðslu á turnunum sem spaðarnir og vindtúrbínan hvíla á og keypti slíka verksmiðju af Vestas.
Í reynd eru þó umsvif Kínverja í Danmörku ennþá lítil. Heildarfjárfesting kínverskra fyrirtækja í Danmörku síðan árið 2000 nær sennilega varla nema 5 milljörðum ISK. Finnland er á svipuðum nótum. Svíþjóð hefur fengið talsvert meiri kínverska fjárfestingu. Þangað hafa kínversk fyrirtæki komið með sem nemur um 250 milljarða ISK síðan árið 2000.
Fjárfesting kínverskra fyrirtækja í Noregi er sú mesta af Norðurlöndunum. Frá árinu 2000 nemur fjárfesting Kínverja innan Noregs um 600 milljörðum ISK. Stór hluti af því kemur til vegna kaupa kínverska China National Bluestar Group á norska Elkem (sem þá var í eigu norska Orkla). Elkem á einmitt járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Og þar með má kannski segja að Kínverjar séu ekki síður orðnir nokkuð umsvifamiklir á Íslandi!
Kínverskt fjármagn er sem sagt byrjað að veðja á Ísland. En varla verður sagt að sú fjárfesting hafi umturnað íslensku þjóðfélagi, né haft neikvæð áhrif af nokkru tagi. Þar með er Orkubloggarinn ekki að segja að við eigum að galopna landið fyrir kínverskri fjárfestingu. En við erum nú þegar komin í samstarf við kínverska viðskiptalífið og forvitnilegt verður að sjá hvernig það samstarf þróast.
Allar eru þessar tölur um fjárfestingar kínverskra fyrirtækja á Norðurlöndunum eða annars staðar í heiminum lágar ef miðað er við t.d. bandarískar fjárfestingar í þessum sömu löndum. Meira en helmingur af allri erlendri fjárfestingu innan ESB kemur frá Bandaríkjunum, en einungis um eða innan við tíundi hlutinn frá Kína (þessar hlutfallstölur miðast við 2011 en eru vel að merkja afar breytilegar frá ári til árs).
Þetta gæti breyst hratt á næstu árum; hlutfall Kína kann að vaxa hratt. Það er beinlínis stefna Kínastjórnar að draga úr þýðingu bandarískra ríkisskuldabréfa og þess í stað leggja meiri áherslu á að eiga fyrirtæki erlendis. Þetta gæti haft áhrif á Ísland; fyrir örlítið hagkerfi eins og hið íslenska getur Kína sem fjárfestir augljóslega haft geysilega þýðingu.
Kína á Norðurslóðum
Undanfarið hefur mátt tala um raðkaup kínverskra fyrirtækja á mörgum stórum orku- og olíuvinnslufyrirtækjum í bæði Evrópu, Kanada, Bandaríkjunum og víðar um heiminn. Þá eru ótaldar miklar fjárfestingar kínverskra fyrirtækja í erlendum námuvinnslufyrirtækjum. Þær fjárfestingar eru dreifðar um allan heim og má t.d. nefna Kanada, Afganistan og Írak í þessu sambandi. Og nú er þessi þróun að berast hingað á Norðurslóðir.
Stærsta koparvinnslufyrirtækið í Kína, Jiangxi Copper, sem er einn stærsti koparframleiðandi heimsins, hefur verið að kanna með opnun koparnámu rétt norðan við Scoresbysund (Ittoqqortoormiit) á austurströnd Grænlands. Sem er í næsta nágrenni okkar Íslendinga.
Og kínverski ríkisbankinn CDB er sagður vilja fjármagna stóra járnnámu sem er fyrirhuguð upp við jökuljaðarinn á vesturströnd Grænlands, ofan við höfuðstaðinn Nuuk. Þar yrði um að ræða framkvæmdir upp á u.þ.b. 2,5 milljarða USD. Og jafnvel ennþá meira, því í tengslum við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir hafa Kínverjarnir sýnt áhuga á að fjármagna nýja flugstöð í Nuuk og stækka flugvöllinn þar.
Svo sigldu Kínverjar nýlega dísilknúnum ísbrjót yfir Norðurpólinn og komu þá m.a. við hér í Reykjavík. Orkubloggarinn var meðal þeirra sem skoðaði glæsilegan Snædrekann og hefur aldrei áður komið í jafn tandurhreint og fínt skip. Loks er væntanlega öllum lesendum Orkubloggsins vel kunnugt um áhuga hins kínverska Huang Nubo um hótelrekstur á Grímsstöðum á Fjöllum - sem virðist reyndar alveg óviðkomandi áhuga kínverskra ríkisfyrirtækja á orku og jarðefnaauðlindum.
Ísland og Kína gera fríverslunarsamning
Uppgangurinn í Kína vekur ótal spurningar sem mikilvægt er að velta fyrir sér og reyna að svara. Ein þeirra er sú hvaða áhrif hagvöxturinn í Kína og aukin erlend viðskipti kínverskra fyrirtækja kunna að hafa fyrir okkur Íslendinga? Þar er vert að hafa í huga að nýverið voru Ísland og Kína að gera með sér tvíhliða fríverslunarsamning.
Fríverslunarsamningurinn milli Íslands og Kína er fyrsti samningurinn af þessu tagi sem Kínverjar gera við Evrópuríki. Og þetta er meira að segja einn af fyrstu fríverslunarsamningunum sem gerður er milli Kína og vestræns ríkis. Auk Íslands hefur Kína þar einungis samið um fríverslun við Nýja Sjáland og nokkur lönd í S-Ameríku (Chile, Costa Rica og Perú). Kína hefur að auki verið í fríverslunarviðræðum við t.d. Ástralíu og Noreg, en þær hafa enn ekki borið árangur.
Það eru sem sagt talsverðar fréttir að Ísland og Kína skuli hafa samið um fríverslun. Nú er bara að sjá hver reynslan verður; hvort þetta muni breyta miklu um viðskipti milli Íslands og Kína.
Er kínverska efnahagsundrið bara rétt að byrja?
Til eru þeir sem telja að það hljóti senn að hægja verulega á hagvextinum í Kína. Og jafnvel líka á fjárfestingum kínverskra fyrirtækja erlendis. Það eru reyndar komnar fram vísbendingar um að eitthvað kunni að vera að draga úr hröðum vextinum innan Kína - þó svo efnahagsvöxturinn þarna eystra sé enn verulegur. Enn er aftur á móti ekkert sem bendir til þess að það muni draga úr erlendum fjárfestingum kínverskra fyrirtækja.
Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Kannski er kínverska ballið bara rétt að byrja. Kínverjar eru tæplega 1,4 milljarðar manna. Ennþá eru einungis um 250 milljónir Kínverja sem hafa náð þeirri velmegun að að vera skilgreindir sem millistétt. Þarna eru því enn mörg hundruð milljónir manna sem þyrstir í betri lífskjör. Og kínversk stjórnvöld hljóta að vilja gera það sem í þeirra valdi stendur til að efla millistéttina enn frekar. Spurningin er bara hversu hratt þetta mun ganga.
Hver verða áhrifin fyrir Ísland?
Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvaða áhrif efnahagsvöxturinn í Kína mun hafa á alþjóðaviðskipti og lífskjör í heiminum á komandi árum og áratugum. En vafalítið munu áhrifin verða mikil - og hugsanlega miklu meiri en við flest höfum hugleitt. Þá er ótalin möguleg risastór millistétt sem kann að koma upp í öðrum löndum og þá nærtækast að hugsa til Indlands.
En hvað sem öllum öðrum löndum líður þá viðist augljóst að það verði Kína sem þarna mun hafa mest áhrif á næstu árum og áratugum. En Kína er afar langt frá Íslandi. Óljóst er hvaða áhrif þetta mun hafa á íslenskt efnahagslíf. Það gæti ráðist af örfáum ákvörðunum um það t.d. hvort eitt eða tvö kínversk fyrirtæki muni ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á Íslandi.
Hinn nýi fríverslunarsamningur Íslands og Kína hlýtur að þýða að það sé stefna íslenskra stjórnvalda að auka viðskipti við Kína. Það er erfitt að spá fyrir um það hversu mikið slík viðskipti munu aukast.
Það er líka óljóst hversu mikinn áhuga kínversk fyrirtæki hafa í reynd á Íslandi. Og það virðist vera talsverð tortryggni gagnvart því þegar Kínverjar sýna því áhuga að fjárfesta á Íslandi.
Kannski mun samstarf milli Íslands og Kína fremur verða tengt starfsemi kínverskra fyrirtækja utan Íslands, fremur en á sjálfu Íslandi. Þetta gæti t.d. tengst námuvinnslu á Grænlandi og/eða jarðhitaverkefnum í Kína eða jafnvel allt annars staðar eins og t.d. í Afríku.
Það er fyllsta ástæða til að huga vel að því hvernig vöxtur kínverska efnahagslífsins kann að gefa Íslendingum tækifæri. Og um leið að líta vel og vandlega til þess hvað þarna beri að varast. Gerum þetta með opnum huga. En með skynsemi að leiðarljósi og án óðagots.
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.5.2013 kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2013 | 22:42
Blóðrautt sólarlag?
Þar sem Orkubloggarinn skrönglaðist móður og másandi upp efstu hlíðar Móskarðshnjúka í glampandi sólskini fyrr í dag, þennan fallega Páskadag, varð honum skyndilega hugsað til þess að nú væri marsmánuður að líða án þess að ein einasta færsla hefði birst hér á Orkublogginu. Úr því verður auðvitað að bæta. Og vegna sólskinsins þarna á toppnum og hins gula páskalitar, er upplagt að fjalla um sólarorkuna. Svo er mars einmitt mánuðurinn sem geymir jafndægur að vori. Hér kemur færsla marsmánaðar (þessu tempói verður haldið áfram; þ.e. ein Orkubloggfærsla á mánuði):
Eftir mikla uppsveiflu undanfarinn áratug virðist nú sem blikur séu á lofti í sólarorkuiðnaðinum. Hér er fyrst og fremst átt við þann hluta sólarorkubransans sem framleiðir sólarsellur. Á ensku eru sólarsellur jafnan nefndar photovoltaic cells (oft skammstafað PV). Á íslensku er þetta stundum nefnt ljósspennurafhlöð. Í dag ætlar Orkubloggið að beina sjónum að þessari merku tækni og renna augum yfir þær dramatísku sveiflur sem sólarselluiðnaðurinn hefur verið að upplifa síðustu misseri og ár.
Snjöll en kostnaðarsöm tækni
Sólin er langstærsti orkugjafinn sem mannkynið á kost á að nýta og því væri óskandi að við gætum notað þessa orku með einföldum og ódýrum hætti. Í hnotskurn felst sólarsellutæknin í því að ljósinu frá sólinni er umbreytt í rafmagn fyrir tilstilli hálfleiðara. Lengi vel var þetta svo dýr tækni að sólarsellur voru nær eingöngu notaðar þar sem ekki er aðgangur að raforkudreifikerfi eða mjög dýrt að tengjast slíku kerfi. Á síðari árum hefur náðst verulegur árangur í að auka nýtingu sólarsella og að auki hefur umfangsmeiri fjöldaframleiðsla dregið hlutfallslega úr kostnaði. Fyrir vikið hefur nýting sólaroku aukist geysilega hratt á stuttum tíma.
Því miður virðist þó enn vera nokkuð langt í land með að þessi tækni geti keppt við hefðbundnari raforkugjafa, nema með miklum opinberum stuðningi. Það er einmitt stuðningur af því tagi sem hefur orðið til þess að í sumum löndum er sólarorka orðin umtalsverður hluti af raforkuframleiðslunni. Þar er Þýskaland sennilega besta dæmið, en þar hefur aukningin nánast verið ævintýraleg.
Opinber stuðningur við sólarorkuiðnaðinn er til kominn vegna sívaxandi pólitísks þrýstings í þá átt efla endurnýjanlega orkuframleiðslu. Samhliða því sem umræða um gróðurhúsahrif jókst og verð á olíu, kolum og gasi tók að hækka umtalsvert upp úr aldamótunum 2000 tóku mörg ríki heims upp aukna hvata til handa sólarorkuiðnaðinum og öðrum greinum endurnýjanlega orkuiðnaðarins. Þetta var t.d. áberandi í Bandaríkjunum og þó enn meira í mörgum löndum innan Evrópusambandsins (ESB). Þessir hvatar fólust t.d. í styrkjum, niðurgreiðslum, hagstæðum lánum o.s.frv.
Þessir hvatar leiddu m.a. til stóraukinna fjárfestinga í sólarorkuiðnaðinum. Þær fjárfestingar og rannsóknir leiddu til þess að það náðist smám saman að auka hagkvæmni sólarsella. Þetta gerðist bæði með tækniþróun (aukinni nýtingu; þ.e. hversu háu hlutfalli af ljósorkunni sellurnar geta umbreytt í raforku) og lækkandi framleiðslukostnaði (með bættri framleiðslutækni, auk þess sem aukin fjöldaframleiðsla varð til að lækka hráefniskostnað).
Ennþá er þetta samt talsvert dýr tækni. Það er reyndar alls ekki er einfalt að meta hvað nákvæmlega kostar að nýta sólarorkuna til raforkuframleiðslu. Uppgefnar tölur og rannsóknir þar um eru afar misvísandi. En eftirfarandi yfirlit ætti að gefa sæmilega vísbendingu um þennan kostnað:
Það kostar 200 USD/MWst að framleiða raforku með sólarsellum
Já; hér er sett fram sú óvissa viðmiðun að í dag kosti um 200 USD/MWst að framleiða raforku með sólarsellum. Og þá er rétt að bæta því strax við, að oft kostar það talsvert meira! Og stundum talsvert minna!
Meðalkostnaðurinn er sem sagt enginn fasti heldur breytileg tala, sem ræðst af gæðum sólarsellanna, sólgeisluninni á hverjum stað o.s.frv. Þar að auki er rétt að hafa í huga að upplýsingar um kostnaðinn eru nokkuð misvísandi eftir því við hvaða heimild er stuðst. Og fremur en að setja fram eina tölu er miklu skynsamlegra að miða við tiltekið kostnaðarbil. Og þá má sennilega fullyrða kostnaður við raforkuframleiðslu með sólarsellum sé oftast á bilinu 150-300 USD/MWst.
Til nánari fróðleiks má t.d. nefna að Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA) gefur upp að meðalkostnaður stærstu og hægkvæmustu sólarselluorkuveranna árið 2010 hafi verið um 240 USD/MWst, en að stundum sé kostnaðurinn allt að 700 USD/MWst. Upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) er með nýrri tölur og segir að algengur kostnaður stærstu og hagkvæmustu sólarselluorkuveranna sé nú á bilinu 160-250 USD/MWst.
Miðað við þessar tölur þá er raforka framleidd með sólarsellum ennþá mikið dýrari heldur en t.d. það að nýta vindorkuna. Og sólarsellutæknin er margfalt dýrara en hefðbundnir orkugjafar eins og gas eða kol. Aftur á móti eru menn bjartsýnir um að kostnaðurinn í sólarselluiðnaðinum fari talsvert hratt lækkandi. Þannig álítur EIA raunhæft að árið 2018 verði kostnaðurinn þarna á bilinu 110-225 USD/MWst og að meðalkostnaðurinn verði um 145 USD/MWst.
Það kann að skera í augu hversu bilið þarna er breitt (110-225 USD/MWst). En þá er rétt að minnast þess að til eru margar og misdýrar tegundir af sólarsellum, sem skila misgóðri nýtingu og endast mislengi. Þarna hefur hagkvæmni stærðarinnar líka mikið að segja. Og eins og áður sagði ræðst kostnaðurinn að sjálfsögðu líka mjög af því hversu sólgeislunin er mikil á hverjum stað, en það er jú afar mismunandi.
Lækkandi framleiðslukostnaður gefur góðar vonir
Það er sem sagt afar misjafnt hvað það kostar að framleiða rafmagn með sólarsellum. Það er reyndar nánast með ólíkindum hversu kostnaður við framleiðslu og uppsetningu á sólarsellum hefur lækkað mikið á stuttum tíma.
Skömmu fyrir aldamótin síðustu var algengur kostnaður á uppsett afl í PV um 10 USD/W. Áratug síðar (um 2010) var kostnaðurinn orðinn u.þ.b. helmingi minni eða nálægt 5 USD/W (á þessum áratug helmingaðist verðið á sjálfum sólarsellunum; fór úr um 4 USD/W og í um 2 USD/W). Í dag er kostnaðurinn sagður um 3-4 USD/W (þar af er kostnaður vegna sólarsellanna orðinn innan við 1 USD).
Þarna skiptir miklu hversu kostnaður við sjálfar kísilflögurnar hefur lækkað hratt, en kísill er algengasta hráefnið í sólarsellum. Ef kostnaður við framleiðslu og uppsetningu á sólarsellum nær að lækka um u.þ.b. helming í viðbót og verður nálægt 2 USD/W verður hann orðinn mjög nálægt því eins og gerist í vindorkuiðnaðinum. En þarna sem sagt er ennþá talsverður munur.
Mikill vöxtur, en ennþá einungis lítið brot allrar raforkuframleiðslu
Miðað við hratt lækkandi framleiðslukostnað á sólarsellum kemur kannski ekki á óvart að notkun þeirra hefur stóraukist. Á einum áratug hefur uppsett afl af sólarsellum í heiminum u.þ.b. tuttugufaldast.
Engu að síður standa sólarsellur ennþá einungis á bak við brot af raforkuframleiðslu heimsins og skipta nánast engu máli í heildarsamhenginu. Hlutfallið var um 0,5% árið 2010 og er eitthvað örlítið hærra í dag.
Það er reyndar nokkuð vandasamt að áætla nákvæmlega hvert umfang sólarorkunýtingarinnar er. Opinberar tölur um raforkuframleiðslu frá sólarsellum eru oft einungis miðaðar við framleiðslu inn á raforkudreifikerfið. Þá er mikill fjöldi smærri raforkuframleiðenda undanskilinn, þ.e. allir þeir sem nota sólarsellur einungis til eigin nota. Stundum er reynt að áætla umfang þessarar raforkuframleiðslu með því að rýna í tölur um sölu á sólarsellum. Þar verður þó aðeins um nálgun að ræða, því framleiðsla hverrar sólarsellu fer að sjálfsögðu mikið eftir því hvar hún er staðsett.
Evrópa í fararbroddi en hraður vöxtur í Bandaríkjunum
Það fer ekkert á milli mála hvar í heiminum sólarsellur njóta mestra vinsælda. Þar er Evrópa afgerandi í fararbroddi. Um 75% af öllu uppsettu afli af sólarsellum í heimunum er að finna innan aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB). Samtals nemur raforkuframleiðsla aðildarríkja ESB með sólarsellum nú um 2% af allri raforkuframleiðslu innan sambandsins.
Undanfarin ár hefur Evrópa verið í forystu í að bæta við sólarsellum. Þýskaland og Ítalía eru þar fremst í flokki, bæði að umfangi og raforkuframleiðslu með sólarsellum per capita. Af öðrum Evrópuríkjum sem þarna standa framarlega má nefna Belgíu, Tékkland og Spán.
Í Bandaríkjunum er hlutfall sólarorkunnar miklu lægra en innan ESB. Upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) segir að þegar litið er til sólarsella sem tengdar eru raforkukerfinu, þá séu sólarsellur nú einungis að skila um 0,1% af allri raforkuframleiðslunni þar vestra. Það er algerlega með ólíkindum lítið þegar horft er til þess hversu sólríkt er á stórum svæðum í Bandaríkjunum.
En vöxturinn í sólarsellunotkuninni vestra er hraður og uppsett afl þar hefur marfaldast á einungis örfáum árum (var um 2.500 MW árið 2010 en er nú komið yfir 7.500 MW). Enda er raforkuframleiðsla með sólarsellum sú tegund raforkuframleiðslu sem vex hlutfallslega hraðast í Bandaríkjunum.
Það er því alls ekki útilokað að innan nokkurra ára verði raforkuframleiðsla með sólarsellum þar vestra búin að ná svipuðu hlutfalli eins og nú er innan ESB (um 2%). Búist er við að á þessu ári (2013) muni bætast við um 5.000 MW af uppsettum sólarsellum í Bandaríkjunum. Þegar horft er til næstu ára er þó sennilegt að mestur vöxtur í uppsetningu sólarsella verði í Asíu, en þar virðast stjórnvöld í löndum eins og Japan og Kína ætla að leggja mikla áhersla á aukna notkun sólarsella.
Þýskaland - hið óvænta draumaland sólarorkunnar
Eins og áður sagði er hvergi jafn mikið af sólarsellum eins og Þýskalandi. Uppsett afl af sólarsellum í Þýskalandi er nú vel yfir 30.000 MW. Þjóðverjar hafa lagt svo mikla áherslu á þessa tegund raforkuframleiðslu að þeir eru ekki aðeins stærsti sólarsellunotandinn innan ESB, heldur einnig stærsti framleiðandinn að sólarorku per capita (þ.e. miðað við fólksfjölda).
Árið 2011 fór raforkuframleiðsla í Þýskalandi með sólarsellum í fyrsta sinn yfir 18 TWst á ársgrundvelli (var þá um 19 TWst). Sem merkir að árið 2011 skiluðu sólarsellurnar Þjóðverjum meiri raforku en sem nemur allri rafmagnsframleiðslu á Íslandi! Árið 2012 var framleiðsla sólarsellanna í Þýskalandi orðin ennþá meiri eða nálægt 29 TWst. Sem nemur um helmingi af öllu sólarorkurafmagninu sem framleitt er innan ESB og um 35% af öllu sólarorkurafmagni sem framleitt er í heiminum.
Nú er svo komið að um 3-4% af allri raforkunotkun í Þýskalandi kemur frá sólarsellum. Það hlutfall er að vaxa hratt og ýmsar spár segja að innan einingis nokkurra ára muni sólarsellur fullnægja 10% af allri raforkunotkuninni þar í landi! Til samanburðar þá kemur nú um 8% allrar raforku sem notuð er í Þýskalandi frá vindorkuverum. Þessar undarlegu tegundir raforkuframleiðslu eru sem sagt ekkert smá mál í Þýskalandi.
Seint á síðasta ári (2012) gerðist það reyndar í Þýskalandi að þar fór uppsett afl í sólarorkuvinnslu fram úr vindorkunni. Þetta er afar athyglisvert í því ljósi að Þýskaland er þekkt fyrir mikinn áhuga á nýtingu vindorku. Sökum þess að nýting þýsku vindorkuveranna er talsvert meiri en sólarsellanna, skila þau fyrrnefndu þó ennþá mun meiri raforkuframleiðslu.
Kæfir gjaldþrotahrina bjartsýnina?
Tækniþróun og lækkandi kostnaður hefur vakið mönnum vonir um að brátt geti nýting sólarorku orðið alvöru bissness og einn af hornsteinum raforkuframleiðslunnar. Þetta er sjálfsagt ein skýring þess að t.d. Warren Buffet setti nú fyrr á árinu rúma 2 milljarða USD í sólarselluorkuver vestur í Kaliforníu.
Almennt virðist ríkja mikil bjartsýni um áframhaldandi ofurvöxt í nýtingu sólarorkunnar. Þannig spáir t.d. Alþjóða orkustofnunin (IEA) því að árið 2030 muni sólarsellur standa að baki um 4% allrar raforkuframleiðslu í heiminum og að árið 2050 geti þetta hlutfall verið komið í allt að 10%. Til að þetta gerist þarf þó gríðarlega fjárfestingu og nauðsynlegt að tæknin verði talsvert mikið hagkvæmari en nú er.
Það er svolítið á skjön við þessa bjartsýni að mikil gjaldþrotahrina hefur riðið yfir sólarselluiðnaðinn síðustu misserin. Reyndar má segja að sú dramatík hafi fyrst orðið lýðnum ljós seint á árinu 2011, þegar bandaríska sólarsellufyrirtækið Solyndra varð gjaldþrota. Og síðan þá hefur hvert gjaldþrotið af öðru riðið yfir bandaríska sólarselluiðnaðinn.
Fjölmiðlar vestra fjölluðu mikið um þetta þrot Solyndra og þá líklega hvað mest vegna þess að með þessu féll stór ríkisábyrgð á bandaríska ríkið eða um 500 milljónir USD. Það varð hreinlega allt vitlaust og erfitt að ímynda sér hvað hefði gerst ef upphæðin hefði verið í líkingu við þær risaupphæðir sem verið hafa að falla á íslenska ríkið í kjölfar bankahrunsins (miðað við fólksfjölda eða per capita myndi ábyrgðin vegna Solyndra samsvara því að skitin hálf milljón USD félli á íslenska ríkið).
Andstæðingar Obama leituðust við að nýta þetta til að koma höggi á orkustefnu forsetans - og forsetann almennt. Obama hefur nefnilega verið tregur til að samþykkja nýja stóra olíuleiðslu sem myndi flytja olíu frá olíusandsvæðunum norður í Kanada suður til Bandaríkjanna. Sú afstaða hans hefur ekki skapað forsetanum vinsældir í olíuiðnaðinum. Þess vegna var Solyndramálið kærkomið tækifæri fyrir bæði svartálfana og pólitíska andstæðinga til að berja á Obama.
Ábyrgð bandaríska ríkisins vegna Solyndra var til komin til vegna sérstakra lána sem Solyndra hafði tekið til uppbyggingar á sólarselluframleiðslu sinni og þar nýtt sér hvata sem fólst i ríkisábyrgð skv. orkustefnu Obama-stjórnarinnar. Sú stefna hefur það hlutverk að hvetja til meiri fjárfestinga og tækniþróunar í nýtingu endurnýjanlegrar orku og þá ekki síst í sólarorku, vindorku og lífrænu eldsneyti.
Því miður virðist sem þessi stefna kunni að vera að fara inn á sömu brautir eins og gerðist með orkustefnu Carter-stjórnarinnar seint á 8. áratugnum. Þá voru sólarsellur settar á þak Hvíta hússins í Washington DC og lánum með ríkisábyrgð dælt í sólarorkuiðnaðinn og framleiðslu á lífmassaeldsneyti (sem þá var á ensku nefnt því skemmtilega nafni gasohol). Umrædd stefna Carter-stjórnarinnar um að hvetja til endurnýjanlegrar orkuframleiðslu hrundi þegar olíuverð lækkaði aftur á 9. áratugnum.
Munurinn núna gæti verið sá að í þetta sinn muni olíuverðið áfram haldast nokkuð hátt og að engar meiriháttar verðlækkanir séu þar í spilunum. Á móti kemur að vestur í Bandaríkjunum hefur það nýverið gerst að ný gasvinnslutækni hefur leitt til stóraukins framboðs af jarðgasi. Og ódýrt gas er í dag einhver allra mesta ógnunin við endurnýjanlega orkugeirann - og þá einkum og sér í lagi gagnvart raforkuframleiðslu. Þetta gæti dregið úr áhuga fjárfesta á bandaríska sólarorkugeiranum og dregið úr þeim hraða uppgangi sem þar hefur verið undanfarin ár.
Það virðist alla veganna óumdeilt að veruleg vandræði eru nú uppi víða í sólarselluiðnaðinum í Bandaríkjunum. Þar er nærtækt að nefna nýlegt greiðsluþrot Suntech Power. Suntech er vel að merkja hvorki meira né minna en stærsti sólarselluframleiðandi heimsins. Fyrirtækið er að vísu að mestu í kínverskri eigu, en er með verulega starfsemi vestra og er skráð í kauphöllinni í New York. Það fór því laufléttur titringur um fjárfesta í endurnýjanlegri orku, þegar Suntech gat ekki staðið við afborganir af skuldabréfum nú fyrir fáeinum dögum síðan. Þarna er á ferðinni fyrirtæki sem var um 16 milljarða dollara virði á hlutabréfamarkaðnum þegar flugið náði hæst fyrir um fimm árum! Í dag er markaðsverðmæti Suntech einungis um hálft prósent af þeirri fjárhæð. Og fall Suntech verður jafnvel ennþá dramatískara þegar haft er í huga að fyrirtækið hefur verið eitt helsta stolt Kínverja í græna orkuiðnaðinum.
Svo virðist að það sé einkum offramboð á sólarsellum sem er að verða Suntech að falli. Þetta er a.m.k. sú skýring sem lesa má í fjölmiðlum; þ.e. að fyrirtækið hafi ekki ráðið við það þegar algengt verð á kísilflögum var komið undir 1 USD/W. Þetta vekur óneitanlega grun um að hratt lækkandi verð á sólarsellum - sem einmitt var dásamað hér fyrr í færslunni - sé hugsanlega alls ekki að endurspegla raunverulegan framleiðslukostnað. Er sólarsellumarkaðurinn kominn út í tóma vitleysu og að kannski kafna í eigin undirboðaælu?
Kannski er sólarorkan sem sagt alls ekki orðin jafn ódýr eins og menn halda fram. Meðan stjórnvöld og viðskiptavinir fögnuðu lækkandi verði á sólarsellum virðast framleiðendurnir a.m.k. eiga í sífellt meiri vandræðum með að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.
Þessi vandi virðist ekki bundinn við Bandaríkin ein. Nýverið tilkynnti t.a.m. þýski iðnaðarrisinn Bosch að hann hygðist losa sig við sólarselluframleiðsluna sína. Ástæðan er einföld; hjá Bosch hafa menn á undanförnum árum tapað milljörðum evra á sólarselluævintýrinu sínu. Og segjast nú alveg búnir að missa trúna á að sólarorka geti orðið samkeppnishæf!
Hundahreinsun?
Því miður eru blikur á lofti í sólarselluiðnaðinum. Þrátt fyrir stóraukna sölu á sólarsellum og margvíslegan opinberan stuðning, þá gengur a.m.k. sumum framleiðendum sólarsella afleitlega að afla nægjanlegra tekna. Er þetta kannski vonlaus bissness?
Orkubloggarinn leyfir sér að vera bjartsýnn um áframhaldandi vöxt í nýtingu á sólarorku. Það er vissulega staðreynd að ennþá er nokkuð langt í það að raforkuframleiðsla með sólarsellum geti keppt við aðra orkugjafa, nema með einhverskonar opinberum stuðningi. En þátt fyrir gjaldþrotahrinu í þessum iðnaði eru ennþá fjölmargir stórir sólarselluframleiðendur sem enn eru á fullu og virðast hvergi bangnir. Kannski er þessi gjaldþrotahrina bara nauðsynleg hreinsun til að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Stóra spurningin er þá bara hvar jafnvægið liggur? Svo er það jafnvel ennþá stærri spurning hvort komi að því að byggð verði upp sólarkísilframleiðsla á Íslandi?
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.4.2013 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2013 | 21:18
Námur Nataníels konungs
Á morgun, fimmtudaginn 21. febrúar 2013, dregur væntanlega verulega til tíðinda hjá Bumi. Þetta gæti orðið stór dagur fyrir auðkýfinginn unga; Nathaniel Rothschild. En þetta gæti líka orðið dagur vonbrigða fyrir piltinn.
Í dag ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að þessu dramatíska máli. Sem teygir anga sína alla leið frá kauphöllinni í London og inn í þétta frumskógana á Borneó í Indónesíu. Allt snýst þetta um yfirráðin yfir risastórum kolanámum, sem eru hluti af orkugjöfunum er knýja kínverska efnahagslífið.
Safnað í baukinn hjá Vallar
Árið 2010 var mikið stuð á Nat Rothschild. Vogunarsjóðurinn hans, Attara Capital, var að skila geysilegum hagnaði og hinn ungi Rothschild (f.1971) sá fram á það að auður hans var ekki lengur mældur í fáeinum hundruðum milljóna dollara heldur námu eignir hans orðið hátt í tveimur milljörðum USD.
Þetta góða gengi hjá Rothschild hafði bersýnilega hvetjandi áhrif á piltinn, sem þeyttist á einkaþotunni sinni um heiminn í leit að nýjum og spennandi viðskiptatækifærum. Snemma ársins (2010) réðst hann í stóra fjárfestingu í álrisanum Rusal. Skömmu síðar keypti Rothschild glás af skuldabréfum útgefnum af hrávörumeistaranum Glencore - og tryggði sér þar með þátttökurétt í fyrirhuguðu hlutabréfaútboði þessa stærsta hrávörufyrirtækis heimsins. Fyrir vikið var hann orðinn eitt helsta fréttaefni viðskiptafjölmiðla heimsins, enda ekki aðeins ungur og ríkur heldur jafnan með gullfallega leikkonu eða aðra fegurðardís upp á arminn.
Fjölmiðlar héldu ekki vatni yfir snilldinni hjá Nat Rothschild. Og tóku að útnefna hann bæði ríkasta, nútímalegasta og snjallasta Rothschild'inn. En Nat Rothschild var bara rétt að byrja. Þrátt fyrir ýmsa óvissu á heimsmörkuðunum var hann bersýnilega orðinn sannfærður um að hrávörugeirinn væri mál málanna. Og nú skyldi veðjað stórt!
Það var á miðju árinu 2010 að Rothschild skellti sér í einn eitt viðskiptaævintýrið og stofnaði fjárfestingafyrirtækið Vallar. Hann gaf fjárfestum kost á að kaupa sig þar inn á genginu 10 og skráði félagið á hlutabréfamarkað í London. Það eina sem var ákveðið um starfsemi Vallar var að fyrirtækið skyldi, undir stjórn Rothschild's, finna áhugaverð og vanmetin námu- eða málmafyrirtæki einhversstaðar úti í heimi og eignast þar dágóðan hlut.
Þannig yrði skapaður nýr námurisi. Og fyrirtækið skyldi verða eitt af þeim stærstu í bresku kauphöllinni. Stefnan var sett á að Vallar yrði brátt komið alla leið í úrvalsvísitöluna FTSE 100 eða það sem oftast er kallað "fútsí".
Metnaðurinn var sem sagt mikill. Og þetta var eitt allra stærsta hlutafjárútboðið í London árið 2010. Skemmst er að segja frá því að útboðið tókst mjög vel. Alls seldust hlutabréf fyrir um 700 milljónir sterlingspunda, sem þýddi að í sjóðum Vallar var nú um milljarður USD. Og það vel að merkja hjá fyrirtæki með engin viðskipti, heldur einungis þá viðskiptahugmynd að fjárfesta einhvers staðar í námu- eða hrávörugeiranum.
Þessar viðtökur voru talsvert umfram væntingarnar hjá Rothschild og félögum hans, sem höfðu ráðgert að ná inn mesta lagi um 600 milljónum punda. Sjálfur lagði Rothschild verulega fjármuni í Vallar og er nú sagður eiga þar 12-14% hlut. Megnið af fjárfestingunni kom þó frá öðrum sem vildu með á vagninn.
Þarna sýndu fjárfestarnir Nathaniel Rothschild mikið traust. Þeir litu sjálfsagt til þess að strákurinn hefur einhver öflugustu og bestu samböndin sem hægt er að hugsa sér - bæði í bankaheiminum og í námu- og hrávörugeiranum. Margir virtust trúaðir á að brátt yrði Nat Rothschild jafn áhrifa- og valdamikill í þessum iðnaði eins og vinir hans Oleg Deripaska hjá Rusal og Ivan Glasenberg hjá Glencore International. Nat Rothschild var einfaldlega að verða heitasta nafnið í City.
Vallar kaupir Borneó
Nú biðu menn spenntir eftir því hvernig fjármagninu í sjóðum Vallar yrði ráðstafað. Markmiðið hjá Nat Rothschild var að Vallar skyldi fjárfesta í málma- eða námuiðnaðinum fyrir fjárhæð sem næmi á á bilinu 2-7 milljörðum USD. Auk eigin fjár Vallar myndi fyrirtækið fjármagna þetta með lánum frá nokkrum helstu bönkum heimsins.
Sjálfur sagði Rothschild að það væri alveg sérstaklega áhugavert ef unnt yrði að finna góð tækifæri í virðiskeðju stáliðnaðarins. Þetta gat t.d. þýtt að hann væri að horfa til einhvers eða einhverra járnnámufyrirtækja. Og/eða að Rothschild væri að hugsa til orkunnar sem knýr stærstan hluta stáliðnaðarins, þ.e. að hann hygðist kaupa eitthvert af stóru kolavinnslufyrirtækjunum.
Og það leið ekki á löngu þar til pilturinn lét verkin tala. Innan sex mánaða hafði Vallar tilkynnt um kaup á stórum hlut í tveimur af stærstu kolanámufyrirtækjunum austur í Indónesíu.
Það var síðla árs 2010 að Vallar tilkynnti um kaup sín á rúmlega fjórðungshlut í fyrirtækinu Bumi Resources annars vegar og rúmlega 3/4 í Berau Coal hins vegar. Bæði þessi fyrirtæki eru indónesísk og eru með afar umfangsmikla kolavinnslu. Þar er Bumi Resources sýnu stærra, en þetta er stærsta kolavinnslufyrirtækið á Indónesíu. Og þá er ekki verið að tala um neitt smáræði, því Indónesía er eitt af sex stærstu kolaframleiðsluríkjum heimsins. Berau Coal er einnig stórt og mun vera fimmti stærsti kolaframleiðandinn a Indónesíu.Eins og áður sagði þá er Indónesía einn af stærstu kolaframleiðendum heimsins. Það segir líka talsvert um mikilvægi indónesísku kolanna, að Indónesía er annað af tveimur stærsta kolaútflutningsríkjum veraldar (hitt er Ástralía en þessu tvö lönd hafa skipst þarna á forystunni síðustu árin). Indónesía er því bersýnilega afar þýðingarmikið í að knýja kolaorkuver heimsins og þá einkum og sér í lagi kolaverin í Kína. Og þar með kínverska stáliðnaðinn og kínverska efnahagslífið allt.
Stærstu kolanámur Bumi Resources og Berau Coal eru á hinni fjalllendu, skógivöxnu og gríðarstóru eyju Borneó. Nánar tiltekið á þeim hluta Borneó sem tilheyrir Indónesíu og kallast Kalimantan. Og það er ekki nóg með að þessi tvö kolavinnslufyrirtæki hafi undanfarin ár verið gríðarstórir kolaframleiðendur og útflytjendur. Því undir þéttu laufþykkni frumskóganna á Borneó, sem er talinn vera elsti frumskógur jarðarinnar, er enn að finna mikil og ósnert kolafjöll. Sem bara bíða eftir því að vera skóflað upp og mokað um borð í lestarvagnana sem flytja kolin beinustu leið niðar að sjó, þar sem skipin sigla í stríðum straumi með kolafarmana frá Borneó til Kína.
Vallar var sem sagt talið eiga góða möguleika á að auka framleiðslu Bumi Resources og Berau Coal verulega og það að stuttum tíma. Enda er mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og þess háttar vesen lítt að flækjast fyrir framkvæmdasömum mönnum þarna austur á Borneó. A.m.k. ekki ef menn eru með réttu samböndin.
Viðskipti upp á 3 milljarða USD
Það mun hafa verið nokkuð alræmdur bankamaður hjá JP Morgan, Ian Hannam að nafni, sem benti Rothschild á þetta tækifæri í Indonesíu. Hannam hafði vitneskju um að stærstu eigendur þessara tveggja fyrirtækja (Bumi Resources og Berau Coal) ættu í nokkru basli vegna mikilla skulda og gætu haft áhuga á að fá þarna inn nýjan öflugan hluthafa.
Að vísu hafa Indónesar verið nokkuð tortryggnir gagnvart erlendum fjárfestum. Og þá kannski sérstaklega verið á varðbergi gagnvart peningamönnum frá Evrópu, enda var landið á sínum tíma mergsogið af hollensku nýlenduherrunum. En nú kom í ljós að Indónesarnir sem áttu megnið af hlutabréfunum í Bumi Resources og Berau Coal voru barrrrasta mjög spenntir fyrir aðkomu Rothschilds og félaga hans í Vallar.
Vitað var að bæði fyrirtækin voru afar skuldsett og að miklu leyti fjármögnuð með dýrum lánum frá bönkum í SA-Asíu. Hugsanlega hafa stærstu eigendur fyrirtækjanna séð góð tækifæri felast í því að færa eignahaldið yfir í fyrirtæki, sem skráð er í kauphöllinni í London. Þar með kynnu að bjóðast fjölbreyttari fjármögnunarmöguleikar fyrir fyrirtækin.
Og kaupin gengu hratt fyrir sig. Einungis um mánuði eftir að Rothschild fékk ábendingu um þessi indónesísku kolavinnufyrirtæki var búið að undirrita samningana. Hraðinn virðist reyndar hafa verið með nokkrum ólíkindum. Því sagt er að Rothschild hafi aðeins átt tvö fundi með helstu eigendum Bumi Resources og í Berau Coal - annan í Los Angeles og hinn í Songapore - áður en skrifað var undir þennan margmilljarða dollara díl.
Að auki fór Nat Rothschild einn laufléttan flugtúr á einkaþotunni sinni til Borneó að kíkja á stærstu kolanámuna; hina viðfrægu risanámu Kaltim-Prima á austurhluta Borneo. Þeirri ferð mun Rothschild hafa svo lokið með notalegri afslöppun í lúxusvillu aðaleiganda Berau Coal á draumaeyjunni Balí.
Fyrir herlegheitin greiddi Vallar samtals um 3 milljarða USD. Í kaupin fóru svo til allir þeir peningar sem Vallar hafði aflað í hlutafjárútboðinu í London fyrr á árinu. Stærstur hluti fjármögnunar kom þó sem lánsfé, þ.e. sala á skuldabréfum útgefnum af Vallar. Um leið og samningar um söluna voru í höfn, með hinum hefðbundna skemmtilega fyrirvara um fjármögnun, skaust Rothschild til Peking til að útvega aur. Þar brást kínverski risafjárfestingasjóðurinn CIC eða China Investment Corporation strax vel við. Lán Kínverjanna til Vallar vegna kaupanna í Bumi Resources og Berau Coal er sagt hafa numið 1,9 milljörðum USD.
Bumi: Draumur um hrávörurisa
Með þessum viðskiptum varð Vallar í einni svipan risastórt eignarhaldsfélag í tveimur afar stórum kolavinnslufyrirtækjum, sem bæði eru skráð í kauphöllinni í Jakarta á Indónesíu. Þar með mátti í reynd segja að Vallar væri orðið eitt af mikilvægustu kolafyrirtækjum heimsins.
Þessum kaupum Vallar var af sumum lýst sem einstöku tækifæri, enda hefðu indónesísku fyrirtækin undir yfirstjórn Vallar alla burði til að tvöfalda kolaframleiðslu sína í Indónesíu. Þetta gæfi Vallar tækifæri á að verða einn af allra mikilvægasta kolavinnsluframleiðendum heimsins og stærsti kolabirgir Kína. Í þessu sambandi er vert að minna enn og aftur á að ásamt Ástralíu er Indónesía annar af tveimur stærstu kolaútflytjendum heimsins.
Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað, þarna síðla árs 2010, var samanlögð ársframleiðsla fyrirtækjanna tveggja, Bumi Resources og Berau Coal, rétt tæplega 80 milljónir tonna af kolum. Þetta er ekkert mjög langt frá því sem gerist hjá námurisunum Anglo American og BHP Billiton. Nat Rothschild gat því með góðri samvisku sagst hafa skapað eitt stærsta kolavinnslufyrirtæki heimsins. Nú var bara eftir að græða á sköpuninni.
Fyrst var þó nafni Vallar breytt og var fyrirtækið nefnt Bumi. Sem merkir jörð á máli Indónesa. Í einni svipan varð Vallar - sem nú hafði verið umskýrt Bumi - einungis hársbreidd frá því að vera í hópi tíu stærstu kolaframleiðslufyrirtækja heimsins.
Samanlagt verðmæti Bumi Resources og Berau Coal í kauphöllinni í Jakarta haustið 2010 jafngilti um 8 milljörðum USD. Rothschild og félagar voru sannfærðir um að stutt yrði í enn frekari kaup sín í námuiðnaðinum. Og að brátt yrði Bumi einn helsti námururisi heimsins og yrði nefnt í sömu andrá eins og hrávörurisarnir Glencore og Xstrata.
Auðlindirnar á eyju órangútanna
Á þessum tímamótum í nóvember 2010 sagðist Rothschild vera sannfærður um að með því að innleiða vestræna stjórnarhætti hjá þessum indónesísku fyrirtækjum (Bumi Resources og Berau Coal) mætti á skömmum tíma margfalda hagnað þeirra. Og þar með fá alla fjárfestana í Vallar til að brosa út að eyrum. Það stóð sem sagt til að hlutabréfagengið 10, sem var boðið í hlutafjárútboði Vallar í kauphöllinni í London sumarið 2010, myndi brátt æða af stað upp á við.
Eins og fyrr sagði er þarna fyrst og fremst um að ræða kolanámur á eyjunni Borneó. Indónesíski hluti Borneó hefur á skömmum tíma orðið afar mikilvægt námuvinnslusvæði. Sú þróun hefur átt verulegan þátt í því að á einungis aldarfjórðungi hefur þriðjungi alls skóglendis á þessari gríðarstóru og þéttgrónu eyju verið rutt burtu. Þar hefur skógarhögg fyrir timburiðnað haft mest að segja. En síðustu árin hefur kolaiðnaðurinn verið stórtækur í eyðingu skóganna á Borneó.
Það eru þessi frumskógasvæði sem nú eru orðin eitthvert heitasta umræðuefnið í... ekki í Jakarta eða öðrum fjáramálamiðstöðvum SA-Asíu... heldur í fjármálahverfinu í London. Svona teygir elsti frumskógur jarðarinnar nú kræklóttar greinar sínar alla leið inn í hið virðulega City í miðborg Lundúna. Og þar eru menn að hugsa um allt aðra hluti en að hafa en áhyggjur af eyðingu skóga eða búsvæða hins sérkennilega mannapa; órangútans. Framtíð Borneo er kolavinnsla!
Stærsta náman í eignasafni Vallar er svonefnd Kaltim Prima kolanáman, sem venjulega er nefnd KPC (skammstöfun fyrir Kaltim Prima Coal). Kolavinnslan þarna í Kaltim Prima kolanámunni í frumskóginum á Borneó hefur búið til hvorki meira né minna en einhverja allra stærstu holu í heiminum. Náman er talin hafa að geyma nokkra milljarða tonna af vinnanlegum kolum, sem þakka má samþjöppun og rotnun gífurlegs magns af skóglendi sem rekja má tuttugu milljónir ára aftur í tímann.
Á undanförnum árum hafa heilu fjöllin þarna inni í frumskóginum verið skafin burt og stórir dalir verið grafnir inn í hæðirnar. Og enn er af nógu að taka. Þegar Nat Rothschild flaug yfir námuna á árinu 2010 hefur hann vafalítið séð raðir risastórra trukka líkt og iðjusama maura flytja fullfermi sitt af kolum frá námunni og í skip. Hver trukkur tekur um 330 tonn af kolum í hverri ferð! Niður við sjó liggur hafnargarðurinn um 2 km útí sjó þar sem allt að sex flutningaskip geta lagst að í einu og fyllt sig. Áður en siglt er af stað til baka með fullfermi af kolum til Kína eða Suður-Kóreu.
Þegar kaupin voru gerð var þess vænst jafnvel yrði unnt að tvöfalda framleiðslu KPC fyrir árslok 2014. Sem hefði þýtt að heildarframleiðsla Bumi á ársgrundvelli færi úr tæplega 80 milljónum tonna og í um 140 milljón tonn af kolum. En þegar fór að líða á árið 2011 fóru að renna tvær grímur á Rothschild og félaga. Eitthvað virtist rotið í ríki Bumi Resources. Höfðu þeir keypt köttinn í sekknum?
Efasemdir vakna
Á fyrri hluta ársins 2011 virtist felst benda til þess að ættarveldi Rothschild'anna væri ekki lengur bara bankar og fjármálalíf, heldur væri fjölskyldan nú einnig orðin mikilvægur þátttakandi í hrávöru- og orkugeira heimsins. Og að það væri hinum unga og framsýna Nathaniel Rothschild að þakka.
Almennt virtist fjármálaheimurinn taka þessum kaupum Vallar (Bumi) á indónesísku kolaframleiðundunum fagnandi. Þannig lýsti t.a.m. breska fjármálafyrirtækið Liberum Capital þessu sem einstöku tækifæri sem ætti eftir að skapa mikla eftirspurn meðal fjárfesta til að kaupa hlutabréf í Bumi. Í þessu sambandi benti Liberum á að verðið sem Vallar greiddi fyrir herlegheitin jafngilti að hlutfallið EV/EBITDA væri innan við 5!
En það var nú reyndar samt svo að nánustu aðstandendur Nat's Rothschild höfðu strax frá upphafi talsverðar efasemdir um þetta námuævintýri hjá drengnum. Í aðdragandanum að stofnun Vallar á fyrrihluta ársins 2010 hafði Nat reynt að fá föður sinn til að leggja fé í púkkið. En hinn þaulreyndi banka-, fjármálamaður og barón Nathaniel Charles Jacob Rothschild (f.1936) var ekki á þeim buxunum að taka þátt í þessum óáþreifanlegu fjárfestingaáformum sonarins. Karlinn, sem er stjórnarformaður hjá hinum risastóra og árangursríka fjárfestingasjóði RIT Capital Partners, sagði einfaldlega nei takk sonur sæll.
Þarna virðist innsæið ekki hafa brugðist þeim gamla, því fjárfesting Vallar í indónesíska kolaiðnaðinum hefur engan veginn farið á þann veg sem lagt var upp með. Það fór nefnilega svo að í stað þess að þarna yrði til laglegur straumlínulagaður námurisi var útkoman eitraður kokkteill indónesísku yfirstéttarinnar og evrópska fjármálaaðalsins. Og sá kokkteill gæti kostað Rothschild og félaga geysilega fjármuni.
Í sæng með svikahröppum?
Viðskiptunum sem umbreyttu Vallar í Bumi var formlega lokið í apríl 2011. Með tilheyrandi fögnuði og glasaglamri. En skjótt skipast veður í lofti. Varla hafði blekið þornað á pappírunum þegar Rothschild og félagar hans í Vallar áttuðu sig á því að þarna hefðu þeir kannski hlaupið örlítið á sig.
Til að koma dílnum í gegn þurftu Rothschild og félagar að semja við menn sem um áratugaskeið hafa verið með puttana út um allt í indónesísku viðskiptalífi. Þar er annars vegar um að ræða milljarðamæring að nafni Rosan Roeslani (sem var aðaleigandi Berau Coal í gegnum fyrirtæki sitt Recapital Advisors) og hins vegar ein þekktasta og áhrifamesta fjölskyldan í indónesísku viðskiptalífi, sem eru Bakrie-bræðurnir (aðaleigendur Bumi Resources í gegnum fjölskyldufyrirtækið Bakrie & Brothers).
Í Bakrie & Brothers ráða öllu bræðurnir og auðkýfingarnir Aburizal, Nirwan Dermawan og Indra Bakrie. Þar má segja að Aburizal Bakrie (f.1946) sé í fararbroddi. Hann tók nýverið við formennskunni í stjórnmálaflokki hins alræmda og gjörspillta einræðisherra Suharto og verður frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum sem fram fara í Indónesíu árið 2014. Með viðskiptunum við Vallar urðu Bakrie & Brothers stærsti hluthafinn í hinu nýja Bumi með 43% hlut. En til að takmarka áhrif þeirra á Bumi var samið um að atkvæðamagn Bakrie í stjórninni skyldi vera 29,9%. Á móti fékk Bakrie réttinn til að útnefna þrjá mikilvægustu stjórnendur fyrirtækisins; nefnilega stjórnarformanninn, forstjórann og fjármálastjórann.
Bakrie & Brothers eru að auki í nánu viðskiptasambandi við landa sinn Roeslani, sem ræður yfir 13% hut í Bumi. Þetta viðskiptasamband er svo náið að fjármálaeftirlitið í Bretlandi hefur bannað að Roeslani hafi atkvæðisrétt um málefni Bumi (vegna kaupsamningsákvæða um að atkvæðisréttur Bakrie-bræðranna takmarkist við 29,9%). Það breytti því þó ekki að það var frá upphafi augljóst að Bakrie-bræðurnir myndu nánast ráða öllu því sem þeir vildu um stefnu og rekstur Bumi.
Það eru sem sagt engir smákóngar sem Nat Rothschild lagði traust sitt á með viðskiptunum sem gerðu Vallar að Bumi. Þarna er, sem fyrr segir, um að ræða einhverja áhrifamestu fjölskylduna í þessu gríðarlega fjölmenna ríki. En það var líka alkunnugt að þó svo Bakrie-bræðurnir séu afar umsvifamiklir í indónesísku atvinnu- og stjórnmálalífi, þá stendur fjármálaveldi vart á mjög traustum grunni. Eftir Asíukreppuna í lok 20. aldar og fjármálakreppuna sem skall á heiminum árið 2008 er viðskiptaveldið kennt við Bakrie nefnilega þjakað af óheyrilegum skuldum. Segja má að Bakrie-bræðurnir hafi náð að halda sér á floti með fáheyrðum lántökum og þá einkum og sér í lagi frá kínverskum bönkum sem hafa lánað þeim óspart en á himinháum vöxtum.
Það er reyndar athyglisvert að þegar nánar er að gáð virðast viðskiptaumhverfið á Indónesíu (a.m.k. það sem tengist Bakrie-bræðrunum) minna um margt á það sem gerðist hér á Íslandi fyrir hrun. Viðskiptaveldi bræðranna og viðskiptafélaga þeirra einkennist af flóknu kerfi krosseignatengsla og miklum fjölda eignarhaldsfélaga og í viðskiptum bræðranna hafa skuldsettar yfirtökur verið áberandi. Munurinn er bara sá að Indónesía er jafnan flokkuð sem afar spillt viðskiptaumhverfi, en Ísland þótti til fyrirmyndar.
Af einhverjum furðulegum ástæðum sáu Rothschild og félagar hans litla eða jafnvel enga hættu felast í geysilegri skuldsetningu Bumi Resources og flestum ef ekki öllum öðrum fyrirtækjum sem tengjast fjármálaveldi Bakrie-bræðranna. Sama má segja um fyrirtæki Roeslani's. Það er a.m.k. augljóst að Rothschild horfðist ekki í augu við þessa áhættu fyrr en um seinan. Og það þrátt fyrir að spillingin í indónesísku viðskiptalífi sé alræmd og landið fái jafnan hroðalega einkunn í öllum skýrslum og samanburðarkönnunum á spillingu landa.
Draumurinn breyttist í martröð
Hugsunin með kaupum Vallar á kolanámunum í Indónesíu var ætíð sú að bæta stjórnunarhætti og innleiða meiri skilvirkni í rekstri fyrirtækjanna. En þegar á reyndi var alls ekki auðsótt mál að ná fram breytingum. Æðstu stjórnendur fyrirtækisins, sem sátu í skjóli Bakrie-bræðranna, reyndust langt í frá viljugir til að hlusta eða taka mark á Rothschild.
Það var reyndar svo að jafnvel áður en Vallar varð til hafði lengi verið uppi sterkur orðrómur um að þar sem Bakrie-bræðurnir færu um væri víða pottur brotinn. Enda komu brátt upp vísbendingar um að sitthvað í bókhaldi Bumi Resources þyldi illa dagsljósið. Eftir því sem Rothschild skoðaði málið betur jukust grunsemdir hans um að misfarið hafi verið með hundruð milljóna ef ekki heilan milljarða dollara úr sjóðum Bumi Resources.
Þegar Nat Rothschild varð var við að eitthvað undarlegt væri sennilega á seyði fór hann auðvitað að verða nokkuð órólegur. Það var jú hann sem hafði stofnað Vallar og verið lykilaðilinn í að fjárfesta í indónesísku fyrirtækjunum. Hann átti frá upphafi sæti í stjórn Bumi, enda stofnandi fyrirtækisins og einn af stærstu hluthöfum þess. En þegar Rothschild byrjaði að spyrja krefjandi spurninga í stjórn Bumi komst hann ekkert áleiðis.
Indónesinn Samin Tan, sem er stjórnarformaður Bumi og er útnefndur af Bakrie-bræðrunum, stóð sem veggur gegn athugasemdum og tillögum Rothschild. Og meirihluti stjórnarinnar studdi Tan. Bæði Tan og Bakrie-bræðurnir eiga vel að merkja ættir að rekja til ráðandi stétta á eyjunni Súmötru og eru tengdir nánum böndum.
Fljótlega eftir að kaupin voru um garð gengin fór að bera á miklum afskriftum hjá Bumi Resources. Fréttir þar um og orðrómur um mikil átök í stjórn Bumi leiddu brátt til þess að hlutabréfaverð í fyrirtækinu tók að lækka hratt. Í desember sem leið (2012) hafði hlutabréfaverið fyrirtækisins fallið um meira en 80%! Þ.e. frá skráningunni sumarið 2010. Draumur Rothschild's um nýjan námurisa var að breytast í martröð.
Til að bæta gráu ofan á svart sögðu nú Bakrie-bræðurnir að aðkoma Vallar hefði engu skilað nema vandræðum og lögðu fram þá tillögu að þeir myndu kaupa til baka úr Bumi aeign félagsins í Bumi Resources. Eðlilega nýttu þeir sér verðmiðann sem hlutabréfaverðið á Bumi gaf tilefni til. Tilboðið þýddi að Bumi myndi selja þeim kolanámurnar (þ.á.m. risanámuna KTC) á verði sem samsvarar því að hluthafar Bumi fái rétt u.þ.b. helming af upphaflegri fjárfestingu sinni. Nema Bakrie-bræðurnir sem myndu koma út úr viðskiptunum nálægt því á sléttu!
Í þokkabót gagnrýndi Samin Tan það harðlega að Rothschild hafði krafið Bumi um greiðslu á reikningum vegna einkaþotunnar sinnar, sem hljóðuðu alls upp á um 5 milljónir USD. Þessi kostnaður vegna einkaþotunnar var að sögn Rothschild til kominn vegna kaupanna á indónesísku fyrirtækjunum, enda hafði Rothschild þeyst víðsvegar um heiminn til að koma dílnum á og fjármagna kaupin. Og þetta væri kostnaður sem Bumi ætti að endurgreiða honum.
Tan benti á að nær væri að Rothschild skilaði 10 milljóna USD þóknuninni sem hann fékk fyrir að koma viðskiptunum á milli Vallar og Bakrie-bræðranna. Tan sagði Rothschild hafa valdið öllum hluthöfum Bumi miklum vonbrigðum og ef hann ætlaði sér að fara í misskilið stríð við stjórnendur Bumi myndi það einungis auka tjónið enn frekar.
Þar að auki sagði Tan að ekki hægt að kenna stjórnendum Bumi um þá óvæntu lækkun sem orðið hafði á kolaverði. Sú verðlækkun hefði komið flestum í opna skjöldu og væri meginástæðan fyrir erfiðleikum hjá Bumi Resources og þar með hjá Bumi. Úr því sem komið væri, væri eina vitið að vinda ofan af viðskiptunum og taka tilboði Bakrie-bræðranna.
Mesta kaldhæðnin er þó kannski sú að helsti ráðgjafi Tan og Bakrie-bræðranna í þessum deilum er einn af bönkum Rothschild-fjölskyldunnar! Þar er á ferðinni franskur banki sem kallast NM Rothschild og er undir stjórn fjarskylds frænda Nat Rothschild; David de Rothschild, sem er franskur barón (f.1942).
Báðir eru þeir frændurnir að sjálfsögðu afkomendur fjölskyldufóðursins og upphafsmanns fjármálveldis ættarannir, en sá var þýski gyðingurinn Mayer Amschel Rothschild (1744-1812). Og gaman að bæta því við að umræddur David de Rothschild á einnig sæti í stjórn demantarisans De Beers, sem Orkubloggið hefur sagt nokkuð ítarlega frá. En fjármunirnir sem lögðu grunnin að De Beers komu einmitt að miklu leyti frá Rothschild-fjölskyldunni. Skemmtilegt.
Stríðsástand milli Rothschild og Bakrie & Tan
Nú var Nat Rothschild nóg boðið, enda hann og aðrir stofnendur Vallar búnir að tapa um 800 milljónum USD af því fjármagni sem þeir settu í fyrirtækið. Nú skyldi látið sverfa til stáls.
Hann sagði sig úr stjórn Bumi, skrifaði harðort bréf til stjórnarformannsins þar sem hann fordæmdi stjórnarhætti fyrirtækisins og krafðist aðalfundar. Þar skyldu hluthafar eiga kost á að kjósa um tillögu hans um þess efnis að víkja 12 af 14 stjórnendum fyrirtækisins og hefja formlega rannsókn á viðskiptaháttum innan Bumi Resources.
Hugsunin þarna virðist í reynd vera sú að koma upphaflegum áætlunum í framkvæmd. Þ.e. að innleiða vestræna og vonandi skilvirkari stjórnarhætti innan fyrirtækjanna. En jafnvel þó svo Rothschild myndi ná þessu fram er ekki víst að björninn væri unnin. Nái hann að reka Tan og félaga hans burt frá Bumi sjá hluthafar fyrirtækisins fram á að upp muni rísa áratugalangt tímabil málaferla milli Bumi og Bakrie-bræðranna. Og þá er ekkert sérlega skemmtilegt að hugsa til þess að brátt kunni einn bræðranna að vera orðinn forseti þessa risastóra ríkis (Indónesar er alls um 240 milljónir og þar með fjórða fjölmennasta ríki heimsins).
Það er sem sagt svo að jafnvel menn úr hópi hluthafa Bumi sem telja að málstaður Rothschild sé góður álíta ekki endilega að besta leiðin sé að láta hart mæta hörðu. Tjónið sé orðið - og skynsamlegast sé að kyngja því áður en það verði ennþá meira og verra. Þar að auki eru margir málsmetandi menn í bresku fjármálalífi sem álíta að Bumi sé greinilega fyrirtæki sem ekki eigi heima í kauphöllinni í London. Það muni sverta og jafnvel stórskaða ásýnd kauphallarinnar og best sé að losna sem fyrst við allt þetta rugl úr hinu virðulega City.
Eftir að vandræðin og átökin hjá Bumi urðu lýðnum ljós hafa sífellt fleiri komið fram og sagt að Nat Rothschild hafi farið of hratt í kaupin á indónesísku fyrirtækjunum. En það er auðvelt að vera vitur eftir á. Kannski hefði Vallar átt að sýna meiri varfærni og óneitanlega virðist það sem kallast due diligence eða áreiðanleikakönnun hafa verið í skötulíki. En hafa ber í huga að Nat Rotchschild gat ómögulega séð fyrir þann nokkuð óvænta hægari vöxt sem varð í kínversku efnahagslífi á árunum 2011-12.
Sá slaki olli því að kolaverð lækkaði umtalsvert og það var afleitt fyrir hin skuldsettu fyrirtæki Bakrie-bræðranna. Röð veðkalla skall á bræðrunum og það þoldu þeir litlu betur en þegar íslenskir bankar hættu að fá áskrift að lánum erlendis frá. Afleiðingin var ólga á verðbréfamarkaðnum í Jakarta og fyrirtæki eins og Bumi Resources vou skyndilega í verulegum vandræðum.
Rothschild situr undir harðri gagnrýni
Auk þess að hafna öllum beiðnum Rothschild's um innri rannsókn og nánari upplýsingar um fjármuni fyrirtækisins stráði stjórnarformaður Bumi salti í sárið með því að minna á að Rothschild hafi fengið milljónir dollara í bónus fyrir það eitt að koma kaupunum á. Nú þegar hlutabréfaverðið í Bumi hafi fallið stórlega ætti Nathaniel Rothschild að líta í eigin barm og viðurkenna að hann hafi lofað meðfjárfestum sínum alltof miklu.
Jamm - það vantar ekki ásakanirnar á báða bóga í Bumi. Bretarnir úr Eton og félagar þeirra hafa með skelfingu þurft að horfa upp á peningana sína sem fóru í Vallar fuðra upp á hlutabréfamarkaðnum í London. Dollaramilljarðurinn sem upphaflegu fjárfestarnir lögðu í Vallar er skroppinn saman í skitnar 200 milljónir dollara eða þar um bil; hlutabréfin hafa sem sagt fallið um u.þ.b. 80% og hreint ekki góðar horfur á að úr rætist að neinu marki.
Það er svo sannarlega ekki tekið út með sældinni að vera vellauðugur breskur aðalsmaður með stóra drauma. Eftir því sem óveðursskýin hafa hrannast upp yfir Bumi hefur sífellt meiri gagnrýni komið fram á Nat Rothschild. Sumir segja hann hafa sýnt svívirðilegt dómgreindaleysi, meðan aðrir eru hógværari og lýsa ákvörðuninni um að kaupa hlut í indónesísku fyrirtækjunum sem einfeldningslegri (naive).
Nat Rothschild hefur þó enn neitað að gefast upp. Það er kannski til marks um hversu miklu þetta skiptir Rothschild, að nýverið mætti hann í sitt fyrsta viðtal hjá einum af stóru viðskiptafréttamiðlunum! Og hann er íðilfagur breski yfirstéttarhreimurinn. Rothschild segir að það væri fáheyrt að stjórn Bumi og hluthafar félagsins myndu samþykkja tilboð Bakrie-bræðranna án þess að fyrst fari fram rannsókn á viðskiptaháttum Bumi Resources síðustu árin. Þar að auki sé svívirðilegt af stjórnaformanni Bumi að vilja samþykkja tilboð sem feli það í sér að einn hluthafi, þ.e. Bakrie & Brothers, komi nánast á sléttu út úr viðskiptunum með Bumi Resources. Meðan aðrir hluthafar Bumi muni tapa næstum 60% af upphaflegri fjárfestingu sinni.
Nat Rothschild er ekki tilbúinn til að kyngja þessu. Hann álítur að hluthafar Bumi geti náð mun meiru af fjárfestingu sinni til baka með því að hreinsa til í fyrirtækjunum tveimur. Þar sé lykilatriðið að miklar breytingar verði gerðar á stjórn og stjórnendateymi Bumi. Rothschild vill skipta um 12 af 14 stjórnendum fyrirtækisins og þar á meðal Samin Tan. Í framhaldinu verði m.a. ráðist í ítarlega rannsókn á Bumi Resources og reynt að endurheimta fjármuni sem Rothschild álítur að þar hafi verið misfarið með.
Aðalfundurinn 21. febrúar
Þarna berast nú á banaspjótum annars vegar ein auðugasta og valdamesta fjölskyldan á Indónesíu og hins vegar nokkrir evrópskir fjárfestar undir forystu hins unga bankamanns Nataniel's Rothschild. Rothschild hefur undanfarna tvo mánuði undirbúið sig af kappi fyrir hluthafafundinn hjá Bumi, sem fram á að fara á morgun (21, febrúar). Í stað hinna óhæfu stjórnenda (að hans mati) hefur hann komið saman öflugu teymi sem hann vill að taki við að stýra Bumi.
Þar á meðal er Brock Gill; bráðungur Kanadamaður sem Rothschild vill að taki við sem forstjóri Bumi. Gill er einungis 32já ára, en hefur engu að síður mikla reynslu af því að stýra stórum námuverkefnum á erfiðum svæðum í A-Asíu.
Þar er helst að nefna farsæla uppbyggingu hans á stórri gull- og koparnámu í Góbí-eyðimörkinni í Mongólíu. Náman sú kallast Oyu Tolgoi og þar hefur undanfarin ár verið fjárfest fyrir nokkra milljarða dollara til að koma vinnslunni gang. Og flestum ber saman um að þar hafi tekist afar vel til undir stjórn Brock Gill.
Gill er að vísu svo ungur að hann er lítt þekkt nafn í námuheiminum. En kannski hefur Nat Rothschild þarna náð að finna rétta manninn til að koma Bumi upp úr svartholinu. Það ætti að ráðast á hluthafafundi Bumi núna á morgun hvernig fer með tillögu Nat Rothschild um að skipta um stjórnendateymi í fyrirtækinu.
Flækjustigið er skelfilega hátt
En jafnvel þó svo Rothschild næði að hreinsa til í stjórn Bumi og skipta um helstu stjórnendurna, þá er nær útilokað að átta sig á því hvað gerist í framhaldinu. Ef Rothschild vinnur kjörið virðist að vísu ljóst að þá verður unnt að ganga í það að grafast fyrir um hver sé raunveruleg staða indónesísku fyrirtækjanna. En bent hefur verið á að slíkar aðgerðir muni einungis leiða til langvarandi málaferla, sem muni taka fjöldamörg ár. Og að það muni bara tefja enn meira fyrir því að Bumi verði betur rekið fyrirtæki og henti þess vegna alls ekki hagsmunum hluthafanna.
Aðrir benda á að eina vitræna leiðin út úr vandanum, ef Rothschild nær sínu fram, sé að Bumi kaupi Bakrie-bræðurna út. Það myndi kalla á all svakalega fjármögnunarþörf; hugsanlega nálægt 4 milljörðum USD. Það er fremur vafasamt að Rothschild og félagar hans gætu fjármagnað slík kaup nú um stundir.
Grípa Kínverjarnir tækifærið?
Kannski er líklegasta niðurstaðan allt önnur en þeir möguleikar sem hér hafa verið raktir. Nefnilega sú að lánadrottnar Bakrie-bræðranna klippi á þennan að því er virðist óleysanlega hnút. Þ.e. að þer leysi einfaldlega til sín eignarhlut Bakrie-bræðranna í Bumi upp í þær gríðarlegu skuldir sem hvíla á fyrirtækjum bræðranna.
Það myndi sennilega þýða að stærsti hluthafinn í Bumi yrði hinn risastóri kínverski fjárfestingasjóður CIC eða China Investment Corporation. Sjóðurinn sá, sem er í eigu kínverska ríkisins, á milljarða dollara útistandandi hjá fyrirtækjum Bakrie-bræðranna. Og sennilega hentar það kínverskum stjórnvöldum ekkert mjög illa að eignast stóran hlut í helstu kolanámunum í Indónesíu.
Það hefur reyndar furðulítið verið minnst á þessi miklu tengsl CIC og Bakrie-bræðranna í fjölmiðlaskrifunum um átökin um Bumi. En í huga Orkubloggarans virðist alls ekki útilokað að niðurstaðan verði á þessum nótum. Stóra spurningin yrði þá auðvitað sú hvernig Kínverjum og breskum aðalsmönnum tækist í sameiningu að stjórna kolavinnslufyrirtækjum á Borneó? Og það mögulega eftir hörð átök við mann, sem brátt kann að taka við forsetaembættinu á Indónesíu! Það yrði varla vinsamlegasta viðskiptaumhverfi í heimi.
Einhver sem vill kaupa í Bumi?
Já - þetta er æsispennandi. Og ef einhverjir lesendur Orkubloggsins eiga fáein sterlingspund og vilja geta kallað Nat Rothschild viðskiptafélaga sinn, þá er ennþá tækifæri til að nálgast hlutabréf í Bumi í kauphöllinni í Lundúnum. Hvort slík fjárfesting yrði arðsöm er aftur á móti ómögulegt að fullyrða nokkuð um.
Orkubloggarinn biður svo sannarlega spenntur eftir morgundeginum. Ekki síður spennandi er hvort einhver lesandi Orkubloggsins hefur haft þolinmæði til að lesa alla leið hingað!
Þess má að lokum geta, að allra síðustu dagana hafa orðið ýmsar vendingar í hluthafahópi Bumi. Og flestar benda þær vendingar til þess að minni líkur en meiri séu á því að ljúflingurinn Nat Rothschild nái sigri í atkvæðagreiðslunni á morgun. Það væri auðvitað leitt fyrir piltinn. En spyrjum að leikslokum.
Viðskipti og fjármál | Breytt 21.2.2013 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.2.2013 | 20:11
Járnöldin síðari
Steinöld, bronsöld, járnöld. Allur sá góði tíma á að vera löngu liðinn. Járnöldin er sögð hafa runnið sitt skeið á enda hér í Norðrinu fyrir rúmum þúsund árum og í Austrinu fyrir um tvö þúsund árum.
En það er engu líkara en að járnöldin sé skollin á að nýju og það út um allan heim. Því líklega hefur engin málmur né önnur hrávara upplifað aðra eins geggjaða eftirspurn síðustu árin eins og járn. Það er því svo sannarlega orðið tímabært að Orkubloggið taki þennan merka málm til sérstakrar umfjöllunar.
Járn er einkum mikilvægt vegna stálvinnslu
Eins og allir vita er járn eitt frumefnanna. Járn er einkum nýtt til stálframleiðslu og því algert grundvallarefni í iðnaðarsamfélögum nútímans. Stál er t.a.m. mikilvægt við smíðar á skipum, bifreiðum og flugvélum. Og geysimikið af stáli er notað við byggingu háhýsa, hraðbrauta, flugvalla, stórskipahafna og í flestum öðrum stærri byggingaframkvæmdum. Svo fátt eitt sé talið.
Stál er að uppistöðu til járn sem inniheldur smávegis kolefni og önnur efni sem gera það sterkara og endingabetra. Allt byrjar þetta á því að járnið er grafið úr jörðu. Til þess eru oftast notaðar risastórar skurðgröfur og eftir atvikum sprengingar til að losa um bergið. Það er svo mulið og grófhreinsað, þ.a. eftir verður mulningur með háu járninnihaldi. Sem kallaður er járngrýti (iron ore á ensku).
Langmest af járngrýti heimsins er nýtt til stálframleiðslu eða meira en 95%. Feiknastórir vörubílar, flutningalestar og skip flytja járngrýtið frá námunni til vinnslu, þ.e. í málmbræðsluna. Sú bræðsla er forstigið í stálframleiðslu; til að framleiða stál þarf yfirleitt aðra bræðsluumferð. Þetta er að vísu nokkur einfölduð mynd á ferlinu, en ætti að gefa lesendum hugmynd um hvernig stál verður til. Sjálf málmbræðslan á sér oft stað þúsundir km frá járnnámunni; t.d. flytur Kína inn geysilegt magn járngrýtis frá löndum eins og Ástralíu, Brasilíu, Indlandi og Suður-Afríku.
Járnið sem er afurð fyrstu bræðslunnar á járngrýtinu er kallað hrájárn (pig iron á ensku). Hrájárn er ávallt bara millistig í frekari vinnslu, sem langoftast er stálvinnsla. Einnig er unnið talsvert af steypujárni (cast iron á ensku), sem inniheldur mun meira kolefni en stálið. En það er sem sagt stáliðnaður heimsins sem skapar nær alla eftirspurnina eftir járngrýti.
Járn er algengt - en líka mjög eftirsótt
Járn finnst mjög víða, enda er þetta eitt algengasta frumefnið á jörðinni. Mesta járnnámuvinnslan á sér auðvitað stað þar sem magnið af járni er mest og aðgengilegast. Þar skiptir miklu hversu hátt hlutfall járns er í jarðlögunum, en það er mjög misjafnt.
Fjölmörg lönd búa yfir mikilli og langri reynslu af vinnslu járngrýtis. Í sumum þeirra er svo mikið magn af járni í jörðu að járngrýtið er afar mikilvæg útflutningsvara fyrir viðkomandi lönd. Stærstu útflytjendurnir eru Ástralía, Brasilía, Indland og Suður-Afríka. Einnig skipta hér verulegu máli mörg önnur framleiðsluríki, eins og t.d. Kanada, Kazhakstan, Íran, Rússland, Svíþjóð og Úkraína.
Eftir því sem æ meira járn hefur verið grafið úr jörðu hefur eðlilega orðið erfiðara að finna ný námusvæði með háu hlutfalli járns. Það er ein skýring þess að menn fara á sífellt fjarlægari og óaðgengilegri slóðir í leit sinni að góðum járnnámum.
Flestir setja sennilega járn og stál fyrst og fremst í samhengi við stóriðnaðarsamfélög Vesturlanda. Og eru þá minnugir iðnbyltingarinnar í Englandi, járn- og kolavinnslusvæðanna á mörkum Frakklands og Þýskalands (sem líklega voru ein helsta ástæða beggja heimsstyrjaldanna) og iðnaðaruppbyggingar Bandaríkjanna. Í dag er það þó ekki heimur kapítalismans sem er miðpunktur járn- og stálframleiðslunnar, heldur kommúnistaríkið Kína.
Hamar og sigð verða ekki byggð... nema hafa járn og stál
Til skamms tíma var mestu stálnotkunina að finna í Bandaríkjunum og hún t.a.m. margfalt meiri en stálnotkun Breta, Þjóðverja, Indverja eða Kínverja. En svo gerðist það allt í einu undir lok 20. aldar að byggingaframkvæmdir í Asíu og sérstaklega í Kína tóku að vaxa mjög hratt. Það var upphafið að þróun sem á undraskömmum tíma hefur gert Kína að mesta stálnotanda heimsins.
Á 10. áratugnum varð hreint ótrúleg aukning á notkun sements í Kína. Svo um eða upp úr aldamótunum 2000 tók stálnotkun Kína einnig að aukast mikið. Og nánast áður en menn vissu hvaðan á þá stóð veðrið hafði Kína margfaldað stálnotkun sína og var orðinn stærsti markaður heimsins fyrir stál. Samhliða þessu jókst járnnotkun Kínverja mikið, enda stór hluti af öllu stálinu framleitt úr járngrýtinu í stáliðjuverum í Kína.
Þessi skyndilega aukning á eftirspurn Kína eftir járngrýti hafði margvísleg áhrif. Jafnvel þó svo Kína búi yfir meira af járni í jörðu en nokkurt annað land í heiminum, jókst nú innflutningsþörf Kína á járngrýti hratt. Einnig jókst mjög bæði notkun Kínverja og innflutningur þeirra á kolum, enda eru flest kínversku stáliðjuverin knúin með raforku frá kolaorkuverum.
Það er sem sagt gríðarleg aukning í stálnotkun Asíubúa (einkum Kínverja) sem er helsta orsökin fyrir járnævintýrinu sem staðið hefur yfir í heiminum síðasta áratuginn. Sú mikla eftirspurn hefur m.a. valdið fordæmalausum verðhækkunum á járni. Verð á járngrýti hefur margfaldast á undraskömmum tíma, en um leið hafa verðsveiflurnar líka orðið miklu meiri en var.
Miklar hækkanir á járngrýti hafa valdið því að fyrirtæki sem vinna járngrýti úr jörðu hafa blómstrað. Það er til marks um þessa þróun hvernig t.d. risafyrirtækið Rio Tinto hefur stóraukið tekjur frá járnnámunum sínum, meðan t.d. álframleiðslan hefur skilað sífellt minni hluta af tekjum fyrirtækisins (Rio Tinto er eigandi Rio Tinto Alcan, sem er einmitt með starfsemi í Straumsvík). Og sennilega ætlar Rio Tinto að veðja ennþá meira á járnið á næstu árum. Því nýverið skipti fyrirtækið um forstjóra og setti yfirmann járnvinnslu Rio Tinto í það sæti, en rak þann sem lagt hafði sérstaklega mikla áherslu á álið.
Kína notar nú um 60% af öllu járngrýti sem framleitt er í heiminum
Ný járnnámuverkefni taka alltaf nokkuð mörg ár og þau kosta oftast nokkra milljarða dollara og jafnvel tugi milljarða dollara. Miðað við hversu nýjar járnnámur eru tímafrek verkefni er hreint með ólíkindum hvað framleiðslan á járngrýti (og stáli) hefur aukist hrátt á stuttum tíma. Þessi gríðarlega fjárfesting í nýjum járnnámum út um allan heim er fyrst og fremst knúin áfram af eftirspurninni frá Kína.
Ekki er ofsagt að Kína hafi á örskömmum tíma umturnað járnmörkuðum heimsins og skapað einhver mestu milliríkjaviðskipti sem orðið hafa í gjörvallri veraldarsögunni. Á undaförnum árum hefur sennilega engin önnur hrávara jafnast á við umfangið á járnviðskiptunum, nema ef vera skyldi olíumarkaðurinn.
Námuvinnsla í heiminum öllum skilar nú um 2,9 milljörðum tonna af járngrýti á ári. Af öllu því magni nota Kínverjar um 1,8 milljarða tonna. Kína sjálft framleiðir nú um 1,3 milljarða tonna árlega af járngrýti. Nú er því svo komið að Kínverjar nota rúmlega 60% af öllu járni sem framleitt er í heiminum!
Þetta er gjörólíkt því sem er t.d. í olíuiðnaðinum. Þar er Kína að vísu orðið næststærsti olíuneytandi veraldarinnar - á eftir Bandaríkjunum. En Kína stendur ennþá langt að baki Bandaríkjunum í olíuneyslu, sem notar um helmingi meiri olíu en Kína. Það má því segja að meðan Bandaríkin eru mesti olíusvolgrari heimsins, þá er Kína langstærsti járnbelgurinn.
Það segir talsvert um hreint ótrúlega aukningu Kína á notkun járngrýtis að fyrir um áratug nam notkun þeirra á bilinu 20-25% af öllu járngrýti sem notað var í heiminum (Kínverjar eru einmitt um 20% af mannkyni öllu). En, sem fyrr segir, er þetta hlutfall Kínverja í notkun á járngrýti nú komið yfir 60%.
Þessi hlutfallslega aukning (úr 20% í 60%) á um áratug virðist kannski í fyrstu vera u.þ.b. þreföld. En í reynd er aukningin miklu meiri, því á þessum áratug hefur heimsframleiðsla á járngrýti stóraukist. Staðreyndin er sú að á einungis um áratug hefur notkun Kína á járngrýti sexfaldast. Þ.e. farið úr um 300 milljónum tonna á ári og í um 1,8 milljarða tonna.
Stóraukin eftirspurn stáliðjuvera í Kína eftir járngrýti er meginástæða þess að á um tíu árum hefur árlegur meðalvöxtur (CAGR) á notkun járngrýtis í heiminum verið á bilinu 6-7% á ári. Árlegur meðalvöxtur Kína á innfluttu járngrýti undanfarin ár hefur þó verið miklu meiri eða vel á þriðja tug prósenta (um 23%).
Innflutningsþörf Kína á járngrýti hefur margfaldast
Jafnvel þó svo ekkert land grafi jafn mikið járngrýti úr jörðu eins og Kína, þá hefur kínverska efnahagsævintýrið, sem fyrr segir, kallað á geysilega innflutning Kínverja á járngrýti. Í dag flytur Kína inn um 700 milljónir tonna af járngrýti á ári. Kína flytur líka talsvert af járngrýti út eða um 200 milljónir tonna. Árleg nettóþörf Kína fyrir innflutt járngrýti er því nú um 500 milljónir tonna. Allar eru þessar tölur síbreytilegar, en þetta eru þær nýjustu sem bandaríska landfræðistofnunin (USGS) hefur gefið upp.
Á skömmum tíma varð Kína sem sagt ekki aðeins stærsti framleiðandi heims að járngrýti, heldur líka stærsti innflytjandinn á þessari mikilvægu náttúruauðlind. Meðan notkun Kínverja á járngrýti sexfaldaðist náði Kína einungis að u.þ.b. þrefalda innanlandframleiðsluna á járngrýti. Innflutningsþörfin hefur því farið hratt vaxandi - jafnvel hraðar en nokkurn óraði fyrir.
Fyrir um áratug framleiddi Kína um 200 milljónir tonna af þeim 300 milljónum tonna af járngrýti sem þjóðin notaði. Innflutningurinn þá nam því um 100 milljónum tonna eða þriðjungi af notkun Kínverja á járngrýti. Í dag flytur Kína, sem fyrr segir, inn um 700 milljónir tonna, þ.a. á einum áratug hefur innflutningur Kínverja á járngrýti sjöfaldast! Þetta hefur eðlilega skapað geysilega eftirspurn eftir járngrýti í öðrum framleiðslulöndum.
Ekki er lengra síðan en 2003 að Kína varð stærsti innflytjandi heims á járngrýti (fór þá fram úr Japan). Og vöxturinn í innflutningi Kína hefur haldið áfram og það þrátt fyrir gríðarlega aukningu í innanlandsframleiðslu Kína á járngrýti. Þessi magnaða aukning fjölmennasta ríkis heims í stálframleiðslu og notkun á járni hlýtur að vera eitt af risaskrefum mannkynssögunnar. Og gefur svo sannarlega tilefni til að tala um að járnöldin síðari sé runnin upp.
Verður járn og stáltoppnum náð 2025? Eða fyrr? Eða seinna?
Horfur eru á að þessi mikla þörf Kína fyrir innflutt járngrýti eigi enn eftir að aukast verulega. T.d. spáir námurisinn BHP Billiton því að árið 2015 verði innflutningur Kína á járngrýti nálægt milljarði tonna. Sem kallar á ennþá meiri járnvinnslu um allan heim og fjárfestingar í námum, höfnum og bræðslum. Þær fjárfestingar hlaupa á hundruðum milljarða USD.
BHP Billiton álítur að notkun Kína á járngrýti muni halda áfram að aukast nokkuð hratt allt fram yfir 2015. Þá muni fara að hægja verulega á aukningunni og um 2025 muni Kína og heimurinn ná hámarki sínu í notkun á járni. Og að þá verði notað vel rúmlega helmingi meira járngrýti í heiminum en gert er í dag.
Sjálft stefnir BHP Billiton að því að tvöfalda framleiðslu sína á járngrýti fram til 2020. Þ.e. auka framleiðslu sína um 150 milljónir tonna. Og svo bæta við öðrum 150 milljónum tonna fyrir 2030 eða svo! Þarna horfir fyrirtækið fyrst og fremst til meiri járnnámuvinnslu í Ástralíu. Og að mest af aukningunni verði flutt beint til Kína.
Allar spár um það hversu Kína (eða heimurinn) muni nota mikið af járngrýti eða stáli í framtíðinni eru auðvitað afar óvissar. En menn hafa leikið sér að því að bera saman stálnotkun og verga landsframleiðslu (GDP) ríkja og telja sig þá sjá ákveðna fylgni eða tengsl. Og að niðurstaðan sé sú að jafnvel þó svo stálnotkun Kína muni etv. brátt staðna eða ná jafnvægi, muni sú mikla notkun Kína á stáli haldast í ekki aðeins mörg ár heldur marga áratugi. Þetta þýði að jafnvel þó svo Kína næði brátt jafnvægi í stálnotkuninni, muni það jafnvægi viðhaldast í marga áratugi. Það myndi m.a. kalla á geysimikinn innflutning á járngrýti um langa framtíð.
Annar skemmtilegur samanburður er hversu mikið hver maður notar af stáli (þ.e.a.s. stálnotkun iðnaðarþjóða miðuð við fólksfjölda). Í dag er árleg stálnotkun hvers jarðarbúa að meðaltali rúmlega 200 kg af stáli. Allra mestu iðnríkin (þ.e. þau lönd þar sem mesti stáliðnaðurinn er) nota á bilinu 500-1000 kg af stáli árlega per capita. Þarna eru lönd eins og Suður-Kórea og Taiwan í fararbroddi, bæði nokkuð nálægt hámarkinu. Japan, Kanada og Þýskaland eru líka dæmi um lönd sem framleiða á bilinu 500-1000 kg af stáli per capita, en eru öll nálægt neðri mörkunum.
Það voru Bandaríkin sem fyrst fóru yfir 500 kg markið (per capita). Eftir langa sögu mikillar stálnotkunar þar í landi hefur notkun Bandaríkjamanna nú minnkað verulega og er nú rétt undir 300 kg per capita á ári. Það sem er athyglisvert er að þessi sögulegi samanburður sýnir að ríki sem fer yfir 500 kg per capita í árlegri stálnotkun virðist venjulega vera yfir þeim mörkum í ca. 30-50 ár (sjá glæruna hér til hliðar, sem er frá Rio Tinto).
Allt fram á árið 2012 var Kína undir þessum mörkum. Bráðabirgðatölur vegna 2012 benda aftur á móti til þess á á því ári hafi notkun Kínverja á stáli rétt skriðið yfir 500 kg per capita. Í fyrsta sinn. Og jafnvel þó svo notkun Kínverja á stáli sé hugsanlega að nálgast hámark, þá bendir reynslan til þess að sú notkun muni ekki minnka næstu 30-50 árin! Gangi þetta eftir er nokkuð augljóst að járnöldin síðari verði talsvert lengri en bara einn eða tveir áratugir. Og svo á Indland kannski líka eftir að bætast við í þennan fína flokk þungaiðnaðarins. Það virðist því óneitanlega freistandi að veðja á að járnöldin síðari sé bara rétt að byrja.
Miklar verðhækkanir hafa orðið á járni
Eins og nefnt var hér fyrr í færslunni hefur hratt vaxandi og fordæmalaus eftirspurn Kína eftir járni valdið miklum verðhækkunum á járngrýti.
Um aldamótin 2000 var algengt verð nálægt 12 USD/tonnið, en upp úr því fór verðið hratt hækkandi. Árið 2005 var það farið að nálgast 30 USD/tonnið og árið örlagaríka 2008 var verð á járngrýti lengst af nálægt 60 USD/tonnið. Og hafði þá sem sagt fimmfaldast á einungis átta árum.
Fjármálahrunið árið 2008 hafði lítil áhrif á verð á járngrýti. Meðan olíuverð hrundi kom einungis smá hiksti í verð á járngrýti. Brátt tók verðið að hækka ennþá hraðar en áður - og síðla árs 2009 var verðið á járngrýti komið yfir 100 USD/tonnið. Árin 2010 og 2011 æddi verðið enn áfram. Síðla árs 2011 var verð á járngrýti farið að nálgast 180 USD/tonnið. Þá loks fór að bera á smá slaka í vextinum í Kína. Enda fór svo að verðið lækkaði talsvert árið 2012 og um síðustu áramót var verð á járngrýti nálægt 130 USD/tonnið.
Á u.þ.b. einum áratug hefur verð á járngrýti sem sagt hækkað úr um 12 USD/tonnið og í um 130 USD/tonnið eða meira en tífaldast. Ef sama hefði gerst með olíu væri olíuverð nú um stundir nálægt 250-300 USD/tunnan. Sem sumir reyndar voru farnir að spá á árinu 2008 þegar olíuverð fór yfir 100 USD/tunnan. Reyndin varð sú að það var járngrýti sem hækkaði svo geysilega mikið, en ekki olíuverð.
Umræddar verðhækkanir á járni kunna að valda því að einhverjir haldi að það sé að skella á járnskortur. Að við séum langt komin með að nýta allt vinnanlegt járn í heiminum. Því fer þó víðs fjarri. Járn er eitthvert algengasta frumefnið á jörðinni og reyndar í alheiminum öllum. Enginn langtímaskortur ætti að verða á járni á 21. öldinni og sennilega heldur ekki á þeirri næstu! En það kann að hækka hressilega í verði því járnvinnsla verður sífellt dýrari.
Að spá um þróun járnverðs er skemmtilegur leikur - en afar snúinn. Kostnaður við nýjar járnnánum er mjög misjafn og einnig afar mismunandi hversu hátt hlutfall járns er í jarðlögunum og hversu erfitt er að koma járngrýtinu á markað. Almennt benda skýrslur sérfræðifyrirtækja til þess að kostnaðurinn þarna hafi hækkað mikið á síðustu árum. Og að í dag þurfi nýjar járnnámur verð sem er talsvert yfir 100 USD/tonnið til að ná break-even. Sé þetta rétt má ætla að til lengri tíma litið muni verð á járngrýti almennt a.m.k. ekki vera lægra en sem nemur þessari fjárhæð.
Járnöldin síðari virðist sem sagt ætla að einkennast af miklu hærra verði á járngrýti en við höfðum vanist. En ekki má gleyma því að þó svo flest virðist benda til þess að verð á járngrýti verði áfram hátt, þá gæti t.d. slaki eða samdráttur í efnahagslífi Kína leitt til verulegs verðfalls á járngrýti - tímabundið. En ef vöxturinn í Kína heldur áfram, gæti það þrýst járnverði ennþá meira upp. Þarna er óvissan mikil og þess vegna illmögulegt að spá að einhverri nákvæmni um verðþróun járngrýtis.
Það er freistandi að setja beint samasemmerki á milli þróunar á verði járngrýtis og eftirspurnarinnar frá Kína. Það flækir samt málið að mest alla 20. öldina var í raun ekki frjáls verðmyndun á járngrýti. Lengst af öldinni var járnverði nefnilega að mestu leyti stýrt af þröngum hópi námufyrirtækja og fyrirtækja í stáliðnaði. Það eru einungis fáein ár síðan los kom á þá skipan mála og frjálsari verðmyndun varð á járngrýti.
Kína - Singapore - Amazon - Grænland
Stóraukin eftirspurn Kínverja eftir járngrýti hefur ekkert minna en umbylt markaðnum með þessa mikilvægu hrávöru um allan heim. Ein breytingin er áðurnefnd frjálsari verðmyndun á járni. Önnur mikilvæg breyting á viðskiptaumhverfinu eru nýjar og spennandi fjármálaafurðir, sem tengjast eftirspurn eftir þessu einu allra mikilvægasta hráefni heimsins.
Í dag er viðskiptaumhverfi járniðnaðarins sem sagt orðið mikið breytt frá því sem var fyrir einungis fáeinum árum. Þar hafa kauphallirnar í Singapore (SGX) og indverski hrávörumarkaðurinn (MCX) líklega verið stórtækastar og framsýnastar í að nýta sér uppsveifluna. Ennþá áþreifanlegri afleiðing af járnævintýrinu er sú hvernig námufyrirtækin eru að fara á sífellt afskekktari og fjarlægari slóðir í leit að nýjum járnvinnslusvæðum. Þar má nefna nýjar námur á svæðum eins og t.d. í frumskógum Amazon, í auðnum Maurítaníu og í stríðshrjáðu Sierra Leone.
Í dag er stærsta járnnáma heimsins einmitt djúpt inni í Brasilíu, umlukin Amazon-frumskóginum. Þarna í Carajas var nýlega tekin ákvörðun um mikla stækkun námunnar og lagningu nýrrar járnbrautar sem mun skera frumskóginn þráðbeint á 900 km leið sinni til sjávar. Þar verður járngrýtinu mokað um borð í stór flutningaskip og siglt með það til kaupendanna. Sennilega mest til Kína.
Samtals hljóðar þessi nýja fjárfesting við Carajas upp á um 20 milljarða USD. Þetta geysistóra verkefni kann að verða upphafið að ennþá meiri fjárfestingu í námuvinnslu þarna í frumskóginum, sem talinn er fela járnnámur framtíðarinnar undir laufþykkni sínu.
Skemmtilegast er að í kynningarefninu um stækkun námunnar þarna í Carajas ásamt tilheyrandi risaframkvæmdum, er þetta allt sagt vera gert með alveg dúndrandi sjálfbæra þróun að leiðarljósi (sjá t.d. þetta pdf-skjal, þar sem ekki verður þverfótað fyrir hugtakinu sustainability). Í reynd hefur raunveruleikinn í þungaiðnaði heimsins auðvitað ekkert með sjálfbæra þróun eða sjálfbæra nýtingu að gera. Heldur það eitt að kreista sem mestan fjárhagslegan hagnað út úr endanlegum auðlindum jarðarinnar. Til að viðhalda hagvextinum og öllum okkar ljúfa lífstíl. Já - þetta er dásamleg veröld.
Þetta mikla verkefni þarna í frumskógum Amazon er í höndum brasilíska risafyrirtækisins Vale, sem er stærsti framleiðandi járngrýtis í heiminum. Nefna má að Vale er m.a. næststærsti hluthafinn í norska álfyrirtækinu Hydro (norska ríkið er þar stærsti hluthafinn). Þannig að kannski má segja þessi stærsta járnnáma heimsins tengist okkur hér á Norðurlöndunum með laufléttum hætti.
Og nú eru horfur á að umsvifamikil járnvinnsla hefjist senn hér lengst í norðri. Þ.e. bæði á Grænlandi og á Baffinslandi norður í óbyggðum Kanada, þar sem íslensku víkingarnir fóru eitt sinn um og kölluðu Helluland. Þessi tvö umræddu járnnámuverkefni - á Baffinslandi og Grænlandi - eru fjárfesting sem mun líklega nema á bilinu 3-4 milljörðum USD. Hún gæti þó orðið ennþá meiri, ef farið verður af meiri krafti í námuvinnsluna þarna en nú er planað.
Þessi upphæð er vel að merkja eingöngu kostnaðurinn við uppbyggingu á sjálfum námunum og hafnaraðstöðunni til að unnt sé að flytja járngrýtið í bræðslu. Þá er eftir að vinna hrájárn úr járngrýtinu og síðan stál. Verulegar líkur eru á að sú vinnsla muni eiga sér stað í Kína (það á a.m.k. nær örugglega við um járngrýtið frá Isua-námunni ofan við Nuuk á Grænlandi). Enda er Kína orðið miðpunktur stálvinnslu veraldarinnar og kínverskir bankar áhugasamir um að fjármagna svona verkefni.
Kínverski stáliðnaðurinn byggir á kolaorku
Allt það ofboðslega magn af járngrýti sem Kínverjar nota fer, eins og áður segir, fyrst og fremst til stálframleiðslu. Þar er um að ræða mjög orkufrekan iðnað. Þess vegna hefur hratt vaxandi stálvinnslan í Kína kallað á mikla aukningu á raforkuframleiðslu í landinu. Orkugjafinn þar að baki er fyrst og fremst kol. Kína er nefnilega mjög auðugt af kolum og er talið hafa að geyma um 10-15% af kolabirgðum heimsins (einungis tvö lönd búa yfir meira af kolum í jörðu, en það eru Bandaríkin og Rússland).
Mikil aukning í raforkuframleiðslu með kolum í Kína hefur aðallega verið knúin áfram með innlendum kolum. Engu að síður hefur innflutningur á kolum til Kína vaxið hratt síðustu árin. Um 2008 nam kolainnflutningurinn um 50 milljónum tonna, en síðustu árin hefur árlegur innflutningur Kína á kolum verið að nálgast 200 milljón tonn. Innflutningur Kína á kolum hefur því nærri fjórfaldast á einungis um hálfum áratug.
Þessi innflutningur á kolum til Kína er kannski ekki mjög mikill miðað við það að heildarnotkun Kínverja á kolum hefur undanfarin ár verið að nálgast 4 milljarða tonna árlega (notkunin 2011 var 3,8 milljarðar tonna - sem er rúmlega 45% af heildarnotkun heimsins á kolum). En þó svo kolainnflutningur Kína nemi einungis um 5% af allri kolanotkun landsins, þá hefur síaukin innflutningsþörf Kína á kolum engu að síður haft mikil áhrif á kolamarkaði heimsins. Þessi eftirspurn, sem einkum hefur komið til allra síðustu árin, hefur haft afar jákvæð áhrif á útflutningstekjur þeirra ríkja sem eru aflögu um kol. Og þá ekki síst helstu kolalöndin í nágrenni Kína, sem eru Ástralía og Indónesía. Í dag er verð á kolum í þessum heimshluta um fjórfalt hærra en það var fyrir sléttum tíu árum. Það má fyrst og fremst þakka eftirspurninni frá Kína.
Ástralska járn- og kolaævintýrið
Kínverska járnæðið hefur sem sagt ekki bara leitt til stórhækkaðs verðs á járni heldur líka á kolum. Og það vill svo skemmtilega til að eitt og sama landið er bæði stærsti útflytjandi kola OG stærsti útflytjandi járngrýtis í heiminum. Þarna er um að ræða hina heillandi Ástralíu.
Já - Ástralía hefur svo sannarlega notið góðs af þróuninni í Kína síðasta áratuginn. Sá mikli uppgangur hefur hvorki meira né minna en gert konu eina í Ástralíu að langríkasta Ástralanum og sennilega líka að ríkustu konu heims. Þetta er hún Gina Rinehart, en undanfarið hefur veraldlegur auður hennar verið metinn á nálægt 25-30 milljarðar USD. Því hefur meira að segja verið spáð að brátt muni auður Rinehart verða meiri en nokkurs annars einstaklings í heiminum (þar með taldir bæði Carlos Slim og Bill Gates).
Þessi miklu auðæfi Rinehart (f. 1954) má rekja til þess að hún er einkaeigandi að fjölskyldufyrirtækinu Hancock Prospecting. Það var pápi hennar, hinn þjóðsagnakenndi Lang Hancock, sem stofnaði fyrirtækið fyrir margt löngu. Upphaflega hagnaðist hann mikið á því að grafa asbest úr jörðu. Hann varð svo vellauðugur þegar hann fann það sem nánast má kalla risastórt járnfjall í auðnum Pilbara í V-Ástralíu.
Í dag á Hancock Prospecting vinnsluréttinn á nokkrum af stærstu og gjöfulustu járn- og kolanámum Ástralíu. Orkubloggarinn á eflaust eftir að fjalla betur um hið magnaða ástralska járn- og kolaævintýri hér á Orkublogginu. En látum staðar numið að svo stöddu og njótum helgarinnar - hér á járnöldinni síðari.
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.2.2013 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2013 | 12:19
Vatnaskil í veröldinni?
Gleðilegt nýtt ár! Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Um áramót hrannast inn tilnefningar um mann- og merkustu viðburði nýliðins árs. Og svo auðvitað allir framtíðarspádómarnir. Þennan fallega Nýársdag ætlar Orkubloggið að taka þátt í þessum lauflétta leik með smá tilbrigðum. Og útnefna Bretann Jeremy Grantham sem bæði mann ársins og spámann ársins.
Skuggaleg spá frá klókum spámanni:
Grantham er þeirrar skoðunar að Vesturlönd séu komin að miklum tímamótum. Þau tímamót felist í því að hagvöxtur í Bandaríkjunum og Vesturlöndum öllum hafi náð toppi og héðan í frá muni hann dragast jafnt og þétt saman. Þessu lýsir Grantham sem Paradigm Shift; að vatnaskil séu runnin upp í efnahagslífinu þar sem Vesturlönd og mannkynið allt sjái fram á mikið breytta tíma.
Jeremy Grantham (f. 1938) er enginn venjulegur spámaður. Hann er einn stofnenda og eigenda risastórs eignastýringafyrirtækis, sem nefnist GMO (GMO stendur fyrir Grantham, Mayo, Van Otterloo & Co), en fyrirtækið var stofnað árið 1977. Aðalstöðvar þess eru í Boston, en einnig má finna hluta af 500 manna starfsliði GMO í útibúum fyrirtækisins í Amsterdam, London, Zurich, San Francisco, Singapore og Sydney.
Þarna er á ferðinni fyrirtæki sem hefur umsjón með ávöxtun eigna upp á rúmlega 100 milljarða USD! Þegar menn höndla með slíkt fé er eins gott að fjárfestingastefnan sé árangursrík og framtíðarsýnin gangi a.m.k. þokkalega eftir. Og ekki verður betur séð en að þar hafi GMO lengst af staðið undir væntingum.
Umdædd spá um hratt minnkandi hagvöxt er að finna í nýjasta ársfjórðungsbréfi Grantham's til viðskiptavina GMO. Bréfið ber þann dramatíska titil On the Road to Zero Growth og er frá því í nóvember sem leið. Gangi sú spá - eða framtíðarsýn - eftir mun það vafalítið hafa afar neikvæð áhrif á lífskjör í Bandaríkjunum og víða um heim. Þ.e.a.s. lífskjör eins og þau eru almennt skilgreind út frá fjárhagslegum viðmiðum.
Þessi nýjustu skrif Grantham's koma reyndar ekki stórkostlega á óvart. Því undanfarin ár hefur hann ítrekað varað við ekki aðeins samdrætti í hagvexti, heldur líka fæðuskorti og alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Í þessu sambandi má vísa til margra ársfjórðungsbréfa Grantham's á vettvangi GMO (bréfin má nálgast á vef fyrirtækisins og víðar í netheimum). Þarna er t.d. áhugavert að lesa bréf frá því fyrir rúmu ári síðan, sem bar titilinn Time to Wake Up: Days of Abundant Resources and Falling Prices Are Over Forever (frá apríl 2011). Einnig mætti nefna Resource Limitations 2: Separating the Dangerous from the Merely Serious (frá júlí 2011) og Welcome to Dystopia! Entering a long-term and politically dangerous food crisis (frá júlí 2012).
Neikvæður eða öllu heldur áhyggjufullur tónninn hjá Grantham hefur valdið því að margir líkja honum við dómsdagsspámenn; segja karlinn ekki styðjast við staðreyndir í boðskap sínum, heldur eintómar getgátur og svartsýni. Rök Grantham's eru vissulega alls ekki skotheld. En þá ætti fólk líka að hafa í huga að það verður aldrei nóg af tölfræði í heiminum til að unnt verði að spá af neinni nákvæmni fyrir um efnahagsþróunina langt fram í tímann. Allar slíkar spár eru skot útí bláma óvissunnar. En þegar litið er til langrar reynslu Grantham's og farsæls starfsferils hans er freistandi að gefa orðum hans gaum - jafnvel þó svo maður sé ekki endilega sammála honum í einu og öllu.
Já - spá Grantham's og skoðanir hans gefa okkur tilefni til að staldra við og hlusta. Reynslan sýnir að Jeremy Grantham hefur í gegnum tíðina oft reynst afar sannspár. Hann virðist sem sagt mjög næmur á hvað raunverulega er að gerast í efnahagslífinu.
Á tímum sem sumir og jafnvel flestir hafa ekki séð neitt nema veislu, hefur Grantham ítrekað komið auga á bliku út við sjóndeildarhringinn. Einkum í sér í lagi hefur Grantham verið lunkinn við að átta sig tímanlega á bólumyndun í hagkerfinu - hvort sem það hefur verið á fasteignamarkaði, skuldabréfamarkaði eða hlutabréfamarkaði. Hann er t.d. einn þeirra fáu manna í fjármálalífinu sem varaði við hruni á bandaríska húsnæðismarkaðnum áður en kreppan skall á Bandaríkjunum um 2008. Og hann forðaðist líka netfyrirtækin í aðdraganda netbólunnar um aldamótin - sökum þess að hann áleit ekki vera innistæðu fyrir hratt hækkandi hlutabréfaverðinu og það hlyti að falla. Í báðum tilvikum hafði Grantham rétt fyrir sér og eru þetta einungis fáein dæmi af mörgum þar sem hann hefur reynst sannspár.
Grantham segir að hagvöxtur muni fara minnkandi:
Í sem allra stystu máli þá álítur Grantham að á næstu árum og áratugum muni hægja mjög á hagvexti í Bandaríkjunum og á Vesturlöndum öllum (með hagvexti er átt við breytingu á vergri landsframleiðslu milli ára, það sem á ensku kallast gross domestic product og er skammstafað GDP). Og að stutt sé í að hagvöxturinn á Vesturlöndum verði svo til enginn og sáralítill í heiminum öllum.
Þetta yrði geysileg breyting frá því sem verið hefur í gegnum tíðina. Í meira en heila öld hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum oftast verið á bilinu 3-3,5%% á ári. Á hundrað ára tímabilinu 1880-1980 var hagvöxturinn að meðaltali um 3,4% á ári. Eftir 1980 hefur örlítið hallað undan fæti, en engu að síður líta Bandaríkjamenn nánast á það sem náttúrulögmál að hagvöxtur sé nálægt umræddum tölum. Hvað svo sem tímabundnum niðursveiflum (eða uppsveiflum) líður.
Nú í nýjustu kreppunni féll hagvöxtur þar vestra (og víða um heim) ansið hressilega og varð á tímabili meira að segja neikvæður. Hagvöxturinn hefur skriðið upp á við á ný. Hann var dágóða stund að malla í kringum 2% og á þriðja ársfjórðungi nýliðins árs (2012) var hagvöxturinn í Bandaríkjunum kominn upp í 3,1% (talan vegna fjórða ársfjórðungs liggur enn ekki fyrir).
Og bankastjóri bandaríska seðlabankans, Ben Bernanke, hefur verið duglegur að boða það að brátt muni hagvöxturinn vestra á ný verða kominn í eðlilegt eða venjulegt horf. Þannig að sennilega búast flestir Bandaríkjamenn við því að brátt verði meðalhagvöxtur aftur orðinn á bilinu 3-3,5% og lífið verði á ný business as usual.
Þessu er Jeremy Grantham ósammála. Og hann minnir á að Bernanke sé seðlabankastjórinn sem kom ekki einu sinni auga á svakalegustu fasteignabólu sem myndast hefur í Bandaríkjunum síðustu 200 árin. Þ.e.a.s. ekki fyrr en bólan var sprungin! Grantham álítur að þegar litið er til næstu ára og áratuga sé langlíklegast að hagvöxturinn lækki jafnt og þétt og eftir örfáa áratugi verði hagvöxtur í Bandaríkjunum nær enginn. Þetta geti þó gerst mun hraðar, þ.a. hagvöxturinn vestra verði kominn niður í núllið strax eftir einn áratug eða svo!
Fer hagvöxturinn í Bandaríkjunum brátt undir 1%?
Nánar tiltekið álítur Grantham líklegast að hagvöxtur vestra muni minnka jafnt og þétt næstu áratugina og árið 2030 verði vöxturinn komin niður í u.þ.b. 1% á ársgrundvelli eða tæplega það. Og árið 2050 verði hagvöxtur í Bandaríkjunum farinn að nálgast það að vera enginn; spá hans fyrir það ár hljóðar upp á 0,4% hagvöxt. Grantham tekur að auki fram að þetta sé fremur varfærin spá og þakka megi fyrir ef hagvöxturinn lækki ekki ennþá hraðar.
Sumum kann að þykja þetta léttvægt mál; ekki sé stór munur á því hvort hagvöxtur sé í kringum 3% eða nálægt 1%. En í reynd er munurinn gríðarlegur og ef þessi spá Grantham's yrði að veruleika er erfitt að ímynda sér afleiðingarnar. Þær yrðu vafalítið afar dramatískar. Höfum í huga að það þarf sennilega að fara aftur fyrir iðnbyltingu til að finna þokkalega langt tímabil í sögu Bandaríkjanna með hagvexti undir hálfu prósenti. Vissulega hafa Bandaríkjamenn stundum þurft að herða sultarólina vegna lítils og jafnvel neikvæðs hagvaxtar - en einungis í mjög skamman tíma uns efnahagslífið hefur tekið við sér á ný. Viðvarandi hagvöxtur í líkingu við það sem Grantham spáir yrði algerlega ný upplifun.
Framleiðnin og fólksfjölgunin stendur ekki lengur undir þeim hagvexti sem við höfum vanist:
En hverjar eru forsendurnar að baki þessari spá? Í hnotskurn telur Grantham að ástæðurnar fyrir því að svo mjög muni hægja á hagvexti í Bandaríkjunum séu einkum af tvennum toga (hann nefnir þó mun fleiri atriði og vísast um það til ársfjórðungsbréfsins):
Í fyrsta lagi sýni tölur um framleiðni í Bandaríkjunum að hún fari minnkandi. Grantham álítur að framleiðnin geti alls ekki staðið undir væntingum um hagvöxt ámóta þeim sem við höfum vanist. Þvert á móti blasi við að hagvöxturinn muni minnka verulega vegna minnkandi framleiðni. Þar skipti engu máli hvort miðað er við framleiðni per capita (þ.e. miðað við fólksfjölda) eða framleiðni á hverja vinnustund. Og þetta eigi við hvort sem litið er til framleiðslugreina eða þjónustugreina; það sé samdráttur alls staðar (Grantham telur þó vel að merka að samdrátturinn verði mismikill eftir atvinnugreinum).
Í öðru lagi segir Grantham að fólksfjölgun í Bandaríkjunum sé orðin of lítil til að standa undir svo háum hagvexti sem verið hefur. Þeirri þróun verði ekki snúið við nema með stórfelldum innflutningi fólks, en afar ólíklegt sé að slíkur innflytjendastraumur sé í spilunum.
Hátt hrávöruverð er farið að valda samdrætti í hagvexti:
En af hverju hefur framleiðnin í Bandaríkjunum minnkað? Og af hverju mun hún halda áfram að minnka svo verulega að það kaffæri hagvöxt í landinu? Þar álítur Grantham hækkandi hrávöruverð vera eina helstu orsökina. Þar hafi orðið vatnaskil um aldamótin síðustu eða þar um bil.
Grantham birtir línurit sem sýnir að alla 20. öldina fór kostnaður vegna hrávara sem hlutfall af landsframleiðslu jafnt og þétt lækkandi í Bandaríkjunum. Þessi lækkun hafi numið um hálfu prósenti árlega og verið mikilvæg forsenda þess að hagvöxtur hélst jafn hár og raunin varð.
Um eða rétt upp úr aldamótunum hafi þessi þróun snúist við. Þá hafi sú nýja og fordæmalausa staða komið upp að kostnaður vegna hrávara sem hlutfall af landsframleiðslu hætti að lækka - og fór þess í stað vaxandi.
Þessar miklu hækkanir á hrávöruverði hafi m.a. orðið vegna stóraukinnar eftirspurnar frá Asíu. Og Grantham álítur líklegast að auðlindir jarðar standi ekki lengur undir eftirspurninni. Hann segir að farið sé að ganga svo mjög á ýmsar tegundir af hrávörum (sem alla 20. öldina voru fremur auðunnar) að vinnslan hafi skyndilega orðið miklu dýrari en var. Það sé meginástæðan fyrir þeim miklu verðhækkunum sem við höfum upplifað á mörgum hrávörum frá aldamótunum eða þar um bil. Og þessar hækkanir valdi því að hrávörukostnaður sem hlutfall af GDP hafi á ótrúlega skömmu tíma rokið úr því að vera um 3% (um aldamótin) og í um 7% (sbr. áðurnefnt línurit hér að ofan).
Grantham leggur áherslu á að þessi hækkun á hrávöruverði sé til komin vegna þess að fjöldi mannkyns sé orðinn of mikill miðað við hefðbundna hrávöruneyslu okkar (athuga ber að hrávörur er hér notað yfir enska hugtakið commodities, en innan þess rúmast t.d. jarðefnaeldsneyti og ýmsar afurðir þess, málmar og fjölmörg önnur frumefni, svo og ýmsar landbúnaðarafurðir frá akuryrkju og kvikfjárrækt). Þessu megi einnig lýsa sem ofnotkun eða ofnýtingu. Ofnýtingin beinist ekki aðeins að óendurnýjanlegum orkugjöfum og málmum, heldur hafi hún líka leitt til umfangsmikillar jarðvegseyðingar víða um heim og neikvæðra loftslagsbreytinga, sem muni takmarka matvælaframboð enn meira en ella.
Nú sé svo komið að farið sé að þrengja mjög að mörgum þessara hrávara; bæði kolvetnislindunum, málmum og ýmsum efnum sem eru mikilvæg fyrir landbúnaðarframleiðslu. Afleiðingin sé hækkandi hrávöruverð, sem muni óhjákvæmilega koma niður á framleiðni og valda kostnaðarhækkunum bæði í iðnaðarframleiðslu og landbúnaði (matvælaframleiðslu). Þetta þýðir ekki að hrávörur geti ekki lækkað umtalsvert - í skamman tíma. Langtímaþróunin sé aftur á móti hækkandi hrávöruverð og það svo mjög að líklegast sé að hagvöxtur fari minnkandi.
Þróun olíuvinnslu er dæmi um hvernig hrávöruverð fer hækkandi:
Grantham bendir á að aukinn kostnað í hrávöruvinnslu megi sjá mjög víða. Olíuiðnaðurinn sé þarna athyglisvert dæmi.
Langt fram eftir 20.öld var hægt að nálgast nýjar olíulindir þar sem vinnslukostnaðurinn nam einungis fáeinum dollurum (pr. tunnu) á þáverandi verðlagi. Þegar tillit er tekið til verðbólgu sést að allan tímann frá stríðslokum og fram til 1970 var olíuverð nálægt 20 USD pr. tunnu eða rúmlega það. Þessa áratugi var olíuverð nokkuð stöðugt og hækkaði lítt þrátt fyrir mikinn efnahagsuppgang um allan hinn vestræna heim.
Upp úr 1970 urðu viss efnahagsleg og pólitísk straumhvörf þegar Bandaríkin urðu mjög háð innfluttri olíu og mikið umrót varð í Mið-Austurlöndum. Afleiðingin varð sú að olíuverð hækkaði mikið og farið var í nýja olíuvinnslu á svæðum sem kölluðu á miklu meiri fjárfestingu og dýrari vinnslu (dæmi er Norðursjávarolían). Brátt var olíuverð komið í u.þ.b. 40 USD (á núverandi verðlagi) og hafði tvöfaldast á skömmum tíma.
En dramatíkinni á olíumörkuðunum var aldeilis ekki lokið. Á næstu áratugum (ca. 1975-2000) sveiflaðist olíuverð mikið; miklu meiri en áður þekktist. Og þegar þrengja fór að nýju olíulindunum í Norðursjó og Alaska þurfti að fara að vinna olíu ennþá dýpra - og svo líka úr olíusandi. Kostnaðurinn við vinnsluna verður sífellt meiri og að sögn Grantham er hann nú farinn að aukast svo hratt og mikið að það er farið að bitna meira á hagvextinum en áður hafi þekkst.
Grantham segir að skömmu fyrir 1970 hafi kostnaður í nýrri olíuvinnslu almennt verið um 14 USD tunnan, hann hafi verið komin í 35 USD um aldamótin 2000 og nú upp úr 2010 sé þessi kostnaður orðinn á bilinu 85-90 USD (hér er vert að taka fram að Orkubloggarinn hefur séð aðrar greiningar sem segja að algengt break-even í nýrri olíuvinnslu nú um stundir sé nálægt 70 USD en þetta er þó talsvert breytilegt). Að mati Grantham þarf sem sagt olíuverð að vera ansið hátt bara til að uppfylla eftirspurnina og óhjákvæmilegt sé að olíuverð muni halda áfram að hækka þegar til lengri tíma er litið. Það muni bitna verulega á hagvexti næstu áratugina.
Málmar og landbúnaðarafurðir eru meira áhyggjuefni en olían:
Grantham er að vísu á því að ennþá sé unnt að framleiða mikið af nýrri olíu á verði sem er nálægt eða ekki mikið hærra en verðið á olíu er í dag. Þess vegna muni mannkynið ná að klóra í olíubakkann enn um sinn í nokkra áratugi. Og þess vegna muni líklega ekki myndast meiriháttar olíukreppa, a.m.k. ekki alveg á næstunni. Olían sé ekki það sem mestar áhyggjur þurfi að hafa af; ástandið sé mun alvarlegra með ýmsar aðrar hrávörur.
Þar álítur Grantham nokkra málma verða í sviðsljósinu, t.d. járn. Kostnaður við nýjar járnnámur hefur vaxið geysilega mikið á stuttum tíma (um þetta geta lesendur Orkubloggsins lesið nánar í skrifum Grantham's). Það sem hann virðist þó hafa mestar áhyggjur af eru ekki málmarnir heldur hækkandi verð á matvælum og þá einkum og sér í lagi landbúnaðarafurðum.
Grantham nefnir í þessu sambandi jarðvegseyðingu víða um lönd og fjölgun mannkyns. Hann tínir til ýmsa tölfræði sem hann segir að sýni hratt vaxandi kostnað í landbúnaðarframleiðslu. Eitt af því sem hann tiltekur sérstaklega er (að hans mati) yfirvofandi umframeftirspurn eftir fosfór, sem er eitt mikilvægasta frumefnið sem notið er í áburðarframleiðslu. Brátt muni kostnaður við að uppfylla eftirspurn heimsins eftir fosfór hækka mjög mikið; fara þurfi í miklu dýrari vinnslusvæði því annars muni framboð á fosfór dragast mikið saman. Það komi til með að valda verulegum hækkunum á áburðarverði og þar með muni fjölmargar landbúnaðarafurðir hækka í verði.
Línuritið hér til hliðar - svo og þau sem finna má hér nokkru ofar (það sem sýnir sambandið milli hrávöruútgjalda og hagvaxtar og það sem sýnir þróun olíuverðs) - sýna reyndar líka það sem alkunnugt er: Að hrávöruverð hefur áður hækkað mjög mikið; einkum og sér í lagi á árunum kringum 1980 og einnig á tímum heimsstyrjaldanna.
Árin kringum 1980 voru verðbólgutímar og þá hækkaði t.a.m. olíuverð mikið og einnig verð á silfri o.fl hrávörum. Þessar hækkanir gengu þó hratt til baka. Þetta hlýtur að vekja upp þá spurningu af hverju það sama geti ekki gerst núna? Munu hækkanirnar undanfarið endilega halda áfram með svo miklum hraða sem verið hefur? Ganga hækkanirnar sem orðið hafa á fjölmörgum hrávörum undanfarin fáein ár ekki einfaldlega að verulegu marki til baka þegar jafnvægi myndast á ný á hrávörumörkuðunum? Eins og yfirleitt hefur gerst. Eru hrávöruverðhækkanirnar ekki bara bóla? Þessi spurning er sérstaklega áhugaverð af þeim sökum að hér eru til umfjöllunar skoðanir Jeremy's Grantham! Hann er nefnilega maðurinn sem er allra manna tortryggnastur gagnvart verðbólum. Hann álítur að slíkar bólur endist aldrei, heldur springi.
Paradigm Shift - this time it is in fact different!
Grantham segir rannsóknir GMO sýna að alltaf þegar verðþróun á mörkuðum fer að verða hraðari en almennt hefur tíðkast (hættir að fylgja trendinu) sé um að ræða verðbólu og fyrr eða síðar leiti verðþróunin í fyrra horf. Um þetta má t.d. lesa nánar í ritgerð Granthams, sem ber titilinn Pavlov's Bulls, the Importance of Asset Class Bubbles for Value Investors and Why They Occur (frá janúar 2011).
Myndin hér til hliðar er einmitt úr þeim skrifum. Reyndar mætti ætla af línuritinu efst til hægri á myndinni, að bólukenning GMO hafi ekki reynst rétt gagnvart S&P 500. En það fór reyndar svo að vísitalan sú steinlá árið 2008 og Grantham gat enn og aftur sagt told you so. Reyndar hefur geggjuð peningaprentun bandaríska seðlabankans búið þar til enn eina uppsveifluna á S&P 500, sem Grantham kallar vafalítið major suckers rally.
Já - allar bólur springa - segir Grantham. Og hann hefur verið óþreytandi að segja mönnum að töfraorðin fjögur, this time it's diffierent, séu alltaf della. Það hafi sagan og tölfræðin sannað.
En Grantham segir líka að einstaka sinnum í veraldarsögunni komi uppi það ástand að verðþróun breytist í grundvallaratriðum. Einstaka sinnum í mannkynssögunni verði vatnaskil (Paradigm Shift) , sem valdi algerum grundvallarbreytingum. Iðnbyltingin sé besta dæmið þar um. Og svipað hafi verið að gerast á hrávörumörkuðum þegar skyndilega fór að þrengja mjög að óendurnýjanlegum auðlindum.
Grantham segir að olíuverðhækkanirnar í kringum 1980 hafi ekki verið að rekja til slíkra vatnaskila og heldur ekki hækkanirnar upp úr 1970. Þær verðhækkanirnar hafi vissulega að hluta til verið vegna aukinnar eftirspurnar og dýrari olíuvinnslu. En það hafi verið aðrir þættir sem ollu mestu hækkununum þá. Tímabundin truflun á olíuframboði, taugaveiklun og spákaupmennska hafi verið það sem fyrst og fremst ýtti verðinu svo mikið upp á við sem raunin varð.
Þessar hækkanir um 1970 og 1980 höfðu sem sagt, að mati Grantham's, nokkuð sterk bólueinkenni. Þess vegna hafi verðið lækkað á ný - bólan sprakk. Orsakirnar fyrir háu olíuverði í dag séu allt aðrar. Nú sé það fyrst og fremst hækkandi kostnaður í olíuvinnslu sem veldur hækkununum. Og þetta eigi enn frekar við um ýmsa málma og landbúnaðarafurðir. Það séu komnar fram sterkar vísbendingar um að farið sé að þrengja svo mjög að ýmsum náttúruauðlindum, að framboðið muni senn ekki ná að mæta eftirspurninni - nema með þeim hætti að verðið hækki mikið. Og það til frambúðar.
Hagvöxtur verður nær enginn eftir ca. 10-30 ár:
Niðurstaða Grantham's er sú að upp úr aldamótunum síðustu hafi eftirspurn mannkyns eftir ýmsum hrávörum verið orðin svo mikil að það fór að bitna með fordæmalausum hætti á hagvexti; ekki síst í Bandaríkjunum. M.ö.o. þá tók hrávöruverð að hækka miklu hraðar en sem nam aukinni framleiðslu bandaríska efnahagskerfisins. Haldi þessi þróun áfram, eins og Grantham telur líklegt, muni hrávörukostnaðurinn brátt éta upp hagvöxtinn vestra. Og jafnvel verða til þess að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði nánast enginn. Þetta geti gerst mjög hratt.
Grantham tekur fram að eðlilega sé mikil óvissa um hversu hratt þetta gerist. Það kunni að vera einungis ellefu ár í að hagvöxturinn í Bandaríkjunum verði enginn. Það kunni þó að verða mun síðar eða ekki fyrr en um 2050 eða jafnvel nokkru seinna. Þetta ráðist af því hversu hratt umræddur kostnaðurinn aukist (þ.e. hrávörukostnaður sem hlutfall af landsframleiðslunni) og þeim aðgerðum sem kann að verða gripið til í því skyni að minnka álagið á náttúruauðlindirnar. En hagvöxtur sé byrjaður að dragast nokkuð hratt saman og sú þróun muni óhjákvæmilega halda áfram:
With a little luck, U.S. GDP growth [...] should remain modestly positive, even out to 2030 and 2050, in the range of 1% at the high down to a few basis points at worst. [...] The other developed countries will be very similar to the U.S. in most respects but are likely to end up through 2050 with growth about half a percent lower in population effects and therefore in total growth. That is to say, with growth at about zero, or even a little below.
Og það er ekki nóg með að Grantham spái því að hagvöxtur í Bandaríkjunum og öðrum þróuðum ríkjum verði brátt lítill sem enginn. Því svipuð þróun verði um allan heim og hagvöxtur í heiminum kunni að verða nálægt 2% árið 2050. Til samanburðar þá var hagvöxturinn í heiminum u.þ.b. 4,5% árið 2006:
Similar forces will serve to drive down global growth from 4.5% at its recent peak in 2006 and 2007 to around 3% by 2030 and between 2.0% and 2.5% by 2050, all on the assumption that nothing unexpectedly serious goes wrong on the resource, climate, and "all other bumps in the road" categories. All of the remaining growth will be in those developing economies that function effectively in the face of the resource and environmental squeeze. Sadly, there is likely to be an increasing number of failed or failing states.
Er ástæða til að bregðast við þessum meinta yfirvofandi samdrætti?
Jeremy Grantham álítur sem sagt að mannkynið sé komið að vatnaskilum. Kostnaður vegna hrávöruöflunar sé orðinn svo mikill að hann muni í framtíðinni éta upp allan hagvöxt. Þetta muni skerða lífskjör og í sumum tilvikum valda glundroða í ríkjum.
Hversu harkaleg áhrifin verða álítur Grantham að muni ráðast mjög af aðgerðum stjórnvalda. Þar sé mikilvægt að bregðast við sem allra allra fyrst, þ.e. að undirbúa sig fyrir minnkandi hagvöxt og finna leiðir til að draga úr neikvæðum afleiðingum þeirrar þrónar. Þetta megi t.d. gera með aðgerðum gegn loftslagsbreytingum (kolefnisskatti) og ýmsum kerfislægum breytingum.
Grantham er afar gagnrýninn á bæði stjórnvöld og fjármálakerfið. Honum ofbýður skammtímahugsunin sem þar sé allsráðandi víðast hvar. Hann nefnir líka að það sé ekki æskilegt hvernig landsframleiðsla er reiknuð út. Í þeirri aðferðarfræði sé ekkert tillit tekið til fjölmargra þátta sem maðurinn meti sem sönn lífsgæði. Ennþá alvarlegra segir Grantham þó vera hvernig aðferðarfræðin við útreikninginn á GDP taki ekkert tillit til þeirra framtíðarútgjalda sem framleiðslan skapi. Svo til algerlega sé horft framhjá því hvernig hagvöxtur skerðir vaxtarmöguleika í framtíðinni - taka þurfi miklu ríkari tillit til þess kostnaðar sem hnignun auðlindanna muni valda. Núverandi aðferðarfræði valdi því t.d. að bæði skógeyðing og nýting óendurnýjanlegra auðlinda eins og olíu hafi jákvæð áhrif á hagvöxt án tillits til umhverfistjóns og án tillits til þeirra miklu útgjalda sem þessi nýting muni skapa í framtíðinni.
Væri tekið tillit til slíkra atriða við útreikning á GDP telur Grantham að framleiðsla veraldarinnar (GDP) hafi í reynd verið neikvæð a.m.k. tvo síðustu áratugina. Þarna sé mikilvægt að breyta viðmiðunum, því annars séum við ekki að leggja rétt mat á velferð okkar og mannkyns alls. Aðferðarfræðin sé ekki að gefa okkur nægilega skýra mynd af efnahagsþróuninni.
Umræddar skoðanir Jeremy's Grantham eru afar umdeildar. Sumir benda á að hann virðist hafa furðulitla trú á framförum héðan í frá. Er ekki mögulegt og jafnvel líklegt að erfðatæknin muni gefa okkur tækifæri til að stórauka fæðuframboð? Má ekki leyfa sér að ætla að tækniframfarir muni leiða til mikils orkusparnaðar og þannig draga verulega úr orkueftirspurn í framtíðinni? Er Grantham ekki einfaldlega alltof svartsýnn?
Kannski. Kannski ekki. Það er a.m.k. svo að samkvæmt spá Jeremy Grantham eru erfiðir tímar framundan og þá sérstaklega fyrir börnin okkar (fremur en okkur sjálf). Og hann tínir til ýmsar röksemdir. Spurningin er hvort við teljum tilefni til að bregðast við og reyna að gera eitthvað almennilegt til að draga úr líkum á að þessi spá rætist - eða til að reyna að minnka þau neikvæðu áhrif sem verða gangi spáin eftir?
Miðað við hinn eilífa skammtímafókus sem viðgengst í samfélaginu er því miður ekki líklegt að við munum gera nokkurn skapaðan hlut - annað en að yppa öxlum og muldra den tid den sorg. Sama á við um leiðtogana okkar, sem flestir sjá ekki lengra fram á veginn en eitt kjörtímabil eða svo. Hugleiðingar og framtíðarsýn Jeremy's Grantham er sennilega prýðileg áminning um að kerfið okkar sé ekki að virka nógu vel; að við þurfum að finna leiðir til að ákvörðunartaka miðist í miklu meira mæli við langtímahagsmuni samfélagsins.